141. löggjafarþing — 88. fundur
 26. feb. 2013.
hafnalög, 1. umræða.
stjfrv., 577. mál (ríkisstyrkir o.fl.). — Þskj. 982.

[23:32]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003, með síðari breytingum.

Frumvarpið er samið í innanríkisráðuneytinu og byggir á tillögum starfshóps sem ég skipaði til að endurskoða hafnalögin í þeim tilgangi að styrkja rekstrargrundvöll hafna og gera þeim kleift að aðlagast breyttri notkun.

Hafnir landsins búa sumar við bágan rekstrargrundvöll og starfa í þannig umhverfi að þær eiga erfitt með að bæta afkomu sína, þ.e. auka tekjur eða deila kostnaði af rekstri með því að finna samlegð með öðrum rekstri. Hafnarsjóðir eru jafnvel of margir og stundum of smáir til að geta staðið undir rekstri og nauðsynlegri fjárfestingu vegna viðhalds mannvirkja og uppbyggingu nýrra hafnarbakka. Erfitt er að sjá fyrir hvenær allir hafnarsjóðir verði færir um að standa undir nauðsynlegri fjárfestingu, en nú þarf að skapa hafnarsjóðum forsendur til að takast á við eðlilegan rekstur og nauðsynlegar fjárfestingar. Með aukinni sérhæfingu, raunhæfara mati á arðsemi nýframkvæmda og forgangsröðun verkefna innan stærri heildar standa efni til þess að fleiri hafnir geti ráðið við verkefni sín án stuðnings ríkissjóðs, eða að minnsta kosti með minni stuðningi en nú.

Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að bregðast við þeim fjárhagsvanda sem snýr að höfnum og styðja betur við endurnýjun hafnarmannvirkja, en einnig eru aðrar breytingar gerðar. Meðal þeirra er að bætt er við ákvæðum um neyðarhafnir og um heimild ríkissjóðs til að eiga og reka mannvirki vegna ferja. Þá er lagt til að höfnum verði veitt heimild til að synja skipi, kafbáti eða öðru fljótandi fari um aðgang að höfn ef það er knúið kjarnorku eða ber kjarnorku í farmi sínum.

Þær breytingar sem snúa að fjárhagsvanda hafna eru:

Í fyrsta lagi er lagt til að lögfest verði að íslenska ríkið geti verið eigandi hafnar. Byggist sú breyting fyrst og fremst á þeirri staðreynd að nú er íslenska ríkið eigandi einnar hafnar, Landeyjahafnar, og því eðlilegt að almenn hafnalög endurspegli þann veruleika. Lagt er þó til að eignarhlutur ríkisins takmarkist við hafnir sem sinna eingöngu samgöngum milli tveggja eða fleiri áfangastaða.

Í öðru lagi er lagt til að eigendur hafna geti gert með sér samning um samrekstur einstakra þátta í starfsemi hafna í stað þess að samstarfið taki til starfseminnar í heild sinni í formi hafnasamlags. Heimild til stofnunar hafnasamlags er þó enn fyrir hendi.

Í þriðja lagi er lagt til að hafnir geti innheimt önnur þjónustugjöld en þau sem falla undir 2.–10. tölulið 2. mgr. 17. gr. laganna. Markmið þessarar breytingar er að auðvelda höfnum að takast betur á við breyttar aðstæður í rekstri. Slík gjöld verða þó eftir sem áður að uppfylla kröfur 3. mgr. 17. gr. hafnalaga um að gjaldtakan taki mið af að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt sameiginlegum kostnaði eftir því sem við á.

Í fjórða lagi er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um þá hagsmuni og sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við tillögugerð og forgangsröðun framkvæmda í samgönguáætlun.

Loks er í fimmta lagi lagt til að ákvæðum hafnalaga um ríkisstyrki verði breytt í veigamiklum atriðum. Þau verkefni sem lagt er til að ríkissjóður geti styrkt eru flokkuð í fimm þætti:

a. Endurbygging og endurbætur á skjólgörðum og dýpkun þar sem reglulegrar viðhaldsdýpkunar er þörf. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs fyrir þessi verkefni verði allt að 75%.

b. Endurbygging og endurbætur á bryggjum og niðurrif hafnarmannvirkja sem þarf að fjarlægja vegna slysahættu sem af þeim starfar. Er lagt til að greiðsluþátttaka ríkissjóðs í þessum verkefnum verði allt að 60%.

c. Nýframkvæmd við bryggjugerð, skjólgarð og dýpkun í innsiglingu og innan hafnar. Stofnkostnaður við hafnsögubáta á stöðum þar sem aðstæður í höfn og nágrenni hennar kalla á slíkt öryggistæki og innsiglingamerki svo og löndunarkrana og hafnarvogir. Gera skal grein fyrir nauðsyn og arðsemi framkvæmdarinnar og liggja þarf fyrir staðfesting á að höfn hafi skilað jákvæðum rekstrarafgangi að teknu tilliti til vaxta. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs verði allt að 50%. Heimild þessi tekur þó ekki til framkvæmda í þágu einstakra fyrirtækja þar sem gerður er sérstakur afnotasamningur til lengri tíma.

d. Aðgerðir eiganda hafnar sem miða að því að hætta eða draga úr hefðbundnum hafnarrekstri. Lagt er til að greiðsluþátttaka ríkissjóðs geti samkvæmt sérstöku samkomulagi numið allt að 60% af neikvæðu eigin fé hafnar.

e. Aðgerðir hafnarsjóða vegna fyrirhugaðrar sameiningar. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs skal ákveðin með sérstöku samkomulagi milli viðkomandi hafnarsjóða annars vegar og ríkisins hins vegar.

Þá er lagt til að heimilt verði að veita viðbótarframlag úr ríkissjóði til lítilla hafnarsjóða, innan skilgreinds byggðasvæðis samkvæmt ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA, með tekjur undir 40 millj. kr. og þar sem verðmæti meðalafla síðustu ára eru undir 1.000 millj. kr. Viðbótarframlagið getur orðið allt að 15%.

Skilyrði fyrir úthlutun ríkisstyrkja verði þau að um sé að ræða framkvæmd sem hefur mikla þýðingu fyrir almannahagsmuni á viðkomandi stað, viðkomandi höfn þarf að hafa skilað jákvæðum rekstrarafgangi að teknu tilliti til vaxta eða hafa nýtt kosti sína til tekjuöflunar með eðlilegum hætti og framlag ríkissjóðs raskar ekki samkeppni milli hafna.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.



[23:38]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og einnig vil ég þakka honum fyrir það hvernig þetta frumvarp var unnið.

Sem gamall sveitarstjórnarmaður er ég með eina spurningu til hæstv. ráðherra. Hefur hæstv. ráðherra eitthvað á móti því að í meðförum nefndarinnar kæmi inn í frumvarpið að kaupandi afla innheimti svokallað aflagjald? Stendur höfn skil á því?



[23:39]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ekki gefa neinar skuldbindingar aðrar en þær sem er að finna í frumvarpinu. Nú fer frumvarpið til nefndar þingsins. Leitað verður eftir áliti þeirra sem hagsmuna hafa að gæta í tengslum við frumvarpið og eðlilegt að nefndin taki til greina þær athugasemdir sem henni þykja eðlilegar.

Ég vil taka fram að frumvarpið er unnið í mjög náinni samvinnu við fjölda aðila. Í smíðisferlinu komu ábendingar frá ýmsum aðilum, þar á meðal frá LÍÚ og Samtökum atvinnurekenda ef ég man rétt. Tillit var tekið til slíkra athugasemda. Mér finnst eðlilegt að haldið verði áfram á þeirri braut við vinnslu frumvarpsins í nefndinni sem fær málið til umfjöllunar, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.



[23:40]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Af einskærri umhyggju fyrir ríkissjóði vil ég spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Hvað þýðir það að samþykkja þetta frumvarp?

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins stendur um frumvarpið:

„Verði heimildirnar nýttar kann það að hafa í för með sér umtalsverð fjárútlát en það mun ráðast af ákvörðun Alþingis við fjárlagagerð hvers árs hvort og í hvaða mæli afgreiddar verða styrkveitingar til hafnargerðar.“

Hverju er verið að lofa? Hvað er verið að gera? Hvers lags véfréttastíll er þetta eiginlega? Kostar þetta ríkissjóð eitthvað? Kostar það ekki? Ef það kostar eitthvað, hvað mikið?



[23:40]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vitnaði réttilega í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem vakin er athygli á því að í þessu frumvarpi er að finna ýmis heimildarákvæði. Heimildirnar yrðu að sjálfsögðu ekki nýttar nema með samþykki Alþingis, fjárveitingavaldsins. Síðan mundi ráðast af því sem hér yrði ákveðið hver útgjöldin yrðu. Hér er fyrst og fremst verið að skapa rammann um hvað ríkissjóði væri heimilt að gera. Það er verið að reyna að skapa sanngjarnan ramma þar sem gætt er jafnræðis milli hafnanna og þar sem um er að ræða mismunun er hún sett í skipulegt form.

Síðan er bent á að með áherslu á aukinn sveigjanleika í samstarfi hafna, þá kunni hafnirnar að ná samlegðaráhrifum sem færi kostnað niður jafnvel þótt um sé að ræða auknar framkvæmdir. Samstarfið þarf ekki að fara inn í einhvern einsleitan farveg eins og verið hefur heldur er hægt að fara ýmsar millileiðir núna. Mér finnst liggja í augum uppi að það hlýtur að ráðast af getu ríkissjóðs á hverjum tíma og hver hugur manna er í þessum sal hver útgjöldin verða.



[23:42]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Svör hæstv. ráðherra voru í sama véfréttastíl og allt hitt. Það er verið að gefa væntingar um heimildir til þess að koma með ríkisstyrki í hitt og þetta, en svo er það væntanlega fjárlaganefnd komandi ára sem situr uppi með þann kaleik.

Ég legg nú til að sú nefnd sem fær frumvarpið til umsagnar vísi því áfram til fjárlaganefndar og óski eftir umsögn hennar, til að vita hvað stendur fyrir dyrum hjá hv. fjárlaganefnd á næsta kjörtímabili.



[23:43]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Mér finnst ekki fráleit hugmynd að málið fái umsögn fjárlaganefndar, en hins vegar finnst mér þetta afskaplega einfalt mál. Eru menn tilbúnir að fallast á þau heimildarákvæði sem er að finna í lögunum og á þann ramma sem verið er að setja fyrir hafnirnar í landinu? Ég vek athygli á því að fjölmargir aðilar hafa komið að smíði þessa frumvarps. Ég vil nefna samtök hafnanna, sveitarfélögin og ýmsa aðra hagsmunaaðila þannig að frumvarpið er ekki sprottið upp úr einhverju tómarúmi nema síður sé. Ég held ég geti fullyrt að um það er bærileg sátt. Síðan er það undir fjárveitingavaldinu komið hverju sinni hve miklir fjármunir eru látnir renna til hafnarframkvæmda í landinu. Mér finnst það liggja í augum uppi. Ég efast nú um að fjárlaganefnd, þó hún verði öll af vilja gerð, geti komið með einhver svör um framtíðarviljann í þeim efnum hér í þessum sal.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.