152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

framtíðarsýn vegna faraldurs og álag á heilbrigðiskerfið.

[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég fór yfir framtíðarsýnina hvað varðar þá stöðu að við höfum náð settum markmiðum um bólusetningu. Ísland stendur nú fremst þegar við berum okkur saman við nágrannalöndin um örvunarbólusetningu sem mun skipta verulegu máli sem vörn, bæði gegn þessu nýja afbrigði en líka gegn öðrum afbrigðum. Það breytir því ekki að óvissan er enn mikil um það hversu alvarlegum veikindum þetta afbrigði getur valdið hjá þeim sem smitast. Það eru ákveðnar vísbendingar um að það hlutfall sé í kringum 0,7%. Það er hins vegar svo að þessi sýn hefur legið algerlega skýr fyrir og það veit hv. þingmaður mætavel. Hann veit líka mætavel að sá árangur sem við höfum náð er góður á alþjóðavísu. Ég spyr bara: Er hv. þingmaður ósáttur við það hvernig til hefur tekist í baráttunni við faraldurinn? Hvað varðar samninga við aðra aðila gæti ég auðvitað talið ýmislegt upp en kannski hæstv. heilbrigðisráðherra sé betur til þess fallinn. Ég nefndi áðan liðskiptasetur, (Forseti hringir.) ég nefndi líka samninga við aðra aðila eins og um Covid-deild á Eir og aðra slíka aðila sem einmitt hefur verið ráðist í samninga (Forseti hringir.) við til þess að létta álagi af spítalanum. Það snýst ekki um að neinn leyfi neinum neitt heldur hefur það einfaldlega verið það skynsamlega að gera.