Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

ákvörðun um að leggja Bankasýsluna niður.

[16:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Forystumenn stjórnarflokkanna eru forystumenn ríkisstjórnarinnar og tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og mér finnst þetta ákveðinn orðhengilsháttur sem birtist hér hjá hv. þingmanni. Sú yfirlýsing sem við birtum er nokkuð augljóslega og klárlega yfirlýsing um ákveðin pólitísk áform vegna þeirra annmarka sem komu fram í sölunni, annmarka sem við ræddum á ríkisstjórnarfundi, þeim síðasta fyrir páska. Það þýðir ekki fyrir hv. þingmann að gefa til kynna að hér hafi lög verið brotin eins og ég sá hv. þingflokksformann Samfylkingarinnar gera í grein í dag þar sem það var orðað að forsætisráðherra ætti að sæta ráðherraábyrgð og fara fyrir Landsdóm. Það er mikill ábyrgðarhluti að tala með þessum hætti því að hér er gefin út yfirlýsing, sem má algjörlega skilja þegar hún er lesin í heild sinni að byggist á því að formenn stjórnarflokkanna, sem tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og hafa margoft gert það, hafi orðið sammála um tiltekin eftirfarandi atriði og m.a. að leggja þetta til.