150. löggjafarþing — 40. fundur.
sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 4. mál (skatthlutfall). — Þskj. 4.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:21]

[16:09]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Með þessu frumvarpi er verið að gera áætlanir um að lækka skatta á banka og fjármálafyrirtæki til að gera þau söluvænni í takt við Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið hér á landi. Við í Samfylkingunni leggjumst gegn þessu frumvarpi vegna þess að við viljum horfa til framtíðar, ákveða hvernig við viljum hafa bankakerfið til framtíðar, lágmarka áhættu almennings af því kerfi og taka síðan ákvörðun um hvernig við viljum skattleggja fyrirtækin.

Þetta er algjörlega ótímabært og það er líka ótímabært að selja bankana í þeirri mynd sem þeir eru í í dag.



[16:10]
Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Bankaskatturinn var settur til að mæta útgjöldum íslenska ríkisins og Íslendinga vegna bankahrunsins. Áður en skatturinn verður tekinn af eða lækkaður þarf að svara mikilvægum spurningum. Er íslenska ríkið búið að fá endurgreitt það sem það lagði út vegna hrunsins með vöxtum og áhættuálagi? Hafa Íslendingar fengið til baka það sem þeir þurftu að leggja út vegna falls bankanna?

Þessu hefur ríkisstjórnin ekki getað svarað. Fjármálaráðherra hefur sagt að hann vænti þess að þjónustugjöld bankanna lækki við lækkun skattsins. Fyrir því er engin trygging, bara óskhyggja. Miðflokkurinn lagði fram breytingartillögur við 2. umr. sem fól í sér þessa tryggingu, tillögu um að skatturinn lækkaði ekki nema bankarnir gætu sýnt fram á lækkun þjónustugjalda. Því miður var sú góða tillaga felld en hún fól í sér mikla neytendavernd. Betur hefði farið ef þingheimur hefði kynnt sér hana til hlítar.

Miðflokkurinn greiðir ekki atkvæði.



[16:12]
Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er með þetta eins og aðrar skattalækkanir þessarar ríkisstjórnar, þær skulu koma síðar, en þetta er gott mál enda er löngu búið að sýna fram á það, m.a. í ágætri skýrslu sem unnin var fyrir ríkisstjórnina og hæstv. fjármálaráðherra, að þetta er skattur sem greiddur er af viðskiptavinum bankanna og skilar sér í hærri þjónustugjöldum og hærra vaxtastigi en ella. Því hefði verið mjög æskilegt í kólnandi hagkerfi ef jafnvel hefði verið hægt að afnema hann að fullu á næsta ári. Því miður skorti ríkisstjórnina hugrekki til þess en hún lögfestir þó á hraða snigilsins lækkun þessa bankaskatts á næstu árum.

Við í Viðreisn styðjum það en vonum svo sannarlega að smámetnaði verði spýtt í þessa lækkun við næstu fjárlagagerð.



[16:12]
Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er lækkun á hinum svonefnda bankaskatti sem í rauninni veltur alltaf yfir á neytendur bankakerfisins. Það er ekki neitt sérstaklega jákvætt, síst þegar sömu bankar skila töluverðum arði. Vonin er þó sú að með þessu muni gjöldin sem falla á neytendur lækka. Það er vonin. Við höfum hins vegar, eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson bendir á, enga tryggingu fyrir því. Ég ætla ekki að segja þetta oft en breytingartillaga Miðflokksins var ansi góð vegna þess að með henni hefðum við a.m.k. tekið lítið og gott skref, hefðum getað séð árangurinn af því og svo getað tekið fleiri skref síðar frekar en að þetta gerist sjálfvirkt. Það er jákvætt að skatturinn lækki en við eigum ekki að gera þetta svona hratt.

Við munum sitja hjá vegna þess að þetta er ekki alveg rétt leið til að gera þetta. Þetta er of bratt, of hratt og of óhugsað að því leytinu til. Við vitum ekki hver áhrifin verða.



[16:14]
Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í grunninn snýst þetta mál um það að búa hér til gjalda- og skattumhverfi fyrir íslenskt fjármálakerfi sem er ekki lakara en það sem er í öðrum löndum, að við aukum samkeppnishæfni fjármálakerfisins á Íslandi gagnvart erlendum fjármálafyrirtækjum. Ég geri mér grein fyrir því að í þessum sal eru margir þingmenn sem hafa engar áhyggjur af samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs yfir höfuð. Það hef ég hins vegar og ég hef áhyggjur af því að þessi skattur er fyrst og fremst borinn af heimilum og minni og millistórum fyrirtækjum. Stórfyrirtækin á Íslandi geta komist undan þessum skatti vegna þess að þau eiga í samskiptum við erlendar fjármálastofnanir sem þurfa ekki að bera þessa skattheimtu.

Í einfaldleika sínum snýst þetta mál, hæstv. forseti, um samkeppnishæfni fjármálakerfisins, (Forseti hringir.) samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.



[16:15]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í atkvæðaskýringum við fyrra málið áðan þar sem við greiddum atkvæði um að lækka tekjuskatt, staðgreiðslu, sérstaklega hjá þeim sem hafa minni tekjur í anda stjórnarsáttmálans, sem forsendu fyrir lífskjarasamningnum, sá fólk því flest til foráttu og gat ekki stutt þá tillögu. Svo koma sumir upp aftur núna og segjast núna vera á móti því þegar við erum að taka af skatt sem var mjög nauðsynlegar á sínum tíma en er í dag valdur að því að samkeppnishæfni bankanna, fjármálakerfisins, er með þeim hætti að venjulegt fólk og litlu fyrirtækin greiða hærri gjöld í bankanum. Þeir eru á móti því og segja að þeir sem minna mega sín í samfélaginu og þurfa á þessum bönkum að halda eigi bara að greiða hér hærri gjöld.

Ég er alveg hættur að skilja samhengið í málflutningi einstakra flokka á þinginu. Við Framsóknarmenn styðjum bæði þessi mál.



[16:16]
Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Með fullri virðingu er þetta í fyrsta skipti sem mér finnst ég vera að leika í brúðuleikhúsinu sem er sjálfsagt ágætt út af fyrir sig. Hér kemur hver þingmaðurinn og jafnvel ráðherra á fætur öðrum til að segja að sennilega muni lækkun bankaskattsins skila sér út í samfélagið í lægri þjónustugjöldum. Við erum nýbúin að auka fjárveitingar, t.d. til að efla íslenska tungu, nýbúin að reyna að auka fjárveitingar í bókaútgáfu til að efla bóklestur en nú eru Neytendasamtökin búin að gefa það út að það hafi ekki skilað sér til einmitt þeirra sem eiga að kaupa bækurnar. Verðið hefur ekki lækkað um eina einustu krónu.

Hingað til hef ég ekki getað séð að þó að hér sé eitthvað lækkað hafi það yfir höfuð nokkurn tímann skilað sér í vasa almennings og þeirra sem þurfa á því að halda. Það situr eftir hjá þeim sem hafa fengið það til sín, punktur og basta. Ég mun alltaf segja nei við lækkun á bankaskatti þegar tugþúsundir Íslendinga eru svo fátæk að þau eiga ekki einu sinni fyrir jólasteik. Þvílík forgangsröðun fjármuna.



[16:17]
Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Fyrir samhengið vil ég segja að ríkið á yfirleitt nokkurn veginn alla þessa banka og hefur á undanförnum árum haft þó nokkuð háa ávöxtunarkröfu á bankana ásamt bankaskatti og ýmsu svoleiðis. Það sem hefur átt sér stað í gegnum bankana og vextina þýðir ekkert nema óbeina skattheimtu sem neytendur borga þegar allt kemur til alls. Neytendur borga beinlínis beint í ríkissjóð í gegnum bankana í gegnum háa vexti o.s.frv. Það er tvímælalaust vandamál sem þarf að leysa. Þetta er kannski skref í þá átt.

Ábyrgðin á því að hækka skatta er alltaf sú að þegar á síðan að lækka þá til þess að draga úr álögum gerist það ekki með lækkuðu verði til neytenda. Það er ítrekað svoleiðis og það er mögulega það sem við sjáum hérna og þess vegna var t.d. tillaga Miðflokksins mjög góð með það að knýja fram þau áhrif sem við búumst við. Það er það sem við þurfum að gera betur á þingi, að sjá afleiðingar lagasetningar áður en við tökum næstu skref.



[16:19]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég trúi því ekki eina sekúndu að við það að lækka þennan bankaskatt skili sér króna til almennings. Gróði bankanna er gígantískur sem sést t.d. í því að einn banki er að fara að byggja fyrir tugmilljarða á dýrustu lóð landsins. Ég segi fyrir mitt leyti að ef hann getur gert það getur hann líka borgað bankaskatt. Það að halda því fram eina mínútu að þessi lækkun bankaskatts muni skila sér til almennings er alveg út í hött.

Það mun aldrei gera það og þess vegna mun ég segja nei við þessu.



[16:20]
Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Af því að nú er kominn desember langar mig að taka undir hvert einasta orð sem hv. þm. Óli Björn Kárason kom hér með í rökstuðningi sínum við lækkun þessa skatts og vona að hv. þingmaður virði það við mig. Ég vildi bara óska þess að skoðun hans hefði meiri áhrif inn í ríkisstjórnarsamstarfið en raun ber vitni. (Gripið fram í: Það segi ég með þér.) [Hlátur í þingsal.] Mér er nefnilega líka mjög annt um samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, smærri fyrirtækja og heimila, ekki hvað síst. Það er bara eitt sem vantaði í ræðu hv. þingmanns og það er auðvitað ábyrgð íslensku krónunnar í háu vaxtastigi hér á landi sem er ástæðan fyrir því að smærri fyrirtæki og íslensk heimili borga tvöfalda til þrefalda vexti á við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

Afnám bankaskattsins væri vissulega pínulítið skref í rétta átt.



Frv.  samþ. með 34:7 atkv. og sögðu

  já:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  HSK,  HKF,  HarB,  JónG,  JSV,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  RBB,  SÁA,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  WÞÞ,  ÞKG,  ÞorstV,  ÞórP,  ÞórdG.
nei:  ÁÓÁ,  GIK,  GuðmT,  HVH,  IngS,  LE,  OH.
13 þm. (AIJ,  AKÁ,  BirgÞ,  BLG,  HallM,  HHG,  JÞÞ,  KGH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  SMc,  ÞSÆ) greiddu ekki atkv.
9 þm. (ÁsF,  GBr,  GÞÞ,  GBS,  JÞÓ,  KJak,  MH,  VilÁ,  ÞorS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:21]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég greiði atkvæði með þessu máli. Við erum að fara mjög rólega í að lækka bankaskattinn á löngum tíma. Það verða næg tækifæri á því tímabili til að meta hvernig fjármálafyrirtækin bregðast við og í trausti þess greiði ég atkvæði með málinu.