141. löggjafarþing — 33. fundur.
sérstök umræða.

staða þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára.

[14:13]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Á undanförnum vikum hafa komið fram í fjölmiðlum þungar áhyggjur margra innan kirkjunnar vegna stöðu mála bæði hjá kirkjunni í heild og í söfnuðum landsins. Þingmenn hafa að sjálfsögðu fengið fjölmargar áskoranir og erindi varðandi þessi mál. Vakin hefur verið athygli á því hvernig stjórnvöld hafa gengið fram í skerðingu á sóknargjöldum og öðrum tekjustofnum þjóðkirkjunnar á undanförnum árum og öðrum afleiðingum þeirrar stefnu fyrir starfsemi kirkjunnar og raunar annarra trúfélaga líka, enda er staða þeirra hin sama að þessu leyti.

Öllum er ljóst að við Íslendingar höfum gengið í gegnum erfiðleika á undanförnum árum og ég fullyrði að skilningur á þeirri stöðu hefur verið mjög ríkur af hálfu kirkjunnar. Fullyrða má að kirkjan og söfnuðirnir hafa sýnt langlundargeð og brugðist við síendurteknum skerðingum með aðhaldsaðgerðum. Prestsembættum hefur fækkað, starfsfólki hefur fækkað, dregið hefur úr ýmsu safnaðarstarfi svo sem barna- og æskulýðsstarfi og starfi fyrir aldraða, tónlistarstarfi og fleiru. Viðhald kirkjubygginga hefur víða verið sett í bið og fleira verið gert til að draga úr kostnaði.

En einhvers staðar eru sársaukamörk í þessu sambandi. Ég hef skynjað það nú í haust, sérstaklega eftir að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar birtist, þá brast ákveðin stífla í þessu sambandi. Ákall þeirra sem starfa innan kirkjunnar, bæði lærðra og leikra, hefur verið mjög skýrt um að ríkið bæti úr, að á vegum þingsins verði bætt úr og að staðið verði við þá samninga sem í gildi eru milli ríkis og kirkju. Ég ætla að þessu sinni ekki að fjalla nánar um einstakar upphæðir í þessu sambandi, það bíður fjárlagaumræðu sem er skammt undan, en ég vil þó nefna við þetta tækifæri að innheimta sóknargjalda og úthlutun til sókna og trúfélaga er ekki sama eðlis og venjuleg skattheimta á vegum ríkisins eða venjuleg úthlutun fjármuna ríkisins á fjárlögum. Sögulegar rætur þessarar innheimtu og innheimtufyrirkomulags eru af allt öðrum toga og í dag byggja fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju á sérstöku samkomulagi frá 1997 sem byggði á niðurstöðum áralangrar vandaðrar vinnu.

Þær skerðingar sem við höfum séð á undanförnum árum ganga gegn þessu fyrirkomulagi, fyrirkomulagi sem allgott samkomulag hefur verið um um langt skeið. Ef útlit er fyrir að haldið verði áfram á sömu braut má spyrja um framtíð þess samkomulags sem raunar er formlegur samningur.

Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu má raunar sjá ákveðnar vangaveltur um þetta þar sem meðal annars er talað um endurskoðun samnings ríkis og kirkju frá 1997 og um breytingu á lögum um stöðu stjórnar og starfshætti kirkjunnar, án frekari skýringa. Það er einmitt á þeim forsendum sem ég vil nálgast umræðuna við hæstv. innanríkisráðherra. Mér finnast þær aðstæður sem uppi eru í þessum málum gefa tilefni til að spyrja ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér þróunina í samskiptum ríkis og kirkju á næstu árum. Það er eðlilegt að hæstv. innanríkisráðherra svari því hvort fyrirhugaðar séu breytingar á lagaumhverfi þjóðkirkjunnar og þá hverjar. Í tengslum við þetta og í framhaldi af ummælum í greinargerð með fjárlagafrumvarpi má líka spyrja hvort fyrirhugaðar séu breytingar á samkomulagi ríkis og kirkju frá 1957 og hvort einhverjar viðræður eigi sér stað um það. Að lokum spyr ég hvort og þá hvernig ráðherra hyggist bregðast við áhyggjum bæði lærðra og leikra af fjárhagsstöðu sókna og afleiðinga hennar fyrir safnaðarstarfið.



[14:17]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu málefni. Fyrstu tvær spurningarnar sem hann beinir til mín eru annars vegar hvernig ég sjái þróunina í samskiptum ríkis og kirkju á næstu árum og hins vegar hvort fyrirhugaðar séu breytingar á lagaumhverfi þjóðkirkjunnar og þá hverjar. Þessar tvær spurningar eiga það sammerkt að snúa að lögum sem um kirkjuna gilda. Seinni tvær spurningarnar snúast um fjárhagsleg málefni.

Því er til að svara varðandi lögin að við lítum svo á — ég held ég tali þar fyrir hönd Alþingis almennt — að kirkjan sé sjálfstæð og sjálfráð um sín innri málefni. Það var grundvallarforsendan og skilningurinn í samkomulaginu sem gert var árið 1997 og hv. þingmaður vísaði til.

Kirkjuþing vinnur nú að tillögugerð hvað þetta snertir og þegar tillögur þess liggja fyrir verða þær teknar til umfjöllunar í innanríkisráðuneytinu. Kirkjuþing er þó fyrst og fremst milligönguaðili sem kemur tillögum á framfæri við Alþingi sem síðan sest yfir þær. Ég held að skilningur okkar allra, hvað lögin áhrærir, sé að kirkjan sé sjálfráð um sín innri málefni.

Síðan er það fjárhagsþátturinn sem hv. þingmaður víkur að í tveimur síðustu spurningunum. Annars vegar vísar hann í samkomulagið frá 1997, hvort fyrirhugaðar séu breytingar á því, og hins vegar nefnir hann áhyggjur innan kirkjunnar af fjárhagsstöðu sókna og spyr hvaða afleiðingar skerðingar undangenginna ára hafi fyrir safnaðarstarf.

Þjóðkirkjan fær sem kunnugt er framlög á fjárlögum til að standa straum af rekstri sínum en þau fjárframlög eru í höfuðdráttum af tvennum toga. Í fyrsta lagi framlag til Biskupsstofu til að greiða laun tiltekins fjölda kirkjunnar þjóna og starfsmanna Biskupsstofu. Þetta framlag er bundið í lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, sem sett voru árið 1997, en það er jafnframt samningsbundið og byggt á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi frá sama ári. Með því samkomulagi afsalaði þjóðkirkjan til ríkisins eignum og eru greiðslur ríkisins hugsaðar sem arður af þeim eignum. Framlögin hafa að þessu leyti þá sérstöðu að þau eru ekki hugsuð sem framlög af skatttekjum heldur sem arður af þessum eignum. Það er hugsunin að baki greiðslunum.

Í öðru lagi á framlag á fjárlögum að standa straum af rekstrarkostnaði sókna þjóðkirkjunnar og kirkjuhúsanna. Þetta framlag er bundið í lög um sóknargjöld o.fl., frá árinu 1987. Samkvæmt eldri lögum um sama efni önnuðust sóknirnar sjálfar álagningu og innheimtu sóknargjaldsins en með gildandi lögum var sóknargjaldið, með samþykki kirkjunnar, umreiknað yfir í tiltekið hlutfall tekjuskatts, innheimt með honum og skilað til sóknanna með mánaðarlegum greiðslum.

Því hefur verið haldið fram að með þeirri breytingu sé nú sá eðlismunur á að ríkið innheimti ekki lengur sóknargjöld og framlagið til sóknanna sé eins og hvert annað framlag úr ríkissjóði, fjármagnað með almennri skattheimtu. Að mínum dómi er þetta misskilningur. Sóknargjaldið var alltaf hugsað sem gjald þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni til hennar fyrir félagsaðild, enda segir beinlínis í lögum um sóknargjöld o.fl., að gjöld sem innheimt eru samkvæmt þeim séu sóknargjöld. Þetta er sá skilningur sem ég hef á þeim málum.

Eftir hrun efnahagskerfisins árið 2008 hafa bæði þessi framlög til þjóðkirkjunnar verið skert. Framlögin sem byggja á kirkjujarðasamkomulaginu hafa verið skert með samkomulagi við þjóðkirkjuna og hefur kirkjuþing árlega samþykkt slíka skerðingu, enda sé hún, með leyfi forseta: „til samræmis við almennan niðurskurð á flestum sviðum ríkisins“, eins og segir í árlegum viðaukasamningi sem gerður er um niðurskurðinn.

Kirkjan hefur aldrei andmælt því að hún lúti sömu skerðingum og aðrir aðilar í þjóðfélaginu. Hún hefur aldrei gert ágreining um það. Hún hefur hins vegar viljað láta hið sama ganga yfir sig og aðra. Það sem gerðist með sóknargjöldin var að þau voru skert en síðan ekki verðbætt. Það er nokkuð sem kom fram í skýrslu sem ég lét gera í fyrra, í henni var sýnt fram á að sóknargjöldin höfðu sætt meiri skerðingu en gerðist almennt um stofnanir hins opinbera.

Síðan vil ég vekja athygli á því að (Forseti hringir.) hér er vísað í samninga og ef gera á breytingar á samningum hlýtur það að verða gert með samkomulagi og aðkomu beggja aðila.



[14:23]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Mig langar að byrja á því að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því í ríkisstjórn að sóknargjöldin verði verðbætt, eins og ég tel að hefði átt að gera. Ég held að færa megi mjög sterk rök fyrir því að með tilliti til sóknargjalda hafi þjóðkirkjan þurft að hlíta meiri niðurskurði en sambærilegar stofnanir sem heyra undir ráðuneytið.

Ég vil nota þetta tækifæri og fagna því að meiri hluti þjóðarinnar vill hafa ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskránni vegna þess að á undanförnum árum hefur þjóðkirkjan því miður þurft að þola óvægna umræðu að mínu mati og oft og tíðum ósanngjarna. En hún hefur staðið þetta af sér og stendur keik og meiri hluti þjóðarinnar vill að hún haldi áfram að sinna sínu samfélagslega hlutverki, sálgæslu og félagsstarfi. Þar vinnur fjöldi sjálfboðaliða mjög óeigingjarnt og mikilvægt samfélagslegt starf að mínu mati.

Það er líka ágætt að rifja upp að árið 2007 eða 2008 voru hér uppi tillögur í tíð stjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um að afnema hið kristilega siðgæði út úr markmiðskafla grunnskólalaga. Sem betur fer tókst okkur framsóknarmönnum og mörgum öðrum að hrinda því að þær hugmyndir yrðu að veruleika, en þær eru því miður til marks um það hvaða umræðu þjóðkirkjan hefur þurft að þola að undanförnu. Hún á erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér, en þrautseigjan hefur skilað árangri að mínu mati.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. innanríkisráðherra: (Forseti hringir.) Mun hann beita sér fyrir því að þjóðkirkjan njóti sannmælis varðandi sóknargjöldin og hafi sömu stöðu og aðrar stofnanir sem heyra undir innanríkisráðuneytið?



[14:25]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá var sérstaklega spurt um afstöðu almennings til þjóðkirkjunnar. Niðurstaðan var afgerandi. Íslendingar vilja þjóðkirkju. Þjóðkirkjan hefur veigamiklu hlutverki að gegna í samfélagi okkar. Hún ber lögbundnar skyldur, menningarlegar og félagslegar skyldur. Hún hefur verið það skjól sem þorri Íslendinga hefur leitað til í sorgum og gleði, jafnt í einkalífi sem og í þjóðlífinu sjálfu, ekki síst þegar áföll hafa dunið yfir þjóðina.

Síðustu ár hafa verið kirkjunni erfið í margvíslegum skilningi, meðal annars fjárhagslega. Líkt og aðrar stofnanir þjóðfélagsins hefur kirkjan tekist á við mikinn niðurskurð. Þegar grannt er skoðað virðist sá niðurskurður jafnvel umtalsvert meiri en öðrum stofnunum hefur verið ætlað og þetta þarf að skoða.

Megintekjustofnar þjóðkirkjunnar eru tveir. Annars vegar greiðsla fyrir eignir sem kirkjan afsalaði ríkissjóði 1997 og hins vegar skil á félagsgjaldi sem ríkið tók að sér að innheimta og var árið 1987 umreiknað í tiltekið hlutfall tekjuskatts. Í ljós hefur komið að frá og með fjárlögum 2009 hafa þessir tekjustofnar verið skertir umtalsvert. Að teknu tilliti til verðþróunar nemur skerðing sóknargjalda um 20% og við þetta bætist hagræðingarkrafan sem gerð er til allra stofnana samfélagsins, þar á meðal kirkjunnar, en einnig tilfinnanleg fækkun gjaldenda í sumum sóknum. Að sögn þeirra sem til þekkja er þetta nú þegar farið að hafa umtalsverð áhrif á grunnþjónustu kirkjunnar; helgihaldið, æskulýðsstarfið, sálgæsluna og líknarmálin.

Við svo búið má ekki standa því að meðan við höfum þjóðkirkju í landinu verðum við að búa svo að henni að hún geti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Andleg umönnun er alveg jafnmikilvæg á erfiðum tímum (Forseti hringir.) eins og hafa verið í þjóðlífi okkar og önnur umönnun, eins og segir á góðum stað: Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman.



[14:28]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um stöðu þjóðkirkjunnar, það er brýnt að koma að sjónarmiðum um það mál.

Að mínu mati og margra fleiri er ekki eðlilegt fyrirkomulag að hafa ríkiskirkju í nútímasamfélagi. Hvað ríkiskirkju varðar erum við þar í flokki með Bretlandi og Danmörku, svo ég nefni nágrannaríki okkar, og svo erum við í flokki með ríkjum íslams sem liggja meðfram Miðjarðarhafsströnd Norður-Afríku.

Það var naumur meiri hluti í atkvæðagreiðslunni 20. október, ekki afgerandi meiri hluti, fyrir því að áfram yrði ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá. Þeirri niðurstöðu ber að sjálfsögðu að fylgja. Það þarf þó að gera breytingar á núverandi ákvæði og taka inn vernd allra trúfélaga, ef menn vilja halda í trúarbrögð sem stjórnarskrármál á annað borð.

Það er líka brýnt að láta kirkjuna innheimta eigin sóknargjöld sjálf, á sama hátt og var gert með iðnaðarmálagjaldið fyrir tveimur árum, og eins og gert er með félagsgjöld í öðrum félögum, svo sem KR, Val eða Sjálfstæðisflokknum.

Það er sjálfsagt að ríkið veiti fé til kirkjugarða eða til greftrunarstaða fólks og einnig til viðhalds tiltekinna kirkna, til dæmis í samráði við húsafriðunarnefnd. Kirkjur eru sögulega séð mjög merkilegar byggingar hér á landi og má alls ekki láta þær verða fúa að bráð.

Frú forseti. Ríkiskirkja eins og við búum við í dag er úrelt fyrirkomulag og tímaskekkja. Fyrirkomulagið er hamlandi á störf kirkjunnar eins og við sem þekkjum kirkjustarf í öðrum löndum höfum séð. Í Bandaríkjunum til dæmis, þar sem er aðskilnaður ríkis og kirkju, er kirkjustarf gríðarlega líflegt og stór hluti af daglegu samfélagi.

Kristilegt siðgæði og kristileg hugsun stendur vel ein og sér og þarf ekki á ríkinu að halda nema síður sé eins og dæmin sanna. Við eigum að feta okkur yfir á þá braut, hægt og bítandi að sjálfsögðu, en við eigum að feta okkur þangað. (Forseti hringir.)



[14:30]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var vel til fundið hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að fara fram á þessa sérstöku umræðu. Hér er á ferðinni mikilvægt mál vegna þess að það starf sem er unnið innan vébanda þjóðkirkjunnar er bæði fjölbreytt, mikilvægt og snertir fjölda fólks. Það er ekki bara að starfið sé mikilvægt heldur snertir það líf þjóðarinnar í landinu oft og tíðum á mikilvægustu stundunum, þeim ánægjulegustu og þeim erfiðustu. Það skiptir máli að þjóðkirkjan hafi burði til þess að sinna sínu hlutverki.

Ég get því tekið undir með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni þegar hann varpar þeirri spurningu til hæstv. innanríkisráðherra hvort það standi til að bæta þjóðkirkjunni það sem augljóslega eru mistök, niðurskurðinn til kirkjunnar umfram þann niðurskurð sem gerður hefur verið á öðrum stofnunum í landinu. Það er mjög mikilvægt að fá á hreint að það sé vilji hæstv. ráðherra og að til standi að gera þetta.

Ég tek eftir því, virðulegi forseti, að í fjáraukalögum er ekki gert ráð fyrir slíkum útgjöldum. Það hefði verið tækifæri til þess. Ég vona að það myndist hér vilji til, og ég heyri ekki annað í umræðunni, að þegar fjárlög verða afgreidd verði þetta mál skoðað gaumgæfilega því að í fjölmörgum sóknum þessa lands er starfsemin komin undir brot og ekki hægt að sinna þeim verkefnum sem svo nauðsynlegt er að kirkjan sinni.



[14:32]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það sem við ræðum hér í dag er afleiðing efnahagshrunsins, þ.e. hvernig við brugðumst við því og hvaða áhrif það hafði á hina ýmsu þætti samfélagsins. Þar á meðal þjóðkirkjuna og framlög til hennar.

Ég get tekið undir það sem hefur komið fram að víða er unnið gott starf í kirkjum landsins og þær gegna mikilvægu hlutverki, ekki síst í dreifðum byggðum þar sem starfsemi af svipuðum toga er kannski ekki til staðar af hálfu sveitarfélaga. En það er líka víða annars staðar unnið gott starf. Það er unnið ágætisstarf í skólum landsins. Það er unnið ágætisstarf í heilbrigðiskerfinu, í velferðarkerfinu og á sjúkrahúsunum. Allt hefur það þurft að líða fyrir efnahagshrunið sem varð hér 2008 með ýmsum erfiðum og vondum afleiðingum.

Þjóðkirkjan naut þess í aðdraganda hrunsins sem aðrir nutu ekki, þ.e. aukinna framlaga umfram verðlagsþróun á sínum tíma, á árunum 1999–2008, nærri tvöfalt umfram verðlagsþróun. Það var aukning á sóknargjöldum á því tímabili. Það var ekki svoleiðis í framhaldsskólunum, svo dæmi sé tekið, þar sem jafnt og þétt var reytt úr fjárhirslum þeirra í aðdraganda hrunsins, sérstaklega þó síðustu tvö, þrjú árin.

Það var ekki heldur svoleiðis í velferðarkerfinu, ekki á sjúkrahúsunum. Það er spurning við hvaða tíma við eigum að miða þegar kallað er eftir leiðréttingu aftur í tímann. Á að miða við þegar allt hrundi í hausinn á okkur 2008? Eða eigum við að fara lengra aftur í tímann og taka mið af því þegar var farið að skera niður í öðrum þáttum samfélagsins? Þetta lýsir ágætlega þeirri forgangsröðun sem bæði stjórnvöld og Alþingi hafa haft við að byggja upp landið eftir hrun. Fjárlaganefnd greip til þess ráðs við fjárlög yfirstandandi árs og afgreiðslu þeirra í fyrra að leggja til breytingar til útgjaldaaukningar til þjóðkirkjunnar upp á hátt í 100 millj. kr. Það er ekki gert ráð fyrir frekari skerðingu í því frumvarpi sem við erum með nú til umfjöllunar fyrir næsta ár þannig að ég tel að þegar allt er til talið (Forseti hringir.) geti þjóðkirkjan vel við unað hvernig hún kom út úr hruninu miðað við margar aðrar mikilvægar stofnanir.



[14:35]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir þessa umræðu. Komið hafa fram mjög mikilvægar upplýsingar og ég vil vísa í það að þegar verið er að ræða um ákvæði þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá er í gildi stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland og þar er sagt að hér skuli vera þjóðkirkja. Öðru vinnum við ekki út frá nú þannig að allt tal um að breyta þjóðkirkjuákvæðinu gengur ekki upp. Við skulum halda okkur við staðreyndir og fara eftir stjórnarskrá sem er í gildi.

Hér er vísað til sérstaks samkomulags sem var gert milli ríkis og kirkju árið 1997 þar sem því ákvæði var komið inn að ríkið skyldi innheimta sóknargjöld. Við getum líkt því við virðisaukskattskerfið, það má segja að ríkið sé vörsluaðili fyrir sóknargjöld sem innheimt eru af kristnu fólki hér á landi. Það sem hefur hins vegar gerst undanfarin ár í þessum mikla niðurskurði er að ríkið sem vörsluaðili fyrir sóknargjöld hefur ekki skilað þeim til þjóðkirkjunnar. Það er alvarlegur hlutur, virðulegi forseti. Fróðir menn segja mér að sá hlutur sem ríkið heldur eftir af innheimtum sóknargjöldum sé tæpir 2 milljarðar. Það eru miklir fjármunir þegar á það er litið að ríkinu ber skylda til að skila þeim til þjóðkirkjunnar.

Samkvæmt lögum er bannað að innheimta skatt eða gjald af einstaklingum og nota það í aðra hluti. Þar með verð ég að vísa í það að sú ríkisstjórn sem nú starfar hefur farið sömu leið varðandi Ríkisútvarpið. Hún innheimtir nefskatt, skilar sumu af honum (Forseti hringir.) til Ríkisútvarpsins og notar restina í gæluverkefni. Ég gagnrýni þetta, virðulegi forseti, og hæstv. innanríkisráðherra verður að svara fyrir það hér.



[14:37]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin og þá sögulegu upprifjun sem hann fór með í máli sínu. Hún er mikilvæg til þess að skilja samhengi hlutanna og hvernig það fyrirkomulag sem samkomulag ríkis og kirkju byggir á er til komið.

Það er líka rétt sem fram kom í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Kjarninn í þessu, og það sem er kannski ósanngjarnast og alvarlegast, er að ríkið hefur innheimt tiltekin gjöld á tilteknum forsendum sem sóknargjöld en skilar ekki nema hluta af þeim til þess sem er hinn réttmæti eigandi. Það er alvarlegt. Það er, eins og hæstv. innanríkisráðherra benti, á ákveðinn munur annars vegar á þeim framlögum sem segja má að séu framlög ríkisins hvort sem það er kallaður arður af kirkjujörðum eða hvaða form sem því er valið og hvaða orð sem notuð eru um það. Það er munur á því og hins vegar sóknargjöldunum en það hefur auðvitað gerst ár eftir ár að ríkið hefur seilst ofan í vasa kirkjunnar, ef svo má segja, með því að halda eftir hluta af því gjaldi sem ríkið hefur innheimt fyrir hönd safnaðanna, sóknanna. Það er mikill munur á þessu tvennu og mikilvægt að hafa það í huga.

Ég vil ljúka þessari umræðu. Við munum auðvitað taka þá þætti fyrir sem snúa beint að fjárlögum þegar kemur að fjárlagaumræðu. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti verið aðeins nákvæmari með hvað hann á við þegar hann talar um framtíðarfyrirkomulag þessara mála og hugsanlegar breytingar í þeim efnum. Er von á breytingum á samkomulagi ríkis og kirkju? Er ráðuneytið að vinna að slíkum (Forseti hringir.) breytingum? Er ráðuneytið að undirbúa lagabreytingar? Mér finnst eðlilegt að hæstv. innanríkisráðherra sé aðeins skýrari hvað varðar þá þætti.



[14:40]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það hefur margt fróðlegt komið fram við þessa umræðu. Þannig vissi ég ekki fyrr en nú að Framsóknarflokkurinn hefði bjargað siðgæðinu þegar Samfylking og Sjálfstæðisflokkurinn höfðu ætlað að nema það brott úr lögum. (Gripið fram í: Alltaf gott að ... ) Alltaf gott að fá fram nýjar upplýsingar í sölum Alþingis.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson og frummælandi við þessa umræðu, Birgir Ármannsson, spyrja hvort til standi að bæta kirkjunni þá skerðingu sem hún hefur sætt. Þá legg ég áherslu á að (Gripið fram í.) eftir að — verðbætur. Reyndar skiptir máli hvaða hugtök við notum hér, vegna þess að þegar sóknargjöldin fara inn í nýjan farveg með lagabreytingu 1987 er hugsunin sú að þau verði uppfærð hverju sinni samkvæmt þróun tekjuskattstofns en ekki eftir verðbótum sem slíkum. Á undanförnum árum hafa staðið ákveðnar deilur um hvaða viðmiðunar eigi að horfa til þarna.

Síðan gerist það í hruninu að kirkjan sætir skerðingum eins og aðrar stofnanir og sóknargjöldin að sama skapi en sóknargjöldin njóta síðan ekki verðuppfærslu hvort sem það er samkvæmt verðbótum, vísitölu eða tekjuskattstofni sem hefur reyndar ekki orðið ofan á. Um það standa málin.

Varðandi kirkjujarðasamninginn frá 1997 er ríkið reiðubúið að setjast að samningaborði um að taka þann samning upp og ræða hann og við munum eiga viðræðufundi með kirkjunni um það efni. (Gripið fram í.) Við erum að ræða hvernig við ætlum að fara í þann farveg sem báðum aðilum hugnast. Við skulum ekki gleyma því að það sama á náttúrlega við um kirkjuna (Forseti hringir.) og aðrar stofnanir í samfélaginu, Landspítalann, heilbrigðisþjónustuna og skólana sem hafa orðið af peningum vegna hrunsins.

Spurningin er hins vegar sú (Forseti hringir.) á hvern hátt við færum þennan samning inn í framtíðina. Við erum tilbúin og opin fyrir því að setjast niður með kirkjunni (Forseti hringir.) með það fyrir augum að endurskoða þennan samning.