149. löggjafarþing — 64. fundur
 7. feb. 2019.
menntun leiðsögumanna og lögverndun starfsheitis þeirra.

[11:01]
Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Ferðaþjónustan er orðin burðarás í íslensku atvinnulífi, skilar miklum tekjum og gjaldeyri. Það var ánægjulegt að heyra í ráðherra fyrr í morgun um þá miklu áherslu sem hún leggur á gæði við uppbyggingu þessarar þjónustu. Þannig er að ferðaþjónustan hvílir að ýmsu leyti á traustum grunni en að öðru leyti er hún enn að slíta barnsskónum sem atvinnugrein af þeirri stærð sem hún hefur vaxið upp í.

Meðal þeirra sem hafa mikla þýðingu fyrir gæði ferðaþjónustunnar eru leiðsögumenn. Nám í leiðsögufræðum stendur til boða hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, í Menntaskólanum í Kópavogi og í Ferðamálaskóla Íslands. Ég vil beina, í þessari umferð, tveimur spurningum til hæstv. ráðherra:

Hefur ráðherra uppi áform um lögverndun á starfsheiti leiðsögumanna? Og í annan stað: Hefur ráðherra áform um að móta lágmarkskröfur varðandi nám í þessum fræðum sem yrðu þá undirstaða slíkrar lögverndunar?

Ég vil taka það fram að þessu máli hefur verið hreyft hér oftar, mun oftar á Alþingi. Við undirbúning þessarar fyrirspurnar rakst ég til að mynda á frumvarp þessa efnis sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson flutti ítrekað um árið.



[11:03]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt, eins og hv. þingmaður nefnir, að þetta hefur áður komist til tals á þinginu og ég hef fengið um það fyrirspurnir, mál lögð fram o.s.frv. Þetta kemur sömuleiðis reglulega upp í umræðunni.

Það sem mér finnst skipta mestu máli er að við spyrjum okkur um markmiðið, þ.e. hvernig við náum markmiðum okkar með sem bestum hætti. Þar sameinast sjónarmið um mikilvægi löggildingar og svo frekar mín sýn í því, þ.e. ég hef áður svarað því til að ég er ekki tilbúin að fallast á að eina leiðin til að ná markmiðum um að gæta að öryggi ferðamanna, að auka gæði íslenskrar ferðaþjónustu og tryggja þekkingu á staðháttum og veðurfari og öðru sé löggilding.

Við höfum sett á fót hæfnisetur sem er m.a. og aðallega til að auka gæði og þekkingu og það byggir á Vegvísi. Við fórum í vettvangsferð til Nýja-Sjálands á síðasta ári og þar er miðstöð ævintýraferðamennsku. Ekki einu sinni þar er gerð krafa um tiltekna menntun leiðsögumanna eftir því sem okkur var sagt í ferðinni. Krafan er fyrst og fremst á fyrirtækin, þ.e. að þau fá skráningu í sinni tegund ævintýraferðamennsku, hafi öryggisáætlanir og fylgi þeim eftir. Það er töluvert eftirlit með því.

Við settum inn í lögin sem þingið setti um Ferðamálastofu að fyrirtækjum beri að setja sér öryggisáætlanir. Hérna þyrfti að gera greinarmun á almennri leiðsögn, þ.e. almennum leiðsögumönnum, gönguleiðsögumönnum og fjallaleiðsögumönnum. Þá eru væntanlega mjög mismunandi kröfur gerðar til þeirra. Eins og ég segi er krafan í Nýja-Sjálandi sett á fyrirtækin, að þau þurfi að passa að uppfylla þær gæðakröfur sem á þau eru sett og vera með öryggisáætlanir. Jöklaleiðsögn krefst auðvitað miklu meiri varkárni og almennrar þekkingar á staðháttum, veðurfari og slíku en almenn leiðsögn. (Forseti hringir.) Ég myndi segja að það væri nokkuð sem við ættum sérstaklega að skoða og ég er mjög áfram um það, bæði til að auka öryggi og gæði, að við setjum okkur sérstakar reglur um það.

En löggildingin er í mínum huga ekki endilega eina svarið.



[11:05]
Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er kannski ekki spurning um að löggildingin sé eina úrræðið, hún nefndi ýmis önnur atriði og því ber að fagna. Ég held að það væri mjög gagnlegt ef ráðherra léti meira frá sér fara um þau atriði sem getið var um í hennar ágætu ræðu.

Þessi tengt, talandi um gæði og öryggi, þá vaknar spurningin um að gerðar verði auknar kröfur um íslenska leiðsögumenn í ferðum, nánar tilteknum ferðum. Ráðherra vék að nokkrum þáttum í því sambandi reyndar. Ég hef sérstaklega í huga ferðir þar sem reynir á þekkingu á íslenskum aðstæðum, torfærum leiðum, veðurfari og náttúrlega þekkingu á íslenskri menningu, sögu og náttúru, allt í víðtækum skilningi. Það er ekki nóg að hér komi einhver ferðamannahópur og einn af þeim útlendingum sé tekinn og dubbaður upp sem leiðsögumaður. (Forseti hringir.) Spurningin er um að leiðsögumaðurinn sé íslenskur með gæði og öryggi fyrir augum.



[11:07]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Mér heyrist við hv. þingmaður vera sammála að mörgu leyti, þó kannski ekki alveg. Ég er alveg sammála því að liður í miklum gæðum íslenskrar ferðaþjónustu er að frekar auðvelt sé að nálgast íslenska leiðsögumenn og að fyrirtæki bjóði upp á slíka þjónustu. Við erum síðan hluti af EES-samstarfi þannig að ómögulegt væri fyrir okkur að banna einfaldlega leiðsögumönnum, hvort sem þeir eru menntaðir eða ekki, að koma hingað til lands og leiðsegja erlendum ferðamönnum. Við vitum að mjög margir Íslendingar sem fara til útlanda vilja helst hafa íslenskan leiðsögumann til að ganga með sér um miðborgir og segja frá. Þeir vilja hafa hann íslenskan. Þetta er eitthvað sem við eigum kannski ekki endilega að banna og fyrir utan það gætum við það ekki. En svo eru það einmitt líka, bara til að hnykkja aðeins á þessu varðandi löggildinguna, stundum svona einstaklingar sem eru kannski með bestu þekkinguna á staðháttum, kunna söguna, jafnvel að margar kynslóðir hafi verið á þessu landi og þekki hlutina vel. Það er mikil upplifun fyrir erlenda ferðamenn að fá að fylgja þeim. Þeir eru kannski ekki faglærðir en samt sem áður eru gæðin mikil og þeir uppfylla þær kröfur sem fyrirtæki ættu almennt að setja sér.