140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ályktun Íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar.

[13:42]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. frummælanda er þjóðtungan sameiginlegt mál landsmanna. Í íslenskri málstefnu stendur líka að stjórnvöld skuli tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum þjóðlífs. Allir sem búsettir eru hér á landi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi, svo sem nánar er mælt fyrir í sérlögum.

Hvernig ætlum við að ná slíkum árangri, virðulegi forseti? Við þurfum að mennta kennara, kennara sem geta örvað og hvatt leik-, grunn- og framhaldsskólanemendur í að lesa og öðlast skilning á því tungumáli sem við köllum íslensku. Við þurfum líka að styðja við innflytjendur og að móðurmálið þeirra verði virt vegna þess að með því styrkjum við þá í að læra íslensku og nota hana í samfélagi okkar.

Virðulegur forseti. Ég sagði við þyrftum kennara sem gætu vakið áhuga á íslensku máli, en menntun þeirra verður líka að vera með þeim hætti að þeir geti ræktað málið meðal nemenda sinna og með nemendum sínum. Menn verða að hafa í huga að íslenskan er ekki bara nauðsynlegt tæki til náms og tjáningar, hún er líka tæki til sköpunar og uppspretta mikillar ánægju.

Hæstv. ráðherra sagði að staða móðurmálskennslu í kennaranámi, t.d. á Norðurlöndum, væri misjöfn en hún er hvergi jafnrýr og á Íslandi. Því verður að breyta. En það verður hins vegar að fara fram af hálfu þeirra sem ráða, menntamálayfirvalda, háskólanna og þeirra sem standa að kennaramenntun í landinu, sérstök stefnumótun um kennaramenntunina. Hvernig viljum við hafa hana? Á hvað viljum við leggja áherslu? Við Íslendingar hljótum að leggja áherslu á tungumálið okkar, á íslenska þjóðtungu sem er uppspretta ánægju, gleði, lista og sköpunar.