135. löggjafarþing — 93. fundur
 17. apríl 2008.
fjarskipti, 1. umræða.
stjfrv., 523. mál (EES-reglur). — Þskj. 824.

[14:28]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.

Frumvarpið var unnið í samvinnu samgönguráðuneytis og Póst- og fjarskiptastofnunar.

Megintilgangur frumvarpsins er að innleiða ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 717/2007 frá 27. júní 2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins, og um breytingar á tilskipun 2002/21/EB, eða reikireglugerðarinnar, eins og hún heitir. Jafnframt að styrkja heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til að leggja smásölukvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar, fella niður ákvæði um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita innanlandsreiki í farsímanetum nema í kjölfar markaðsgreiningar, auk þess sem gert er ráð fyrir nokkrum breytingum á gildandi fjarskiptalögum til þess að efla neytendavernd.

Virðulegi forseti. Ég vík nú að athugasemdum um ákveðnar greinar frumvarpsins.

Ákvæðið er til þess að fella íslenska löggjöf að áðurgreindri reikireglugerð. Markmið hennar er að tryggja að notendur almennra farsímaneta borgi ekki óhóflegt verð fyrir reikiþjónustu innan EES-svæðisins þegar þeir hringja eða taka á móti símtölum þegar þeir eru á ferðalagi erlendis. Þetta er til þess að ná fram öflugri neytendavernd og um leið til að tryggja samkeppni milli rekstraraðila farsímaneta.

Með því að fella brott 35. gr. laganna er sérstök skylda til innanlandsreikis í almennum farsímanetum aflögð. Þessi breyting er í samræmi við athugasemdir ESA, frá 28. september 2006, og aðgangstilskipun ESB nr. 2002/19/EB, en samkvæmt henni verða aðgangskvaðir aðeins lagðar á fjarskiptafyrirtæki sem tilnefnd hafa verið sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar. Ákvæði 28. gr. fjarskiptalaga þykja fullnægjandi í þessu sambandi.

Orðalag nýrrar 35. gr. laganna tekur til erlends reikis. Með reikireglugerðinni er innleidd sérstök Evrópugjaldskrá sem felur í sér tiltekin mörk á það gjald sem rekstraraðilum farsímaneta er heimilt að taka fyrir að veita alþjóðlega reikiþjónustu innan EES-svæðisins. Þessi hámarksgjaldskrá á að endurspegla eðlilega álagningu miðað við heildsölukostnaðinn við að veita reikiþjónustuna, en um leið að veita rekstraraðilunum frelsi til samkeppni með því að greina á milli tilboða þeirra og aðlaga verðlagningu þeirra að markaðsaðstæðum og vali neytenda. Jafnframt er í reglugerðinni sérstaklega kveðið á um skyldur farsímafyrirtækja til þess að upplýsa viðskiptavini sína meðal annars um þann kostnað sem getur orðið við að hringja eða taka á móti símtali í öðru landi. Þrátt fyrir að reglugerðin sé ekki innleidd fyrr en nú tekur gjaldtaka fjarskiptafyrirtækjanna hér á landi nú þegar mið af ákvæðum hennar.

Með nýrri málsgrein við 27. gr. laganna verður kveðið á um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að leggja smásölukvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar. Þessi heimild á við ef stofnunin telur að heildsölukvaðir muni ekki skila tilætluðum árangri í að efla samkeppni og tryggja hagsmuni notenda fjarskiptaþjónustu. Með þessari breytingu er 17. gr. alþjónustutilskipunar ESB nr. 2002/22/EB innleidd, en kvaðirnar sem greinin heimilar í slíkum tilvikum, felur í sér kröfur um að tilgreind fyrirtæki setji ekki upp of hátt verð, hamli ekki aðgangi að markaði eða takmarki ekki samkeppni með tilgreindum hætti. Í gildandi lögum eru engar slíkar kvaðir og því felur breytingin í sér fullnægjandi innleiðingu tilskipunarinnar í íslensk fjarskiptalög.

Í þeim tilgangi að ná fram öflugri neytendavernd og tryggja frekari samkeppni á fjarskiptamarkaði er lagt til að gildissvið helstu ákvæða laganna þar sem kveðið er á um talsímaþjónustu verði víkkað út svo að lögin nái jafnt yfir tal- og farsímaþjónustu.

Farsímafyrirtækjum er þannig gert að sjá til þess að viðskiptavinir þeirra séu upplýstir um kostnað sem hlýst af því að hringja í net annarra fjarskiptafyrirtækja hér á landi. Jafnframt að tryggja neytendum aðgang að reikningum yfir viðskipti sín við fjarskiptafyrirtækin og tryggja að notendur farsímaþjónustu njóti sömu réttinda og notendur talsímaþjónustu þegar fjarskiptafyrirtækin grípa til aðgerða vegna vanskila notenda.

Lagðar eru til breytingar á 1. mgr. 65. gr. laganna sem fjallar um markaðssetningu fjarskiptabúnaðar. Fram kemur í ákvæðinu að óheimilt sé að setja á markað annan notendabúnað en þann sem uppfyllir tilteknar grunnkröfur og ber CE-merkingu því til staðfestingar. Með því að taka af öll tvímæli um að innflutningur einstaklinga til eigin nota eða í öðrum tilgangi teljist markaðssetning er verið að tryggja neytendavernd og jafnræði milli neytenda auk þess sem minni hætta ætti að vera á fjarskiptatruflunum og röskun fjarskiptaöryggis.

Að lokum eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæði laganna er fjalla um útgáfu Póst- og fjarskiptastofnunar á skírteinum sem heimila einstaklingum að starfrækja ákveðnar tegundir þráðlauss búnaðar eins og talstöðva. Í ljósi markmiða um einfaldari stjórnsýslu er lagt til að fella niður skilyrðislausa kröfu um skírteini sem hætt er að þjóna tilgangi sínum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.



[14:34]Útbýting:

[14:34]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Meginmarkmið þess frumvarps sem hér er lagt fram er að innleiða reglur Evrópuþingsins, nr. 717/2007/EB, þar sem ætlað er að koma á öflugri neytendavernd varðandi reikisamtöl, þ.e. samtöl í GSM-síma á milli landa svo sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins.

Þessi reglugerðarsmíð á vegum Evrópusambandsins á sér mjög langan aðdraganda. Í ljós kom að í raun er um að ræða mjög virkt verðsamráð á milli farsímafyrirtækjanna. Fyrirtækin skiptast á gagnkvæmum reikningum vegna reikisímtalanna og þannig sér hvert fyrirtæki fyrir sig hvað hin fyrirtækin taka í afnotagjöld, þ.e. þegar Síminn á Íslandi eða Vodafone á Íslandi gengur frá sínum reikningum þá sjá þeir hvaða gjöld fyrirtækin, t.d. Vodafone á Spáni eða í Austurríki eða hvaða landi svo sem er, taka fyrir þjónustu sína. Það var því í raun vegna svokallaðs „World Roaming“ eða alþjóðavæðingar GSM-netsins um allsherjarverðsamráð allra farsímafyrirtækjanna að ræða. Þar sem þá myndaðist ákveðin samkeppnishindrun og var um virkt verðsamráð að ræða á milli þessara fyrirtækja þá var spurningin hvernig ætti að bregðast við því.

Við miðum við það og við höfum það sem grundvallaratriði í löggjöf okkar að eðlileg samkeppni, virk samkeppni eigi að tryggja hagsmuni neytenda, hún eigi að tryggja að þeir fái betri og hagkvæmari þjónustu, eigi að tryggja að þeir fái lægsta verð sem kostur er þannig að það verði sem best nýting á framleiðsluþáttunum. Það er það sem við miðum við í okkar samkeppnisþjóðfélagi. Það er grundvöllurinn undir samkeppnislögunum, undir lögunum um þá starfsemi sem Samkeppnisstofnun ber að framfylgja. Þarna vorum við komin inn á svið þar sem ekki var hægt að gera þetta vegna þess að símafyrirtækin fylgdust með hvert hjá öðru.

Það var raunar fyrir nokkrum árum íslenskt fyrirtæki sem ungir menn stofnuðu sem gerði tilraun til þess að ná fram ákveðinni breytingu og lækkun á símgjöldum. Um þetta var skrifað í mörg erlend rit, m.a. hið virta rit The Economist á sínum tíma en þar var talað um að hringja frá Stokkhólmi til Lissabon í gegnum Reykjavík. En eins og stundum gerist í markaðssamfélaginu gleypir sá stóri hinn litla og þarna var um að ræða ákveðna hagkvæmni og ákveðna hugmynd sem gerði það að verkum að stóru aðilarnir þurftu að taka tillit til þess og keyptu viðkomandi fyrirtæki út af markaðnum. Þetta var ákveðinn liður í útrás ungra manna sem að sjálfsögðu voru tilbúnir til þess að nýta sér þá hagsmuni sem þeim voru boðnir vegna þess að stóru fyrirtækin vildu kaupa fyrirtækið fyrir miklu hærri fjármuni en þeir hefðu getað ímyndað sér að um væri að ræða.

En þannig hefur þetta verið og virt enskt blað, Sunday Times, birti fyrir nokkrum árum yfirlit yfir það með hvaða hætti farsímafyrirtækin færu að varðandi gjaldtöku. Þar kom m.a. í ljós að jafnvel þó að fólk hafi slökkt á farsímanum sínum og það sé hringt í hann frá Ástralíu þá tekur farsímafyrirtækið gjald af þeim síma sem slökkt er á. Þegar um er að ræða að fólk er að taka á milli í reikisamtölum þá er verið að taka gjald af báðum aðilum, þ.e. bæði þeim sem tekur við símtalinu og þeim sem hringir.

Ódýrasta form á símafjarskiptum er í gegnum „World Roaming“ kerfið eða GSM-kerfið og er mun ódýrara en línutengingarnar. Stofnkostnaðurinn er ákveðinn en þetta er miklu ódýrari símtalaflutningur en í gegnum hið hefðbundna gamla símakerfi. Samt sem áður er verðlagningin á þeirri þjónustu miklu, miklu hærri en á þjónustunni sem kostar miklu meira að veita. Og hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því að yfir heiminn hefur það verið þannig að verðþróunin hefur ekki fylgt því, vegna aukinnar hagkvæmni vegna kostnaðarsparnaðar þá hafa neytendur í engu notið þess hagræðis sem um hefur verið að ræða?

Þetta er það sem þeir í Neytendastofnun Evrópusambandsins bentu á, reglulega í langan tíma, að þarna væri um að ræða óeðlilegar samkeppnishindranir varðandi reikisímtöl. Það þyrfti að gera nauðsynlega hluti til þess að koma á ákveðnu hagræði fyrir neytendur til þess að tryggja öflug og góð fjarskipti á góðu og eðlilegu verði.

Það sem sú tilskipun sem hér er verið að tala um að taka upp hefur helst verið gagnrýnd fyrir er að þar sé um að ræða ákveðið ákveðið hámarksverð. Fyrirtækin mega ekki fara umfram það verð sem ákveðið er á reikisímtölum, og hér er verið að leggja til að verði tekið upp, og þá er þetta neyðarráðstöfun vegna þess að markaðurinn virkar ekki.

Ég skil nú ekki af hverju hv. þm. Pétur Blöndal víkur sér úr salnum meðan ég er að tala um það atriði þar sem markaðurinn virkar ekki. Honum hefur kannski orðið illt í maganum við að hlusta á að það væri til samkeppnissvið sem væri þannig að það þyrfti að grípa til ákveðinna ráðstafana af hálfu opinberra aðila til þess að samkeppnin væri hreinlega ekki eyðilögð. Hér erum við einfaldlega að tala um að það er sett hámarksverð.

Það sem þessi tilskipun hefur m.a. verið gagnrýnd fyrir er að við ákvörðun hámarksverðsins sé farið allt, allt of hátt upp, að Evrópusambandið miði við að gjaldtaka á GSM-símtölum sé langt umfram það sem eðlilegt geti talist miðað við þann kostnað sem símafyrirtækin verða fyrir við þá símtalsflutninga eða fjarskiptaflutninga sem um er að ræða. — Ég tel raunar að svo hafi verið.

Ég hef á grundvelli eða vegna þátttöku minnar í neytendastarfi getað fylgst með með hvaða hætti sú tilskipun sem hér er verið að tala um að lögleiða hefur verið að þróast, með hvaða hætti og hvaða afskipti og athugasemdir Evrópusamband neytenda hefur haft af þessum reglum, og Evrópusamband neytenda hefur ítrekað gagnrýnt þetta regluverk á þeim grundvelli að þarna væri verið að gefa of mikið svigrúm, að við mat á hvað væri hámarksverð væri í raun verið að fara allt of hátt með það.

Nú stendur íslenska löggjafarþingið hins vegar frammi fyrir því að samþykkja þær reglur sem þegar hafa verið samþykktar úti í Brussel en við hér á löggjafarþinginu á Íslandi erum að koma að þessu máli í fyrsta skipti núna. Það er ekki eins og þetta mál sé að byrja núna eða hafi verið að byrja í fyrra eða hittiðfyrra, þetta er dálítið eldra, vegna þess að það er töluvert langt síðan menn gerðu sér grein fyrir því að fjarskiptafyrirtækin hafa tekið allt of mikið fyrir þessa þjónustu og verðlagt hana allt, allt of hátt. Þeir sem hafa viljað fylgjast með hafa getað séð hvernig umræðurnar um þetta hafa þróast.

Hins vegar hafa hv. þingmenn á löggjafarþingi Íslands ekki haft neitt með þetta mál að gera fyrr en það er lagt fram í frumvarpsformi sem er út af fyrir sig allra góðra gjalda vert. Þetta frumvarp er allra góðra gjalda vert og þarna er um að ræða virkari neytendavernd en ella væri, og þess vegna er ég samþykkur þessu frumvarpi. Ég vil vekja athygli á því að hvorki við né þeir sem sátu á síðasta þingi eða fyrir síðustu kosningar hafa haft möguleika á því að fylgjast með þeirri þróun sem hefur verið í umræðunni um þessi atriði, um reikisímtölin, um það með hvaða hætti okrað hefur verið á neytendum fram og til baka fyrir þessa þjónustu, og með hvaða hætti og hvernig ætti að þróa viðspyrnu þannig að þetta okur gæti ekki haldið áfram. Það er fyrst og fremst sú viðspyrna sem Evrópusambandið var að setja með reglum nr. 717/2007/EB, þ.e. viðspyrna við okri þar sem ekki var um að ræða að hægt væri að koma við virkri samkeppni.

Við komum hér að málinu án þess að hafa nokkurn tímann getað lagt nokkuð til málanna, lagt nokkuð inn í orðabelginn eða komið að okkar sjónarmiðum varðandi það með hvaða hætti og hvernig þetta regluverk ætti að þróast. Nú er þetta rétt að okkur og sagt: Gjörið þið svo vel, hér er þessi pakki. Ég segi já, ég er tilbúinn til þess að samþykkja hann, hann er tvímælalaust til bóta. En ef við hefðum eitthvað haft um hann að segja á einhverjum öðrum tíma þá kann vel að vera að við hefðum séð ákveðna agnúa eða ákveðna hluti sem til betri vegar hefði mátt færa. Við hefðum kannski getað lagt inn í ákveðin sjónarmið varðandi það að gjaldtakan, þetta hámarksverð sem verið er að ákveða sé í raun allt of hátt því að flutningur í gegnum GSM-netið kostar svo lítið. Þetta er svo einfalt að þetta kostar ekki nema óverulegan hluta þannig að álagið á hvert GSM-símtal á hverja mínútu er mörg hundruð prósent miðað við kostnað viðkomandi símafyrirtækis.

Ég tel því að með því að setja þessa hámarkstaxta á þá sé Evrópusambandið ekki í raun að gera annað en að koma að fyrstu viðvörun til seljanda á þessu sviði um að ekki verði lengur liðið og þeir geti ekki lengur farið fram eins og þeim hentar og okrað á neytendum eins og þeim sýnist.

En það er þó farið mjög vægilega í sakirnar. Það er ekki verið að kreppa að fyrirtækjunum. Það er miklu frekar að þau fái enn um sinn að leika allt of lausum hala. Ég tel að svo hafi verið og á vettvangi Evrópusambandsneytenda, BEUC, hefur meðan á smíði þessarar reglugerðar og þessa regluverks Evrópusambandsins hefur staðið ítrekað verið vakin athygli á því að þarna væri ekki stigið nógu stórt skref til þess að koma í veg fyrir þá óeðlilegu markaðsstarfsemi sem um er að ræða á þessu sviði. En það má kannski segja að mjór sé mikils vísir og hér er lagt af stað í ákveðna vegferð sem er þó góðra gjalda verð.

Um leið og ég lýsi því yfir að ég styð þetta frumvarp og tel það vera framfaraspor vegna samkeppnishindrananna sem eru á þessu sviði þá vil ég ekki láta hjá líða að benda á það að í okkar litla samfélagi þar sem markaðsstarfssemin er iðulega skert, þar sem kostir hins frjálsa markaðar fá ekki að njóta sín til fulls, þar sem um er að ræða samræmdar verðskrár, þó að það sé fyrst og fremst vegna fákeppni, þá mættu íslensk stjórnvöld taka til hendinni og þyrftu ekki ævinlega að bíða eftir því að boð kæmu frá Brussel um það að gæta hagsmuna íslenskra neytenda heldur gætu þau haft forgöngu um að gæta að hagsmunum fjöldans, að hagsmunum hinna mörgu en ekki bara láta þá fáu fara fram að geðþótta.

Ég vil, virðulegi forseti, láta það vera lokaorð mín í 1. umr. um þetta frumvarp að mér finnst þarna vera stigið mjög nauðsynlegt skref þar sem markaðssamkeppnin hefur verið skekkt en íslensk stjórnvöld ættu í fleiri atriðum þar sem markaðssamkeppnin er skekkt og samkeppnisþjóðfélagið virkar ekki að stíga sams konar skref í þeim efnum og gert er í þessu frumvarpi.



[14:49]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti frá 2003, með síðari breytingum. Ég vil þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir framsögu hans. Ég get tekið undir fjölmargt af því sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Magnússonar. Hann fór mjög rækilega yfir marga þætti þessa máls og margar hliðar þess. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg eins brennandi áhugamaður um að hið frjálsa markaðshagkerfi virki alltaf til hins ýtrasta eins og þingmaðurinn Jón Magnússon, en burt séð frá því held ég að mjög margt af því sem kom fram í máli hans eigi fyllilega rétt á sér. Ég hef a.m.k. tilheigingu til að trúa því og halda að frumvarpið sé flutt í þeim tilgangi að efla vernd neytenda og styrkja möguleika þeirra á því að fylgjast með þeim kostnaði sem þeir verða fyrir vegna talsíma- og farsímaþjónustu eða reikiþjónustu eins og hún heitir nú. Ég held að hér sé verið að stíga skref sem ganga í þá veru að samræma gjaldskrá innan Evrópska efnahagssvæðisins fyrir þá þjónustu sem um er að tefla.

Ég held að það sé rétt sem kom fram áðan að oft sé verið að taka miklu hærri gjöld fyrir þessa þjónustu en nemur raunverulegum kostnaði sem liggur þar á bak við — jafnvel þó að gert sé ráð fyrir eðlilegri arðsemi af þessari starfsemi séu menn að greiða miklu hærri gjöld. Mig furðar, ef það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Magnússonar, að jafnvel þótt hringt sé í símtæki sem slökkt er á skuli vera tekið gjald fyrir það af því númeri sem hringt er í, (Gripið fram í.) reikisímtal, já. Þetta er ótrúlegt ef satt er og mér finnst eðlilegt að menn skoði frekar hvernig þessu víkur við, hvort þetta er heimilt og hvort hægt er að taka á þessu með einhverjum hætti. Ég held að fæstir geri sér grein fyrir þessu. Ég tek undir það að mikilvægt sé að styrkja og efla stöðu hins almenna borgara, neytanda, í þessu samhengi og það er gert með frumvarpinu sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um fjarskipti.

Ég vil einnig koma inn á það sem enn fremur kom fram í máli Jóns Magnússonar, hv. 10. þm. Reykv. s., þ.e. með hvaða hætti Evrópureglugerðir og tilskipanir ber að íslenskum stjórnvöldum og þá Alþingi sérstaklega þegar um er að ræða að þær kalli á lagabreytingar. Þetta er mál sem hefur komið upp nokkur skipti í vetur þegar mælt hefur verið fyrir frumvörpum og þingmálum þar sem verið er að leiða í íslenskan rétt tilskipanir frá Evrópusambandinu sem falla undir samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er augljóst að þetta mál er ekki alveg nýtt af nálinni, þetta er búið að vera nokkuð lengi í undirbúningi, og tilskipun Evrópusambandsins um reiki á almennum farsímanetum er frá árinu 2002, þannig að það var ljóst að þær reglur sem hér eru á ferðinni mundu verða innleiddar í íslenskan rétt. Eins og fram kemur í greinargerð er umrædd reikireglugerð hluti af EES-samningnum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, um breytingu á IX. viðauka EES-samningsins nr. 143/2007, frá 27. okt. 2007, „með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af IX. viðauka, bókun I, um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans“, eins og segir í greinargerð, með leyfi forseta.

Við höfum fjallað um það fyrr í vetur með hvaða hætti þessar reglur ber að íslenska löggjafarþinginu. Ljóst er að þegar reglur kalla á lagabreytingar á að kynna þær strax á upphafsstigi á þinginu. Settar voru reglur, eins og ég hef áður vitnað til, árið 1994 af hálfu forseta Alþingis, forsætisnefndar, um meðferð EES-mála þar sem gert er ráð fyrir að þau komi á fyrstu stigum til kynningar í utanríkismálanefnd, í viðkomandi fagnefnd og gagnvart þingmannanefnd EFTA. Það er ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá því í október 2007 að þessi tilskipun sé hluti af EES-samningnum.

Ég get upplýst að ég á sæti í þingmannanefnd EFTA. Ég hefði gert ráð fyrir því að mál af þessum toga væru þá kynnt gagnvart þingmannanefnd EFTA. Við höldum reglulega fundi, áttum til að mynda fund í Brussel í október og annan í Strassborg í nóvember um það leyti sem þetta mál er að fara í gegnum sameiginlegu EES-nefndina. Það kom aldrei þar til umfjöllunar, var ekki greint frá því að þetta væri í farvatninu. Það er sem sagt þessi aðferðafræði sem hefur verið viðhöfð sem ég leyfi mér að gagnrýna í störfum þingsins og þetta lýtur auðvitað að því hvernig þingið tekur á þessum málum. Við eigum að vera miklu ákveðnari í því að kalla eftir því að stjórnsýslan komi með þessi mál, sérstaklega þegar um það er að ræða að það kallar á lagabreytingar því að þá hefur væntanlega verið af hálfu Íslands skrifað undir þessar tilskipanir með fyrirvara og hinum stjórnskipulega fyrirvara beitt gagnvart viðkomandi reglum vegna þess að þær kölluðu á lagabreytingar. Ég tel því að það sé mjög mikilvægt — og ég leyfi mér, frú forseti, í hvert skipti sem mál af þessum toga kemur upp að vekja athygli á þessu vegna þess að dropinn holar steininn. Mér finnst mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að það er Alþingi sem fer með löggjafarvaldið, það er Alþingi sem breytir lögum og það er eiginlega ekki hægt að una því að prinsippákvarðanir um lagabreytingar á stjórnsýslustigi séu teknar í einhverjum starfsnefndum á vegum stjórnsýslunnar, framkvæmdarvaldsins, annars vegar hins íslenska eða þeirra landa sem eru EFTA-löndin í EES og stjórnsýslu Evrópusambandsins hins vegar. Þetta vildi ég láta koma fram í umræðu um þetta mál.

Ég hef engar athugasemdir við efnisatriði frumvarpsins, að svo miklu leyti sem ég hef getað farið yfir það, og að svo miklu leyti sem ég, svo að ég sé algerlega heiðarlegur, skil alla þá tækni sem hér er á ferðinni, því að hún er flókin, en ég trúi því að með frumvarpinu sé verið að leita leiða til að efla neytendavernd og til að draga úr kostnaði við reikisímtöl innan Evrópska efnahagssvæðisins og ég tel að það sé jákvætt mál og mikilvægt að það nái fram að ganga. Ég vildi þó ekki láta hjá líða, virðulegur forseti, að vekja máls á því að það er mjög brýnt að við séum okkur meðvituð um þær reglur sem koma yfir okkur frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn og að þær fái efnislega meðferð á undirbúningsstigi af hálfu Alþingis í þeim nefndum sem eiga að fjalla um þessi mál, þ.e. utanríkismálanefnd, viðkomandi fagnefnd og þingmannanefnd EFTA. Þetta vil ég einfaldlega ítreka í umræðu um þetta þingmál.



[14:59]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni sem gerði grein fyrir því hvernig hann hefði komið að málum í EFTA-nefndinni og haft afskipti af því. Ekki er nógu oft vikið að því að það er verulega til vansa að þingmenn skuli samþykkja að á ferðinni skuli vera löggjafarstarfsemi, undirbúningur og umræða undir löggjöf, án þess að nokkurn tíma komi til kasta Alþingis Íslendinga á því stigi sem íslenska þjóðin að þjóðarétti hefur nokkuð með það að gera. Vegna þess hversu illa og óhönduglega tókst til við gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið höfum við enga möguleika til að skipta okkur af þeirri löggjöf sem okkur er síðan ætlað að lögleiða nema á byrjunarstigi, meðan málið er á fyrsta undirbúningsstigi, sem venjulegast tekur þá nokkur ár að fullgilda og fer í gegnum mjög marga aðila og margar nefndir til þess að verða að tilskipunum eða reglugerðum Evrópubandalagsins. Þetta er það sem við þurfum að sæta — við, Norðmenn og Liechtenstein — vegna þess hvernig samið var á sínum tíma um Evrópska efnahagssvæðið, að við höfum ekkert með málið að gera nema á byrjunarstigi.

Mér finnst full ástæða til, alltaf þegar tækifæri gefst til, að vekja athygli á því að það er óþolandi að fagráðherrar hver á sínu sviði, og þá sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra, gæti þess ekki — og það á að vera í verkahring hæstv. utanríkisráðherra að gæta að því — að Alþingi Íslendinga sé þátttakandi í allri löggjafarstarfsemi sem lýtur að og varðar þær reglur og regluverk sem kemur frá Evrópusambandinu og að starfsnefndir Alþingis geti fylgst með málum með sama hætti og hagsmunaaðilar gera á Íslandi.

Á grundvelli þess að Alþýðusamband Íslands er í Evróputengslum er þar verið að fjalla um reglugerðir á sviði vinnuréttar. Sama er um Samtök atvinnulífsins, sama er um Neytendasamtökin o.s.frv. Á Alþingi Íslendinga, sem hefur það stjórnarskrárskipaða hlutverk að setja þjóðinni lög, sitja menn og hafa ekkert um málið að segja fyrr en það er lagt til í frumvarpsformi, að taka upp ákvæði reglugerðar Evrópuþings og Evrópuráðs samkvæmt ákveðnu númeri og nafni. Þá höfum við enga möguleika til að gera einhverjar breytingar eða setja fram athugasemdir. Það finnst mér athugavert.

Nú skal það hins vegar viðurkennt að iðulega er um verulegar réttarbætur að ræða í þessu regluverki en ég ber samt sem áður svo mikla virðingu fyrir íslensku hugviti og íslenskri getu, og möguleikum okkar sem höfum og eigum að sinna umræddu hlutverki, að við gætum gert góða hluti enn betri. Það er hlutverk okkar og því verðum við að sinna.

Mun vitlegra hefði verið — með þeim gríðarlega kostnaðarauka sem hellt var yfir landsmenn í tengslum við starfsemi Alþingis, m.a. aðstoðarmenn o.fl. — að skipta því þannig að búinn væri til þekkingarbanki, m.a. á þessu sviði, þannig að þingmenn væru færir um að sinna löggjafarstarfinu eins og þeim ber skylda til, m.a. varðandi hinar erlendu gerðir. Þar er potturinn fyrst og fremst brotinn.

Á sama tíma og ég hef lýst yfir stuðningi við frumvarpið gengur það að hluta til lengra en tilskipun Evrópusambandsins og um lágmarkstilskipun er að ræða, eftir því sem ég get séð, þannig að við getum gengið lengra. En ég tel að við eigum líka að skoða hvort samkeppni sé næg varðandi GSM-þjónustu á innanlandssviðinu og tel að veruleg ástæða sé til að fylgjast mjög vel með því.



[15:04]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er einmitt kjarni málsins sem hér kom fram hjá hv. þm. Jóni Magnússyni að það er í raun fyrst og fremst á frumstigi mála sem EFTA-ríkin eða EES-ríkin hafa möguleika á því að koma að undirbúningi löggjafar og hafa áhrif á hana. Það er sannarlega þannig í EES-samningum að við Íslendingar eins og Noregur og Liechtenstein höfum tæki og tækifæri til að koma að undirbúningi mála, taka þátt í undirbúningsvinnu í nefndum stjórnsýslunnar, við höfum möguleika á því að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Það er meira að segja þannig að í samskiptum af þeim toga þegar verið er að undirbúa löggjöf er ekkert sérstaklega verið að spyrja að því, eins og ég hef skilið málin, hvort athugasemdir komi frá Evrópusambandsríki eða EFTA-ríki í EES-samstarfinu. Það er fyrst og fremst spurt að því hvað menn hafi til málanna að leggja, hvaða þekkingu menn búi yfir, hvernig þau sjónarmið sem þarna koma fram geti nýst í þeirri vinnu sem verið er að vinna þegar löggjöf er undirbúin.

Þarna höfum við auðvitað mjög margt til málanna að leggja. Það hefur komið fram, m.a. af hálfu fulltrúa Evrópusambandsins, að í sumum málum eins og t.d. tilskipun sem nú er í umræðunni um málefni siglinga, hafi þau sjónarmið sem Noregur og Ísland settu fram í undirbúningsvinnunni haft veruleg áhrif á þá tilskipun Evrópusambandsins einfaldlega vegna þess að það eru lönd sem létu sig þetta mál varða strax á frumstigi og hafa mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði og gátu haft áhrif. Menn sáu það í Evrópusambandinu að þarna voru sjónarmið, viðhorf og reynsla sem eðlilegt var að taka tillit til. Ég segi því eins og hv. þm. Jón Magnússon að íslenska stjórnsýslan og íslenskir sérfræðingar hafa margt til málanna að leggja í mörgum málum sem verið er að vinna og það getur átt við í fjarskiptamálunum eins og á hverju öðru sviði. Þess vegna er mjög mikilvægt að við fylgjumst með því sem verið er að gera og tökum þátt í því.

Ég tek undir það að í rauninni er ekki boðlegt fyrir þingið að þessi mál beri alltaf að því á allra síðustu stigum og þetta sé í raun og veru frágengið allt saman, vegna þess að það t.d. hvort einhver tilskipun eins og sú sem hér er á ferðinni eða hver önnur heyrir undir EES-samninginn eða ekki er í sjálfu sér pólitísk ákvörðun. Fyrsta spurningin sem ég mundi vilja spyrja þegar svona mál koma upp er sú: Heyrir viðkomandi tilskipun undir EES-samninginn eða ekki? Þeirri spurningu er að sjálfsögðu svarað en það er gert á embættisstiginu, af hálfu stjórnsýslunnar þannig að sú pólitíska umræða fer í raun ekki fram eins og hún ætti að gera að mínu viti.

Af því að þingmaðurinn Jón Magnússon sagði að við og Noregur og Liechtenstein værum undir þá sök seld að hafa lítil áhrif nema rétt á allra fyrstu stigum vek ég athygli á því að í norska Stórþinginu hafa verið settar mjög ákveðnar reglur um meðferð EES-tilskipana, hvernig þær koma inn í þingið, á hvaða stigum, hvaða meðferð þær fá þar og umfjöllun. Við getum lært af því, ég veit að utanríkismálanefnd hefur farið og kynnt sér þessi mál í norska Stórþinginu og ég held að við ættum bara að taka upp svipað vinnulag og þar er. Þingmenn norska Stórþingsins hafa miklu meiri aðgang að því sem er að gerast hjá Evrópusambandinu, miklu meiri upplýsingar um þær tilskipanir sem eru í undirbúningi af því að þær koma þar til kynningar á miklu fyrri stigum en gert er hér. Við eigum auðvitað ekki að sætta okkur við að þetta sé með öðrum hætti hér en í öðrum þingum EES-ríkjanna. Ég tel að við getum gert miklu betur í þessu og ítreka það sem ég hef sagt áður í umræðunni um þetta mál og tek undir það með hv. þm. Jóni Magnússyni.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til samgn.