133. löggjafarþing — 91. fundur.
stjórn fiskveiða, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 459. mál (úthlutun byggðakvóta). — Þskj. 624, nál. 1098, brtt. 1099.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:48]

Brtt. 1099,1 (ný 1. gr.) samþ. með 56 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AKG,  ArnbS,  ÁÓÁ,  ÁMM,  ÁRJ,  ÁMöl,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  DJ,  DrH,  EKG,  EOK,  EMS,  EBS,  GHH,  GuðjG,  GHj,  GÓJ,  GAK,  GÞÞ,  GHall,  GÁ,  GÖg,  GÖrl,  HBl,  HHj,  HerdS,  HjÁ,  IHÓ,  JóhS,  JBjarn,  JGunn,  JónK,  JBjart,  KJúl,  KÓ,  KolH,  KHG,  KLM,  LB,  MÞH,  MF,  PHB,  RG,  SAÞ,  SKK,  SigurjÞ,  SÞorg,  SF,  SP,  VF,  VS,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
7 þm. (BjörgvS,  JÁ,  MÁ,  SJS,  SæS,  ÞKG,  ÞSveinb) fjarstaddir.
5 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:41]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um svokallaðan byggðakvóta sem er, eins og allir vita, í raun og veru viðlagaákvæði í lögunum um stjórn fiskveiða, viðlagaákvæði sem ætlað er að taka á þeim vanda sem skapast í sjávarbyggðum þar sem atvinnubrestur verður af einhverjum orsökum, m.a. vegna þess að veiðiréttarheimildir hafa verið seldar úr byggðarlagi eða veiðiréttur dottið niður í einstöku fisktegundum.

Þó að við í Frjálslynda flokknum séum ekki sammála þessari sjávarútvegsstefnu þá er viðlagaákvæðið um byggðakvótann eina vörn byggðanna og við munum styðja þetta mál en höfum auðvitað þann fyrirvara á að ef þessi aðgerð ætti virkilega að ná tilgangi sínum þyrfti slíkur byggðakvóti að vera miklu stærri, miklu fleiri tonn, ef taka ætti á vanda þeirra fjölmörgu byggða sem hafa farið illa út úr kvótakerfinu og framsalinu þar.



[11:43]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við erum að greiða atkvæði um byggðakvóta. Það hlýtur þá að leiða hugann að því hvernig ríkisstjórnin hefur staðið við það sem hún ætlaði sér að gera í málefnum sjávarbyggðanna og í sjávarútvegsmálum á kjörtímabilinu. Í stjórnarsáttmálanum átti að styrkja hagsmuni sjávarbyggða — þetta hefur verið svikið. Það átti að styrkja forkaupsréttarákvæði kvóta fyrir sveitarfélög og lögaðila — þetta hefur verið svikið. Það átti að láta veiðigjald renna til sveitarfélaga — þetta hefur verið svikið. Það átti að takmarka framsal frá sveitarfélögum — þetta hefur verið svikið. Það átti að auka byggðakvóta — þetta hefur verið svikið. Línuívilnunin — einungis efnd að hálfu. Það átti að setja auðlindir í stjórnarskrá — það hefur líka verið svikið.

Þetta er árangurinn eftir fjögur ár, virðulegi forseti, núna á að skammta byggðunum eins og skít úr hnefa aðganginn að þeirra eigin auðlindum. Þetta er svívirðuverk, þetta er ekki réttlátt, þetta er ekki sanngjarnt. En, því miður, þetta er neyðarbrauð, (Forseti hringir.) okkur er stillt upp við vegg í þessu máli. Við segjum já í því en eingöngu vegna þess að við viljum reyna að stuðla að því að rétta sjávarbyggðunum þá hjálparhönd sem þær þurfa á að halda.



[11:44]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við styðjum þetta mál en þó er þetta kerfi sem við búum við algjörlega ómögulegt. Þess vegna hefðum við talið miklu nær að þingið sameinaðist um að leita annarra leiða til að stýra fiskveiðum. Þetta kerfi hefur því miður ekki skilað nokkrum árangri. Við veiðum núna helmingi minna en við gerðum fyrir daga kerfisins og síðan þegar á að ræða stjórn fiskveiða virðist eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra þoli ekki þá umræðu, hann leitast við að láta hana fara fram að nóttu til vegna þess að hann er algjörlega röklaus í að færa fyrir því einhver rök að það eigi að halda þessu áfram. Hvers vegna eigum við ekki að leita nýrra leiða í stað þess að halda áfram með kerfi sem skilar minni afla? Síðast en ekki síst (Forseti hringir.) hafa tekjur sjávarútvegsins (Forseti hringir.) dregist saman á síðustu árum, frú forseti.



[11:45]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil við þessa umræðu og atkvæðagreiðslu fyrst og fremst þakka hv. sjávarútvegsnefnd fyrir mjög vel unnin störf að þessari lagasetningu. Það er enginn vafi á því að þau lög sem nú munu gilda um skipan byggðakvótans munu tryggja það að honum verður deilt út með markvissari hætti og er það líklegra til þess að skila góðum árangri fyrir byggðirnar í landinu. Að því er að sjálfsögðu stefnt.

Það er mjög ánægjulegt til þess að vita að einmitt um þetta mál sem oft hefur verið tekist á um í þinginu skuli hafa tekist svona breið og almenn pólitísk samstaða eins og við sjáum á atkvæðagreiðslutöflunum. Það er almenn samstaða um málið. Ég er að vísu sammála því sem sagt hefur verið að það er skaði að umræðan um þetta góða mál skyldi ekki hafa farið fram í dagsbirtu þannig að fleiri hefðu getað gert sér grein fyrir hversu gott mál er hér á ferðinni og sérstaklega hlýtt á mjög athyglisverðar yfirlýsingar hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar sem ég vonast til að þjóðin eigi eftir að fá að lesa, þótt síðar sé, vegna þess að þar var mjög brotið í blað og fitjað upp á mjög áhugaverðum hlutum sem ég held að eigi eftir að vekja athygli.



[11:46]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um frumvarp sem lýtur að stjórn fiskveiða og kveður á um byggðakvóta, úthlutunaraðferðir til að úthluta byggðakvóta til þeirra sjávarbyggða sem hafa farið sérstaklega halloka, m.a. út af núverandi fiskveiðistjórnarkerfi eða kvótakerfinu. Þetta er eina leiðin sem Alþingi hefur enn til að koma til móts við brýnar þarfir, koma til móts við möguleika til nýliðunar í fiskveiðum í gegnum byggðakvóta.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðjum þetta mál en höfum náttúrlega þann fyrirvara á að heildarfiskveiðistjórnarkerfi er ranglátt. Það kemur hart niður á smærri sjávarbyggðum sem eiga allt sitt undir því að geta nýtt auðlindirnar sem eru fyrir ströndum landsins, (Forseti hringir.) íbúunum öllum til heilla.



Brtt. 1099,2 (2. gr. verði 3. gr.) samþ. með 56 shlj. atkv.

Brtt. 1099,3 (ný 3. gr., verður 2. gr.) samþ. með 57 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr.  með 57 shlj. atkv.