144. löggjafarþing — 58. fundur.
ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 425. mál (ólöglegt skógarhögg og markaðssetning á timbri). — Þskj. 633.

[16:51]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn (tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) og fella inn í samninginn reglugerð EB nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað, framselda reglugerð ESB nr. 363/2012 um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir, eins og kveðið er á um í reglugerð EB nr. 995/2010, og framkvæmdarreglugerð ESB nr. 607/2012 um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð EB nr. 995/2010.

Með gerðunum er reynt að stemma stigu við ólöglegu skógarhöggi og tengdum viðskiptum með því að lágmarka áhættuna á því að timbur sem er ólöglega höggvið eða vörur úr slíku timbri séu settar á markað innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þannig eru settar skorður við markaðssetningu á timbri og vörum úr timbri sem hefur verið höggvið ólöglega. Þá er aðilum sem selja timbur og timburvörur gert að tryggja rekjanleika vörunnar. Jafnframt er í gerðunum kveðið á um sérstakt aðgátskerfi fyrir rekstraraðila sem setja timbur og vörur úr timbri í fyrsta sinn á markað, viðurkenningar á vöktunarstofnunum, sem geta viðhaldið og metið aðgátskerfin, og eftirlit af hálfu lögbærra yfirvalda.

Innleiðing reglugerðar EB nr. 995/2010 kallar á lagastoð og stefnt er því að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi. Reglurnar verða í kjölfarið innleiddar í formi reglugerðar með stoð í þeim lögum.

Reglurnar munu helst hafa áhrif á framleiðendur timburs og timburvara, innflytjendur, dreifendur og aðra rekstraraðila sem koma að sölu timburs og timburvara auk neytenda sem munu verða betur upplýstir um uppruna varanna sem þeir kaupa. Einnig munu reglurnar hafa í för með sér aukin verkefni fyrir hið opinbera.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvæðinu felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar. Ég vil, herra forseti, koma því jafnframt hér á framfæri að einhverjum kann að finnast að þessi gerð eigi nú ekki mikið við Ísland varðandi skógarhögg og annað, en ég vil taka það hér fram að þetta er mjög mikilvægt mál fyrir Noreg og Norðmenn sem eru með býsna mikinn iðnað þegar kemur að skógarhöggi og þeir hafa því lagt mikla áherslu á að þetta mál nái hér fram að ganga eins fljótt og verða má en að sjálfsögðu í samræmi við allar okkar reglur og lög varðandi meðferð þessara mála.



[16:55]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans fyrir málinu og verð nú að segja að mér líst betur á þetta þingmál en mörg önnur sem hæstv. ráðherra hefur boðað á þessum þingvetri og þá sérstaklega eitt þeirra.

Ég vil í byrjun spyrja ráðherrann um hversu mikið þetta varðar okkur, hvort hér hafi orðið vart ólöglegs skógarhöggs eða sölu á afurðum úr því, hvort þetta sé eitthvert vandamál sem hefur komið upp hér. Síðan aðeins um upprunamerkingarnar, hvort þær lúti að því í hvaða landi þetta er höggvið eða hvort það tilgreini tiltekin svæði sem það kemur frá eða hvort þetta er einhvers konar „beint frá býli“-hugmynd.

Ég vil þó aðallega nota tækifærið hér við þessa umræðu og spyrja ráðherrann út í þá dóma sem felldir voru gegn íslenska ríkinu hjá ESA í gær eða fyrradag. Það vakti nokkra eftirtekt að þar féllu einir fimm dómar að ég hygg vegna slakrar innleiðingar á evrópskum gerðum hér í okkar rétti, ef ég hef skilið fréttaflutninginn rétt. Ég vil spyrja ráðherrann sem gæslumann samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessum dómum og hvort við séum farin að standa okkur miklu verr við það að halda samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en hinar þjóðirnar gera.



[16:56]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég taka það fram að mér er hvorki kunnugt um né hef upplýsingar um það hvort mikið sé um ólöglegt skógarhögg á Íslandi. Ég tel að svo geti varla verið. Hins vegar er þetta, eins og ég sagði áðan, þó nokkuð brýnt mál fyrir Norðmenn sem eru aðilar að þessum samningi ásamt okkur eins og alkunna er. Hér á landi mun þetta fyrst og fremst hafa áhrif á þá sem flytja inn timbur og timburvörur og dreifa og þess háttar og einhver kostnaður mun væntanlega leggjast á Mannvirkjastofnun vegna eftirlits, en þetta mun skýrast betur þegar lagafrumvarpið kemur fram. Það á að mér skilst ekki að verða mikill kostnaður.

Varðandi dómana sem hv. þingmaður nefndi hér þá er það rétt að fimm dómar féllu nýlega fyrir EFTA-dómstólnum vegna þess að við höfum í rauninni ekki staðið okkur í því að innleiða reglugerðir eins og okkur ber. Það kunna að vera ýmsar ástæður fyrir því að við sjáum fleiri mál enda fyrir dómstólum. Það getur verið að við séum með of hæga afgreiðslu hér á Íslandi, hvort sem það er framkvæmdarvaldið eða löggjafinn. Það kann líka að vera, sem er ekki ólíklegt, að meira komi af slíkum sendingum hingað til okkar o.s.frv. Niðurstaðan er samt sú að það er vitanlega ekki gott að missa þessi mál í þennan farveg. Það er býsna augljóst að við þurfum að innleiða mörg þeirra hvað sem tautar og raular. Af þessu hlýst vitanlega fyrirhöfn af Íslands hálfu, mögulega kostnaður o.fl.

Ég tek því orð þingmannsins sem hvatningu um að við stöndum okkur betur. Það er í takt við vilja okkar. Við höfum verið með þeim slökustu þegar kemur að því að taka þessar reglugerðir upp. Þær eru vitanlega mikilvægar fyrir samkeppnisumhverfi sem íslensk (Forseti hringir.) fyrirtæki gera út á.



[16:59]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en vil bara árétta þá spurningu hvort íslensk stjórnvöld fái á sig miklu fleiri dóma fyrir vanefndir á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en hin löndin, þ.e. Liechtenstein og Noregur. Fáum við á okkur miklu fleiri dóma af þessu tilefni en þau, þ.e. gerum við mun verr en þau í því að efna samningsskyldur okkar? Þarf þá ekki að taka til einhverra ráðstafana? Hefur ráðherra einhverjar hugmyndir um með hvaða hætti megi bæta þar úr?

Hins vegar vegna þessara innleiðinga almennt og vegna þess sérstaklega að við erum að fjalla hér um enn eitt málið sem kemur í raun og veru eyríki okkar ósköp lítið við — við höfum ekki átt við þann vanda að stríða, eins og ráðherrann réttilega nefnir, sem er ólöglegt skógarhögg og er það sem þetta mál snýst fyrst og fremst um — er ekki löngu orðið ljóst að það valdaframsal sem fólst í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sé nú uppsafnað með öllum þeim fjölmörgu lagabreytingum sem af því hefur hlotist og orðið framsal valds sem er langt út fyrir þær heimildir sem stjórnarskráin setur löggjafanum? Er ekki löngu orðið nauðsynlegt að fá samþykki fyrir breytingum á stjórnarskrá sem heimilar eitthvert slíkt valdaframsal til þess að geta haldið áfram að rækja þennan samning helst betur en við höfum gert?



[17:01]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum aftur. Ég held að menn séu sammála um að það hefur orðið töluvert valdaframsal, en hvort það sé orðið of mikið eða hvort þar rúmist enn þá eitthvað eða hvernig menn orða þetta þá ætla ég ekki að kveða upp úr um það hér. Við þekkjum umræðuna sem hefur verið undanfarin ár, m.a. vangaveltur okkar færustu lagaspekinga, og sitt sýnist hverjum um þetta mál.

Varðandi það hvort við gerum verr en aðrir, fáum á okkur fleiri dóma, þá minnir mig að við stöndum okkur því miður verr en þeir sem eru með okkur á þessu ferðalagi. Það eru ýmsar ástæður fyrir því, eins og ég nefndi hér áðan. Ein af þeim er að sjálfsögðu sú að við höfum sparað mjög mikið í ríkisrekstri undanfarið og ráðuneyti og aðrir sem koma að þessu máli, hvort sem það er löggjafinn eða undirstofnanir, hafa átt mjög erfitt með að sinna verkefninu. Við vonumst að sjálfsögðu til þess að ráðin verði bót á því innan ekki of langs tíma því að við megum ekki gleyma því að við erum aðilar að þessum samningi og berum ákveðnar skyldur hvort sem okkur finnst þær allar góðar eða ekki.