153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

gjafir til Bankasýslunnar.

[10:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Á dögunum skiluðu starfsmenn Bankasýslunnar minnisblaði sem fjárlaganefnd hafði óskað eftir fyrir rúmu hálfu ári um gjafir og fríðindi sem þeir höfðu fengið í tengslum við störf sín við sölu á hlutum í Íslandsbanka. Í minnisblaðinu kemur fram að starfsmenn Bankasýslunnar hafi þegið dýra kvöldverði, vínflöskur, konfektkassa og forláta kokteilgerðarsett ásamt því að hafa þegið ótilgreindan fjölda hádegisverða fyrir ótilgreint verð. Þessar gjafir, sem samtals hlaupa á hundruðum þúsunda króna, komu frá umsjónaraðilum, fjármálaráðgjöfum, lögfræðilegum ráðgjöfum, söluráðgjöfum og söluaðilum sem allir eiga það sameiginlegt að hafa átt aðkomu að vinnu Bankasýslunnar við sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka.

Forseti. Hæstv. ríkisstjórn gaf út yfirlýsingu í apríl vegna sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka þar sem sagði m.a., með leyfi forseta: „Traust og gagnsæi verður að ríkja um sölu á eignum ríkisins.“

Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er það eðlilegt að starfsmenn Bankasýslunnar þiggi gjafir í tengslum við störf sín?