141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

staða þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára.

[14:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin og þá sögulegu upprifjun sem hann fór með í máli sínu. Hún er mikilvæg til þess að skilja samhengi hlutanna og hvernig það fyrirkomulag sem samkomulag ríkis og kirkju byggir á er til komið.

Það er líka rétt sem fram kom í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Kjarninn í þessu, og það sem er kannski ósanngjarnast og alvarlegast, er að ríkið hefur innheimt tiltekin gjöld á tilteknum forsendum sem sóknargjöld en skilar ekki nema hluta af þeim til þess sem er hinn réttmæti eigandi. Það er alvarlegt. Það er, eins og hæstv. innanríkisráðherra benti, á ákveðinn munur annars vegar á þeim framlögum sem segja má að séu framlög ríkisins hvort sem það er kallaður arður af kirkjujörðum eða hvaða form sem því er valið og hvaða orð sem notuð eru um það. Það er munur á því og hins vegar sóknargjöldunum en það hefur auðvitað gerst ár eftir ár að ríkið hefur seilst ofan í vasa kirkjunnar, ef svo má segja, með því að halda eftir hluta af því gjaldi sem ríkið hefur innheimt fyrir hönd safnaðanna, sóknanna. Það er mikill munur á þessu tvennu og mikilvægt að hafa það í huga.

Ég vil ljúka þessari umræðu. Við munum auðvitað taka þá þætti fyrir sem snúa beint að fjárlögum þegar kemur að fjárlagaumræðu. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti verið aðeins nákvæmari með hvað hann á við þegar hann talar um framtíðarfyrirkomulag þessara mála og hugsanlegar breytingar í þeim efnum. Er von á breytingum á samkomulagi ríkis og kirkju? Er ráðuneytið að vinna að slíkum (Forseti hringir.) breytingum? Er ráðuneytið að undirbúa lagabreytingar? Mér finnst eðlilegt að hæstv. innanríkisráðherra sé aðeins skýrari hvað varðar þá þætti.