131. löggjafarþing — 114. fundur
 20. apríl 2005.
Atvinnumál í Mývatnssveit.
fsp. KLM, 315. mál. — Þskj. 344.

[14:52]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Sú fyrirspurn sem ég er að fylgja úr hlaði til hæstv. iðnaðarráðherra var lögð fram 11. nóvember árið 2004 og er því orðin töluvert gömul. Hún var að sjálfsögðu lögð fram vegna þess að þá var orðið ljóst að Kísiliðjunni í Mývatnssveit yrði lokað, en henni var lokað 1. desember síðastliðinn eins og menn muna. Við það töpuðust í Mývatnssveit 50 störf og að því er menn telja 30–50 afleidd störf eða 80–100 störf alls í Mývatnssveit, Húsavík, Akureyri og e.t.v. víðar. Þetta er af þeirri stærðargráðu að þetta er svipað og ef 2.700 manns hefðu misst vinnu sína í Kópavogi t.d.

Eins og ég sagði, virðulegi forseti, hefur mikið gerst síðan þessi fyrirspurn var lögð fram og m.a. hafa verið haldnir 14 fundir á hinu háa Alþingi þar sem fyrirspurnum hefur verið svarað. Með því að segja þetta er ég ekki að gagnrýna hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að hafa ekki svarað þessari spurningu fyrr. Ég vil taka það skýrt fram að við höfum verið í góðu sambandi um þetta mál og verið sammála um að geyma þessa fyrirspurn á ýmsum stigum vegna þess að annars gæti það kannski spillt fyrir ýmsum úrlausnarverkefnum sem var verið að vinna að í Mývatnssveit að sögn hæstv. ráðherra.

Þessi spurning sem hér er lögð fram er, eins og ég segi, kannski orðin úrelt. En það má spyrja um ýmislegt annað í þessu sambandi. Það kemur t.d. í ljós núna að 16 manns eru á atvinnuleysisskrá í Skútustaðahreppi, þar af tveir karlar, og það kemur fram að mjög margir karlmenn sem misstu vinnuna sína í verksmiðjunni á aldrinum 30–65 ára hafa farið austur á land að vinna við þá miklu uppbyggingu sem þar er. En það er ekki óskastaða. Það er neyðarúrræði og ekki æskilegt til frambúðar og ekki hægt að treysta á að menn fari svo langan veg sem frá Mývatnssveit og austur til þess að sinna vinnu í 10–13 daga samfellt með löngum vinnudögum. Sveitarstjórn áætlar að tekjur sveitarfélagsins geti dregist saman um 30% vegna þessa máls þó að það sé ekki komið fram af þeim ástæðum sem ég var að nefna hér áðan.

Virðulegi forseti. Í utandagskrárumræðu við iðnaðarráðherra 8. desember síðastliðinn upplýsti hún að það væri búið að taka upp samstarf við sveitarstjórn Skútustaðahrepps. Mig langar að spyrja í hverju það samstarf hafi verið fólgið og hvort það sé enn þá. Þar kom líka fram að nokkrar verkefnahugmyndir væru til skoðunar og mig langar að vita hverjar þær voru og hverjar þær eru. Það kom líka fram að þetta væri gert til að tryggja búsetu í Mývatnssveit (Forseti hringir.) og væri verið að vinna að því með öðrum fagráðuneytum. Mig langar til að fá að vita hvaða fagráðuneyti það séu og hvaða verkefni þar sé um að ræða.



[14:55]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Eins og rætt var á Alþingi þann 8. desember síðastliðinn og hv. þingmenn þekkja þá hefur rekstri Kísiliðjunnar hf. verið hætt. Kísilgúrvinnsla úr Mývatni heyrir því sögunni til.

Aðdragandi þessa er sá að árið 2000 lét meðeigandi ríkisins í Kísiliðjunni hf., World Minerals, í ljós það álit að rekstri verksmiðjunnar yrði fljótlega hætt. Fyrir því lágu tvær meginástæður, í fyrsta lagi þróun markaðar sem hefur dregist mjög saman og söluverð lækkað, og í öðru lagi stæði verksmiðjan frammi fyrir miklum endurnýjunarkostnaði sem ekki væru forsendur til að ráðast í.

Í þessari erfiðu stöðu var það algjört forgangsverkefni iðnaðarráðuneytisins að leita allra leiða til að afleiðingar yfirvofandi lokunar Kísiliðjunnar yrðu sem mildastar fyrir atvinnu- og menningarlíf og mannlíf í héraðinu. Hugmyndir Allied EFA um kísilduftsverksmiðju féllu vel að þessum sjónarmiðum ráðuneytisins og á grundvelli áætlana þeirra var verksmiðjan seld þeim. Nýir eigendur Kísiliðjunnar unnu í hartnær fjögur ár að þróun framleiðsluferla og rekstri tilraunaverksmiðju í Noregi. Sú þróunarvinna gekk vel og var lokið með góðum árangri. Eftir stóð að tryggja fjármagn til byggingar og rekstrar verksmiðjunnar. Sú vinna var komin á lokastig þegar lykilfjárfestinum snerist hugur á síðustu metrunum. Þetta kom öllum sem að þessu máli komu, öðrum fjárfestum, heimamönnum og ráðuneytinu, algjörlega að óvörum.

Við því varð þó ekkert gert en strax hafist handa við að leita annarra leiða til atvinnuuppbyggingar og þá fyrst og fremst horft til þess að nýta byggingar og innviði verksmiðjunnar sem gerði staðsetningu við Mývatn álitlega. Alls voru skoðaðir átta kostir. Fjórir þeirra voru fljótlega metnir álitlegastir og vilji er til þess að styðja við bakið á þeim öllum með einum eða öðrum hætti. Einn þessara kosta var þó metinn sýnu bestur en það er bygging verksmiðju sem framleiðir vörubretti úr endurunnum pappír og pappa. Hér er um að ræða nýjung sem byggir á einkaleyfum og reyndum framleiðsluaðferðum. Framleiðslan er umhverfisvæn og fellur því vel að ímynd Mývatns. Frumkvöðlarnir hafa kynnt þessa framleiðslu fyrir heimamönnum og undirrituð hefur verið viljayfirlýsing á milli landeigenda Reykjahlíðar ehf., iðnaðarfrumkvöðlanna, heimamanna og iðnaðarráðuneytisins um að ganga til samstarfs sem hefur að það markmiði að í húsnæði Kísiliðjunnar við Mývatn verði starfrækt verksmiðja sem framleiði vörubretti úr endurunnum pappírsafurðum.

Í viljayfirlýsingunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Áætlanir gera ráð fyrir að verksmiðjan taki til starfa í tveimur áföngum og allt að 18 manns fái þar vinnu í lok fyrsta áfanga en færri bætist við í þeim síðari. Eigendur Kísiliðjunnar hafa selt landeigendum Reykjahlíðar ehf. þær byggingar sem nýtilegar eru fyrir hina nýju iðnaðarstarfsemi. Jafnframt eru viðræður hafnar á milli iðnaðarfrumkvöðlanna og landeigenda Reykjahlíðar ehf. um sameiginlega aðkomu þeirra að óstofnuðu félagi um starfsemina. Stefnt er að því að starfsemin geti hafist á þessu ári.“

Við þetta er aðeins því að bæta að iðnaðarráðuneytið hefur falið Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins að ganga til samninga við frumkvöðlana um kaup á 200 milljónum kr. í hlutafé sem yrði framlag ríkisins í fjármögnun þessa verkefnis.

Hvað varðar atvinnuástandið í Mývatnssveit þá keyra, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, margir karlmenn austur á land til að starfa þar og auðvitað er það ekki lausn til frambúðar heldur vonandi tímabundin. Ég get sagt að ástandið er í sjálfu sér ekki eins slæmt og maður hefði getað ætlað miðað við það að þessi stóri vinnustaður þurfti að loka og hætta starfsemi. Fólkið sýnir þarna mikla þolinmæði og við vitum öll að núverandi ástand verður ekki til frambúðar. Því bind ég miklar vonir við að af þessu verkefni sem ég hef hér lýst geti orðið.



[15:00]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er vissulega erfið staða í sérhverju byggðarlagi þegar svo ber við að fyrirtæki hætta starfsemi af einhverjum ástæðum, hvort sem það er af þeim ástæðum sem reyndin varð í Mývatnssveit eða af öðrum, eins og við þekkjum úr öðrum byggðarlögum. Í sjávarútvegi taka fyrirtæki ákvarðanir um breytingar á starfsemi sinni, flytja atvinnu á milli byggðarlaga í kjölfar eigendabreytinga o.s.frv. Ég tel að mörgu leyti eðlilegt að iðnaðarráðuneytið hlutist til um þessi mál og aðstoði heimamenn við að byggja upp önnur atvinnutækifæri og finna leiðirnar eftir því sem kostur er.

Ég legg hins vegar áherslu á að ráðuneytið geri ekki greinarmun á því af hvaða ástæðum þessi staða kann upp að koma, geri ekki greinarmun eftir atvinnugreinum eða stöðum.



[15:01]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þau svör sem hér hafa komið fram og þær upplýsingar um nýsköpun í atvinnumálum í Mývatnssveit sem hér hefur verið fjallað um eins og með þá verksmiðju sem á að byggja vörubretti úr endurunnum pappír. Þeirri hugmynd og þeim mönnum sem ætla að byggja það upp fylgja góðar óskir frá mér um að vel takist til. Það er gott ef kannski 20–25 manns fá vinnu við það þegar seinni áfanga verður lokið.

Ég held að ég hafi heyrt rétt, og tek þá undir og fagna því ef ég heyrði rétt, að ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um að Nýsköpunarsjóður ætti að kaupa 200 millj. kr. hlutafé í því fyrirtæki sem verður stofnað utan um þessa starfsemi. Finnst mér góður bragur þar á en tek auðvitað undir það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var að tala um, ég hefði viljað sjá það víða um landið þar sem atvinnumál eru í uppnámi, hvort sem það er út af því að verksmiðjan sem ríkið átti, eins og hér, eða fiskvinnslufyrirtæki eru að leggja upp laupana eða draga saman seglin. Ríkið ber náttúrlega meiri ábyrgð á þeirri verksmiðju sem var í eigu þess.

Ég fagna því sem hér hefur komið fram og held að það sé mjög mikilvægt að iðnaðarráðuneytið og hæstv. ríkisstjórn fylgist betur með hinum litlu byggðarlögum. Ég tek skýrt fram og segi að þetta er í raun og veru módel sem við eigum að nota og eigum ekki að vera hrædd við.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra vegna þess að hún á eftir að koma í seinni ræðu: Kemur til greina af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra að við skoðum það að kaupa hið gjaldþrota fyrirtæki úti í Noregi sem var að vinna að kísilduftsverksmiðjunni, (Forseti hringir.) þær viðskiptahugmyndir og framleiðsluferla sem er búið að þróa þar til að setja m.a. upp (Forseti hringir.) hér á landi?



[15:04]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ef ég byrja á að svara því sem kom fram hjá hv. þingmanni núna í lokin tel ég ekki að það muni koma til þess að ríkið kaupi þetta fyrirtæki. Það er ekki þannig nú á dögum að ríkið hafi frumkvæði að rekstri sem þessum. Þetta er iðnaðarstarfsemi og miðað við það að einkaaðilar töldu reksturinn ekki geta gengið og ekki vera arðbæran þegar þessir nýju eigendur komu að, Allied EFA, tel ég ekki líkur á því að ríkið hafi frekari möguleika á því að láta þessa starfsemi ganga upp. Vissulega eru þetta allt saman mikil vonbrigði en ég held að við bætum okkur ekkert á að vera að tala um fortíðina í þessum efnum. Það er mikilvægt að tala um framtíðina og það verkefni sem nú er efst á baugi.

Ég vil þá tala aðeins skýrar en ég gerði áðan ef það hefur eitthvað misskilist. Það er ekki búið að taka ákvörðun um að Nýsköpunarsjóður kaupi hlutafé fyrir 200 millj. kr. í þessari framleiðslu, heldur er það til skoðunar hjá Nýsköpunarsjóði. Mér er kunnugt um að þeir eru að fara yfir þetta mál á faglegum forsendum og hafa m.a. skoðað starfsemi sem er í raun tilraunastarfsemi og fer fram erlendis. Ég tel að miðað við allt það sem komið hefur fram í málinu séu miklar líkur á því að af því verði að ríkið taki þarna þátt í starfseminni með þessu móti.

Til að brúa þetta bil hefur verið í gangi starfsemi í Mývatnssveit sem hefur verið styrkt af stjórnvöldum. Hún er nokkuð nýstárleg og heitir „Snow Magic“. Þar hefur verið mikið byggt úr snjó og þar fram eftir götunum. Ég veit að sumum finnst þetta kannski svolítið fáránlegt en engu að síður (Forseti hringir.) er þetta eitt af því sem við þó höfum reynt að gera. Eins mætti nefna kvikmyndaupptöku sem þarna hefur farið fram á þessu tímabili.