139. löggjafarþing — 165. fundur
 16. september 2011.
húsnæðismál, 2. umræða.
stjfrv., 100. mál (uppboðsíbúðir á kaupleigu og lánsheimildir Íbúðalánasjóðs). — Þskj. 107, nál. m. brtt. 1835, nál. 1873.

[17:52]
Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Nefndin fékk fjölda gesta á sinn fund sem getið er um í nefndaráliti og eins bárust umsagnir um málið.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um húsnæðismál þess efnis að Íbúðalánasjóði verði falið það verkefni að bjóða íbúðarhúsnæði sem hann hefur leyst til sín til kaupleigu í stað þess að leigja það út eins og nú er kveðið á um. Þá verði sjóðnum heimilt að veita óverðtryggð lán. Auk þess er lögð til með ákvæði til bráðabirgða tímabundin breyting á lánsheimildum þannig að sjóðnum verði heimilt að veita að uppfylltum nánari skilyrðum lán til endurbóta sem geti numið allt að 90% af kostnaði við framkvæmdir þó svo að fjárhæð lána sem þegar eru áhvílandi sé hærri en lögbundin hámarksfjárhæð lána Íbúðalánasjóðs svo fremi að samanlögð fjárhæð lána verði ekki hærri en nemur fasteignamati eignar.

Meiri hlutinn telur ljóst að framangreint ákvæði til bráðabirgða getur aukið áhættu sjóðsins. Í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis kemur fram að engin greining hafi farið fram á þessu atriði og því ekki forsendur hér til að meta breytingu á áhættunni til fjár. Með vísan til þessa telur meiri hlutinn ekki unnt að samþykkja þessa breytingu að svo stöddu og leggur til að ákvæðið falli brott.

Hvað varðar heimild Íbúðalánasjóðs til þess að bjóða í fasteignir í eigu sjóðsins telur meiri hlutinn þennan hluta frumvarpsins ekki nægilega vel útfærðan og að hér sé um of mikið framsal löggjafarvalds að ræða. Einnig kom fram á fundum nefndarinnar að ekki lægi fyrir hvernig ætti að útfæra kaupleigukerfið. Leggur meiri hlutinn til að ákvæðið falli brott en telur jafnframt ástæðu til að áfram verði skoðaðir möguleikar Íbúðalánasjóðs til þess að bjóða íbúðir í eigu sjóðsins til kaupleigu.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að veita Íbúðalánasjóði heimild til að gefa út óverðtryggða skuldabréfaflokka og þar með að veita óverðtryggð lán, samanber 2. gr. frumvarpsins, enda geti þessi heimild aukið valmöguleika lántakenda. Meiri hlutinn áréttar þó að útfærslan á því hvernig Íbúðalánasjóður hagar útgáfu og fjármögnun slíkra lána er eftir. Hér er því einungis stigið fyrsta skref í átt að óverðtryggðum útlánum sjóðsins en síðar kemur í ljós hvaða kjör bjóðast á markaði og þar með hvort hér sé um raunhæfa leið að ræða fyrir fólk til að fjármagna íbúðarkaup sín án þess að taka þurfi mikla áhættu hvað varðar sveiflur í greiðslubyrði.

Samkvæmt 4. mgr. 21. gr. húsnæðislaganna er kveðið á um að vextir skuli vera óbreytanlegir á lánstíma. Til að lágmarka afföll og áhættu Íbúðalánasjóðs telur meiri hlutinn þó mikilvægt að vextir óverðtryggðra útlána sjóðsins geti verið breytilegir. Leggur meiri hlutinn því til breytingu þess efnis en áréttar að sú breyting mun einungis ná til óverðtryggðra útlána sjóðsins. Verðtryggð lán hans verða áfram á föstum óbreytanlegum vöxtum. Meiri hlutinn telur þó ekki rétt að kveða á um að óverðtryggð lán skuli ávallt vera með breytilegum vöxtum heldur setji Íbúðalánasjóður reglur um vexti af óverðtryggðum lánum sínum enda hlýtur vaxtastefna hans að fara eftir fjármögnun sjóðsins á þessum skuldabréfaflokkum.

Það er skýr vilji meiri hlutans að Íbúðalánasjóður nýti sér þá heimild sem honum er veitt með frumvarpinu til að kanna möguleika á útgáfu óverðtryggðra skuldabréfaflokka og eftirspurn eftir þeim.

Meiri hlutinn áréttar að komi til óverðtryggðra lánveitinga verði sjóðurinn að vanda mjög upplýsingagjöf til lántaka. Verði vextir slíkra lána breytilegir felur það í sér áhættu fyrir lántakendur þar sem greiðslubyrðin getur breyst umtalsvert í kjölfar vaxtabreytinga. Mikilvægt er að Íbúðalánasjóður stundi ekki lánveitingar sem fela í sér mikla áhættu fyrir lántakendur.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum, þ.e. að 1. gr. laganna og ákvæði til bráðabirgða falli brott. Þá er bætt við ákvæði varðandi möguleika til breytilegra vaxta á útlánum Íbúðalánasjóðs ef um óverðtryggð lán er að ræða og síðan er gerð breyting á gildistökuákvæði laganna.

Undir nefndarálitið rita Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Pétur H. Blöndal, Guðmundur Steingrímsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Jónína Rós Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.



[17:58]
Frsm. minni hluta fél.- og trn. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Frú forseti. Meginefni þessa frumvarps er að gera Íbúðalánasjóði kleift að bjóða upp á óverðtryggð útlán og jafnframt að veita sjóðnum heimild til að slík útlán beri breytilega vexti. Breytingartillögur meiri hlutans snúa jafnframt að því að fella brott aðra þætti frumvarpsins en þá sem varða heimild til handa sjóðnum að veita óverðtryggð lán. Í upphafi er rétt að taka fram að undirritaður styður meginþætti frumvarpsins og leggur til að það verði samþykkt eins og það kemur fyrir. Hins vegar er mikilvægt að fram komi sú staðreynd að hér er aðeins um mjög lítið skref að ræða og tekur frumvarpið á engan hátt heildstætt á þeim vanda sem verðtryggingin er í íslensku samfélagi.

Áður en Íbúðalánasjóður getur boðið upp á óverðtryggð útlán þarf sjóðurinn að vinna sig út úr verðtryggingunni. Í fyrstu þarf sjóðurinn að kanna möguleika á útgáfu óverðtryggðra skuldabréfaflokka eins og kom fram hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur. Sjóðurinn er fjármagnaður að stærstum hluta gegnum Íbúðalánasjóð (70%). Stærstur hluti þessarar fjármögnunar er í formi verðtryggðra skuldabréfa sem eru án uppgreiðsluheimilda. Af u.þ.b. 800 milljarða útlánasafni sjóðsins eru einungis tæpir 40 milljarðar sem hægt er að greiða upp strax, afganginn er ekki hægt að greiða upp fyrr en að 25 árum liðnum og því þarf sjóðurinn að ná samningum við lífeyrissjóði um uppgreiðslu á þessum verðtryggðu bréfum og nýrri fjármögnun í formi óverðtryggðra bréfa. Niðurstöður liggja ekki fyrir og áætlar sjóðurinn að þessi vinna geti tekið að lágmarki tólf mánuði og kom það fram hjá fulltrúum sjóðsins sem komu fyrir nefndina og hefur reyndar gert í fjölmiðlum einnig eftir að málið kom úr nefnd. Það kom einnig fram hjá sjóðnum að vinna við þetta sé á byrjunarstigi sem þýðir að óverðtryggð fasteignalán eru ekki alveg handan við hornið eins og margir hafa látið í veðri vaka. Í þessari umræðu þarf einnig að huga að þeirri staðreynd að lífeyrissjóðirnir eru lögum samkvæmt skuldbundnir til að verðtryggja lífeyri og hvernig geta sjóðirnir staðið við slíkt án þess að umræðan sé tekin um umgjörð lífeyrissjóðakerfisins á sama tíma?

Verðtrygging útlána er án nokkurs vafa eitt stærsta vandamál venjulegra heimila í landinu í dag og ljóst er að stærsta verkefni stjórnvalda er að leita leiða til afnáms hennar. Það eitt og sér er ekki nóg heldur verður einnig að taka á vanda þeirra sem í dag eru með verðtryggðar skuldir sem hækka gríðarlega um hver mánaðamót, sér í lagi þegar verðbólgan hefur verið eins og hún hefur verið undanfarin ár.

Í ljósi þungrar skuldabyrði heimilanna er ekki mikil von til þess að margir fari úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð húsnæðislán. Reyndar hefur það komið fram hjá Íbúðalánasjóði að hann muni ekki í það minnsta í fyrstu bjóða upp á endurfjármögnun lána og óvíst hvenær það muni hefjast. Vegna þess ætti verkefni okkar sem hér erum að vera að setja þak á verðtrygginguna á ársgrundvelli sem miðast við verðbólgumark Seðlabankans með þolmörkum. Framsóknarflokkurinn lagði þetta til haustið 2009 og aftur á yfirstandandi löggjafarþingi og er málið nú til umfjöllunar í viðskiptanefnd. Þakið yrði í raun fyrsta raunverulega skrefið sem stigið yrði í þá átt að afnema verðtrygginguna. Samkvæmt útreikningum Marinós G. Njálssonar ráðgjafa hefur komið fram að ef 4% þak hefði verið sett á verðtrygginguna síðustu 20 ár hefði raunávöxtun lífeyrissjóðanna náð að jafnaði 3,5%.

Annað mikilvægt atriði er að ná fram raunvaxtalækkun fasteignalána. Staðreyndin er sú að raunvextir innlendra verðtryggðra húsnæðislána eru hærri en þegar kemur að óverðtryggðum húsnæðislánum í nágrannalöndum okkar. Það er ljóst að slík vaxtalækkun mundi minnka greiðslubyrði íslenskra heimila mjög mikið. Þessar tillögur komu reyndar fram í áliti framsóknarmanna auk hv. þm. Lilju Mósesdóttur þegar skýrsla um afnám verðtryggingar var lögð fram á síðasta vori.

Um leið og mælt er með samþykkt þessa máls skal það tekið fram að frumvarpið tekur á engan hátt á þeim vanda sem fylgir verðtryggingunni og því er gerð sú krafa að ríkisstjórnin svari nú kalli þjóðarinnar og undirskriftasöfnunar sem hefur verið í gangi um allnokkurt skeið og hefji raunverulega vinnu við að taka á þeim vanda sem verðtryggingin veldur daglega bæði hjá heimilum og fyrirtækjum landsins.



[18:03]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér heimild Íbúðalánasjóðs til að veita óverðtryggð lán og það er eiginlega það sem situr eftir af frumvarpinu eftir að nefndin er búin að fara í gegnum það, og ég er því mjög hlynntur. Ég hef alltaf talið það mjög neikvætt að Íbúðalánasjóður, stærsta lánastofnun landsins í lánveitingum til almennings og heimila, beini fólki markvisst inn í verðtryggingu. Og ekki nóg með það, frú forseti, heldur beinir hann með ákveðnum hætti fólki inn í löng lán, jafnvel 40 ára lán, þar sem eignamyndun er mjög hæg. Hann hefur reyndar stundum boðið 20 ára, 25 ára og 30 ára lán, en allt skal það vera verðtryggt. Þetta er mjög slæmt vegna þess að eignamyndunin verður mjög hæg og fólk er mjög berskjaldað fyrir sveiflum í verði fasteigna.

Það er reyndar vandi um allan heim að þegar fasteignaverð lækkar mikið lenda menn í vandræðum með eigið fé. Það er ekkert síður á Spáni og í Danmörku en hér á landi og ég hygg meira að segja að staðan sé verri í Danmörku varðandi eigið fé fjölskyldna en á Íslandi þó að ég hafi ekki um það nákvæmar tölur. Það væri gaman að skoða það einhvern tíma í hv. félagsmálanefnd vegna þess að þetta er félagslegt atriði.

Um leið og tekin eru upp óverðtryggð lán, sem margir binda miklar vonir við og kannski óraunhæfar, þurfa menn að upplýsa um áhættuna af óverðtryggðum lánum eins og upplýsa hefði þurft um áhættuna af verðtryggðum lánum. Nú er það spurningin hvort menn hugi að uppruna fjárins, sem margir virðast ekkert átta sig á hvaðan komi, þeir virðast halda að peningarnir komi frá guði, frá himnum eða frá bankanum en gleyma því að banki er ekkert annað en millifærsluaðili, banki á ekkert sparifé sjálfur. Þar leggur fólk inn sparifé og svo lánar bankinn það sama sparifé út. Bankinn gerir því ekkert annað en að flytja peninga frá sparifjáreigendunum — sem sumir kalla fjármagnseigendur, og það á víst að vera ljótt — yfir til lántakenda. Sparifjáreigandinn, hinn svokallaði fjármagnseigandi, er nánast alltaf heimili, þannig að þeir sem gæta hagsmuna heimilanna ættu að gæta sérstaklega að sparnaði.

Þegar menn eru með óverðtryggð lán og ef menn ætla ekki að hlunnfara sparifjáreigendur, þ.e. stela af þeim peningum, eins og gert var hér frá 1950 til 1980 — þá var vöxtum kerfisbundið haldið neikvæðum af Seðlabanka Íslands og við það myndaðist mikil eignaaukning hjá skuldurum og sparnaður landsmanna hvarf, hann brann. Það var mjög alvarlegt og sennilega er það ein mesta eignatilfærsla á Íslandi frá lágtekjufólki til hátekjufólks, sem hafði efni á því að taka lán, og til fyrirtækja. Það eru margar sögur af því þegar menn eignuðust fasteignir, það var erfitt að borga fyrst en svo var ekkert eftir og menn fengu fasteignina að miklu leyti gefna þegar lánin voru óverðtryggð.

Ef menn ætla ekki að fara í þessa stöðu aftur þurfa menn að búa sig undir það að ef hér verður verðbólguskot, segjum mjög hóflegt, 10%, þá fari vextir upp í 10% að minnsta kosti. Það er ákveðinn kostnaður fólginn í að flytja peningana á milli. Það er vaxtamunur hjá banka, hann þarf peninga til reksturs og reikna má með að í 10% verðbólgu þurfi bankinn að fá svona 1–2%, það er lágmark, þannig að útlánsvextir ættu þá að vera 11–12%. Tólf prósent vextir á láni sem er nokkuð hátt, segjum 30 milljónir, væru þá 3,6 milljónir og það er óbærilegt fyrir venjulegt fólk að borga 3,6 milljónir bara í vexti á ári. Þessu þurfa menn að átta sig á. Það mundu vera 300 þús. kr. á mánuði bara í vexti ef menn ætluðu ekki að hlunnfara sparifjáreigandann. En svo getur vel verið að það sé markmið hjá mörgum að hlunnfara sparifjáreigandann, það getur vel verið að það sé bara tilgangurinn með dæminu. Manni heyrist oft að það sé eiginlega hið besta mál að fara illa með sparifjáreigendur, en menn gleyma því að sparifjáreigendur eru bara venjulegt fólk og venjuleg heimili sem geta tekið ákvörðun um að hætta að spara og þá þornar upp sú lind sem menn taka lánin úr.

Þegar menn því fara út í óverðtryggð lán þarf að kynna fyrir fólki þá áhættu sem felst í því að það komi verðbólguskot og menn þurfi að borga mjög mikið af láninu. Það er einmitt kostur verðtryggingarinnar að hún dreifir þessu álagi eða áfalli yfir á allan lánstímann sem sumir líta á sem kost en aðrir líta á sem galla. Verðtryggingin hefur því sína kosti og galla og óverðtryggð lán hafa líka kosti og galla. Kosturinn felst í því að eignamyndunin er hraðari og greiðslubyrðin er yfirleitt þekktari. Menn vita betur hvað þeir skulda, skuldin vex ekki, og menn vita betur hvað þeir hafa tekið af skuldbindingum, en greiðslubyrðin verður yfirleitt alltaf mikið þyngri og harðari í óverðtryggðum lánum, sem er kannski ágætt til að auka aga í fjármálum.

Þetta þurfa menn að vita. Ég hef grun um að margir horfi til þess að breyta yfir í óverðtryggt og allt í einu bara þurfi þeir ekki að borga neitt eða mjög lítið; að það sé draumurinn að skuldirnar nánast hverfi. Þannig verður það ekki nema meiningin sé að hlunnfara þann sem lagði til upprunalega féð, hvort sem það er lífeyrissjóður eða eitthvert heimili, að taka af honum peningana sem hann sparaði.



[18:10]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hans ræðu. Hann hefur talsverða reynslu af fjármálamörkuðum og meiri innsýn og þekkingu en margir aðrir í þessum sal. En ég glöggvaði mig kannski ekki nægilega vel á því hvort þingmaðurinn teldi það vera framfaraskref að Íbúðalánasjóður byði hin óverðtryggðu kjör og þá kannski ekki síður hvort hann telji að það hafi almennt reynst farsælt fyrir okkur að vera með svo stóran hluta af skuldum heimilanna í verðtryggðu formi.

Ég skil áhyggjur hans af sparifjáreigendunum en telur hann ekki að þær miklu álögur sem þessu kerfi hafa fylgt fyrir heimilin í landinu hafi ekki skilað hagstæðum vaxtakjörum til fólks á húsnæðislánum og annað slíkt, og hvort hann telji ekki almennt að æskilegra væri að við hefðum fyrirkomulag húsnæðislána okkar meira eins og hjá venjulegum þjóðum. Ég nefni Þjóðverja sem dæmi, þeir eru sérfræðingar miklir í efnahagsmálum og hv. þingmaður þekkir vel til hvernig þeir halda á fjármálum og skipuleggja sín fjármálakerfi.



[18:12]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ágætt andsvar. Ég tók það fram strax í byrjun að þetta væri framfaraskref vegna þess að þetta eykur kosti fólks. Ég er alltaf hlynntur því að fólk hafi sem flesta kosti og alveg sérstaklega að ríkið sé ekki að stýra fólki inn á ákveðnar brautir sem það kannski vill ekki fara.

Varðandi það hvort þetta séu álögur á heimilin: Ef maður lítur á hina hliðina, sem menn gera mjög ógjarnan, þá er einhver sem hefur lagt til hliðar, hvort sem það er með frjálsum sparnaði eða í gegnum lífeyrissjóðinn sinn — allir Íslendingar eru skyldaðir til að borga í lífeyrissjóð og það gleymist stundum að hver fjölskylda á þar 15 milljónir að meðaltali, meira en hún á yfirleitt í húsinu sínu. Álögur á heimilin felast einmitt í því að 80% af innstæðum í bankakerfinu, svona eftir minni, eru óverðtryggðar. Af hverju eru 80% af innstæðum í bankakerfinu óverðtryggðar? Vegna þess að það er skilyrði að binda innstæðuna í þrjú ár minnst til að geta fengið á hana verðtryggingu, sem gerir það að verkum, af því að fólk treystir ekki bönkunum og treystir því ekki að innstæður verði ekki á einhvern hátt skertar eða skattlagðar (Gripið fram í.) — skattlagðar sérstaklega. Nú er búið að hækka skattana til dæmis og menn eru óvarðir fyrir því þegar þeir leggja fyrir þannig að þess vegna eru 80% af innstæðum óverðtryggðar og það fólk er að tapa í dag, í 5% verðbólgu fá menn kannski 2,5% vexti í hæsta lagi og svo er það skattlagt. Fólk er því að tapa í dag og það er enginn sem kvartar yfir því.

Ég man ekki eftir að hafa heyrt nokkurn þingmann á hv. Alþingi kvarta yfir því að vextir á sparifjárinnstæðum séu neikvæðir, nema helst sjálfan mig.



[18:14]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hans greinargerð í þessu. Hann hefur áhyggjur af hinni hliðinni og inneignarhöfum í bankakerfinu, en nú er það náttúrlega ekki þannig að Íbúðalánasjóður sé fjármagnaður með innstæðum í viðskiptabönkunum. Ég velti því fyrir mér, og hv. þingmaður þekkir það betur en ég, því að hann situr í nefndinni, hvort ekki sé í þessu tilfelli fyrst og fremst ástæða til að hafa áhyggjur af ríkissjóði vegna þess að í Íbúðalánasjóði er það væntanlega ríkissjóður sem lánar íbúðakaupendunum fé og tekur síðan lán til þeirrar lánastarfsemi aftur á markaði. Verði misvægi á milli þeirra lána sem hann tekur og þeirra lána sem hann veitir lendir það væntanlega á ríkissjóði og skattgreiðandanum endanlega og þess vegna er einmitt mjög mikilvægt að sem minnst áhætta sé í fjármögnun Íbúðalánasjóðs og hann sé fjármagnaður á sambærilegum kjörum og hann er að lána út á.

Ég vildi kannski biðja þingmanninn um að reifa það stuttlega hvernig þetta sé hugsað, að þessi óverðtryggði lánaflokkur sé fjármagnaður og hvernig nefndin hafi hugsað fyrir því að áhætta af þeirri útlánastarfsemi sé sem allra minnst og sjóðurinn fjármagni sig á sambærilegum kjörum og hann er að lána út á, þ.e. á óverðtyggðum kjörum.



[18:16]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta var rætt nokkuð ítarlega í nefndinni. Að sjálfsögðu þarf Íbúðalánasjóður, sem reyndar gefur út skuldabréf með ríkisábyrgð, sem hann selur á markaði, að fjármagna sig með óverðtryggðum hætti. Það er einmitt það sem er verið að heimila í þessum lögum, þ.e. að hann hafi heimild til að gefa út óverðtryggð bréf með ríkisábyrgð til þess að standa á móti þessum óverðtryggðu útlánum. Þar kemur því beint samhengið á milli uppsprettu fjárins, sem er sala á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum til almennings og lífeyrissjóða, og hins vegar útlánin. Þetta er það sem menn þurfa alltaf að hafa í huga, menn þurfa að huga að uppsprettunni, að hún þorni ekki. Ef menn ganga of hart á uppsprettuna gæti hún þornað og þá fá menn ekki lán, það er mjög einfalt, eða ef vextir hækka upp í himininn, ef ekki er nægilegt framboð af lánsfé.

Þetta er mjög vandasamt af því að ég er ekkert viss um að margir vilji lána, jafnvel með ríkisábyrgð, til mjög langs tíma með föstum vöxtum. Þess vegna var rætt um það í nefndinni að hafa þetta fimm ára tímabil, að vextirnir yrðu breytilegir á fimm ára fresti eða eitthvað slíkt. Þetta var rætt mikið og þetta er náttúrlega ákveðin kúnst sem menn þekkja vel í útlöndum þar sem lengi hefur verið unnið með óverðtryggð bréf á markaði í sveiflukenndri verðbólgu, sem er reyndar alltaf miklu lægri en hér. Þá komum við kannski inn á stjórnun peningamála og það hvernig okkur tekst til að halda verðbólgunni niðri, og það er nú kannski okkar vandamál en ekki verðtryggingin. Vandamálið er sveiflukennd verðbólga sem kemur í bakið á sparfjáreigendum, sem eru uppspretta fjárins, eins og ég gat um. Það þarf að gæta vel að þeirri uppsprettu því að það er svo auðvelt að hætta að spara. Það er miklu auðveldara að hætta að spara en að hætta að skulda.



[18:18]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að rót vandans er ekki verðtryggingin, rót vandans er auðvitað sú hversu illa hefur verið haldið á stjórn efnahagsmála á Íslandi um áratugaskeið og hve sveiflur hafa einkennt hagkerfi okkar, og verðtryggingin er í sjálfu sér bara afleiðing óstjórnar og birtingarmynd hennar. Það þýðir þó ekki að hún geti ekki átt hlut að því að magna vandann. Ég held að eftir okkar miklu efnahagslegu ófarir sé óhjákvæmilegt að við ræðum það til þrautar hvort við þurfum ekki að hverfa frá þessu fyrirkomulagi og ég er eindregið þeirrar skoðunar að eitt af brýnustu verkefnum okkar á sviði efnahagsmála sé að gera það.

Ekki þar fyrir að það hafi ekki verið og staðið full rök til þess að taka upp verðtrygginguna á sinni tíð. Það er alveg rétt lýsing að hér í landinu var verið að brenna upp sparifé, kannski ekki síst eldra fólks sem lagt hafði í lífeyrissparnað eða í sparnað í bönkum sem brann upp á báli verðbólgunnar og varð að engu. Það var ákaflega ósanngjarnt og þróun sem óhjákvæmilegt var að bregðast við á þeim tíma. Ég er ekkert frá því að það hafi verið rétt á sínum tíma að bregðast við því nánast neyðarástandi sem var með því að taka upp þá háttu sem verðtryggingarkerfið er.

Það er líka rétt að í kenningunni eða teoríunni er ýmislegt sem getur bent til þess að verðtrygging sé gagnlegt tæki í hagkerfi og á fjármálamörkuðum og það má leiða ýmis rök að því að hún sé hentug við hitt og þetta. Nú hins vegar höfum við búið við þetta kerfi í um aldarþriðjung og það er auðvitað löngu orðið tímabært að við spyrjum okkur að því hvort kerfið virki í veruleikanum eins og því hefur verið lýst í kenningunni, hvort praxísinn hafi reynst jafnhaldgóður og teorían og reynslusannindin sem við höfum aflað af því að hafa þetta kerfi í liðlega 30 ár séu jafnjákvæð og skynsamleg og við höfum kannski haldið, mörg, framan af af þessu tímabili. Ég held að svo sé ekki og það sé sannarlega eitt af því sem við þurfum að læra, Íslendingar, af efnahagslegum óförum okkar að séríslenskar lausnir í efnahagsmálum er ekki stefna sem við eigum að fylgja. Við þurfum að læra það af óförum okkar að við eigum í öllum meginatriðum í stjórn efnahagsmála að temja okkur sömu hætti, sömu venjur, beita sömu stjórntækjum og aðferðum og aðrar þjóðir í okkar heimshluta og þróuðum ríkjum í veröldinni yfirleitt, en falla frá hinum séríslensku lausnum vegna þess að reynslusannindin í þessi liðlega 30 ár eru einfaldlega þau að séríslensku lausnirnar hafa ekki reynst haldbærar, ekki einu sinni til þess að verja grunngerð efnahagskerfisins, því að það hrundi náttúrlega, en þær hafa heldur ekki í veruleikanum reynst skila okkur minni sveiflum í efnahagsmálum eins og þó kenningin er né hefur þetta kerfi skilað okkur lægri raunvöxtum á íbúðalánum en almennt gerist í okkar heimshluta heldur þvert á móti hefur kerfið í reynd skilað okkur umtalsvert hærri raunvöxtum á íbúðalán en þekkist í okkar heimshluta og þó að leitað væri jafnvel víða um lönd.

Að fenginni þeirri reynslu held ég að eitt af grundvallaratriðunum við að læra betri siði í efnahagsmálum sé að hverfa frá þessu fyrirkomulagi og hverfa að því fyrirkomulagi sem menn beita annars staðar sem eru hin óverðtryggðu kjör. Í þessu eigum við hins vegar ekki að halda að felist nein patentlausn. Það er einn af þeim ósiðum sem við höfum tamið okkur í efnahagsmálum og þurfum að leggja af. Við eigum heldur ekki að horfa til þess að við eigum að ráðast í þetta á einni nóttu eða fara í eina kollsteypuna enn og hverfa frá verðtryggingu í einu vetfangi. Mikilvægt er að við þróum kerfið okkar frá þessum háttum eins og viðskiptabankarnir hafa verið að gera meira og minna án afskipta okkar stjórnmálamanna með því að þeir hafa boðið óverðtryggð lán þeim sem hafa verið að taka ný lán á markaði og þau lán hafa verið mjög vinsæl hjá neytendum. Þar með hefur valkostum fjölgað.

Það er líka fagnaðarefni að a.m.k. einn viðskiptabankanna hefur boðið öllum viðskiptavinum sínum sem hafa verið með verðtryggð lán að flytja sig yfir í óverðtryggð kjör og raunar boðið þeim fyrir það 10% lækkun á höfuðstól og þannig hafa þeir sem voru í eldra kerfinu líka átt valkost. Þannig að í þeim banka, Íslandsbanka, er a.m.k. víst að þeir sem enn eru með verðtryggð lán eru það vegna þess að þeir hafa kosið að vera áfram með verðtryggð lán. Við því er í sjálfu sér ekkert að segja, þeim voru boðin þau á sínum tíma og þeir tóku þau og auðvitað eiga þeir fullan rétt á því að halda þeim áfram.

Þetta skref sem hér er verið að taka, að bjóða óverðtryggð lán á vegum Íbúðalánasjóðs, er síðan mjög mikilvægt skref í þessari þróun. Ég held að ef þess væri nokkur kostur að leita leiða til að bjóða, með svipuðum hætti og Íslandsbanki hefur gert, þeim sem eru með verðtryggð lán hjá Íbúðalánasjóði að flytja sig á síðari stigum í þessari þróun — ég er ekki að tala um á næstu mánuðum en þegar Íbúðalánasjóður hefur fengið nokkra reynslu af því að gefa út óverðtryggð lán með þessum hætti — þá væri það líka mikilvægur kafli í því að skilja við þessa séríslensku sögu sem var auðvitað viðbrögð við neyðarástandi í lífeyrismálum hér fyrir liðlega 30 árum en hefur kannski ekki reynst farsælt tæki til frambúðar að styðjast við. Ég fagna því mjög þeirri heimild sem hér er verið að opna Íbúðalánasjóði að bjóða óverðtryggð lán og tel að okkur sé ekkert að vanbúnaði að veita sjóðnum þá heimild og vona bara að honum gangi sem allra best og skjótast að bjóða þennan nýja valkost og taka síðan frekari skref í framhaldinu.



[18:26]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er of viðamikið mál til að menn geti rætt það í andsvari. Í fyrsta lagi um skipti frá verðtryggðu yfir í óverðtryggt. Þar er einn hemill sem þingmenn hafa byggt inn í kerfið sem eru stimpilgjöldin. Auðvitað ættum við að afnema þann hemil á samkeppni þannig að ríkið sé ekki að hagnast á því þegar menn skipta á milli.

Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði í sinni ágætu ræðu að þetta hefði eflaust verið nauðsynlegt á sínum tíma. Það vill svo til að ég þekkti þann tíma og ég átti þátt í að taka upp verðtryggingu vegna þess að ég var forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna og ég reiknaði út að árið 1969 hefði sá sjóður getað sleppt öllum iðgjöldum til sjóðsins ef hann hefði bara fengið verðtryggingu miðað við byggingarvísitölu, þvílík var brennslan. Öll iðgjöldin fóru í að bæta upp brennsluna á peningunum, 10% af launum allra sjóðfélaga hjá þeim sjóði. Allt sparifé landsmanna var horfið og óréttlætið æpti á menn alls staðar frá þar sem heilu fasteignirnar höfðu horfið og orðið að engu af því að menn seldu þær og lögðu söluverðið í banka. Eins og ég sagði í ræðu minni held ég að þetta hafi verið mesta eignatilfærsla í Íslandssögunni þar sem þeir sem tóku lán græddu og græddu og græddu og þeir sem lögðu fyrir töpuðu og töpuðu og töpuðu.

Upptaka verðtryggingar var neyðarástand. Ég var þá tryggingafræðingur að reikna út stöðu ýmissa lífeyrissjóða og þeir voru allir gjaldþrota, allir. Ég vissi líka sem forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, ég var að taka á móti makalífeyrisþegum sem komu, kannski ofan úr Breiðholti, til að ná í lífeyrinn sinn fyrir allt árið, þeir náðu í lífeyrinn fyrir allt árið því að það tók því ekki að koma oftar. Lífeyririnn, sem dugði kannski fyrir ferð með leigubíl frá Breiðholti og aftur til baka, var óverðtryggður og hann bara hvarf. Lífeyrissjóðirnir gátu ekki staðið undir skuldbindingum sínum, langt í frá, og þetta var ömurleg staða.

Þá voru vextir á lífeyrissjóðslánunum 30%. Ef menn tóku lán borguðu þeir þriðjunginn ári seinna. En, frú forseti, verðbólgan var 60%, þannig að ef þeir réðu við þessa 30% greiðslubyrði stórgræddu þeir á því að taka óverðtryggt lán. Þetta var látið viðgangast, því að hinum megin voru sparifjáreigendur sem fengu kannski bara 10 eða 20% vexti í 60% verðbólgu. Og þeir sem skulduðu gátu meira að segja á tímabili dregið vextina frá skatti þannig að skuldarar græddu líka þar, þeir borguðu minni tekjuskatt. Þetta var alveg óþolandi ástand.

Ég er persónulega, frú forseti, á móti verðtryggingu. Ég er á móti henni vegna þess að hún býr til nýja mynt í efnahagslífið, nýja mynt sem er verðtryggð, og hvað gerist ef myndast verðbólga í þeirri mynt? Þá getur komið upp óðaverðbólga eins og við þekkjum frá ýmsum löndum og er alveg stórhættulegt. Þess vegna þarf að hafa hemla á þeirri mynt eins og gert er með því að menn þurfa að leggja fyrir innstæður í þrjú ár og lán þurfa að vera minnst til, minnir mig, fimm ára. Það eru hemlar til þess að þessi mynt taki ekki yfir og spóli sig lausa.

Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði með réttu að við ættum að taka upp sömu venjur og hætti og eru í löndunum í kringum okkur. Þá skulum við byrja á því, hv. þm. Helgi Hjörvar, að fara að ræða um sparifjáreigandann, því að ef það væri 5% verðbólga eins og núna er — og það er alveg ágætt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra situr hér — ef í Þýskalandi væri 5% verðbólga eins og hér er og vextir væru 2,5% og skattlagningin 20% á vextina væri allt vitlaust í þýska þinginu, ég lofa því. En hv. þingmenn hér horfa ekki einu sinni á það, þeim kemur það bara ekkert við að það sé verið að refsa fólki fyrir ráðdeild og sparsemi. Þeim kemur það ekkert við að það sé verið sé að lemja á sparifjáreigendum og það sem meira er, menn tala þá um að sparifjáreigendur hafi allt sitt á þurru og séu fjármagnseigendur, eitthvað ljótt, fólk sem hefur neitað sér um utanlandsferðir, ekki keypt sér flottan bíl og ekki flott hús. Það er það sem við erum að refsa fyrir. Menn áttu sem sagt að fara í utanlandsferðir, menn áttu að kaupa sér stóran jeppa og stórt hús. Þá hugsum við nefnilega um hag fólksins. Ef það fer sér að voða með allt of mikilli skuldsetningu þá kemur 110% leiðin og ég veit ekki hvað og hvað. Það er mikið hugsað um skuldara hér á landi. Þetta er skuldaraþjóðfélag og er búið að vera ansi lengi.

Það er kannski grunnástæðan fyrir því að hér koma kollsteypur reglulega og reglulegar verðbólgur, vegna þess að það er hagur skuldara að það komi verðbólga þegar þeir skulda óverðtryggt. Menn hafa meira að segja komið hér með hugmyndir um 4% hámark á verðtrygginguna svona til þess að hrekkja sparifjáreigendur enn meira og launa skuldurunum. Við erum enn þá skuldaraþjóðfélag og ég sé það ekkert breytast, frú forseti. Ég hef ekki heyrt hv. þingmenn hafa áhyggjur af því að sparifjáreigendur séu hlunnfarnir. Svo tala menn um að þeir hafi allt sitt á þurru. Hafa menn reiknað spariféð yfir í evrur, hafa menn gert það? Við hrunið töpuðu allir íslenskir sparifjáreigendur alveg gífurlegum fjármunum vegna þess að krónan hrundi, það sem þeir áttu í innstæðum. (Gripið fram í: Þá hefðirðu viljað hafa evruna.) Þá hefði ég viljað hafa evruna en ég er ansi hræddur um að þá hefði [Hlátur í þingsal.] vandinn ekki leyst því að þá værum við í stöðu Grikklands, frú forseti. [ [Frammíköll í þingsal.] (Forseti hringir.) því að þá hefðu skuldirnar ekki rýrnað í evrum og þá hefði útflutningurinn ekki blómstrað eins og hann gerir núna og launin ekki verið lækkuð á Íslandi eins og gerðist í evrum. Þá værum við nefnilega í stöðu Grikklands, sennilega gjaldþrota, vegna þess að skuldsetning var of mikil, neyslugræðgin, þetta er ekki einu sinni lengur neyslugleði, þetta var neyslugræðgi, frú forseti. Menn kaupa og kaupa og kaupa eða gerðu fram til ársins 2008, sérstaklega 2007, og það er það sem við erum að blæða fyrir og Grikkir væntanlega líka án þess að ég þekki það nákvæmlega.

Skuldsetningin er vandamálið, frú forseti, skuldsetningin, en ekki of mikill sparnaður. Og við erum alltaf að refsa sparnaðinum, hugmyndir um 4% hámark á verðtryggingu, hugmyndir um að gera þetta og hitt og skattlagningu á sparifé. Og það að það skuli vera 2,5% vextir í 5% verðbólgu og enginn hafi neinar áhyggjur af því er vandamálið, frú forseti. Það hvetur til skuldsetningar, við hvetjum og hvetjum til skuldsetningar og þegar menn eru komnir yfir um kemur 110% leiðin sem kostar skattgreiðendur, þar á meðal sparifjáreigendur, mikla peninga. Þetta er nefnilega vandamálið, frú forseti. Ég ætlaði ekki að tala mikið en þetta er mér mikið hjartans mál, ekki vegna þess að ég sé sjálfur sparifjáreigandi heldur finnst mér svo ósanngjarnt að það sé verið að refsa fólki fyrir ráðdeildarsemi og sparnað.