153. löggjafarþing — 21. fundur
 20. október 2022.
gjafir til Bankasýslunnar.

[10:52]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Á dögunum skiluðu starfsmenn Bankasýslunnar minnisblaði sem fjárlaganefnd hafði óskað eftir fyrir rúmu hálfu ári um gjafir og fríðindi sem þeir höfðu fengið í tengslum við störf sín við sölu á hlutum í Íslandsbanka. Í minnisblaðinu kemur fram að starfsmenn Bankasýslunnar hafi þegið dýra kvöldverði, vínflöskur, konfektkassa og forláta kokteilgerðarsett ásamt því að hafa þegið ótilgreindan fjölda hádegisverða fyrir ótilgreint verð. Þessar gjafir, sem samtals hlaupa á hundruðum þúsunda króna, komu frá umsjónaraðilum, fjármálaráðgjöfum, lögfræðilegum ráðgjöfum, söluráðgjöfum og söluaðilum sem allir eiga það sameiginlegt að hafa átt aðkomu að vinnu Bankasýslunnar við sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka.

Forseti. Hæstv. ríkisstjórn gaf út yfirlýsingu í apríl vegna sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka þar sem sagði m.a., með leyfi forseta: „Traust og gagnsæi verður að ríkja um sölu á eignum ríkisins.“

Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er það eðlilegt að starfsmenn Bankasýslunnar þiggi gjafir í tengslum við störf sín?



[10:54]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Stutta svarið við þessu er að ef um slíkar gjafir er að ræða þá þurfa þær að vera innan hóflegra marka og í einhverjum eðlilegum tengslum við störfin. Eins og t.d. ef um er að ræða hádegisverð eða eitthvað slíkt þá finnst mér það ekki vera þannig að eðli eða umfangi að það eigi að varpa mikilli rýrð á störf Bankasýslunnar. Við skulum hafa í huga hér að það viðskiptasamband, sem hv. þingmaður vísar til, milli Bankasýslunnar annars vegar og söluráðgjafa hins vegar, snýst í raun og veru um viðskiptamál. Það hefur ekkert með hina eiginlegu sölu ríkiseignarinnar að gera sem endar hjá öðrum aðilum, þ.e. kaupendum eignarinnar. Hérna er væntanlega verið að gefa í skyn að þarna séu menn að kaupa sér einhverja velvild til að fá að taka þátt í sölumeðferðinni og þiggja fyrir það einhverja þóknun. Það er stjórn Bankasýslunnar sem ber ábyrgð á heildareftirliti með slíkri samningagerð og mögulegum hagsmunaárekstrum sem kunna að skapast. Stutta svarið mitt við því hvort það sé heppilegt eða æskilegt að um sé að ræða gjafir eða þóknanir af einhverju tagi, hvort sem er í formi hádegisverðar eða með öðrum hætti, er að það beri að fara mjög varlega í öllu slíku.



[10:55]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Mjög varlega, segir hæstv. fjármálaráðherra. Ég spurði hann einfaldrar spurningar, hvort það væri eðlilegt að Bankasýslan hefði þegið þessar gjafir sem ég taldi allar upp, gjafir sem m.a. voru gefnar af söluaðilum og söluráðgjöfum sem t.d. höfðu það hlutverk að skilgreina hverjir teldust hæfir fjárfestar og hverjir ekki.

Virðulegur forseti. Bankasýsla ríkisins er ekki fjárfestir og er ekki fjármálafyrirtæki. Þetta er opinber stofnun. Starfsmönnum hennar ber að fylgja siðareglum starfsmanna ríkisins og þar segir t.d. að þeir eigi að forðast hagsmunaárekstra. Í siðareglum Ríkiskaupa sem sér um mikið magn af opinberum innkaupum segir að starfsfólk stofnunarinnar hvorki semji um né taki á móti gjöfum, greiðum eða annarri fyrirgreiðslu fyrir sig, fjölskyldu sína eða aðra sem tengjast því. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er í alvörunni eðlilegt að Bankasýsla ríkisins sem selur eignir ríkisins þiggi gjafir frá fólki sem hefur beinlínis hagsmuni af því að gefa henni gjafir?



[10:57]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er augljóst að í svona málum eru einfaldar reglur langbestar. Mér finnst reglan sem vísað er til hjá Ríkiskaupum vera prýðileg og hún hentar ágætlega. Ég ætla hins vegar að segja það sem mína skoðun að ég held að í því samfélagi sem við búum í, í þeirri menningu sem skapast hefur í þessu samfélagi, þá þykir það ekki vera mjög stórt tiltökumál ef einhver sendir öðrum rauðvínsflösku sem getur kannski haft verðmæti á bilinu öðrum hvorum megin við 5.000 kr. Ég held að það sé ólíklegt til þess að valda einhverjum úrslitaáhrifum á það hvort mönnum verði treyst til að taka að sér mikilvægt hlutverk eins og það sem við erum að ræða um hér. En þetta er alltaf matsatriði og við höfum sjálf sett okkur reglur hér, þingmenn og ráðherrar í þessum efnum, sem gera ráð fyrir því að gjafir sem eru tækifærisgjafir geta verið þess eðlis að ekki þurfi að halda sérstaka skrá yfir þær en aðrar sem eru yfir ákveðnu verðgildi þurfi að gefa upp. Það finnst mér vera skynsamleg regla og mjög skiljanleg. Þannig að þetta er á endanum matsatriði. Einfaldar reglur eru bestar og það ber að fara varlega, sérstaklega þegar um er að ræða svona mikla hagsmuni eins og eru undir hér.