150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[16:20]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Af því að nú er kominn desember langar mig að taka undir hvert einasta orð sem hv. þm. Óli Björn Kárason kom hér með í rökstuðningi sínum við lækkun þessa skatts og vona að hv. þingmaður virði það við mig. Ég vildi bara óska þess að skoðun hans hefði meiri áhrif inn í ríkisstjórnarsamstarfið en raun ber vitni. (Gripið fram í: Það segi ég með þér.) [Hlátur í þingsal.] Mér er nefnilega líka mjög annt um samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, smærri fyrirtækja og heimila, ekki hvað síst. Það er bara eitt sem vantaði í ræðu hv. þingmanns og það er auðvitað ábyrgð íslensku krónunnar í háu vaxtastigi hér á landi sem er ástæðan fyrir því að smærri fyrirtæki og íslensk heimili borga tvöfalda til þrefalda vexti á við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

Afnám bankaskattsins væri vissulega pínulítið skref í rétta átt.