150. löggjafarþing — 54. fundur
 29. janúar 2020.
störf þingsins.

[15:01]
Elvar Eyvindsson (M):

Herra forseti. Fyrir þinginu liggur í dag að afgreiða þingsályktunartillögu hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um stefnumótun í málefnum sveitarfélaga næstu 13 árin. Ég geri ekki lítið úr því að svona vinna skilar því að menn hugsa málin betur, rannsaka og skilgreina. Allt er þetta gert í þeirri viðleitni að eitt hljóti yfir alla að ganga. Það sem gert er hér verði líka að gera þar með sama hætti og sömu áherslum. Þrátt fyrir að eitt af meginmarkmiðum áætlunarinnar sé að stuðla að og varðveita sjálfstæði sveitarfélaganna er alls staðar verið að setja skorður og skilyrði í raun. Skilyrði eru sett um íbúafjölda, skuldir, lýðræðislega aðkomu íbúa og margt fleira.

Öll þessi vinna minnir aðeins á textann í frægu dægurlagi þar sem talað var um „litla kassa á lækjarbakka og alla eins“. Vandinn er að sveitarfélögin eru svo óskaplega ólík að stærð og gerð að nánast engin leið er að bera þau saman og breytir þá litlu hvort borið er saman sveitarfélag með 150.000 íbúa á móti sveitarfélagi með 1.000 íbúum eða 300. Þessi sveitarfélög geta aldrei passað í sömu treyjuna hvernig sem reynt er. Því finnst mér það umhugsunarvert hvort hugsa ætti dæmið algjörlega upp á nýtt og setja færri reglur og treysta fólkinu á hverjum stað fyrir eigin málum. Það mætti hugsa sér að semja um mismunandi verkefnatilflutning til mismunandi sveitarfélaga. Þannig semji hvert sveitarfélag við ríkið eða önnur sveitarfélög eftir aðstæðum um hvaða verkefni það getur tekið að sér. Eitt getur tekið að sér viðhald vega. Annað vill reka skóla eða semur við aðra um það o.s.frv. Mismunandi leiðir og mismunandi aðferðir geta leitt til betri lausna. Við þurfum að lifa við þann landfræðilega veruleika sem er í landinu og við ættum að einbeita okkur að því.



[15:03]
Njörður Sigurðsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að leggja út af orðum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem hann lét falla í þessum sal í síðustu viku þar sem hann notaði frasann að ekki væri hægt að gera allt fyrir alla. Þetta er kunnuglegur frasi sem heyrist reglulega úr herbúðum Sjálfstæðismanna og er jafnan notaður til að afvegaleiða, jafnvel smætta, þá umræðu sem er hverju sinni um að bæta þurfi kjör þeirra sem standa veikast hér á landi. Fáir ef nokkrir hafa talað um að gera allt fyrir alla en ýmsir þó bent á að mikilvægt sé að bæta kjör þeirra sem lökust hafa kjörin. Ef við skoðum alla, sem hljóta þá að vera allir Íslendingar, þá er ljóst að það þarf t.d. ekki að bæta kjör þeirra ríku eða lækka veiðigjöld á þá aðila sem nýta auðlindir þjóðarinnar. Samt er það gert í tíð þessarar ríkisstjórnar og það er gert á sama tíma og lífeyrir öryrkja og eldri borgara heldur ekki í við launaþróun, svo að dæmi sé tekið. Þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er bent á þetta þýðir það í hans bókum að gera allt fyrir alla. En kannski eru allir og allt teygjanleg hugtök í hans bókum.



[15:05]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ójöfn staða kynjanna í stjórnunarstöðum var til umræðu á opnum fundi viðskiptadeildar Háskóla Íslands í gær og ég sat þar í pallborði með öðru góðu fólki. Fundurinn hófst með því að Ásta Dís Óladóttir lektor kynnti niðurstöður rannsóknar sem ber heitið Er skortur á framboði eða er engin eftirspurn eftir konum í æðstu stjórnunarstöður? Í kjölfarið velti salurinn ásamt fundarstjóra upp spurningum á borð við: Hvað þarf að gera til að jafna stöðuna? Eru engin smitáhrif af lögum um kynjakvóta í stjórnum? Er raunhæft að setja kynjakvóta á framkvæmdastjórnir? Ég myndi vilja hafa slíkt persónulega sem algjört neyðarúrræði en ég hefði líka átt von á því að staðan væri allt önnur og betri en hún er núna á því herrans ári 2020. Það getur vel verið að það sé málið að setja aftur kynjakvóta og það er sannarlega auðveldara að mínu mati að sætta sig við það þegar gögnin renna stoðum undir það að skortur er á eftirspurn en ekki skortur á framboði af hæfum konum. Mögulega þarf svona átak til að breyta þessum huglæga mælikvarða okkar um hvaða eiginleikar séu æskilegir í stjórnunarstöður. En svo er líka hægt að stíga minni skref með minni inngripum og vonast eftir eða þrýsta á um að slíkar breytingar hjálpi til við þessar menningarbreytingar hjá okkur.

Í síðustu viku mælti hv. þm. Þorsteinn Víglundsson fyrir máli sem er ætlað að skapa fyrirtækjum jákvæðan hvata til að taka þessi mál föstum tökum. Þar er lagt til að tryggingagjald fyrirtækja sem m.a. uppfylla skilyrði um jöfn kynjahlutföll í æðstu stöðum verði lækkað um hálft prósent. Og á næstunni mun ég vonandi tala fyrir, í þriðja skipti þó, máli þar sem kveðið er á um aukið gagnsæi í fjárfestingum lífeyrissjóða, stærstu og áhrifamestu fjárfesta í íslensku samfélagi, þannig að þeim verði gert, ef þeir fjárfesta í fyrirtækjum þar sem um er að ræða verulegan kynjahalla, að rökstyðja þær ákvarðanir.

Burt séð frá þessum tveimur málum er það ljóst að ábyrgð okkar hér í þessum sal er mikil. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, kjarnaði málið vel (Forseti hringir.) í inngangsorðum sínum á fundinum í gær þegar hann greindi jafnréttismál sem eitt af mikilvægustu úrlausnarefnum samtímans. Jafnrétti og fjölbreytileiki skipta nefnilega máli (Forseti hringir.) í velsæld þjóða. Við þurfum að finna lausnir, ekki síst ef við ætlum áfram að vera helsta forystuþjóðin í jafnréttismálum.



[15:08]
Eydís Blöndal (Vg):

Herra forseti. Lög um velferð dýra öðluðust gildi í ársbyrjun 2014. Markmið laganna er m.a. að dýr sem skyni gæddar verur séu laus við hvers lags vanlíðan eða þjáningu. Ákvæðum laganna er einnig ætlað að tryggja að dýr geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli. Ég set spurningarmerki við þennan skilning á hugtakinu velferð, m.a. í ljósi þeirrar meðferðar sem dýrunum er að endingu veitt. Er velferð mín höfð í hávegum þegar litið er á mig sem framleiðsluvöru, þegar mér er slátrað? Ég sætti mig ekki við það.

Það gætir ósamræmis í því hvaða meðferð mannfólk annars vegar og dýr hins vegar eigi skilið. Þetta ósamræmi býr í hinum viðtekna skilningi á sambandi manna og dýra, skilningi sem hefðir okkar og lög byggja á, skilningi sem ég hef persónulega fjarlægst mjög í seinni tíð. Dýr eru skyni gæddar verur, hafa tilfinningar og finna fyrir sársauka. Sömuleiðis er okkur ekki nauðsynlegt að hagnýta þau á einn eða annan hátt. Á þessum tveimur forsendum byggi ég í grunninn afstöðu mína. Við eigum ekki tilkall til lífs dýra. Framleiðsla á lífi þeirra einungis til neyslu, yndisauka eða skemmtunar er grundvallarfrelsissvipting sem ég stend alfarið gegn. Til viðbótar vil ég nefna að þetta tilkall sem við upplifum okkur búa yfir til lífs dýra er birtingarmynd heimsmyndar neyslusamfélags sem ég tel vera rót loftslagsvár, raunar heimsmynd þar sem við teljum okkur hafa vald til þess að vaða yfir jörðina sem og líf annarra, hvort sem það eru dýr eða aðrar manneskjur. Til að ráða við hættuna sem við stöndum frammi fyrir þurfum við að taka fjöldamörg skref til baka frá þessari heimsmynd en það væri efni í aðra ræðu.



[15:10]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Er hnattræn hlýnun samsæri eða er hamfarahlýnun handan við hornið? Sama hvort háværa fólkið beggja megin hefur rétt fyrir sér eða ekki þá er það staðreynd númer eitt að sjórinn við landið hefur hlýnað, hann er hlýrri en hann var. Þess vegna er makríllinn kominn. Það er staðreynd númer tvö að þegar sjórinn við landið er hlýrri verða stormarnir við landið sterkari og tíðari. Þetta sáum við nú á þessum 50 ára stormi, seltustormi að norðan, sem sló út raforkulínur víða um land, sérstaklega á Norðurlandi. Þessir sterkari og tíðari stormar eiga það til, vegna hlýrri sjávar, að verða sterkari og tíðari og toga heimskautaloftið niður yfir landið. Svo er þriðja staðreyndin kannski sú að sumir vilja ekki sjá að sjórinn við landið er heitari, ef maður horfir á umræðuna, og vilja ekki sjá að það þýði tíðari og sterkari storma sem stundum blása köldu lofti yfir landið. Þeir nota það sem rök fyrir því að heimurinn sé ekkert að hlýna. En staðreyndin er sú að sjórinn við landið er að hlýna og þeir sem vilja ekki sjá þessar staðreyndir, þeim er ekki treystandi fyrir raforkuöryggi í landinu. Þeim er ekki treystandi fyrir almannavörnum sem vilja ekki taka þetta með í reikninginn og þeim er ekki treystandi fyrir stjórn landsins.



[15:11]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Af fullri virðingu við öll önnur mál finnst mér eitt mál standa algjörlega upp úr í dag og það er hin svokallaða kórónaveira. Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra funduðu í morgun og var tekin ákvörðun um að vinna eftir landsáætlun fyrir heimsfaraldur inflúensu. Áætlunin styðst við lög um almannavarnir og sóttvarnalög og gert er ráð fyrir að atvinnulíf í landinu verði skert í ákveðinn tíma, hluti þjóðarinnar verði rúmfastur vegna veikinda og dánartíðni verði umfram það sem búast má við í venjulegu árferði. Sóttvarnalæknir gerir ráð fyrir því að veiran muni koma, eins og kom fram í Kastljóssþætti í fyrrakvöld, þar sem hann var ásamt okkar ágæta landlækni í viðtali við Jóhönnu Vigdísi. Það breytir ekki þeirri staðreynd, eins og hann segir, að það er ekki spurningin hvort veiran kemur til landsins heldur hvenær.

Það mun þurfa að koma til okkar kasta hér á hinu háa Alþingi. Stjórnmálamenn eiga eftir að þurfa að taka ákvarðanir. Ég veit ekki hversu erfiðar eða þungar þær verða. Ég vil ekki vera með hræðsluáróður en staðreyndin er sú að það er verið að bregðast við í löndunum allt í kringum okkur út um allan heim. Ástralar hafa kallað saman hóp af sínum þegnum frá þessum sýktu svæðum þar sem uppruni veirunnar er í Kína og sent þá heim og í einangrun þar í einhvern ákveðinn tíma.

Ég vil nota þetta tækifæri sérstaklega og hrósa Kínverjum fyrir það ótrúlega góða viðbragð sem þeir hafa sýnt og hvernig þeir hafa gengið fram í því. Nú eru þeir t.d. búnir að loka fyrir allan ferðamannastraum frá sínu landi í hópferðum. Og bara að lokum, fyrst ég (Forseti hringir.) sé að tími minn er búinn, vil ég nefna að kínverski sendiherrann á Íslandi hefur gengið fram með góðu fordæmi og hann hefur aflýst áður boðaðri galaveislu í boði Kínverja á Íslandi. En ég segi:(Forseti hringir.) Þetta er eitthvað sem við þurfum sannarlega að taka föstum tökum.



[15:14]
Jónína Björk Óskarsdóttir (Flf):

Herra forseti. Nýlegar rannsóknir sýna að næringarástand aldraðra er miklum mun verra en heilbrigðisyfirvöld gerðu sér grein fyrir. Eitt af alvarlegri vandamálum aldraðra er þyngdartap og vöðvarýrnun eða sarcopenia á latínu, eins og Ólafur veit eflaust hvað er. Áður var vöðvarýrnun talin náttúrulegur fylgifiskur öldrunar en nú vitum við að hægt er að verjast henni með miklu betri hætti en gert hefur verið með betri næringu og hreyfingu. Mikilvægt er að heilbrigðisyfirvöld og þeir sem vinna með öldruðum vinni sameiginlega að því að bæta ástandið. Þar á ég við í samvinnu við heilsugæslustöðvar og að á heilsugæslustöðvunum gæti verið tómstundafulltrúi sem gæti séð um þennan þátt.

Annað er líka að í heimahjúkrun, þar sem unnið er alveg frábært starf og hef ég kynnst því svolítið, vantar orðið þessa samþættingu heimahjúkrunar og heilsugæslu, þennan samnefnara milli sjúklings og heilbrigðisstofnunarinnar þannig að við náum til þess sem er að einangrast.

Annað sem ég get sagt ykkur í sambandi við heilsueflingu, hvað þar er verið að gera góða hluti. Ég hef séð það síðastliðin fjögur ár og vil að við tökum það hér í þinginu, virðulegi forseti, til verulegrar athugunar. Það er verkefni Janusar Guðlaugssonar sem hann er með bæði í Reykjanesbæ og Hafnarfirði. Þar er ég búin að horfa upp á að fólk á áttræðis- og níræðisaldri með göngugrind hefur sleppt göngugrindunum. Þetta er svo þýðingarmikið fyrir heilbrigðisgeirann sem losnar við að fá þetta fólk inn til sín. Bætt heilsa fæst með bættri hreyfingu og næringu.



[15:16]
Olga Margrét Cilia (P):

Frú forseti. Það er mikilvægt í lýðræðislegum þjóðfélögum að það megi gagnrýna málaflokka og æðstu stjórnendur ríkisins. Það hefur því miður verið venja hér á landi að þegar gagnrýni kemur fram eru borgarar og þingfólk skammað og gefið í skyn að þjóðin sé á einhvern hátt og vanþakklát. Heilbrigðiskerfið hefur legið undir gagnrýni síðustu mánuði og árin og trekk í trekk hefur verið bent á að það vanti fjármagn. Vissulega er heilbrigðiskerfið ekki eini málaflokkurinn þar sem vantar fjármagn en allt of oft eru svörin á þá leið að það sé nóg fjármagn og framlög hafi hækkað. Það sem skýtur skökku við í þessu er að það gleymist að taka inn í reikninginn að í kjölfar fjármálahrunsins 2008 voru framlög í alla málaflokka skorin gífurlega niður, með því loforði að þetta yrði bara tímabundið ástand.

Hæstv. heilbrigðisráðherra benti á um daginn að framlög til Landspítalans hefðu aukist um 12% á þremur árum en við þurfum að hafa í huga að slíkar prósentutölur og loforð hafa litla þýðingu ef það er ekki sett í rétt samhengi. 12% hækkun á framlögum á þremur árum til Landspítalans hljómar vissulega mjög vel í eyrum kjósenda. En ef við setjum þetta í samhengi við eftirfarandi tölfræði þá skýtur skökku við. Þetta hljómar vel ef ekki hefði viljað svo til að frá 1. janúar 2017 til 30. september 2019 fjölgaði landsmönnum úr 338.450 í 362.860 eða um 7,2%, ef íbúum 70 ára og eldri hefði ekki líka fjölgað um 7,2% og ef ekki hefði verið verulega uppsöfnuð fjárþörf hjá Landspítalanum áður en þessi hækkun framlaga kom til og ef fjöldi ferðamanna hefði ekki aukist um þrefaldan fjölda landsmanna á þessum þremur árum og ef Landspítalinn hefði ekki þurft að bera að fullu kostnað vegna hluta þessara ferðamanna.

Það er gríðarlegt álag á Landspítalanum. Skammir og endurtekning á því að þetta sé í lagi breytir því ekki að það hafa orðið alvarleg slys á bráðamóttökunni sjálfri. Erum við ekki samfélag sem vill bjóða upp á heilbrigðiskerfi og starfsumhverfi fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem gerir það að verkum að það geti sinnt starfi sínu á sem bestan hátt? (Forseti hringir.) Þjóðin tók á sig skell í kjölfar fjármálahrunsins og ég trúi ekki öðru en að þolinmæði hennar sé senn á þrotum.



[15:19]
Bjarni Jónsson (Vg):

Herra forseti. Gjörningaveður sem gengið hafa yfir norðanvert landið hafa varla farið fram hjá neinum undanfarnar vikur. Íbúar hafa upplifað óöryggi, byggðarlög hafa lokast af í lengri og skemmri tíma og þá skiptir máli að öflugt öryggisnet sé til staðar. Það er margt sem kemur þar til. Margvíslegri þjónustu hefur verið hagrætt á svæðinu, svo sem mikilvægri bráðaþjónustu. Því er öruggt aðgengi að sjúkraflugi vegna skyndilegra alvarlegra veikinda eða slysa lífsnauðsyn, ekki síst ef um hópslys er að ræða. Búnaði á flugvöllum til sjúkraflugs hefur verið illa við haldið og vantar talsvert upp á víða.

Ég vil sérstaklega ræða stöðuna á Blönduósflugvelli einmitt í ljósi þess að það hérað hefur á undanförnum vikum lokast af í jafnvel fleiri daga, bæði norður og suður fyrir, og þurft að treysta á sjúkraflug. Það hafa orðið alvarleg slys og varð hópslys fyrir skemmstu, rútuslys. En það er mjög alvarleg staða að ekki sé búið betur að búnaði á Blönduósflugvelli. Það vantar að halda búnaði við, meira að segja að stilla aðflugsljós sem kostar ekki stórar upphæðir. Það vantar GPS-kerfi. Það fara 700.000 bílar þarna um á ári. Síðan þegar málið er tekið upp vísar hver á annan. Það er ekki ljóst hver ber ábyrgð á viðhaldsleysi Blönduósflugvallar. Isavia segir ákvörðun um viðhaldsmál, þjónustustig og uppbyggingu flugvallarins vera hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. En aðstoðarmaður samgönguráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að ráðuneytið skipti sér ekki af því hvernig Isavia ráðstafi fjármunum, Isavia sjái um flugvellina. Þetta er alveg ótækt. Eitt er að þarna þurfi að gera betur en það þarf líka að skýra það hver ber ábyrgðina. Á einhver að axla þá ábyrgð og gera það sem þarf að gera? Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessari stöðu á Blönduósi.



[15:22]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Hinar ýmsu hamfarir sem hafa riðið yfir þjóðina, veðurfarslegar, efnahagslegar, atvinnulegar, birtast okkur með ýmsum hætti en fyrst og síðast, eftir að hafa heimsótt Vestfirði og Suðurnesin líka, ber hæst hjá fólki ákall um ákvarðanir. Það er ekki ákall um hópa, starfshópa eða nefndir þótt þær geti vissulega verið gagnlegar, ekki síst við að taka ákvarðanir þegar öll gögn liggja fyrir. Á fjölmennum íbúafundi á Flateyri eftir snjóflóðin fyrir vestan nú í janúarmánuði sagði einn íbúi mjög skýrt: Fólkið er bara biðja um tækifæri til lífs og atvinnu. Tækifæri til lífs og atvinnu — ég held að það sé eitthvað sem stjórnmálin skulda fólkinu, hvort sem það er fyrir vestan, norðan, austan eða sunnan, að taka ákvarðanir sem geta leitt til framfara, leitt til þess að eyða óvissu; svara málefnum varðandi lýðskólann, eyða óvissu þegar kemur að byggingu snjóflóðavarnargarða. Það eru til áætlanir, það er til skipulag, allir vita af því hjá ofanflóðasjóði en þá er bara enn einn hópurinn skipaður. Eða eins og einn nefndarmaður sagði: Það hefði bara verið einfaldast að senda tölvupóst og svarið hefði komið strax um hvað þarf að gera.

Mitt ákall til ríkisstjórnarinnar er að koma sér að verki. Það er tæpt ár síðan að ríkisstjórnin öll þrammaði suður með sjó þegar WOW fór á hausinn. Hvað hefur gerst síðan? Ekkert annað en að atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur aukist úr 4% á sama tíma fyrir ári í ríflega 9%. En ríkisstjórnin kemur sér ekki að verki. Ég bið hana einlæglega um að koma sér að því að taka ákvarðanir. Það er ýmislegt sem liggur fyrir. Það er ýmislegt sem hægt er að gera til að eyða óvissu fólksins, veita því tækifæri til lífs og atvinnu.



[15:24]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er nú svolítið þannig að þegar maður er tölvunörd, þegar maður notar tölvuna aðeins öðruvísi en flest annað fólk, þá gerir fólk oft ráð fyrir því að maður sé að hakka eitthvað. Oft þegar ég sit á kaffihúsi eða jafnvel inni í þingsal og fólk sér á skjáinn hjá mér gerir það ráð fyrir að ég sé að gera eitthvað skuggalegt og hræðilegt. Skjárinn hjá mér er með fullt af stöfum í mismunandi litum og þess háttar. Mér finnst ég upplifa það sama gagnvart því að vera Pírati. Mér finnst, þegar hér er talað um trúnað, upplýsingar og gagnsæi og slíkt, að alltaf sé gert ráð fyrir að Píratar séu að leka einhverjum gögnun, að Píratar séu að misfara með gögn, að það séu Píratar sem virði ekki trúnað. Það er ekki þannig. Hins vegar ættum við kannski að endurskoða oftar hvort við þurfum raunverulega alla þá leynd og allan þann trúnað sem við gerum ráð fyrir hér. Það er satt að það þarf að vera trúnaður yfir mörgu, eða sumu, og þann trúnað ber að virða.

Þegar okkur eru afhent gögn í trúnaði, ég tala nú ekki um ef það eru viðkvæm gögn, eigum við að virða það nema ef til kemur eitthvað stórkostlegt sem þarf að ljóstra upp um, eitthvað sem hreinlega neyðir mann til lögbrota; segjum uppljóstranir Edwards Snowdens eða eitthvað því um líkt. Það þýðir ekki að allt eigi að vera í trúnaði. Það þýðir ekki að við eigum sjálfkrafa að gera ráð fyrir því að við eigum alltaf að vera að passa okkur á því hvað við tölum um eða hverju við segjum frá. Við eigum almennt að geta sagt frá því sem gerist í okkar lífi og okkar pólitík. Við eigum almennt að geta tjáð skoðanir okkar. Við eigum almennt að geta kallað eftir rannsóknum á meintri spillingu án þess að vera dæmd sek um siðareglubrot, bara svo að ég nefni nærtækt dæmi. Staðallinn hér á Alþingi er stundum sá að maður eigi að passa að segja ekki neitt, passa að segja ekki eitthvað sem einhverjum gæti verið illa við því að þá sé maður ýmist að brjóta trúnað eða ganga yfir einhverja ósýnilega línu sem enginn hefur, meðan ég man, skilgreint.

Það á að virða trúnað en það þýðir ekki að allt eigi að vera í trúnaði. Við eigum að nálgast störfin hér með því hugarfari að við getum almennt starfað opinskátt og gagnsætt. Það á ekki að koma neinum á óvart að Píratar hafi þá skoðun og sú skoðun þýðir ekki að Píratinn svíki þann trúnað sem hann talar hér um.



[15:26]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er víðfeðm og innan hennar er rekið umfangsmikið styrkjakerfi sem hefur margvísleg markmið. Bændur fá styrki af ýmsu tagi sem er ætlað að gera þeim mögulegt að reka starfsemi á búum sínum. Til að tryggja fullt gagnsæi við ráðstöfun þeirra miklu fjármuna sem varið er til þessara verkefna er skylt að birta upplýsingar um alla styrkþega, tegundir styrkja og upphæð þeirra. Af þessum sökum get ég flett upp í gagnagrunnum og séð t.d. að Arnar Þór Arnarson, bóndi í Vejle Kommune, fékk 8.528 danskar kr. í almennan styrk og 3.892 í umhverfisstyrk árið 2018. Þetta eru um 225.000 ísl. kr. Á sama hátt get ég séð að Ken Mogens Olsen, bóndi í Vordingborg, fékk á sama tíma um 9 millj. ísl. kr. í sömu styrki.

Þetta geri ég að umtalsefni vegna þess að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur í svari við fyrirspurn minni um greiðslur til sauðfjárbúa árin 2014–2018 neitað að veita upplýsingar um greiðslur til einstakra búa og vísað í þingsköp Alþingis þar sem fjallað er um persónulegar og viðkvæmar upplýsingar. Þetta svar er auðvitað óviðunandi með öllu. Það er ekki í anda gagnsæis um ráðstöfun opinbers fjár. Við höfum þegar stigið skref með opnun reikninga hjá ríkinu, við upplýsum um styrki til fyrirtækja úr opinberum sjóðum, styrki til listamanna o.s.frv. Hér þarf hæstv. ráðherra að taka af skarið og mæla fyrir um birtingu upplýsinga um styrki til bænda. Ef hæstv. ráðherra gerir það ekki verður þingið að taka til sinna ráða.



[15:29]
Stefán Vagn Stefánsson (F):

Herra forseti. Mig langar hér að ræða stöðu tveggja flugvalla sem staðsettir eru á Norðurlandi vestra, þ.e. flugvöllinn á Blönduósi og Alexandersflugvöll á Sauðárkróki. Í kjölfar þess gjörningaveðurs sem gekk yfir landið í upphafi desembermánaðar og þeirra óveðra sem komið hafa í framhaldinu hafa komið upp fjöldi tilfella og fjöldi daga þar sem Norðurland vestra hefur verið einangrað í vegsamgöngum við aðra landshluta sem og að vegir hafa verið lokaðir innan svæðis. Í nokkur skipti á þessu tímabili stóðu lokanir yfir í nokkra daga í senn. Í ljósi þess að á undanförnum árum hefur sjúkrahúsþjónusta á Norðurlandi vestra og í raun víðar á landsbyggðinni verið færð að stórum hluta í stærri sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri erum við sem á svæðinu búa orðin miklu háðari sjúkraflutningum en áður. Alvarlegri tilfelli eru í fæstum tilfellum meðhöndluð í héraði og sama á við um fæðingarþjónustu.

Að þessu sögðu er ljóst að flugvellirnir eru gríðarlegt öryggistæki fyrir íbúa á þessu svæði og mikilvægt að þeir séu þjónustaðir og viðhald þeirra sé með þeim hætti til frambúðar að á þá sé treystandi þegar neyðin er mest. Alexandersflugvöllur er með ein bestu lendingarskilyrði á landinu og lokast nánast aldrei sökum veðurs og að mínu mati og fjölda annarra ætti hann að gegna mun stærra hlutverki en hann gerir í dag. Flugvöllurinn á Blönduósi er þannig staðsettur að hann er mjög nálægt þjóðvegi 1 og hefur sannað sig sem mikilvægt öryggistæki fyrir íbúa og gesti svæðisins.

Hér er um mikið öryggis- og byggðamál að ræða fyrir íbúa Norðurlands vestra og mikilvægt fyrir stjórnvöld að hlusta á raddir íbúa og sveitarstjórnar í þessu mikilvæga máli.



[15:31]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom að máli sem oft veldur umræðum og umhugsun hér í þinginu sem við skulum segja að snúist fyrst og fremst um virðingu þingmanna gagnvart trúnaði sem þeir eru beðnir um eða þarf eðli málsins samkvæmt að vera á. Ég tek undir það með hv. þingmanni að yfirleitt er betri regla sú að fundir séu opnir og gagnsæir og að ekki ríki trúnaður nema rík nauðsyn sé til. Það má velta því fyrir sér hvort ákvæði þingskapa eru hugsanlega að einhverju leyti fullþröng hvað þetta varðar. Ég held hins vegar að nauðsynlegt sé að halda því til haga að það getur verið afar mikilvægt fyrir þingið, og þá fyrst og fremst þingnefndir, að fá upplýsingar um ýmis mál, jafnvel þó að þau þurfi að vera bundin trúnaði. Það geta verið upplýsingar sem tengjast málum í undirbúningi sem hugsanlega er ekki hægt að opinbera á þeim tímapunkti. Það getur líka varðað viðskiptalegar upplýsingar, fjárhagslegar upplýsingar og annað þess háttar og það þarf auðvitað að meta það í hverju tilviki fyrir sig.

Varðandi hugmynd sem hv. þingmaður hefur oft reifað, um að nefndarfundir séu að jafnaði opnir, þá finnst mér það alveg athugunarefni. Á því eru kostir og gallar. Kostirnir felast auðvitað í gagnsæinu og því að allt er opið. En gallinn er hugsanlega sá að það kynni að hafa áhrif á trúnaðarsamtöl milli nefndarmanna og jafnvel gesta um einstök mál sem upp koma. Þetta er hins vegar atriði sem ég held að ástæða væri til að hugleiða og ræða, hvort breyta þurfi reglum að þessu leyti.



[15:33]
Una Hildardóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á kröfu Sólborgar Guðbrandsdóttur sem heldur úti Instagram-síðunni Fávitar, um betri kynfræðslu í grunn- og menntaskólum og í samfélaginu almennt. Í síðustu viku afhenti hún hæstv. dómsmálaráðherra 300 sögur af kynferðislegu ofbeldi þar sem bæði gerandi og þolandi voru yngri en 25 ára. Í viðtali við Fréttablaðið sagði Sólborg að flestar sögurnar innihéldu, með leyfi forseta, „ofbeldi í nánum samböndum, ofbeldi innan fjölskyldna, ofbeldi innan skólanna, ofbeldi gagnvart sofandi manneskjum og þvingað „samþykki“.“

Verkefnið vinnur hún út frá #metoo-byltingunni en áherslan er ekki á einhverja sérstaka starfsstétt heldur á börn og ungmenni almennt.

Mitt fyrsta mál sem varaþingmaður var að leggja fram þingsályktunartillögu um skipun starfshóps til að endurmeta kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Á sama tíma sendi ég inn fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra um eflingu kynfræðslu og í svari hennar kom fram að gert sé ráð fyrir markvissri kynfræðslu á öllum skólastigum í stjórnartillögu um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Í henni er m.a. tillaga um að kennsla um kynheilbrigði og kynhegðun verði efld í grunn- og framhaldsskólum þannig að nemendur fái kynfræðslu oftar en eina til tvær kennslustundir á skólagöngu sinni eins og dæmi eru um. Það er þó greinilegt að breytingar á þessu kerfi ganga of hægt. Ég skora á þingheim að setja sig í samband við Sólborgu til þess að fá sögurnar afhentar og mennta- og menningarmálaráðherra að vinna málin hraðar og tryggja ungu fólki almennilega kynfræðslu án tafar.

Að lokum vil ég nýta tækifærið og lesa upp úr einni úr sögunni, með leyfi forseta:

„Það byrjaði strákur að káfa á mér í grunnskóla. Hann byrjaði að gera það í fjórða til fimmta bekk og gerði það síðan í nokkur ár. Hann kom upp að mér að aftan og greip um mig svo að ég gæti ekki hreyft mig og snerti brjóstin sem ég var nýbyrjuð að fá. Í eitt skipti sofnaði ég á ganginum og vaknaði með hann ofan á mér og hann var að kyssa mig.“