143. löggjafarþing — 40. fundur.
skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, 2. umræða.
stjfrv., 177. mál (skilyrði til greiðslu örorkulífeyris og fjárfestingarheimildir). — Þskj. 217, nál. m. brtt. 312, brtt. 338.

[12:02]
Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti við breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Frumvarpið fjallar um breytingu á skilyrðum til greiðslu örorkulífeyris og fjárfestingarheimildir. Frumvarpið sjálft er í þremur greinum fyrir utan gildistöku. Efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um frumvarpið eins og henni ber og fyrir nefndina komu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og Landssamtaka lífeyrissjóða. Svo komu umsagnir frá Viðskiptaráði Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Öryrkjabandalagi Íslands og Samtökum atvinnulífsins.

Nefndin hefur áður fjallað um efni frumvarpsins. Frumvarpsgreinar sama efnis var að finna í frumvarpi sem nefndin fékk til meðferðar á 142. löggjafarþingi, samanber þskj. 113 í 48. máli þingsins. Í það sinn þurfti nefndin meiri tíma til yfirferðar og lagði til að samþykkt tiltekinnar frumvarpsgreinar yrði frestað til næsta löggjafarþings. Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins og mæltu flestir með því að það yrði samþykkt.

Fyrir nefndinni kom fram að aðgengi manna að endurhæfingu er mjög mismunandi og því kynni sumum að reynast mjög erfitt að uppfylla skilyrði greinarinnar fyrir greiðslu örorkulífeyris. Bent var á að staða þeirra sem búa í dreifðari byggðum landsins verði stundum mjög erfið og óraunhæft væri að ætlast til þess að þeir sæktu nauðsynlega þjónustu um langan veg. Þá kom fram að staða innflytjenda væri oft erfið. Þeir ættu t.d. erfiðara með að nýta sér endurhæfingarúrræði eins og viðtalsmeðferðir vegna tungumálaörðugleika.

Að áliti nefndarinnar er rétt að bregðast við þessari stöðu. Af þeim sökum leggur nefndin til breytingu á 1. gr. frumvarpsins. Þannig verði aðeins heimilt að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem geti bætt heilsufar hans að þess sé gætt að slík endurhæfing standi honum til boða og aðstæður viðkomandi leyfi að hann nýti sér hana.

Þetta er breytingartillaga, hún er mjög einföld og bætist við 1. gr. frumvarpsins. 2. gr. fjallar um möguleika þeirra launagreiðenda sem eru með ábyrgð á sjóðum til að gera upp skuldbindingar við sjóðinn. 3. gr. er framlenging á heimild lífeyrissjóða til eignar hlutafjár í samlagshlutafélögum og kemur fram að sú heimild renni ekki út í árslok 2013 heldur 2014.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Vilhjálmur Bjarnason, framsögumaður, Pétur H. Blöndal, Árni Páll Árnason, með fyrirvara, Líneik Anna Sævarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara, og Guðmundur Steingrímsson.

Hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Steingrímur J. Sigfússon gera ekki grein fyrir fyrirvara sínum í nefndarálitinu, en kunna að gera það hér í umræðu á eftir.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.



[12:06]
Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Við þingmenn Pírata erum með breytingartillögu við þetta frumvarp sem hljóðar svo:

„1. Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Lífeyrissjóður er eign sjóðfélaga sinna. Innstæða eða réttindi samkvæmt samningi um tryggingavernd eru eign rétthafa.“

Þessi tillaga er í rauninni bara copy/paste, með leyfi forseta, af tillögu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur flutt tvisvar áður, ef ekki þrisvar sinnum. Það sem þetta mun líka þýða, svo ég haldi áfram, er að það verða sjóðfélagar sem kjósa stjórnir lífeyrissjóða, það verða sjóðfélagar sem kjósa þá sem fara með fé þeirra. Það eru grunnréttindi. Það er ótrúlegt að þetta skuli ekki vera þarna nú þegar sem segir okkur hve sterkir hagsmunir eru gegn þessu. Nokkrir lífeyrissjóðir hafa tekið þetta upp sjálfir, en flestir hafa annað fyrirkomulag. Flestir hafa það gamla fyrirkomulag að atvinnulífið, þeir sem standa fyrir hagsmunum atvinnulífsins annars vegar og þeir sem standa fyrir hagsmunum verkalýðsfélaganna hins vegar, ráði því hverjir stjórni sjóðum sem fara með fé sjóðfélaganna, sem fara með fé fólks sem er skyldað lögum samkvæmt að setja fé í lífeyrissjóði.

Þetta þarf að laga. Það mun breytast þegar fram í sækir. Fólk í dag sættir sig ekki við slíkt ólýðræðislegt fyrirkomulag lengur. Lýðræðiskrafan á eftir að aukast í samfélögunum vegna þess að fólk sem lifir á internetinu, fólk sem ver miklum tíma á internetinu, upplifir allt annars konar veruleika en fólk sem eyddi sínum frítíma fyrir framan sjónvarpið, þar sem það situr og tekur við völdum upplýsingum. Fólk í dag tekur þátt í afþreyingu sinni. Það tekur þátt í samfélagi sínu í miklu meira mæli en hefur verið hægt hingað til. Slíkt fólk krefst þess að fá að taka þátt á fleiri sviðum samfélagsins. Sú krafa er ekkert að fara. Þetta er undiralda sem á eftir að vaxa. Á endanum verður því tillagan, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt fram í tví- eða þrígang, samþykkt.

Við setjum þetta hérna inn sem breytingartillögu og vonum að það verði klárað, að þessi grundvallarlýðræðisréttindi verði afgreidd og sjóðfélagar fái að kjósa stjórnir í sínum sjóðum, stjórnir sem síðan ráða framkvæmdastjóra og í rauninni stjórna því hvernig farið er með fé sjóðfélaga.



[12:10]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég rita undir nefndarálitið með fyrirvara og ætla aðeins að gera grein fyrir því að hverju hann snýr. Hann snýr í raun að 1. gr. frumvarpsins og því að gera það að almennum rétti lífeyrissjóðanna sem bundið hefur verið við aðeins hluta þeirra fram að þessu, að heimilt sé að gera það að skilyrði að fengnu áliti trúnaðarlæknis lífeyrissjóðs fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem geti bætt heilsufar hans. Við skiljum, held ég, öll hugsunina sem að baki liggur, þetta er vel meint en menn hafa haft áhyggjur af því hvernig þetta yrði framkvæmt. Því var það vel að efnahags- og viðskiptanefnd færi vel ofan í saumana á þessum þætti málsins og brást við athugasemdum um málið með sérstakri breytingartillögu eins og framsögumaður gerði grein fyrir. Ég tel í raun og veru að með því sé komið mjög vel til móts við þær áhyggjur eða þau sjónarmið sem til að mynda Öryrkjabandalag Íslands sendi nefndinni í umsögn sinni. Að því tilskildu að þannig sé í framhaldinu staðið að framkvæmdinni að að þessum sjónarmiðum sé gætt get ég vel fellt mig við að löggjöfin verði svona úr garði gerð.

Kosturinn við breytinguna er að þetta er ekki jafn einhliða réttur lífeyrissjóðanna og að óbreyttu hefði verið, þ.e. að sjóðfélaginn sem í hlut á eigi ákveðið skjól í lagaákvæði, að skylt sé að gæta að aðstæðum hans áður en þetta skilyrði er virkjað gagnvart honum. Framsögumaður fór hér yfir það hverjir í hlut gætu átt, svo sem eins og íbúar í dreifðum byggðum þar sem ekki er mikið framboð af slíkri endurhæfingu. Það gæti kostað ferðalög og fyrirhöfn að sækja sér hana. Einnig nefndi hann t.d. innflytjendur. Það má jafnvel bæta við vissum hópum þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða, það getur verið meira en að segja það í slíkum tilvikum að gera það að skilyrði að viðkomandi fari í endurhæfingu sem getur verið honum örðug vegna aðstæðna hans, búsetu eða félagslegra eða persónulegra aðstæðna.

Ég er mjög ánægður með breytingarnar og þá góðu samstöðu sem tókst í nefndinni um að gera þessar lagfæringar á málinu. Ég geri hvorki athugasemdir við 2. né 3. gr. frumvarpsins, þ.e. að lífeyrissjóðum sé heimilt að taka við skuldabréfum þó að þau séu ekki skráð á skipulögðum markaði ef launagreiðandi vill greiða inn á skuldbindingar sínar með slíkum bréfum. Það er að sjálfsögðu í höndum lífeyrissjóðanna að meta af viðtöku þeirra en ekki lagðar á það neinar kvaðir ef sjóðirnir svo meta að þeir vilji taka þau bréf til tryggingar greiðslum.

Eins er um framlengingu ákvæðanna í 3. gr. sem eðlilegt er að framlengja við núverandi aðstæður. Það minnir á það að alllengi hefur verið í gangi vinna við að endurskoða fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og takmarkanir eða ákvæði sem um það gilda í lögum. Það væri ákaflega æskilegt að mínu mati að fara að sjá fyrir endann á þeirri endurskoðun og fá inn tillögur um heildstætt fyrirkomulag þeirra mála. Það er varla vansalaust hvað það hefur dregist. Augljóst er að þessi mál eru á margan hátt í allt annarri stöðu nú í hagkerfinu eins og þar er um hnúta búið með fjármagnstakmörkunum og kannski takmörkuðum fjárfestingarkostum. Þess vegna hefði verið gott að þessari endurskoðun væri lokið þannig að fyrir lægi hvaða svigrúm lífeyrissjóðirnir fá, hvað þeim verður heimilt og hvað ekki miðað við takmarkanir löggjafans. Auðvitað er mikilvægt að fé lífeyrissjóðanna nýtist í hagkerfinu og það ávaxtist, geri gagn, ef svo má að orði komast. Það er vel líklegt að einhverjar breytingar aðrar og meiri en þær takmörkuðu sem menn hafa gert til bráðabirgða undanfarin missiri gætu þurft að koma til og hefur ýmislegt verið nefnt í þeim efnum eins og kunnugt er.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar.

Varðandi breytingartillögur frá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni og fleirum er ég almennt sammála því að ástæða sé til að virkja betur til þátttöku og gæslu lífeyrissjóðanna sjóðfélagana. En hafa verður í huga hvernig þetta fyrirkomulag er til komið, það á sér sínar sögulegu rætur að aðilar vinnumarkaðarins hafa alltaf lagt áherslu á sinn þátt í því að koma þessu kerfi af stað með samningum sín í milli og á hinum almenna vinnumarkaði og tekið það hlutverk sitt alvarlega að þeir séu sérstakir gæslumenn lífeyrissjóðakerfisins. Það er auðvitað ákaflega mikilvægt að lífeyrissjóðirnir njóti jafnframt trausts og trúnaðar sjóðfélaga sinna, eigendanna.

Þess vegna hefði ég talið að það væri skynsamlegt hjá lífeyrissjóðunum og æskilegast að þeir hefðu sem mest sjálfir haft frumkvæði að því að breyta samþykktum sínum og opna stjórnir og starfsemi sjóðanna meira fyrir beinni þátttöku sjóðfélaga. Ég hef hvatt þá til þess á þeim vettvangi þegar ég hef verið gestur þeirra á umliðnum árum. Einhverjir þeirra hafa, eins og hv. þm. Jón Þór Ólafsson nefndi, að eigin frumkvæði farið í þessa átt. Hins vegar er það nú ekki alveg vandalaust fyrir löggjafann að mínu mati að kveða einhliða upp úr um þetta fyrirkomulag án samráðs við starfandi lífeyrissjóði í landinu og langæskilegast væri að slíkt væri gert í góðu samkomulagi þannig að ég vil eftir sem áður hafa fyrirvara á um liðsinni við þessa breytingartillögu eins og hún er hér útfærð þó að ég deili að mörgu leyti þeim sjónarmiðum sem hún er sprottin úr.



[12:17]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. 1. gr. frumvarpsins sem við ræðum hér fjallar um það að heimilt sé að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris úr lífeyrissjóði að sjóðfélagi fari í endurhæfingu. Á þessu er þó einn agnúi, frú forseti, við erum enn þá með örorkumat sem gildir þannig að maður sem nær 75% örorkumati fær fullan örorkulífeyri úr almannatryggingum, það er reyndar harðara skilyrði hjá lífeyrissjóðum, þar þurfa menn að fara allt niður í 40%. Það sem vantar er starfsgetumat. Það er í vinnslu í nefnd sem ég stýri og ég vona fyrir hönd öryrkja þessa lands að það náist sem fyrst fram vegna þess að núverandi kerfi gerir það að verkum að illmögulegt er að endurhæfa fólk. Maður sem er 75% öryrki, er á bótum hjá Tryggingastofnun og endurhæfist missir nánast allar bætur ef hann er metinn 74% öryrki. Það er ekki líðandi staða.

Varðandi þá breytingartillögu sem hér er flutt af hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni og fleirum þá eru þetta, eins og kom fram í ræðu hans, mínar hugmyndir. Ég hlýt að styðja þær. En árið 1974, frú forseti, setti löggjafinn í lög að öllum launþegum væri rétt og skylt að greiða í lífeyrissjóð viðkomandi starfshóps eða starfsstéttar. Punktur. Ekki orð meir. Það var árið 1974 sem var sett í lög að allir skyldu greiða í viðkomandi lífeyrissjóð. Forsaga þess var að upp úr samningunum 1969 var stofnaður fjöldi lífeyrissjóða en þátttaka í þeim var ekki eins og menn höfðu vænst. Þá var löggjafinn fenginn til þess að setja lög um að skylda alla landsmenn til að borga í lífeyrissjóði 10% af launum sínum, launþegar 4% og atvinnurekendur 6%, sem síðan hefur verið hækkað í 12%. Löggjafinn setur sem sagt þá skyldu á herðar fyrirtækja að greiða í lífeyrissjóð 12% af launum allra landsmanna eins og þau eru nú.

Þarna hafa safnast upp miklir peningar. Ef þeim væri dreift á heimili landsins væru þetta að meðaltali 20 milljónir á hvert einasta heimili í landinu. Þetta eru miklu stærri fjárhagslegir hagsmunir en af íbúðareign eða bílaeign eða nokkurri annarri eign sem sjóðfélaginn á. Fólk er yfirleitt ekki meðvitað um þessa eign. Heimilin eru ekki meðvituð um þá miklu eign sem þau eiga hjá lífeyrissjóðunum, enda fá menn ekkert um það neins staðar hvað þeir eiga, hver og einn. En á hverju einasta ári reikna tryggingafræðingar út hve mikils virði réttindi hvers og eins eru. Það er í lófa lagið að birta það.

Þegar maður hættir hjá fyrirtæki helst eignin hans eingöngu hjá honum. Atvinnurekandinn á ekkert í þeim réttindum sem maðurinn hefur safnað eða hefur verið safnað fyrir hann, þess vegna er eðlileg 1. gr. breytingartillögunnar og sem ég tel mjög brýna, um að lífeyrissjóður sé eign sjóðfélaga sinna. Maður spyr: Hvers annars ef ekki sjóðfélaganna?

Í breytingartillögunni eru nokkur önnur atriði og það veigamesta er b-liður 2. gr. þar sem segir að félagsfundur fari með æðsta vald í málefnum lífeyrissjóðs og þar verði stjórnin lýðræðislega kjörin. Þetta mundi hafa gífurlega mikil áhrif á stjórnir lífeyrissjóðanna. Sjóðfélagar bæru þá meiri ábyrgð á því hvernig fjármagni er ráðstafað og þyrftu að vanda sig mjög vel í vali á þeim mönnum sem kjörnir eru til stjórnar og yrðu að vera mjög vakandi yfir þeirri miklu eign sem þeir eiga í lífeyrissjóðunum. Þannig að ég er hlynntur þessari breytingu. Hins vegar er slæmt ef hún fer í gegn án umræðu. Þess vegna legg ég til að á milli umræðna verði hún send til nefndar aftur og þar verði fengnir gestir til að fara í gegnum þetta. Þó að skammur tími sé til stefnu og búið sé að gera samkomulag um þinglok vonast ég til að þetta náist samt í gegn. Þessu vildi ég koma að varðandi þetta atriði.

Svo er það 2. gr. frumvarpsins sjálfs, um að launagreiðandi greiði inn á skuldbindingu sína. Ég spurði að því aftur og aftur hvort þetta breytti einhverju um ábyrgð launagreiðanda því þetta er launakrafa og nýtur þá forgangs í bú. Mér var sagt að svo væri ekki. Það leiðir hugann að því að árið 2024 eða 2025 fara að falla til gífurlegar skuldbindingar hjá B-deild LSR, 20–30 milljarðar á ári hverju — 20–30 milljarðar. Þá verður ekki lengur hjá því vikist að fara að taka á þeim vanda. Menn hafa frestað honum en ekki horfst í augu við hann. Það er ekki búið að færa hann í fjárlög eða neitt. Þarna eru 400 milljarðar í skuld.



[12:23]
Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að tjá mig efnislega um breytingartillögu hv. þingmanna Jóns Þórs Ólafssonar, Birgittu Jónsdóttur og Helga Hrafns Gunnarssonar, en hér er um verulega breytingu að ræða á löggjöf um lífeyrissjóði. Ég tel rétt og eðlilegt sem framsögumaður í þessu máli að efnahags- og viðskiptanefnd fjalli um frumvarpið eins og það liggur fyrir og breytingartillöguna á milli umræðna þannig að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.