140. löggjafarþing — 30. fundur
 2. desember 2011.
sérstök umræða.

ályktun Íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar.

[13:32]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Frá árinu 2006 hefur eitt af lögbundnum hlutverkum Íslenskrar málnefndar verið að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin hefur síðan sent frá sér slíka greinargerð fjórum sinnum í tæka tíð fyrir fæðingardag Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember og fjallar um nýjan þátt hverju sinni. Þetta eru merkilegar ályktanir, ágætlega rökstuddar og vel samdar, koma við öllum sem tala íslensku og eru til marks um ágætan árangur af málræktarstarfi Alþingis og ríkisstjórna síðustu ára, ásamt íslenskri málstefnu sem málnefndin samdi og þingið samþykkti. „Enn þá er efndanna vant þegar heitið er komið“, eins og Jón Vídalín sagði, úr lögunum frá því í vor nr. 61, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Forseti. Ég legg til að við tökum upp þá venju að ræða árlega um stöðu tungunnar á grunni þessarar ályktunar frá Íslenskri málnefnd og ég held að rétti tíminn til þess sé um miðbik nóvembermánaðar í tengslum við viðburði og hátíðir sem fram fara á fæðingardegi Jónasar, degi íslenskrar tungu. Þá umræðu virðist hægast að skipuleggja samkvæmt 52. gr. þingskapalaga þannig að ráðherra menningarmála legði ályktun málnefndarinnar fram sem skýrslu til Alþingis.

Ég beini þessu hér með til forseta og til mennta- og menningarmálaráðherra, hæstvirtra beggja, til umhugsunar og ákvörðunar.

Aftur að ályktuninni um stöðu tungunnar 2011. Í ár hafa málnefndarmenn beint sjónum að lestrarkunnáttu barna og bóklestri. Kannanir sýna að það dregur úr áhuga og færni hjá börnum til lestrar. Þetta gerist hjá sjálfri bókaþjóðinni, einmitt árið sem hún var heiðursgestur bókamessunnar góðu í Frankfurt, jafnvel þótt ekkert lát sé á bókaútgáfu eins og við verðum ágætlega vör við þessar vikurnar. Í nýlegri könnun um lestrarvenjur 15 og 16 ára unglinga er meðal annars spurt um bækur sem þeir lesi sér til skemmtunar, þ.e. einkum umfram skólabækurnar. Hlutfall íslenskra unglinga sem aldrei gera þetta, lesa aldrei neitt sér til skemmtunar, er hærra en Evrópumeðaltalið þótt ótrúlegt sé. Það er 23%, næstum fjórðungur. Þetta er auðvitað alvarlegt, ekki síst í ljósi þeirrar niðurstöðu annarra fræðimanna að lesskilningi hrakar með minni lestri og lesskilningur varðar síðan almenna hæfni til leiks og starfa. Minni bóklestur og þar með minni þjálfun og minni færni í íslensku getur þannig leitt til þess að börnum gangi verr í námi og verr við almenna lífsleikni. Þá er skammt í félagslegar tengingar, en ýmsir þykjast nú greina að á Íslandi nútímans sé að verða til nýr hópur af fátæku fólki sem stendur frammi fyrir þröskuldum og hindrunum af menningarlegum toga, ekki síður en efnalegum.

Íslensk málnefnd nefnir í ályktun sinni margt sem vel er gert í þessum efnum jafnframt hinu sem á vantar. Á degi íslenskrar tungu nú í nóvember dróst athygli alveg sérstaklega að menntun kennara í þessu sambandi vegna þess að um hana er rætt í ályktuninni en ekki síður vegna þess að Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir flutti um þetta hvasst erindi á málræktarþingi. Staðan er af einhverjum undarlegum ástæðum sú, forseti, að kennari getur útskrifast frá sjálfum Háskóla Íslands, á því sviði sem áður hét Kennaraháskóli Íslands, án þess að hafa lagt neitt á sig við íslenskunám. Ég veit vel að um þetta stendur talsverð deila á menntavísindasviði, en ég tel líka að hlutur íslensku í kennaramenntun sé ekki einkamál þeirra sem á hverri stundu starfa á þessu sviði í háskólanum. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra á að taka af skarið í þessum efnum og fjallar vonandi sérstaklega hér á eftir um samskipti sín við ráðamenn kennaranámsins í Háskóla Íslands.

Forseti. Íslensk tunga er sem betur fer við góða heilsu. Hún lifir samt ekki nema við viljum það. Eitt af því skrýtna við tungumál er að það tekur bara eina kynslóð að deyja. Íslenskan er arfur okkar sem við verðum að flytja fram til heiðurs hinum horfnu í landinu og til grundvallar og lífsfyllingar þeim sem eftir koma. Íslenskan er þess vegna okkar mál í fleiri en einum skilningi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:37]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að hefja þessa umræðu og vil byrja á því að lýsa þeirri skoðun minni að mér líst mjög vel á tillögu hans um að það verði fastur viðburður að við ræðum hér ályktun Íslenskrar málnefndar og hvernig íslenskri málstefnu vindur fram. Eins og við munum var þingsályktun um íslenska málstefnu samþykkt á Alþingi 12. mars 2009. Meginmarkmið íslenskrar málstefnu er að treysta stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu og tryggja að hún verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir í ræðu sinni. Í málstefnunni er lýst í 11 köflum hvert ástand tungumálsins sé á mikilvægum sviðum þjóðlífsins og hvernig horfurnar séu, markmið eru sett og Íslensk málnefnd leggur svo til aðgerðir sem má nota til að ná þeim.

Í nýrri ályktun Íslenskrar málnefndar er ekki síst fjallað um íslenskukennslu og íslenskunám. Ég vil minna okkur sem hér erum á að í kaflanum um leik-, grunn- og framhaldsskóla í íslenskri málstefnu er einmitt rætt um að efla þurfi kennslu í íslensku í grunnskólum og gera hlutdeild móðurmálsins hér á landi líkari því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þessum tilmælum hefur verið fylgt. Nú hefur hlutfall móðurmálskennslu verið aukið í viðmiðunarstundaskrá fyrir nýja aðalnámskrá grunnskóla sem sett var á þessu ári. Hlutfall móðurmálskennslu fer úr 16,1% upp í 18,08%, svo það sé nú nægilega nákvæmt, og færist þá meira í átt til þess sem við sjáum annars staðar á Norðurlöndum.

Annað lykilatriði í málstefnunni er að íslenskukennslan þurfi að standa undir nafni og íslenskukennarar eða kennarar í grunn-, leik- og framhaldsskólum þurfi að hafa trausta kunnáttu í íslensku. Í málstefnunni segir að námskrár menntavísindasviðs Háskóla Íslands og hug- og vísindadeildar Háskólans á Akureyri taki ekki nægilega mikið mið af þessu veigamikla hlutverki og lýst er áhyggjum af því að dregið hafi úr íslenskunámi í kennaranámi hér á landi. Ákveðinn misbrestur hefur orðið í þessum málum því kennaranemar geta nú lokið námi án þess að hafa fengið eitt námskeið í því sem við köllum íslensku á háskólastigi. Nokkrir íslenskuáfangar eru hins vegar í kjarna grunnskólakennaranámsins við Háskólann á Akureyri og því er málum ólíkt háttað hjá þeim tveimur stofnunum sem mennta kennara.

Ég vil greina frá því, í ljósi þess að hv. þingmaður spurði um samskipti ráðherrans við menntavísindasvið Háskóla Íslands, að í janúar 2011 beindi ég þeim tilmælum til menntavísindasviðs að taka tillit til ábendinga Íslenskrar málnefndar sem vörðuðu kennslu og menntun kennara í íslensku á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Þau tilmæli voru send í kjölfar ábendinga um að ekki hefði verið brugðist nægilega vel við ákvæðum í íslenskri málstefnu frá 2009 um hlut íslenskunnar í kennaranámi. Um þetta er enn rætt, getum við sagt, innan háskólans og innan menntavísindasviðs. Ég held hins vegar að ýmislegt í umhverfinu sýni okkur að mjög mikilvægt er að þessi mál verði tekin föstum tökum.

Við gátum fagnað því að þegar niðurstöður síðustu PISA-könnunar frá árinu 2009 voru birtar, sáum við að lesskilningur stefndi upp á við en eigi að síður sjáum við líka að rannsóknir benda til þess, eins og hv. þingmaður nefndi í upphafi máls síns, að börn og ungmenni lesa æ minna sér til skemmtunar. Mjög margt spilar þar inn í. Þegar skyggnst er undir yfirborðið, til að mynda í PISA-könnuninni, sjáum við að skólinn hefur þar vissulega áhrif en líka að áhrif foreldra eru gríðarleg, bókaeign heimila og annað slíkt. Ég lít svo á að hlutverk skólans sé að tryggja að allir fái sömu tækifæri til að geta lesið sér til skilnings, gagns og ánægju. Það eigi að vera markmiðið þó að það gangi kannski aldrei fullkomlega vegna þess að aðstæður manna eru að sjálfsögðu misjafnar.

Ég tel því mjög mikilvægt að við skoðum þessi mál sérstaklega, ekki síst í ljósi þess að í nýrri námskrá er læsi einn af sex grunnþáttum sem ástæða er til að leggja sérstaka áherslu á, allt frá leikskóla upp í framhaldsskóla. Þetta snertir hins vegar mál sem snýr að því hvaða frelsi háskólar hafa til að haga málum sínum sjálfir. Við sjáum til að mynda að mjög mikil umræða er í alþjóðasamfélaginu um hvernig við skipuleggjum kennaramenntun og hvaða kröfur við gerum til hennar, bæði á vettvangi OECD, Evrópusambandsins, Evrópuráðsins og Alþjóðlegu kennarasamtakanna. Ég held að þá skipti mjög miklu máli hvaða skilaboð löggjafinn og hið pólitíska vald hefur fram að færa varðandi kennaramenntun, til að mynda hvað varðar þessi mál.

Það stendur fyrir dyrum að ég fundi á næstunni með forsvarsmönnum menntavísindasviðs til að ræða skipulag kennaramenntunar og þar mun ég líka færa fram þau skilaboð sem ég fæ hér í þessari umræðu.



[13:42]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. frummælanda er þjóðtungan sameiginlegt mál landsmanna. Í íslenskri málstefnu stendur líka að stjórnvöld skuli tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum þjóðlífs. Allir sem búsettir eru hér á landi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi, svo sem nánar er mælt fyrir í sérlögum.

Hvernig ætlum við að ná slíkum árangri, virðulegi forseti? Við þurfum að mennta kennara, kennara sem geta örvað og hvatt leik-, grunn- og framhaldsskólanemendur í að lesa og öðlast skilning á því tungumáli sem við köllum íslensku. Við þurfum líka að styðja við innflytjendur og að móðurmálið þeirra verði virt vegna þess að með því styrkjum við þá í að læra íslensku og nota hana í samfélagi okkar.

Virðulegur forseti. Ég sagði við þyrftum kennara sem gætu vakið áhuga á íslensku máli, en menntun þeirra verður líka að vera með þeim hætti að þeir geti ræktað málið meðal nemenda sinna og með nemendum sínum. Menn verða að hafa í huga að íslenskan er ekki bara nauðsynlegt tæki til náms og tjáningar, hún er líka tæki til sköpunar og uppspretta mikillar ánægju.

Hæstv. ráðherra sagði að staða móðurmálskennslu í kennaranámi, t.d. á Norðurlöndum, væri misjöfn en hún er hvergi jafnrýr og á Íslandi. Því verður að breyta. En það verður hins vegar að fara fram af hálfu þeirra sem ráða, menntamálayfirvalda, háskólanna og þeirra sem standa að kennaramenntun í landinu, sérstök stefnumótun um kennaramenntunina. Hvernig viljum við hafa hana? Á hvað viljum við leggja áherslu? Við Íslendingar hljótum að leggja áherslu á tungumálið okkar, á íslenska þjóðtungu sem er uppspretta ánægju, gleði, lista og sköpunar.



[13:45]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Framsóknarflokkurinn hefur ályktað sérstaklega um íslenska tungu. Við teljum að hana þurfi að styrkja og viðhalda þurfi tungumálinu og þróa það. Við ályktuðum um þetta á síðasta flokksþingi.

Við höfum talsvert miklar áhyggjur af því að lesskilningi hrakar. Maður heyrir það sérstaklega þegar unglingar tala að bæta þarf mikið þá umgjörð sem börn búa við. Ég vil þá taka fram að þetta er sameiginlegt verkefni margra sem þurfa að koma að því að bæta málfar íslenskra barna og lesskilning. Þar er fjölskyldan auðvitað í broddi fylkingar, skólarnir. Ég vil líka tiltaka Ríkisútvarpið, bæði sjónvarp og útvarp, það er gríðarlega mikilvægt að talað sé fallegt íslenskt mál bæði í útvarpi og sjónvarpi. Það er líka mikilvægt vegna þess að lesskilningi hefur því miður hrakað. Maður veltir því þá fyrir sér hvort það séu innihaldslitlir frasar að halda því fram að Ísland sé mikil bókmenntaþjóð og hvort við getum montað okkur af því að taka upp íslensk nýyrði o.s.frv. þegar maður sér að lesskilningi hrakar. Mikilvægt er að finna aðferðir sem henta börnum við lestur. Það hefur sýnt sig að svokölluð lesbretti henta sérstaklega vel, m.a. drengjum. Og það er ágætt að minnast á lesbretti í þessu samhengi af því að hv. málshefjandi, Mörður Árnason, og hv. þm. Helgi Hjörvar stóðu fyrir því að þrýsta á það að lesbretti yrðu lækkuð í verði svo og rafbækur og fyrir það ber að þakka.

Það er gríðarlega mikilvægt að umgjörðin verði þannig að börn læri betra íslenskt mál og auki lesskilning sinn. Við erum á eftir miðað við PISA-kannanir, bæði undir meðallagi í stærðfræði og náttúrufræði. Lesskilningi hrakar, börn hér á landi lesa minna en börn í Evrópu, þannig að við þurfum virkilega að taka okkur á.



[13:47]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég deili áhyggjum Íslenskrar málnefndar á minnkandi bóklestri og dvínandi lesskilningi barna og unglinga. Í námi mínu í bókmenntafræði lagði ég sérstaka áherslu á barnabókmenntir, greiningu þeirra og hlutverk. Á þeim tíma hafði engin íslensk barnabók hlotið tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna, hvað þá hlotið þau. Barnabækur mættu afgangi og höfundar þeirra voru vart taldir alvöruhöfundar.

Mikið hefur áunnist í því að auka virðingu fyrir barnabókum, en mér finnst vanta nokkuð upp á skilning manna á því hvernig best sé að kenna lestur svo börn og unglingar læri virkilega að njóta lestursins. Lausnin er þó kannski einfaldari en marga grunar. Við þurfum að leyfa þeim að lesa eitthvað sem þau vilja lesa, sem þau hafa áhuga á.

Sem foreldri hef ég orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með þann bókakost sem krakkarnir mínir hafa komið með heim úr skólanum þegar þau hafa verið að æfa sig í lestri. Sumt hefur hreinlega verið óbærilega leiðinlegt, svo það sé sagt.

Ég hef stundum haldið því fram að íslenskur bókamarkaður sé áttunda undur veraldar. Hann er smár, fáir tala tungumál okkar, hann er mjög lítið styrktur af hinu opinbera miðað við til dæmis Norðurlöndin, en mikið er gefið út af góðum og áhugaverðum barnabókum á íslensku. Ég held að það mundi bæði styrkja lestur og lesskilning barna sem og barnabókaútgáfu, sem er nauðsynleg, að gefa skólunum í auknum mæli tækifæri til þess að uppfæra bókakostinn með því að leita til þeirrar blómlegu bókaútgáfu sem hér er.



[13:49]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Vandi íslenskunnar er ein birtingarmynd þess meginvanda íslenska skólakerfisins að það er gjá á milli þessa kerfis og þeirra nemenda sem það á að þjóna. Sú gjá birtist með skýrustum hætti í því að allt að 30% nemenda í framhaldsskólum hverfa frá námi án þess að ljúka því. Vandi íslenskunnar birtist meðal annars í því að stór hluti nemenda, sérstaklega drengir, lesa ekki bækur sér til ánægju, væntanlega af því að þeir hafa ekki áhuga á því. Hvernig eigum við að bregðast við því? Eigum við að fjölga tímum í íslensku? Gera íslenskuna að keppnisgrein með verðlaunafhendingu? Útvega öllum nemendum spjaldtölvur svo þeir þurfi ekki að handfjatla gamaldags innbundnar bækur? Beita boðum, bönnum, formælingum eða jafnvel hótunum? Eða eigum við kannski að tala við nemendurna sjálfa, rannsaka með skipulegum hætti hvað veldur áhugaleysi þeirra á bóklestri? Hvað veldur námsleiðanum? Hvað veldur því að þeir hverfa á brott frá námi? Eru kennsluaðferðirnar, námsgögnin og uppbygging námsins nægilega miðuð við þarfir nemenda á 21. öldinni, þessari öld margmiðlunar, rafrænna boðskipta, sprengingar í framboði afþreyingar og síaukinna krafna samfélagsins um endurmenntun og framþróun færni og þekkingar?

Vísað er í mikilvægi rannsókna í þessari ályktun Íslenskrar málnefndar. Þar segir að rannsaka þurfi hvað geri börn og unglinga að áhugasömum lesendum og virkja þurfi lestrarhesta til jafningjafræðslu. Við þurfum jafnframt og jafnvel enn frekar að rannsaka hvað veldur því að nær fjórðungur íslenskra barna í 5.–7. bekk les aldrei bækur sér til skemmtunar. Sami vandi er út um allt í okkar opinbera kerfi, hann er ekki einskorðaður við skólakerfið. Okkur hættir til að hafa vit fyrir fólki án þess að hafa það sjálft með í ráðum. Í skólakerfi þar sem brottfall er með því hæsta sem þekkist í Evrópu, þar sem íslenska og bóklestur eiga undir högg að sækja, er algjört lykilatriði að við leggjum okkur fram um að greina raunverulegar orsakir vandans, skilja afstöðu nemendanna og umfram allt að hafa fulltrúa þeirra við borðið þegar við tökum ákvarðanir um aðgerðir til að snúa þróuninni til betri vegar.



[13:51]
Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Frá því að land byggðist hefur rétt um ein milljón manna átt íslenska tungu að móðurmáli samtals. Það segir okkur að þetta tungumál er lítið og þar af leiðandi í meiri hættu en tungumál stórra og voldugra þjóða. Íslensk tunga hefur alltaf verið í hættu og hugsanlega er hún í meiri hættu í dag en oft áður. Reyndar er það svo að á þeirri öld sem íslenskar gullaldarbókmenntir voru skrifaðar ímynda ég mér að bóklestur þjóðarinnar sjálfrar hafi verið í lágmarki því að þá voru engar bækur til nema skinnhandrit sem ekki var á færi annarra en auðmanna að búa til.

Nú til dags tekur fólk til sín upplýsingar, ekki aðeins með lestri, heldur á margvíslegan annan hátt. Þetta hefur áhrif á stöðu íslenskrar tungu. Það er mikill siður hér að kenna íslenskukennurum og skólum fyrst og fremst um að íslenskri tungu er stundum misþyrmt, meira að segja hérna á hinu háa Alþingi heyri ég henni misþyrmt næstum því daglega, en þetta er ekki mál kennaranna eingöngu. Ég lærði mína íslensku af umhverfi mínu. Kennarar mínir kenndu mér stafsetningu. Bestu kennarar mínir bentu mér á bókmenntir sem ég gæti lesið til að auðga málþekkingu mína. En orsakirnar eru svo margar að það duga engar skyndilausnir.

Þess vegna fagna ég því að við ræðum í framtíðinni einu sinni á (Forseti hringir.) ári um stöðu íslenskrar tungu. Ég held sjálfur að staða íslenskrar tungu sé þannig að miklu nær væri að gera það einu sinni í mánuði (Forseti hringir.) og fyrst og fremst ættum við að vanda okkur sjálf sem hér stöndum og tölum til þjóðarinnar.



[13:54]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég vil einnig þakka honum fyrir að hafa verið óþreytandi að tala máli íslenskunnar í þessum sal. Ég vil taka undir með honum um að við hefjum umræðu hér árlega um stöðu íslenskunnar. Mér finnst við hæfi að miða þar við fæðingardag Jónasar Hallgrímssonar.

Það er alveg ljóst og ætti að vera flestum kunnugt sem hafa farið í gegnum langskólanám eða hafa haft áhuga á því að lesa og mennta sig að til þess að ná árangri í hvaða fagi sem er skiptir gríðarlega miklu máli að hafa vald á sínu eigin móðurmáli. Það er lykillinn að tungumálanámi. Það er raunar lykillinn að öllu því námi sem við tökum okkur fyrir hendur að hafa traust tök á móðurmálinu. Það hlýtur því að vera rökrétt framhald þess þegar litið er til kennaramenntunar að þar eigi móðurmálið að hafa verðskuldaðan sess.

Ég vil því — af því að hæstv. menntamálaráðherra vildi hlusta eftir því sem fram kæmi í þessari umræðu — styðja hæstv. menntamálaráðherra í því að brýna forsvarsmenn kennaramenntunar til þess að móðurmálið fái það vægi sem því ber.

Ég vil einnig, af því að við gerum hér að umtalsefni lestur barna, varpa því fram til hugleiðingar hvort ekki væri fróðlegt að heyra hvernig lestri eldri kynslóða sé háttað í landinu og um mikilvægi foreldra þegar kemur að því að hvetja börn til bóklesturs. Það eru ekki einungis börnin sem þurfa að lesa, við þurfum að lesa alla okkar ævi og við þurfum að rækta íslenskuna alltaf. Það væri fróðlegt að fylgjast með því og fá upplýsingar um hvort íslenskunni hafi þá hrakað með þeim hætti hjá okkur sem eldri erum að við séum farin að lesa minna en áður var gert og hvað hægt sé að gera til að hvetja landsmenn alla til að rækta íslenskuna framtíðinni til heilla.



[13:56]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að vekja máls á því máli sem við ræðum hér. Líkt og aðrir ræðumenn vil ég taka undir það með hv. þingmanni að rétt sé að ræða hér að minnsta kosti einu sinni á ári stöðu íslenskrar tungu og þá samþykkt sem við erum að ræða að verði gerð. Ég held að það sé vel við hæfi.

Við vitum auðvitað öll að aðgangur að bókum og tækjum til að lesa bækur og slíkt er misjafn á heimilum. Ég var því mjög sammála ræðu hv. þm. Skúla Helgasonar áðan um að við ættum að íhuga mjög vandlega hvernig hægt sé að auka málskilning og lestur og fara í gegnum þá hluti alla hvernig við getum varðveitt tunguna. Ég held að það mætti gera einmitt með því að rannsaka umhverfið og aðferðir, fara í gegnum allan þann strúktúr og pakka sem er í kringum okkur, því að líkt og bent hefur verið á þurfa svo margir aðilar að koma að ef við ætlum að gera gangskör í þessu máli.

Ég velti því líka fyrir mér þegar ég hugsa til baka — það er kannski ekki við hæfi, ég veit það ekki — til sjónvarpslausu fimmtudagskvöldanna þegar maður las bækur vegna þess að það var ekkert annað að gera. Ég er kannski ekki að leggja til að farið verði aftur til baka til þeirra tíma, en mér finnst hins vegar mjög skemmtilegt að vita til þess að yngstu synir mínir liggja uppi í rúmi á kvöldin hjá móður sinni fyrir norðan og lesa bækur áður en þeir fara að sofa. Það er eitthvað sem ég held að hvetja ætti til, að foreldrar hvetji börn sín til að lesa meira, hvort sem það er gert á gamaldags pappír eða með nýjustu tækni eins og sumir þingmenn eru að gera einmitt núna.



[13:59]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka þátttakendum í þessari umræðu fyrir framlag sitt. Ég tel að framlagið og þessi umræða sýni að það er þörf á þessu, ég segi nú ekki einu sinni í mánuði eða einu sinni í viku en að minnsta kosti einu sinni á ári á þeim grunni sem löggjafinn hefur búið til með því að skipa Íslenskri málnefnd að semja þessa ályktun. Ég þakka líka fyrir mjög jákvæð viðbrögð við þessari tillögu minni um að þetta verði gert.

Kannski tvennt sem mér finnst hafa komið hér fram. Það er auðvitað þetta um skólann. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Þráni Bertelssyni — eða hvort það var hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir — að það þýðir ekki að æpa alltaf á skólann, hann kemur ekki í staðinn fyrir foreldra, og hjá Þráni, hann kemur ekki í staðinn fyrir umhverfið, það er rétt. Það er hins vegar þannig að við ráðum svolítið yfir skólunum en minna yfir umhverfinu og eiginlega ekkert yfir foreldrunum. Svo er það auðvitað líka þannig að skólinn á að vera útjafnarinn. Hann á að vera sá sem lyftir þeim sem verst standa, þeim sem koma frá erfiðustu heimilunum. Hann á að veita mönnum jöfn tækifæri til þátttöku í lífinu, börnunum og hinum fullorðnu.

Á hitt er svo bent og hafa ýmsir gert, Siv Friðleifsdóttir hv. þm. meðal annars, að það er komin ný tækni. Við stöndum auðvitað á ákveðnum þröskuldi nýrra tíma með rafbækurnar og lesbrettin. Ég held að það sé alveg klárt að sumum hentar það betur. Til dæmis hefur verið bent á að lesbrettin eða lestölvurnar geti nýst börnum sem eiga við lesblindu að stríða eða slíka erfiðleika, þannig að það er auðvitað mjög spennandi.

Ég þakka svo hæstv. menntamálaráðherra fyrir afskipti hennar af málinu hingað til og segi þetta: Mér skilst að námið sé 300 einingar eða hvað þetta heitir og 120 þeirra séu fráteknar fyrir sérfræðina, 120 fráteknar fyrir hina miklu aðferðafræði sem kennarar þurfa að kunna og þá eru 60 eftir fyrir íslensku og kannski fyrir stærðfræði líka. Þegar þetta mál vaktist upp fóru einmitt stærðfræðikennarar og stærðfræðiáhugamenn (Forseti hringir.) að benda á að það væri kannski svolítið líkt með þessum tveimur grunngreinum í kennaranáminu að hvort tveggja væri vanrækt (Forseti hringir.) íslenskan og stærðfræðin.



[14:01]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með öðrum og þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Mig langar að nefna nokkur atriði.

Í fyrsta lagi sjáum við jákvæða þróun í því að lesskilningur stefnir aftur upp á við. Þegar við horfum á þetta í lengri tíma samhengi erum við enn ekki búin að ná þeim árangri sem við hefðum viljað ná en við höfum farið talsvert upp á við ef við berum saman niðurstöður 2009 við árið 2000. Við skulum líka muna eftir því að það er auðvitað búið að vinna talsvert mikið þróunarstarf úti í skólasamfélaginu í lestrarkennslu og læsismálum. Það má ekki vanmeta það þó að við sjáum kannski ekki árangurinn af því strax. Mjög mikið af nýjungum er í gangi hvað varðar lestrarkennslu, til að mynda er verið að prófa núna tilraunakennslu með einmitt lesbrettum í grunnskólum til að sjá hvernig þau virka.

Ég hef hins vegar ákveðna trú á því sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir nefndi, að eitt eru tækin en síðan skiptir inntakið auðvitað máli, þ.e. að áfram séu búnar til skemmtilegar bækur og skemmtilegt lesefni fyrir börn og ungmenni þannig að þau hafi áhuga á að lesa. Við getum líka verið ánægð með það að við eigum marga góða höfunda.

Ég tek undir með henni þegar hún bendir á að barnabækur fá miklu minna vægi en svokallaðar fullorðinsbækur. Þeim er ekki hampað á sama hátt. Þær fá ekki Nóbelsverðlaun í bókmenntum og þær fá ekki Norðurlandaverðlaun í bókmenntum. Þetta er auðvitað athugunarefni þegar við veltum fyrir okkur stöðu þessara bóka sem skipta samt svo miklu máli ef við viljum horfa til læsis og lestrar barna og ungmenna því að þau hafa alltaf áhuga á góðum sögum. Þau fá kannski sögurnar með öðrum hætti núna en þau fengu þær, þau fá þær mun fremur í gegnum myndmál, kvikmyndir, sjónvarpsefni, en þau hafa áhuga á góðum sögum og þá skiptir máli að þau hafi aðgang að þeim.

Ég þakka fyrir umræðuna. Ég mun eins og ég sagði áðan funda á næstunni með forsvarsmönnum menntavísindasviðs og bera þeim tóninn héðan úr umræðunni, að það sé mikill áhugi á því hvernig við skipuleggjum þetta nám til framtíðar litið og að þar verði litið til málstefnunnar.