153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

gjafir til Bankasýslunnar.

[10:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Mjög varlega, segir hæstv. fjármálaráðherra. Ég spurði hann einfaldrar spurningar, hvort það væri eðlilegt að Bankasýslan hefði þegið þessar gjafir sem ég taldi allar upp, gjafir sem m.a. voru gefnar af söluaðilum og söluráðgjöfum sem t.d. höfðu það hlutverk að skilgreina hverjir teldust hæfir fjárfestar og hverjir ekki.

Virðulegur forseti. Bankasýsla ríkisins er ekki fjárfestir og er ekki fjármálafyrirtæki. Þetta er opinber stofnun. Starfsmönnum hennar ber að fylgja siðareglum starfsmanna ríkisins og þar segir t.d. að þeir eigi að forðast hagsmunaárekstra. Í siðareglum Ríkiskaupa sem sér um mikið magn af opinberum innkaupum segir að starfsfólk stofnunarinnar hvorki semji um né taki á móti gjöfum, greiðum eða annarri fyrirgreiðslu fyrir sig, fjölskyldu sína eða aðra sem tengjast því. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er í alvörunni eðlilegt að Bankasýsla ríkisins sem selur eignir ríkisins þiggi gjafir frá fólki sem hefur beinlínis hagsmuni af því að gefa henni gjafir?