139. löggjafarþing — 130. fundur
 19. maí 2011.
frumvörp um stjórn fiskveiða.

[10:32]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þingið og þjóðin hefur beðið eftir nýjum frumvörpum um breytingar á stjórn fiskveiða og ríkisstjórnin hefur núna í rúma átta mánuði haft málið hjá sér í súperþingmannahópnum sínum og hjá ráðherrunum án þess að treysta þinginu eða þjóðinni fyrir því að fá að fylgjast með. Nú er boðað í tengslum við kjarasamninga að það eigi að afgreiða hér frumvarp þegar einungis örfáir dagar eru eftir af þingstörfunum þangað til sumarhlé hefjast.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvenær fáum við að sjá frumvörpin? Hvenær koma þau fram? Hvernig leggst það í hæstv. forsætisráðherra þegar enginn stuðningur er við þær hugmyndir sem þó hafa verið kynntar frá sjómönnum, fiskvinnslunni, smábátaútgerðarmönnum, útgerðarmönnunum sjálfum, þeim sem eru í stórútgerðinni, eða þeim prófessorum sem hafa helgað sig því að fara ofan í fiskveiðistjórnarkerfið og það sem hefur mest og best áhrif á efnahag okkar Íslendinga? Stendur hæstv. forsætisráðherra enn við það að ætla að klára á örfáum dögum það sem hún sjálf kallar grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu eða verða málin einungis lögð fram? Hvernig stendur á því að það er sagt við okkur í þinginu að þingflokkar stjórnarflokkanna hafi afgreitt málin frá sér en þau eru ekki lögð fram? Venjan er að þegar þingflokkar hafa afgreitt stjórnarfrumvörp eru þau strax lögð fram í þinginu. Eða var verið að segja fólki ósatt um að þingflokkarnir væru búnir að klára málin? Voru enn þá lausir endar?

Þetta mál er orðið slíkt klúður að það eru drög að frumvarpinu úti um allt þjóðfélag, í fjölmiðlum úti um allar byggðir landsins. Ég hef verið á fundum þar sem frumvarpsdrögin fljúga á milli manna en að ráðherrann þori að koma með frumvarpið sjálft inn í þingið og tala fyrir því, að einhver vilji taka ábyrgð á hugmyndunum, (Forseti hringir.) hefur ekki enn gerst. Hvenær gerist það, hæstv. forsætisráðherra?



[10:34]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég á von á því að þessum frumvörpum sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu verði dreift í dag, eftir því sem ég hef heyrt. Ég vona að það standist. Það er alveg eðlilegt að þetta mál hafi tekið tíma. Það hefur að mínu viti að vísu tekið of langan tíma, frá september og þar til núna, að klára þessi mál en ég vona að þau komi sem sagt fram í dag. Það er ekkert skrýtið þó að skiptar skoðanir séu um þetta stóra og mikla mál og einstakar greinar frumvarpsins. Ég held að það sé alveg eðlilegt en ég held að stærsti hluti þjóðarinnar sé sammála grundvallaratriðunum og þeirri kerfisbreytingu sem fram kemur í þessum frumvörpum. Það er verið að innkalla og endurúthluta aflaheimildum og það er í samræmi við stjórnarsáttmálann. Það er verið að opna kerfið sem hefur verið allt of lokað og sniðið að sérhagsmunum en ekki almannahagsmunum. Það er verið að auka það að þjóðin fái meiri arð af sjávarauðlindinni (Gripið fram í: Það er rangt.) en verið hefur og það er verið að opna kerfið þannig að fleiri geti nýtt sjávarauðlindina en kvótahafarnir. (Gripið fram í: Það er rangt.) Allt eru þetta lykilatriði; jafnræði, atvinnufrelsi og nýliðun.

Það er ekkert skrýtið þótt það séu skiptar skoðanir um einstaka atriði í frumvarpinu. Ég tel mikilvægt að afgreiða minna frumvarpið, um strandveiðar og byggðakvóta, á þessu þingi en ég tel líka mikilvægt að stærra frumvarpið, um kerfisbreytinguna, komi til umræðu í þinginu og fari til nefndar. Þá fær sjávarútvegsnefnd málið til meðferðar og vonandi getum við þá afgreitt það á haustþinginu eða í september.



[10:36]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra er annar af tveimur þingmönnum sem var hér árið 1990. Þá sagði hún: Frjálst framsal er grundvallaratriði til að auka hagkvæmni í greininni. Þá sagði hún: Við þurfum að leyfa veðsetningar í greininni. Þá sagði hún: Við þurfum að byggja á einföldu kerfi, aflahlutdeild, og fækka undanþágum. Þá sagði hún: Ráðherrann á ekki að vera að vasast í þessum málum.

Nú segir hún: Frjálst framsal er skaðvaldur og til þess fallið að auka á og ýta undir sérhagsmunagæslu. Nú segir hún: Það þarf að auka völd ráðherrans. Nú segir hún: Það er bannað að veðsetja. Og nú segir hún að við þurfum að fjölga þeim leiðum sem menn geti sótt inn í kerfið. Það er öllu snúið á hvolf, öllu því sem menn voru áður sammála um að mundi auka hagkvæmni í greininni. Því á núna að ljúka og banna. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi. Staðreynd málsins er sú að við þurfum ekki á því að halda að fjölga þeim sem sækja sjóinn. Við þurfum á því að halda að hámarka (Forseti hringir.) afrakstur greinarinnar og hæstv. forsætisráðherra skilur ekki að almannahagsmunir eru undir. (Forseti hringir.) Hagsmunir okkar liggja með greininni, með því að við fáum hámarksafrakstur (Forseti hringir.) af þeim fiskveiðum sem hér eru stundaðar. (Gripið fram í: Þurfum að færa …)



[10:38]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hv. þingmanni að það er almenn óánægja með þetta kvótakerfi í þjóðfélaginu og hefur lengi verið. Fólkið hefur verið að kalla (Gripið fram í: Þú ert að alhæfa.) eftir breytingum á því. Það er það kall sem við erum að svara og það sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum.

Ég trúi því ekki að hv. þingmaður vilji hafa kerfið eins og það er, að örfáir kvótahafar geti fénýtt það og selt heimildir (Gripið fram í.) á okurverði til leiguliða. (Gripið fram í.) (BjarnB: Hvaða rugl er þetta?) Það er bara þannig. (Gripið fram í.) Á hvað eru leiguheimildirnar seldar? (Gripið fram í.) Kílóið er selt á um 300 kr. en þeir þurfa sjálfir að borga fyrir það 6,50 kr. Er nokkuð skrýtið þó að við viljum breyta þessu kerfi og opna það fyrir fleirum þannig að fleiri geti nýtt sjávarútveginn en örfáir kvótahafar? (Gripið fram í.) Ég veit að sjálfstæðismenn eru mjög órólegir yfir því að það eigi að fara að breyta hér kvótakerfinu (Gripið fram í: Þetta er rangt.) sem hefur [Háreysti í þingsal.] verið kallað eftir. (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn að gefa forsætisráðherra hljóð.)

Þó að sjálfstæðismenn og LÍÚ vilji (Forseti hringir.) hafa kerfið óbreytt (Gripið fram í: Kjaftæði.) er það bara þannig (Forseti hringir.) að meiri hluti þjóðarinnar vill breytingu á (Forseti hringir.) því. [Frammíköll í þingsal.]



[10:39]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti biður hv. þingmenn um að sýna þinginu þá virðingu að gefa ræðumönnum tækifæri til að ljúka máli sínu án slíkra frammíkalla.