133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[11:45]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil við þessa umræðu og atkvæðagreiðslu fyrst og fremst þakka hv. sjávarútvegsnefnd fyrir mjög vel unnin störf að þessari lagasetningu. Það er enginn vafi á því að þau lög sem nú munu gilda um skipan byggðakvótans munu tryggja það að honum verður deilt út með markvissari hætti og er það líklegra til þess að skila góðum árangri fyrir byggðirnar í landinu. Að því er að sjálfsögðu stefnt.

Það er mjög ánægjulegt til þess að vita að einmitt um þetta mál sem oft hefur verið tekist á um í þinginu skuli hafa tekist svona breið og almenn pólitísk samstaða eins og við sjáum á atkvæðagreiðslutöflunum. Það er almenn samstaða um málið. Ég er að vísu sammála því sem sagt hefur verið að það er skaði að umræðan um þetta góða mál skyldi ekki hafa farið fram í dagsbirtu þannig að fleiri hefðu getað gert sér grein fyrir hversu gott mál er hér á ferðinni og sérstaklega hlýtt á mjög athyglisverðar yfirlýsingar hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar sem ég vonast til að þjóðin eigi eftir að fá að lesa, þótt síðar sé, vegna þess að þar var mjög brotið í blað og fitjað upp á mjög áhugaverðum hlutum sem ég held að eigi eftir að vekja athygli.