139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

fjarskipti.

394. mál
[12:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem aftur vegna þeirra ummæla sem hv. þm. Mörður Árnason hafði áðan. Hv. þingmaður hefur greinilega ekki hlustað á það sem ég sagði í ræðu minni og talaði um að það væri mjög sérkennilegt að hér kæmu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins — og átti þar að sjálfsögðu við mig — sem væru með ýfingar um afgreiðslu málsins.

Það kom mjög skýrt fram í minni stuttu ræðu áðan að ég er mjög sáttur við hvernig meiri hluti nefndarinnar og hv. formaður samgöngunefndar, Björn Valur Gíslason, stýrðu málinu í þennan farveg. Ég sagði líka að við mundum ekki standa í vegi fyrir tekjuöflunaráformum ríkisstjórnarinnar fyrir ríkissjóð þó að þingflokkur sjálfstæðismanna væri ekki sáttur — og það fer ekki á milli mála — við allar þær aðgerðir en við stöndum að sjálfsögðu ekki í vegi fyrir þeim. Ég kem hér einungis til að ítreka það svo að það fari ekki á milli mála að ég er mjög sáttur við að meiri hluti samgöngunefndar tók ákvörðun um að skoða hitt frumvarpið mun betur en búið var að gera og tími hafði unnist til því að það er mjög mikilvægt að það sé gert.