137. löggjafarþing — 48. fundur
 10. ágúst 2009.
breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins, 2. umræða.
stjfrv., 89. mál. — Þskj. 105, nál. 298 og 300, brtt. 301.

[15:33]
Frsm. meiri hluta allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson og Halldór Árnason frá forsætisráðuneyti, Þórunni J. Hafstein og Jón Magnússon frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Áslaugu Árnadóttur og Jónínu Lárusdóttur frá viðskiptaráðuneyti, Guðmund Árnason, Angantý Einarsson og Arnar Þór Másson frá fjármálaráðuneyti, Tryggva Axelsson frá Neytendastofu, Rósmund Guðnason og Magnús Sigmund Magnússon frá Hagstofu Íslands, Franklín Georgsson og Svein Margeirsson frá Matís ohf. og Eirík Blöndal frá Bændasamtökum Íslands.

Umsagnir bárust frá Neytendastofu, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Kauphöll Íslands, Byggðastofnun, tollstjóranum í Reykjavík, Hagstofu Íslands, Íbúðalánasjóði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fjármálafyrirtækja, Framkvæmdasýslu ríkisins, Ríkisendurskoðun, Samtökum atvinnulífsins, Matís ohf., ríkisskattstjóra, Ríkisútvarpinu ohf., sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Viðskiptaráði Íslands, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Fjármálaeftirlitinu, Keflavíkurflugvelli ohf., Fasteignaskrá Íslands, Neytendasamtökunum, Bændasamtökum Íslands og Seðlabanka Íslands.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna breytinga á heitum ráðuneyta og tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Flestar breytingarnar lúta að flutningi verkefna til efnahags- og viðskiptaráðuneytis, þ.e. málefna Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands frá forsætisráðuneyti, og flutningi málefna er varða ársreikninga, endurskoðun og bókhald frá fjármálaráðuneyti. Auk þess er lagt til að stofnuð verði sjálfstæð rannsóknareining innan Hagstofu Íslands sem hafi það hlutverk að fylgjast með afkomu þjóðarbúsins, semja þjóðhagsspár og áætlanir og birta þær opinberlega. Þá er mælt fyrir um flutning verkefna til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, þ.e. flutning á málefnum sveitarstjórnarkosninga frá samgönguráðuneyti, flutning á málefnum fasteignamats og fasteignaskráningu frá fjármálaráðuneyti og flutning neytendamála frá viðskiptaráðuneyti o.fl.

Fyrir nefndinni kom fram að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu væru fyrsti þátturinn í þeim stjórnkerfisumbótum sem ráðist verður í á næstu mánuðum og árum. Þær varða tilfærslu verkefna milli ráðuneyta sem ætlað er að bæta stjórnsýslu og þjónustu við atvinnulíf og almenning. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að vandað sé til þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu svo ekki sé hætta á að mannauður og þekking fari forgörðum.

Meginmarkmið frumvarpsins er að efla og styrkja viðskiptaráðuneyti sem verður efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Þá verður dóms- og kirkjumálaráðuneyti dóms- og mannréttindamálaráðuneyti. Breytingarnar í frumvarpinu endurspeglast í breytingum á heitum ráðuneyta. Meiri hlutinn telur mikilvægt að fækka ráðuneytum, styrkja þau og samræma verkefni. Fyrir nefndinni kom fram að verkefni ráðuneyta skarast og koma mörg ráðuneyti því að sömu málaflokkum og því getur yfirsýn og samhæfing tapast eins og í tilfelli Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Meiri hlutinn lítur svo á að frumvarpið sé áfangi í átt að skilvirkara Stjórnarráði en áréttar mikilvægi þess að sem fyrst komi fram frumvarp sem lýtur að heildarsýn á Stjórnarráðið, sýn sem byggist á hagræðingu, skilvirkni, fækkun ráðuneyta og styrkingu þeirra.

Fram kom að til þess að tryggja sem best framkvæmd þeirra breytinga sem gera þarf hefur verið sett á fót verkefnisstjórn um stjórnkerfisumbætur þar sem í eiga sæti ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, auk sérfræðinga ráðuneytisins og fjármálaráðuneytis og fulltrúar þeirra ráðuneyta sem verkefnaflutningur varðar. Þá muni auk þess verða haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila. Meiri hlutinn telur mjög mikilvægt að slíkt samráð verði haft svo að unnt verði að skapa sátt um nauðsynlegar breytingar á næstu mánuðum og árum.

Á fundum nefndarinnar kom einnig fram að á vegum forsætisráðuneytis væri starfandi vinnuhópur sem miðaði að því að útbúa sóknaráætlun fyrir alla landshluta og samræma ýmsar áætlanir sem stjórnvöld standa fyrir. Þannig verði hugsanlega til atvinnu- og þjónustusvæði sem hafa hagnýta skírskotun. Meiri hlutinn telur mikilvægt að við þá vinnu verði einnig haft náið samráð við hagsmunaaðila.

Nefndin ræddi nokkuð um þær breytingar sem fela í sér flutning eignarhalds ríkisins í opinberum hlutafélögum, svo sem Ríkisútvarpinu ohf., Matvælarannsóknum hf. og hlutafélagi um rekstur Keflavíkurflugvallar, frá fagráðuneytum til fjármálaráðuneytis. Markmiðið með breytingunum er meðal annars að tryggja að ríkið hafi eina samræmda eigendastefnu til að auka trúverðugleika og einingu um hlutverk þess sem eiganda. Þessi þróun hefur verið innan ríkja OECD og áherslan þar með lögð á ríkið sem eiganda. Fram kom að með breytingunum mætti draga verulega úr þeirri hættu sem felst í að sami aðili sé í eigandafyrirsvari tiltekins félags auk þess að hafa faglegt eftirlit með starfsemi eða starfsumhverfi þess. Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að með þessu gæti samvinna og samráð fagráðuneyta við viðkomandi stofnanir minnkað og komið niður á faglegri vinnu. Meiri hlutinn leggur af því tilefni áherslu á að með þessum breytingum sé einungis verið að færa hlutabréfið til fjármálaráðuneytis en vald yfir málefnasviðum, reglusetning á þeim og faglegt samstarf við stofnanir verður hjá viðkomandi fagráðuneyti. Meiri hlutinn ítrekar mikilvægi þess að við skipan og tilnefningar stjórnarmanna í félög, sem eru að hluta eða í heild í opinberri eigu, verði gætt að faglegum sjónarmiðum og litið til fagþekkingar viðkomandi þannig að tryggt verði að breytingarnar verði ekki til þess fallnar að veikja samvinnu ráðuneytanna við stofnanirnar.

Fyrir nefndinni komu fram upplýsingar, sem varða flutning eignarhalds á Matvælarannsóknum hf. frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti til fjármálaráðuneytis, um að hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti gæti þurft að grípa til umfangsmikilla aðgerða á ýmsum sviðum til þess að mæta þeim erfiðu fjárhagsaðstæðum sem nú eru. Þannig gæti reynst óhjákvæmilegt að ráðast í gagngerar breytingar á uppbyggingu stofnana, sem getur þýtt formbreytingu á hluta starfseminnar og að Matvælarannsóknir hf. gætu orðið órjúfanlegur hluti af þeirri leið sem valin verður. Meiri hlutinn telur að þegar litið sé til þessa sé rétt að fresta þessari breytingu þar sem að hún kann að flækja málin og gera nauðsynlegar breytingar erfiðari. Meiri hlutinn leggur því til að 66. gr. frumvarpsins falli brott.

Meiri hlutinn ræddi einnig þær breytingar sem lagðar eru til á neytendamálum en að meginstefnu til á sá málaflokkur að færast frá viðskiptaráðuneyti yfir í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti fyrir utan þá lagabálka sem snúa að fjármálamarkaðinum, en þeir verða áfram á verksviði efnahags- og viðskiptaráðuneytis enda þótt alltaf megi búast við einhverri skörun við neytendamálaflokkinn, samanber lög um rafrænar undirskriftir og rafræn viðskipti. Undir neytendamálaflokkinn falla ýmis lög á verksviði Neytendastofu og talsmanns neytenda. Í skýrslu, sem unnin var fyrir viðskiptaráðuneytið af þremur stofnunum Háskóla Íslands, Félagsvísindastofnun, Hagfræðistofnun og Lagastofnun um úttekt á stöðu neytendamála á Íslandi, Ný sókn í neytendamálum, komu fram tillögur að breytingum á skipan neytendamála sem byggjast að nokkru á norrænni fyrirmynd. Tillögur skýrsluhöfunda voru að sameina Neytendastofu og embætti talsmanns neytenda. Fram kom að ekki hefði unnist tími til að vinna úr þessum tillögum í viðskiptaráðuneyti vegna mikilla anna í tengslum við bankahrunið. Meiri hlutinn telur að þær tillögur sem settar eru fram í skýrslunni séu til þess fallnar að styrkja þennan málaflokk sem fer sífellt stækkandi og er til dæmis ákveðin þungamiðja í rétti nágrannaríkjanna sem og í Evrópusambandslöggjöf. Með sameiningunni mætti einnig ná fram nokkurri hagræðingu og telur nefndin því mikilvægt að á vegum nýs dóms- og mannréttindamálaráðuneytis verði farið í að skoða þær tillögur sem koma fram í skýrslunni.

Þá var einnig rætt um málefni Hagstofu Íslands en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hún færist undir efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Þá er í frumvarpinu lagt til að við Hagstofu Íslands verði starfrækt sjálfstæð rannsóknareining sem verði aðskilin frá þeirri hagskýrslustarfsemi sem fyrir er og verði henni ætlað að fylgjast með afkomu þjóðarbúsins, semja þjóðhagsspár og áætlanir og birta opinberlega. Þessi vinna fer nú fram á efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis og er í frumvarpinu gert ráð fyrir að sá hluti hennar verði fluttur til Hagstofunnar. Í lögum og reglum um hagskýrslustarfsemi er lögð áhersla á faglegt sjálfstæði hagstofa, að þær séu hlutlausar og beiti viðeigandi verklagi. Einnig er lögð áhersla á gæði hagskýrslna, trúnað og gagnsæi í vinnubrögðum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að skýran greinarmun þurfi að gera á söfnun og úrvinnslu upplýsinga annars vegar og stefnumörkun og ályktunum sem byggjast á tölfræðinni hins vegar. Fyrir nefndinni kom fram að mjög mikilvægt væri að þessi sjálfstæða rannsóknareining yrði aðskilin algerlega frá hagskýrslugerðinni og að hún heyrði þannig beint undir hagstofustjóra. Meiri hlutinn telur því nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á skipuriti stofnunarinnar samhliða þessum breytingum og enn fremur að settar verði mjög skýrar verklagsreglur byggðar á lögum og alþjóðlegum reglum um samskipti þessarar sjálfstæðu rannsóknareiningar og annarra rannsakenda við Hagstofuna.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar lagfæringar á frumvarpinu en í 1. gr. þess eru lagðar til breytingar á 4. gr. laga um Stjórnarráð Íslands þar sem ráðuneyti eru talin upp í stafrófsröð á eftir forsætisráðuneyti. Meiri hlutinn telur rétt að halda núverandi tilhögun laganna og leggur því til breytingu á frumvarpinu í þá átt. Meiri hlutinn leggur auk þess til að við frumvarpið bætist tveir nýir kaflar. Sá fyrri varðar breytingar á lögum um lögbann og dómsmál til verndar heildarhagsmunum neytenda sem falla eiga undir verksvið dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og hinn síðari varðar breytingar á lögum um neytendalán sem eftir breytingar á ráðuneytum heyra undir efnahags- og viðskiptaráðherra í stað viðskiptaráðherra. Þá leggur meiri hlutinn til smávægilegar lagfæringar á frumvarpinu sem þarfnast ekki skýringa.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.

Auk þeirrar sem hér stendur skrifa undir álitið Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Róbert Marshall og Þráinn Bertelsson.



[15:45]
Frsm. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hluta allsherjarnefndar en undir nefndarálit þetta skrifa auk mín hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir og Vigdís Hauksdóttir.

Álitið er byggt á því að minni hluti nefndarinnar telur málið ekki tækt til afgreiðslu á þeirri forsendu sem rakin er í álitinu, að það skorti verulega á um undirbúning þess með ýmsum hætti og eins að í rauninni sé verið að byrja á einhverju verki án þess að hægt sé að átta sig á heildarmyndinni eða skoða hvaða breytingar ríkisstjórnin eða stjórnarmeirihlutinn hafa áhuga á að gera á Stjórnarráðinu í heild.

Ég ætla að fara hér yfir þær athugasemdir sem við gerum í nefndarálitinu. Þar er í fyrsta lagi vísað til undirbúningsins.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„1. Þær breytingar sem felast í frumvarpinu eru ekki nægilega undirbúnar, greinilegt er að ekki hefur verið haft samráð við þær stofnanir sem málið varðar og ekkert bendir til þess að málið hafi á nokkurn hátt verið unnið í samstarfi við samtök starfsmanna. Undirbúningur að þessu leyti virðist því í fullkomnu ósamræmi við þær verklagsreglur og leiðbeiningar um undirbúning lagafrumvarpa sem finna má í handbók forsætisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og skrifstofu Alþingis frá nóvember 2007. Einungis hefur verið um að ræða samráð milli ráðuneyta og jafnvel það virðist ekki hafa verið fullnægjandi, samanber erindi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til allsherjarnefndar, dags. 8. júlí sl.“

Þarna er vakin athygli á því að þetta frumvarp er lagt fram að því er virðist án samráðs við nokkurn aðila sem málið varðar. Í málsmeðferðinni hefur ekki komið fram að um slíkt samráð hafi verið að ræða. Það er dálítið sérkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að þegar við fórum síðast í gegnum breytingar á Stjórnarráðinu fyrir einu og hálfu ári síðan var aðdragandinn og undirbúningurinn miklu betri en engu að síður var haldið uppi harðri gagnrýni hér í þinginu, m.a. af hv. þm. Atla Gíslasyni, á þær breytingar sem þar voru lagðar til á nákvæmlega þeim forsendum að ekki hefði verið um nægilegan undirbúning að ræða og ekki hefði verið fylgt eftir þeim leiðbeiningum sem finna má í handbók forsætisráðuneytisins og annarra aðila. Það skýtur skökku við að þetta skuli látið óátalið af hálfu stjórnmálaafla sem fyrir örfáum mánuðum síðan, kannski 18 mánuðum, ég man ekki nákvæmlega hvenær, héldu uppi harðri gagnrýni á vinnubrögð í sambærilegu máli sem þó voru miklu betri en núna eru á ferðinni. Það er mjög sérstakt.

Í öðru lagi er í nefndarálitinu fjallað um að breytingarnar í frumvarpinu virðist á margan hátt fálmkenndar og tilviljanakenndar. Vakin er athygli á því að um er að ræða breytingar hér og þar án þess að ljóst sé eitthvert heildarsamhengi. Eins og við segjum í nefndarálitinu skortir sárlega þá heildarsýn á skipulag og tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins sem hefur þó verið boðuð af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þetta gerir mönnum auðvitað erfiðara fyrir að taka afstöðu til einstakra tillagna vegna þess að það er óljóst hvernig breytingarnar munu falla að því heildarskipulagi sem á að taka við þegar þessar breytingar af hálfu ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga. Verið er að taka þetta í bútum án þess að heildarmyndin liggi nægilega skýrt fyrir. Eins og við segjum er um það rætt að jafnvel komi nýtt lagafrumvarp fram á haustþingi með frekari breytingum í þessum efnum. Við í minni hlutanum segjum: Hefði ekki verið skynsamlegra að ríkisstjórnin legði fram heildstæðar tillögur og Alþingi gæti þannig tekið afstöðu til þeirra hugmynda sem eru á borði ríkisstjórnarinnar í heild í eðlilegu samhengi í staðinn fyrir að taka þetta í einhverjum litlum skömmtum?

Þetta beinir sjónum að þriðja atriðinu sem við nefnum í nefndarálitinu sem er að það skortir fullnægjandi rök fyrir því að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér séu svo brýnar að ekki megi bíða með þær. Ég velti því fyrir mér og við gerum það í nefndarálitinu: Hvað er það í frumvarpinu sem ekki má bíða þangað til ríkisstjórnin er búin að ljúka því verki sem hún boðar í sambandi við heildarendurskoðun á Stjórnarráðinu? Er eitthvað í þessu frumvarpi sem felur í sér einhverjar bráðaaðgerðir til þess að takast á við einhvern yfirvofandi eða aðsteðjandi vanda? Ég átta mig ekki alveg á því. Ég sé ekki alveg hvaða bráðavanda menn telja sig vera að leysa með þeim breytingum sem hér eru boðaðar. Ég sé ekki að það sé neitt í þessu frumvarpi, burt séð frá efnisatriðunum sem við getum rætt nánar síðar, sem mundi valda einhverju tjóni þó að það yrði tekið fyrir t.d. á haustþingi þegar ríkisstjórnin ætlar að leggja fram annað frumvarp um breytingar á Stjórnarráðinu. Ég átta mig ekki á því hvernig þetta er hugsað.

Við vekjum athygli á því í fjórða lagi að það er ekkert í þessu frumvarpi sem er til þess fallið í sjálfu sér að ná fram sparnaði eða hagræðingu. Það er mat fjárlagaskrifstofunnar, og því mati hefur svo sem ekki verið hnekkt, að það muni einungis verða um tilflutning á kostnaði að ræða en ekki neinn sparnað. Það skýtur svolítið skökku við vegna þess að þegar ríkisstjórnin byrjaði að kynna hugmyndir sínar um breytingar á Stjórnarráðinu var það gert undir þeim formerkjum að það ætti að ná fram hagræðingu og sparnaði. Svo kemur fyrsta frumvarpið til þess að framfylgja þeirri stefnu og niðurstaðan er enginn sparnaður, bara tilflutningur á kostnaði. Það er dálítið sérstakt og vekur enn þá spurningar um það á hvaða leið stjórnarmeirihlutinn er í þessu máli, af hverju er verið að þessu. Hvað er það sem rekur á eftir?

Í fimmta lagi fjöllum við aðeins um það sem telja má veigamestu efnisbreytinguna í frumvarpinu sem lýtur að tilfærslu málefna og stofnana á sviði efnahagsmála til viðskiptaráðuneytis. Við í minni hlutanum tökum undir þau sjónarmið að reynsla undanfarinna mánaða kalli vissulega á endurskoðun í þeim efnum, aukna samræmingu og samhæfingu, hugsanlega tilfærslu verkefna og stofnana og aðrar breytingar sem geta leitt til þess að kraftar innan stjórnkerfisins nýtist sem best, því mótmæla menn. Minni hlutinn telur hins vegar nauðsynlegt að fyrir liggi mótaðar hugmyndir og tillögur um fyrirkomulag í þeim efnum í samhengi við aðrar breytingar, t.d. á þeim stofnunum sem starfa á þessu sviði. Þá get ég nefnt Seðlabanka og Fjármálaeftirlit, það hafa ekki enn þá komið fram neinar mótaðar hugmyndir í þeim efnum. Við teljum að rétt sé að þessi mál séu skoðuð í einhverju slíku samhengi frekar en að byrja á því að taka einhvern hluta af málinu og afgreiða það með þessum hætti án þess að við sjáum fyrir endann á því hvernig næstu skref verða.

Síðan gerum við líka athugasemd við þá hugmynd sem býr þarna að baki, að það eigi að flytja forræði efnahagsmála frá forsætisráðuneytinu með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Efnahagsmálin hafa um langt skeið verið mikilvægasta viðfangsefni forsætisráðuneytisins. Eðli málsins samkvæmt snerta þau mál svið allra annarra ráðuneyta að meira eða minna leyti. Verkstjórnarhlutverk forsætisráðherra er því hvað veigamest, einmitt á því sviði. Tillögur um breytingar í þessum efnum eru sérstaklega undarlegar við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu. Öllum má vera ljóst að einmitt nú eru efnahagsmálin brýnasta og alvarlegasta viðfangsefni stjórnvalda og skýtur því skökku við að færa forræði þess málaflokks frá forsætisráðherra.“

Þetta bendum við á og við umfjöllun í nefndinni kom fram að sú raunverulega breyting sem verið er að boða með þessu fyrir utan breytingar á stofnunum feli í sér að tveggja manna efnahagsskrifstofa forsætisráðuneytisins verði flutt til viðskiptaráðuneytisins en síðan mun væntanlega koma efnahagsráðgjafi. Það kom fram á fundi nefndarinnar með embættismönnum að líklega yrði ráðinn ráðgjafi í efnahagsmálum til forsætisráðherra enda augljóst mál að forsætisráðherra þarf að hafa einhverja ráðgjöf í efnahagsmálum. Það er alveg augljóst að þegar efnahagsmálin eru jafnríkt viðfangsefni stjórnvalda þarf leiðtogi ríkisstjórnarinnar auðvitað að hafa einhverja ráðgjöf í efnahagsmálum, ég held að það eigi ekkert að þurfa að deila um það. Það sem gerist raunverulega er að tveggja manna skrifstofa færist yfir í viðskiptaráðuneytið og í staðinn er ráðinn einn maður. Mér finnst mjög sérkennilegt að fara í þennan leiðangur til þess að ná þessu marki.

Varðandi breytingar í sambandi við gerð þjóðhagsáætlana og aukin verkefni Hagstofu og annað sem boðað er í tengslum við það get ég sagt að mér finnst það á margan hátt skynsamlegt, ég get alveg tekið undir það. Hins vegar gengur hugmyndin um að það sé með einhverjum hætti nauðsynlegt að færa efnahagsmálin frá forsætisráðuneytinu ekki alveg upp í mínum huga.

Bara svo að ég nefni það til að hafa sagt það eru mjög margar af þeim breytingum sem fjallað er um í frumvarpinu yfir höfuð ekkert rökstuddar. Ég nefni t.d. atriði sem varða flutning neytendamála frá viðskiptaráðuneyti til dómsmálaráðuneytis. Í frumvarpinu er ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því. Ég get sagt fyrir sjálfan mig að það getur vel verið að það sé á einhvern hátt betra að vista neytendamál hjá dómsmálaráðuneyti en viðskiptaráðuneyti en ég hef ekki alveg áttað mig á hver rökstuðningurinn fyrir því er og frumvarpið sem slíkt hjálpar mér ekkert við að komast að neinni niðurstöðu af því að þar er engan rökstuðning að finna. Þar er bara vísað til þess að það sé gert samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Sama máli gegnir um margar aðrar breytingar sem þarna eru boðaðar, þær eru ekkert rökstuddar. Það er bara sagt að þetta sé gert samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Það bendir auðvitað til þess að það skorti töluvert á undirbúning málsins og afgreiðslu að ekki skuli gerð nein tilraun til að rökstyðja svona þætti.

Af því að við nefnum þetta sérstaklega — við víkjum ekkert að því í nefndarálitinu — velti ég því fyrir mér í sambandi við flutning neytendamálanna hvort það kunni að vera einfaldlega til þess að ekki séu of mörg verkefni á borði viðskiptaráðherra sem fær fullt af verkefnum með efnahagsmálunum. Ef það er hugmyndin á bak við þetta er það hvergi sagt í þessu frumvarpi og ekkert rökstutt.

Sama máli gegnir um t.d. nafnabreytinguna á dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, að breyta því í dóms- og mannréttindamálaráðuneyti, ekki er rökstutt hvers vegna gera eigi þá breytingu. Það er ekki gerð tilraun í frumvarpinu til að útskýra af hverju þetta er. Hlutverk dómsmálaráðuneytisins samkvæmt lögum verður hvorki meira né minna á sviði mannréttindamála eftir að þessi lagabreyting hefur náð fram að ganga. Í þessu lagafrumvarpi er ekki verið að breyta neinum lögum sem færa dómsmálaráðuneytinu aukin verkefni á sviði mannréttindamála. Ég spyr mig enn: Af hverju er verið að gera þetta? Ef það eru einhver góð rök fyrir því að gera þetta er þau ekki að finna í þessu frumvarpi.

Svo eru aðrar breytingar sem vel má ímynda sér að geti átt rétt á sér. Ég nefni t.d. breytingar á heiti samgönguráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneyti.

Þar varð efnisbreytingin reyndar fyrir einu og hálfu ári þegar sveitarstjórnarmálin voru færð til samgönguráðuneytisins og það er kannski ekki óeðlilegt að nafnbreytingin fylgi í kjölfarið, það hefði kannski átt að gera það þá, ég veit það ekki.

Varðandi dóms- og mannréttindaráðuneytið. Jú, einhverjum kann að þykja það hljóma fallega og það er kannski einhver pólitík í því en það segir ekkert. Það fylgir því engin efnisbreyting á verkefnum dómsmálaráðuneytisins á sviði mannréttindamála þannig að það er svolítið sérstakt.

Síðan er rétt að vekja athygli á því þó að það sé utan við efni þessa frumvarps að uppi eru einhverjar hugmyndir um það á vegum ríkisstjórnarinnar að sameina samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytið þessu dómsmála- og mannréttindaráðuneyti einhvern tíma í framtíðinni og kalla það innanríkisráðuneyti. Þá spyr ég: Bíddu, af hverju klára menn ekki bara það sem þeir ætla sér? Af hverju gera menn ekki þá breytingu í staðinn fyrir að taka einhver milliskref? Ef ríkisstjórnin hefur einhverjar hugmyndir um hvernig þetta á að vera, af hverju undirbýr hún þá ekki þær tillögur og leggur þær fram hér í þinginu frekar en að vera í einhverju svona hálfkáki? Ég átta mig ekki á þessu.

Síðan eru spurningar í þessu sem næst kannski að ræða betur þegar málið kemur aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. en öllum þessum grundvallarspurningum er í mínum huga ósvarað. Er málið nægilega unnið? Nei, mér sýnist svo ekki vera. Er málið unnið í einhverju heildarsamhengi? Nei, mér sýnist ekki. Er málið svo brýnt að það þoli ekki bið, t.d. fram á haust ef leggja á fram nýtt frumvarp þá? Það er ekkert í mínum huga sem gerir það að verkum að það þurfi nauðsynlega að klára þetta núna. Það eru engar efnisbreytingar í þessu frumvarpi sem leysa einhvern vanda sem við er að stríða í augnablikinu og ekkert sem segir að það geti ekki beðið fram í október, nóvember.

Eins sakna ég þess að það komi fram einhverjar tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar um hagræðingu og sparnað því að nógu mikið hefur verið talað um það. Það vekur athygli að á þessum tíma þegar alls staðar þarf að spara í ríkisrekstrinum og allir eru sammála um að fyrsta frumvarpið sem ríkisstjórnin lagði fram um Stjórnarráð Íslands skuli ekki leiða til sparnaðar á einni einustu krónu. Fjármálaráðuneytið metur það sjálft svo að þetta sé bara tilflutningur á kostnaði, enginn sparnaður. Þarna eru menn með öðrum orðum að missa af tækifæri til að ná fram einhverri hagræðingu og sparnaði ef það er þá raunverulega ætlun manna í sambandi við stjórnkerfisbreytingar.

Ég gæti komið víðar við. Ein setning í áliti meiri hlutans vakti athygli mína — ég get tekið undir ýmsar hugleiðingar sem koma fram í áliti meiri hlutans, það rétt að halda því til haga, sérstaklega um mikilvægi þess að vanda útfærsluna og annað þess háttar. Ef menn ætla sér á annað borð að lögleiða þessar breytingar er eins gott að framkvæmdin verði betur undirbúin en lagasetningin. Ég vek athygli á setningu í nefndaráliti meiri hlutans sem er efst á bls. 2. Þar segir:

„Meiri hlutinn lítur svo á að frumvarpið sé áfangi í átt að skilvirkara Stjórnarráði en áréttar mikilvægi þess að sem fyrst komi fram frumvarp sem lýtur að heildarsýn á Stjórnarráðið, sýn sem byggist á hagræðingu, skilvirkni, fækkun ráðuneyta og styrkingu þeirra.“

Ég get tekið undir þetta allt. Ég spyr mig: Ef ríkisstjórnin ætlar sér það og ef meiri hluti stjórnarflokkanna í allsherjarnefnd er þeirrar skoðunar að koma eigi fram frumvarp sem lýtur að heildarsýn á Stjórnarráðið, af hverju erum við þá að fást við þessar smáskammtalækningar núna? Af hverju erum við í hálfgerðri þoku að taka ákvarðanir um einhverjar tilteknar breytingar þegar heildarsýnin liggur ekki fyrir? Ég fæ ekki botn í það.

Ég tek undir það að mörgu leyti sem kemur fram í framhaldi af þessu í nefndaráliti meiri hlutans.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Fram kom að til þess að tryggja sem best framkvæmd þeirra breytinga sem gera þarf hefur verið sett á fót verkefnisstjórn um stjórnkerfisumbætur þar sem í eiga sæti ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis auk sérfræðinga ráðuneytisins og fjármálaráðuneytis og fulltrúar þeirra ráðuneyta sem verkefnaflutningur varðar. Þá muni auk þess verða haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila. Meiri hlutinn telur mjög mikilvægt að slíkt samráð verði haft svo að unnt verði að skapa sátt um nauðsynlegar breytingar á næstu mánuðum og árum.“

Allt er þetta gott og blessað og satt og rétt og fínar áherslur hjá meiri hlutanum en spyrja má: Hefði þetta samráð sem þarna er verið að tala um ekki átt að eiga sér stað áður en frumvarpið var lagt fram? Er ekki verið að gera hlutina í vitlausri röð? Ég spyr bara: Í hvaða röð er verið að gera hlutina? Af hverju er verið að gera þetta núna? Af hverju er ekki sett á fót vinna eins og þarna er boðuð, farið faglega í gegnum það hvert hlutverk ráðuneytanna er, hvernig ná megi fram samræmingu og sameiningu, hagræðingu og sparnaði? Af hverju er þetta ekki gert í samhengi? Af hverju er byrjað á því að koma með lagafrumvarp, því hent inn í þingið og lögð mikil áhersla á að það verði klárað á sumarþingi án neinnar sérstakrar ástæðu? Af hverju er ekki byrjað á réttum enda, byrjað á því að setja fram einhverja heildarsýn, einhverja stefnu, útfæra þær breytingar og koma með þetta allt hér inn í einum pakka þannig að hægt sé að taka þá afstöðu til þess í einhverju samhengi? Og af hverju er ekki undirbúningurinn með þeim hætti að samráðið fari fram áður en breytingarnar eru gerðar en ekki eftir að þær hafa verið lögfestar? Er það ekki eðlilegri röð á hlutunum? Ég skil eiginlega ekki á hvaða leið ríkisstjórnin er með þessu.

Eins og fram hefur komið í máli mínu er minni hluti allsherjarnefndar fremur neikvæður gagnvart þessu frumvarpi og leggur til að það verði ekki afgreitt. Við munum hins vegar óska eftir því að málið gangi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og þá fáum við kannski skýrari svör við ýmsum af þeim spurningum sem hér hefur verið spurt. Varðandi efnisatriðin getur vel verið að sumar af þeim breytingum sem verið er að boða séu ágætar. Það virðist hins vegar skorta á undirbúning, það virðist skorta á fagleg vinnubrögð, það virðist ekki hafa farið fram nein greining á þeim vandamálum sem eru fyrir hendi í stjórnkerfinu í dag. Verið er að leggja fram frumvarp um breytingar á Stjórnarráðinu og það virðist engin greining vera því til grundvallar hvaða breytingar eru nauðsynlegar. Það er ekki nein úttekt á því hvaða hlutir það eru sem hafa farið úrskeiðis eða mættu fara betur. Það er ekki búið að stilla því upp með neinum hætti hvaða ástæðu menn hafa til tiltekinna breytinga. Allt ber því að sama brunni, verið er að göslast hér áfram í einhverjum breytingum án þess að búið sé að hugsa málin til enda og af þeim sökum leggjumst við gegn því að þetta verði samþykkt.

Eins og ég tek fram erum við í minni hluta allsherjarnefndar alls ekki þeirrar skoðunar að það geti ekki verið tilefni til breytinga. Við gerðum ákveðnar breytingar fyrir einu og hálfu ári á lögum um Stjórnarráðið, raunar meiri breytingar en boðaðar eru í þessu frumvarpi. Hefði kannski ekki verið ástæða til þess að fara yfir reynsluna af þeim breytingum, sjá að hvaða leyti þær tókust vel og hvaða leyti þær tókust illa? Hefði ekki verið rétt að fengnir yrðu jafnvel einhverjir utanaðkomandi menn til þess að reyna að meta árangurinn af þeim breytingum sem gerðar voru fyrir einu og hálfu ári áður en farið er að breyta aftur? Það er svolítið sérstakt.

Enn stendur það eftir sem stórt spurningarmerki í mínum huga: Af hverju er þessi asi á málinu, af hverju er verið að leggja áherslu á að klára þetta á sumarþingi þegar við vitum að strax á haustþingi, eftir kannski einn og hálfan mánuð, verður jafnvel lagt fram nýtt frumvarp um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands? Hvað er það sem þetta frumvarp á að gera sem ekki má bíða í einn og hálfan mánuð?



[16:10]
Frsm. meiri hluta allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vegna ræðu hv. þingmanns áðan er kannski rétt að undirstrika, eins og segir í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar, að þær breytingar sem hér eru lagðar til eru fyrsti þátturinn í breytingum á flutningi verkefna til efnahags- og viðskiptaráðuneytis, þ.e. Seðlabanka Íslands og Hagstofu, frá forsætisráðuneyti og yfir til fagráðuneytisins. Eins og hv. þingmaður kom inn á er það auðvitað stóra atriðið í þessum tillögum. Af því að hv. þingmaður talaði um að hann sæi ekkert í þessu sem kallaði á að gera þessar breytingar núna, að þetta mætti vel bíða fram á haust, má alveg færa fyrir því gild rök að nú sé bráðavandi uppi í samfélaginu sem m.a. endurspeglaðist hér sl. haust þegar bankahrunið varð og í ljós kom að það vantaði yfirsýn yfir efnahagsmál Íslendinga, þau væru samræmd og höfð á einum stað. Þess vegna er mjög brýnt að tekið verði af skarið núna strax og þessi málefni flutt. Það taki gildi núna strax með haustinu því að það veit það enginn í þessum sal hvenær nýtt frumvarp frá ríkisstjórninni kemur fram um heildarbreytingu og verkaskiptingu á Stjórnarráði Íslands, hvort það verður í september, október eða hvenær. Eins og kom fram á nefndarfundi allsherjarnefndar gátu embættismenn ekkert sagt til um það nákvæmlega. Það er hins vegar afar brýnt að þetta komist á koppinn sem allra fyrst.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um sparnað er, eins og kom fram á nefndarfundi, á þessum tíma ekkert hægt að fullyrða um hann til lengri tíma litið. Við vitum að stjórnkerfisbreytingar taka tíma og ákvarðanir sem teknar eru í dag leiða ekki til sparnaðar strax á morgun. En þegar til lengri tíma er litið er reynslan sú að af vel unnum og útfærðum stjórnkerfisbreytingum hlýst sparnaður.



[16:12]
Frsm. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að játa það að þó að ég geti tekið undir það, eins og ég gerði í ræðu minni, að reynsla okkar frá síðasta hausti geri það að verkum að rétt sé að fara í endurskoðun á verkaskiptingu, stofnanakerfi og öðru slíku sem varðar fjármálamarkaði og efnahagsmál breytir það ekki þeirri skoðun minni að það er ekkert í þessu frumvarpi sem leysir neinn bráðavanda sem við okkur blasir þessa dagana eða næstu vikurnar. Þetta er langtímamál, þetta er spurning um að breyta kerfinu þannig að það virki betur til lengri tíma. Þess vegna sakna ég þess að ekki sé lagt á borðið hvernig ríkisstjórnin sér þessa hluti fyrir sér til lengri tíma og ég ítreka að það er ekkert í þessu frumvarpi sem leysir neinn vanda núna á næstu vikum.

Það er líka rétt sem fram kemur hjá hv. þm. formanni allsherjarnefndar að auðvitað eru stjórnkerfisbreytingar ekki til þess fallnar að ná fram hagræðingu og sparnaði strax, það gerist sjaldan þannig, það er alveg rétt. En fjármálaráðuneytið sjálft metur það þannig að þetta frumvarp með þeim breytingum sem í því felast leiði ekki til neins sparnaðar eða hagræðingar yfir höfuð heldur bara flutnings á kostnaði. Það sem ég benti á í ræðu minni var að núna á þessum sparnaðar- og niðurskurðartímum skuli ríkisstjórnin missa af fyrsta tækifærinu til þess að ákveða einhverjar breytingar sem leitt geta til hagræðingar og sparnaðar því að þetta frumvarp gerir það ekki.



[16:14]
Frsm. meiri hluta allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held reyndar að við hv. þm. Birgir Ármannsson séum býsna samstiga í þessum málum varðandi eflingu og styrkingu Stjórnarráðsins og breytingu á verkaskiptingu milli ráðuneyta. Það sem okkur greinir kannski á í þessu máli er hvort það frumvarp sem hér liggur fyrir hafi verið nauðsynlegt á þessum tíma. Hv. þingmaður telur, ef ég skil hann rétt, að þetta megi bíða. Ég segi hins vegar varðandi efnahagsmálin og flutning efnahagsmálanna yfir til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins að ég tel að ekki sé eftir neinu að bíða. Ég ætla ekkert að fullyrða um það en ef stjórnarráðsfrumvarpið í heild sinni kemur ekki fram strax á haustþingi gæti það hugsanlega skaðað þennan málaflokk, ef við værum ekki núna búin að ganga frá því að þessi verkefni færist yfir til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, vegna þess að það er jú áfram gert ráð fyrir því að forsætisráðherra sé samræmingaraðili og verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Ég held að forsætisráðherra gefist betra tóm til þess að sinna eftirlitshlutverki og hafa samræmingarhlutverk gagnvart öðrum ráðuneytum ef efnahagsmálin eru öll vistuð undir einu og sama ráðuneyti og að það gerist strax í haust. Ég sé ekki að það sé eftir neinu að bíða í þeim efnum, frú forseti.



[16:16]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir tók sæti mitt í allsherjarnefnd þegar þetta nefndarálit var afgreitt og skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara. Ég er hjartanlega sammála því og hefði gert það sama ef ég hefði ekki verið bundin annars staðar þegar þessi fundur fór fram og vil gera grein fyrir fyrirvaranum. Hann varðar 6. breytingartillöguna þar sem segir að að svo komnu verði Matís ekki flutt undir fjármálaráðuneytið eins og önnur félög í eigu ríkisins. Rök landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins gegn því að það yrði gert var að fram undan væri niðurskurður þannig að það gæti þurft að breyta stofnanakerfi innan ráðuneytisins.

Við hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir erum sammála því að það kunni að koma til niðurskurðar en það eigi ekki einungis við um þetta ráðuneyti heldur önnur og að endurskoða þurfi verkaskiptingu milli fleiri ráðuneyta. Við sjáum þess vegna ekki ástæðu til þess að þessi breyting sé sérstaklega felld út úr þessu frumvarpi.