150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom að máli sem oft veldur umræðum og umhugsun hér í þinginu sem við skulum segja að snúist fyrst og fremst um virðingu þingmanna gagnvart trúnaði sem þeir eru beðnir um eða þarf eðli málsins samkvæmt að vera á. Ég tek undir það með hv. þingmanni að yfirleitt er betri regla sú að fundir séu opnir og gagnsæir og að ekki ríki trúnaður nema rík nauðsyn sé til. Það má velta því fyrir sér hvort ákvæði þingskapa eru hugsanlega að einhverju leyti fullþröng hvað þetta varðar. Ég held hins vegar að nauðsynlegt sé að halda því til haga að það getur verið afar mikilvægt fyrir þingið, og þá fyrst og fremst þingnefndir, að fá upplýsingar um ýmis mál, jafnvel þó að þau þurfi að vera bundin trúnaði. Það geta verið upplýsingar sem tengjast málum í undirbúningi sem hugsanlega er ekki hægt að opinbera á þeim tímapunkti. Það getur líka varðað viðskiptalegar upplýsingar, fjárhagslegar upplýsingar og annað þess háttar og það þarf auðvitað að meta það í hverju tilviki fyrir sig.

Varðandi hugmynd sem hv. þingmaður hefur oft reifað, um að nefndarfundir séu að jafnaði opnir, þá finnst mér það alveg athugunarefni. Á því eru kostir og gallar. Kostirnir felast auðvitað í gagnsæinu og því að allt er opið. En gallinn er hugsanlega sá að það kynni að hafa áhrif á trúnaðarsamtöl milli nefndarmanna og jafnvel gesta um einstök mál sem upp koma. Þetta er hins vegar atriði sem ég held að ástæða væri til að hugleiða og ræða, hvort breyta þurfi reglum að þessu leyti.