144. löggjafarþing — 20. fundur
 16. október 2014.
um fundarstjórn.

viðvera heilbrigðisráðherra í umræðu um sölu áfengis.

[16:27]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég geng út frá því að áfengisfrumvarpið sé næst á dagskránni. Svo mun vera. Ég spyr: Hvert er gildi 1. umr. um þingmál? Það er fólgið í því að þingmönnum gefst þá tækifæri til að viðra almenn sjónarmið sem tengjast þingmálinu og kalla fram sjónarmið annarra þingmanna og ríkisstjórnar þess vegna.

Í þessu tilviki hefur verið kallað sérstaklega eftir því að við fáum viðræðu við hæstv. heilbrigðisráðherra um þetta tiltekna mál áður en það fer til þingnefndar þannig að hann geri opinberlega grein fyrir sjónarmiðum sínum.

Hann hefur undirritað plagg sem hann hefur birt á vef Stjórnarráðsins þar sem fram kemur að þetta frumvarp stríði gegn þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa markað. Við viljum fá að heyra (Forseti hringir.) áður en málið fer til þingnefndar hver sjónarmið hæstv. ráðherra eru. Ég furða mig á því að þingið og stjórn þingsins skuli setja þetta mál á dagskrá (Forseti hringir.) án þess að hæstv. heilbrigðisráðherra sé hér til staðar.



[16:29]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði bara að taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni hvað varðar viðveru hæstv. ráðherra í þessu efni. Það segi ég þrátt fyrir að vera ósammála hv. þingmanni um efni frumvarpsins sjálfs. Mér finnst þetta vera mikilvægt umræðuefni og mér finnst mikilvægt að við höldum öllum sjónarmiðum til haga og að umræðan eigi sér stað frá öllum sjónarhornum. Mér finnst mjög eðlilegt að hæstv. ráðherra sé hérna til að ræða þetta við okkur.

Ég ítreka að þetta segi ég þótt ég sé ósammála hv. þingmanni um efni frumvarpsins sjálfs.



[16:29]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek einnig undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Ég er mjög hissa á því að hæstv. forseti skuli setja málið á dagskrá eftir ítrekaðar beiðnir og óskir frá hv. þingmönnum um einmitt það að þegar þunginn í umræðunni fari fram verði hæstv. heilbrigðisráðherra viðstaddur.

Hæstv. heilbrigðisráðherra er ekki hér og enn eigum við að fara af stað með umræðu. Ég á eftir að halda mína fyrstu ræðu um málið og ég tel það eðlilega kröfu að hæstv. heilbrigðisráðherra verði hér í salnum og hlusti á það sem ég hef að segja og komi í andsvör við mig og ræði þessi mál út frá lýðheilsusjónarmiði enda er það stærsta sjónarmiðið sem horfa þarf á í þessu máli.



[16:31]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað og lýsa því nú yfir að ég held að þetta sé í fjórða sinn sem við óskum eftir nærveru hæstv. heilbrigðisráðherra. Það þarf að koma fram ef hann ætlar sér ekki að sitja þessa umræðu. Það er búið að biðja mikið og ítrekað um það og er mjög óeðlilegt ef hann telur ekki þörf á því að sitja hér og hlusta á sjónarmið þingmanna og svara þeim sem hafa áhyggjur af ákveðnu efni tengdu lýðheilsumálum. Okkur þykir mjög sérkennilegt ef hann hefur ekki vilja til þess.

Ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann upplýsi það hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hyggist koma í hús og eiga samtal við okkur þingmenn.



[16:32]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og í gær tek ég undir þær óskir sem hér hafa verið bornar fram um að þessi umræða fari ekki fram síendurtekið að hæstv. heilbrigðisráðherra fjarstöddum.

Ég vek athygli á því að þessi umræða hefur nú staðið í átta klukkustundir og gott betur, einhverjum mínútum betur. Sú umræða hefur farið fram hér í fjórum lotum og er nú að hefjast í fimmta sinn. Í öll skiptin hefur verið kallað eftir nærveru hæstv. heilbrigðisráðherra. Hvers vegna? Vegna þess að við erum að ræða um að auka gríðarlega álag og byrðar á þau málefni sem hann er ábyrgur fyrir hjá framkvæmdarvaldinu í þessari ríkisstjórn, þ.e. heilbrigðismál þjóðarinnar, heilbrigðisstofnanir og lýðheilsu.

Ég tek undir spurninguna sem kom hér áðan: Hvenær er hæstv. (Forseti hringir.) heilbrigðisráðherra væntanlegur í hús, herra forseti?



[16:33]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég minni á og ítreka að þessi ósk er ekki nýframkomin við umræðu hér, bæði í gær þegar ég var á forsetastóli og einhverjum dögum áður settu þingmenn fram þá ósk að hæstv. heilbrigðisráðherra kæmi til umræðunnar svo að hægt væri að eiga orðastað við hann um þá þætti þessa máls sem að honum snúa og eru stórir.

Mér finnst þetta málefnaleg og sanngjörn krafa. Það er nokkur vandi á höndum að keyra umræður áfram um þetta mál dag eftir dag án þess að tryggja að aðstæður séu til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra sé viðstaddur eða komi að minnsta kosti og sé við einhvern hluta umræðunnar. Reyndar finnst mér að bæði hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. velferðarráðherra ættu að blanda sér í þessar umræður þannig að við gætum rætt við þau um það sem að þeim snýr í þessum efnum.

Ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra hafði ekki aðstöðu til þess að vera við umræðuna í gær þar sem hann var erlendis, en þá sýnist mér einboðið að halda ekki áfram þessari umræðu fyrr en ráðherra er kominn til landsins og getur verið viðstaddur.



[16:34]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og hér kom fram mun hæstv. heilbrigðisráðherra hafa verið staddur erlendis í gær og eftir því sem ég best veit er hann ekki enn kominn til landsins. Þess vegna sætir furðu í mínum huga að þetta mál skuli hafa verið sett á dagskrá núna eftir að fram hafa komið óskir um að ráðherra verði hér viðstaddur. Tvívegis hefur það verið sagt úr forsetastóli að reynt yrði að sjá til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra yrði við umræðuna áður en málið færi til nefndar, til umfjöllunar þar.

Það er enginn að reyna að koma í veg fyrir að þetta mál fái eðlilega þinglega meðferð. Að sjálfsögðu mun þetta mál ganga til nefndar þegar þar að kemur. Þetta er hins vegar einföld ósk og málefnaleg.

Ég mælist til þess að málið verði tekið af dagskrá þar til hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) á kost á því að sækja þingfund þar sem þetta verður rætt.



[16:36]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Mér þykir svolítið undarlegt að hingað komi hver stjórnarandstöðuþingmaður á fætur öðrum upp í pontu til að segja sama hlutinn. Þetta virkar á mig eins og hvert annað málþóf en allt í lagi, ég er ekkert á móti málþófi.

Mér er óskiljanlegt hvernig þetta getur aðallega verið lýðheilsumál þar sem spurningin er hvort einhverjar örfáar fleiri búðir á höfuðborgarsvæðinu muni selja áfengi eða ekki. Ég gæti skilið þetta ef það væri spurning um að byrja að selja áfengi sem aldrei hefði verið selt hérna og fara að ræða það við heilbrigðisráðherra. Mér finnst miklu nær að kalla hér til viðskiptaráðherra. Málið snýst fyrst og fremst um viðskipti, um einokun og samkeppnismál jafnvel. Hugsanlega mætti kalla umhverfisráðherra hingað af því að það er svo mikið drasl sem fylgir þessu máli. Við getum alveg haldið þessari umræðu áfram þó að heilbrigðisráðherra sé ekki hér enda snýst þetta ekkert um það.



[16:37]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er líklega rétt að við getum haldið þessari umræðu hér áfram án nærveru hæstv. heilbrigðisráðherra ef hann kýs að hunsa ítrekaðar óskir þingmanna um að mæta hingað og vera viðstaddur umræðuna og ef hæstv. forseti kýs að hunsa þessar beiðnir á sama hátt og láta umræðuna fara fram engu að síður.

Það er réttur þingmanna að gera athugasemdir við fundarstjórn, að gera athugasemdir við dagskrá og það er eðlilegt og sjálfsagt að það sé gert núna vegna ítrekaðra tilmæla sem því miður hafa verið hunsuð. Ég verð að segja að ég kannast ekki við viðbrögð af því tagi sem komu fram hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni við það að menn geri hér eðlilegar athugasemdir við dagskrá og við fundarstjórn forseta sem er ekki við hæfi lengur, finnst mér, í þessu máli með sama áframhaldi.



[16:38]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég finn mig knúinn til að bregðast við orðum hv. þm. Brynjars Níelssonar hvað þessa umræðu varðar. Þetta er ekki ný ósk, hún hefur verið frá upphafi. Það er ekki málþóf að ítreka þessa ósk þegar ekki er orðið við henni. Hæstv. ráðherra er ekki hérna, það er staðreynd, þannig að við erum ekki að sóa miklum tíma í viðræðum við hann ef hann er ekki einu sinni á svæðinu.

Sömuleiðis hvað varðar þau orð hv. þingmanns, að þetta varði ýmsa aðra málaflokka en heilbrigðismál, þá áttar hv. þingmaður sig kannski ekki á því að heilbrigðishlutinn af málinu er þungamiðja deilunnar, þungamiðja ágreiningsins. Ég held ekki að neinn sé á móti þessu máli nema vegna heilbrigðissjónarmiða. Það er það eina sem fær mig til að hugsa í aðra átt, ef ég á að segja alveg eins og er. Ég væri fullkomlega hlynntur þessu máli og ég held að allir væru hlynntir þessu máli (Forseti hringir.) ef ekki væri fyrir efasemdir á heilbrigðissviði. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) sé hér og ræði þetta við okkur.



[16:40]
Forseti (Óttarr Proppé):

Forseti vill upplýsa um að boðum verður komið til ráðherra um óskir um að hann verði við umræðuna.



[16:40]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég á stundum ekki alveg til orð þegar hv. þm. Brynjar Níelsson er búinn að vera í pontu. Ég tek bara undir það sem hv. þingmaður á undan mér sagði, og fleiri hafa sagt, það er auðvitað réttur okkar þingmanna að gera athugasemdir þegar ítrekað hefur ekki verið orðið við óskum okkar.

Hins vegar segir hæstv. forseti núna að boðum hafi verið komið til hæstv. heilbrigðisráðherra (Gripið fram í: Verði.) eða verði komið. Ef hann er ekki á landinu og getur augljóslega ekki verið við umræðuna, hyggst forseti þá fresta málinu? Ég held að það snúist núna um að fresta málinu því að það er augljóst að ef við eigum að byrja hér umræðu um þetta mál eftir nokkrar mínútur nær ráðherra tæplega í hús til að sitja þá umræðu.

Ég spyr hæstv. forseta: Hyggst hann fresta málinu þangað til hæstv. heilbrigðisráðherra getur setið umræðuna?



[16:41]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ákaflega gagnlegt fyrir okkur að fá leiðsögn frá hv. þm. Brynjari Níelssyni, ekki síst þeim okkar sem erum reynslulítil hér og höfum gott af því að fá reyndan skörung eins og lögmanninn og hv. þm. Brynjar Níelsson til að leiðbeina okkur.

Að sjálfsögðu má hæstv. viðskiptaráðherra gjarnan koma hingað og þess vegna hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem lögin heyra reyndar undir því að áfengis- og tóbakseinkaverslunin heyrir undir fjármálaráðherra.

Fyrirkomulagið er grundvallað á heilbrigðis- og lýðheilsustefnu landsins. Ég held að enginn geti deilt um það. Ástæðan fyrir því að við og þrjú önnur Norðurlönd erum með ríkiseinkasölu á áfengi og tóbaki er sú að þetta er hluti af heilbrigðis- og lýðheilsustefnu þessara landa. Þannig er það forsvarað, þannig er það kynnt bæði inn á við og út á við. Þannig vörðust og börðust þessi lönd fyrir því að fá undanþágu í EES-samninginn eða í aðildarsamning sinn að ESB af því að þau væru að verja (Forseti hringir.) hluta af lýðheilsu- og heilbrigðisstefnu sinni með þessu skipulagi.

Þess vegna á heilbrigðisráðherra að mæta hingað.



[16:42]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér þykir illa vegið að virðulegum forseta sem hefur staðið sig mjög vel í sinni fundarstjórn. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, svo við bara tölum um hlutina eins og þeir eru, að þetta er æðisérkennilegt. Hér er þingmannamál sem er búið að flytja margoft, sjálfur hef ég flutt þetta mál, og svo fara menn allt í einu fram á það í fullri alvöru að hæstv. ráðherrar séu við umræðuna. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Af hverju segir hann það bara ekki sjálfur? Þeir eru í málþófi hérna í 1. umr. sem er algjörlega ótrúlegt. Ef menn telja sig hafa góð rök gegn þessu máli er hér tækifæri til að koma fram með þau en það er út í hött að kalla á hæstv. ráðherra sem aldrei hefur verið gert þegar málið hefur verið flutt. Ég fullyrði að það hefur ekki verið gert vegna þess að ég hef flutt þetta mál. Reyndar þurfti ég að toga hv. þingmenn inn í þingsal til að taka umræðuna við mig. Hér eru menn búnir að tala í marga daga og eru í fullri alvöru að fara fram á það að hæstv. ráðherrar mæti á svæðið þegar við erum að ræða þetta þingmannamál.

Virðulegi forseti. Menn eiga bara að segja það. Þið eruð í málþófi (Forseti hringir.) sem er ótrúlegt. (Gripið fram í.)



[16:44]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er mjög hissa yfir þessari ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ég heyri ekki betur en að honum finnist þingmannamál eitthvað minna merkileg en mál sem koma frá hæstv. ríkisstjórn. Ég er ekki sama sinnis. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sjálfur talað um að þetta sé lýðheilsumál.

Það má gjarnan snúa þessu við og segja sem svo: Eigum við að ræða svo stórt lýðheilsumál að hæstv. ráðherra fjarstöddum? Hefði hann ekki óskað eftir að fá að vera hér? Ef málið verður samþykkt þarf að taka á vandamálum og aukaverkunum sem því fylgja og þau eru langflest einmitt á heilbrigðissviði, á sviði hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann þarf að vera hér og heyra hvað við höfum að segja um málið.