138. löggjafarþing — 57. fundur
 21. desember 2009.
tekjuöflun ríkisins, 3. umræða.
stjfrv., 256. mál (breyting ýmissa laga, auknar tekjur ríkissjóðs). — Þskj. 566.

[10:24]
Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér kemur til umfjöllunar við 3. umr. það mál sem við greiddum atkvæði um á fyrri fundi sem lýtur að nýju tekjuskattskerfi á Íslandi, þriggja þrepa kerfi eins og þekkist í nágrannalöndum okkar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið mikinn um að hér sé verið að flækja skattkerfið óhóflega. Það er ástæða til að vekja athygli á ferli þess flokks í þeim efnum.

Sjálfstæðisflokkurinn rak hér margþrepatekjuskattskerfi um langt árabil. Þar voru þrepin hins vegar öfug við það sem menn þekkja víðast hvar í heiminum. Lægstu þrepin í hinum þrepaskipta tekjuskatti Sjálfstæðisflokksins voru nefnilega fyrir fólkið með hæstu tekjurnar. Hér var einn tekjuskattsflokkur fyrir almenning. Ofan á það var sérstakur tekjuskattur sem var annað þrep. Og svo var sérstakt 10%-þrep, lægsta skattþrepið í margþrepatekjuskatti Sjálfstæðisflokksins — fyrir fjármagnseigendur, fyrir þá sem lifa af vöxtunum, fyrir þá sem hafa bara vaxtatekjur, fyrir þá sem eru í sterkastri aðstöðu til að leggja til í samfélaginu. Ekki nóg með það, Sjálfstæðisflokkurinn hagaði sínu flókna skattkerfi með þeim hætti að lágar skattprósentur í þessum fjármagnstekjuskatti og á atvinnufyrirtækin urðu til þess að þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga fluttu launatekjur sínar með fullkomlega lögmætum hætti yfir í einkahlutafélög og hófu að telja fram sem rekstraraðilar með ómældu flækjustigi í skattkerfinu og erfiðleikum fyrir skattyfirvöld í allri skattframkvæmd.

Þannig hefur það aldrei vafist fyrir Sjálfstæðisflokknum að flækja skattkerfið þegar það þjónar pólitískum hagsmunum hans.

Að reka þriggja þrepa skattkerfi er sannarlega ekki flókið. Það gera einfaldlega flestar þjóðir, m.a. nágrannaþjóðir okkar sem eiga því láni að fagna að hafa náð meiri jöfnuði í sinni tekjudreifingu en við og hafa um leið búið að meiri efnahagslegri farsæld en við. Það er afstaða ríkisstjórnarinnar að af nágrannaþjóðum okkar megum við mikið læra í þessum efnum. Við megum af þeim læra að auka jöfnuð í okkar samfélagi og að beita þeim aðferðum sem þar er beitt til þess. Upphrópanir Sjálfstæðisflokksins um flækjustig eru auðvitað bara illa dulbúin andstaða þeirra við auknar álögur á þá sem breiðust hafa bökin því að það sem m.a. er verið að gera hér — og Sjálfstæðisflokkurinn hefur kannski ekki talað mest um — er að verið er að færa fjármagnstekjuskattinn til nokkurs samræmis við það sem launafólk í landinu greiðir af sínum launum. Það er verið að færa hann úr 10% í 18% og í þeirri verðbólgu sem við erum í er það sannarlega orðið nokkuð svipuð skattheimta og er á launatekjum í landinu. Auðvitað eru það þessi atriði ásamt með auðlegðarskattinum sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa jafnvel gengið svo langt að líkja við gamla ekknaskattinn sem fólk greiddi bara af venjulegu íbúðarhúsnæði. Andstaða flokksins við það að við þær einstöku aðstæður í efnahagsmálum sem við búum leggi það fólk sem á 100 millj. kr. í hreinni eign eða meira lítils háttar til þess að létta byrðarnar í samfélaginu er einfaldlega óskiljanleg.

Virðulegur forseti. Við höfum rætt skattamál nú í nokkurn þaula undanfarna daga, þetta mál og önnur, aðdraganda þeirra og ástæður. Við höfum líka gert grein fyrir afstöðu okkar hér í atkvæðaskýringum. Vegna þess að samkomulag hefur orðið um fyrirkomulag umræðunnar læt ég þessa almennu umfjöllun um málið nægja að öðru leyti en því að hér hefur misskilnings gætt hvað varðar tengingar á launavísitölu sem voru settar inn við 2. umr. Þess misskilnings hefur gætt að vegna þess að við ákváðum að tengja þrepin við launavísitölu komi það sér bara vel fyrir meðaltekjufólk og hátekjufólk. Það er auðvitað fjarri öllum sanni. Það þýðir að mörkin í lægsta skattþrepinu muni hækka eftir því sem laun í landinu hækka og með því er leitast við að tryggja að þeir sem á lægstu laununum eru verði áfram í lægsta þrepinu, jafnvel þó að launaþróun verði hér jákvæð en flytjist ekki eftir nokkur ár upp í milliþrepið með hluta af tekjum sínum. Það kemur þess vegna öllum tekjuhópunum til góða að setja um þetta reglur og skýr viðmið þegar í upphafi. Hitt er síðan rétt að við þurfum að taka afstöðu til persónuafsláttarins og hvernig hann eigi að þróast samhliða þrepaskipta skattkerfinu og til vaxtabótakerfisins og barnabótakerfisins og við höfum ákveðið að gefa okkur tíma til þess næsta árið vegna þess að það er sannarlega býsna flókið verkefni, að fara í gegnum samspil tekjuskattskerfisins og bótakerfisins.

Þar kemur auðvitað margt til álita fyrir utan að tengja persónuafsláttinn við ákveðin viðmið vegna þess að í hinum nýja þrepaskipta tekjuskatti koma líka aðrar leiðir til greina sem eru samspil á persónuafslætti og skattprósentunni í hverju þrepi. Það má líka ná árangri til þess að tryggja að skattbyrðin aukist ekki með því að lækka prósenturnar í þrepunum og auðvitað verðum við líka að gefa okkur góðan tíma til að meta það í hvaða færum við erum og hversu mikið hægt er að halda aftur af skattbyrðinni á þeim árum sem nú fara í hönd. Þar er uppi mikil óvissa og þar sem ákvarðanir hafa verið teknar hér um fyrirkomulagið á næsta ári teljum við það fullnægjandi afgreiðslu málsins nú og rétt að gefa sér þennan tíma til að fara yfir aðra þætti málsins og komast að niðurstöðu í þeim, auðvitað í samráði við aðila vinnumarkaðarins og þó einkum auðvitað verkalýðshreyfinguna.



[10:31]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta var fróðleg ræða hjá hv. þm. Helga Hjörvar, ræða sem gekk út á að blekkja landslýð og reyna að koma inn þeirri hugmynd að hér væri verið að taka upp þriggja þrepa kerfi eins og þekkist á Norðurlöndunum þannig að ég vitni orðrétt í hv. þingmann.

Það kerfi sem verið er að innleiða með 14. gr. er vissulega með þremur þrepum en þetta á ekkert skylt við skattkerfi á Norðurlöndunum. Það er hin stóra blekking. Skattkerfið á Norðurlöndunum sem er notað til mikillar tekjujöfnunar þar byggir vissulega á þrepum þótt Danir séu reyndar að losna við eitt þrepið hjá sér og einfalda það í átt til kerfisins sem var á Íslandi, eða réttara sagt sem verður fram að áramótum, og mikil umræða fari fram í Svíþjóð um að fækka þrepunum og líkja meira eftir kerfinu eins og það er á Íslandi. Til að setja upp kerfi sem hv. þm. Helgi Hjörvar lýsti áðan þyrfti að lækka persónufrádrátt stórkostlega þannig að frítekjumarkið yrði kannski yfir 40.000 eða eitthvað svoleiðis, það þyrfti að setja skatta á þá lægst launuðu, lægri skatta, það er rétt að það komi fram, þannig að fleiri verði skattgreiðendur.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir lýsti akkúrat þessu kerfi, hvernig ætti að fara að því að breyta í norrænt velferðarskattkerfi á næsta ári, þ.e. með því að lækka persónufrádráttinn stórkostlega og láta þá tekjulægstu fara að borga skatta. Það er alrangt sem hv. þm. Helgi Hjörvar heldur fram, að hér sé verið að innleiða eitthvert skattkerfi eins og þekkist á Norðurlöndunum. Það er einföld blekking.

Þá fjallaði hv. þingmaður í löngu máli um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið með margþrepakerfi, talaði um að sumir hefðu ekki borgað neina skatta, aðrir borguðu skatta, síðan borguðu einhverjir bara fjármagnstekjuskatta og það væri í einkahlutafélögum og annað slíkt. Þessi málflutningur er ekki boðlegur á Alþingi og það er ekki boðlegt að bjóða upp á svona. Í öllum skattkerfum eru sérreglur fyrir atvinnurekstur og sérreglur fyrir einkaaðila. Ef það er allt saman talið saman geta einstaklingar lent í mörgum skattflokkum. Að tala um það sem þrepaskatt og flækjur er blekking og ekkert annað, það er stór blekking.

Það er kannski eitt sem hefur ekki verið fjallað nægilega vel um hér en er fjallað ágætlega um í nefndaráliti okkar í 1. minni hluta, gríðarlega mikil breyting verður á jaðarsköttum á Íslandi. Allir munu borga hærri jaðarskatta eftir kerfisbreytinguna og þessir jaðarskattar þýða að hvatinn til að hækka í tekjum minnkar vegna þess að stöðugt er meira tekið af launþeganum. Það er akkúrat gallinn á þrepaskattkerfinu að það letur til atvinnuþátttöku. Nú gætu einhverjir sagt að þetta væru ýkjur en það er samt staðreynd að í hæstu tekjuflokkunum eftir að þessi breyting hefur farið fram enda 66% af launakostnaði fyrirtækis við launþega ekki í vasa launþegans. Svo skulu menn tala um Svía að þeir séu með hæstu skatta í heimi. Ætli það verði ekki eins og í virðisaukaskattinum, að við náum þeim?



[10:38]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Við erum að ræða um tekjuöflun ríkisins og eins og fulltrúi Framsóknarflokksins í efnahags- og skattanefnd fór ágætlega í gegnum við 2. umr. leggjast framsóknarmenn ekki gegn því að hækka þurfi skatta á almenning. Þegar einn þriðji af tekjustofnum ríkisins hefur horfið og gífurlega miklar skuldir lagst á ríkissjóð liggur fyrir að einhvern veginn þarf að taka á þeim vanda. Við mótmælum hins vegar vinnubrögðunum. Við erum mjög ósátt við það hvernig staðið hefur verið að þessum breytingum á tekjuskattskerfinu og ég held að ef menn hefðu kannski gefið sér aðeins meiri tíma, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á í atkvæðaskýringum fyrr í dag, nýtt núverandi kerfi, hækkað persónuafslátt einstaklinga umtalsvert og staðgreiðsluna sjálfa hefði verið hægt að afla sömu tekna og hérna er lagt til varðandi tekjuskatt einstaklinga þannig að það liggi algerlega fyrir og fólk geri sér grein fyrir því að þær breytingar sem hér eru lagðar til eru ekki fyrst og fremst til tekjuöflunar heldur eru þetta hugmyndafræðilegar breytingar. Það er verið að flækja hlutina algjörlega að óþörfu og ríkisstjórnin hefur réttlætt það með því að verið sé að búa til meira jafnræði. Það er búið að hrekja það líka algjörlega. Núverandi kerfi hefði getað staðið undir því að afla ríkinu þessara tekna. Það hefði gert það að verkum að það væri ekki nauðsynlegt fyrir fyrirtæki núna um áramótin að uppfæra hvert einasta launakerfi í landinu sem þýðir umtalsverðan kostnað hjá fyrirtækjum sem mörg berjast þegar í bökkum. Í tilefni þessa langar mig til að minna á hvernig staðið var að þegar síðast var farið í jafnumfangsmiklar breytingar á tekjuskattskerfinu. Þá var mikil vinna lögð í að undirbúa þær breytingar.

Lengi hafði verið rætt um að taka upp staðgreiðslu skatta og það má fullyrða að það hafi verið þverpólitískur vilji í samfélaginu til að breyta og einfalda skattkerfið. Íslenskt atvinnulíf er þannig samsett að töluvert er um að fólk sé annaðhvort í fleiri en einu starfi eða með mjög sveiflukenndar tekjur. Það er töluvert ólíkt frá því sem t.d. þekkist á Norðurlöndunum en hugmyndin að þessum breytingum hjá ríkisstjórninni kemur einmitt annars staðar að á Norðurlöndunum og það er algerlega hunsað að það skuli vera töluverður munur á atvinnulífinu og hvernig tekjur fólks eru hér og þar. Þegar við stóðum síðast í svona miklum skattbreytingum voru flestir sammála um að æskilegt væri að útrýma eftirásköttum. Það hlýtur að vera hagstætt fyrir ríkisvaldið að geta nokkurn veginn áætlað greiðsluflæðið inn í ríkissjóð og að þeir geri sér ekki bara grein fyrir áætluðum tekjum eða rekstraráætlun heldur hversu mikla peninga ríkissjóður hefur í raun og veru á milli handanna. Hið sama hlýtur náttúrlega að gilda líka um heimilin, að fólk geri sér grein fyrir því frá mánuði til mánaðar hversu mikla skatta það borgar í raun og veru og ætlunin var einmitt að losna við eftiráskatta, reyna að útrýma þeim eins og hægt væri. Árið 1986 var settur mikill kraftur í að skoða þessi mál með nefndaskipan og í beinu framhaldi tóku ASÍ og VSÍ, sem er forveri Samtaka atvinnulífsins, frumkvæði í málinu og nánast sömdu um það. Núna sjáum við hins vegar að ASÍ ályktar hreinlega gegn ákveðnum hluta þessa frumvarps hvað varðar afnám af verðtryggingunni og persónuafslættinum. Samstarfið við aðila vinnumarkaðarins virðist vera nánast ekki neitt. Síðan var komið á samkomulagi um að taka upp staðgreiðslu opinberra gjalda í ársbyrjun 1988. Það lá fyrir samkomulag.

Ég man ekki eftir því að í kosningabaráttunni núna í vor, og það er ekkert sérlega langt síðan, hafi almennt verið rætt um að fara í svona umfangsmiklar breytingar á staðgreiðslukerfinu, að fara í þetta miklar breytingar á tekjuskattskerfinu. Ég held að það sé algjörlega ljóst að þeir flokkar sem eru að fara núna í þessar breytingar hafi ekki fengið umboð frá almenningi til þess. Mig langar annars til að þeir bendi mér á það því að það fór þá algjörlega fram hjá mér. Ég hef spurt fleiri hvort einhver umræða hafi farið fram á opinberum vettvangi um að til stæði að fara í eina stærstu og umfangsmestu byltingu á tekjuskattskerfinu frá 1988.

Þegar staðgreiðsla skatta átti 10 ára afmæli birtist grein í Tíund. Með leyfi forseta segir í greininni:

„Náið samráð var haft við fulltrúa atvinnulífsins í landinu um hvernig tilhögun staðgreiðslu skyldi vera. Allir voru sammála um að nýja skattkerfið okkar ætti að vera einfalt, auðskiljanlegt og aðgengilegt. Ákveðið var að nota eina skattprósentu með háum persónuafslætti sem ætlað var að koma í stað fjölmargra sérgreindra frádráttarliða.“

Svo mörg voru þau orð. Nýja skattkerfið sem fólk var sammála um að koma á átti að vera einfalt, auðskiljanlegt og aðgengilegt. Þetta sem verið er að gera er flókið, það verður erfitt fyrir fólk að skilja þetta og það verður óaðgengilegt þannig að þessar breytingar uppfylla ekki eina einustu af þeim forsendum sem var lagt upp með 1988 þegar síðast var farið í svona miklar breytingar. Meira að segja innan stjórnarflokkanna viðurkenna menn að þurft hefði að gefa sér meiri tíma í þetta, að kerfið sem verið er að koma á núna sé hálfgerður bastarður eins og var talað um í atkvæðaskýringum eftir 2. umr. Ef við ætluðum okkur í alvöru að koma upp sams konar tekjuskattskerfi og er á Norðurlöndunum hefðum við þurft að vinna þetta mun betur, við hefðum þurft að skoða þetta heildstætt út frá vaxtabótakerfinu og barnabótunum þannig að við hefðum tekið inn heildarkerfi í staðinn fyrir ákveðinn hluta af kerfinu.

Með leyfi forseta langar mig til að vitna í grein eftir Guðmund Jóelsson, löggiltan endurskoðanda, sem skrifaði í Morgunblaðið 20. nóvember sl. Hann spyr, með leyfi forseta:

„Skyldi það vera skynsamlegt nú, rúmum tuttugu árum síðar, að hverfa aftur frá einfaldleikanum yfir í flækjustig, sem hlýtur að vera miklu dýrara í framkvæmd og draga úr gegnsæi og möguleikum til eftirlits? Svar mitt er afdráttarlaust nei.“

Ég get ekki annað en tekið undir þetta, svarið hlýtur að vera nei.

Í þessari grein lýsir hann líka miklum áhyggjum af þessum hugmyndum, að það sé í rauninni verið að hverfa frá samsköttun hjóna. Þetta „getur leitt til mjög mismunandi skattbyrði fjölskyldna eftir því hvernig hjón kjósa að standa að öflun tekna í heild“ eða hvernig fólk hefur möguleika á því að afla sér tekna í heild. Fyrir allmörgum árum tókst að ná því fram, m.a. fyrir baráttu jafnréttissinna — og ég minni á, virðulegi forseti, að þessi ríkisstjórn hefur talað um sig sem jafnréttissinnuðustu ríkisstjórn sem hefur verið hér — að persónuafsláttur beggja hjóna skyldi nýtast að fullu á móti heildartekjum þótt annar aðilinn kysi að vera heimavinnandi. Hvar eru þær gagnrýnisraddir sem höfðu þá svo hátt? Hvernig stendur á að þær vilja hverfa til fortíðar í þessum efnum? „Hvað er orðið um hugtakið „fjölskyldustefna“ í þessum málum?“ spyr þessi löggilti endurskoðandi, Guðmundur Jóelsson, í grein sinni. Það skyldi þó ekki hafa horfið á sömu braut og þegar þeir stóðu að breytingunum á fæðingarorlofssjóðnum sem hefði raunar verið eitt stærsta skrefið í átt að jafnrétti í samfélaginu.

Það er að koma betur og betur í ljós að það er ekkert að marka þessa norrænu velferðarstjórn, eins og hún hefur viljað titla sig. Það er ekki um neina norræna velferð að ræða. Menn geta ekki einu sinni tekið almennilega upp hugmyndir frá Norðurlöndunum, heldur skila þeim hálfköruðum inn í þingið. Ég er nokkuð viss um að við munum gera fátt annað á næsta ári en að leiðrétta mistök sem væntanlega hafa verið gerð í þessu máli. Ég held að það muni koma stórum hluta almennings mjög á óvart þegar upplýst verður um þessar breytingar eftir áramótin. Það hefur ekki verið neinn tími til að kynna fólki breytingarnar og það er svo einkennilegt þegar það er orðið þannig að það þarf að breyta breytinganna vegna en ekki til að ná tilganginum með kerfinu sem er sá að skila ríkissjóði tekjum. Ríkissjóður þarf nauðsynlega á tekjum að halda og innan núverandi kerfis væri hægt að ná þessum tekjum. Það væri líka hægt að tryggja það með umtalsverðri hækkun persónuafsláttar, jafnvel er talað um hátt í 50.000 kr. Með því að hækka tekjuskattinn upp í u.þ.b. 42% væri hægt að ná þessum jafnræðissjónarmiðum sem stjórnarliðar hafa lagt svo mikla áherslu á. Ég get alveg tekið undir að það er mikilvægt að hafa í huga.

Það má benda á að það er líka mjög einkennilegt að einn af helstu ráðgjöfum hæstv. fjármálaráðherra, aðstoðarmaður hans og fyrrum ráðuneytisstjóri, Indriði Þorláksson, skilst mér að hafi verið mjög virkur í þeim breytingum sem voru gerðar á sínum tíma. Hann hefur þá væntanlega tekið undir þau markmið að skattkerfi okkar ætti að vera einfalt, auðskiljanlegt og aðgengilegt. Eitthvað hefur greinilega breyst í millitíðinni. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Þetta verða áföll fyrir fyrirtækin og það verður áfall eftir áramótin fyrir einstaklingana að þurfa að standa í því að reyna að skilja þetta kerfi. Það verður enn á ný erfitt og flókið fyrir fólk að skilja þegar kemur að því að skila inn skattframtalinu og það verður flókið og erfitt fyrir fólk að skilja nákvæmlega hinn endanlega tekjuskatt sem það þarf að greiða til ríkisins. Það er talað um að þessi eftirágreiðsla geti leitt til þess að minni fjármunir renni í ríkissjóð og það gæti verið um hundruð milljóna króna að ræða, jafnvel milljarða. Eins og virðulegur forseti getur heyrt á orðum mínum sé ég fátt gott við þetta mál.

Að lokum vil ég nefna sérstaklega vinnubrögðin í þinginu. Þau hafa verið algjörlega til skammar. Menn hafa haft lítið svigrúm til að kynna sér málið sjálft og þær breytingartillögur sem voru gerðar fyrir 2. umr. Ég vil fá að vitna í orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar úr nefndaráliti hans sem hann ritar „seint á föstudagskvöldi en á laugardagsmorgni hyggst meiri hlutinn kynna þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu“. Hann neyddist til að skrifa nefndarálit sitt án þess (Forseti hringir.) að vera búinn að fá breytingartillögurnar í hendurnar og með leyfi forseta segir hv. þingmaður:

„Þetta verklag er óásættanlegt og vitlaust og má segja að kannski beri skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar þess merki.“

Ég vil bara segja að það er ekki spurning um kannski, heldur bera þau þess merki.



[10:54]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum áfram við 3. umr. skattbreytingar ríkisstjórnarinnar sem eru viðamiklar og að sumu leyti flóknar en að sumu leyti æskilegar líka. Frumvarp þetta gengur út á það að afla ríkinu aukinna tekna með breytingum á ýmsum lögum, m.a. um tekjuskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, fjármagnstekjur og tryggingagjald. Hér er verið að innleiða fjölþrepatekjuskattskerfi. [Kliður í þingsal.] — Frú forseti. Má ég biðja um hljóð í salnum? Fjölþrepatekjuskattskerfi getur að mörgu leyti verið æskilegt. Það leiðir til meiri jafnaðar og að því leytinu til er það æskilegt miðað við það sem á undan er gengið í íslensku efnahagslífi undanfarin ár og áratugi. Það þarf þó að varast að ganga of langt í þeim efnum og það þarf að varast að leggja einhvers konar hátekjuskatt á allt of lágar tekjur sem og að hafa skattprósentuna það háa að hvatinn til vinnu dofni um of. Ég tel ekki svo vera í þessu frumvarpi þó að augljóst sé að heimilin muni illa þola auknar skattahækkanir.

Hvað varðar áhrif skattbreytinganna á efnahagslífið almennt og þjóðarhag telur Hreyfingin að sá rökstuðningur sem er í frumvarpinu gangi einfaldlega ekki upp við aðstæðurnar í íslensku efnahagslífi nú um stundir. Sá rökstuðningur byggist á því að ríkisútgjöld sem fjármögnuð eru með skattheimtu geti haft örvandi áhrif á hagkerfið í niðursveiflu en telur jafnframt til misskilnings að aukin skattheimta dragi úr eftirspurn í hagkerfinu. Einnig er því haldið fram í rökstuðningnum að aukin ríkisútgjöld muni auka eftirspurn í hagkerfinu meira en sem nemur samdrætti einkaneyslu vegna samsvarandi skattheimtu. Rök þessi geta verið góð og gild við ákveðnar aðstæður og þessar aðferðir hafa reynst vel sem sveiflujafnandi og kreppuminnkandi aðgerðir. Sem slík gengur kenningin upp, þessi svokallaða keynesíska kenning, í reynd þó að það beri að varast ýmislegt við notkun aðferðanna, sérstaklega hvað varðar þá freistingu að ofgera notkun aðferðanna og varanleika þeirra.

Það er hins vegar ljóst að tekjuskattsstofnar ríkissjóðs hafa rýrnað mjög mikið og sumir hafa allt að því horfið. Almennar launatekjur og tryggingagjaldið eru stöðugir og tiltölulega auðinnheimtir skattstofnar og því er freistandi að fara þá leið í leit að tekjum fyrir ríkissjóð. Í því efnahagsástandi sem við búum við núna eru þessir skattstofnar hins vegar viðkvæmir, geta auðveldlega rýrnað að upphæð og fjölda greiðenda ef brottflutningur frá landinu heldur áfram. Það er mjög varasöm þróun og talsvert líkleg og getur valdið umtalsverðum vandræðum mjög fljótt inn í framtíðina.

Auknir skattar á heimilin eru erfið viðbót við þær hremmingar sem þegar hafa dunið á þeim. Að sama skapi er tryggingagjaldið í raun gjald fyrir að hafa fólk í vinnu og það getur takmarkað enn frekar vilja fyrirtækja til mannaráðninga. Það er því hætt við, frú forseti, að þessar skattahækkanir muni einfaldlega leiða til enn frekari samdráttar en þegar hefur orðið þar sem það mun þýða að ráðstöfunartekjur heimilanna munu skerðast. Í þessu sambandi er vert að benda á að ef hugmyndin er að auka eftirspurn og einkaneyslu er myndarleg niðurfærsla á verðtryggðum höfuðstól íbúðalána heimila líklegri til að leiða til þeirrar auknu eftirspurnar sem frumvarpið vill ná fram sem og að hafa góð sálræn áhrif á heimilin þar sem bjartsýni þeirra á framtíðina mundi aukast. Aukin skattheimta hefði hins vegar þveröfug áhrif hvað þetta varðar.

Annar minni hluti leggur því til að tekið verði tillit til þeirra breytinga sem Hreyfingin hefur lagt til fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga. Þar er m.a. fallið frá því að hækka skatta á almenning en lagt til að ríkissjóður afli frekari tekna með því að taka inn alvöruauðlindagjald af annars vegar aflaheimildum og hins vegar raforkusölu til stóriðju sem og gistináttagjald. Þetta eru tekjur sem koma af þeim greinum sem best standa í dag. Þetta eru tekjur af útflutningsgreinunum hverra hagur hefur vænkast til muna, eru best aflögufærar og ættu að öðru óbreyttu að vera færar um að reiða af hendi gjald fyrir notkun auðlindanna. Hingað til hafa þær ekki greitt neitt fyrir þau afnot. Þó að raforkuverðið sé að vísu eitthvert er það ákveðin lágmarksupphæð sem stóriðjan fær nánast á silfurfati og því er mikilvægt upp á framtíðina að gera og hagkvæmari nýtingu náttúruauðlindanna að þegar verði farið að taka af þeim ákveðið gjald.

Þessar skattbreytingar hafa verið unnar á gríðarlegum hraða og þær eru illa unnar. Það er mjög varasamt að innleiða svona viðamiklar breytingar á skattkerfum með svo stuttum fyrirvara sem raun ber vitni í þessu máli. Það eru líkur á því að mistök verði gerð um áramótin og í upphafi næsta árs og það er mjög erfitt fyrir skattkerfi sem fer af stað á brauðfótum að rétta sig við aftur. Það tapar ákveðnum trúverðugleika og við slíkt tap aukast skattundanskot til muna. Það er mjög erfitt að ná aftur tökum á kerfinu, á skattundanskotunum og þeim trúverðugleika sem mun hverfa. Þessar skattbreytingar eru ekki nægilega vel ígrundaðar. Þær eru ekki nægilega vel yfirfarnar og efnahags- og skattanefnd hefur haft alveg fáránlega skamman tíma til að ígrunda þær. Fjölmargir hafa vissulega komið fyrir nefndina en lítil sem engin efnisleg umfjöllun hefur verið um þær innan nefndarinnar sjálfrar þó að ýmis sjónarmið hafi komið fram af hálfu einstakra nefndarmanna.

Það er líkt með þessar skattbreytingatillögur sem og aðrar lagabreytingar sem liggja fyrir þinginu núna að það er verið að afgreiða mjög mikla lagasetningu hér á methraða við aðstæður sem eru algjörlega óásættanlegar. Eins og kom fram hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur rétt áðan eru menn að skrifa nefndarálit allar nætur og allar helgar. Menn eru við það illa sofnir og illa hvíldir og það eru gerð mistök, bæði í álitum sem og í lagasetningunni sjálfri. Það hefur þegar komið í ljós að m.a. er búið að selja tvo ríkisbanka í heimildarleysi og það er ekki neitt smámál. Það er að koma inn frumvarp sem tekur á því á síðasta degi fyrir jólahlé þingsins. Löng runa af mistökum er gerð í þinginu þessa dagana og það er einfaldlega að mínu mati skammarlegt fyrir Alþingi að starfa með þessum hætti. Það er óþarfi fyrir Alþingi að starfa svona. Það er einfaldlega hægt að fækka málum sem á að afgreiða fyrir jól og fyrir áramót og reyna að afgreiða hin með betri hætti en gert er. Hreyfingin leggur því til að frumvarpinu um tekjuskattshækkanir verði einfaldlega frestað og það betur ígrundað þannig að fólki gefist betri tími til að undirbúa þær skattbreytingar sem þurfa þó að eiga sér stað. Það liggur ekki á að gera það fyrir áramót. Þó að það sé að mörgu leyti æskilegt er sú hætta einfaldlega fyrir hendi eins og áður hefur komið fram að mjög mörg mistök verði gerð um áramótin. Þetta eykur flækjustigið. Til frambúðar ætti það ekki að vera vandamál vegna þess tækniumhverfis sem íslensk atvinnufyrirtæki og skattstjóri búa við en til skemmri tíma er mjög auðvelt að gera mistök í þessum málum. Þau er erfitt að leiðrétta og það er erfitt að leiðrétta þann brest á trúverðugleika sem skattkerfið verður fyrir þegar þau mistök verða gerð. Það er í rauninni ekki spurning um hvort, heldur bara hvenær og hve mikil þau mistök verða.

Því leggjum við til að þessum breytingum verði frestað og að frekara tillit verði tekið til breytingartillagna Hreyfingarinnar sem koma fram síðar.



[11:03]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn höfum ítrekað í þeirri umræðu sem nú stendur yfir, um tekjuskatt og hækkun á tekjuskatti og ýmsa aðra nýja skatta sem lagðir verða á þjóðina, varað við þeirri efnahagsstefnu sem birtist í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Við höfum varað við því vegna þess að reynslan sýnir að tilraunir til að reyna að skattleggja sig út úr þeirri stöðu sem við Íslendingar erum í eru allt að því dæmdar til að mistakast. Vissulega er hægt að finna dæmi þar sem orðið hafa áföll og ríkissjóðir viðkomandi landa hafa lent í vandræðum að menn hafi tímabundið jafnvel hækkað skatta til að bjarga ríkissjóðum sínum. En það er engin spurning um að skattahækkun verður alltaf þess valdandi að hætta á samdrætti eykst, en menn hafa látið slíkt yfir sig ganga þegar þeir hafa metið það svo að það væri nauðsynlegt og það væri forgangsatriði að bjarga ríkissjóði, afleiðingar af því ef ríkissjóður færi illa væru alvarlegri en það sem fylgdi því að framlengja efnahagslægð eitthvað.

Nú háttar svo til á Íslandi, frú forseti, að við höfum lent í því að í kjölfar bankahrunsins varð alveg gríðarlegur samdráttur í efnahagslífi okkar. Jafnframt þurfum við að draga saman útgjöld þegar kemur að hinu opinbera. Það mun valda samdrætti. Af þeirri staðreynd að heimilin hafa minna á milli handanna til að kaupa vöru og þjónustu — af því að lánin hafa hækkað, íbúðalánin, bílalánin, neyslulánin, öll lán hafa hækkað annars vegar vegna þess að gengi íslensku krónunnar hrundi og hins vegar vegna þess að verðbólgan hefur hækkað lánin — má ljóst vera að enn meiri samdráttur er yfirvofandi. Nú þegar, frú forseti, er atvinnuleysið allt of mikið og stór hluti íslenskra heimila hefur mátt þola það að laun hafa verið lækkuð. Með öðrum orðum, allt bendir til þess að áframhaldandi samdráttur verði. Við slíkar aðstæður verður hið opinbera að gera allt sem í þess valdi stendur til að reyna að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Um þetta hljóta allir að vera sammála.

Ég væri í hópi þeirra sem segðu að ef engar aðrar leiðir væru en þær að hækka skatta til að koma í veg fyrir að ríkissjóður færi nánast á hausinn yrðu menn að sætta sig við lengri kreppu og dýpri, meiri samdrátt hjá heimilunum í landinu, meiri samdrátt kaupmáttar, meira atvinnuleysi. Það væri sennilega óumflýjanlegt. Þó væri skynsamlegast ef menn treystu sér til að skera þá meira niður í ríkisútgjöldum en allar rannsóknir sýna að líklegra er að við náum atvinnulífinu aftur af stað með skattalækkunum heldur en auknum útgjöldum ríkissjóðs. En það er pólitískur veruleiki sem við horfumst í augu við að við verðum að gæta að ákveðinni þjónustu í samfélagi okkar og takmörk eru fyrir því hvað við komumst langt niður með ríkissjóð í útgjöldum. En þegar fyrir liggur, frú forseti, útreiknuð og útfærð áætlun um hvernig við getum bjargað ríkissjóði, komist í gegnum þessa kreppu með ríkissjóðinn og á sama tíma örvað hagkerfið þá sætir það furðu að hlýða á margt af því sem fram hefur komið í málflutningi stjórnarliða, hv. þingmanna og hæstv. ráðherra, sem tala eins og núna sé brýn nauðsyn á því að breyta og umbylta íslenska skattkerfinu til að ná fram einhverjum pólitískum markmiðum. Verkefni dagsins og næstu mánaða og missira, frú forseti, er að bjarga íslenskri þjóð úr þeirri kreppu sem við stöndum núna frammi fyrir. Vel má vera að það séu pólitískar deilur um hvernig skattkerfið eigi að vera uppbyggt, hvort það sé fyrst og fremst notað til að jafna tekjur eða til að afla ríkissjóði tekna. Sá pólitíski ágreiningur er eðlilegur. En það er hörmulegt til þess að vita að ekki skuli hafa náðst samstaða í þinginu um að fara aðra leið en þá sem nú blasir við til að vinna okkur út úr kreppunni. Ég verð að segja eins og er, það hefði verið skynsamlegra fyrir ríkisstjórnina að taka þá leið sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram, sem ég veit að góður stuðningur er við hjá stjórnarandstöðunni allri, og vinna þá á næstu 2–3 árum þær breytingar sem þeir flokkar sem nú mynda ríkisstjórnina vilja gera á skattkerfinu til að ná fram því sem þeir kalla meira réttlæti. Nú er frægt hvernig þeir flokkar hafa talið sjálfa sig vera handhafa hins endanlega réttlætis en sumum finnst réttlæti þeirra jafnvel verra en versta ranglæti heimsins.

Þess vegna, frú forseti, ítrekum við sjálfstæðismenn enn á ný að það er svo hættulegt fyrir okkur að fara að hækka skatta við þessar aðstæður að allt að því er hægt að fullyrða með vissu að þær efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar munu valda skaða. Enn á ný, frú forseti, minni ég á að þegar kreppan varð í Bandaríkjunum, vegna þess að fjármálakerfið þar lenti í ógöngum árið 1929, þá var það svo að til þurfti rangar aðgerðir ríkisstjórnar Bandaríkjanna og seðlabanka Bandaríkjanna, bæði í stjórn peningamála, í skattamálum og í ríkisfjármálum, til að breyta þeirri kreppu sem á Bandaríkjunum skall yfir í kreppuna miklu. Hún varð nefnilega, frú forseti, ekki kreppan mikla fyrr en rangar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar buldu og dundu yfir. Við stöndum frammi fyrir því núna á Íslandi að vegna aðgerða og þeirrar stefnu sem núverandi ríkisstjórn leggur af stað með sem byggir á skattahækkunum ofan á þann samdrátt sem orðið hefur í hagkerfinu og fyrirsjáanlegur er á næstu missirum vegna þeirra aðstæðna sem ég fór yfir áðan, þá er svo augljóst að kreppan á Íslandi mun dýpka og hún mun verða lengri.

Það er valkostur, frú forseti, og það er alveg rétt sem stjórnarliðar hafa bent á að með því að taka þá peninga sem ríkið sannarlega á í séreignarlífeyrissjóðunum, peninga sem ríkið á, að ef við tökum þá núna eyðum við þeim ekki seinna. Það er alveg hárrétt. En þá ber að horfa til þess hver stærð almenna lífeyrissjóðakerfisins er og hversu mikla fjármuni ríkið á inni í því kerfi. Menn verða að horfa á valkostina. Ef við förum ekki þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til og ef það gengur eftir sem færa má sterk rök fyrir að muni gerast gangi skattaákvarðanir og áform ríkisstjórnarinnar eftir aukast líkur á landflótta. Þá munu fleiri Íslendingar, eigi þeir þess kost, flytja af landi brott og sækja sér störf annars staðar. Þetta var reynsla t.d. Færeyinga. Það er ekki svo að hægt sé að hækka skatta og ætlast til að það eina sem gerist sé að ríkissjóður fái meiri peninga. Hærri skattar enn og aftur munu auka samdráttinn og munu auka líkur á fólksflótta, munu draga úr efnahagsstarfseminni og draga um leið líka úr tekjum ríkissjóðs þegar upp verður staðið. Það eru góðar líkur á því eða öllu heldur, frú forseti, svo ég leiðrétti mig strax, það eru slæmar líkur á því.

Þess vegna, frú forseti, er það allt svo hörmulegt hvernig að þessum skattatillögum ríkisstjórnarinnar hefur verið staðið. Þær eru illa útfærðar, þær eru vanhugsaðar og bent hefur verið á, bæði í efnahags- og skattanefnd og í þingsal, að ýmis atriði í útfærslu þessara tillagna ganga ýmist ekki upp eða munu valda verulegum skaða. Efnahagsáhrifin verða augljós. Það er ógæfa fyrir okkur að svona skuli hafa verið staðið að málum.

Frú forseti. Ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, er að dýpka og lengja þá kreppu sem við stöndum nú frammi fyrir og því fylgir mikil ábyrgð.



[11:13]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í kjölfar bankahrunsins fyrir um ári síðan kom skýr krafa frá almenningi um að þingheimur og þingmenn mundu vanda sig, taka sér tíma í að fara yfir það sem hefði farið úrskeiðis og koma með vel ígrundaðar tillögur um hvernig koma mætti þjóðinni úr þeim vanda sem hún enn glímir við. Síðasti ræðumaður orðaði það ágætlega. Við Íslendingar erum í kreppu en ég hef skynjað það svo úti í þjóðfélaginu að fólk upplifir það ekki enn þá að kreppan sé almennilega skollin á. Það er vegna þess að velferðarkerfið og sá grunnur sem hefur verið til staðar og var lagður á síðustu 10 árum er góður, hann hefur fleytt þjóðinni áfram það ár sem er liðið er frá bankahruninu.

Við í stjórnarandstöðunni höfum ítrekað bent á að þau skref sem nú er verið að stíga muni dýpka kreppuna, þau muni gera kreppu sem hefði getað varað í stuttan tíma og hefði getað snert landsmenn lítils háttar, meiri og að hún geti varað í langan tíma. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að þegar krafa almennings er að þingmenn vandi sig skuli ríkisstjórnin viðhafa þau vinnubrögð sem hún hefur sýnt á undanförnum dögum. Það er verið að umbylta skattkerfi þjóðarinnar, og hvenær komu þær skattatillögur fram? Fyrir um 20 dögum. Þetta er keyrt í gegnum Alþingi með látum og vonast til að nefndir Alþingis fái ráðrúm til að breyta slæmum tillögum í a.m.k. þolanlegar. Við í stjórnarandstöðunni og við í Framsóknarflokknum höfum lagt okkur öll fram. Það hefur örlítið þokast í rétta átt en ekki nægilega. Framsóknarflokkurinn leggur því til að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar og það er ekki traustsyfirlýsing til núverandi ríkisstjórnar. Þessum skattafrumvörpum ætti nánast öllum að vísa út í hafsauga en reglur Alþingis leyfa því miður ekki að það sé orðað með þeim hætti.

Virðulegi forseti. Eitt skýrasta og besta dæmið um það hversu slæleg vinnubrögðin eru er þegar það uppgötvaðist í fjárlaganefnd um daginn að hæstv. ríkisstjórn gleymdi að sækja um heimild í lögum til að selja bankana. (ÖJ: Einkavæða.) Einkavæða bankana, og kemur vel á vondan vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir hafa í mörg, mörg ár talað um að einkavæðingin sem gerð var 2002 hefði verið illa framkvæmd en viðhafa svo nákvæmlega sömu vinnubrögð. Ef þingheimur lærir ekki af mistökum fyrri ára, sama hver á í hlut, er illa komið fyrir þjóðinni. Ef það er svo, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á, að vinnubrögð núverandi ríkisstjórnar eru jafnvel verri en þeirra sem hafa setið á undan á þjóðin ekki von á góðu og þá er það einfaldlega þannig, frú forseti, að við í stjórnarandstöðunni verðum að taka okkur meira á, við verðum að benda ítrekað og oftar á þau mistök sem nú er verið að gera vegna þess að þau verða ekki tekin til baka.

Hvað er ríkisstjórnin er að gera með skattahækkununum? Mér reiknast til ásamt starfsmönnum Alþingis að ríkisstjórnin ætli sér að sækja 51 milljarð í vasa skattgreiðenda, en ég tek fram að það er afar erfitt að nálgast þessar tölur, sérstaklega í ljósi þess að þær breytast dag frá degi og þá skeikar um milljarða. Tökum sem dæmi að ríkisstjórnin ætlaði að reikna sér arð frá sölunni á Arion banka algerlega án lagaheimilda og hrökklaðist til baka eftir að stjórnarandstaðan benti á að þetta væri mjög líklega kolólöglegt, en þetta eru vinnubrögðin. Ríkisstjórnin er eins og ég segi að sækja sér um 51 milljarð, þessi tala er nefnd með öllum fyrirvörum. En höfum eitt í huga: Vaxtakostnaður ríkisins á þessu ári af Icesave er 45 milljarðar. Allar þær skattbreytingar sem nú dynja á landsmönnum munu fara í það eitt að greiða vexti af Icesave. Tekjuskattur 70 þúsund skattgreiðenda mun bara fara í það að greiða vextina af Icesave. Mér skilst að um sé að ræða alla íbúa Kópavogs, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Akraness og ég gleymi örugglega einhverjum. Skattgreiðendur eru 180 þúsund og 70 þúsund þeirra munu greiða vexti af Icesave og hér leyfa menn sér það í umræðunni að koma upp og segja að þeir standi um leið vörð um velferðarkerfið. Það gengur einfaldlega ekki upp, frú forseti. Það er ekki hægt að leggja jafnmiklar álögur á fyrirtæki og einstaklinga í landinu ofan á Icesave og segja um leið að staðinn sé vörður um velferðarkerfið.

Hvað gerist ef tekjur ríkissjóðs lækka? Skorið verður niður í velferðarkerfinu og það er einmitt það sem við framsóknarmenn höfum gagnrýnt, að hér sé verið að ráðast á þá sem síst skyldi. Ráðist var á aldraða og öryrkja í sumar. Þeir hafa ítrekað lýst yfir óánægju sinni með framgang ríkisstjórnarinnar. Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað komið fram og sagt að stöðugleikasáttmálinn sé í mikilli óvissu og að allir samningar sem ríkisstjórnin hefur gert við þessa aðila vinnumarkaðarins séu í rauninni sviknir, sviknir af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Við framsóknarmenn lögðum fram skynsamlega tillögu. Hæstv. fjármálaráðherra kom upp í ræðustól áðan og sagði að tillögur okkar væru óábyrgar. Ég hafna þeim málflutningi algerlega. Við leggjum til að farið verði í hækkanir í því skattkerfi sem við búum við núna. Þar er hægt að sækja tekjur án þess að það bitni á millistéttinni og þeim sem minna mega sín. Þingmenn úr öðrum þingflokkum hafa komið hér upp og sagt og tekið undir að það sé hægt að hækka persónuafsláttinn og það er einmitt það sem við framsóknarmenn höfum bent á. Það var samþykkt í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að hækka persónuafsláttinn, að hann mundi fylgja verðlagi, en nú er lagt til að slíkt verði ekki gert. Það eru svik á samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins. Er nokkur furða að þeir lýsi yfir að ríkisstjórnin svíki allt sem hægt er að svíkja?

Við leggjum líka til og tökum að hluta til undir með sjálfstæðismönnum sem hafa bent á það að hægt sé að sækja tekjur í séreignarlífeyrissparnað. Við viljum fara milliveginn, vinna með núverandi skattkerfi og sækja helminginn í séreignarlífeyrissparnaðinn eða um það bil. Það er skynsamleg leið. Í nefndaráliti meiri hlutans benda menn nefnilega sjálfir á þá ítarlegu og miklu gagnrýni sem komið hefur frá Alþýðusambandinu, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og fleirum. Þar er varað við flækjustigi tillagna ríkisstjórnarinnar. Af hverju? Jú, vegna þess að þær leiða til mikilla eftirágreiðslna, innheimtuhlutfallið mun lækka og sú skylda að launamaður skuli tilkynna atvinnurekanda hvaða skatthlutfalli hann tilheyrir væri erfiðleikum bundið og í sumum tilfellum ómögulegt. Þá hafa þeir líka bent á að hin fulla samsköttun á tekjum samskattaðra aðila yrði rofin en bætur yrðu eftir sem áður miðaðar við samanlagðar tekjur.

Formaður efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Helgi Hjörvar, kom jafnvel í ræðustól og viðurkenndi að því miður væri ekki hægt að ganga skrefið til fulls vegna þess að það sem hér væri verið að gera væri of flókið. Ég skildi hv. þingmann ekki öðruvísi. Hvenær eiga þessi lög að taka gildi? Eftir rúma viku, hæstv. forseti, 1. janúar 2010 eiga landsmenn að taka á sig skattkerfi sem nánast enginn veit hvernig á að framkvæma og nánast enginn hefur farið almennilega yfir. Hvað mun þetta leiða af sér? Gríðarlegan kostnað, frú forseti, gríðarlegan kostnað fyrir einstaklinga, fyrir fyrirtæki sem þurfa að umbylta tölvukerfum og því sem þau hafa til að reikna út í frekar einföldu skattkerfi. Þau munu leggja fram gríðarlegar fjárhæðir.

Þá vil ég koma að því höfuðatriði sem við framsóknarmenn höfum verið að benda á, að það þarf að slá skjaldborg um heimilin og fjölskyldurnar í landinu. (ÞrB: Tapað/fundið.) Hér var kallað fram í að það væri tapað/fundið á Alþingi. Hv. þm. Þráinn Bertelsson benti á það. (Forseti hringir.) Ég ítreka það að við framsóknarmenn höfum lagt til að slegin verði skjaldborg um heimilin (Forseti hringir.) og ég lýk mínu máli með því að kalla eftir því frá hæstv. ríkisstjórn.



[11:26]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum í 3. umr. um þetta frumvarp til laga um tekjuöflun ríkisins. Það má segja að flestar þær athugasemdir sem þinginu hafa borist frá umsagnaraðilum í málinu séu í sama anda og við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir allt þetta ár frá því fyrir kosningar, þeim anda sem sveif yfir efnahagstillögum okkar sem teflt var fram strax í júní og síðan aftur í haust. Þar er meginatriði að núna búum við ekki við aðstæður til að leggja auknar byrðar á einstaklinga, heimili eða atvinnustarfsemi í landinu. Um þetta grundvallaratriði virðist vera skýr ágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna tveggja og okkar í stjórnarandstöðu þar sem ríkisstjórnin hefur ekki viljað taka til alvarlegrar skoðunar aðrar leiðir sem við höfum bent á til lausnar á vandanum.

Sannarlega er mikill vandi fyrir dyrum. Sannarlega getum við ekki búið við fjárlagahalla af þeirri stærðargráðu sem við sjáum á þessu ári og lagt er upp með á næsta ári til lengri tíma. Augljóst er að við verðum fljót að komast í stórkostleg vandræði til langs tíma ef okkur tekst ekki að laga fjárlagahallann og gatið í rekstri ríkisins hratt og örugglega á um það bil 2–4 árum. Þess vegna eiga menn að leggja kapp á það í þinginu að tefla fram og takast á um efnahagstillögur sem líklegar eru til að greiða leiðina sem allra fyrst út úr þessari þröngu stöðu. Um þessa nálgun er mikill ágreiningur á milli flokkanna og ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst hálfdapurlegt í hvaða farveg umræðan hefur farið á hinu háa Alþingi. Umræðan af hálfu stjórnarflokkanna hefur einkum borið þess merki að þeir telji sig þurfa að gera upp fortíðina, þeir þurfi að tala um það hvers vegna við erum komin í þessa stöðu, hvað það var sem fór úrskeiðis. Merkilegt er að hlusta t.d. á þingmenn Samfylkingarinnar láta hver stóryrðin falla af öðrum, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eyðilagt skattstofnana í landinu. Hvað var sá ágæti flokkur að hugsa fyrir kosningarnar 2003 með risastóran skattalækkunarpakka upp á yfir 20 milljarða? Flokkarnir sem buðu fram fyrir kosningarnar 2003 töluðu fyrst og fremst um að lækka skatta, hver á fætur öðrum. Nú koma þessir sömu menn og báru ábyrgð á þeirri stefnu upp í ræðustól og tala um að við höfum ratað í þessar ógöngur vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi með einhverjum hætti eyðilegt skattstofnana. Þessi flokkur sem ég minntist á, Samfylkingin, var líka í ríkisstjórn frá árinu 2007 og hans spor í þeirri ríkisstjórn markast fyrst og fremst af útgjaldaaukningu. Það kom kippur í vöxt útgjalda ríkisins þegar Samfylkingin kom í ríkisstjórn og sá fjárlagahalli sem við glímum við núna er ekki síst þeirri stefnu Samfylkingarinnar að kenna að koma inn í ríkisstjórn og stórauka útgjöld ríkisins. Það er því heldur holur hljómur í málflutningi þeirra sem nú sitja í ríkisstjórn þegar talað er um að allt sé þetta Sjálfstæðisflokknum að kenna og hafi ekkert með þeirra eigin áherslur að gera.

Mergur málsins er einmitt sá að í stað þess að nota tímann á Alþingi, þennan dýrmæta tíma sem við höfum til að taka mikilvægar ákvarðanir, til að ræða í þaula hvers vegna við höfum ratað í þessa stöðu þá eigum við að ræða og takast á um leiðir út úr henni. Þá umræðu hafa menn viljað forðast og það er af veikleikum sem stjórnarflokkarnir hafa viljað forðast þá umræðu. Þeir hafa ekki þorað í hana af neinu kappi þar sem við sjálfstæðismenn höfum mætt með öfluga stefnu til leiks, leið sem forðar heimilum og atvinnulífi frá auknum álögum við þessar viðkvæmu aðstæður. Við höfum aldrei sagt að það væri gallalaus leið. Við höfum sagt að hún væri betri en sú að auka skattana.

Um þessa skattahækkunarstefnu sem ríkisstjórnin er að keyra í gegn er auðvitað hægt að hafa fjölmörg orð, bæði um hvort einfaldlega sé rétt að hækka skatta og efnahagsleg áhrif af því en líka aðferðafræðina sem notuð er og hvar menn drepa niður fæti við hækkun skatta. Mig langar til að byrja stuttlega á því að fara yfir neikvæð áhrif af þeim skattkerfisbreytingum sem við erum að innleiða. Það er viðurkennd, hagfræðileg staðreynd að fjölþrepa skattkerfi eins og við ræðum um dregur úr hvata til frumkvæðis, nýsköpunar, dugnaðar og jafnvel menntunar þar sem jaðarskattarnir verða sífellt hærri. Umsagnaraðilar hafa bent á að jaðarskattar í þessu fjölþrepa skattkerfi sem við ræðum nú geti hjá millitekjufólki orðið allt að 60%. Þetta er hlutfall skattgreiðslu af síðustu krónunni sem menn þéna. 60% jaðarskattur er allt of hár, það er bara svo einfalt. Við viljum ekki byggja upp skattkerfi, a.m.k. ekki við í Sjálfstæðisflokknum, þar sem jaðarskattarnir verða svo háir að það dregur stórkostlega úr hvata til þess að leggja á sig. Ég held að ein mesta auðlind sem við Íslendingar höfum sé viljinn til að leggja á sig, dugnaðurinn og krafturinn sem býr í fólkinu í landinu, og það er hann sem við þurfum að virkja við þær aðstæður sem núna hafa skapast hjá okkur.

Jaðarskatturinn verður um 60% hjá millitekjufólki við þessar breytingar en séð frá sjónarhóli atvinnurekandans verður skatturinn jafnvel enn hærri. Ef við skoðum hvað verður um krónurnar sem flæða frá atvinnurekandanum vegna launa sem renna í lífeyrissjóðakerfið og til ríkisins og síðan vegna tryggingagjaldsins þá eru skattarnir jafnvel enn þá hærri. Þetta fer að nálgast 70%. Það er orðið dýrt að ráða til sín fólk við þær aðstæður sem þessi ríkisstjórn er að skapa, enda kemur það manni ekkert á óvart að maður hittir annan hvern dag eða jafnvel oft í viku atvinnurekendur sem hafa verið að fara yfir sín plön t.d. fyrir næsta ár — ég hitti einn slíkan í gær sem sagði mér að hann sæti í stjórnum nokkurra félaga, þar væri verið að fara yfir áætlanir næsta árs og það blasti við að grípa þyrfti annaðhvort til töluvert mikilla launalækkana eða hreinlega uppsagna. Það blasir ekkert annað við, enda hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem situr fyrir framan mig, margoft bent á að tryggingagjaldið er ekki annað en skattur á það að ráða fólk í vinnu.

Við erum svo sem ekki beint að ræða tryggingagjaldið hér. Ég nefndi sérstaklega gallana á fjölþrepa skattkerfum. Í því sambandi er bent á Norðurlöndin sem fyrirmynd. Viljum við raunverulega nota Norðurlöndin sem fyrirmynd okkar skattkerfis? Er mönnum virkilega alvara með því að við viljum feta þá slóð sem Norðurlöndin hafa farið í sinni skattkerfisuppbyggingu? Ég veit ekki hvort við höfum tæmt þá umræðu á Alþingi eða hvort í umræðu um hið norræna skattkerfi hafi allt verið sagt í raun og veru.

Ég vil nefna sem dæmi nokkra hluti í hinu norræna skattkerfi sem ég kann ekki sérstaklega vel við. Skattur er tekinn miklu fyrr, þ.e. af miklu lægri launum. Frítekjumarkið er miklu lægra. Ríkisstjórn sem segist ætla að hlífa sérstaklega þeim sem lægst hafa launin getur varla viljað fara inn í hið norræna skattkerfi þar sem menn byrja að borga skatta miklu fyrr. Er það? Vilja menn auka svo við skattheimtuna hjá þeim sem hæst hafa launin að jaðarskattarnir sem ég minntist á áðan verði ekki bara 60% heldur jafnvel allt að 80%? Vilja menn raunverulega fara inn í slíkt skattkerfi? Ef við tökum bara þá einföldu staðreynd að Norðurlöndin eru með mestu skattbyrði í heiminum þá þurfum við kannski að eiga samtal við íslenskan almenning svona eins og fyrir einar kosningar áður en við færum okkar skattamódel yfir til þess þar sem skattbyrðin er hæst í heimi. Ég held að það væri ágætt að eiga samtal við þjóðina þó ekki væri nema eins og 6–8 vikur fyrir einar kosningar áður en menn leyfa sér að taka það upp sem sína stefnu inni á Alþingi.

Í umræðu annars vegar um okkar íslenska veruleika og hins vegar um hvernig umhorfs er í efnahagsmálum á Norðurlöndunum hefur verið nefnt að við viljum færast nær þeim vegna þess að þar sé landsframleiðslan svo há. Ég hef heyrt þetta nefnt í ræðustól Alþingis. Landsframleiðsla á Norðurlöndunum er ekki hærri en hér. Hún hefur lengi verið jafnhá hér og þar og oft og tíðum hærri hér en á flestum öðrum Norðurlöndum. Þetta segir mér að við höfum öll færi til að auka við lífskjörin þannig að þau verði í öllu tilliti sambærileg við það sem þar gildir. Það sem við stöndum hins vegar frammi fyrir í augnablikinu eru stórauknar skuldir hins opinbera og ekki síst ríkisins. Mér finnst mikilvægt að koma þessu að.

Mestu ósannindin við kynningu á þessu frumvarpi sem við ræðum eru samt annað mál og ég er varla búinn að koma inn á það enn þá. Það lýtur að persónuafslættinum. Menn hafa áttað sig á því hver á fætur öðrum undanfarna daga og vikur en við sjálfstæðismenn höfum bent á þetta frá upphafi: Ríkisstjórnin faldi þau áform sín í skattahækkunarmálum sínum að afnema vísitölutengingu persónuafsláttar og kynnti málið þannig að hér væri sérstaklega verið að hlífa láglaunafólki. Ég ætla að taka eitt fram. Við getum tekið umræðu um hvort ríkið hafi efni á því að láta persónuafslátt fylgja hækkunum á vísitölu neysluverðs, það er sérstök umræða, en það gengur ekki að ríkisstjórnin taki ákvörðun um að afnema þessa tengingu og kynni það síðan sem mál sem hlífi sérstaklega þeim sem lægst hafa launin. Það er ekkert annað en blekking sem fólk á ekki skilið við þær aðstæður sem nú eru.

Þær tekjuskattshækkanir sem við erum að ræða um eru sagðar eiga að skila ríkissjóði um það bil 10–12 milljörðum, þ.e. prósentuhækkunin í þessum hærri skattþrepum. 9–10 milljarðar eru einmitt hin aukna skattbyrði sem leiðir af afnámi vísitölutengingar persónuafsláttarins og það eru þessir 9–10 milljarðar í aukinni skattbyrði sem aldrei eru nefndir til sögunnar í umfjöllun á þinginu. Það er verið að leggja 9–10 milljarða á alla launamenn, alla þá sem hafa tekjuskattskyld laun. Allir þessir aðilar munu þurfa að borga hærra hlutfall launa sinna í skatt vegna þess að vísitölutenging hefur verið afnumin. Ég er því þeirrar skoðunar að heildaráhrifin af skattahækkunarpakka ríkisstjórnarinnar séu vanmetin um 10 milljarða eða um það bil 20% vegna þess að málið hefur verið kynnt þannig að það muni auka tekjur ríkisins um 44 milljarða eða þar um bil. Ég er þeirrar skoðunar að það sé að öllum líkindum ofmat vegna þeirra neikvæðu efnahagslegu áhrifa sem þessar skattahækkanir munu hafa, að þetta muni ekki á endanum skila sér í ríkiskassann.

Við erum þegar farin að sjá slíkt gerast, t.d. þegar ríkisendurskoðandi skilaði okkur skýrslu nú í haust og benti á að þær skattahækkanir sem ríkisstjórnin er þegar búin að ákveða og koma til framkvæmda um mitt ár skila ekki þeim tekjum sem menn voru búnir að reikna sér. Ég tel að það sama muni því miður gerast varðandi þau áform sem menn kynna hér til sögunnar og vilja lögleiða, þ.e. að þessar skattahækkanir muni ekki skila öllum þeim krónum sem að er stefnt. Eitt er þó alveg víst og það er að með því að láta ekki persónuafsláttinn fylgja verðlagi munu þessir 9–10 milljarðar örugglega sparast vegna þess að þar geta menn ekki gert neinar reikningsskekkjur. Þeir milljarðar munu allir skila sér vegna þess að það er tekið af hverjum einasta launaseðli í landinu. Það er von að heildarsamtök launþega í landinu stígi núna fram, þó nokkuð seint sé, og telji sig hafa verið svikin, að gerðir samningar hafi verið sviknir og menn hafi ekki sagt satt og rétt frá þegar skattapakki ríkisstjórnarinnar var kynntur. Allt á þetta að vera okkur mikið áhyggjuefni.

Ég hef ekki einu sinni nefnt hvað flækjustigið kemur til með að vaxa mikið og hve mikið við munum að nýju finna fyrir eftirágreiddum sköttum. Fólk mun í auknum mæli fá gíróseðil frá ríkinu 1. ágúst í staðinn fyrir tékka. Ríkisstjórnin telur greinilega að eftirágreiddir skattar séu ásættanlegir því þetta er bein afleiðing af þessum aðgerðum. Eftirágreiddir skattar, nota bene, innheimtast verr en staðgreiðsluskattar. Þannig er það bara. Flóknara og ógagnsærra skattkerfi er það sem ríkisstjórnin býður upp á og sorglegast af öllu er (Forseti hringir.) að til er önnur leið og það er sú leið sem við höfum kynnt til sögunnar. Það væri betra að fara þá leið, (Forseti hringir.) miklu betra fyrir láglaunafólk og alla aðra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:43]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að setja það sem hér er að gerast í skattamálum í víðara samhengi vegna þess að búið er að fara ágætlega yfir það hversu fráleitt þetta er að mörgu leyti og órökrétt. En hvernig stendur á því að menn kjósa engu að síður að fara þessa leið og gera það á þennan hátt, þ.e. keyra þetta í gegn nokkrum dögum fyrir áramót þegar augljóst er að atvinnulíf og almenningur verða ekki í stakk búin til að takast á við þessar breytingar? Hvers vegna er þetta gert? Þetta er hluti af því sem við horfum nú fram á í íslenskum stjórnmálum að eftir að menn telja að óhófleg frjálshyggja á undanförnum árum hafi valdið hruni efnahagslífsins er ekki farin sú leið af hálfu núverandi ríkisstjórnar að reyna að finna einhverja skynsamlega rökrétta millileið. Nei, sagt er sem svo að hér hafi frjálshyggjan, hægri stefnan brugðist og þar af leiðandi eigum við að sveiflast alveg til vinstri, fara í hugmyndir algerlega á vinstri kantinum sem fyrir löngu síðan voru fallnar. Það kann að vera að hægri stefnan og frjálshyggjuhugmyndirnar hafi að einhverju leyti fallið á þessu ári og því síðasta en þær hugmyndir sem byggt er á í þessu skattafrumvarpi voru fallnar fyrir löngu, fyrir einhverjum áratugum líklega og svo náttúrlega endanlega með falli austantjaldslandanna þegar menn áttuðu sig á að það væri ekki einu sinni hægt í ríkjum þar sem yfirvöld hefðu stjórnað nánast öllum þáttum daglegs lífs að viðhalda slíku kerfi. Þess vegna er alveg stórfurðulegt að sjá að menn ætli aftur að fara yfir á þessa undarlegu braut, en til þess ætla þeir væntanlega að fara í hvers konar eftirlit og stýringu á daglegu lífi fólks því að mér sýnist að ekki muni veita af, flækjustigið til að mynda verður slíkt.

Reyndar er gert ráð fyrir því í fyrstu að launþegar eigi sjálfir að hafa eftirlit með þessu og upplýsa vinnuveitendur sína, sérstaklega þeir sem vinna á fleiri en einum stað, um það hvernig eigi að skattleggja sig. Ég sé ekki fyrir mér í ljósi þess hversu erfitt hefur reynst fyrir þingið að fá álit frá fólki sem áttar sig fyllilega á því hvert er verið að fara, frá sérfræðingum, að almenningur í landinu geti gert sér grein fyrir því hvernig hann á að uppfylla öll þessi skilyrði. Þetta er enn eitt skref í þá átt að lífið á Íslandi verði eins og það var orðið austurrísk/ungverska keisaradæminu, að stór hluti af tíma hvers manns fór í það að sinna hvers konar skriffinnsku og reyna að átta sig á og uppfylla öll þau skilyrði sem stjórnvöld ætluðust til, vegna þess að í stað þess að einfalda kerfið og horfast í augu við mistök sem gerð höfðu verið var reynt að ráðast gegn vandanum með enn meiri flækjum. Þetta er það sem við þurfum kannski allra síst á að halda við þær aðstæður sem við erum í núna þar sem við þurfum einmitt að fá skýra framtíðarsýn og opna fyrir möguleikana á verðmætasköpun. Nei, þá er lífið gert miklu flóknara og erfiðara bæði fyrir íslenskan almenning og fyrir fyrirtækin. Það er náttúrlega dregið úr öllum helstu hvötum til verðmætasköpunar en líka er fólki einfaldlega gert erfitt fyrir að vinna vinnuna sína og lifa sínu daglega lífi. Á þetta er litið að mati þeirra sem horfa á þetta utan frá, til að mynda þeirra sem hugsanlega gætu viljað koma og fjárfesta í uppbyggingu landsins, sem mjög stóran óvissuþátt og nú eru menn farnir að reikna sér, þeir sem hugleiða fjárfestingar á Íslandi, sérstakt pólitískt álag. Það hefur ekki verið til á Íslandi fyrr, þetta hefur verið í sumum þróunarríkjum þar sem stjórnvöldum er ekki talið treystandi. En nú eru menn farnir að meta Ísland út frá þessu pólitíska áhættuálagi, þannig að þeir telja sig þurfa alveg sérstaklega mikla ávöxtun á fjárfestingu sína til að réttlætanlegt sé að taka þá áhættu sem fylgir því að fjárfesta hér á landi þar sem séu við völd stjórnvöld sem geti tekið upp á hvers konar óúthugsaðri vitleysu með engum fyrirvara, eins og við erum svo glögglega að verða vitni að í þessu skattamáli. Mönnum, sem eru vanir festu í stjórn ríkja og að geta gert áætlanir fram í tímann og líta á það sem grundvallarforsendu í rekstri fyrirtækja, líst varla sérstaklega vel á að fjárfesta í landi þar sem nokkrum dögum fyrir áramót eru kynntar vanhugsaðar, og óframkvæmanlegar að hluta til, tillögur í skattamálum sem leggja mjög ósanngjarnar álögur bæði á almenning og atvinnurekendur.

Svo eru það náttúrlega hin beinu efnahagslegu áhrif sem liggja í því að það er ekkert svigrúm til staðar til að ráðast í þessar hækkanir. Stór hluti íslenskra heimila, alla vega helmingur samkvæmt mati Hagsmunasamtaka heimilanna, á í mesta basli við að skrapa saman til að eiga fyrir afborgunum af lánum. Hvaða svigrúm hefur þetta fólk til að bæta enn á sig og borga enn þá hærri skatta? Það svigrúm er ekki til staðar býsna víða og því til viðbótar verður að hafa það í huga að jafnvel þar sem slíkt svigrúm kann að einhverju leyti að vera til staðar er verið að taka úr umferð fjármagn sem hefði ella nýst til að halda neyslu í samfélaginu uppi, halda fyrirtækjum í rekstri. Á þann hátt ýtir þetta undir enn aukið atvinnuleysi en það ýtir líka með enn beinni hætti undir aukið atvinnuleysi, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur margnefnt, með hækkun tryggingagjaldsins. Það er verið að mynda sterkan hvata gegn því að ráða fólk í vinnu. Það er verið að skattleggja atvinnusköpunina fyrir utan náttúrlega hina hliðina á þeim áhrifum sem er sú að fyrirtæki munu væntanlega sum hver taka ákvörðun um að segja upp fleira fólki en ella til að spara sér tryggingagjaldið. Þetta er því þveröfugt við að sem gera ætti við þessar aðstæður.

En áhrifin eru fleiri vegna þess að þegar brugðist er svona við þessum aðstæðum hugsa menn sem svo: Af hverju á ég að vera að leggja á mig að puða hér og reyna að þrauka á launum sem hafa lækkað um helming í samanburði við sambærileg störf í útlöndum? Til að mynda laun verkfræðinga og lækna sem geta fengið vinnu nánast hvar sem er í Evrópu, laun þeirra hafa lækkað í evrum talið um helming. Hvers vegna ættu þeir að halda áfram að strita hér þegar ríkisvaldið kemur fram með þessum hætti? Þetta ýtir sem sagt undir líklega stærstu hættuna sem við stöndum frammi fyrir um þessar mundir sem er aukinn landflótti og landflóttinn er eins og tölur Hagfræðistofnunar sýna því miður þegar hafinn. Hvar stöndum við þá ef það fólk sem við þurfum svo bráðnauðsynlega á að halda til að byggja upp og skapa aukin verðmæti sér sér ekki lengur fært að starfa hér á landi vegna þess að það getur fengið sams konar vinnu á tvöfalt og jafnvel þrefalt hærri launum annars staðar? Hvað verður þá um þá skattstofna sem verið er að reyna að knýja svo mikið út úr hér? Þeir lækka enn og þessi spírall, þessi neikvæða keðjuverkun heldur áfram. Allt er þetta hluti af þeirri skökku sýn ríkisstjórnarinnar á lausn vandans sem leiðir til enn meiri vanda. Þessi neikvæða keðjuverkun sem ég hefði haldið að menn væru búnir að læra af reynslunni með, því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn standa frammi fyrir svona vanda og því hvernig eigi að bregðast við honum. Það hefur sýnt sig áratugum saman a.m.k., líklega árhundruðum saman, að þessi leið að bregðast við kreppu með því að hækka skatta og reyndar á sama tíma að ráðast í vanhugsaðan flatan niðurskurð og viðhalda óhemjuháu vaxtastigi getur ekki gengið upp, ekki fræðilega einu sinni. Ekkert land hefur nokkru sinni í sögu heimsins skattlagt sig út úr kreppu. En hér er verið að ræða um mjög óhagkvæmar, óskilvirkar og ósanngjarnar skattahækkanir á sama tíma og ríkið er að ráðast í niðurskurð og þótt vissulega þurfi að spara eigum við ekki að ráðast í flatan niðurskurð sem jafnvel í mörgum tilvikum leiðir til enn meira tjóns í framtíðinni, á sama tíma og vöxtum er haldið líklega þeim hæstu í heimi á Íslandi. Þessi þrenning myndar saman þær aðstæður að atvinnulífið getur því miður ekki náð sér upp úr vandanum og ef atvinnulífið gerir það ekki bitnar það á heimilum landsins, íslenskum almenningi og reyndar á ríkinu sem fær minni skatttekjur fyrir vikið.

Með þessum aðgerðum er í besta falli verið að fresta vandanum en mér þykir reyndar líklegt að áhrifin komi býsna fljótt fram. Til hvers er þetta gert? Til að ná 44 milljörðum, beinir og óbeinir skattar samanlagt. 44 milljarðar er kunnugleg tala því að þetta er nánast nákvæmlega það sama og nú stendur til að greiða bara í vexti af Icesave-samningunum og vextirnir vel að merkja munu alltaf lenda á íslenskum skattgreiðendum, sama hverjar endurheimturnar verða hjá Landsbankanum, hvort þær verða 90%, 100% eða 50%, vextirnir munu alltaf lenda á íslenskum almenningi. Þarna ætla menn að ráðast í þessar skaðlegu aðgerðir, gera heimilunum, mörgum hverjum, nánast óbærilegt að standa við aðrar skuldbindingar til að skrapa saman fyrir bara vöxtunum af Icesave. Reyndar má ekki láta hjá líða að geta þess að þessir vextir verða greiddir í erlendri mynt til útlanda og ekkert fæst fyrir sem er eðlisólíkt því að innheimta hér í íslenskum krónum sömu upphæð vegna þess að þegar þeir peningar sem greiddir eru í vextina fara út úr hagkerfinu verða engin margföldunaráhrif af þeim. Þeir halda ekki áfram að veltast hér og skapa aukin verðmæti. Ef íslenskur launþegi fær upphæð greidda tekur hann hana og nýtir í matvælakaup og kaup á þjónustu af öðru fólki, heldur öðrum í vinnu. Þannig veltast þessir peningar áfram og verða á endanum tvöföld eða þreföld upprunaleg upphæð. Með því má segja að þetta sé sambærilegt við það ef við ætlum að bera saman annars vegar álagningu skattanna og hins vegar vaxtagreiðslurnar, að þá ættu vaxtagreiðslurnar af Icesave að vera a.m.k. tvöfalt hærri vegna þeirra margföldunaráhrifa sem við förum á mis við með því að glata þessum peningum úr hagkerfinu og fá ekkert í staðinn.

Bent hefur verið á að hér sé fyrst og fremst um að ræða pólitíska aðgerð miklu frekar en hagfræðilega eða aðgerð sem sýnt hefur verið fram á hvernig eigi að gagnast ríkinu og þá er undarlegt að menn skuli telja nauðsynlegt að hrinda þessu í framkvæmd algerlega án þess að vera búnir að klára málið eða reikna það til enda núna rétt fyrir áramót. Hvers vegna gefur ríkisstjórnin sér ekki tíma á næsta ári til að ráðast í þessar kerfisbreytingar telji hún það þjóna einhverjum sérstökum pólitískum tilgangi? Hefur ríkisstjórnin ekki trú á því að hún endist út næsta ár? Ætlar hún að reyna að koma í gegn sem allra mestum kerfisbreytingum þess vegna? Ég veit ekki hver ástæðan er en mér skilst á reyndari mönnum en mér í þinginu að aldrei hafi sést annað eins vinnulag og núverandi ríkisstjórn hefur viðhaft við gerð fjárlaga og í þessum skattatillögum sínum.

Í lokin, frú forseti, mundi ég vilja vitna í álit 1. minni hluta í efnahags- og skattanefnd þar sem fjallað er um óframkvæmanleika sumra af þeim atriðum sem hér er ráðist í. Það hefur nefnilega ekki verið sýnt fram á hvernig hægt er að framkvæma vissa hluti eins og skattlagninguna á innstæður í erlendri mynt og gengishagnað af innstæðunum. Það virðist sem sé þurfa að finna upp, ná framförum í heimi stærðfræðinnar til þess að ein af skattlagningarhugmyndum ríkisstjórnarinnar, þessi um tekjur af völdum gengisbreytinga, sé framkvæmanleg og sama má eiginlega segja um þennan nýja eignarskatt sem hefur ekki verið sýnt fram á hvernig hægt er að útfæra og fjölmörgum spurningum þar er ósvarað. Því miður hef ég ekki þann tíma sem ég gerði ráð fyrir til að fara í það en þetta er bara eitt af ótal vanreifuðum atriðum í þessu furðulega máli.



[11:58]Útbýting:

[11:58]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn er að beita mjög óviðkunnanlegu ofbeldi gagnvart sjómönnum landsins. Hún ræðst að fjölskyldum sjómanna og sýnir sjómönnum ótrúlega lítilsvirðingu með því að leggja til að sjómannaafsláttur verði lagður af á fjórum árum. Sjómenn eru burðarás íslensks samfélags. Þaðan koma 60% af þjóðartekjunum. Þeir vinna harðsæknustu vinnuna við erfiðustu aðstæður og í 40 ár hefur sjómannaafslátturinn verið hluti af kjörum þeirra, kom inn sem hluti af kjörum og hefur verið þannig. Þetta eru hlutir sem við eigum að virða í stað þess að snýta framan í sjómenn.

Það er nú svo að sjómannaafslátturinn er 1.000 kr. á dag og hámark sjómannaafsláttar er 330.000 kr. að fullu. Að meðaltali má segja að sjómenn séu 180–200 daga á hafi úti og á árinu 2008 fór 1 milljarður kr. í sjómannaafslátt fyrir 5.700 sjómenn. (Gripið fram í: … Icesave.) Sjómannaafslátturinn er líka viðurkenning samfélagsins á erfiðu starfi við erfiðar aðstæður, fjarri samfélaginu, fjarri dagskrám samfélagsins hvort sem þær eru í leikhúsum, tónleikasölum, fyrirlestrum eða öðru sem venjulegt samfélag býður upp á. Sjómenn taka ekki þátt í þeirri velsæld samfélagsins. Þeir stíga ölduna til að afla fjár fyrir íslenskt samfélag. Þeir eiga að fá greitt fyrir að stíga ölduna. Þeir eiga að fá styrk í samræmi við það að margar stéttir samfélagsins njóta margs konar styrkja og hafa gert um áratugaskeið. Það þykir þó ekki tiltökumál af því að það er á landi. Það er ekki þar sem fiskifýlan er. Það er verið að hjóla í eina stétt af fjölmörgum í landinu sem hafa sérréttindi. Það á að offra sjómönnum í þessu ofbeldi ríkisstjórnarinnar.

Hv. þm. Helgi Hjörvar státaði af því fyrr í umræðunni að norræna skattkerfið væri til fyrirmyndar og ætti að vera fyrirmynd Íslendinga í breytingum á skattkerfinu í þrepaskiptingu. Sjómannaafslátturinn í Noregi, virðulegi forseti, var nýlega hækkaður og er 3,3 millj. kr. á ári. Hámarkið á Íslandi er 330.000 kr. og svo á að leggja þetta af. Sjómannaafslátturinn í Færeyjum er 1.850.000 kr. á sjómann á ári, í Danmörku 1 millj. kr., í Svíþjóð 630.000. Hvar er núna réttlætið í norræna skattkerfinu sem hæstv. ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna þykist miða við? Þetta er allt orðagjálfur, sýndarmennska og hégómi.

Það vantar sjómenn á Íslandi, það vantar jafnvel sjómenn á bestu báta í bestu plássin. Það sýnir að staðan er alvarleg. Það er ekkert hugsað um menntun sjómanna og flotinn er að afmenntast í því sem gefur okkur 60% af þjóðartekjunum. Þetta er viðtekið vandamál sem byrjaði reyndar í þessum efnum til að mynda árið 1951 hjá þeirri vinstri stjórn sem þá var við lýði. Ef þessi valdbeiting verður að lögum, virðulegi forseti, munum við baráttumenn Íslands hefja á sömu stundu baráttu fyrir því að sjómenn endurheimti þennan rétt sinn. Það á að vera skylda okkar og metnaður að standa við bakið á sjómönnum og verja þá út í ystu æsar. Þeir ganga í gegnum pusið og brimskaflana og við eigum að verja þá. Þeir eru að vinna fyrir okkur og í hag samfélagsins í heild, (Forseti hringir.) meira en aðrir landsmenn, sem og fiskvinnslukonur landsins, virðulegi forseti.



[12:04]Útbýting:

[12:04]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða skattkerfisbreytingar og eins og á við um önnur stór mál á þessu þingi ræðum við þau á miklum hlaupum. Umsagnir hagsmunaaðila eru að detta inn þessar mínúturnar og samt sem áður liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn og spunameistarar hennar sem hafa haft heilt ár til að undirbúa málið — og tala þar sem því er við komið um fagleg vinnubrögð, opið og gegnsætt stjórnkerfi, lýðræðisleg vinnubrögð og annað slíkt — viðhafa í þessum málum eins og öllum stórum málum þau ófaglegustu vinnubrögð sem sést hafa á þingi svo áratugum skiptir. Ég efast um að nokkur þingmaður á hv. þingi, þó að einn og einn hafi verið kosinn inn um miðja síðustu öld, hafi séð önnur eins vinnubrögð. Ég efast um það, virðulegur forseti. Allt er þetta gert undir einhvers konar slagorðakenndum markmiðum, hlutirnir lagðir upp með þeim hætti að allt hafi verið svo gríðarlega vont og svo mikill skaði frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum og þess vegna þurfi menn að gera upp einhverja hluti undir merkjum norræna velferðarkerfisins í þessu tilfelli og flestum öðrum.

Virðulegi forseti. Skoðum þetta aðeins. Hvað er þetta norræna velferðarkerfi? Síðast þegar ég vissi voru Norðurlöndin nokkur og misjafnt kerfi í hverju landi fyrir sig. Eitt örlítið dæmi kom fram hjá hv. þm. Árna Johnsen. Hann fór yfir gríðarlega mikinn mun á því hvernig Norðurlöndin haga t.d. sjómannaafslætti. Hvað er þá norræni sjómannaafslátturinn? Hver er hann, virðulegi forseti?

Skoðum velferðarkerfið. Hver er norræni biðlistinn í heilbrigðismálum? Er eitthvað slíkt til? Við Íslendingar höfum án nokkurs vafa náð lengst í því að afnema biðlista og gerðum það á allra síðustu missirum. Ef menn skoða tölur frá landlækni sést að síðustu ríkisstjórn tókst gríðarlega vel upp í að stytta biðlista og jafnvel leggja þá alveg af. Sá árangur er ekki til staðar á Norðurlöndunum. Er þá markmið þessarar ríkisstjórnar að ná upp í biðlistana sem eru annars staðar á Norðurlöndunum?

Virðulegi forseti. Í umhverfismálum stöndum við Íslendingar framar öðrum þjóðum, m.a. Norðurlandaþjóðunum. Er það markmið okkar að koma á einhverju norrænu velferðarmengunarstigi á Íslandi? Ég spyr vegna þess að í fullri alvöru tala talsmenn ríkisstjórnarinnar eins og að menn hafi náð einhverri himnasælu í nágrannalöndum okkar og allt sé til þess vinnandi að ná einhverju ásigkomulagi sem er þar. Íslendingar hafa t.d. ferðast, eru víða í ágætistengslum og vita að þessar þjóðir eiga ekki síður við vanda að etja en við þó að færa megi full rök fyrir því að þær hafi haft mikla forgjöf á okkar þjóð að mörgu leyti. Með nokkurri einföldun má segja að við Íslendingar séum ung þjóð, það er stutt síðan við tókum að fullu og öllu eigin mál í eigin hendur. Við keppum við þjóðir sem voru stórveldi fyrir nokkur hundruð árum. Sumar högnuðust mjög á síðustu öld, t.d. á öllum styrjöldunum. Nefni ég Svíþjóð sem dæmi. Það var sama hvort það var fyrri eða seinni heimsstyrjöld eða kalda stríðið. Það er uppsafnaður auður í ýmsum löndum sem kom til af ýmsum ástæðum, m.a. út af nýlendustefnu þessara ríkja á meðan við Íslendingar höfum í um 60 ár verið með okkar mál að fullu í okkar höndum. Á þessum tíma hefur þurft að byggja allar undirstöður og innviði, hvort sem það eru samgöngur, húsnæði eða annað slíkt. Okkur hefur tekist býsna vel upp.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst ömurlegt að hlusta á eilífa minnimáttarkennd þessarar ríkisstjórnar fyrir útlendingum. Þetta er ekkert annað en minnimáttarkennd. Í hvert skipti sem hingað kemur útlendingur er honum hampað eins og að þar sé um algóðan guð að ræða. Þau sem eru til vinstri í pólitík, hvort sem þau starfa á fjölmiðlum eða í stjórnmálum, bugta sig og beygja og leggja út af öllum orðum þessara einstaklinga eins og um heilagan sannleika væri að ræða sem við þyrftum með einhverjum hætti að fara eftir. Þegar menn mættu útlendingum sem gættu svo sannarlega ekki hagsmuna Íslendinga heldur allt annarra hagsmuna í Icesave-samningunum sýndi sig þetta viðhorf. Þá bognuðu menn og beygðu sig fyrir erlendu valdi í tómri og klárri minnimáttarkennd sem mun skaða hagsmuni Íslendinga til langs tíma.

Skoðum markmiðin með þessu frumvarpi og þessum lagabreytingum. Ef við erum að færa okkur til þessa svokallaða norræna velferðarkerfis, hver bað þá um ósveigjanlegri vinnumarkað? Það er ekki nokkur vafi að Íslendingar eru með sveigjanlegri vinnumarkað en þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Hvenær kom fram sá stjórnmálamaður eða það stjórnmálaafl sem sagði: Nú ætlum við að minnka sveigjanleikann í íslensku samfélagi og á íslenskum vinnumarkaði og við lofum því að ef við komumst að munum við gera hann ósveigjanlegri og erfiðari þannig að við verðum í sömu vandamálum og þær þjóðir sem eru annars staðar í Evrópu, t.d. Norðurlandaþjóðirnar?

Virðulegi forseti. Ég man ekki eftir þessu kosningaloforði. Ég man heldur ekki eftir kosningaloforðinu sem vinstri flokkarnir efna núna sem hljómar væntanlega einhvern veginn svona: Nú ætlum við að flækja skattkerfið. (Gripið fram í: Lofum því.) Við lofum því að flækja skattkerfið. Við lofum því að launamaðurinn muni verða í verulegum erfiðleikum með að átta sig á því hvað hann á að greiða mikið í skatta.

Ég man ekki eftir þessu loforði, virðulegi forseti. Var þetta í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna? Ég man ekki eftir loforðinu: Við ætlum að koma á eftirágreiðslu skatta. Nú skulum við aftur fara til fortíðar. Ég man ekki eftir þessum ræðum hjá Vinstri grænum eða Samfylkingunni. Ég man ekki eftir ræðunum sem hefðu átt að hljóma svo: Munið þið þann tíma þegar þið voruð í tómum vandræðum vegna þess að þið gátuð lent í verulegum fjárhagserfiðleikum, sérstaklega ungt fólk sem er að byrja sína vinnu, sérstaklega það allra yngsta sem áttaði sig ekki á því að það ætti eftir að greiða mikið af sköttum eftir á? Við ætlum að koma því aftur á. Það er það sem við skulum gera. Við skulum sjá til þess að þúsundir manna, sérstaklega þeir sem yngri eru, verði í verulegum vandræðum vegna þess að þeir nái hugsanlega inn miklum tekjum og ári eftir, þegar þeir eru með lægri tekjur, fái þeir reikninginn fyrir sköttunum sem þeir höfðu af háu tekjunum. Ég man ekki eftir þessu loforði.

Virðulegi forseti. Það er það sem þetta fólk er að gera núna og hvort sem fólk vill horfast í augu við þá staðreynd eða ekki var ástandið þannig að þegar sérstaklega þeir sem yngri eru — og ég veit þetta vel — stigu sín fyrstu skref á vinnumarkaði áttuðu þeir sig yfirleitt ekki á því að þeir ættu eftir að greiða skatta. Þeir vöruðu sig ekki og eyddu um efni fram. Sannarlega má segja að þeir hefðu átt að hugsa fyrir þessu, alveg rétt, en sérstaklega vegna þess að skattkerfið var flókið — eins og við erum að gera það aftur núna — áttaði þetta fólk sig ekki á því. Það eru mýmörg dæmi, tugþúsundir dæma, þar sem ungt fólk lenti í gríðarlegum erfiðleikum út af þessu. Og nú, virðulegur forseti, eftir að við höfum ekki séð þetta vandamál í áratugi kemur vinstri stjórnin í nafni norræns velferðarkerfis og ætlar svo sannarlega að koma þúsundum, ef ekki tugþúsundum, manna aftur í vandræði.

Virðulegi forseti. Ég man ekki eftir þessu loforði. Kannski hv. þm. Magnús Orri Schram geti upplýst okkar um hvenær þetta loforð var gefið.

Ég man heldur ekki eftir loforðinu um að aftur eigi að fara af stað með jaðarskattana. Ég man eftir því þegar hv. þingmenn Samfylkingarinnar og hv. þingmenn Vinstri grænna fóru sem frambjóðendur um allt og sögðu: Við viljum lækka jaðarskattana, það er markmið okkar. Ég held að það hafi verið í kosningabaráttunni 2003. Þá stóð upp úr hverjum einasta hv. þingmanni Samfylkingarinnar sem þá var í kosningabaráttu að lækka ætti jaðarskattana, þeir væru óréttlátir, vinnuletjandi og kæmu í veg fyrir verðmætasköpun, að það væri engin skynsemi í þeim. Ég man ekki eftir neinum stjórnmálamanni, engum, ekki einum einasta flokki, sem sagði: Við skulum hafa jaðarskattana. Það hefur svo tekjujafnandi áhrif. Það er svo svakalega gott. Þetta er svo í anda norræna velferðarkerfisins.

Ég man ekki eftir því, virðulegur forseti, og ég fullyrði að það var aldrei sagt. Það var góð samstaða um það, virðulegi forseti, hjá öllum flokkum að einfalda þetta, koma í veg fyrir þessi gríðarlegu jaðaráhrif. Hvað erum við að gera núna? Jaðarskattarnir komu aftur. Ég vil fá að vita, virðulegi forseti, hver lofaði kjósendum þeim. Hvar kemur þetta fram í málflutningi eða kosningayfirlýsingum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna? (PHB: Við erum orðnir gleymnir, munum það ekki.) Hv. þm. Pétur Blöndal kallar að við séum orðnir gleymnir og að við munum það ekki. Ég held að við séum ekki gleymnir, við hv. þm. Pétur Blöndal. Ég held að við munum umræðu um skattamál mjög vel og við munum að þetta hefur ekki komið fram. Ég held að menn átti sig ekki á því hvað þetta er gríðarlega alvarlegt en við munum fá að finna fyrir þessu. Og það er alveg sama þó að spunameistararnir ryðji út úr sér: Nú erum við að fá norrænt velferðarkerfi. Það verður alveg jafnvont að fá flókið skattkerfi, það verður alveg jafnvont að fá jaðarskattana, það verður alveg jafnvont að fá eftirágreiðslu skatta, það verður alveg jafnvont þegar fólk áttar sig á því að það er misjafnt eftir hjónum og sambúðarfólki þó að það sé með upp á krónu nákvæmlega sömu tölu samanlagt í tekjur, önnur fjölskyldan mun greiða meira en hin. Það verður alveg jafnvont þó að spunameistararnir spinni eins mikið og þeir mögulega geta.

Virðulegi forseti. Hver lofaði eignarsköttum? Ég tók þátt í síðustu kosningabaráttu. Ég fylgdist nokkuð vel með henni. Hver lofaði eignarsköttum? Kannski hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Ég spurði einn hv. þingmann hvort það hefði verið í stefnuskránni. Nei, það var ekki í stefnuskránni, ekki frekar en fjölþrepa- eða flækjustigið eða jaðarskattarnir. Er kannski svo langt um liðið frá kosningum, virðulegi forseti? Nei, það er ekki. Það eru nokkrir mánuðir liðnir. Kannski áttuðu þeir sig ekki á stöðunni. Nei, virðulegi forseti, það er ekki það, samfylkingarmenn eru búnir að vera í stjórn frá 2007 og með VG síðan 1. febrúar sl.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða hrein og klár svik. Þessir flokkar svíkja vitandi vits kjósendur sína og vitandi vits eru þeir á miklum hlaupum við að eyðileggja skattkerfið eins og við þekkjum það. Það er enginn vafi að launþegar þessa lands, yngri og eldri, munu virkilega fá að finna fyrir því, kannski sérstaklega þeir sem yngstir eru og eru að fóta sig á vinnumarkaði í fyrsta skipti.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er skemmdarverk.



[12:19]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum síðasta skattamál ríkisstjórnarinnar a.m.k. í þessari lotu, síðasta ömurlega skattamálið, þ.e. frumvarp til laga um tekjuöflun ríkisins. Verið er að gera breytingar á m.a. tekjuskattslögunum. Ég vil í upphafi spyrja einhvern stjórnarliðann, t.d. hv. þm. Magnús Orra Schram, sökum þess að áður aflagður skattur, eignarskatturinn, hefur verið endurvakinn undir nýju nafni, þetta er svona kennitöluflakk í skattaheiminum en nú er gamli eignarskatturinn nefndur auðlegðarskattur, hvort til standi þá að breyta nafni laganna. Vegna þess að þetta hét áður lög um tekjuskatt og eignarskatt, því var svo breytt í lög um tekjuskatt af því að eignarskatturinn var aflagður, ég geri því fastlega ráð fyrir að við förum að sjá lög um tekjuskatt og auðlegðarskatt ef eitthvert samræmi á að vera í þessu og ef menn eiga að vera með gagnsæi í þessum skattamálum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara yfir efnisatriði málsins. Það hefur verið gert og athugasemdir okkar sjálfstæðismanna hafa komið fram. Það sem mig langar til að ræða er aðferðafræði þessarar vinstri stjórnar við málið. Hverju stöndum við frammi fyrir? Við stöndum frammi fyrir því að hér varð hrun. Tekjur lækkuðu og útgjöld hækkuðu, stöðugleikinn brást. Hvað er þá til ráða? Ég mundi halda, frú forseti, að við þyrftum þá að koma á stöðugleika. Við þyrftum að forgangsraða málum þannig að setja í forgang þau mál sem mega ekki bíða og við eigum að setja önnur mál til hliðar. Við eigum að leita allra leiða til að koma aftur á stöðugleika. Við eigum að leita allra leiða til að ná samstöðu, koma á stöðugleika og auka tekjur ríkisins. Það er eitt sem við getum öll sammælst um og það er að auka þarf tekjur ríkisins. Við erum bara ekki sammála um hvernig á að gera það. Við þurfum að ná samstöðu meðal þjóðarinnar en hæstv. fjármálaráðherra hæddist að því í morgun þegar stjórnarandstaðan greiddi atkvæði með frumvarpi hans um nýsköpun, þá hæddist hann að því að við gerðum það. Það var frekar ósmekklegt.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur líka sagt að þetta sé ekki tíminn fyrir pólitíska landvinninga. Nú þurfum við að standa saman og hann ákallaði stjórnarandstöðuna einhvern tíma í þessu ferli öllu saman, að þetta væri ekki tíminn fyrir pólitíska landvinninga. Þess vegna spyr ég: Af hverju fer þá þessi ríkisstjórn af stað með ekkert plan nema það að koma á einhverju ömurlegu fjölþrepa skattkerfi sem enginn skilur, hvorki þeir sem eiga að greiða eftir því né þeir sem eiga að vinna í kerfinu? Er það ekki pólitískur landvinningur þegar allir umsagnaraðilar, allir sérfræðingar, við í stjórnarandstöðunni og fólk út um allt hefur bent á að það sé ekki klókt, þetta sé ekki rétti tíminn til að fara út í stórfelldar skattkerfisbreytingar með engum fyrirvara og án alls undirbúnings?

Í Morgunblaðinu á laugardaginn birtist grein þar sem segir að skattbreytingar séu óþarfar, að tekjujöfnunarmarkmið náist í núverandi skattkerfi ef það er markmiðið. Ónei, frú forseti. Það er nefnilega ekki markmiðið. Markmiðið er að koma á vinstri vitleysisskattkerfi sem enginn skilur bara vegna þess að þá geta þeir sagt: Við aflögðum kerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn kom á. Það er engin hugsun í þessu, það er engin heil brú í þessu og það er ekki tími fyrir hugmyndafræðilega landvinninga, frú forseti. Þar tek ég undir með hæstv. fjármálaráðherra. Þess vegna segi ég: Það er svo yfirgengilega sorglegt að sjá hvernig þetta fólk ryðst fram og eyðileggur meira en það bætir bara vegna þess að það er í einhverjum hugmyndafræðilegum landvinningum. Hlustum á sérfræðingana. Hlustum á viðvörunarorðin. Tökum þetta til baka. Náum tekjum ríkissjóðs upp með þeirri leið sem við sjálfstæðismenn leggjum til. Vinnum okkur tíma og þá getur ríkisstjórnin sest yfir það hvernig hún ætlar að koma þessu ömurlega kerfi á en það verður ekki gert með nokkurra daga fyrirvara, frú forseti.



[12:25]Útbýting:

[12:25]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Nú er það svo að við sem á Alþingi störfum, og jafnframt þeir sem eru í ríkisstjórninni, erum að glíma við efnahagshrun og ég hef margoft sagt í þessum stól að auðveldara er um að tala en í að komast að finna leiðir til að koma okkur skjótt og vel upp úr efnahagslægðinni.

Við í stjórnarandstöðunni höfum viðhaft mjög svo ábyrga stjórnarandstöðu og lagt fram okkar tillögur um hvað skal gera í efnahagsmálum. Varðandi þetta mál, þ.e. hvernig eigi að afla ríkissjóði tekna, höfum við sjálfstæðismenn lagt fram þá tillögu að séreignarlífeyrissparnaðurinn verði skattlagður fyrir fram og við náum þannig það miklum tekjum í ríkissjóð að umfangsmiklar skattahækkanir eins og ríkisstjórnin virðist stefna að með öllum tiltækum ráðum verði óþarfar. Það er einfaldlega vegna þess að okkar skoðun er að þannig sé komið fyrir heimilunum í landinu að ekki sé mögulegt að leggja frekari byrðar á þau og alls ekki í þeim mikla mæli sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að gera.

Frú forseti. Á þessar tillögur hefur vissulega verið hlustað af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og sumir þingmenn stjórnarflokkanna hafa tekið undir þær. Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur fullyrt og lofað því að um þær tillögur verði fjallað nánar í efnahags- og skattanefnd og ég vonast til að það verði gert. En það er nú einfaldlega þannig, frú forseti, að ef búið verður að hækka skattana það mikið að það getur haft þau áhrif að kreppan lengist og dýpki þá getur það einfaldlega verið of seint að fara leið okkar sjálfstæðismanna.

Frú forseti. Í stað þess að fara þá leið velja ríkisstjórnarflokkarnir að umbylta skattkerfi landsins, flækja hlutina og í raun er það líka mjög kostnaðarfrekt að fara slíka leið vegna þess að heilmikill kostnaður fellur til við skattbreytingarnar. Það þarf að breyta bókhaldskerfum allra fyrirtækja, auka þarf vinnu við skatteftirlit og það verður miklu flóknara að gera sitt skattframtal. Og erfitt er að áætla kostnað samfélagsins í heild við þessar breytingar en það hefur að því er mér skilst ekki verið gert í vinnu efnahags- og skattanefndar. Sumir sérfræðingar eins og t.d. Hjálmar Gíslason hjá DataMarket hefur áætlað þennan kostnað um 1 milljarð kr. Það er gríðarlegt fé sem leggst bæði á ríkissjóð og fyrirtækin í landinu. Það er því spurning hvort hægt hefði verið að fara einhverjar aðrar leiðir hefðu menn viljað fara í þessar skattahækkanir, og það er svo. Bent hefur verið á það af Hjálmari Gíslasyni og jafnframt í grein eftir Örn Arnarson í Morgunblaðinu um helgina að með því að nota núverandi skattkerfi og byggja á því sé hægt að ná fram sama tekjuauka í ríkissjóð. Ég spurði hv. þm. Helga Hjörvar í umræðunni hvort þetta hefði verið skoðað, hvort það væri ekki einfaldlega lag að taka þetta mál aftur inn í nefnd og fara þessa leið, breyta frumvarpinu þannig að farin verði sú leið fyrst menn vilja endilega vera að hækka þessa skatta, en ég hef ekki fengið skýr svör við því hvort þetta hafi verið skoðað í einhverri alvöru.

Frú forseti. Segja má að persónuafslátturinn sé einfaldasta hátekjuskattskerfið. Það hefur umræddur Hjálmar Gíslason fjallað um í pistli í heimasíðu sinni og ef ég má vitna til orða hans, frú forseti, kemur fram að persónuafslátturinn „tryggir það að þeir sem hafa lægstu tekjurnar greiði litla sem enga skatta og þeir sem hafa hæstu skattana greiði meira.“ Þetta er í rauninni það kerfi sem við höfum verið að nota. Það er einfalt, gagnsætt og gott kerfi. Og jafnframt er hægt að ná fram þeim tekjuauka fyrir ríkissjóð sem ríkisstjórnin virðist með þessu frumvarpi leggja til í gegnum þetta kerfi án þess að umbylta öllu og án þess að flækja kerfið okkar.

Ég er mjög undrandi á því að ríkisstjórnin skuli senda fyrirtækjunum í landinu þessa sendingu rétt fyrir áramót meðan þau hafa lítinn sem engan tíma til að undirbúa breytingar. Ég held að fyrirtækin í landinu, frú forseti, glími einfaldlega við næg verkefni akkúrat í dag og þegar hægt er að fara aðra leið og ná sama markmiði sem virðist vera að ná inn ákveðnum tekjuauka í ríkissjóð af hálfu ríkisstjórnarinnar, þá skil ég ekki hvers vegna sú leið er ekki valin. Það er spurning hvort kannski einhver önnur sjónarmið vegi þyngra í huga ríkisstjórnarflokkanna, sem eru þá væntanlega að verða meira eins og önnur Norðurlönd og í raun mætti þá ætla að það sé kostur í huga hv. þingmanna ríkisstjórnarflokkanna að flækja skattkerfið.



[12:31]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum mjög viðamiklar lagabreytingar og gefst lítill tími til þess. Ég verð að byrja á því að ræða um misskilning hv. þm. Helga Hjörvars, formanns efnahags- og skattanefndar, en hann áttar sig ekki á því sem er löngu þekkt að það er mikill munur á fjármagnstekjum og venjulegum launatekjum. Það var farið í gegnum það í nefnd sem fjallaði um þetta fyrir löngu síðan og tók þá ákvörðun að taka upp samræmdan skatt, 10%, vegna þess að fjármagn rýrnar í verðbólgu, bæði sparifé, hlutafé o.s.frv. Til að mæta verðbólgutapinu þurfa skattarnir að vera lægri. Þegar verðbólgan er t.d. 18% og menn eru með 10% vaxtatekjur af innstæðu rýrnar innstæðan verulega en viðkomandi borgar 1% í skatt. Fyrir utan þá sem hafa tapað hlutafé sem ekki kemur skattkerfinu neitt við eða leigu sem er með kostnað og annað slíkt. Það er reyndar búið að taka tillit til þess að einhverju leyti, það er verið að flækja kerfið óskaplega.

Síðan eru það launatekjur. Þar eru dagpeningar og bílastyrkir inni sem menn geta dregið frá en það gerir þetta ekki sambærilegt. Hv. þingmaður nefndi reiknaðar tekjur sem dæmi um flækingu en ég vil kalla það uppgjöf skattyfirvalda við að framfylgja lögunum. Þau áttu alltaf að vera mikið harðari á því að gefa út úrskurði um hvað væru reiknaðar tekjur.

Hraðinn við þetta frumvarp er ótrúlegur. Þrjár umsagnir bárust í nótt og í morgun, ein frá ASÍ þar sem þeir gagnrýna harðlega að hætt sé við að verðtryggja persónuafsláttinn. Umsögnin er undirrituð af Gylfa Arnbjörnssyni og hann bendir á það sem er alveg hárrétt, frú forseti, að það eru vinstri stjórnin 1989 og vinstri stjórnin 2009, 20 árum seinna, sem hafa afnumið verðtryggingu persónuafsláttar en það kemur lágtekjufólki langverst. Það eru sem sagt vinstri stjórnir sem afnema þetta. Svo er hér umsögn frá manni sem heitir Árni Þór Hlynsson og bendir á að það sé alveg óvíst hvernig eigi að framkvæma þessa lagasetningu um að 50% af arði yfir 20% séu laun. Á að borga skatt af þeim arði líka og svo laun? Hvenær er gjalddaginn? Á að borga tryggingagjald af þessu? Á að borga í lífeyrissjóð? Hvenær er gjalddaginn á því? Eru komnir dráttarvextir á það þegar menn geta borgað? Hann bendir á fjölmörg atriði. Þessi umsögn barst í gær og hefur engin áhrif á málið. Við munum væntanlega leiðrétta þetta strax í janúar eða mjög fljótlega. Það þarf að leiðrétta mjög margt. Annar maður sem skrifaði umsögn í gær, Eiríkur Baldvin Þorsteinsson, bendir á dæmi um tvenn hjón. Í öðru tilvikinu er makinn með 700 þús. kr. á mánuði og hinn 300 þús. kr. og hins vegar er annar með milljón á mánuði, þ.e. sömu heimilistekjur, og hinn makinn er heima yfir börnum, t.d. í tilfelli sjómanns. Í báðum tilfellum eru heimilistekjurnar milljón en önnur fjölskyldan borgar 250 þús. kr. meira. Ég get ekki farið nánar út í þetta.

Heildarásýnd frumvarpsins er dæmigerð fyrir vinstri frumvörp og það er svo sem allt í lagi ef menn hefðu gefið sér almennilegan tíma til að vinna úr þessum frumvörpum og gera það almennilega þannig að þau væru ekki full af göllum. Þessi frumvörp flækja skattkerfið alveg ótrúlega, frú forseti. Þau auka skatta á heimilin í landinu. Markmiðið er bæði að stýra fólki og auka skattbyrðina um 44 milljarða sýnist mér. Það eru 150 þús. kr. á mann eða 600 þús. kr. á fjögurra manna fjölskyldu. Þó að menn þykist gera vel við þá sem verst eru settir þá gerist það einmitt að þeir verða sérstaklega fyrir barðinu á þessum frumvörpum, olíugjaldi og öðru slíku, og því að persónuafsláttur fer ekki eftir verðlagi. Þessi frumvörp eru öll meiri háttar mistök. Þau ætla sér að laga kreppu með því að skattleggja löskuð heimili og fjölskyldur í landinu. Ég vara eindregið við þessu, að menn skuli fara þessa leið, sérstaklega þegar í boði er önnur leið sem er að skattleggja séreignarsparnaðinn. Þá hefðu menn getað legið yfir þessum frumvörpum í rólegheitum í heilt ár og reynt að sníða af þeim verstu agnúana, þeir sem dreymir um að koma á vinstri sköttum.



[12:36]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Af því að senn líður að lokum umræðna um þau stóru tekjuöflunarfrumvörp eða skattafrumvörp sem hér hafa verið til umfjöllunar á Alþingi að undanförnu vil ég nota þetta tækifæri og byrja á því að þakka hv. efnahags- og skattanefnd fyrir mikla og góða vinnu. Ég vil þakka nefndarmönnum og einnig starfsmönnum nefndasviðs Alþingis sem hafa lagt hart að sér að undanförnu sem og auðvitað starfsmönnum í fjármálaráðuneytinu og hjá ríkisskattstjóra og fleirum sem lagt hafa hönd á plóg að undanförnu.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, einkum Sjálfstæðisflokksins, hafa í umræðunum haft af því miklar áhyggjur að þessar aðgerðir í skattamálum kunni að valda samdrætti eða auka á samdrátt í hagkerfinu og hafa farið um það allmörgum orðum. Ég tel að ekki sé ástæða til að hafa þessar þungu áhyggjur og nefni í því sambandi í fyrsta lagi að þrátt fyrir þessar skattkerfisbreytingar og nokkuð aukna tekjuöflun á nýjan leik eftir mikla lækkun undanfarin ár verður stig tekjuöflunar hins opinbera samt til muna lægra en það hefur verið á umliðnum árum sem hlutfall af þjóðartekjum og til muna lægra en það er í mörgum nálægum löndum svo sem á hinum Norðurlöndunum.

Í öðru lagi hafa ýmsir aðrir þættir áhrif á eftirspurn í hagkerfinu. Þar má nefna í fyrsta lagi að hagstætt gengisstig krónunnar hefur þegar örvað útflutningsstarfsemina og hleypt miklu lífi í þær greinar. Við horfum nú sem betur fer fram á lækkandi vexti sem að sjálfsögðu leggjast með okkur í því. Lækkandi verðbólga og lækkandi vextir eru eitt af því jákvæðasta sem nú er að gerast og skila okkur því umhverfi sem við höfum auðvitað lengi stefnt að. Við sjáum bæði lægri vexti og lægri verðbólgu en við höfum gert um margra missira eða ára skeið.

Það leggst líka með okkur að nú stefnir í að vaxtakostnaður ríkissjóðs á næstu árum verði milljarðatugum lægri en litið gat út fyrir að yrði framan af ári. Það svigrúm, ásamt heldur hagstæðari skilyrðum á síðari hluta ársins, nýtum við að fullu til að draga úr annars áformuðum skattahækkunum. Það kemur að sjálfsögðu hagkerfinu til góða og mælist í öllum reiknilíkönum í formi aukinna umsvifa í hagkerfinu og meiri kaupmáttar ráðstöfunartekna. (PHB: Með því að selja banka.) Þegar þessir hlutir eru allir hafðir í huga eru ágætar horfur á því að spár um að viðsnúningur verði í íslenska hagkerfinu á næsta ári og við förum að sjá bata á síðari hluta ársins gangi eftir. Ég deili því ekki þessari miklu svartsýni sem svífur yfir vötnum í ræðuhöldum stjórnarandstæðinga með þeim. Þó að það sé um það bil svartasta skammdegið einmitt þegar við eigum þessi orðaskipti er engu að síður ástæða til að muna eftir því að sól fer að hækka á lofti og það eru að mörgu leyti bjartari horfur fram undan í okkar efnahagsmálum.

Um efni frumvarpanna að öðru leyti vil ég segja um tekjuskattinn og þrepaskiptan tekjuskatt sem hér er innleiddur að hann er óumdeilanlega kostur frá sjónarhóli tekjujöfnunar. Markmiðið er að sjálfsögðu að ná m.a. fram í gegnum það að hlífa lægstu launum og lægri launum við sköttum. Það er enginn vafi í mínum huga að til framtíðar eigum við að stefna á að lækka skattprósentuna á lægsta þrepi um leið og efnahagslegar aðstæður leyfa.

Varðandi umræður um verðtryggingu persónufrádráttar eða aðra slíka hluti er rétt að hafa í huga að það hleypur ekki frá okkur að skoða það ásamt öðru á næsta ári, hvernig þeim hlutum verður fyrir komið í ljósi efnahagsaðstæðna og aðstæðna í ríkisfjármálum sem hlýtur að vera verkefnið. Varðandi sjómannafrádrátt er gefinn þar rúmur aðlögunartími og ekki farið inn í kjarasamninga á gildistíma þeirra. Um tryggingagjald er það að segja að auðvitað er ekkert fagnaðarefni að þurfa að hækka launatengd útgjöld en atvinnulífið er þeirrar skoðunar að atvinnutryggingagjaldið eigi að bera kostnað af atvinnuleysi. Það er lagt hér til grundvallar og það er ástæða til að hrósa forsvarsmönnum atvinnulífsins og aðilum vinnumarkaðarins fyrir að kikna ekki undan þeirri ábyrgð að leggja sitt af mörkum til að hægt sé að greiða atvinnulausum fullar bætur á komandi árum. Tekjuskattur lögaðila er hækkaður á nýjan leik í 18%. Það var ofrausn að mínu mati að lækka hann á síðasta ári. Fjármagnstekjuskattur einstaklinga er færður til betra horfs með upptöku frítekjumarks og prósentu sem er nær því sem gerist í nálægum löndum en hann verður áfram með því lægsta sem þekkist hér engu að síður. Að lokum nefni ég auðlegðargjaldið þar sem efnaðasti hluti samfélagsins mun á næstu árum leggja eitthvað af mörkum, fólk sem hefur safnað miklum fjáreignum á undanförnum árum.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að eftir sem áður og þrátt fyrir þessar breytingar þarf (Forseti hringir.) að leggja mikla vinnu á næsta ári í heildstæða yfirferð á skattkerfinu til að laga það að breyttum veruleika og breyttu (Forseti hringir.) efnahagslegu umhverfi á Íslandi. Það verður gert.