145. löggjafarþing — 110. fundur
 12. maí 2016.
almennar íbúðir, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 435. mál (heildarlög). — Þskj. 643, nál. 1266, brtt. 1267.

[13:32]Útbýting:

[13:32]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Við ræðum loks nefndarálit um frumvarp til laga um almennar íbúðir, frumvarp sem hefur verið lengi í smíðum og lengi verið beðið eftir. Það er því með vissri gleði sem maður stendur hér og tekur til máls í þessu máli. Ég held að það hafi samt ekki farið neitt illa á því að þeir fjórir hv. þingmenn sem voru á undan mér hafi talað fyrst vegna þess að ég held að á engan sé hallað í hv. velferðarnefnd Alþingis að það sé það fólk sem hefur borið hitann og þungann af þessu máli og hefur verið vakið og sofið yfir því að koma málinu í gegn.

Margir hafa kvartað yfir tímanum sem farið hefur í þetta. Ég er ekki alveg sammála því. Vissulega kom fram á fyrstu stigum þegar verið var að kynna frumvarpið fyrir velferðarnefndinni af fólki úr velferðarráðuneytinu að aldrei áður hefði verið haft annað eins samráð um frumvarp og þetta. Það kom mér spánskt fyrir sjónir sem nýjum þingmanni til að byrja með hversu ítarlegar og langar umsagnir voru um frumvarpið og kannski vegna þess að búið var að hafa gríðarlega mikið samráð um það.

En það hefur komið fram í máli hv. þingmanna sem hér hafa talað, eins og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns velferðarnefndar, að breyta þurfti miklu. Það segir sig náttúrlega sjálft að þegar breytingartillögur eru upp á tíu síður að taka varð þær til gagngerrar endurskoðunar og gera það það vel úr garði að nánast skothelt væri.

Það virðist vera komin niðurstaða í að frumvarpið er nánast skothelt, sem er gríðarlega gleðilegt. Ekki síst að allir nefndarmenn skuli vera á nefndaráliti. Ég tel það gríðarlegt afrek í jafn stóru máli og þetta er. Hv. þingmenn sem hafa haldið hér ræður áður sýna að hægt er að gera ýmislegt þegar viljinn er fyrir hendi og samvinnan er góð. Ég verð að segja, þó að það sé kannski ekkert rosalega viðeigandi, ég er bara stoltur að því að vera hluti af þeirri nefnd sem tók þátt í að afgreiða þessi mál.

Ég nefni líka önnur mál vegna þess að við afgreiddum fyrr í vetur mál um húsnæðissamvinnufélög einróma. Þetta eru ein stærstu málin sem núverandi ríkisstjórn hefur sett fram, þ.e. húsnæðismálin. Þau eru líka liður í kjarasamningum sem gerir að verkum að mjög nauðsynlegt er að um þau ríki sátt og mikil samvinna sé höfð um þau og sátt ríki.

Nú hafa þeir þingmenn sem hér hafa talað farið í gegnum frumvarpið mjög ítarlega og þær breytingar sem á því hafa verið gerðar. Ég ætla ekki að fara að hætta mér í það vegna þess að ég hef ekki sömu þekkingu og þeir í því. En ég tek heils hugar undir allt sem hefur verið sagt. Fyrsta málið var nafnabreytingin og töluverð umræða varð um það í nefndinni. Fyrir mér skiptir engu máli hvað þetta frumvarp heitir, fyrir mér er markmiðið aðalatriðið.

Mig langar til að vitna aðeins í umsögn Alþýðusambands Íslands, ASÍ, sem var ekki mjög löng. Þeir höfðu náttúrlega áhyggjur af því hversu miklar umsagnir komu á sínum tíma en umsögn þeirra var bara ein síða og með leyfi forseta langar mig aðeins að lesa úr henni:

„Frumvarpið er afrakstur víðtæks samráðs. Það byggir í grundvallaratriðum á þeirri stefnu sem Alþýðusambandið markaði sér haustið 2012 og sem kynnt var og útfærð í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Frumvarpið er enn fremur liður í aðgerðum ríkisstjórnar Íslands til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, samanber yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 2015. Framgangur þess er jafnframt mikilvægur þáttur þeirrar heildarlausnar sem aðilar vinnumarkaðar leita nú við endurskoðun kjarasamninga og sem ljúka þarf nú á fyrstu vikum ársins. ASÍ leggur mikla áherslu á að með þessu frumvarpi er lagður mikilvægur grunnur að því að hér myndist með tíð og tíma mikill félagsauður í formi íbúða fyrir tekjulága einstaklinga og tekjustreymi af húsaleigu þegar stofnlán hafa verið endurgreidd sem duga munu til þess að tryggja fjármögnun nýrra íbúða til að mæta þörfum nýrra kynslóða.“

Og ASÍ styður framgang málsins eindregið. Þetta er það markmið sem hefur verið lagt upp með og þetta er gríðarlega göfugt og gott markmið því að eins og við vitum er staðan í húsnæðismálum á Íslandi mjög slæm. Hún er eins og fram kom áðan í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar nánast galin.

Markmiðið er líka, sem er kannski svona undirmarkmið en kannski aðalmarkmiðið, að fólk geti leigt íbúðir og ekki meira en 20–25% af tekjum fari í það. Þetta er mjög göfugt markmið, maður þarf ekki að leita langt yfir skammt til að finna það hvernig staðan er á þessum markaði hjá ungu fólki sem er að hasla sér völl í lífinu. Ég á dóttur sem borgar 40–50% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Það er gjörsamlega galið.

Þess vegna er þetta ofboðslega gott og mikilvægt frumvarp sem við erum vonandi að fara að samþykkja á næstu dögum. Ég tek heils hugar undir með öllum þeim sem hafa talað hér og rætt þetta. Þetta er mjög gott frumvarp sem mun vonandi leiða til mikillar — hvað á ég að segja, að mun betra ástand verði á húsnæðismarkaði á Íslandi. Þetta er lykilatriðið í því einmitt að mæta þörfum ungs fólks. Ég sagði að ég ætlaði ekki að — ég hef reyndar oft sagt það þegar ég hef verið spurður um þessi mál, ég hef reyndar ekki verið spurður mikið af fréttamönnum um málið því að einhugur hefur verið í nefndinni um að vinna málið vel áfram og vera ekki að tjá sig mikið um það fyrr en það lægi fyrir, en ég hef þrátt fyrir það samt miklar áhyggjur af húsnæðismálum og þessu kerfi vegna þess að við búum við íslensku krónuna.

Mig langar líka að vitna í hagfræðing sem skrifaði grein í Fréttablaðið 12. janúar. Þröstur Ólafsson heitir hann, hagfræðingur, og hann segir, með leyfi forseta:

„Ekki má gleyma garminum honum Katli, þegar rætt er um fráhrindandi aðstæður fyrir ungt menntað fólk til að setjast að á Íslandi. Þar á ég við íslensku krónuna, sem fengið hefur þá heiðursnafnbót frá forsætisráðherra [þáverandi] að vera sterkasti gjaldmiðill í heimi. Það er ekkert sérstakt afreksverk að gjaldmiðill sem býr við ströng gjaldeyrishöft og er hvergi nothæfur utan eigin lands, haldist þokkalega stöðugur. Til þess eru höftin. Þrátt fyrir þessa algjöru einangrun og vernd þarf krónan háa vexti svo hún geti staðið undir því verkefni, að halda verðbólgu í skefjum. Gjaldeyrishöftin koma heldur ekki í veg fyrir að mörg mismunandi gengi eru á krónunni.“

Síðan telur hann upp hin ýmsu gengi. Hann segir líka, með leyfi forseta:

„Sennilega hefur enginn einn hluti íslenska hagkerfisins „féflett“ Íslendinga meir í gegnum árin en krónan. Það er hún sem gerir ungu fólki erfitt með að búa hér, þótt það hafi vinnu. Hún er svo dyntótt og dýr, hvort sem hún er óverðtryggð eða verðtryggð. Hún gengur af öllum húsnæðiskerfum dauðum.“

Þetta eru þær áhyggjur sem ég hef af húsnæðismálum á Íslandi, það er íslenska krónan því að hún gengur nánast af öllu dauðu hér. Ég vona og ber þá einlægu von og ósk í brjósti að frumvarpið verði til langs tíma litið kannski byrjunin og lykillinn að góðu húsnæðiskerfi á Íslandi þar sem ungt fólk sér ástæðu til að búa hérna og þar sem maður sér ekki meiri partinn af ráðstöfunartekjum fara í leigu og eins og staðan er í dag.

Ég vil enn og aftur ítreka þakkir mínar til nefndarinnar, formanns nefndarinnar, hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, og ekki síst til framsögumannsins, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, sem hefur greinilega unnið frábært starf sem framsögumaður í málinu. Það er erfitt að vera nýr þingmaður og þurfa að takast á við svona gríðarlega erfið verkefni. Hún hefur leyst það af stakri snilld, segi ég. Síðan langar mig líka að nefna, hann hefur verið nefndur hér áður, nefndarritarann okkar, Gunnlaug Helgason, sem hefur sýnt ótrúlega þolinmæði og æðruleysi í þessu starfi og unnið frábært starf. Ekki síst hefur hann komið fram með góðar tillögur og lagt til breytingar og gefið okkur ráð. Eins og ég nefndi í byrjun ræðunnar báru þeir fjórir þingmenn sem töluðu hér fyrst hitann og þungann af þessu. Þeir eiga allt gott skilið.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, að ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í þessu verki. Mitt framlag var kannski ekkert rosalega mikið hvað varðar breytingar og annað og það helgast bara af því að ég hef ekki eins mikla þekkingu á þessu og margir aðrir og ég skammast mín ekkert fyrir að segja frá því. En að sitja umliðna mánuði og vinna þessa vinnu hefur verið gríðarlega dýrmætur skóli. En stoltastur er ég af því að við skyldum gera þetta saman og sýna fólki fram á að hér er unnið gott starf þrátt fyrir að margir vilji meina annað. Mikill einhugur ríkti í nefndinni, í vinnunni, og það var frábært að fá að taka þátt í því.



[13:42]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er eiginlega ekki að koma í andsvar heldur bara til að þakka hv. þingmanni fyrir falleg orð í garð okkar nefndarmanna. Ég tel að velferðarnefnd sé einstaklega vel skipuð fólki. Þar er allt hið pólitíska litróf en allir sem í nefndinni sitja vilja vinna vel og ná sameiginlegri niðurstöðu ef þess gefst kostur og það ríkir einstaklega góður samstarfsandi í nefndinni. Auðvitað getum við ekki verið sammála í öllum málum eða samferða eins og gengur en við reynum eftir fremsta megni að vinna mál þannig að niðurstaðan þóknist sem flestum.

Ég þakka öllum nefndarmönnum í velferðarnefnd, ekki síst hv. þm. Páli Vali Björnssyni sem hér talaði enda leggur hann svo sannarlega sitt af mörkum til þess samstarfsanda.

Eins og fram kom í hans máli sem og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hafa verið í forsetaframboði gamlir stjórnmálakarlar sem hafa áhyggjur af ástandinu á Alþingi. Það eru kannski skósveinar þeirra, forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, sem eru hvað stærsti vandinn, hagsmunagæslumenn fram í fingurgóma, á meðan flestir aðrir þingmenn hafa valist hér inn af því að fólk treystir þeim til þess einmitt að vinna vel að mikilvægum og brýnum samfélagsmálum.



[13:44]
Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni hvað þetta varðar. Ég vil nota tækifærið til að segja að hér er bara einvalalið af þingmönnum sem allir leggja sig fram og vilja leggja sig fram. Við búum við erfitt stjórnkerfi þar sem framkvæmdarvaldið hefur alltaf verið allt of sterkt. Það kom svo vel fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hvað við gætum gert til þess að breyta því en því miður hefur það ekki breyst.

Ég get þó alveg tekið undir orð hv. þingmanns um það að í nefndinni starfar gott fólk sem leggur allt sitt af mörkum til að leysa málin farsællega.

Nú ætla ég að hætta af því að þetta er farið líta út eins og maður sé á Óskarsverðlaunaafhendingu en það er bara allt í lagi. Það má alveg gera það á Alþingi líka. Við erum mannleg og við erum að leggja okkur öll fram og ég þakka fyrir starfið enn og aftur.



[13:45]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Já, það má nefnilega alveg vera glaður á Alþingi. Fyrir okkur í velferðarnefnd og örugglega fleiri þingmenn er þetta nokkuð stór dagur og er ástæða til að fagna og vera ánægður. Maður á að gleðjast þegar vel gengur og niðurstaðan er góð.

Flestir vilja eignast eigið húsnæði á einhverjum tímapunkti í lífi sínu en það verður alltaf til sá hópur sem ekki getur eða ekki vill eiga eigið húsnæði. Íslenskur húsnæðismarkaður er afar erfiður í dag, bæði hvað varðar kaup og leigu. Félagsvísarnir sem Hagstofan gefur út reglulega gefa góðar vísbendingar um velferð á Íslandi. Þeir sýna að stór hluti þeirra sem eru undir lágtekjumörkum hér á landi er á leigumarkaði. Stærstu hóparnir eru tekjulágir einstaklingar og einstæðir foreldrar og börn þeirra. Ný húsnæðisstefna ríkisstjórnarinnar gagnast m.a. þessum hópum. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samstiga í ályktunum sínum um að nauðsynlegt sé að bæta húsnæðiskerfið. Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu sumarið 2013 um aðgerðaáætlun í tíu liðum. Samkvæmt henni átti að taka á skuldavanda heimila með því að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán og gefa tækifæri til að nýta séreignarsparnað til niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána. Áætlunin kveður einnig á um að auka stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði og vinna að framtíðarskipan húsnæðismála, þar á meðal úrbótum á leigumarkaði. Markmið ríkisstjórnarflokkanna eru skýr: Við ætlum að bæta hag heimila landsins, ekki bara húseigenda heldur allra heimila.

Vorið 2013 var hafist handa við samningu fjögurra frumvarpa um húsnæðismál. Umfangsmikið samráð var haft við hagsmunaaðila. Aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt til málanna eins og yfirlýsing í tengslum við kjarasamningana síðastliðið vor sýnir. Í henni eru mikilvægir þættir húsnæðismála tilgreindir en framlag ríkisstjórnarinnar til þeirra samninga var m.a. að tryggja að húsaleiga efnaminna fólks yrði ekki hærri en 20–25% af ráðstöfunartekjum heimilanna. Það frumvarp sem við ræðum nú, frumvarp um almennar íbúðir og einnig frumvarp um húsnæðisbætur, sem er reyndar ekki nú til umræðu, eru sem sagt bæði hluti af samkomulagi ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins vegna kjarasamninga. Aðilar kjarasamninga fylgjast því grannt með því hvernig vinnu við umrædd frumvörp miðar en hafa þó skilning á að sú vinna taki tíma sökum umfangs og mikils flækjustigs. Aðalatriðið er að sameiginleg markmið náist, þ.e. að bæta húsnæðismarkaðinn á Íslandi svo allir geti búið í góðu og öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði.

Hv. þm. Páll Valur Björnsson las hér upp úr umsögn Alþýðusambands Íslands sem var mjög greinargóð. Ég ætla ekki að endurtaka hana, en þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Framgangur [frumvarpsins] er jafnframt mikilvægur þáttur þeirrar heildarlausnar sem aðilar vinnumarkaðar leita nú við endurskoðun kjarasamninga og sem ljúka þarf nú á fyrstu vikum ársins“ og styður ASÍ eindregið framgang þessa máls, eins og fram hefur komið.

Mannréttindaskrifstofa Íslands sendi einnig inn umsögn um frumvarp um almennar íbúðir og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„MRSÍ fagnar framangreindu frumvarpi og telur hér vera stigin nauðsynleg skref í átt að rétta úr þeim vanda sem kominn er upp á leigumarkaði. Leiguverð hefur hækkað svo um munar á síðustu missirum, úr takt við alla launaþróun, og hefur það orðið til þess að þeir efnaminnstu sitja uppi húsnæðislausir og hafa ekki ráð [á] að leigja, hvað þá kaupa fasteign. Með frumvarpinu er lágtekjufólki, þar með töldum eldri borgurum, öryrkjum og innflytjendum gert auðveldara fyrir með að búa við mannsæmandi aðstæður.“

Til upplýsingar má geta þess að umsagnir voru margar og ítarlegar. Ég taldi rúmlega 200 blaðsíður þegar ég fór yfir gögnin aftur í gærkvöldi, þannig að úr nógu hefur verið að moða. Flestar voru umsagnirnar mjög jákvæðar, en nokkrir höfðu athugasemdir til úrbóta sem nefndin hefur að sjálfsögðu tekið tillit til í vinnu sinni.

Að þessu sögðu liggur alveg klárlega fyrir að þörfin á breyttu kerfi er svo sannarlega til staðar og viljinn til að breyta núverandi kerfi er einnig til staðar. Það er gott.

En áfram skal haldið. Velferðarnefnd hefur nú haft frumvörpin fjögur til umfjöllunar um allnokkurt skeið. Við vonuðumst til að afgreiða þau mun fyrr en raunin varð en sökum þess hve gríðarlega umfangsmikil málin voru töldum við sem í nefndinni sitjum nauðsynlegt að gefa okkur góðan tíma til að fara vandlega yfir hvert einasta atriði í frumvörpunum fjórum. Og það er ekki gert með annarri, eins og sagt er. Við erum í raun að leggja grunn að nýju húsnæðiskerfi og það verður ekki gert á vettvangi þingsins á aðeins örfáum vikum þó að umfangsmikið samráð hafi verið haft í heil tvö ár áður en nefndin fékk frumvörpin til umfjöllunar.

Eitt af fjórum frumvörpum hæstv. húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, frumvarp um húsnæðissamvinnufélög, hefur þegar verið afgreitt á Alþingi. Markmið þess er að styrkja rekstur húsnæðissamvinnufélaga, gegnsæi í rekstri þeirra, auka réttindi íbúa og koma á auknu íbúalýðræði innan félaganna. Samstaða var um afgreiðslu þess máls.

Mig langar einnig að gera örstutta grein fyrir innihaldi þeirra frumvarpa sem ekki hafa enn ratað inn í þingsal, en eru í þinglegri meðferð hjá hv. velferðarnefnd. Það eru frumvörp um húsnæðisbætur, sem áður hefur verið nefnt, og húsaleigulög.

Frumvarp til laga um húsnæðisbætur felur í sér stóraukinn stuðning við leigjendur. Þar eru frítekjumörk hækkuð og stuðningur miðast við fjölskyldustærð. Verið er að jafna stuðning milli ólíkra búsetuforma svo einstaklingar og fjölskyldur hafi raunverulegt val um búsetuform. Það frumvarp er í raun hinn hluti frumvarps um almennar íbúðir. Þessi tvö frumvörp spila saman. Ef Alþingi klárar ekki bæði frumvörpin á yfirstandandi þingi nást ekki markmið frumvarpanna, þ.e. að leigjandi borgi ekki meira en 20–25% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og þá væru forsendur kjarasamninga einnig brostnar. Það má ekki gerast og það er því í höndum okkar þingmanna að afgreiða þessi mál eins hratt og örugglega og mögulegt er.

Frumvarp um breytingu á húsaleigulögum felur hins vegar í sér aukin réttindi leigjenda og leigusala. Í því frumvarpi er einnig verið að skerpa á atriðum sem deilumál hafa orðið um í leigusamningum undanfarin ár. Í raun er verið að snyrta núgildandi lög aðeins til í takt við tímann. Menn virðast vera nokkuð sammála um að þörf sé á þessum úrbótum og því almennt jákvæðir fyrir breytingum á húsaleigulögum.

Herra forseti. Eftir sæmilega langan inngang er ég loks komin að því að fjalla sérstaklega um fyrirliggjandi frumvarp, þ.e. frumvarp hæstv. húsnæðismálaráðherra Eyglóar Harðardóttur um almennar íbúðir. Þar sem málið er hluti af stærri heild taldi ég mikilvægt að eyða dágóðum tíma í innganginn til að varpa ljósi á samhengi hlutanna.

Frumvarp til laga um almennar íbúðir felur í sér grunn að nýju leiguíbúðakerfi að danskri fyrirmynd. Ríki og sveitarfélög leggja fram samtals 30% stofnframlag til byggingar á 2.300 íbúðum á þessu ári og næstu þremur árum vítt og breitt um landið. Framlag ríkis verður 18% af stofnvirði íbúðanna og getur falist í beinu fjárframlagi eða vaxtaniðurgreiðslu. Framlag sveitarfélaga verður 12% af stofnvirðinu og getur falist í beinu fjárframlagi, úthlutun lóðar eða lækkun eða niðurfellingu á gjöldum. Krefjast má að framlögin verði endurgreidd þegar lán af íbúðunum hafa verið greidd upp en endurgreiðslur skulu þá nýttar til að styðja við öflun fleiri almennra íbúða sé þess þörf. Ný tegund sjálfseignarstofnana, svonefnd almenn íbúðafélög eða þá almenn félagsíbúðafélög, munu halda utan um rekstur á þessum almennu félagsíbúðum. Einnig er gert ráð fyrir að leigufélögum í eigu sveitarfélaga verði heimilt að fá stofnframlög að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá verði heimilt að veita sveitarfélögum stofnframlög til öflunar íbúða fyrir þá sem þeim ber lagaskylda til að veita úrlausn í húsnæðismálum. Í frumvarpinu er mælt fyrir um að greiðslur frá eigendum almennra íbúða fari í nýjan Húsnæðismálasjóð. Ætlunin er að þegar fram í sækir styrki sjóðurinn frekari kaup eða byggingar íbúða og að almenna félagsíbúðakerfið verði þannig sjálfbært, lokað kerfi. Þá erum við að tala um nokkra áratugi fram í tímann, en það er mjög mikilvægt.

Íbúðirnar eru fyrir leigjendur sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum, en miðað er við að það taki til fólks í tveimur lægstu tekjufimmtungum. Markmiðið er að fólk geti búið í öruggu húsnæði og að kostnaður fari ekki yfir 20–25% af tekjum. Ekki er þó gert ráð fyrir að fólk þurfi að flytja úr íbúðunum fari það yfir tekju- og eignamörk. Hv. formaður velferðarnefndar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fór mjög vandlega yfir það atriði í ræðu sinni, þ.e. tekju- og eignamörkin og það sem nefndin bætti þar við. Ég ætla ekki að endurtaka það.

Ég vil tæpa sérstaklega á nokkrum atriðum úr nefndarálitinu sem er reyndar ansi viðamikið eins og gefur að skilja. Til gamans má geta þess að hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hafði eitt sinn á orði í ræðustól Alþingis að umrædd húsnæðisfrumvörp ráðherra yrðu tæpast talin í blaðsíðufjölda heldur þyrftum við að tala um rúmmetra eða fermetra í þeim efnum. Það er nokkuð til í því hjá henni.

Fyrst vil ég fjalla um ákveðin atriði varðandi stofnstyrkina sem fram koma í 13. gr. frumvarpsins. Samband íslenskra sveitarfélaga benti á að að óbreyttu frumvarpi beri ríki og sveitarfélög áhættu af því að kostnaður við almennar íbúðir fari fram úr áætluðu stofnvirði samkvæmt umsókn um stofnframlög, enda er gert ráð fyrir að stofnframlög miðist við raunverulegt stofnvirði. Til að takmarka þá áhættu leggur nefndin til að reynist endanlegt stofnvirði hærra en umsókn gerði ráð fyrir miðist stofnframlög við áætlað stofnvirði. Í því felst einnig aukinn hvati fyrir umsækjendur til að vanda til verka við áætlun stofnvirðis og halda kostnaði innan áætlana.

Útreikningar sem lagðir voru fyrir nefndina bentu til þess að nauðsynlegt væri að koma sérstaklega til móts við þá leigjendur sem verst stæðu ef leiga þeirra ætti að jafnaði ekki að vera umfram fjórðung tekna. Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar benti á að framan af við vinnslu frumvarpsins hafi verið gert ráð fyrir 4 prósentustiga viðbótarframlagi frá ríki vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga. Nefndin leggur til að heimilt verði að veita allt að 4 prósentustiga viðbótarframlag vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og íbúðarhúsnæðis sem ætlað er námsmönnum eða öryrkjum. Þar sem um sérstakan stuðning er að ræða leggur nefndin til að framlagið verði ekki endurgreitt eftir uppgreiðslu lána.

Það er mjög mikilvægt atriði sem nefndin eyddi miklum tíma í að lagfæra frumvarpið. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór einmitt vel yfir það atriði í ræðu sinni. Það er voðalega þægilegt að vera svona aftarlega á mælendaskrá, maður getur bara vitnað í hina. En það er mjög mikilvægt atriði að hægt sé að mæta þessum þjóðfélagshópum með viðbótarframlagi. Ég er mjög ánægð með þá breytingu.

Nefndin fór ítarlega yfir ýmis sjónarmið er lúta að viðvarandi markaðsbresti á húsnæðismarkaði á ákveðnum svæðum á landsbyggðinni og hvernig jafna megi út þann aðstöðumun þar við veitingu stofnstyrkja.

Fram kom á fundum nefndarinnar að sums staðar á landsbyggðinni væri skortur á leiguhúsnæði sem erfiðlega gengi að mæta því að ekki fengjust lán. Það ætti einkum við þar sem velta með fasteignir væri lítil eða markaðsverð verulega lægra en byggingarkostnaður og lánveitendur því tregir til að veita fasteignaveðlán. Í verstu tilvikum gæti jafnvel reynst ómögulegt að fjármagna leiguíbúðir þrátt fyrir 30% stofnframlag frá ríki og sveitarfélögum. Í ljósi þessara ábendinga leggur nefndin til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að veita allt að 6 prósentustiga viðbótarframlag á þessum svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki sökum þessa markaðsbrests. Um undantekningarheimild er að ræða sem nefndin gerir ráð fyrir að verði aðeins nýtt þegar ætla verður að 30% stofnframlag dugi ekki til. Nefndin leggur til hliðstæða breytingu á 16. gr. um stofnframlög sveitarfélaga. Heimildirnar verða þó sjálfstæðar. Ríki og sveitarfélagi verður þannig hvoru um sig heimilt að veita viðbótarframlag, hvort sem hinn aðilinn gerir það eður ei. Nefndin leggur þó til að sá munur verði á heimildunum að ekki megi krefjast endurgreiðslu á viðbótarframlagi ríkis eftir uppgreiðslu lána. Í því felst sérstakur byggðastuðningur frá ríki.

Ég fagna mjög þessu 6 prósentustiga viðbótarframlagi. Það er mikilvægt atriði til að gera frumvarpið betra fyrir alla landsmenn, á hvers konar markaðssvæði sem þeir kunna að búa. Það á ekki að skipta máli.

Nokkrir umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar gagnrýndu að helmingur stofnframlags ríkis, sem væri í formi beins framlags, skyldi greiddur út þegar við samþykkt umsóknar, í því fælist aukin áhætta fyrir ríkið og hætta á misnotkun. Svipuð gagnrýni kom fram varðandi stofnframlög sveitarfélaga. Á móti kom fram að fyrirkomulagið auðveldaði fjármögnun almennra íbúða og drægi úr þörf á dýrum brúarlánum, en það ætti að skila sér í lægri leigu. Hvað mögulega misnotkun varðar bendir nefndin á að Íbúðalánasjóði er falið eftirlit með eigendum almennra íbúða. Misnotkun getur varðað refsingu, og er vísað í 27. gr. frumvarpsins og almenn hegningarlög. Nefndin leggur því ekki til breytingu að þessu leyti.

Varðandi byggðasjónarmiðin taldi nefndin brýnt að gera ákveðnar breytingar á 15. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um afgreiðslu umsókna. Nefndin leggur því til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að líta til byggðasjónarmiða við mat á umsóknum um stofnframlög. Það styrkir mjög svo byggðasjónarmiðin í frumvarpinu enn og aftur. Það gæti t.d. átt við ef skortur á leiguhúsnæði stæði atvinnuuppbyggingu í byggðarlagi fyrir þrifum. Byggðasjónarmið koma einnig til skoðunar við mat á því hvort veita beri viðbótarframlag vegna íbúða á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði við fjármögnun.

Ég ætla að láta staðar numið við þessi atriði, þ.e. stofnstyrkina og framlögin. Mig langaði aðeins til að koma inn á þau atriði sem nefndin fjallaði um varðandi ákvörðun leigufjárhæðar og félagslega blöndun. Eitt af markmiðum frumvarpsins var að tryggja félagslega blöndun. Við viljum alls ekki að byggðar séu íbúðir í einhvers konar klösum og að þar verði til einhvers konar gettó, ef ég má orða það sem svo. Við vildum finna leiðir til að svo yrði ekki.

Við gerðum okkar besta og ég ætla að grípa aðeins niður í nefndarálitið. Í 1. og 2. málslið 1. mgr. 19. gr. frumvarpsins er áskilið að leiga fyrir almennar íbúðir miðist við áfanga, þ.e. stofnframlög á 12 mánaða tímabili. Fyrir nefndinni kom fram að þessu ákvæði væri ætlað að gera leiguna fyrirsjáanlegri. Leigjendur gætu treyst því að leiga hækkaði ekki vegna þess að almennt íbúðafélag réðst í öflun nýs og dýrara húsnæðis og leigjendur í ódýrari hverfum þyrftu ekki að greiða niður leigu leigjenda í dýrari hverfum. Einnig voru færð rök fyrir því að áskilnaðurinn takmarkaði áhættu almennra íbúðafélaga því að afmarkaðir áfangar kæmu ekki félögunum í heild í koll. Áskilnaðurinn sætti talsverðri gagnrýni. Bent var á að leiga fyrir nýjar íbúðir gæti orðið mjög há ef eigendum íbúðanna væri ókleift að nýta leigu af eldri og skuldlausum íbúðum til að styðja við afborganir af lánum á nýjum íbúðum. Það væri einnig visst réttlætismál að leigjendur greiddu sambærilega leigu fyrir sambærilegar íbúðir. Þá var bent á að jöfnun leiguverðs milli hverfa væri liður í félagslegri blöndun. Ef eigendum almennra íbúða væri óheimilt að nýta leigu af íbúðum í ódýrari hverfum til að styðja við leigu í dýrari hverfum væri hætt við því að leiga í dýrari hverfum yrði of há fyrir tekjulága leigjendur. Eigendur gætu þannig neyðst til að hafa íbúðir aðeins í ódýrari hverfum. Með því væri unnið gegn félagslegri blöndun. Nefndin telur ekki hafa komið fram að jöfnun leiguverðs milli almennra íbúða í eigu sama aðila feli í sér hættu á verulegum sveiflum í leiguverði. Nefndin telur hana jafnvel geta dregið úr verðsveiflum, enda væri þá hægt að mæta sveiflum í kostnaði af sumum íbúðum með leigutekjum af öðrum. Nefndin fær heldur ekki séð að áfangaskipt leiga takmarki áhættu eigenda íbúðanna, enda hnikar hún ekki ábyrgð þeirra á íbúðum í sinni eigu og lánum sem á þeim hvíla. Nefndin fellst aftur á móti á fram komna gagnrýni á áskilnaðinn.

Nefndin leggur því til að ákvæði um áfangaáskilnað verði fellt brott og ákvörðun leigu verði sveigjanlegri.

Ég sé að tími minn er á þrotum, ég get ekki farið dýpra í málið en ég veit að fleiri þingmenn eru á mælendaskrá sem munu e.t.v. fjalla um fleiri atriði í þessu viðamikla frumvarpi. Mig langar að gera líkt og félagar mínir í velferðarnefnd hafa þegar gert, að þakka fyrir einkar gott samstarf. Það er engin helgislepja á þessum góða degi, síður en svo, það er sannleikanum samkvæmt. Við höfum öll sem eitt lagt okkar af mörkum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það skipti engu máli í vinnu okkar og ég get alveg talað fyrir okkur öll. Við vorum einhuga við að leita lausna og við reyndum að finna málamiðlanir. (Forseti hringir.) Við erum sammála um að við höfum í höndunum sterkt frumvarp sem ég vona að við getum klárað í þinglegri meðferð sem fyrst (Forseti hringir.) í þeim tilgangi að bæta húsnæðismarkaðinn á Íslandi. Það er svo sannarlega kominn tími til þess.



[14:05]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga frá félagsmálaráðherra um almennar íbúðir. Frumvarpið var hluti af samningum á almennum vinnumarkaði síðastliðið haust og var einn mikilvægasti þátturinn í lúkningu þeirra samninga.

Eins og fram hefur komið í máli margra þingmanna hefur ríkt mikil eindrægni við að ljúka gerð frumvarpsins og margar góðar ræður hafa verið fluttar og farið djúpt í málið. Ég ætla ekki að endurtaka allt það sem hér hefur verið sagt, en mér finnst að markmið og gildissvið þessara laga, sem kemur fram í 1. gr., megi ítreka aðeins betur.

„Markmið laga þessara er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu og tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Í því skyni skulu ríki og sveitarfélög veita stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.“

Minn skilningur er sá að við náum markmiðum og gildum í þessu frumvarpi, sem var náttúrlega megininntakið, og svörum þeim óskum sem fram komu í starfi 32 manna nefndar sem hafði fjallað um málið í langan tíma áður en frumvarpið varð til. Það kom síðar í ljós að nefndin þurfti nánast að endurskrifa frumvarpið, eins og hér hefur komið fram, og þá kom líka í ljós þessi eindregni vilji til að klára málið.

Frumvarpið miðast fyrst og fremst við einstaklinga, fjölskyldur, sem hafa tekjur og eignir undir ákveðnum mörkum. Þar eru sem sagt tekjur einstaklinga undir 4,3 millj. kr. og hjóna undir 6 millj. kr. á ári og hreinar eignir verða að vera minni en 4,7 millj. kr.

Helstu atriði frumvarpsins, sem mig langar þó að drepa á í stuttri ræðu, eru að mínu mati þau að grundvöllur þessara laga eru stofnframlög ríkisins og sveitarfélaganna upp á 30% samtals, eða 18% frá ríkinu og 12% frá sveitarfélögunum, sem eru afturkræf, reyndar ekki fyrr en eftir að búið er að greiða upp lánin af íbúðunum sem við gerum ráð fyrir að verði til 50 ára. Stofnframlögin verða þá endurgreidd eftir 50 ár vaxtalaust.

Reyndar fer framlag ríkisins í Húsnæðismálasjóð, sem þá mun halda áfram að vaxa og dafna, vegna þess að við erum að vona að hér sé það traust og gott kerfi í smíðum að til langrar framtíðar verði það sjálfbært; það er von okkar allra að svo verði. Þess vegna var til þess vandað.

Það kemur líka fram að eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er skilgreiningin á hámarki leigunnar sem er 20–25% af tekjum þeirra sem þarna búa. Í mörgum tilfellum eru það ekki háar tekjur þannig að leigan getur verið á bilinu 50–80 þús. kr. á mánuði. Þess vegna eru stofnframlögin afar mikilvæg til að tryggja rekstur félaga og getu til að standa undir kostnaði við byggingar og rekstur með svo lágri leigu.

Það kom því í ljós að 50 ára lánstími var nauðsynlegur í staðinn fyrir, ef ég man rétt, 30 ára lánstíma sem gert var ráð fyrir í fyrstu drögum frumvarpsins. Þar nutum við leiðsagnar fulltrúa frá Félagsstofnun stúdenta og Félagsíbúðum, sem höfðu mikla reynslu í þessu máli, og þeim verður seint þakkað fyrir þeirra góða framlag. Þeir komu í nokkur skipti til nefndarinnar og báru með sér svolítið vit inn í vinnuna, og var það vel þegið.

Síðan hefur komið í ljós í meðförum málsins, eins og hér hefur rækilega verið minnt á, að í sérstökum tilfellum er heimilt að sveitarfélögin leggi til 4 prósentustiga viðbótarframlag og ríkið, í gegnum Íbúðalánasjóð, 6 prósentustiga óafturkræft framlag til viðbótar til að byggja íbúðir fyrir námsmenn og öryrkja. Það er afar mikilvægt skref og að mínu viti gæti þetta nýst mjög vel á landsbyggðinni þar sem aðstæður eru oft og tíðum sérstakar. Víða hefur ekki verið byggt í langan tíma og ég veit að beðið er eftir samþykkt þessa frumvarps svo að framkvæmdir geti hafist.

Það er líka einn góður kostur við þetta frumvarp, sem við lögðum mikla áherslu á í nefndinni, að enginn afsláttur er gefinn af gæðum íbúðanna, svo að fólk geti búið þarna langa ævi, fram á ævikvöldið, og notið þess að búa í húsnæði sem því líkar við og í umhverfi sem það er sátt og ánægt með. Jafnvel þó að fólk fari á þeim tíma yfir það hámarkstekjumark sem sett er í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að á þriggja ára tímabili verði leigan hækkuð hóflega. Það er gert til að tryggja að þeir einstaklingar sem vilja búa í þessu umhverfi og á þessum stöðum, eru væntanlega glaðir og ánægðir þar, geti gert það áfram þrátt fyrir að tekjuviðmiðið fari upp fyrir ákveðin mörk. Okkur fannst gríðarlega mikilvægt að það væri tryggt.

Að þessu sögðu, þessum stuttu punktum sem ég fer yfir, finnst mér að við séum að leggja drög að góðu kerfi til framtíðar. Ég trúi því. Ég reikna með að þegar þetta verður komið í gang verði alltaf hægt að bæta það, annaðhvort með því að leggja inn í það aukið fjármagn eða bæta það á annan hátt.

Ég held því að við séum að leggja upp með góða vinnu sem náðist, eins og hér hefur margsinnis komið fram, í þverpólitískri sátt. Ég vil enn og aftur undirstrika það sem hér hefur verið sagt um það, það er í raun alveg kostulegt hvernig fjölmiðlar hafa nánast í allan vetur margsagt frá því að þetta frumvarp væri ekki að ná fram að ganga vegna óeiningar í þinginu og vegna óeiningar milli stjórnarflokkanna og óeiningar milli meiri og minni hluta. Þetta er allt saman kjaftæði. Þessi óeining og þessi ófriður hefur aldrei verið til staðar.

Við höfum vissulega þurft að fara vel yfir þetta frumvarp. Við höfum þurft að endurskrifa margar greinar þess. En það var allt gert í gríðarlegri sátt, eins og hér hefur komið fram, hjá öllum fulltrúum allra flokka. Það er eins og fjölmiðlar hafi bara ekki þolað að um þetta mál ríkti ekki ófriður; það er eins og það megi ekki ríkja friður um eitt einasta mál í þinginu.

Hér var algjör friður um þetta mál og við erum að skila góðri vinnu. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann segir að fólk ætti að hafa í huga að oft sé unnið vel og lengi í þinginu. Ég hef líka margoft sagt það við fólk sem hefur heyrt ýmislegt um þingið að hér sé vel unnið og að allir séu að leggja sig fram um að gera sitt besta á þessum vinnustað.

Ég get ekki látið hjá líða að þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir hennar forustu í þessu máli og framsögumanninum, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, fyrir gríðarlega mikla vinnu sem hún lagði á sig í þessu starfi. Það var eiginlega önnur vinna að vera með þetta mál á sinni könnu. Hún gerði það af miklum dugnaði og mikilli elju og áhuga fyrir málinu. Ég vil þakka henni fyrir hennar framlag í þessu verkefni.

Ég er ekki þannig persóna að ég sé mikill, eins og sagt er á vondri íslensku, „nitty gritty“ maður — ég göslast frekar áfram og klára málin fljótt og ákveðið. En þetta mál þurfti virkilega yfirlegu og ég var oft bæði undrandi og glaður yfir að horfa á og fylgjast með samstarfsfólki mínu í nefndinni. Vil ég þá sérstaklega nefna hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir þeirra mikla framlag. Það var gaman að hlusta á þau, hvað þau höfðu lagt sig mikið fram um að vanda til verka.

Það er gaman, þegar við erum komnir í höfn með málið, að horfa til baka og sjá hvað þetta var vel gert þó að ég sjálfur hafi kannski ekki átt stærsta þáttinn í því eins og ég sagði hér áðan. En það var lærdómsríkt að vera háseti á þeim bát sem kom með þennan afla í land. Það er alveg klárt. Það var lærdómsríkt fyrir mig. Það var líka gaman að starfa með ritara nefndarinnar, Gunnlaugi Helgasyni, sem er gríðarlega öflugur, tiltölulega nýr liðsmaður í okkar hópi á þinginu; að fylgjast með þeim unga lögfræðingi, hvað hann var ráðagóður í öllu starfi nefndarinnar og lagði margt gott til. Hann eins og fleiri eiga allir þakkir skildar.

Ég ætla ekki að hafa þetta mál mitt lengra að svo komnu máli. Ég tel að með þessu frumvarpi séum við að stíga gott skref til framtíðar fyrir þennan hóp sem við erum að tryggja leiguhúsnæði á hóflegu verði. Við ætlum að halda áfram á sömu braut, klára þau verkefni sem við erum með og klára lög um húsnæðisbætur. Þá munum við loka þessum hring og standa við það sem við lofuðum í sátt.



[14:17]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að kveðja mér hljóðs um þetta frumvarp til laga um almennar íbúðir sem velferðarnefnd hefur nú komið frá sér. Það verður að segjast eins og er, þrátt fyrir orð hv. þingmanns hér rétt áðan, að það var vissulega uppi ágreiningur og ekki hefur neinn dregið dul á það í sjálfu sér, en hann var leystur, eigum við ekki að orða það þannig. Það er kannski það sem er jákvætt í þessu, að ágreining er hægt að leysa ef vilji er fyrir hendi til þess. Við skulum vona að það haldi alla leið og lýsi sér í atkvæðagreiðslunni að okkur hafi tekist að vinna þetta með þeim hætti. Ég hugsa að það hafi komið sér vel að hafa reynslubolta í nefndinni, mér heyrist að svo hafi verið og reynslan hafi skipt máli í því tilfelli, hvernig ætti að bera sig að og horfa í ýmsa hluti sem við hinir yngri og nýrri þingmenn áttum okkur ekki endilega alltaf á.

Þrátt fyrir að maður sé ánægður með að frumvarpið sé komið fram og voni að það nái fram að ganga, er það vissulega svo að það fer ekki að kveða að því fyrr en eftir um tvö ár, fólk fer ekki að njóta afraksturs þess fyrr en eftir tiltekinn tíma. En þetta er áfangi á leið sem ég held að við getum verið sammála um að sé ágætur. Það hefur margt mikilvægt áunnist í meðferð málsins, t.d. að auka framlög ríkisins og sveitarfélaganna eins og hér hefur verið rakið, það er almennt 18% af stofnvirði íbúðanna frá ríkinu og 12% frá sveitarfélögunum. Það er mikilvægt fyrir sveitarfélög sem eru misvel stödd að þurfa ekki endilega að reiða það fram í beinu fjármagni heldur geti það falist í úthlutun lóðar eða lækkunar á gjöldum. Ég held að sá sveigjanleiki sé afar mikilvægur fyrir sveitarfélögin því að eins og við höfum séð í ríkisfjármálaáætlun þá eru þau mörg hver því miður ekki eins vel stödd og ríkissjóður, sérstaklega ekki á köldum svæðum, og eiga þess þá kost að fá viðbótarframlag eins og kom fram áðan.

Ég ætla að stikla hér á stóru enda er ég kannski meira áheyrandi að þessu máli, hef reynt að fylgjast með og setja mig inn í það, og hef ekki verið í þessari vinnu en hef notið þess að okkar þingmaður í velferðarnefnd hefur reynt að upplýsa okkur í þingflokknum mjög reglulega um þetta.

Sú breyting sem nefndin gerir á frumvarpinu sem snertir það að leigan verði ekki meira en 20–25% af tekjum er auðvitað afskaplega mikilvæg til að halda inni þessum viðkvæma hópi eins og við tölum gjarnan um það fólk sem höllum fæti stendur og á erfiðara en margur að komast í viðunandi húsnæði. Það skiptir gríðarlega miklu máli að ekki fari meira en fjórðungur af tekjum í leiguna því að það er auðvitað margt annað sem þarf að nýta fjármunina í, hvort sem það er rafmagn og hiti eða það að fá sér að borða.

Það er líka afar mikilvægur áfangi sem mér fannst nást í meðförum málsins að geta dreift byggingarkostnaðinum þannig að leigan dreifist jafnt yfir og hver eining standi ekki út af fyrir sig, en það þýddi aukinn kostnað fyrir suma og aðra ekki. Það komu að ég held ábendingar frá Brynju og fleiri aðilum um að ekki væri skynsamlegt að hafa það með þeim hætti. Ég er ánægð með að það náði fram að ganga. Það kemur fram í nefndarálitinu um 19. gr., um ákvörðun leigufjárhæðar, að þetta væri m.a. gert til að gera leiguna fyrirsjáanlegri þannig að leigjendur gætu treyst því að hún hækkaði ekki vegna þess að það væri verið að byggja annað og dýrara húsnæði. Svo þarf líka að taka með í reikninginn þá aðgreiningu sem við vinstri græn höfum a.m.k. talað mikið gegn, að ekki sé verið að safna saman fólki sem býr við bágari kjör á einhvern tiltekinn stað heldur geti það valið sér búsetu í rauninni hvar sem er í sveitarfélögunum. Það er afskaplega mikilvægt í öllu samhengi.

Annað sem við höfum rætt mikið í þessu sambandi er byggingarreglugerð og það að draga úr kröfum gagnvart henni. Ég er afskaplega fegin að sjá að í 18. gr. er farið vel yfir það að ekki eigi að slá af kröfum tímans um sómasamlegt húsnæði og framtíðarþarfir, þ.e. að þær kröfur eru gerðar til íbúðanna að fólk geti elst í þeim og búið þar áfram þrátt fyrir aldur eða annarra hluta vegna, jafnvel þótt það þurfi aukna aðstoð eða eitthvað slíkt með árunum sem kallar á rýmri eignir en áður var gert ráð fyrir. Það er afskaplega mikilvægt. Íbúðir stúdenta og aðrar slíkar lúta svo öðrum lögmálum eins og farið hefur verið yfir, og hægt að gera minni kröfur til þeirra að ýmsu leyti, því þær eru yfirleitt ekki ætlaðar til framtíðarbúsetu heldur aðeins meðan á námi stendur.

Það kemur líka fram að þessar íbúðir séu kannski ekki sérlega íburðarmiklar og ætla megi að þeir sem öðlast meiri tekjur eða eignast eitthvað komi til með að sækja í veglegra húsnæði. Það skiptir líka máli að huga að því þannig að hér er gert ráð fyrir að reikna megi álag á leigu ef tekjur eða eignir leigjenda eru umfram viðmið, sem tekið er fram í 12. gr., í samfellt þrjú ár, sem á að koma í veg fyrir að jaðaráhrif af þessari hækkun verði of mikil. Það er því verið að reyna að ná utan um þetta.

Aðeins um framkvæmdasjóðinn, en gert er ráð fyrir að íbúðafélögin verði með svokallaðan framkvæmdasjóð. Auðvitað hlýtur að þurfa þannig sjóð, eðli málsins samkvæmt, það þarf að halda öllu við. Hér er vísað til Dana, að þeir séu með svipað íbúðaform og það hafi komið í ljós að nauðsynlegt væri að skylda íbúana til að halda sérstakan sjóð til þess að hægt væri að standa undir viðhaldi og endurbótum. Nefndin leggur til þá breytingu að hann heiti viðhaldssjóður en ekki framkvæmdasjóður. Það skiptir kannski ekki höfuðmáli í sjálfu sér, en aðalmálið er gert sé ráð fyrir þessu þannig að fólk viti að hluti af leigunni fer í sjóðinn.

Hér hefur líka verið rætt um Húsnæðismálasjóð sem ég held að sé góð leið til að byggja upp, því að við vitum að þetta skref er aðeins dropi í hafið og felur í sér bara örfáar íbúðir á næstu árum. Það er langur gangur fram undan til að uppfylla kröfur sem við stöndum frammi fyrir í dag og í sjálfu sér er ekki búið að leysa þann vanda sem við okkur blasir. Eins og ég sagði áðan þá koma áhrif þessa frumvarps ekki til góða fyrr en eftir töluverðan tíma. Þess vegna þurfum við líka að huga að því hvernig við ætlum að taka á málum í dag. En varðandi Húsnæðismálasjóð, þá fara stofnframlög, þegar þau verða endurgreidd, í þann sjóð sem á svo að verða sjálfbær til þess að hægt verði að halda áfram verkefninu og byggja meira. Þar er tíminn lengdur, mig minnir að hann hafi verið lengdur úr 30 árum í 50, þ.e. að endurgreiðslutíminn hefjist eftir 50 ár sem getur skipt verulega miklu máli, líka vegna greiðslugetu hverju sinni.

Ég ætla að stinga mér aftur í stofnframlögin, viðbótarstofnframlögin, þar sem nefnt er að það gæti verið erfitt og jafnvel ómögulegt að fjármagna leiguíbúðir á litlum svæðum. Í hinum dreifðu byggðum þar sem maður fer um kjördæmið þar sem er lítil fólksfjölgun og framkvæmdakostnaðurinn við byggingar er miklu hærri en endursöluverð, þá sér maður að það leggur eiginlega enginn í að fara að byggja, það er bara svoleiðis. Það þarf að koma til einhvers konar opinber stuðningur, það er skortur á húsnæði jafnvel, þannig að sveitarfélögin haldi áfram að þrífast eins og maður segir og hinar dreifðu byggðir landsins. Þess vegna er mikilvægt að lagt er til að gefin verði heimild fyrir viðbótarfjármagni, þó að það eigi að vera í algjörum undantekningartilfellum. Ég veit ekki hvort það er algerlega skýrt í álitinu hvað þarf að liggja að baki til að hægt verði að fá viðbótarframlag. Er það markaðsverðið eingöngu? Þetta er væntanlega samsafn af einhverjum þáttum, kannski að ekki hafi verið byggt í X mörg ár, eitthvað hlýtur að liggja að baki sem ég hef ekki kannski komið auga á sem verður til þess að sveitarfélög geta óskað eftir viðbótarframlagi. Það er mjög mikilvægt að framlagið er óafturkræft því að það gefur miklu meiri hvata til þess að sveitarfélög leiti eftir því að byggja húsnæði. Menn verða líka að átta sig á því að ekki er verið að fara að byggja blokkir úti um allar koppagrundir. Það eru heldur ekki byggingarfélög eða leigufélög nema á örfáum stöðum á landinu. Á stærstu stöðunum eru til leigufélög eða eitthvað í þeirri líkingu. Annars staðar eru það sveitarfélögin eða einstaka byggingarverktakar sem hafa verið áræðnir og byggt, en það er oftast þar sem einhver uppgangur hefur verið. Það hefur nú ekki alltaf farið vel eins og við sáum m.a. fyrir austan, á Egilsstöðum, þar sem blokkir hafa lengi staðið tómar en vonandi er að verða bragarbót á því. Sá viðbótarstuðningur sem ríkið getur veitt er því kostur og hann er líka mikilvægur í því samhengi að ef sveitarfélagið er ekki í stakk búið til þess að veita þá viðbót þá getur ríkið samt sem áður veitt hana, þ.e. annar aðilinn getur veitt viðbótarframlag án þess að hinn geri það. Ég held að það sé líka afskaplega mikilvægt.

Þetta er það sem mér finnst vera stóru punktarnir í frumvarpinu, þeir hlutir sem ég hef farið yfir, þetta er það sem ég horfi til þegar ég lít til hinna víðu og dreifðu byggða og hvort þar geti verið möguleiki á að byggja húsnæði. Svo er það auðvitað spurning um félagslegu íbúðirnar þar sem við vitum að félagsíbúðir eða félagslegar íbúðir eru mjög íþyngjandi hluti fyrir mjög mörg sveitarfélög, sem eru með þær í reikningnum sínum. Það væri vert að velta því fyrir sér hvort sveitarfélögin gætu stofnað um þær sérstakt félag, eitthvert utanumhald, sem væri séreining og kæmi ekki inn í skuldahlutfall sveitarfélaganna. Nú veit ég ekki hvort það er framkvæmanlegt, en það væri vel þess virði að athuga það því að það mundi breyta heilmiklu í sjálfu sér, þó að bakábyrgðin væri til staðar, varðandi lánshæfi og annað slíkt fyrir þau.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég vænti þess að málið nái fram að ganga með þeim ágætu breytingum sem hér hafa verið raktar ágætlega í dag og þetta verði, eins og hér hefur verið sagt, sameiginleg niðurstaða um fyrsta skref í langri göngu, því að þetta er bara eitt af mörgum skrefum sem þarf að taka. Það er langt liðið á kjörtímabilið og því miður ljóst að við sjáum ekki afraksturinn fyrr en eftir kannski tvö ár eða svo. En þetta er áfangi.



[14:32]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég held að þetta sé mjög merkilegt frumvarp og mjög merkileg lagasetning sem við erum í miðju kafi við að fara yfir. Hún hefur tekið tíma og eftir því sem okkur er sagt sem ekki störfum í velferðarnefndinni þá hefur farið fram mjög mikil vinna þar. Það má reyndar sjá á breytingartillögum sem fylgja frumvarpinu að nefndin hefur breytt frumvarpinu allnokkuð frá því að það var lagt fram. Það er svo sem ekki nema eðlilegt og nefndarmenn segja okkur að almennt hafi verið góður samvinnuandi í nefndinni og þau hafi lagt mikið upp úr því að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það er ánægjulegt. Því miður er það svo að fréttaflutningur af Alþingi gengur oft út á það að hér sé allt í óeiningu og upphlaupum og veseni, en sú er ekki raunin því að þegar við fáum inn á okkar borð mál sem við getum sameinast um reynum við allt sem hægt er til að gera það.

Síðan eru önnur mál sem eðli samkvæmt skipta okkur í ólíka stjórnmálaflokka og þá erum við náttúrlega ekki sammála. Það þýðir ekki að alltaf sé hver höndin upp á móti annarri í þessum húsakynnum. Það er eðlilegt að fólk úr hinum ýmsu stjórnmálaflokkum greini á. Okkur greinir t.d. á um það hvernig best sé að leggja á skatta, hver besta aðferðin sé til þess að leggja á skatta. Við í Samfylkingunni tölum mjög fyrir þrepaskiptum tekjuskatti vegna þess að við teljum að hann skili mestum og bestum árangri í því að jafna lífskjör fólks í landinu, aðrir eru á annarri skoðun, en þegar að því kemur tökumst við á um það. Við erum hins vegar öll sammála um það, og ekki bara hér heldur er allt fólk sammála um það, að almennilegt húsnæði fyrir alla sé ein af þeim grunnþörfum fólks og okkur ber að reyna að koma málum þannig fyrir að allir geti búið í góðu húsnæði.

Fólk getur greint á um aðferðina til að gera það. Það hefur gerst í þessari vinnu, fólk hefur greint á um hvaða aðferð sé best til að ná á þessu markmiði. En nefndin hefur komist að niðurstöðu og birtir hér nefndarálit með allnokkrum breytingartillögum. Að vísu mun eitthvað standa út af enn þá, þess vegna segir nefndin að hún þurfi að taka málið aftur til sín eftir 2. umr. Það er heldur ekki óeðlilegt, þótt menn geri stundum mikið úr því og láti í það skína að það sé merki um óeiningu þegar mál þurfa að fara aftur til nefndar eftir 2. umr. Það er einmitt þess vegna sem þingstörfin eru ákveðin þannig að þegar stór mál eru til umræðu, eins og þetta, hefur nefndin tækifæri eftir 2. umr., sem er stærsta umræðan í þinginu, til að gera lagfæringar sem hún telur skipta máli.

Ég segi þetta vegna þess að fréttaflutningur af störfum þingsins fer í taugarnar á mér, það að þeir sem flytja fréttir héðan skuli alltaf leggja miklu meira upp úr ágreiningi en því þegar menn leggja sig fram, eins og hefur verið gert í þessari vinnu, um að ná samstöðu í stórum og mikilvægum málum.

Í þessu frumvarpi er markmiðið að koma upp kerfi þar sem verður til leið og leigumarkaður og ríkið og sveitarfélögin leggja þeim leigumarkaði lið. Markmiðið er að fólk geti leigt góðar íbúðir og leigan verði ekki yfir 20–25% af tekjum einstaklinga. Þetta skiptir verulega miklu máli, virðulegi forseti.

Síðan eru tæknilegar útfærslur á ýmsum hlutum eins og vera þarf með frumvarpi af þessu tagi. Það er séð til þess að myndaður sé sérstakur viðhaldssjóður og að lagðir verði peningar í hann, sem er ekki vanþörf á, við þekkjum það öll. Ég vil taka sem dæmi að því miður er það ljóður á öllum fasteignum sem ríkið rekur hvað þeim er illa viðhaldið og hvernig opinberar byggingar sem eru í eigu okkar allra eru oft látnar drabbast niður. En hérna er séð til þess að stofnaður verði sérstakur viðhaldssjóður sem á að koma í veg fyrir að íbúðir drabbist niður. Það tel ég góða fyrirhyggju.

Ég vil líka nefna það sem hér er um að hægt sé að færa leigu á milli, litið er á húsnæðisfélög sem stofnuð eru sem eina heild. Auðvitað er búið að greiða meira niður af eldri íbúðum og þá segja menn þegar byggðar eru nýjar íbúðir að það séu dýrar íbúðir og þess vegna ætti leigan á nýrri íbúðum hugsanlega að vera hærri en á gömlu íbúðunum. Ég er alveg ósammála því. Ég er sammála því sem er gert í frumvarpinu, að þarna sé hægt að færa á milli áfanga. Það hlýtur líka að þýða með viðhaldssjóðnum að eldri íbúðirnar verði gerðar upp og þá verður ekki svo mikill gæðamunur á eldri og nýrri íbúðum. Ég held að þetta hafi verið kallað í vinnu nefndarinnar áfangaskipti í byggingu þessara íbúða og ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að það sem lagt er til í frumvarpinu sé kostur.

Það er eitt sem menn geta sagt að sé smáatriði og skipti ekki meginmáli í vinnu af þessari tegund en ég rak augun í það þegar ég fór yfir þetta í gærkvöldi og í morgun að gerð er breytingartillaga í frumvarpinu um heitið á frumvarpinu, um heitið á þessum íbúðum. Í stjórnarfrumvarpinu er talað um almennar íbúðir en allt í einu er farið að tala um félagsíbúðir. Ég hugsaði með mér hvort það skipti máli hvort við tölum um almennar íbúðir eða félagsíbúðir og ég held að það skipti máli, vegna þess að við erum bara að tala um íbúðir. Við erum að tala um leiguíbúðir og ég skil ekki af hverju þarf að setja það heiti á þær að þetta séu félagsíbúðir vegna þess að ríki og sveitarfélög veita styrki til byggingar þessara íbúða. Mér finnst þetta skringilegt. Þegar ég heyrði fyrst af því að ágreiningur væri um þessa nafngift fannst mér sá ágreiningur frekar lítilfjörlegur en ég hef skipt um skoðun í því efni, mér finnst þetta skipta máli og mér finnst asnalegt að gefa þessum íbúðum sérstak nafn.

Virðulegi forseti. Ég vil líka lýsa ánægju minni með það sem ég hef heyrt frá nefndarmönnum og þeim sem fylgjast með málinu utan frá. Þegar frumvarpið kom fyrst inn heyrðum við af því að hjá Félagsstofnun stúdenta og Félagsbústöðum, sem eru í Reykjavík, hefðu menn áhyggjur af frumvarpinu og því að starfsemi þeirra, ef má orða það svo, rúmaðist illa innan þess, en því hefur verið breytt og menn una nú vel við frumvarpið eins og það er lagt fram hjá bæði Félagsbústöðum og Félagsstofnun stúdenta. Ég held að það skipti verulega miklu máli að við setjum ekki lög sem skemma fyrir eða gerir starfsemi sem gengur vel og hefur blómstrað erfitt fyrir. Mér finnst því ánægjulegt að náðst hefur samkomulag um þetta.

Ég held að á sama tíma og við erum öll sammála um þetta þá gerist það oft að við verðum alveg ótrúlega meðvirk. Annars vegar er svo gaman saman hjá okkur en hins vegar er hver höndin upp á móti annarri. Ég held að við þurfum að læra af því, sem við gerum alltaf, t.d. í tilfelli þessa frumvarps. Nú eru þrjú ár liðin af þessu kjörtímabili. Á síðasta kjörtímabili var mikið unnið í þessum málum, mjög mikið. Í stað þess að halda áfram með vinnuna þá var, eftir því sem ég hef best fylgst með, eiginlega byrjað alveg upp á nýtt, byrjað frá grunni, eins og lítil vinna hefði átt sér stað. Mér finnst að við þurfum að læra að halda áfram með þau verk sem unnin hafa verið. Við eigum von á því að það verði kosningar hér í haust og þá tekur við nýtt kjörtímabil og þá tekur við ný ríkisstjórn. Mér finnst að við eigum að heita sjálfum okkur því að í málum sem mikið hefur verið unnið í, nú eru t.d. önnur húsnæðisfrumvörp sem eru ekki jafn langt komin og þetta og segjum að þau komist ekki áfram, ég vil skora á þá sem taka við eftir næstu kosningar að halda áfram með þá vinnu sem hefur verið unnin, alveg eins og með vinnu sem hefur verið unnin í heilbrigðismálum og svona. Við eigum ekki að stunda það, sem hefur því miður mikið verið gert, að henda vinnu sem unnin hefur verið, þótt við höfum ekki sjálf, hvert og einstakt, verið með puttana í henni.

Ég vil líka nefna það sem ég sagði í störfum þingsins áðan að það er undarlegt hvernig mál raðast á dagskrá þingsins. Eitt sem þarf að taka til mjög gagngerrar endurskoðunar er að nefndarálitinu sem kom frá þessari nefnd, eftir þá miklu vinnu sem fólk vann þar, og menn hafa hrósað hver öðrum hér í hástert og ég geri það líka, skuli hafa verið útbýtt rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi eða alla vega eftir kl. átta. Það er ekki góður bragur á því, virðulegi forseti. Við verðum að heita sjálfum okkur því að láta af vinnubrögðum af því tagi.

Mér skilst að ég sé síðasti ræðumaður til að tala hér í dag um þetta mál, fyrir utan að framsögumaður talar væntanlega aftur. Það er nokkuð undarlegt vegna þess að þetta er mikið mál sem skiptir okkur öll miklu máli og skiptir kjósendur okkar máli og er mikill áfangi í vinnu sem unnin hefur verið. En af hverju er það, virðulegi forseti? Það er vegna þess að við hérna inni erum bara manneskjur. Það sést á því hvað maður getur farið djúpt í málin og það sést á þeirri ræðu sem ég held núna að ég hef ekki haft þann tíma sem þarf til að lesa nefndarálit og fara djúpt í þau mál sem skipta máli. Ég ákvað hins vegar að koma upp til að segja að ég fagna því að þessum áfanga er náð. Ég fagna þeirri vinnu sem unnin hefur verið og vonast til að þetta mál nái í höfn því að það skiptir miklu máli. Við þurfum líka að átta okkur á því að það er ekki þannig ef frumvarpið verður samþykkt að það verði til nýtt kerfi, það tekur náttúrlega tíma að byggja það upp og það þarf að komast í gang og svoleiðis.

Virðulegi forseti. Þetta var það sem ég vildi sagt hafa. Ég fagna því að málið er komið svo langt sem það er en tel að við getum lært ýmislegt af framgangi þess og lofað sjálfum okkur bót og betrun í vinnubrögðum á Alþingi Íslendinga.



[14:51]
Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir verulega góða umræðu. Hún hefur verið afar ljúf og góð, upplýsandi og gagnleg, um nefndarálitið um frumvarp um almennar íbúðir. Ég vil enn og aftur nota tækifærið til að þakka fyrir mjög góða samvinnu allra nefndarmanna í hv. velferðarnefnd. Auk þess þakka ég hv. þingmönnum fyrir falleg orð sem hér hafa fallið í ræðum í minn garð. Mér þykir afar vænt um þau.

Að því sögðu vil ég bara vísa málinu um almennar íbúðir inn í velferðarnefnd að nýju þar sem við ætlum að skoða örfáa liði frumvarpsins, leggjast örlítið betur yfir m.a. Húsnæðismálasjóðinn og taka ágætissyrpu á frumvarpinu þar og afgreiða sem fyrst aftur út úr nefndinni til 3. umr. þar sem hv. þingmönnum gefst tækifæri til að flytja ræður og tala um þau atriði sem þau vilja ræða. Eins og ég segi vísa ég málinu aftur til hv. velferðarnefndar og þakka fyrir góða umræðu.



[14:53]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég mun alls ekki lengja þessa umræðu mikið. Ég tek undir með framsögumanni, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, að hér hefur verið ágætisumræða um þetta mál. Hún hefði að ósekju að mínu mati mátt vera enn breiðari og hefði verið gaman að heyra hér í forustumönnum flokka og jafnvel sjá framan í einstöku ráðherra þegar við ræðum þennan risavaxna málaflokk sem eru húsnæðismálin. Vonir hafa verið bundnar við að hér væri verið að koma með talsvert innlegg í úrbót þeirra mála, að minnsta kosti á einu sviði sem varðar framboð á leiguíbúðunum.

Ég held að það sé þó rétt að vera niðri á jörðinni hvað það snertir að jafnvel þótt þessi áform gangi eftir og hér verði byggðar nokkur hundruð íbúðir í fjögur, fimm ár miðað við fyrstu áform eða fyrsta plan, er það næstum eins og dropi í hafið vegna þess að það þarf svo miklu meira til. Við munum með þessu einu ekki vinna að neinu ráði niður kúfinn sem þarf að gera til þess að komist á eðlilegt jafnvægi á fasteignamarkaði til dæmis hér á höfuðborgarsvæðinu. Að sjálfsögðu gerum við ráð fyrir að bæði einstaklingar og aðrir aðilar byggi íbúðir. Þetta hjálpar til og lagar vonandi aðeins hlutföllin á fasteignamarkaði að framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum vex hlutfallslega.

En það væri mikið óraunsæi að halda að þetta leysi allan þann vanda sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í sambandi við húsnæðismál, því miður er það ekki svo. Í raun og veru er það þannig að þegar liggur fyrir að það þarf umtalsvert meiri fjármuni inn í þetta af hálfu ríkis og sveitarfélaga næstu árin bara til þess að ná markmiðunum um þær 2.400 íbúðir sem menn ætluðu sér að byggja í fyrsta áfanga, einfaldlega vegna þess að fermetraverðið sem menn lögðu til grundvallar í byrjun reyndist fullkomlega óraunhæft. Það var einn stór ágalli á undirbúningi málsins að annars vegar byggðu menn á óraunhæfu kostnaðarverði fyrir höfuðborgarsvæðið, eins og ég held að ég hafi farið yfir, 274 þús. kr. á fermetrann í staðinn fyrir hátt í 400 þús. kr., og hins vegar var málið svo undarlega upp lagt í alla vega hinum útreikningslegu forsendum að þegar kæmi að landsbyggðinni yrði ekkert byggt í kerfinu heldur eingöngu keypt notað húsnæði sem auðvitað er algerlega óásættanlegt vegna þess að það vantar húsnæði. Það skortir meira húsnæði á mörgum stöðum á landsbyggðinni.

Það hefur verið lagað. Ef ríki og sveitarfélög eru tilbúin að mæta þeim endurreiknuðu kostnaðartölum sem nú liggja fyrir með hærri fjárframlögum í stofnframlög þá gengur þetta vonandi eftir og við sjáum nokkur þúsund íbúðir bætast inn á markaðinn í þessu nýja fyrirkomulagi. Þá er það vel.

Í öðru lagi vildi ég nefna, af því að ég hafði ekki tíma til þess í fyrri ræðu minni, að auðvitað hefur talsverð umræða verið í nefndinni og ekki síður víða í samfélaginu um sjálfan byggingarkostnaðinn. Hér gekk yfir mikið fár, sem nú er vonandi afstaðið, um að þar væri eini sökudólgurinn byggingarreglugerð, metnaðarfull byggingarreglugerð um altæka hönnun íbúða, um nútímaleg viðhorf í því hvernig íbúðarhúsnæði skyldi hannað og að fullnægja skyldi þörfum íbúanna og horfa til framtíðar. Einhverjar breytingar hafa nú verið gerðar á þessari reglugerð og ég heyrði í sérfróðum aðila í gær fjalla um að þær breytingar væru svo sem góðra gjalda verðar, gætu dregið örlítið úr byggingarkostnaði, en þær vægju mjög létt vegna þess að aðalvandamálið væri ekki útbúnaður og gæði íbúðanna, það er ekki það sem gerir byggingarkostnað svona dýran á Íslandi. Það er hátt lóðaverð sums staðar og það er dýr fjármagnskostnaður. Þar liggja hinar stóru meinsemdir, og svo auðvitað markaðsbrestur, þ.e. skortur á markaðnum sem skrúfar upp verðið og á sinn þátt í ástandinu á höfuðborgarsvæðinu þar sem það hefur gerst samtímis að stórir einkaaðilar hafa ruðst inn á markaðinn og keypt upp íbúðir og stofnað leigufélög sem þeir ætla að reka í ágóðaskyni og taka arðinn út úr kerfinu, og síðan keppir ferðaþjónustan um laust húsnæði í stórum stíl.

Ég vildi bara nefna þetta vegna þess að eftir stendur þörfin á því að skoða raunhæfar, málefnalegar aðgerðir til þess að reyna að ná þessum kostnaði niður, aðrar leiðir en þær að fara að veita afslátt á gæðum húsnæðisins.

Hér voru nafngiftir ræddar. Ég á ekki í neinum vandræðum með forskeytið félags-, að tala um almennar félagsíbúðir eða félagslegar íbúðir. Ég ætla nú seint að fara að gengisfella það góða hugtak þannig að ég gangist ekki við því. Ég skil út af fyrir sig þá hugsun að reyna að hafa sem almennasta nafngift á þessu þannig að menn reyni að ýta þeirri hugsun til hliðar að hér sé verið að aðgreina fólk eitthvað með því að það búi í þessu húsnæði. Mér finnst orðið „almennt“ ágætt í því sambandi. Mín vegna hefði þetta mátt heita alþýðuíbúðir eða almenningsíbúðir. En eitthvert nafn varð þetta að hafa og niðurstaðan varð þessi.

Við fundum síðan nýtt orð yfir félögin, sem sagt orðið húsnæðissjálfseignarstofnun, sem rímar við t.d. húsnæðissamvinnufélög, og ég held að sé ágæt lausn á því máli. Niðurstaðan er sú að þetta eru stofnanir en ekki félög og er betra að þær beri það í nafni sínu, það er gagnsærra, meira í anda íslenskunnar að við köllum hlutina réttum, gagnsæjum nöfnum.

Við færum inn í ákvæðin um stjórnir þessara félaga reglur um kynjahlutföll, sem er alveg sjálfsagt mál. Ég náði ekki að nefna það í ræðu minni og man ekki hvort einhver kom inn á það áður. Við reyndum að sjálfsögðu að hafa þessa löggjöf nútímalega að öllu leyti eins og varðandi það atriði.

Það er sömuleiðis mikilvæg breyting sem við gerum á samsetningu fulltrúaráða sjálfseignar- og húsnæðissjálfseignarstofnananna, að þar skulu sitja fulltrúar íbúanna, leigjendanna, og vera einn þriðji af fulltrúaráðinu ef því verður við komið. Í því er fólgið visst íbúalýðræði og aðhald frá notendum þjónustunnar og sjálfsagt mál að láta þess sjást stað í þeim efnum.

Svo vil ég gera einn þátt enn að umtalsefni sem er sú viðbót sem við settum inn í regluverkið sem varðar endurgreiðslur stofnframlaga og móttöku þeirra af hálfu þá eftir atvikum Húsnæðismálasjóðs eða sveitarfélaganna og utanumhald Íbúðalánasjóðs um það. Nú er það eðli máls samkvæmt augljóst að halda þarf utan um þau stofnframlög sem reidd eru fram af hálfu ríkis og sveitarfélaga til hvers og eins aðila. Í grunninn er gert ráð fyrir því að það fylgi hverri íbúð í þeim skilningi að ef hún er til dæmis seld út úr kerfinu eða nýting hennar gerbreytt eigi menn að endurgreiða þau stofnframlög, nema ef söluandvirði er ráðstafað til að kaupa nýja íbúð.

Það er í sjálfu sér vel viðráðanlegt og ekkert vandamál, held ég, þegar í hlut eiga smærri aðilar. Þetta eru t.d. skýrir afmarkaðir byggingaráfangar með 10–20 íbúðum og er haldið utan um það. En þegar í hlut eiga, sem vonandi verður í framtíðinni, stór og breið félög með stórt húsasafn þar sem menn hafa annars vegar byggt í mörgum áföngum heilmikið af stofnframlagi í íbúðum og keypt og selt íbúðir samtímis í kerfinu gæti þetta orðið talsvert utanumhald. Þess vegna leggjum við til það nýmæli að Íbúðalánasjóði verði heimilt að fallast á að framkvæmdaaðilarnir eða eigendurnir færi sérstakt stofnframlagabókhald. Þá yrði sérstaklega bókhaldslega haldið utan um hreyfingar út og inn, plús og mínus, veitt stofnframlög, seldar íbúðir, keyptar íbúðir á móti, mismuninn á þessu. Slíkt stofnframlagabókhald kæmi með reglubundnum hætti til uppgjörs. Þetta ímynda ég mér að gæti leitt til verulegs hagræðis fyrir samskipti þessara aðila og gert þau einfaldari og fækkað til muna þeim færslum fram og til baka sem annars þyrfti nánast stanslaust að vera að standa í. Ég held að menn ættu að gefa gaum að þeirri heimild sem þarna er komin við undirbúning framkvæmdarinnar og smíða utan um það reglugerð og bjóða upp á þann kost.

Þetta er auðvitað eitt af ótal mörgum framkvæmdaratriðum sem þarfnast undirbúnings og vinnu á komandi vikum og mánuðum. Við í nefndinni höfum örugglega ekki náð að róa fyrir hverja vík í þessu efni þó að við höfum vandað okkur eins og við gátum. Þá kemur það líka til að hér er verið að leggja upp í langt ferðalag. Að sjálfsögðu gefst tími til þess á komandi árum að huga að ýmsum framtíðarþáttum kerfisins sem ekkert mun reyna á fyrr en jafnvel eftir áratugi. Sýnist mönnum að búa megi betur um eitthvað af því þegar til endurgreiðslu (Forseti hringir.) stofnframlaga kemur eða annað slíkt er nægur tími til stefnu, auk þess sem við getum auðvitað farið eina umferð á þessu öllu saman í ágætri velferðarnefnd milli 2. og 3. umr.