152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

framtíðarsýn vegna faraldurs og álag á heilbrigðiskerfið.

[15:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Í á annað ár hef ég kallað eftir framtíðarsýn frá hæstv. forsætisráðherra varðandi það hvernig skuli tekist á við það faraldursástand sem stendur enn. Hæstv. ráðherra hefur í raun ekki svarað þeim fyrirspurnum öðruvísi en að benda á að þetta sé mikilli óvissu háð, það geti komið ný afbrigði o.s.frv. En nú hefur það gerst að meira að segja hæstv. fjármálaráðherra kallar eftir framtíðarsýn frá eigin ríkisstjórn um það hvernig skuli takast á við þetta ástand til framtíðar.

Auðvitað er það rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að veirur eiga það til að breyta sér og ný afbrigði að birtast, það var fyrirséð. Og þótt ég sé ekki sérfræðingur í þessum fræðum þá heyrði maður það snemma í þessum faraldri að líkur væru til þess að veiran myndi halda áfram að þróast og verða vægari en um leið meira smitandi. Þannig þróist veirur jafnan. Svoleiðis að þetta var nokkuð fyrirséð. Það er eitt og annað sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin geta áætlað. Til að mynda vitum við að þó að smitum fjölgi hratt, jafnvel eins hratt og hefur verið undanfarna daga, þá tæki það mörg ár fyrir alla Íslendinga að hafa greinst smitaða. Svarið er iðulega þetta: Þetta snýst allt um álagið á heilbrigðiskerfið og að við höldum því á þeim stað að kerfið ráði við það.

Meginspurning mín til hæstv. forsætisráðherra, til viðbótar við fyrri spurningu um framtíðarsýn, er því þessi: Kemur til greina að ríkið leiti í auknum mæli til annarra þeirra sem geta létt álaginu af Landspítalanum um að veita hina ýmsu þjónustu, þar með talið kaup á liðskiptaaðgerðum, svo að dæmi sé nefnt, sem eitt og sér felur í sér mjög aukna hagkvæmni en hjálpar um leið heilbrigðiskerfinu til að takast á við önnur mál?