143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

177. mál
[12:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. 1. gr. frumvarpsins sem við ræðum hér fjallar um það að heimilt sé að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris úr lífeyrissjóði að sjóðfélagi fari í endurhæfingu. Á þessu er þó einn agnúi, frú forseti, við erum enn þá með örorkumat sem gildir þannig að maður sem nær 75% örorkumati fær fullan örorkulífeyri úr almannatryggingum, það er reyndar harðara skilyrði hjá lífeyrissjóðum, þar þurfa menn að fara allt niður í 40%. Það sem vantar er starfsgetumat. Það er í vinnslu í nefnd sem ég stýri og ég vona fyrir hönd öryrkja þessa lands að það náist sem fyrst fram vegna þess að núverandi kerfi gerir það að verkum að illmögulegt er að endurhæfa fólk. Maður sem er 75% öryrki, er á bótum hjá Tryggingastofnun og endurhæfist missir nánast allar bætur ef hann er metinn 74% öryrki. Það er ekki líðandi staða.

Varðandi þá breytingartillögu sem hér er flutt af hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni og fleirum þá eru þetta, eins og kom fram í ræðu hans, mínar hugmyndir. Ég hlýt að styðja þær. En árið 1974, frú forseti, setti löggjafinn í lög að öllum launþegum væri rétt og skylt að greiða í lífeyrissjóð viðkomandi starfshóps eða starfsstéttar. Punktur. Ekki orð meir. Það var árið 1974 sem var sett í lög að allir skyldu greiða í viðkomandi lífeyrissjóð. Forsaga þess var að upp úr samningunum 1969 var stofnaður fjöldi lífeyrissjóða en þátttaka í þeim var ekki eins og menn höfðu vænst. Þá var löggjafinn fenginn til þess að setja lög um að skylda alla landsmenn til að borga í lífeyrissjóði 10% af launum sínum, launþegar 4% og atvinnurekendur 6%, sem síðan hefur verið hækkað í 12%. Löggjafinn setur sem sagt þá skyldu á herðar fyrirtækja að greiða í lífeyrissjóð 12% af launum allra landsmanna eins og þau eru nú.

Þarna hafa safnast upp miklir peningar. Ef þeim væri dreift á heimili landsins væru þetta að meðaltali 20 milljónir á hvert einasta heimili í landinu. Þetta eru miklu stærri fjárhagslegir hagsmunir en af íbúðareign eða bílaeign eða nokkurri annarri eign sem sjóðfélaginn á. Fólk er yfirleitt ekki meðvitað um þessa eign. Heimilin eru ekki meðvituð um þá miklu eign sem þau eiga hjá lífeyrissjóðunum, enda fá menn ekkert um það neins staðar hvað þeir eiga, hver og einn. En á hverju einasta ári reikna tryggingafræðingar út hve mikils virði réttindi hvers og eins eru. Það er í lófa lagið að birta það.

Þegar maður hættir hjá fyrirtæki helst eignin hans eingöngu hjá honum. Atvinnurekandinn á ekkert í þeim réttindum sem maðurinn hefur safnað eða hefur verið safnað fyrir hann, þess vegna er eðlileg 1. gr. breytingartillögunnar og sem ég tel mjög brýna, um að lífeyrissjóður sé eign sjóðfélaga sinna. Maður spyr: Hvers annars ef ekki sjóðfélaganna?

Í breytingartillögunni eru nokkur önnur atriði og það veigamesta er b-liður 2. gr. þar sem segir að félagsfundur fari með æðsta vald í málefnum lífeyrissjóðs og þar verði stjórnin lýðræðislega kjörin. Þetta mundi hafa gífurlega mikil áhrif á stjórnir lífeyrissjóðanna. Sjóðfélagar bæru þá meiri ábyrgð á því hvernig fjármagni er ráðstafað og þyrftu að vanda sig mjög vel í vali á þeim mönnum sem kjörnir eru til stjórnar og yrðu að vera mjög vakandi yfir þeirri miklu eign sem þeir eiga í lífeyrissjóðunum. Þannig að ég er hlynntur þessari breytingu. Hins vegar er slæmt ef hún fer í gegn án umræðu. Þess vegna legg ég til að á milli umræðna verði hún send til nefndar aftur og þar verði fengnir gestir til að fara í gegnum þetta. Þó að skammur tími sé til stefnu og búið sé að gera samkomulag um þinglok vonast ég til að þetta náist samt í gegn. Þessu vildi ég koma að varðandi þetta atriði.

Svo er það 2. gr. frumvarpsins sjálfs, um að launagreiðandi greiði inn á skuldbindingu sína. Ég spurði að því aftur og aftur hvort þetta breytti einhverju um ábyrgð launagreiðanda því þetta er launakrafa og nýtur þá forgangs í bú. Mér var sagt að svo væri ekki. Það leiðir hugann að því að árið 2024 eða 2025 fara að falla til gífurlegar skuldbindingar hjá B-deild LSR, 20–30 milljarðar á ári hverju — 20–30 milljarðar. Þá verður ekki lengur hjá því vikist að fara að taka á þeim vanda. Menn hafa frestað honum en ekki horfst í augu við hann. Það er ekki búið að færa hann í fjárlög eða neitt. Þarna eru 400 milljarðar í skuld.