138. löggjafarþing — 132. fundur
 7. júní 2010.
lokafjárlög 2008, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 391. mál. — Þskj. 699, nál. 1160 og 1164, brtt. 1161 og 1162.

[15:53]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Eigum við ekki að bíða eftir því að (Forseti hringir.) fólk ákveði sig hvort það ætlar að vera eða ekki?

(Forseti (ÞBack): Það er einn fundur í gangi. Ég bið um hljóð í salnum.)

Virðulegur forseti. Við ræðum hér lokafjárlög ársins 2008 — ekki að það sé hægt að hafa mikil áhrif á þetta mál. Málið er athyglisvert í hagsögulegu tilliti, en nú liggur fyrir að endanlegur halli á ríkissjóði árið 2008 er um 198,5 milljarðar kr. — gríðarleg upphæð það. Það er athyglisvert að skoða hvað liggur að baki hallanum. Má vera að ríkissjóður hafi verið rekinn svona illa? Voru áætlanir svona slakar, eða hvað var það sem leiddi til þessa gríðarlega halla?

Það er skemmst frá því að segja að árið 2008 varð hið svokallaða bankahrun og það hafði gríðarlega mikil áhrif á fjármál ríkisins. Ríkissjóður, án tveggja liða sem ég mun fjalla um sérstaklega á eftir, var rekinn með afgangi þetta ár upp á 30 milljarða, sem verður að teljast þó nokkuð góð frammistaða. Vegna bankaáfallsins leiddu tveir liðir hallann upp í 198,5 milljarða. Í fyrsta lagi hækkuðu lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs um 35 milljarða, sem kemur fram í auknum halla. Þetta var ekki hægt að sjá fyrir í lok árs 2007 þegar fjárlagafrumvarp afgreitt, heldur var þetta óvæntur liður sem kom fram vegna bankahrunsins.

Ef maður hugsar aðeins um þessa upphæð, 35 milljarða kr., er ekki víst að allt sé eins og lítur út fyrir við fyrstu sýn. Við vitum að lífeyrissjóðirnir og Lífeyrissjóður ríkisins skrá eignir sínar á markaðsverði. Markaðsverð eigna hrapaði gríðarlega 2008, ekki bara hér á Íslandi heldur alls staðar annars staðar í heiminum. Hlutabréfamarkaðir hröpuðu og virði skuldabréfa og annarra slíkra pappíra minnkaði.

Það var náttúrlega ljóst að eignir lífeyrissjóðanna hjörnuðu dálítið við á árinu 2009 og jafnvel líka á árinu 2010, kannski sérstaklega á árinu 2010, þannig að eitthvað af þessu 35 milljarða tapi kom til baka. Spurningin er því hvort rétt sé að bóka þetta mikinn halla á ári vegna lífeyrisskuldbindinganna. Spyr sá sem ekki veit.

Þetta leiðir jafnframt hugann að því vandamáli sem felst í að skrá eignir á markaðsvirði í efnahagsreikningi, bæði fyrirtækja og lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja. Markaðsverðið sveiflast og þegar óvæntir skellir koma, eins og komu árið 2008, hrynur það. Áhrifin á efnahagsreikning verða því til skamms tíma mjög mikil, jafnvel mun meiri en þau eru til langs tíma, vegna þess að yfirleitt jafna markaðir sig.

Það er óneitanlega ekki hægt að líta fram hjá því að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins átti eignir sem eru orðnar algjörlega verðlausar í dag. Þar ber helst að nefna skuldabréf í bönkunum sem voru ótryggð, auk fyrirtækjaskuldabréfa fyrirtækja sem nú heyra sögunni til eða eru í gjaldþrotaskiptum.

Stærsti liðurinn sem orsakaði þennan mikla halla árið 2008 og kemur fram í lokafjárlögum fyrir árið, voru afskriftir sem mátti rekja til taps sem varð í Seðlabanka Íslands. Þessar afskriftir námu 175 milljörðum kr. og munar um minna.

Það er kannski rétt að fara aðeins yfir hvernig afskriftirnar komu til og hvernig þetta tap kom til.

Í fjármálakrísunni sem ríkt hefur í heiminum og sér vart fyrir endann á enn þá, að minnsta kosti ekki hjá okkur, tóku þjóðir heims á það ráð að setja gríðarlega mikla fjármuni í fjármálakerfi landa sinna. Þetta var gert í þeirri von að bjarga fyrirtækjum frá falli, vegna þess að samfélagsleg áhrif þess þegar fjármálakerfi fellur eru slík að það er flest til vinnandi að reyna að stöðva fallið. Það var m.a. gert með því að spýta inn miklum peningum í hagkerfi landanna.

Þetta var gert þó nokkuð öðruvísi á Íslandi. Þar var það gert með því að auka mjög laust fé. Það var gert í gegnum endurhverf viðskipti í Seðlabanka Íslands. Hvernig var staðið að því? Jú, í endurhverfum viðskiptum eru settir fram pappírar sem mynda einhvers konar veðandlag við þá fjármuni sem Seðlabanki lánar síðan fjármálastofnunum til skamms tíma, til viku. Það sem gerðist á Íslandi var að fjármálastofnanir fóru að gefa út sérstaklega ótryggð skuldabréf, og notuðu síðan milliliði til að fara með þau í endurhverf viðskipti í Seðlabanka Íslands. Þetta voru hin svokölluðu ástarbréf. Eins og ég sagði áðan var það okkar leið til að auka laust fé í umferð í fjármálakrísunni.

Nú hafa margir talið að hér hafi verið um mikil afglöp að ræða og sagt að þetta hafi verið gríðarlega mikil mistök. Þetta hafi verið ógagnsætt og menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þeir voru að gera. Ég hafna þeirri skýringu. Ég held að menn hafi fullkomlega gert sér grein fyrir því að með því að líða þetta athæfi og með því að samþykkja það, hafi menn séð leið til að auka laust fé, en héldu sig kannski vera með það undir betra eftirliti en reyndist vera og auðveldara væri að vinda ofan af því en síðar reyndist raunin.

Vorið 2008 setti Seðlabankinn fram minnisblað þar sem sagði eitthvað á þá leið að Seðlabankinn ætlaði sér að minnka þessi viðskipti, hvort það var á 10 eða 14 dögum, ég man það ekki nákvæmlega. Hann mundi gera það með því að krefjast þess að þekjan í andlagi þessara endurhverfu viðskipta, yrði lækkuð úr 98%, að mig minnir, niður í 50%. Með því var augljóst að undið væri ofan af þeim viðskiptum. Fjármálafyrirtækin mótmæltu þessu harðlega og bentu á þá augljósu staðreynd að ef yrði tekið svona mikið fé út úr íslenska fjármálakerfinu gæti það jafnvel riðað til falls. Það átti misvel við fjármálastofnanir, en að einhverju leyti átti það við þær allar. Seðlabankinn hvarf frá þessum ætlunum sínum, en boðaði aftur á móti að reglur yrðu hertar með haustinu og tækju smám saman gildi.

Við fall bankanna var ljóst að Seðlabankinn hafði misst veðandlagið. Þau skuldabréf sem Seðlabankinn sat uppi með, breyttust í almennar kröfur í bönkunum. Nú er það svo að þessi upphæð, 345 milljarðar, að eitthvað af henni mun fást til baka. Til að mynda er talið að yfir 30% muni fást til baka í bæði Kaupþingi og Glitnis-þrotabúunum, og endurheimtuhlutfallið hefur farið hækkandi. Í Landsbankanum horfir málið hins vegar öðruvísi við, vegna þess að forgangskröfur eru svo stór hluti af kröfum í þrotabú Landsbankans, vegna hinna svokölluðu Icesave-reikninga. Ef Icesave-reikningarnir ná því að vera í forgangi, sem vonir standa alla vega til, mun sáralítið fást upp í almennar kröfur, eða í kringum 5%.

Spekúlantar hafa nú samt verið að veðja á að verðmæti þessara bréfa fari hækkandi í öllum bönkunum. Það er væntanlega vegna þess að eignasöfnin á bak við þessar eignir líta út fyrir að vera betri en kannski upphaflega var áætlað. Jafnframt breyta ýmsar stjórnvaldsaðgerðir verðmæti eigna, eins og sú sem við förum nú með í gegnum hið háa Alþingi, um að breyta forgangsröðun á kröfum, til að mynda í Landsbankanum. Bréfið svokallaða sem gekk á milli gamla og nýja Landsbankans er greiðsla fyrir eignir nýja Landsbankans, og það er komið í forgangskröfu. Það þýðir að verðmæti þrotabúsins ætti þá að vera meira. Þrotabú Landsbankans er að minnsta kosti áhættuminna núna en það var áður en þetta kom fram. Það kemur í ljós hvort þetta á eftir að verða að lögum eða ekki.

Það er eitt sem vekur mikla athygli í þeirri umfjöllun sem ég er með hérna og fjallað er um bæði í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2008 og í nefndaráliti. Það er að tölur eru á reiki og þeim ber ekki fullkomlega saman. Um er að ræða háar upphæðir, tugi milljarða og hundruð milljarða. Oft og tíðum gerir maður sér ekki alveg grein fyrir því hvort farið er með réttar tölur. Það virðist vera misræmi á milli skýrslna og umfjöllunar.

Þetta veldur mér nokkru hugarangri, vegna þess að tölurnar eru það stórar að örlítil frávik koma fram sem margir milljarðar, stundum tugir milljarða. Þetta er það sem við alþingismenn verðum að búa við, þetta er sú gagnameðferð sem er lögð fyrir okkur.

Áður heldur en lokafjárlögin fyrir árið 2008 lágu fyrir, var ég einhvern veginn búinn að ímynda mér að undirliggjandi rekstur ríkissjóðs hefði allur farið í rúst árið 2008. Svo er ekki, alls ekki. Fyrir utan þá tvo liði sem eru bein afleiðing af því áfalli sem við urðum fyrir í október 2008, er staðan býsna góð. Það eru tæpir 30 milljarðar í afgang. Það þætti góður afgangur ef við berum það saman við landsframleiðslu. Það þætti fyrirmyndarafgangur í hvaða ríki heims sem er, þrátt fyrir að seinustu þrjá mánuði ársins hafi efnahagslífið hreinlega rústast.

Þegar tekið er tillit til lífeyrisskuldbindinganna og afskriftanna vegna veðskulda Seðlabankans, eykst hallinn. Hann fer í að verða í kringum 14% af landsframleiðslu, sem er náttúrlega gríðarlega mikill halli. Þetta er kannski saga sem við ættum að segja frekar en að tala alltaf um ríkissjóðshallann, eins og hann stafi af afleitum rekstri ríkissjóðs. Þetta eru mikilvæg skilaboð sem þarf að færa, bæði matsfyrirtækjum og fjárfestum sem hefðu hugsanlega áhuga á því að fjárfesta hér á Íslandi. Þetta er kostnaður íslenska ríkisins, eða ríkissjóðs Íslands, af þessum skelli. Auðvitað á kostnaðurinn eftir að verða meiri, en þetta er obbinn af kostnaðinum.

Ef við skoðum t.d. Bandaríkin þá var þar svokölluð áætlun um að kaupa út eignir af efnahagsreikningi bankanna, lélegar eignir og eignir sem voru notaðar í fallinu. Þær komu í gegnum seðlabankann og voru ekki bókaðar inn á reikning hjá ameríska ríkinu, eftir því sem ég best skil. Þrátt fyrir það sýndi bandaríska ríkið halla upp á 13–15% þetta ár.

Ef við skoðum þetta í þessu samhengi, verð ég að lýsa því yfir að þrátt fyrir að það sé náttúrlega grábölvað að fá þessa skelli, afskriftirnar í Seðlabankanum og á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, held ég að við getum bara unað þó nokkuð sátt við það.



[16:11]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ágæta yfirferð um þetta mál og sérstaklega það sem hann kom inn á að það væru bara tveir þættir sem hefðu haft þessi geigvænlegu áhrif á ríkissjóð og alla vega annar þeirra hefði verið fyrirséður og planaður. Það vantaði eiginlega hjá hv. þingmanni að geta þess að þetta var krafa atvinnulífsins, þetta var krafa fjölmiðla, þetta var krafa allra að íslensk stjórnvöld brygðust við kreppunni með svipuðum hætti og erlendis, með því að búa til lausafé. Þetta var í sjálfu sér nokkuð snjöll leið að flétta allt bankakerfið inn í. Þannig gátu litlu bankarnir keypt skuldabréf stóru bankanna og síðan innleyst með eigin ábyrgð inni í Seðlabankanum og þá fóru peningarnir til baka. Leiðin var nokkuð snjöll en svo kom náttúrlega í ljós þegar allt saman hrundi, sem enginn hafði gert ráð fyrir, að þetta dró litlu bankana með. Meiningin var sem sagt að allt bankakerfið bæri ábyrgð á þessu lausafé.

Það sem mig langaði til að benda á eða gagnrýna hv. þingmann fyrir er það að hann segir að þetta hafi verið afleiðing af hruninu. Það gerðist svo aftur 2009 en þá rýrnuðu tekjur ríkissjóðs allverulega sem þær gerðu ekki árið 2008 vegna þess að þá komu ekki nema nokkrir mánuðir til tekna. Árið 2009 rýrnuðu tekjur ríkissjóðs stórlega vegna fjármagnstekna af hagnaði fyrirtækja o.s.frv. og gjöldin stórjukust, t.d. varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð sem þurfti þá miklu meiri fjármuni. Hrunið kemur því líka fram enn þann dag í dag.



[16:14]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið en ég vil ómögulega láta hann gagnrýna mig fyrir að tekjur ríkissjóðs hafi dregist saman.

Aftur á móti held ég að þingmaðurinn og ég séum sammála um það að áfallinu, sem varð á skattstofnum ríkisins og útgjöldin sem urðu vegna atvinnuleysis og aukinna bóta og annars slíks, hefði verið hægt að afstýra að hluta ef hér hefði verið ríkisstjórn við völd sem hefði haft þá meðvitund sem þurfti til þess að takast á við vandann.

Fyrr í dag afgreiddum við fyrsta stóra atvinnumálið sem þessi ríkisstjórn hefur komið fram með, það fyrsta og eina. Ég vil gerast svo djarfur að halda því fram að meðvitundarleysi stjórnmálamanna hafi leitt yfir okkur mun dýpri kreppu en nokkurn tíma hefði þurft að verða í kjölfar þessa fjármálahruns. Við erum ekki enn búin að bíta úr nálinni með aðgerðaleysi stjórnvalda en vonandi veit það á gott þetta fyrsta atvinnumálafrumvarp, getum við sagt, sem samþykkt var hér fyrr í dag.



[16:15]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var gott að hv. þingmaður minnti mig á þær tillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram fyrir ári, einmitt til þess að koma í veg fyrir að þjóðin dytti jafndjúpt niður og hún er í dag, hún er sennilega á dýpsta punkti kreppunnar núna. Sú kreppa er óþarflega djúp vegna þess að menn gripu til rangra ráðstafana. Með því að skattleggja atvinnu, skattleggja fyrirtæki, skattleggja fjármagn, skattleggja allt það sem býr til atvinnu hafa menn aukið atvinnuleysið umfram það sem þarf. Það er mjög miður vegna þess að atvinnuleysi er mikil bölvun fyrir þjóðfélagið en alveg sérstaklega fyrir þá einstaklinga — og ég hef því miður þurft að tala við nokkra þeirra undanfarið — sem fá ekki atvinnu. Það er vægast sagt ömurlegt, það er svipað og að keyra í gegnum öskumökkinn þegar hann var sem mestur. Það er ömurlegt þegar ungt fólk útskrifast úr skóla og fær ekki vinnu.

Við lögðum til aðgerðir, t.d. skattlagningu séreignarsparnaðar, sem hefðu komið í veg fyrir þessa miklu og djúpu kreppu, sem hefðu aukið tekjur ríkissjóðs, sem hefðu skapað atvinnu í landinu og aukið tekjur ríkisins um leið, og dregið úr útgjöldum vegna bóta. Ég vil því þakka hv. þingmanni fyrir að benda mér á það og minna mig á það.



[16:18]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2008. Ég ætla að byrja á því að fara í gegnum hlutverk fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga.

Hlutverk fjárlaga er spá, þ.e. að spá fyrir um tekjur og gjöld ríkisins miðað við ákveðna stefnu sem ríkisstjórnin hefur í ýmsum þjóðmálum, atvinnumálum, menningarmálum o.s.frv. Þegar fjárlög hafa verið lögð fram og samþykkt á ekkert að greiðast annað en það sem gerist óvænt, það sem sannarlega var ekki hægt að sjá fyrir. Eins og komið hefur fram fyrr í dag eru fjárlögin lög sem binda hendur ríkisstofnana í útgjöldum. Þegar búið er að binda hendur ríkisstofnana, og þær eiga að fara að fjárlögum, á þess vegna ekkert að gerast nema eitthvað óvænt komi upp á. Ég nefni eldgos. Ég nefni bankahrun. Ég nefni ýmis atriði sem geta komið upp skyndilega. Ég nefni líka lagasetningu frá Alþingi sem getur breytt fjárlögum, en þá þarf það að fylgja þeirri lagasetningu að hún breyti fjárlögum á þennan hátt eða hinn. Fjáraukalög ættu því alltaf að vera eingöngu um atriði sem ekki var hægt að sjá fyrir. En svo er ekki, frú forseti.

Margar stofnanir — ég segi ekki að þær leiki sér að því — fara mjög léttúðlega með fjárlög. Það er eins og fjárlögin séu meira til hliðsjónar við reksturinn. Fjárlögin segja að einhver ákveðin hjúkrunarstofnun eigi að hafa þessi útgjöld og þessar tekjur, og það er eins og sumir forstöðumenn ríkisstofnana líti á þetta sem eitthvað til að hafa til hliðsjónar, eitthvað sem stofnanir þeirra eigi helst að ná en einhverju megi skakka. Aðrir forstöðumenn standa sig reglulega vel í rekstrinum og fara algjörlega að fjárlögum og því miður er það þannig að þeim er refsað. Hinir sem fara umfram fjárlög koma svo í lok árs, þegar fjáraukalög eru til umræðu, og segja að þá vanti 100 milljónir, eins og ekkert sé. Oft á tíðum er einmitt verið að laga þá stöðu þannig að þeir fá 100 milljónir. Það er þá hvatning fyrir þá að fara enn frekar fram úr fjárlögum á næsta ári. En hinir sem standa sig og fara algjörlega að fjárlögum horfa upp á það að þeir sem ekkert leggja á sig, reka stofnanirnar í hálfgerðu hugsunarleysi og í léttúð og án aga, fá verðlaun ár eftir ár. Þetta finnst mér ekki hægt, frú forseti.

Fjárlaganefnd ætti að kalla þá fyrir sem brutu fjárlög á árinu og spyrja: Hvað í ósköpunum voruð þið að gera? Hún á að segja við forstöðumanninn: Getur ekki verið að þú þurfir að leita þér að nýrri vinnu af því að þú ræður ekki við að fara að þeim ramma sem fjárlögin setja? Menn eiga bara að segja: Farðu nú og leitaðu þér að annarri vinnu. Við ætlum að finna annan í þetta. Það ætti ráðherrann náttúrlega að gera.

Það er nefnilega þannig að fjárlög eru lög. Og hafi menn sett einhver önnur lög skal fylgja þeim. Ég hef t.d. margoft nefnt bjartsýnislögin um heilbrigðisþjónustu, um að veita skuli bestu heilbrigðisþjónustu sem hægt er í heiminum. Allir vita og geta sagt sér það sjálfir að það er ekki hægt, það er hreinlega ekki hægt, það eru ekki til þess peningar í öllu landinu. Markmið af þessu tagi víkja náttúrlega alltaf fyrir fjárlögum. Þegar þau koma og sagt er að þessa peninga eigi að setja í heilbrigðiskerfið, þessa peninga í lyfin o.s.frv. þá verða menn að halda sig við það. Það er aginn sem fjárlögin eiga að veita. Því miður sér maður allt of oft í fjáraukalögum að þar hvín og sullar á súðum og hellingur lekur út sem átti ekki að leka út.

Ég held að menn ættu að gera þá kröfu að fjáraukalög séu alltaf aukafjárveitingar vegna ófyrirséðra atvika sem ekki var hægt að sjá fyrir þegar fjárlögin voru sett, að þau séu ekki tilkomin vegna þess að menn hafi langað til að gera eitthvað annað eða gjarnan viljað hafa reksturinn svona eða hinsegin. Menn eiga að fara að fjárlögum, það er bara þannig.

Síðan koma lokafjárlögin og þau ættu náttúrlega að koma mikið fyrr. Ég fellst á það, frú forseti, að aðstæður eru óvenjulegar. Þegar ríkið þarf að ráða við gjaldþrot bankakerfisins er viðbúið að lokafjárlög dragist eitthvað. En þetta er náttúrlega allt of langur dráttur, frú forseti, að vita fyrst núna hvernig ríkið lokaði 31. desember 2008. Menn eiga að stefna að því að hafa það miklu fyrr.

Það ætti að vera markmið fjármálaráðuneytisins, og ég vildi að svo væri, að lokafjárlög lægju fyrir í febrúar næsta ár. Það eru til stór fyrirtæki sem eru miklu stærri en ríkissjóður. Ég nefni Microsoft og ég nefni IBM og fleiri sem loka reikningum næstliðins árs jafnvel fyrir lok janúar og hafa miklu fleiri færslur og miklu meira umleikis en ríkissjóður Íslands. Þetta er bara spurningin um markmiðssetningu vegna þess að ef það er gert kemur um leið miklu meiri agi. Þá eru menn ekki eins lengi að dóla með hlutina eins og það sem við heyrðum hér um virðisaukaskattinn, að hann væri ekki innheimtur.

Ég fellst á það núna að aðstæður voru óvenjulegar í lok árs 2008 og því verður að fyrirgefa það að lokafjárlögin séu þetta seint á ferðinni. En ég skora á menn að koma með lokafjárlög 2009 fljótlega. Það frumvarp kemur varla fyrir lok þessa þings, sem situr til 15. júní, en alla vega í september, að það komi þá, og að árið 2010 komi þau fljótlega eftir áramót. Þetta eru markmiðin sem menn ættu að setja sér og vinna að vegna þess að það skapar svo mikinn aga í allt þjóðfélagið þegar ríkissjóður krefst þess að bókhaldi sé lokað, það krefst þess að færslur séu færðar, að málin séu gerð upp.

Nokkuð hefur verið rætt um ýmsar skuldbindingar ríkissjóðs. Þær eru óneitanlega mjög margar og ég hef margoft nefnt það að þær eru því miður duldar. Stærstu skuldbindingu ríkissjóðs er aldrei talað um en það er Tryggingastofnun. Tryggingastofnun borgar út, að mig minnir, um 60 milljarða og hún hættir því ekkert á morgun. Það held ég liggi alveg fyrir að Tryggingastofnun hættir ekkert að borga hversu mikið sem fjármálaráðherra langar til, hún hættir ekkert að borga út bætur til aldraðra og öryrkja, það er alveg á tæru. Þetta er skuldbinding sem verður um alla framtíð og hennar er hvergi getið í fjárlögum, fjáraukalögum eða í lokafjárlögum.

Svo er það LSR. Þar er ógreidd skuldbinding upp á 530 milljarða. Ég hefði nú bara talið að menn ættu að taka á honum stóra sínum og færa það inn í bókhaldið. Þetta er skuldbinding, hún liggur þarna fyrir. Það er meira að segja sagt í reikningum B-deildarinnar að þetta sé ógreitt upp á fleiri hundruð milljarða. Þetta eru eitthvað um fimm milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu sem er ógreitt. Ég skil ekki af hverju menn fela þetta fyrir skattgreiðendum. Það á að gera átak í því að færa þetta í eitt skipti þannig að fyrir liggi hver skuldbindingin er vegna opinberra starfsmanna. Og þá er ég að tala um B-deildina vegna þess að búið er að loka henni en hún er samt með þessum óskaplega háu skuldbindingum. Ég sé ekki alveg hvernig hægt er að lækka þá skuldbindingu en þó er hugsanlegt að stöðva frekari uppbyggingu réttinda, alla vega eftir 12 mánuði. Ég legg til að menn skoði það alvarlega að hætt verði að veita fólki heimild til að auka réttindin í B-deildinni.

Svo er það náttúrlega A-deildin. Þar þyrfti iðgjaldið að hækka mjög umtalsvert. Ég hugsa að það þyrfti að fara upp í 19,5%, úr 17,5%. Það er líka skuldbinding á meðan það er ekki gert. Það þarf að gera það og það lendir alfarið á ríkissjóði. Áfallið, hrunið, kemur inn í ríkissjóð til framtíðar í gegnum iðgjald til A-deildarinnar.

Frú forseti. Það sem ég sakna mest í þessu — og þá er ég ekki að tala um 2008 heldur 2009, ég er að tala almennt um fjárlög og fjáraukalög og lokafjárlög, í lokafjárlögum er verið að loka dæminu, loka því hvernig það lítur út — eru fjárlögin fyrir árið 2009 og fjárlögin fyrir árið 2010. Ég ætla að nefna Icesave einu sinni enn þó að ég viti að allir eru orðnir þreyttir á því hugtaki. Fjármálaráðherra sjálfur, sá sem flytur frumvarp til fjárlaga, skrifaði nefnilega undir samning í október 2009, seinni samninginn. Maður hefði haldið að eitthvað sé að marka undirskrift fjármálaráðherra, að hennar yrði getið í fjárlögum og sagt: Hér er skuldbinding upp á 100–700 milljarða, það er einhvers staðar þar á bilinu, jafnvel 100–900 milljarðar, allt eftir því hvernig sá samningur kemur út, hvað gerist á þeim mikla og langa tíma sem samningurinn stendur, hvernig þróast pundið, hvernig er innheimt í Landsbankanum, hvað mun íslenska ríkið þurfa að greiða mikið á endanum, hvað verða vextirnir háir o.s.frv., og þessa skuldbindingu vantar. Alþingi setti meira að segja þennan samning í lög í árslok 2009. Hans er engu að síður ekki getið í fjárlögum.

Mér finnst, frú forseti, að menn séu alltaf að plata skattgreiðendur framtíðarinnar eða reyna að gera það. Auðvitað var það samþykkt einhverjum dögum eftir að fjárlagafrumvarpið var afgreitt en fjárlagafrumvarpið á að taka yfir allar greiðslur, annaðhvort fjárlagafrumvarpið eða fjáraukalögin. Sennilega mundi maður flokka það undir fjáraukalög fyrir árið 2008, þá varð sá atburður sem um er rætt, alla vega 2009, því að þá voru lögin sett og samningurinn gerður. En þessa var ekki getið.

Svo vantar ýmis önnur mál sem ég hef sérstakan áhuga á, eins og Hörpu, það fyrirbæri vantar algerlega inn í þetta. Samþykkt var eitthvert 6. gr. ákvæði um að fjármálaráðherra væri heimilt að skrifa undir samning við eitthvert fyrirtæki, Portus. Það voru nú öll ósköpin. Ekki orð um það meir. Ég var plataður til að greiða þessu atkvæði á sínum tíma. Ég áttaði mig ekki á hvað þetta þýddi en þetta þýddi 300 eða 400 milljónir á ári í 35 ár fyrir ríkissjóð og annað eins fyrir Reykjavíkurborg, samtals er þetta orðið um 35 milljarðar. Þetta vantar alveg. Það er ekki orð um þetta. Getur fjármálaráðherra framtíðarinnar hætt við? Nei, hann getur ekki hætt við. Hann verður þá að borga skaðabætur. Þannig að það eru svona skuldbindingar sem menn eru að fara út í.

Mér finnst líka að auka þurfi agann hjá sveitarfélögum og að Alþingi eigi að vinna að því að sveitarfélögin skuldi helst ekki neitt. Við sjáum dæmi um Álftanes. Við sjáum dæmi um sveitarfélög sem eru með óskaplegar fjárfestingar í yfirbyggðum fótboltavöllum o.s.frv., eitthvað sem er svo dýrt að manni dettur ekki einu sinni í hug að reikna út hvað kostar fyrir krakkana að leika þarna fótbolta, dagurinn, klukkutíminn, hálftíminn eða mínútan.

En ríkið á líka eignir, menn geta huggað sig með því. Ég tala bara um skuldir en ríkið á líka eignir eins og vegi, skóla og byggingar í landinu. Og það á Landsvirkjun o.s.frv. Það á töluvert mikið af eignum. Það á allt hálendið, þjóðlendurnar. Þegar við settum lög um það að ríkið tæki til sín allar óbyggðirnar eignaðist það heilmikið eða 40% af öllu landinu. Þannig að ríki á þarna eignir. Það á líka óskattað fé í lífeyrissjóðunum sem má áætla að sé um það bil 20% af eignum t.d. lífeyrissjóðanna upp á 1.500 milljarða. Það eru um það bil 300 milljarðar. Svo á það líka eignir í séreignarlífeyrissjóðunum, sem við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðum til að ríkið mundi ná í til þess að brúa gjána sem myndaðist hjá þjóðinni eftir hrunið. Það eru þarna eignir sem ríkið getur náð í.

Ég hef nefnt það hér áður í umræðunni, og ætla rétt aðeins að koma inn á það, að fjárlögin og framkvæmd þeirra segja til um agann í fjármálum ríkissjóðs. Það er fordæmi um aga í fjármálum gagnvart sveitarfélögunum og það sendir þau skilaboð til fyrirtækja og almennings að menn þurfi að fara að reglum og lögum, standa skil á skuldbindingum sínum, t.d. með lán, að menn séu ekki í vanskilum. Það er miklu minna um vanskil víða erlendis en hér á landi. Það er vegna þess að ef menn fara í vanskil erlendis eru þeir nánast dottnir út úr þjóðfélaginu. Þeir sem leyfa sér að standa ekki við sitt og fara í vanskil lenda á svörtum lista. Þegar menn lenda í hruni, þegar fólk verður atvinnulaust og allar forsendur bresta, er kannski eðlilegt að menn lendi í vanskilum. Ég er ekkert að deila á það í sjálfu sér. Ég er að deila á þá sem voru í vanskilum fyrir hrun, sem var líka umtalsverður hópur. Ég man ekki eftir öðru en því að alltaf hafi einhverjir sem ég þekki verið blankir og verið í vandræðum fjárhagslega, af ýmsum ástæðum, ekki endilega einhverju utanaðkomandi.

Þetta eru hugleiðingar um frumvarp til lokafjárlaga. Ég legg til að hv. nefnd taki sér tak og ræði meira um hlutverk fjárlaga og hvernig hægt sé að gæta þess að þau hafi þau áhrif sem þau eiga að hafa. Það verður ekki gert öðruvísi en að menn auki agann, auki virðingu fyrir lögunum, gæti þess að ekki sé farið fram úr fjárlögum. Það verður ekki gert nema fjárlaganefnd fari mjög nákvæmlega í gegnum fjáraukalög, að þar sé eingöngu eitthvað sem er ófyrirséð. Sérstaklega þarf að gæta að því þegar kemur að lokafjárlögum að þau séu algjörlega í samræmi við fjáraukalögin. Það ætti í rauninni ekkert að bætast við. En mér skilst að það sé heilmikið sem bætist við fjáraukalögin sem samþykkt voru að mig minnir 22. desember 2008, þó að það ætti í rauninni ekkert að bætast við. Á þeim tímapunkti ætti allt að liggja fyrir, hvað er óvænt í rekstri ríkissjóðs, hvað hefur komið upp á og hverjar eru skuldbindingarnar, en þá er ekki nema ein eða tvær vikur til áramóta sem þessi fjárlög, fjáraukalög og lokafjárlög, eiga að taka til.



[16:36]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Oft er ágætt að hlýða á þingmenn hokna af reynslu ræða fjárlögin og framkvæmd þeirra og þegar maður hlýðir á mál þeirra undrast maður stundum hversu hægt gengur að ná fram breytingu í þessum verkum sem flestir virðast sammála um að nauðsynlegt sé að komist til framkvæmda. Í fyrri ræðu minni í dag um lokafjárlögin fyrir árið 2008 vitnaði ég til gagna sem Ríkisendurskoðun hefur unnið í tengslum við þetta frumvarp og þar sér maður ýmislegt sem eru svona gamlir „standardar“ ef svo má segja, þetta eru gömul atriði sem hafa gengið í gegnum umræðuna hér í mörg herrans ár á undan. Því svíður það kannski töluvert að sjá þessar athugasemdir koma aftur og aftur fram, ekki síst í ljósi þess hvernig staðan á ríkisfjármálum er um þessar mundir. Öllum ber saman um að erfitt sé og hart í búi og sjaldan eða aldrei hafi verið meiri þörf á að halda vel utan um hlutina og fjárreiður ríkisins en nú og betur en áður hefur verið gert, einfaldlega vegna þess að það þrengir að og minna er til skiptanna. Þá er dálítið dapurt að horfa upp á þetta dæmi eins og það birtist manni á þessum blöðum og ég leyfi mér enn og aftur að vitna til þess sem kemur fram í umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarp til lokafjárlaga sem fjárlaganefnd óskaði eftir að fá og við fengum í hendur 9. mars.

Eins og ég gat um og hef getið um þurfti töluvert mikla eftirgangssemi til að fá frumvarpið til lokafjárlaga fram, það kemur í raun rúmlega hálfu ári síðar í hendur fjárlaganefndar en ríkisreikningurinn svo furðulegt sem það er vegna þess að frumvarp til lokafjárlaga er í raun ekki neitt annað en staðfesting á þeim reikningi sem fyrir liggur.

Þegar farið var að bera þetta tvennt saman kom í ljós að töluverður mismunur var á milli ríkisreikningsins annars vegar og lokafjárlaganna hins vegar eða sem nam rúmum 1.300 millj. kr. Þá er annað tveggja að gera, annars vegar að taka ríkisreikninginn upp og í raun endursemja hann, sem er ekki góður hlutur, eða að reyna að laga lokafjárlögin að ríkisreikningnum. Sú leið var valin að reyna fremur að laga lokafjárlögin að ríkisreikningi. Það gekk ekki betur en svo að enn er óleyst misræmi á milli ríkisreiknings 2008 og lokafjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2008 á 11 fjárlagaliðum. Í rauninni var samkomulag um að vísa þeim mismun eða misræmi til gerðar lokafjárlaga og ríkisreiknings fyrir árið 2009, þ.e. að vísa þessu fram í tímann. Betur hefur það ekki gengið en raun ber vitni.

Ríkisendurskoðun fullyrðir að þetta misræmi leiði mjög glögglega í ljós þær ógöngur sem núverandi kerfi er komið í, þ.e. utanumhaldið um ríkisfjármálin. Því er ekki úr vegi að rifja örlítið upp hvernig sú staða er. Menn hafa nefnt það í ræðum í dag að afkoma ríkisins og ríkissjóðs hafi verið með ágætum á árinu 2008, hin reglubundnu starfsemi. Þrátt fyrir það gríðarlega högg sem fjármálakerfið varð fyrir með tilheyrandi skelli og tapi vegna Seðlabankans og síðan áfallnar lífeyrisskuldbindingar, hátt í 200 milljarðar kr., hafi annar rekstur ríkisins gengið mjög vel og útkoman verið með ágætum svo nam jákvæðum niðurstöðum um tugi milljarða. Það er undarlegt, þrátt fyrir þetta góða gengi, að sjá m.a. í endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar þegar hún greinir niðurstöður hjá stofnunum og skiptir athugasemdum niður í helstu meginflokka. Þá stoppa ég sérstaklega við einn þátt sem Ríkisendurskoðun kallar í skýrslu sinni í kafla 4.2 Gjöld umfram fjárheimildir. Ávallt eru gerðar athugasemdir við það þegar stofnanir ráðstafa fjármunum umfram heimildir fjárlaga og þrátt fyrir þá eftirgangssemi sem í þeim efnum hefur verið haldið úti, alla vega í orði, kemur í ljós að á árinu 2008 greiddu stofnanir ríkisins rétt tæpar 650 millj. kr. í dráttarvexti. Nú er ekki eins og það allt hafi stafað af hinu fjárhagslega höggi og hruninu í fyrrahaust, einungis u.þ.b. 150 milljónir af þessum 650 má með beinum hætti tengja bankahruninu. Stofnanir ríkisins hafa því, að undanskildum áhrifum af bankahruninu, verið að greiða hálfan milljarð króna í dráttarvexti vegna starfsemi sinnar. Þrátt fyrir að við finnum jafnvel dæmi um stofnanir sem starfa innan fjárheimilda finnum við þarna dæmi um stofnanir sem greiða engu að síður dráttarvexti vegna starfsemi sinnar og þetta eru umtalsverðar upphæðir í sumum tilfellum. Það er mjög umhugsunarvert og í rauninni ámælisvert að hlutirnir gangi með þessum hætti. Hins vegar er það undirstrikað í umsögn og endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar og bent á það að þær stofnanir sem eru í greiðsluþjónustu hjá ríkisféhirði þurfi ekki að greiða dráttarvexti þrátt fyrir hallarekstur. Þær hafa því heimild til að vísa beint á ríkissjóð við fjármögnun verkefna sinna án þess að bera af því refsivexti.

Ég held hins vegar að við þessa umræðu sé öllum hollt að rifja upp ákvæði laga um fjárreiður ríkisins frá árinu 1997 hvað varðar lokafjárlög og fríska aðeins upp á það, því að við dettum oft í það í umræðu sem þessari að ræða útfærslu fjárlaga almennt en ástæða er til að draga þetta aðeins upp. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í og lesa hér upp 45. gr. fjárreiðulaganna frá árinu 1997. Greinin hljóðar svo:

„Með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar. Þar skal leitað heimilda til uppgjörs á skuldum eða ónotuðum fjárveitingum sem ekki eru fluttar milli ára. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins. Heimilt er að greiða slíka umframgreiðslu af fjárveitingu næsta árs. Einnig skal gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.“

Í 44. gr. er svo vikið að ófyrirséðum atvikum, kjarasamningum eða því um líku sem hefur komið hér upp í umræðunni og heimildir þarf til til að fjármagna og slíkra heimilda þarf að leita hjá Alþingi við samþykkt fjáraukalaga. Það ber hins vegar að vekja athygli á því að í athugasemdunum sem fylgdu frumvarpi til fjáraukalaga árið 1997 er undirstrikuð sú ábyrgð og sú skylda sem lögð er á fjármálaráðherra að leggja fram endurskoðaðan ríkisreikning eigi síðar en tíu dögum eftir að þing kemur saman að hausti og með þeim sama ríkisreikningi skal honum til staðfestingar leggja fram frumvarp til lokafjárlaga vegna sama fjárhagsárs.

Eins og ég hef getið um í ræðum mínum í dag hefur þetta engan veginn gengið eftir. Í mínum huga er alveg ljóst að það verklag sem hér er rætt um hefur ekki með neinu móti náð fram að ganga og fjáraukalögin hafa iðulega að geyma fjárveitingar sem ýmist hefði mátt afgreiða í gildandi fjárlögum eða hefðu mátt bíða til næstu fjárlagagerðar. Hvernig sem maður lítur á þetta virðist það vera yfirgengilega erfitt verkefni að ná fram breytingum á þessu, en ég vil ítreka það að þetta þarf að breytast og það er beinlínis áskorun um það frá Ríkisendurskoðun til Alþingis að svo verði. Ég hvet fjárlaganefnd til standa saman við það verk.