144. löggjafarþing — 83. fundur
 23. mars 2015.
tollar á franskar kartöflur.
fsp. HHj, 606. mál. — Þskj. 1050.

[16:45]
Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég átti orðastað við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á dögunum um stefnu í tollamálum, einkanlega vegna þess að ráðherrann var að hreyfa hugmyndum um að festa hér í langtímasamningum tollvernd og himinháa tolla á landbúnaðarvörum, og ræddi ég við hann í því sambandi meðal annars um þá tollvernd sem er í landinu á kjúklingaiðnaði. Ég tel hana ekki eiga sér neinar röksemdir í þeirri eðlilegu vernd sem við viljum hafa fyrir hefðbundinn íslenskan landbúnað, dæmigert íslenskt fjölskyldubú, mjólkurbúin, sauðfjárræktina o.s.frv. Þar á auðvitað fyrst og fremst í hlut iðnaðarstarfsemi sem er verið að verja algerlega óhæfilega með himinháum tollum á neytendur.

Það sem ég spyr hæstv. fjármálaráðherra um er skylt, það eru franskar kartöflur. Ég hygg að ég muni leggja ýmsar aðrar spurningar tengdar tollamálum fyrir bæði hann og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í þessu tilfelli um rökin að baki þessum tollum. Ég hygg að tollprósentan á þessa vöru sé 76% en ég held að innanlandsframleiðslan dugi ekki nema fyrir kannski um 5% markaðarins. Það er ekki einu sinni víst að þessi 5% sem framleidd eru hér séu yfir höfuð framleidd úr íslenskum kartöflum. Ég hygg að þær séu ekki alltaf hagfelldasta hráefnið til þessarar framleiðslu. Hvað sem því líður, þó að þetta væri alíslenskt hráefni eru þetta bara 5% markaðarins. Manni virðist kannski ekki mjög gæfulegt að tolla 95% af markaðnum um hátt í 100% til að styðja við ekki umfangsmeiri framleiðslu en þetta. Ef menn vilja styðja þessa framleiðslu, væri þá ekki nær að gera það með beinum stuðningi við framleiðendurna en vera ekki að tolla allan almenning með þessum háu tollum?

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvaða rök standi að baki þessum tolli. Er hann lagður á út frá heilsufarssjónarmiðum vegna þess að þessi matvara sé með einhverjum hætti óhollari en önnur matvara? Er þetta lagt á sem verndartollur fyrir landbúnað? Eða er þetta hrein og klár tekjuöflunaraðgerð?

Af við að höfum smávegis aukatíma þegar málið er ekki stærra væri ekki úr vegi að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir sjónarmiðum hans sjálfs, því að þau hafa ekki komið fram í umræðunni, um það að gera 15 ára langtímasamning um tollvernd fyrir landbúnaðinn. Líst honum í prinsippinu vel á slíka hugmynd?



[16:48]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Áður en ég hefst handa við að svara fyrirspurninni um það hvernig háttað er tollum á franskar kartöflur og hvert markmiðið með tollunum sé er rétt að gera grein fyrir því að við vinnslu svarsins kom í ljós að það má hafa ólíkar skoðanir á því hvert nákvæmlega merkingarfræðilegt inntak orðanna franskar kartöflur er. Víða erlendis falla ýmsar aðrar gerðir kartöfluafurða undir þessi orð, t.d. það sem við köllum kartöflunasl og ýmiss konar vörur sem mótaðar eru úr kartöflumjöli eða jafnvel deigi. Eftirgrennslan fjármála- og efnahagsráðuneytisins leiddi í ljós að franskar kartöflur sem framleiddar eru hér á landi eru sneiddar eða skornar niður í eitthvað sem kalla mætti strimla og frystar til að verja gegn skemmdum. Það er það sem ræður tollflokkuninni, hvernig þetta er skilgreint nákvæmlega, og þess vegna er þetta nefnt hér. Reyndar eigum við dæmi úr sögunni þar sem þetta réð úrslitum um hvernig ætti að haga álagningu.

Hvernig er tollum á franskar kartöflur háttað? Samkvæmt ákvæði 5. gr. gildandi tollalaga skal greiða toll af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins eins og mælt er fyrir um í tollskrá í viðauka I með lögunum. Franskar kartöflur eru fluttar inn frosnar og sneiddar eða skornar og eru undir tollskrárnúmerinu 2004.1002. Þá er hugsanlegt að þær séu einnig fluttar inn frystar, soðnar eða ósoðnar undir tollskrárnúmerinu 0710.1000 en í litlu magni þó. Þar sem mikill meiri hluti innflutningsins er á fyrra tollskrárnúmerinu mun umfjöllunin í framhaldinu einskorðast við franskar kartöflur sem fluttar eru inn á því númeri.

Almennur tollur á innflutning franskra kartaflna, verðtollur, er lagður á tollverð vöru eða sendingar og nemur 76%, eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda. (Gripið fram í: Vá.) Tollur á innflutning á frönskum kartöflum samkvæmt fríverslunarsamningum sem EFTA hefur gert við Kanada, Kólumbíu, Perú og Kína er hins vegar 46% þannig að þar á er töluvert mikill munur og mikið hagræði af því fyrir innflytjendur, sem nýtist neytendum á endanum, að taka þessa vöru inn frá viðkomandi löndum. (KLM: Dýrari flutningur.)

Í öðru lagi felst í fyrirspurn þingmannsins spurningin hvert markmiðið sé með tollum sem lagðir eru á franskar kartöflur. Því er til að svara um tolla almennt að þeir eru lagðir á við innflutning vara í því skyni að afla ríkissjóði tekna. Auðvitað eru tollar síðan í hina röndina oft lagðir á til þess að vernda tiltekna framleiðslu. Alþingi fer með ákvörðunarvald um fjárstjórn ríkisins og það er almennt á valdi þess að ákveða hvaða skattar skuli innheimtir, hverju nafni sem þeir nefnast.

Ég ætla ekki að fara nánar ofan í þessi tæknilegu atriði, ég ætla bara að koma aðeins inn á þá almennu umræðu um tollana sem hv. þingmaður er að kalla eftir. Fyrst vil ég segja varðandi langtímasamninga við landbúnaðinn í landinu að ég tel að matvælaframleiðslan í landinu þurfi á langtímasýn að halda, rekstraröryggi sem byggir á samningum sem ná til lengri tíma en eins eða tveggja ára. Ég tel mjög gild rök fyrir því að búa um umhverfi matvælaframleiðslu í landinu með samningum sem eru í grunninn keimlíkir þeim sem hafa falist í búvörusamningunum fram til þessa. Þó má hins vegar alltaf deila um nákvæmlega það hvernig þessir hlutir eru útfærðir.

Varðandi tolla að öðru leyti og almennt eru þetta í mjög grófum dráttum annars vegar tollar sem leggjast á matvæli og hins vegar tollar sem leggjast á ýmsar iðnaðarvörur, sem sagt annars vegar landbúnaðarvörur og hins vegar iðnaðarvörur. Ef við tökum landbúnaðarvörurnar örlítið til hliðar erum við með iðnaðarvörurnar og þá tollflokka sem þar heyra undir. Ég verð að segja alveg eins og er að það kom mér á óvart, þrátt fyrir að ég hafi reynt að fylgjast ágætlega með ríkisfjármálunum í allnokkurn tíma, þegar ég áttaði mig á því að heildartolltekjurnar eru ekki nema rétt um 2,5–3 milljarðar vegna alls annars en þess sem tengist landbúnaði og þar af eru tolltekjur vegna fatnaðar og skóa rétt um 1 milljarður. Þetta segir mér að það geti legið mikil tækifæri í því til einföldunar og hagræðis fyrir innflytjendur og til hagsbóta fyrir neytendur í landinu að gera verulega (Forseti hringir.) tiltekt í tollamálum okkar Íslendinga. Ég get rætt það betur í minni seinni ræðu.



[16:53]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur verið mjög athyglisvert að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra sem jafnframt er formaður Sjálfstæðisflokksins og kennir sig dálítið við frelsi segja okkur á Alþingi í svari við þessari fyrirspurn hversu miklir tollar eru lagðir á hinar og þessar vörur. Í stuttu innskoti mínu hvað þetta varðar langar mig bara að spyrja hæstv. ráðherra út í eitt. Eitt er verndin sem við setjum gagnvart íslenskri framleiðslu, tökum það út fyrir sviga, það getur átt rétt á sér, það er það sem flestöll þjóðlönd gera, en þegar kemur að skorti og algjörri vöntun á vöru sem er þá flutt inn — við getum tekið ýmsar kjúklingavörur. Ég keypti sjálfur nautahakk í fyrra sem var frá Spáni, að mig minnir, og það var nánast á sama verði og íslenskt. Af hverju var það á sambærilegu verði, virðulegi forseti? Það er vegna þess að ríkissjóður lagði svo háa tolla á það.

Þá er spurning mín þessi: Þegar það er vöntun á einhverri vöru, af hverju mega þá ekki íslenskir neytendur (Forseti hringir.) njóta þess í lægra vöruverði meðan skorturinn (Forseti hringir.) er?



[16:54]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með síðustu orðum hæstv. ráðherra. Það kemur mér á óvart ef heildarupphæðin af tollum og innflutningsgjöldum er svona lág. Þá má náttúrlega ekki gleyma því að það er nýbúið að taka stóra sneið af þeim með nýlegum fríverslunarsamningi okkar við Kína. Ég mundi hins vegar segja við hæstv. ráðherra að fyrst staðan er þessi, og hann er eins og við vitum óðfús að einfalda öll kerfi sem hann kemur nálægt og finnst sumum fullmikið til um það, þar á meðal mér í einstökum greinum án þess að ég ætli að fara út í það, hefur hann kjörið tækifæri til þess þarna. Ég hvet hæstv. ráðherra til að láta hendur standa fram úr ermum og hreinsa til í þessu, fella mest af því niður.



[16:55]
Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Ég heyri ekki betur en að þessi litla fyrirspurn um franskar kartöflur hafi kallað á yfirlýsingu fjármálaráðherra um stórtæka endurskoðun á tollakerfinu. Ég fagna því. Ég held að það sé verkefni sem við eigum að sameinast um, að fella niður mikið af óþarfatollum sem skila tiltölulega litlum tekjum og miða að óljósum markmiðum.

Ráðherra bendir réttilega á að þetta eru einkum tvenns konar vörur, iðnaðarvörur og landbúnaðarvörur. Ég held að allt of margar vörur sem við erum að tolla sem landbúnaðarvörur séu í raun bara iðnaðarvörur. Vegna þess að menn vilja sýna ákveðna samstöðu með íslenskum landbúnaði er verið að tolla alls kyns óskyldar vörur. Ég bið ráðherrann að skerpa á því. Er tollurinn á þessar vörur verndartollur? Er þetta til að vernda íslensku framleiðsluna? Finnst honum það skynsamlegt þegar hún er bara með 5% af markaðnum? Eru þessar blessuðu kartöflur iðnaðarvara eða landbúnaðarvara?

Ég held að við leggjum allt of oft himinháa landbúnaðartolla á það sem er bara iðnaðarframleiðsla og á ekkert skylt við landbúnað. Við ættum kannski fyrst að einbeita okkur að því að ná þeim tollum niður því að öll viljum við auðvitað hafa ákveðna varnarmúra um íslenskan landbúnað þó að það sé sannfæring mín að við eigum í langtímasamningum sannarlega að tryggja afkomu bænda en ekki tryggja í þeim viðvarandi himinháa tolla heldur reyna að miða að því í slíkum langtímasamningum að ná þeim tollum niður, neytendum til hagsbóta.



[16:57]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið skemmtileg umræða og ágætlega málefnaleg. Varðandi aðflutningsgjöld og tolla saknaði ég þess að fá jafn eindreginn stuðning og ég finn fyrir á þinginu í þessari umræðu við að taka til í tollakerfinu þegar við vorum að afnema vörugjöldin, þar með talið sykurskattinn. Sykurskatturinn hafði augljóslega einkenni þess að vera tekjuöflunargjald og í hina röndina átti hann að ná einhverjum lýðheilsumarkmiðum. Í mínum huga var þetta fyrst og fremst skattur á heimilin vegna þeirra innkaupa og lagðist á við kassann í matvöruversluninni fyrst og síðast.

Varðandi tollana horfi ég sem sagt svona á þetta: Það kom mér nokkuð á óvart þegar ég kafaði ofan í tekjuhlið fjárlaganna hversu litlu tollar skila almennt. Það verður þó að hafa í huga að tollarnir eru að verulegu leyti líka magntollar, ekki bara krónutollar, og geta þannig beinlínis komið í veg fyrir innflutning. Tekjuöflunin ein og sér segir þannig ekki alla söguna. Allar vörurnar sem komast ekki inn á grundvelli magnsins eru fyrir utan þessar tölur. Tölurnar segja samt heilmikla sögu. Um helmingurinn af þessum 5–6 milljörðum er matvara og hinn helmingurinn að uppistöðu til ýmiss konar iðnaðarvara. Þar af eru föt og skór um það bil 1 milljarður og þá eru ekki eftir nema á bilinu 1,5–2 milljarðar, ég leyfi mér að tala um þetta í frekar rúnnuðum tölum, og það er ótrúlega lág tala miðað við það flókna kerfi sem er uppi við að viðhalda eftirliti og í ljósi alls þess umstangs sem er í atvinnulífinu við að skila inn réttum tollskýrslum o.s.frv. Jafnvel þótt við eigum ávallt að reyna að fá eitthvað fyrir það að lækka tolla í samningum (Forseti hringir.) við erlend ríki kann líka vel að vera, eins og forstjóri OECD (Forseti hringir.) hefur margoft bent á, að það sé einfaldlega gott í sjálfu sér að afnema tolla svipað og þegar menn afvopnast.