150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er nú svolítið þannig að þegar maður er tölvunörd, þegar maður notar tölvuna aðeins öðruvísi en flest annað fólk, þá gerir fólk oft ráð fyrir því að maður sé að hakka eitthvað. Oft þegar ég sit á kaffihúsi eða jafnvel inni í þingsal og fólk sér á skjáinn hjá mér gerir það ráð fyrir að ég sé að gera eitthvað skuggalegt og hræðilegt. Skjárinn hjá mér er með fullt af stöfum í mismunandi litum og þess háttar. Mér finnst ég upplifa það sama gagnvart því að vera Pírati. Mér finnst, þegar hér er talað um trúnað, upplýsingar og gagnsæi og slíkt, að alltaf sé gert ráð fyrir að Píratar séu að leka einhverjum gögnun, að Píratar séu að misfara með gögn, að það séu Píratar sem virði ekki trúnað. Það er ekki þannig. Hins vegar ættum við kannski að endurskoða oftar hvort við þurfum raunverulega alla þá leynd og allan þann trúnað sem við gerum ráð fyrir hér. Það er satt að það þarf að vera trúnaður yfir mörgu, eða sumu, og þann trúnað ber að virða.

Þegar okkur eru afhent gögn í trúnaði, ég tala nú ekki um ef það eru viðkvæm gögn, eigum við að virða það nema ef til kemur eitthvað stórkostlegt sem þarf að ljóstra upp um, eitthvað sem hreinlega neyðir mann til lögbrota; segjum uppljóstranir Edwards Snowdens eða eitthvað því um líkt. Það þýðir ekki að allt eigi að vera í trúnaði. Það þýðir ekki að við eigum sjálfkrafa að gera ráð fyrir því að við eigum alltaf að vera að passa okkur á því hvað við tölum um eða hverju við segjum frá. Við eigum almennt að geta sagt frá því sem gerist í okkar lífi og okkar pólitík. Við eigum almennt að geta tjáð skoðanir okkar. Við eigum almennt að geta kallað eftir rannsóknum á meintri spillingu án þess að vera dæmd sek um siðareglubrot, bara svo að ég nefni nærtækt dæmi. Staðallinn hér á Alþingi er stundum sá að maður eigi að passa að segja ekki neitt, passa að segja ekki eitthvað sem einhverjum gæti verið illa við því að þá sé maður ýmist að brjóta trúnað eða ganga yfir einhverja ósýnilega línu sem enginn hefur, meðan ég man, skilgreint.

Það á að virða trúnað en það þýðir ekki að allt eigi að vera í trúnaði. Við eigum að nálgast störfin hér með því hugarfari að við getum almennt starfað opinskátt og gagnsætt. Það á ekki að koma neinum á óvart að Píratar hafi þá skoðun og sú skoðun þýðir ekki að Píratinn svíki þann trúnað sem hann talar hér um.