139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

húsnæðismál.

100. mál
[18:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er of viðamikið mál til að menn geti rætt það í andsvari. Í fyrsta lagi um skipti frá verðtryggðu yfir í óverðtryggt. Þar er einn hemill sem þingmenn hafa byggt inn í kerfið sem eru stimpilgjöldin. Auðvitað ættum við að afnema þann hemil á samkeppni þannig að ríkið sé ekki að hagnast á því þegar menn skipta á milli.

Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði í sinni ágætu ræðu að þetta hefði eflaust verið nauðsynlegt á sínum tíma. Það vill svo til að ég þekkti þann tíma og ég átti þátt í að taka upp verðtryggingu vegna þess að ég var forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna og ég reiknaði út að árið 1969 hefði sá sjóður getað sleppt öllum iðgjöldum til sjóðsins ef hann hefði bara fengið verðtryggingu miðað við byggingarvísitölu, þvílík var brennslan. Öll iðgjöldin fóru í að bæta upp brennsluna á peningunum, 10% af launum allra sjóðfélaga hjá þeim sjóði. Allt sparifé landsmanna var horfið og óréttlætið æpti á menn alls staðar frá þar sem heilu fasteignirnar höfðu horfið og orðið að engu af því að menn seldu þær og lögðu söluverðið í banka. Eins og ég sagði í ræðu minni held ég að þetta hafi verið mesta eignatilfærsla í Íslandssögunni þar sem þeir sem tóku lán græddu og græddu og græddu og þeir sem lögðu fyrir töpuðu og töpuðu og töpuðu.

Upptaka verðtryggingar var neyðarástand. Ég var þá tryggingafræðingur að reikna út stöðu ýmissa lífeyrissjóða og þeir voru allir gjaldþrota, allir. Ég vissi líka sem forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, ég var að taka á móti makalífeyrisþegum sem komu, kannski ofan úr Breiðholti, til að ná í lífeyrinn sinn fyrir allt árið, þeir náðu í lífeyrinn fyrir allt árið því að það tók því ekki að koma oftar. Lífeyririnn, sem dugði kannski fyrir ferð með leigubíl frá Breiðholti og aftur til baka, var óverðtryggður og hann bara hvarf. Lífeyrissjóðirnir gátu ekki staðið undir skuldbindingum sínum, langt í frá, og þetta var ömurleg staða.

Þá voru vextir á lífeyrissjóðslánunum 30%. Ef menn tóku lán borguðu þeir þriðjunginn ári seinna. En, frú forseti, verðbólgan var 60%, þannig að ef þeir réðu við þessa 30% greiðslubyrði stórgræddu þeir á því að taka óverðtryggt lán. Þetta var látið viðgangast, því að hinum megin voru sparifjáreigendur sem fengu kannski bara 10 eða 20% vexti í 60% verðbólgu. Og þeir sem skulduðu gátu meira að segja á tímabili dregið vextina frá skatti þannig að skuldarar græddu líka þar, þeir borguðu minni tekjuskatt. Þetta var alveg óþolandi ástand.

Ég er persónulega, frú forseti, á móti verðtryggingu. Ég er á móti henni vegna þess að hún býr til nýja mynt í efnahagslífið, nýja mynt sem er verðtryggð, og hvað gerist ef myndast verðbólga í þeirri mynt? Þá getur komið upp óðaverðbólga eins og við þekkjum frá ýmsum löndum og er alveg stórhættulegt. Þess vegna þarf að hafa hemla á þeirri mynt eins og gert er með því að menn þurfa að leggja fyrir innstæður í þrjú ár og lán þurfa að vera minnst til, minnir mig, fimm ára. Það eru hemlar til þess að þessi mynt taki ekki yfir og spóli sig lausa.

Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði með réttu að við ættum að taka upp sömu venjur og hætti og eru í löndunum í kringum okkur. Þá skulum við byrja á því, hv. þm. Helgi Hjörvar, að fara að ræða um sparifjáreigandann, því að ef það væri 5% verðbólga eins og núna er — og það er alveg ágætt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra situr hér — ef í Þýskalandi væri 5% verðbólga eins og hér er og vextir væru 2,5% og skattlagningin 20% á vextina væri allt vitlaust í þýska þinginu, ég lofa því. En hv. þingmenn hér horfa ekki einu sinni á það, þeim kemur það bara ekkert við að það sé verið að refsa fólki fyrir ráðdeild og sparsemi. Þeim kemur það ekkert við að það sé verið sé að lemja á sparifjáreigendum og það sem meira er, menn tala þá um að sparifjáreigendur hafi allt sitt á þurru og séu fjármagnseigendur, eitthvað ljótt, fólk sem hefur neitað sér um utanlandsferðir, ekki keypt sér flottan bíl og ekki flott hús. Það er það sem við erum að refsa fyrir. Menn áttu sem sagt að fara í utanlandsferðir, menn áttu að kaupa sér stóran jeppa og stórt hús. Þá hugsum við nefnilega um hag fólksins. Ef það fer sér að voða með allt of mikilli skuldsetningu þá kemur 110% leiðin og ég veit ekki hvað og hvað. Það er mikið hugsað um skuldara hér á landi. Þetta er skuldaraþjóðfélag og er búið að vera ansi lengi.

Það er kannski grunnástæðan fyrir því að hér koma kollsteypur reglulega og reglulegar verðbólgur, vegna þess að það er hagur skuldara að það komi verðbólga þegar þeir skulda óverðtryggt. Menn hafa meira að segja komið hér með hugmyndir um 4% hámark á verðtrygginguna svona til þess að hrekkja sparifjáreigendur enn meira og launa skuldurunum. Við erum enn þá skuldaraþjóðfélag og ég sé það ekkert breytast, frú forseti. Ég hef ekki heyrt hv. þingmenn hafa áhyggjur af því að sparifjáreigendur séu hlunnfarnir. Svo tala menn um að þeir hafi allt sitt á þurru. Hafa menn reiknað spariféð yfir í evrur, hafa menn gert það? Við hrunið töpuðu allir íslenskir sparifjáreigendur alveg gífurlegum fjármunum vegna þess að krónan hrundi, það sem þeir áttu í innstæðum. (Gripið fram í: Þá hefðirðu viljað hafa evruna.) Þá hefði ég viljað hafa evruna en ég er ansi hræddur um að þá hefði [Hlátur í þingsal.] vandinn ekki leyst því að þá værum við í stöðu Grikklands, frú forseti. [ [Frammíköll í þingsal.] (Forseti hringir.) því að þá hefðu skuldirnar ekki rýrnað í evrum og þá hefði útflutningurinn ekki blómstrað eins og hann gerir núna og launin ekki verið lækkuð á Íslandi eins og gerðist í evrum. Þá værum við nefnilega í stöðu Grikklands, sennilega gjaldþrota, vegna þess að skuldsetning var of mikil, neyslugræðgin, þetta er ekki einu sinni lengur neyslugleði, þetta var neyslugræðgi, frú forseti. Menn kaupa og kaupa og kaupa eða gerðu fram til ársins 2008, sérstaklega 2007, og það er það sem við erum að blæða fyrir og Grikkir væntanlega líka án þess að ég þekki það nákvæmlega.

Skuldsetningin er vandamálið, frú forseti, skuldsetningin, en ekki of mikill sparnaður. Og við erum alltaf að refsa sparnaðinum, hugmyndir um 4% hámark á verðtryggingu, hugmyndir um að gera þetta og hitt og skattlagningu á sparifé. Og það að það skuli vera 2,5% vextir í 5% verðbólgu og enginn hafi neinar áhyggjur af því er vandamálið, frú forseti. Það hvetur til skuldsetningar, við hvetjum og hvetjum til skuldsetningar og þegar menn eru komnir yfir um kemur 110% leiðin sem kostar skattgreiðendur, þar á meðal sparifjáreigendur, mikla peninga. Þetta er nefnilega vandamálið, frú forseti. Ég ætlaði ekki að tala mikið en þetta er mér mikið hjartans mál, ekki vegna þess að ég sé sjálfur sparifjáreigandi heldur finnst mér svo ósanngjarnt að það sé verið að refsa fólki fyrir ráðdeildarsemi og sparnað.