141. löggjafarþing — 7. fundur
 20. september 2012.
sjúkratryggingar og lyfjalög, 1. umræða.
stjfrv., 145. mál. — Þskj. 145.

[11:58]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 45/2012, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, sem Alþingi samþykkti þann 1. júní sl. og taka eiga gildi þann 1. október nk.

Með þessu frumvarpi er lagt til að gildistöku laganna er varða greiðsluþátttöku lyfja og starfrækslu á miðlægum lyfjagreiðslugrunni verði frestað til 1. janúar 2013. Ekki er gert ráð fyrir að gildistöku annarra ákvæða laganna verði frestað og munu því ákvæði um breyttan tilgang lyfjagagnagrunns, embættis landlæknis og niðurfellingu á heimild til töku komugjalds á sjúkrahúsum taka gildi 1. október nk. eins og lögin gera ráð fyrir.

Í umræðu þingsins um frumvarpið í fyrravor komu fram áhyggjur af því að innleiðingartími laganna, og þá sérstaklega sá þáttur sem snýr að nýju greiðsluþátttökukerfi lyfja, yrði of skammur. Niðurstaða þeirrar umræðu var að meta þyrfti nú í september hvort nauðsynlegt væri að seinka gildistöku laganna. Um leið og lögin voru samþykkt hófst vinna innan ráðuneytisins við að undirbúa innleiðingu hins nýja greiðsluþátttökukerfis og var stýrihópur settur á laggirnar til að fylgja málinu eftir. Í hópnum eru fulltrúar frá embætti landlæknis, lyfjagreiðslunefnd, Lyfjastofnun, Sjúkratryggingum Íslands og velferðarráðuneytinu. Verkáætlanir hafa verið unnar af viðkomandi stofnunum og vinnuhópum á þeirra vegum.

Hér er um mjög viðamiklar breytingar að ræða með aðkomu margra aðila. Þörf er fyrir mikla forritunarvinnu í tölvukerfum apóteka og hjá Sjúkratryggingum Íslands auk þess sem búa þarf til nýjan greiðslugagnagrunn hjá Sjúkratryggingum. Enn fremur þarf að samþætta tölvukerfi apótekara, Sjúkratrygginga Íslands, embættis landlæknis og lyfjagreiðslunefndar.

Hjá Sjúkratryggingum starfa nú sex vinnuhópar að undirbúningi ákveðinna verkþátta málsins. Greiningar- og hönnunarvinna vegna tölvukerfis Sjúkratrygginga sem tengjast nýja lyfjagreiðsluþátttökukerfinu er í fullum gangi. Fyrir liggur að þær tæknilegu breytingar sem gera þarf á tölvukerfum vegna innleiðingar nýs greiðsluþátttökukerfis verða ekki tilbúnar á tilskildum tíma og því er nauðsynlegt að fresta gildistökunni til 1. janúar.

Í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum þann 1. júní sl. kemur fram að kostnaðarhlutfall vegna lyfja milli sjúklinga og hins opinbera helst óbreytt á milli ára. Nýju greiðsluþátttökukerfi lyfja er ekki ætlað að spara heldur er því ætlað að koma betur til móts við þá sem eru veikastir og þurfa mest á lyfjum að halda, auk þess sem því er ætlað að auka jöfnuð milli sjúklinga. Frestun á innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis mun því ekki hafa neinn kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.

Ég legg til að þetta mál verði sent til hv. velferðarnefndar til afgreiðslu og 2. umr.



[12:01]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. velferðarráðherra hvað hafi komið í ljós við frekari vinnslu málsins sem hefur tafið það svona. Það er nokkuð langt síðan frumvarpið sem varð að lögum í júní var lagt fram þannig að ráðuneytið hefur haft góðan tíma til að undirbúa þetta. Það sem ég vildi spyrja líka er hvort þá sé öruggt að greiðsluþátttökukerfið nái fram fyrir 1. janúar.

Þegar kerfið tekur til starfa fær eiginlega enginn greitt frá Sjúkratryggingum fyrsta kastið vegna þess að menn þurfa að safna upp í 12 mánaða bið. Ég spyr aftur þeirrar spurningar sem ég spurði í vor: Hvaða áhrif hefur það á ríkissjóð og hvaða áhrif hefur það á sjúklingana? Hafa verið gerðar einhverjar bráðabirgðaráðstafanir til að mæta því ef fólk sem hefur staðið í miklum kostnaði reglulega alla daga og fengið niðurgreiðslu, sérstaklega það fólk sem er mikið veikt og þarf mikið af lyfjum, lendir í því í janúar og fram í febrúar að borga lyfin sín að fullu? Hvernig ætla menn að ráða við það?

Hefur ráðuneytið ekki hugað að því að bæta öllum öðrum kostnaði heilbrigðiskerfisins inn í þetta kerfi eins og stefnt var að í annarri vinnu? Fólk sem hefur verið greiðslufrítt, krabbameinssjúklingar og aðrir, með lyf þarf allt í einu að fara að borga en borgar heilmikinn kostnað annars staðar fyrir skoðanir, myndatökur og því um líkt.



[12:03]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er spurt hvað hefur komið í ljós við innleiðinguna sem hefur tafið hana. Ég kom að því í ræðu minni, það er í rauninni innleiðing á öllu þessu kerfi í heild. Ég tilgreindi að það eru svo margir aðilar sem þurfa að koma að þessu, það þarf að breyta tölvukerfum o.fl. Ástæðan fyrir því að það var ekki búið var einfaldlega sú að menn vildu ekki fara í gang með viðamiklar breytingar fyrr en búið væri að samþykkja frumvarpið. Það tafðist þannig að menn gáfu sér að minnsta kosti sex mánaða innleiðingartíma. Það má kannski segja að það hafi verið mistök á sínum tíma að ákveða 1. október.

Varðandi það hvort kerfið náist örugglega fram fyrir 1. janúar nk., það er stefnt að því en það verður að skoðast í samráði við nefndina. Markmiðið er að standa við það.

Varðandi greiðslur í upphafi sem hv. þingmaður bendir réttilega á að sé meðal vandkvæða við að innleiða kerfið, þ.e. að fólk greiði upp í ákveðið mark, er það hluti af þeim lausnum sem verður að leita í samstarfi við apótek og aðra aðila með hvaða hætti hægt er að koma til móts við þessa einstaklinga þannig að þetta skelli ekki á með fullum þunga allt í einu. Þetta mun auðvitað hafa áhrif á útgjöld hjá ríkinu fyrsta kastið, það er augljóst.

Varðandi fjórða atriðið sem var annar heilbrigðiskostnaður deilum við þeirri skoðun að það er mikið hagsmunamál að ná utan um þann kostnað líka með svipuðum hætti og gert er í lyfjafrumvarpinu. Það er eitt af þeim verkefnum sem þarf að vinna að í beinu framhaldi.



[12:05]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fellst á þær skýringar hæstv. velferðarráðherra að verkið sé umfangsmikið og að vegna þess hve seint frumvarpið var samþykkt í sumar hafi sá tími styst sem menn höfðu til umráða. Menn hefðu kannski átt að hafa það í huga þegar málið var afgreitt og breyta dagsetningunni þá þegar.

Ég legg til við hv. velferðarnefnd sem fær þetta til umfjöllunar að skoða hvort ekki sé hægt að taka inn í myndina til bráðabirgða þau útgjöld sem fólk hefur til dæmis haft í nóvember og desember og láta það koma inn í kerfið þegar það fer í gang. Þetta verður mikið högg fyrir marga tryggða vegna þess að þeir borga fyrstu 40–50 þús. kr. að fullu. Ég held að það sé ekkert voðalega flókið að koma með slíkt. Það sem meira er, þetta mun létta á ríkissjóði, þetta verður mikill sparnaður hjá ríkissjóði í útgjöldum sem ekki er eðlilegt fyrsta kastið. Ég skora á hv. nefnd að skoða þetta.



[12:07]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tel eðlilegt að fallast á beiðni hæstv. velferðarráðherra og Sjúkratrygginga Íslands um þriggja mánaða frestun á gildistöku þeirra ákvæða þessara laga sem til Sjúkratrygginga heyra. Enda þótt málið hafi verið í undirbúningi í meira en tvö ár hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að það hafi ekki verið talið eðlilegt að hefjast handa við raunverulegan undirbúning fyrr en lögin höfðu verið samþykkt.

Í því sambandi vek ég athygli á því að þetta mál kom síðast fram í október 2011 og það var fyrirhuguð gildistaka 1. janúar 2012. Þegar frumvarpið var lagt fram fyrir tæpu ári var ekki reiknað með lengri undirbúningstíma og aldrei undan því kvartað fyrr en komið var að lokaafgreiðslu málsins í vor. Eins og hæstv. ráðherra nefndi kom fram að menn hjá Sjúkratryggingum töldu að þetta væri lítill tími allt í einu.

Gott og vel. Í þessu nýja kerfi lyfjaendurgreiðslu felst mikilvæg réttarbót og jöfnuður á margan hátt. Þess vegna er mjög mikilvægt að vel sé vandað til undirbúningsins og að Sjúkratryggingar fái tækifæri til að gera það.

Ég tel líka mikilvægt að önnur ákvæði í þessum lögum taki gildi á tilsettum tíma. Sérstaklega er mér umhugað um að ákvæðið um spítalaskattinn illræmda sem sett var í lög haustið 2007 verði úr gildi fellt þannig að það þurfi sjálfstæða ákvörðun í Alþingi til þess að taka upp slíka skattheimtu. Mér finnst brýnt að það ákvæði taki gildi og ekki síður tel ég mjög mikilvægt að strax um næstu mánaðamót fái bæði sjúklingar og læknar þeirra aðgang að lyfjagagnagrunni landlæknis. Það er gott til þess að vita að landlæknisembættið hefur notað tímann vel og náð að undirbúa breytingar á tölvukerfum sínum og öðru þannig að ákvæði um aðgang að þeim lyfjagagnagrunni geti hnökralaust tekið gildi um næstu mánaðamót. Þetta þýðir til að mynda að heimilislæknar geta fengið upplýsingar allt að þrjú ár aftur í tímann um það hvaða lyf menn hafa fengið hjá öðrum læknum sem getur skipt sköpum fyrir þá við ávísun lyfja og ekki síður, eins og ég sagði áðan, að sjúklingur getur haft aðgang að eigin upplýsingum í lyfjagagnagrunninum. Landlæknir mun setja verklagsreglur um hvernig að þessu verður staðið.

Þetta mál var eitt meginmála hv. velferðarnefndar á síðasta vetri. Það var unnið þar vel og vandlega og þó að ég eigi ekki lengur sæti í þeirri nefnd á ég ekki von á öðru en að nefndarmenn þar þekki málið vel svo það megi fara þar í gegn fyrir tilskilinn tíma.

Vegna orða hv. þm. Péturs Blöndals áðan um aðlögun að kerfinu var það skoðað ítarlega. Niðurstaðan varð sú að það væri mjög mikilvægt að hafa skýr skil. Hins vegar hefur ráðuneytið haft til athugunar hvernig hægt væri í samvinnu við apótekara að bregðast við því höggi sem hv. þingmaður nefndi að gæti skollið á þeim sem greiða fyrir lyfin, annars vegar að hámarki 44 þús. kr. á ári og hins vegar 66 þús. kr. á ári. Ég treysti ráðuneytinu og lyfjabúðunum til að útfæra það vel og eins þarf að breyta tilteknum reglugerðum um stuðning við einstaklinga vegna hás lyfjakostnaðar sem einnig hefur verið í undirbúningi í ráðuneytinu eftir því sem ég best veit.

Ég lýsi sem sagt eindregnum stuðningi við þetta frumvarp, frú forseti, og vona að það fari í gegn fyrir tilsettan tíma.



[12:12]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Hún er því miður allt of stutt og enginn nefndarmaður í velferðarnefnd við hana nema formaðurinn. Ég vona að formaður geti þá flutt umræðuna hér inn í nefndina. Til þess er umræðan að nefndarmenn geti kynnt sér þau mál sem um er að ræða.

Mér finnst þetta frumvarp og þessi lög bera vott um mjög slaka verkstjórn hjá hæstv. ríkisstjórn. Frumvarpið er lagt fram mjög snemma. Það er komið nærri heilt ár síðan það var lagt fram en það var svo ekki afgreitt fyrr en í júní. Það er ekkert yfirmáta flókið í sjálfu sér þannig að þetta eru ekki alveg nógu góð vinnubrögð, frú forseti.

Svo vildi ég bara hreinlega að frú forseti minnti nefndarmenn í viðkomandi nefndum á að vera við umræðuna. Mér finnst það eiginlega allt að því skylda þeirra. Það er reyndar skylda allra þingmanna að mæta á þingfundi en sérstaklega nefndarmanna þegar verið er að ræða mál sem er að fara til þeirra.

Það sem ég vildi ræða örstutt er þetta högg sem ég nefndi. Vissir aðilar, öryrkjar, aldraðir og aðrir, þurfa að borga 44 þús. kr. hámark á 12 mánuðum og það byrjar að tikka strax 1. janúar. Sjúklingar sem lenda í því að þurfa að taka lyf 2. janúar geta verið nýbúnir að standa í alls konar kostnaði í desember og í nóvember þess vegna. Kerfið í dag er alls ekki gott, það er mjög slæmt. Þetta er mikið til bóta en fyrsta kastið borga þeir í nóvember og desember helling samkvæmt gamla kerfinu hjá læknum og úti um allt. Síðan kemur þetta kerfi í gildi og þá þarf hann að borga að fullu upp að 44 þús kr., og þeir sem eru vinnandi upp að 66 þús. kr., ef lyfið er dýrt. Sum lyf eru fantadýr, frú forseti, og þetta finnst mér að nefndin þurfi að skoða og sjá hvort ekki sé hægt að milda þetta áfall fyrir sjúklinga.

Það sem mig langar til að ræða sérstaklega, frú forseti, er lítill áhugi hv. þingmanna á svona veigamiklu máli. Það er eiginlega dapurlegt, þetta er mjög stór hluti af velferðarkerfinu. Það má vel vera að núgildandi kerfi sé svo flókið að ekki nokkur maður skilji í því og enginn maður láti sér detta í hug að ræða það og halda að þetta sé svipað. Ég fer stundum til læknis og hingað og þangað í heilbrigðiskerfinu og ég borga þetta og hitt. Stundum spyr ég: Af hverju borga ég þetta en ekki eitthvað annað? Ég fæ aldrei svar vegna þess að kerfið er svo flókið.

Ég tel að þetta frumvarp og þessi lög sem við erum að ræða breytingu á séu mjög mikilvægur hluti af velferðarkerfinu og komi ekki síður en skattkerfið við alla borgara landsins meira og minna. Mér finnst að menn eigi að sýna því meiri áhuga en kemur fram í þingsalnum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.