144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

tollar á franskar kartöflur.

606. mál
[16:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið skemmtileg umræða og ágætlega málefnaleg. Varðandi aðflutningsgjöld og tolla saknaði ég þess að fá jafn eindreginn stuðning og ég finn fyrir á þinginu í þessari umræðu við að taka til í tollakerfinu þegar við vorum að afnema vörugjöldin, þar með talið sykurskattinn. Sykurskatturinn hafði augljóslega einkenni þess að vera tekjuöflunargjald og í hina röndina átti hann að ná einhverjum lýðheilsumarkmiðum. Í mínum huga var þetta fyrst og fremst skattur á heimilin vegna þeirra innkaupa og lagðist á við kassann í matvöruversluninni fyrst og síðast.

Varðandi tollana horfi ég sem sagt svona á þetta: Það kom mér nokkuð á óvart þegar ég kafaði ofan í tekjuhlið fjárlaganna hversu litlu tollar skila almennt. Það verður þó að hafa í huga að tollarnir eru að verulegu leyti líka magntollar, ekki bara krónutollar, og geta þannig beinlínis komið í veg fyrir innflutning. Tekjuöflunin ein og sér segir þannig ekki alla söguna. Allar vörurnar sem komast ekki inn á grundvelli magnsins eru fyrir utan þessar tölur. Tölurnar segja samt heilmikla sögu. Um helmingurinn af þessum 5–6 milljörðum er matvara og hinn helmingurinn að uppistöðu til ýmiss konar iðnaðarvara. Þar af eru föt og skór um það bil 1 milljarður og þá eru ekki eftir nema á bilinu 1,5–2 milljarðar, ég leyfi mér að tala um þetta í frekar rúnnuðum tölum, og það er ótrúlega lág tala miðað við það flókna kerfi sem er uppi við að viðhalda eftirliti og í ljósi alls þess umstangs sem er í atvinnulífinu við að skila inn réttum tollskýrslum o.s.frv. Jafnvel þótt við eigum ávallt að reyna að fá eitthvað fyrir það að lækka tolla í samningum (Forseti hringir.) við erlend ríki kann líka vel að vera, eins og forstjóri OECD (Forseti hringir.) hefur margoft bent á, að það sé einfaldlega gott í sjálfu sér að afnema tolla svipað og þegar menn afvopnast.