Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

ákvörðun um að leggja Bankasýsluna niður.

[16:09]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Bankasýsla ríkisins er ekki stór stofnun en höndlar með gríðarleg verðmæti. Það er ekki óvarlegt að áætla að þau verðmæti sem eru á ábyrgð Bankasýslunnar, sem eru eignarhlutur ríkisins í fjármálafyrirtækjum, séu í kringum 400 milljarðar kr. Við hljótum að vera sammála um að þegar tekin er ákvörðun um að leggja niður stofnun sem ber í raun ábyrgð á 400 milljörðum kr. þá beri að vanda til verka bæði hjá þingi og ríkisstjórn. Þess vegna vekur það mikla furðu hvernig formenn ríkisstjórnarflokkanna afgreiddu málið sín á milli um páskahelgina. Þeir sendu út yfirlýsingu og birtu á vef Stjórnarráðsins þann 19. apríl þar sem brugðist er við gagnrýni á nýafstaðna sölu. Þar segir orðrétt: „Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður …“

Þessi yfirlýsing er röng. Ríkisstjórnin ákvað ekkert því að ríkisstjórnin hélt enga fundi í tvær vikur, frá 8.–22. apríl. Af hverju segja formennirnir þrír í yfirlýsingu til fólksins í landinu að ríkisstjórnin hafi ákveðið að leggja þetta til við þingið þegar ríkisstjórnin ákvað augljóslega ekki neitt með formlegum hætti? Af hverju að segja ósatt? Það liggur alveg fyrir vottað og skjalfest að það á að bera öll meiri háttar stjórnarmálefni upp á ríkisstjórnarfundum. Að leggja niður stofnun sem heldur á 400 milljarða eignum ríkisins hlýtur að vera meiri háttar stjórnarmálefni sem verðskuldar yfirlegu allrar ríkisstjórnarinnar. Þannig gæfist til að mynda viðskiptaráðherra tækifæri til að tjá skoðun sína og bóka jafnvel andstöðu í stað þess að gera það eftir á. Það skiptir ekki litlu máli eins og við vitum. Það liggur líka fyrir að á ríkisstjórnarfundum, líkt og lesa má um á vef Stjórnarráðsins, á að ræða um mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingu. Að leggja niður Bankasýsluna eða leggja það til við þingið að Bankasýslan verði lögð niður og ákveða að fresta frekari eignasölu, telst væntanlega stefnumörkun og áherslubreyting miðað við stjórnarsáttmálann. Af hverju var þetta ekki rætt og ákveðið í ríkisstjórn um páskana, eins og á að gera samkvæmt stjórnarskrá? Og af hverju var þjóðinni ranglega sagt í yfirlýsingu að ríkisstjórnin hefði ákveðið á fundi að leggja þetta fyrir þingið á ríkisstjórnarfundi sem aldrei var haldinn?