152. löggjafarþing — 68. fundur
 25. apríl 2022.
ákvörðun um að leggja Bankasýsluna niður.

[16:09]
Sigmar Guðmundsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Bankasýsla ríkisins er ekki stór stofnun en höndlar með gríðarleg verðmæti. Það er ekki óvarlegt að áætla að þau verðmæti sem eru á ábyrgð Bankasýslunnar, sem eru eignarhlutur ríkisins í fjármálafyrirtækjum, séu í kringum 400 milljarðar kr. Við hljótum að vera sammála um að þegar tekin er ákvörðun um að leggja niður stofnun sem ber í raun ábyrgð á 400 milljörðum kr. þá beri að vanda til verka bæði hjá þingi og ríkisstjórn. Þess vegna vekur það mikla furðu hvernig formenn ríkisstjórnarflokkanna afgreiddu málið sín á milli um páskahelgina. Þeir sendu út yfirlýsingu og birtu á vef Stjórnarráðsins þann 19. apríl þar sem brugðist er við gagnrýni á nýafstaðna sölu. Þar segir orðrétt: „Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður …“

Þessi yfirlýsing er röng. Ríkisstjórnin ákvað ekkert því að ríkisstjórnin hélt enga fundi í tvær vikur, frá 8.–22. apríl. Af hverju segja formennirnir þrír í yfirlýsingu til fólksins í landinu að ríkisstjórnin hafi ákveðið að leggja þetta til við þingið þegar ríkisstjórnin ákvað augljóslega ekki neitt með formlegum hætti? Af hverju að segja ósatt? Það liggur alveg fyrir vottað og skjalfest að það á að bera öll meiri háttar stjórnarmálefni upp á ríkisstjórnarfundum. Að leggja niður stofnun sem heldur á 400 milljarða eignum ríkisins hlýtur að vera meiri háttar stjórnarmálefni sem verðskuldar yfirlegu allrar ríkisstjórnarinnar. Þannig gæfist til að mynda viðskiptaráðherra tækifæri til að tjá skoðun sína og bóka jafnvel andstöðu í stað þess að gera það eftir á. Það skiptir ekki litlu máli eins og við vitum. Það liggur líka fyrir að á ríkisstjórnarfundum, líkt og lesa má um á vef Stjórnarráðsins, á að ræða um mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingu. Að leggja niður Bankasýsluna eða leggja það til við þingið að Bankasýslan verði lögð niður og ákveða að fresta frekari eignasölu, telst væntanlega stefnumörkun og áherslubreyting miðað við stjórnarsáttmálann. Af hverju var þetta ekki rætt og ákveðið í ríkisstjórn um páskana, eins og á að gera samkvæmt stjórnarskrá? Og af hverju var þjóðinni ranglega sagt í yfirlýsingu að ríkisstjórnin hefði ákveðið á fundi að leggja þetta fyrir þingið á ríkisstjórnarfundi sem aldrei var haldinn?



[16:11]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er ekki svo að í þessari yfirlýsingu sé vitnað til neins ríkisstjórnarfundar. Það er vitnað til þess að formenn stjórnarflokkanna hafi orðið ásáttir um tiltekin efnisatriði og slík áform teljast ekki ákvörðun í hefðbundnum skilningi þess máls þegar við ræðum hvað á erindi inn á ríkisstjórnarfund og hvað á erindi inn á fund ráðherranefndar. Niðurlagning Bankasýslu ríkisins er auðvitað háð því að meiri hluti Alþingis samþykki lagabreytingar þar að lútandi. Slíkar lagabreytingar þarf að leggja til við ríkisstjórn. En pólitískar yfirlýsingar um tiltekin áform sem eru um að endurskoða þetta fyrirkomulag um það hvernig ríkið fer með og heldur á eignarhlut sínum í fjármálafyrirtækjum — þetta eru pólitískar yfirlýsingar líkt og við þekkjum öll mætavel og hv. þingmaður þekkir þær líka. Þegar slík áform eru orðin að frumvörpum fara þau í viðeigandi ferli, samráðsferli, ráðherranefnd og ríkisstjórn.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að sá hæstv. ráðherra sem fer með þennan málaflokk, þ.e. málefni Bankasýslunnar og bankamál, er einn þeirra sem stendur að þessari yfirlýsingu. Ég vil líka segja, af því að mér finnst mikilvægt að allt sé uppi á borðum, að umræður hafa verið töluverðar á vettvangi ríkisstjórnar. Þann 8. apríl, sem var síðasti fundur fyrir páska, var rætt um útboð og sölu Bankasýslu ríkisins, fyrirhugaða úttekt Ríkisendurskoðunar. Ég get upplýst að það hvernig þessu fyrirkomulagi hefur verið háttað hefur nokkrum sinnum verið rætt á vettvangi ríkisstjórnar, þannig að þessi yfirlýsing dettur ekki af himnum ofan, eins og hv. þingmaður gefur hér til kynna.



[16:14]
Sigmar Guðmundsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég ætla að lesa upp úr þessari yfirlýsingu. „Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður.“ Fyrst í yfirlýsingunni er talað um álitamál sem komu upp við framkvæmd sölunnar. Það er talað um að Ríkisendurskoðun hafi hafið úttekt og Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið, hafi líka gert það og síðan kemur: „Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að leggja til …“ Ríkisstjórnin leggur það sem sagt til og hún gerði það af því að það komu fram annmarkar við söluna. Það er verið að vísa nákvæmlega í þá gagnrýni sem fram hafði komið. Þannig að ég ætla að bjóða hæstv. forsætisráðherra að koma hingað upp í pontu og svara þessari spurningu aftur vegna þess að það verður ekki betur séð, þegar þessi yfirlýsing er lesin, en að hún fari með rangt mál. Það hvað rætt var áður í ríkisstjórn skiptir ekki máli. Í þessari yfirlýsingu er vísað í tiltekna ákvörðun ríkisstjórnarinnar, það hafi verið ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður vegna þess að það komu fram annmarkar við þessa tilteknu sölu. Tímalínan í þessu verður að vera algjörlega skýr. (Forseti hringir.) Formið skiptir máli eins og við vitum mætavel öll þegar kemur að ríkisstjórninni.



[16:15]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Forystumenn stjórnarflokkanna eru forystumenn ríkisstjórnarinnar og tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og mér finnst þetta ákveðinn orðhengilsháttur sem birtist hér hjá hv. þingmanni. Sú yfirlýsing sem við birtum er nokkuð augljóslega og klárlega yfirlýsing um ákveðin pólitísk áform vegna þeirra annmarka sem komu fram í sölunni, annmarka sem við ræddum á ríkisstjórnarfundi, þeim síðasta fyrir páska. Það þýðir ekki fyrir hv. þingmann að gefa til kynna að hér hafi lög verið brotin eins og ég sá hv. þingflokksformann Samfylkingarinnar gera í grein í dag þar sem það var orðað að forsætisráðherra ætti að sæta ráðherraábyrgð og fara fyrir Landsdóm. Það er mikill ábyrgðarhluti að tala með þessum hætti því að hér er gefin út yfirlýsing, sem má algjörlega skilja þegar hún er lesin í heild sinni að byggist á því að formenn stjórnarflokkanna, sem tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og hafa margoft gert það, hafi orðið sammála um tiltekin eftirfarandi atriði og m.a. að leggja þetta til.