139. löggjafarþing — 54. fundur
 18. desember 2010.
fjarskipti, 2. umræða.
frv. BVG o.fl., 394. mál. — Þskj. 603.

[12:45]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að þetta frumvarp er lagt fram er sú að við endurúthlutun á tíðniréttindum skal taka gjald. Efni þessa frumvarps á rætur að rekja til meðferðar samgöngunefndar á frumvarpi sem lagt var fram á yfirstandandi þingi, það er 136. mál og fjallar um breytingar á lögum um fjarskipti, með síðari breytingum. Því frumvarpi var vísað til samgöngunefndar þann 9. nóvember. Skömmu eftir vísun frumvarpsins til nefndarinnar var það sent hópi aðila til umsagnar. Þegar umsagnarfresti lauk 6. desember kom í ljós að umsagnaraðilar gerðu verulegar lagatæknilegar athugasemdir við efni þess. Tók meiri hluti nefndarinnar í framhaldinu þá ákvörðun að fjalla um frumvarpið á ítarlegri hátt en áætlanir gerðu ráð fyrir en fyrirsjáanlegt er að nefndin mun ekki fjalla um málið fyrr en í ársbyrjun 2011.

Virðulegi forseti. Við í þingflokki sjálfstæðismanna höfum sagt að við munum ekki standa í vegi fyrir því að lögð séu fram frumvörp til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Þó svo að þetta mál hafi komið eftir 1. desember verð ég að segja að ég er sáttur við þá ákvörðun meiri hluta hv. samgöngunefndar að fara frekar þá vegferð að afla þannig heimilda til gjaldtöku en að keyra hitt málið fram með þeim hætti sem til stóð að gera.

Ég vil líka vekja athygli á því að ekki hefur verið gjaldtökuheimild í fjarskiptalögunum síðan 2003. Á þeim tíma hefur einungis einu fyrirtæki verið úthlutað tíðniheimildum. Það er gert til mjög langs tíma, til um 10 ára í senn, en menn hafa ekki áhyggjur af því að það raski samkeppnisstöðu. Ég vek hins vegar athygli á því að á árinu 2009 var einu fyrirtæki, Nova, úthlutað tíðniheimildum til 11 og 13 ára. Voru gerðar athugasemdir við að það því að það gæti hugsanlega skekkt samkeppnisstöðuna. En meiri hlutinn færir ákveðin rök fyrir því í nefndaráliti sínu að þau fyrirtæki sem gera alvarlegastar athugasemdir við það hafa notið svipaðra réttinda áður.

Ég vil í lok máls míns vekja athygli á því að verið er að hækka gjaldið frá árinu 2000 úr 16,6 millj. kr. upp í 30 millj. kr. og það eru verðlagsbreytingar. Ég nefni það, virðulegi forseti, vegna þess að það er mikil hætta á því að fyrirtækin muni velta þeim kostnaði yfir á neytendur. Í lokin fagna ég því að meiri hluti hv. samgöngunefndar hafi tekið þá ákvörðun að fara þessa leið til að afla heimildar til gjaldtöku frekar en að keyra það frumvarp í gegn sem lá fyrir þinginu í upphafi, sem að mínu mati þarf miklu meiri umfjöllunar og skoðunar við í hv. samgöngunefnd.



[12:48]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að lýsa skoðun okkar framsóknarmanna, að við munum ekki standa í vegi fyrir því að frumvarpið nái fram að ganga. Hins vegar vil ég líka segja að við höfum rætt síðustu daga um þau vinnubrögð sem þingið hefur ástundað og þessi ríkisstjórn hefur sannarlega ekki breytt, að keyra mál í gegn með mjög stuttum fyrirvara og litlum undirbúningi. Þetta mál er kannski skýrasta dæmið um það því að á lokasprettinum var hreinlega svo komið að ráðuneytið og sú nefnd sem unnið hafði að málinu voru ekki búin að undirbúa málið á nokkurn hátt og átti jafnvel að fara að taka það úr nefnd. En niðurstaðan er ágæt. Sett er inn ákvæði þannig að nefndin sjálf eða hluti nefndarinnar ber fram tillögu um að hægt verði að úthluta tíðnisviðum á næsta ári og er það vel. En ég held að við ættum að láta þetta okkur að kenningu verða, svona vinnum við ekki og næsta ár tökum við upp önnur vinnubrögð.



[12:50]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Örstutt um þetta. Við ræðum um auðlind sem felst í takmörkun, nákvæmlega eins og kvóti í sjávarútvegi og mjólkurkvóti í landbúnaði og fleiri kvótar. Þarna er verið að takmarka aðgang manna að ákveðnum gæðum sem í þessu tilfelli eru tíðnisvið. Ég geri ráð fyrir að mjög mikil eftirspurn verði eftir þessum tíðnisviðum innan mjög skamms tíma vegna þess að mikið af fjarskiptum, t.d. símasamskipti og annað slíkt, fer í gegnum þetta.

Hér er verið að vinna mjög hratt og kannski er hér of lítil fyrirhyggja. Þetta er enn eitt dæmið um að menn eiga að hafa séð hlutina fyrir og komið fram með frumvarpið fyrr þannig að við hv. þingmenn gætum rætt það almennilega. En þetta ákvæði er til bráðabirgða þannig að ég vona að ríkisstjórnin, Alþingi og umhverfisnefnd fari að ræða þetta í þaula og átti sig á því að þetta er enn ein auðlindin sem við þurfum að ákveða hvernig er úthlutað.



[12:51]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um það frumvarp sem við ræðum hér. Ég átti ekki von á miklum umræðum, þ.e. breytingu á lögum um fjarskipti frá árinu 2003, og hefði ekki gert það nema út af því að mér finnast þau ummæli ekki makleg sem komu frá einum fulltrúa í samgöngunefnd, Sigurði Inga Jóhannssyni, sem sat fundi nefndarinnar þegar við ræddum þetta og ákváðum að fara þessa leið, því að það var full samstaða um að fara með málið í þennan farveg. Það var ekki ætlunin að keyra það í gegn með einhverju offorsi, það stóð aldrei til heldur var full samstaða um að setja það fram með þessum hætti. Það var enginn ágreiningur í nefndinni um það, það var enginn ágreiningur um málsmeðferðina og mér finnst hún bera vitni um nýja tíma og þau vinnubrögð sem við ætlum að tileinka okkur jafnvel í fleiri málum en gert hefur verið hingað til.

Ég held að þetta sé ágætisleið sem samgöngunefnd hefur ákveðið að fara hvað þetta varðar í stað þess að ljúka málinu með hraði og eins og auðvitað hefur verið gert í sambærilegum málum árum og áratugum saman. Eins og oft áður náðist í þessari ágætu nefnd fín samstaða um lausn á máli og ég held að við ættum að taka okkur vinnulagið til fyrirmyndar sem hefur tíðkast í samgöngunefnd við lausn ýmissa mála í öðrum nefndum. Enn sem komið er hefur ekki verið afgreitt mál í ágreiningi úr nefndinni, hvað svo sem síðar kann að verða á þessu kjörtímabili.



[12:52]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Örstutt um málið. Ég tek undir með hv. formanni samgöngunefndar, það er undarlegt að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í nefndinni skuli koma með athugasemdir og ýfingar vegna máls sem þeir voru fullkomlega sáttir við í nefndinni sjálfri, en hugur þeirra hefur væntanlega snúist á fundum með samflokksmönnum sínum.

Það er rétt sem fram kom, þetta mál er flókið og erfitt og við eigum eftir að skoða það. Það er kannski of snemmt að segja til um hvort það er gallað með einhverjum hætti eða vanbúið. Ég er nýr í samgöngunefnd og tel reyndar að því sé líka um að kenna að samgöngunefndarmenn voru óvenjuilla undirbúnir að fara í þetta mál. Ég mætti á tvo fundi af þremur sem um málið voru haldnir og það heldur auðvitað áfram. Ég verð að viðurkenna það með sjálfan mig að ég var ekki mjög fróður um tíðnisviðin og þá heillandi veröld. Það sýndist mér reyndar ekki aðrir vera heldur, m.a. þeir sem hér töluðu, þannig að það er rétt að menn fari varlega í þungum dómum. Það sem þó er ljóst er að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur rétt fyrir sér, við erum að tala um auðlind og þá hefur hver stjórnmálaflokkur, eða a.m.k. stjórnmálafylking eða hreyfing, sína auðlindastefnu. Auðlindastefna okkar samfylkingarmanna er ljós og hefur lengi verið það. Við viljum að auðlindir séu í almannaeigu, að af þeim sé tekið notkunargjald. Þó að í litlu sé er þeirri stefnu haldið fram í því frumvarpi sem hv. formaður samgöngunefndar mælti fyrir og er auðvitað til bráðabirgða þangað til nefndinni hefur gefist tími til að fara yfir frumvarpið frá hæstv. samgönguráðherra.



[12:55]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að taka örstutt undir með hv. formanni samgöngunefndar, Birni Val Gíslasyni, um að hér var vel haldið á málum. Þetta er óhemjuflókið mál í eðli sínu og hafði stuttan aðdraganda og því var farin sú leið að fresta meginþætti þess fram á næsta ár og það er til marks um ný vinnubrögð að mati þess sem hér stendur. Málinu var ekki þröngvað í gegnum þingið heldur var einungis sá þáttur þess sem lýtur að fjármögnun settur inn í bráðabirgðaákvæði. En meginhluti málsins er hins vegar eftir innan þings og það er vel, svona á þingið að starfa.



[12:56]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Örfá orð um þetta mál. Eins og komið hefur fram er um nokkuð flókið mál að ræða sem fékk einhverja umfjöllun í samgöngunefnd, það hafði ekki fengið mjög mikla umfjöllun þar. Ég átti þess kost að sitja einn fund í nefndinni þar sem málið var til umfjöllunar og frá mínum bæjardyrum séð lítur það þannig út að það þurfti frekari vinnslu við. Það var afstaða mín eftir að hafa skoðað það lítillega að það þyrfti frekari vinnslu við. Hins vegar væru jafnframt ríkir hagsmunir til að afla heimilda til að taka gjald til úthlutunar tíðniréttinda sem renna út fljótlega á næsta ári. Það voru þess vegna ríkir almannahagsmunir að það kæmist í gegn. Með tilliti til þess að ýmsir nefndarmenn töldu að það þyrfti meiri umræðu í nefndinni en tími var til fyrir jólin vil ég nota tækifærið og þakka öllum nefndarmönnum í samgöngunefnd, bæði þeim sem flytja þetta frumvarp en einnig og ekki síður fulltrúum stjórnarandstöðunnar í samgöngunefnd sem liðkuðu fyrir því að sá háttur yrði hafður á. Það var mikilvægt til að koma þessu fram og ég sé ekki ástæðu til annars en að þakka þeim fyrir það. Enda þótt þeir hafi ekki viljað vera meðflutningsmenn á málinu eiga þeir að sjálfsögðu þakkir skilið fyrir að hafa liðkað fyrir framgangi málsins með þeim hætti sem þeir gerðu.



[12:57]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem aftur vegna þeirra ummæla sem hv. þm. Mörður Árnason hafði áðan. Hv. þingmaður hefur greinilega ekki hlustað á það sem ég sagði í ræðu minni og talaði um að það væri mjög sérkennilegt að hér kæmu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins — og átti þar að sjálfsögðu við mig — sem væru með ýfingar um afgreiðslu málsins.

Það kom mjög skýrt fram í minni stuttu ræðu áðan að ég er mjög sáttur við hvernig meiri hluti nefndarinnar og hv. formaður samgöngunefndar, Björn Valur Gíslason, stýrðu málinu í þennan farveg. Ég sagði líka að við mundum ekki standa í vegi fyrir tekjuöflunaráformum ríkisstjórnarinnar fyrir ríkissjóð þó að þingflokkur sjálfstæðismanna væri ekki sáttur — og það fer ekki á milli mála — við allar þær aðgerðir en við stöndum að sjálfsögðu ekki í vegi fyrir þeim. Ég kem hér einungis til að ítreka það svo að það fari ekki á milli mála að ég er mjög sáttur við að meiri hluti samgöngunefndar tók ákvörðun um að skoða hitt frumvarpið mun betur en búið var að gera og tími hafði unnist til því að það er mjög mikilvægt að það sé gert.