152. löggjafarþing — 14. fundur
 21. desember 2021.
framtíðarsýn vegna faraldurs og álag á heilbrigðiskerfið.

[15:08]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Í á annað ár hef ég kallað eftir framtíðarsýn frá hæstv. forsætisráðherra varðandi það hvernig skuli tekist á við það faraldursástand sem stendur enn. Hæstv. ráðherra hefur í raun ekki svarað þeim fyrirspurnum öðruvísi en að benda á að þetta sé mikilli óvissu háð, það geti komið ný afbrigði o.s.frv. En nú hefur það gerst að meira að segja hæstv. fjármálaráðherra kallar eftir framtíðarsýn frá eigin ríkisstjórn um það hvernig skuli takast á við þetta ástand til framtíðar.

Auðvitað er það rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að veirur eiga það til að breyta sér og ný afbrigði að birtast, það var fyrirséð. Og þótt ég sé ekki sérfræðingur í þessum fræðum þá heyrði maður það snemma í þessum faraldri að líkur væru til þess að veiran myndi halda áfram að þróast og verða vægari en um leið meira smitandi. Þannig þróist veirur jafnan. Svoleiðis að þetta var nokkuð fyrirséð. Það er eitt og annað sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin geta áætlað. Til að mynda vitum við að þó að smitum fjölgi hratt, jafnvel eins hratt og hefur verið undanfarna daga, þá tæki það mörg ár fyrir alla Íslendinga að hafa greinst smitaða. Svarið er iðulega þetta: Þetta snýst allt um álagið á heilbrigðiskerfið og að við höldum því á þeim stað að kerfið ráði við það.

Meginspurning mín til hæstv. forsætisráðherra, til viðbótar við fyrri spurningu um framtíðarsýn, er því þessi: Kemur til greina að ríkið leiti í auknum mæli til annarra þeirra sem geta létt álaginu af Landspítalanum um að veita hina ýmsu þjónustu, þar með talið kaup á liðskiptaaðgerðum, svo að dæmi sé nefnt, sem eitt og sér felur í sér mjög aukna hagkvæmni en hjálpar um leið heilbrigðiskerfinu til að takast á við önnur mál?



[15:11]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er hins vegar ekki rétt sem hann heldur fram, að hér hafi ekki verið skýr sýn frá upphafi í baráttunni við faraldurinn. Það er sú skýra sýn sem skilar því að Ísland stendur í hópi fremstu þjóða þegar kemur að því hvernig okkur hefur tekist til í þeirri baráttu, hvort sem litið er til hlutfalls bólusettra, fjölda andláta eða árangurs af efnahagsaðgerðum. Sú skýra sýn birtist í upphafi með þeim aðgerðum að reynt var að bæla niður veiruna eftir fremsta megni en tryggja um leið gang samfélagsins. Eftir að bólusetningar tóku kipp, en margir, m.a. hv. þingmaður, höfðu efasemdir um áform stjórnvalda sem eigi að síður gengu öll eftir, hefur verið farin leið temprunar, þ.e. að hafa ákveðna stjórn á fjölgun þeirra sem smitast.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir; nú erum við að eiga við enn eitt afbrigðið, ómíkron-afbrigðið, og um það er töluverð óvissa, eins og hv. þingmaður þekkir, ég veit að hann fylgist vel með erlendum fréttum og sér til hvaða ráðstafana stjórnvöld víða eru að grípa. Það er ljóst að ómíkron-afbrigðið smitast gríðarlega hratt. Við sjáum það bara á smittölum í löndunum í kringum okkur og við sjáum það í þeim líkönum sem vísindamenn okkar hafa sett fram. Hins vegar sjáum við líka að það veldur minni veikindum. En það breytir því ekki að ef smitefni er jafn mikið og raun virðist vera þýðir það alltaf að ákveðið hlutfall veikist alvarlega og þarf á þjónustu sjúkrahúsa að halda.

Og þá kem ég að seinni fyrirspurn hv. þingmanns, sem felur í sér hvort hugsanlegt sé að létta álagi af spítalanum með öðrum leiðum. Ég get ekki annað sagt en það er nákvæmlega það sem hefur verið gert. Hann nefnir hér liðskiptaaðgerðir og hér stendur til að opna liðskiptasetur á Akranesi, sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt til þess að létta álagi. Fyrir utan það hafa samningar verið gerðir við ýmsa aðila einmitt til að ná þeim árangri að létta álagi af spítalanum.



[15:13]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra á það til að láta eins og ráðherrann viti ekki alveg um hvað er verið að spyrja. Ég er að spyrja um pólitíska framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar, einhvern fyrirsjáanleika, einhverjar sviðsmyndir eftir því hvernig faraldurinn þróast næstu misseri og jafnvel næstu árin. Meira að segja hæstv. fjármálaráðherra, formaður stærsta stjórnarflokksins, er farinn að spyrja sömu spurningar, væntanlega hæstv. forsætisráðherra, sem virðist, ásamt Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, ráða því sem þau vilja í þessari ríkisstjórn. Enda átti ég orðastað hér fyrir fáeinum dögum við hæstv. fjármálaráðherra um einmitt seinni hluta spurningar minnar, hvort ætti í auknum mæli að leita eftir þjónustu þeirra sem geta veitt hana á góðan hátt og hagkvæman til að létta af Landspítalanum. Hæstv. ráðherra virtist einu sinni sem oftar taka vel í þessa fyrirspurn, en það virðist stranda á Vinstri grænum, sem fara sínu fram í þessu stjórnarsamstarfi og ráða því sem þeir vilja ráða. (Forseti hringir.)

Því ítreka ég fyrri spurningar: Fáum við framtíðarsýn eins og hæstv. fjármálaráðherra kallar eftir? Og fær hæstv. fjármálaráðherra heimild til þess að nýta í auknum mæli þjónustu annars staðar frá?



[15:14]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég fór yfir framtíðarsýnina hvað varðar þá stöðu að við höfum náð settum markmiðum um bólusetningu. Ísland stendur nú fremst þegar við berum okkur saman við nágrannalöndin um örvunarbólusetningu sem mun skipta verulegu máli sem vörn, bæði gegn þessu nýja afbrigði en líka gegn öðrum afbrigðum. Það breytir því ekki að óvissan er enn mikil um það hversu alvarlegum veikindum þetta afbrigði getur valdið hjá þeim sem smitast. Það eru ákveðnar vísbendingar um að það hlutfall sé í kringum 0,7%. Það er hins vegar svo að þessi sýn hefur legið algerlega skýr fyrir og það veit hv. þingmaður mætavel. Hann veit líka mætavel að sá árangur sem við höfum náð er góður á alþjóðavísu. Ég spyr bara: Er hv. þingmaður ósáttur við það hvernig til hefur tekist í baráttunni við faraldurinn? Hvað varðar samninga við aðra aðila gæti ég auðvitað talið ýmislegt upp en kannski hæstv. heilbrigðisráðherra sé betur til þess fallinn. Ég nefndi áðan liðskiptasetur, (Forseti hringir.) ég nefndi líka samninga við aðra aðila eins og um Covid-deild á Eir og aðra slíka aðila sem einmitt hefur verið ráðist í samninga (Forseti hringir.) við til þess að létta álagi af spítalanum. Það snýst ekki um að neinn leyfi neinum neitt heldur hefur það einfaldlega verið það skynsamlega að gera.