145. löggjafarþing — 137. fundur.
félagasamtök til almannaheilla, 1. umræða.
stjfrv., 779. mál. — Þskj. 1323.

[15:37]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um félagasamtök til almannaheilla sem eru á þingskjali 1323, mál 779.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um félagasamtök til almannaheilla. Lagt er til að félagasamtök til almannaheilla verði aðgreind frá öðrum félagasamtökum, að settar verði reglur um stofnun félagasamtaka til almannaheilla og að meginefni samþykkta þeirra ákveði um félagsaðild, ákvörðunartöku og stjórnun slíkra félaga.

Þetta frumvarp á sér þó nokkra forsögu og er stofnað til þess á sínum tíma að frumkvæði almannaheillageirans sjálfs. Vinna við frumvarpsgerðina á rætur að rekja til þess frumkvæðis svo og undirbúningsstarfs á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Sá hópur sem þar hóf þetta verk skilaði af sér skýrslu til þáverandi ráðherra í nóvember 2010. Því starfi var svo haldið áfram í þáverandi efnahags- og viðskiptaráðuneyti og síðar í atvinnuvega- og nýskipunarráðuneytinu og skipaði þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra nefnd sem falið var að undirbúa löggjöf um frjáls félagasamtök til almannaheilla.

Í nefndinni áttu sæti Ragna Árnadóttir, þáverandi formaður Almannaheilla, skipuð án tilnefningar, Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, tilnefndur af Fræðasetri þriðja geirans, og Ingibjörg Helga Helgadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að með frjálsum félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum sem starfa að almannaheillum sé átt við frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að vinna að heill ótiltekins fjölda manna án hagnaðarsjónarmiða þeirra sem reka og stýra félagi. Þá sé einnig átt við sjálfseignarstofnanir sem hafa sams konar markmið og uppfylla skilyrði laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

Nefndinni var einkum ætlað að fjalla um hvaða skilyrði slík félög þurfa að uppfylla til að geta notið réttinda og borið skyldur samkvæmt lögunum. Nefndinni var sérstaklega falið að fjalla um skattumhverfi almannaheillasamtaka, m.a. að því hvað varðar niðurfellingu skatts af aðföngum, sérreglum um erfðafjárskatt og skatt af gjafafé. Þá var nefndinni einnig ætlað að huga að löggjöf um almannaheillasamtök í nágrannaríkjum Íslands svo sem efni stæðu til. Er frumvarpið eins og fyrr segir byggt á vinnu þessarar nefndar.

Starfsemi frjálsra félagasamtaka, þ.e. hins svokallaða þriðja geira, er mikilvæg og þá ekki síst starfsemi þeirra frjálsu félagasamtaka sem talist geta til almannaheillasamtaka. Með því að skilgreina slík samtök sérstaklega í lögum og setja heildarlöggjöf um þau verður skotið traustari stoðum undir starfsemi þeirra. Þetta eru fjölbreytt félög og í fjölbreyttri starfsemi, lítil og stór, og því er þetta verkefni víðtækt og hefur tekið talsverðan tíma að koma þessu hingað í þetta form.

Reglur um bókhald, ársreikninga og endurskoðun eða yfirferð ársreikninga geta haft sérstakt gildi í tengslum við samningsgerð hins opinbera við samtökin. Unnt væri að setja sérstök skilyrði varðandi slíka samningsgerð án sérstakrar löggjafar en löggjöf þykir þó traustari og getur auðveldað þátttakendum í samtökunum er byggjast á grunni sjálfboðaliðastarfs að skilja grundvallarreglur um starfsemina og reka hana betur en ella. Fordæmi eru fyrir setningu slíkra ítarlegra reglna, t.d. í lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þá eru auk þess til heildarlög m.a. um hlutafélög og einkahlutafélög.

Með setningu allítarlegra reglna um almannaheillasamtök er stefnt að því markmiði að þátttakendum eða aðilum að samtökunum séu ljósar allar helstu reglur sem um starfsemina gilda, ekki aðeins skilgreiningar og reglur um fjármál heldur einnig aðrar reglur félagaréttar. Slíkt getur auðveldað starfsemi almannaheillasamtaka og stuðlað að því m.a. að samtökin nái betri árangri og geta þessi mikilvægu samtök orðið traustari en ella fyrir bragðið.

Ekki þótti ástæða til að ganga svo langt að semja sérstakt frumvarp um frjáls félög eða félagasamtök almennt. Heildarlöggjöf um almannaheillasamtök er ætlað að koma til viðbótar við nokkur ákvæði sem gilda um slík samtök og má m.a. finna í firmalögum, lögum um fyrirtækjaskrá og fleiri lögum, svo sem skattalögum. Á Norðurlöndunum hefur löggjöf um frjáls félög og félagasamtök aðeins verið sett í Finnlandi og er með frumvarpinu ekki stefnt að því að setja reglur um öll frjáls félög heldur einungis hin skilgreindu almannaheillasamtök. Skráning almannaheillasamtaka er skilyrði fyrir því að löggjafinn geti viðurkennt sérstakar skattaívilnanir þeim til handa.

Frumvarpinu er ætlað að gilda um félög sem samkvæmt samþykktum sínum eru stofnuð eða starfrækt samkvæmt samþykktum sínum til eflingar ákveðnum skýrt afmörkuðum málefnum til almannaheilla en er ekki komið á fót í ágóðaskyni fyrir félagsmenn. Hér er átt við svonefnd hugsjónafélög sem stofnuð eru til mannræktar eða styrktar á einhverju sviði og beinast að ákveðnum einstaklingum sem uppfylla ákveðin skilyrði eða málefni sem nánar er skilgreint í samþykktum félagsins. Málefnið verður að vera talið til einhverra þjóðþrifa, svo sem íþrótta- og mannræktarfélög, styrktarfélög, sjúklinga, björgunar- og hjálparfélög, neytendafélög og menningarfélög. Þannig yrði þetta félagaform valið ef þátttaka margra er æskileg. Önnur félagaform geta verið æskilegri séu fjármunir þegar fyrir hendi og til stendur að stýra þeim til hagsbóta fyrir ákveðið málefni, samanber sjóðir og stofnanir samkvæmt staðfestri skipulagsskrá í samræmi við lög nr. 19/1988 og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur eftir lögum nr. 33/1999.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um stofnun og efni samþykkta almannaheillafélaga sem og um félagsaðild. Sérstök ákvæði eru um þátttakendur í félagi, skráningu félagsaðildar svo og inngöngu, úrsögn og brottvísun úr félagi. Fjallað er um ákvörðunarþátttöku og eru sérstök ákvæði um heimild til ákvörðunartöku, ákvörðunarrétt þátttakenda og kjörinna fulltrúa, atkvæðagreiðslu félagasambanda, fundi, fulltrúaráðsfundi eða aðferðir til ákvarðanatöku. Þá eru sérstök ákvæði um hvaða ákvarðanir skuli taka á aðalfundi, aðalfundarboð, atkvæðisrétt þátttakenda, hæfi á aðalfundi, ákvarðanir félags, kosningar, fundargerð, ógildanlegar og ógildar ákvarðanir og framkvæmdabann.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um stjórnun félags og sérstök ákvæði eru um stjórn félags, ritun firma og vanhæfi. Ákvæði frumvarpsins um ársreikninga og endurskoðun eða yfirferð þeirra gerir ráð fyrir að um ársreikninga félaganna gildi ákvæði laga um bókhald og ef kveðið sé á um það í samþykktum skuli velja endurskoðanda, skoðunarmann eða félagskjörinn skoðunarmann, til að endurskoða eða yfirfara ársreikning félagsins á aðalfundi eða fulltrúaráðsfundi.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um slit félags, slit félags með dómi, skráningu í almannaheillafélagsskrá sem lagt er til að fyrirtækjaskrá haldi, heimild til að breyta skráningu félagasamtaka sem þegar hafa verið skráð hjá fyrirtækjaskrá í félagasamtök til almannaheilla og viðurlög.

Frumvarpsdrögin voru kynnt Almannaheillum og aðildarfélögum þess sem og Fræðasetri þriðja geirans, velferðarráðuneytinu og fyrirtækjaskrá RSK. Nefndin fékk einnig á sinn fund fulltrúa Ríkisendurskoðunar og ríkisskattstjóra. Þá voru frumvarpsdrögin einnig sett á vef ráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunaráðuneytisins, til kynningar og óskað eftir athugasemdum. Umsagnir bárust frá sex aðilum. Gerðar voru breytingar á frumvarpsdrögunum þar sem tekið var tillit til ýmissa athugasemda sem bárust ráðuneytinu.

Upphaflega lagði nefndin upp með að opinberir aðilar gerðu að skilyrði fyrir veitingu styrkja rekstrarsamninga og opinberra leyfa til almannaheillafélaga að þau uppfylltu skilyrði laganna. Vegna athugasemda sem nefndinni bárust, m.a. frá velferðarráðuneyti, um að frumvarpið væri íþyngjandi fyrir minni félagasamtök, var fallið frá þeirri hugmynd og lagði nefndin til að opinberir aðilar gætu gert að skilyrði fyrir veitingu styrkja, rekstrarsamninga og opinberra leyfa til félagasamtaka að þau uppfylltu skilyrði laganna. Í umsagnarferli ráðuneytisins komu fram athugasemdir um að frumvarpið væri of íþyngjandi fyrir minni félagasamtök og að hætt yrði við að opinberir aðilar gerðu það almennt að skilyrði fyrir veitingu styrkja að félagasamtök uppfylltu skilyrði laganna.

Frumvarpið hefur verið lengi í undirbúningi og hefur verið vandað vel til verka og reynt að gæta þess að hafa sem víðtækast samráð við hagaðila. Ég minni á að frumvarpið á rætur sínar að rekja til frumkvæðis þessara aðila og þessara samtaka og höfum við því unnið náið með þeim til að ná fram sem víðtækastri sátt um efni frumvarpsins. Er ljóst eftir allt það umsagnarferli að um ákveðin atriði í frumvarpinu eru skiptar skoðanir þó svo að það sé alveg ljóst að bæði samtökin sjálf, Almannaheill, og yfirgnæfandi meiri hluti þeirra aðildarfélaga eru mjög hlynntir frumvarpinu og framlagningu þess. Ég tel mikilvægt að svo komnu máli að Alþingi fái þetta mál til umfjöllunar, kalli eftir þessum ólíku sjónarmiðum og fari vel yfir það í nefndinni sem ég hvet til þess að skoða þetta mál vel og að lokum taka til þess afstöðu hvort gera þurfi á því einhverjar breytingar.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að tekjur og gjöld ríkissjóðs muni aukast um 3–20 millj. kr. Ekki hefur verið gert ráð fyrir því í útgjaldaramma gildandi fjárlaga. En það þarf að finna þeim útgjöldum stað í ramma þess málaflokks sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sett fram í fimm ára fjármálaáætlun sem og í fjárlögum. Áhrifin á afkomu ríkissjóðs verða hins vegar óbreytt eftir sem áður.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.



[15:48]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum nú bara við 1. umr. þannig að ég ætla ekki að vera neikvæður, en ég verð að viðurkenna að þegar ég las þetta mál fór ég að velta fyrir mér til hvers það væri nákvæmlega, hvaðan það kæmi. Það virkaði á mig í fljótu bragði eins og það sem einn listamaður kallaði skandinavískt skipulagt frelsi, þ.e. þegar hlutirnir, sem öðrum kosti eru frjálsir, eru settir í eitthvert box svo menn geti einhvern veginn meðhöndlað þá og farið eitthvað með þá. Eini tilgangurinn sem ég raunverulega sé, og kannski gæti hæstv. ráðherra útskýrt eitthvað fyrir mér í þeim efnum, er til þess að hægt sé að gera hluti eins og skattaívilnanir eða að setja þessi lög sem einhvers konar skilyrði fyrir einhverju sem önnur félög setja sér. Ég velti fyrir mér: Hvaða vandamál er verið að leysa? Hafa komið upp einhver tiltekin vandamál þar sem menn hafa hugsað með sér: Ah, nú væri gott að hafa þessi lög eða svona lög til að bregðast við því vandamáli. Ég skil vel að mönnum geti fundist þetta eftirsóknarvert til þess að framfylgja einhverjum hugmyndum sem þeir hafa. Persónulega þykir mér almennt það eitt og sér ekki vera endilega gott tilefni lagasetningar. Og nú hlýt ég að vera búinn með tímann minn. Ég læt staðar numið hér og vík að seinni spurningu minni í seinna andsvari.



[15:50]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skil vel þær spurningar sem hv. þingmaður leggur fram vegna þess að ég hef spurt þeirra sjálf. Eins og ég segi og sagði í framsögu minni þá á þetta sér rætur allt aftur til ársins 2010 þar sem að frumkvæði þessara samtaka var óskað eftir því að þessi mál yrðu tekin til skoðunar með það að markmiði að skýra regluverk og laga umgjörð fyrir þessi samtök, sem gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi og er stofnað til, ekki í ágóðaskyni heldur til ýmissa góðgerðaverka og mikilvægra verkefna sem er sinnt í þjóðfélaginu. Þetta er allt frá því að vera lítið styrktarfélag um einstaka mál upp í Landsbjörgu. Hagsmunirnir eru því margir og mismunandi.

Það sem þarna kemur inn í er kannski í fyrsta lagi að kallað er eftir lagaumgjörð til þess að þau félög eigi betur með að starfa innan lagaramma sem hentar þeim, líka á grundvelli þess að þetta er styrktarfé, hvernig farið er með skattaívilnanir og frádrátt sem fjármálaráðherra hefur lagt hér fram og var samþykkt á seinasta þingi, að mig minnir, hvernig farið skuli með það og hvaða kröfur þurfi að gera til þessara félaga um að skila upplýsingum, um starfsemi félaganna o.s.frv. Það er með ákveðnum hætti verið að reyna að laga félagaformið að starfseminni þannig að þessi félagasamtök geti þá einbeitt sér að þeim mikilvægu hugsjónaverkefnum sem þau eru að (Forseti hringir.) starfa að alla daga og að félagaformið henti þeirra starfsemi betur.



[15:52]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég skilji hæstv. ráðherra og ágætt svar hennar. Eitt sem ég verð samt að segja eftir að hafa lesið frumvarpið: Ég átta mig ekki alveg enn þá nákvæmlega á skilgreiningum. Það er oft í tísku nú til dags að vera með skilgreiningarklausu í frumvörpum og lögum sem mér þykir mjög hentugt til að afmarka hvað tiltekin orð þýða. En skilningur minn á þessu er sá að lögin í heild sinni skilgreini hugtakið. Þegar átt er við þessa tegund félags sé átt við félag sem uppfyllir þessi lagalegu skilyrði. Ég rakst hins vegar ekki á einhverja nákvæma skilgreiningu. Því langar mig að spyrja hvort t.d. trúfélög eða félög sem eru skyld, trúar- eða lífsskoðunarfélög eða félög sem starfa í þeim anda, falli undir skilgreininguna. Ég spyr sérstaklega vegna þess að mér finnst alltaf svolítið skrýtið, ég tek dæmi frá Bandaríkjunum þar sem trúfélög eru skattfrjáls að einhverju leyti ef ekki öllu, og ég velti alltaf fyrir mér hvert hlutverk ríkisins sé í því að skilgreina hvað sé ívilnunarvert þegar kemur að starfsemi slíkra félaga. Ég tek sem dæmi ef maður ætlaði að búa til félag sem væri nýtt og skrýtið og kannski ekki eitthvað sem yfirvöld eru vön, segjum félag sem berst skipulega gegn áhrifum abrahamískra trúarbragða í samfélaginu, eitthvað sem ég held að hljóti að gerast, en kemur óhjákvæmilega spánskt fyrir sjónir yfirvalda, ekki verandi vön slíkri starfsemi. Slíkt félag mundi tvímælalaust segja að það væri að vinna að almannaheillum, það væri ekki að vinna í gróðaskyni. Þá velti ég fyrir mér hvort eðlilegt sé að ríkið sé að búa til einhverja umgjörð um slík félög til þess að tilgreina hvað sé ívilnunarhæft og hvað ekki. Ég velti fyrir mér skoðunum hæstv. ráðherra í þessu samhengi.



[15:54]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu er greinargerð, á blaðsíðu 17. Í umsögn um 1. gr. er tiltekið hvaða félagasamtök eða félög frumvarpið tekur til. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hér er átt við svonefnd hugsjónafélög sem stofnuð eru til mannræktar eða styrktar á einhverju sviði og beinast að ákveðnum einstaklingum sem uppfylla ákveðin skilyrði, eða málefni sem svo nánar er skilgreint í samþykktum félagsins. Málefnið verður að vera talið til einhverra þjóðþrifa, svo sem íþrótta- og mannræktarfélög, styrktarfélög sjúklinga, björgunar- og hjálparfélög, neytendafélög og menningarfélög. Þannig yrði þetta félagaform valið ef þátttaka margra er æskileg. Önnur félagaform geta verið æskileg séu fjármunir þegar fyrir hendi …“ o.s.frv.

Þetta á ekki við til að mynda um lífeyrissjóði eða stjórnmálaflokka eða eitthvað slíkt.

Varðandi trúfélögin verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki svarið, hvort sérstaklega hafi verið fjallað um það og beini því til nefndarinnar að skoða það og taka afstöðu til þeirra. Þetta eru fyrst og síðast þau félagasamtök sem hér eru um allt samfélagið sem eru að vinna að þjóðþrifamálum. Ástæða þess að þetta mál hefur tekið langan tíma er að það eru einmitt ýmsar spurningar sem menn hafa mismunandi skilning á og mismunandi skoðun á. Þess vegna taldi ég rétt, einmitt einnig til að ljúka þessari vinnu sem hófst fyrir hartnær sex árum, að gefa Alþingi kost á að fjalla um þetta, kalla eftir þessum ólíku sjónarmiðum og þá eftir atvikum afgreiða málið eins og það er lagt hér fram eða með breytingum eftir vinnu nefndarinnar. Ég hvet því nefndina til að fara vel yfir þessi atriði sem hv. þingmaður nefnir.



[15:57]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að fagna því að þetta frumvarp er fram komið eftir nokkuð langa meðgöngu sem í sjálfu sér er alveg skiljanleg og skýranleg. Eins og þegar hefur komið fram í orðaskiptum hér eru þessi mál í sjálfu sér ekkert einföld viðfangs. Það hvarflar ekki að mér að halda því fram. Það breytir ekki hinu að ég held að veruleg þörf sé á því að skýra lagaumhverfið að þessu leyti. Ég held að sú leið sem hér er lagt upp með sé í aðalatriðum sú rétta, þ.e. að búa til viðmiðanir og skýran grundvöll fyrir samtök af þessum toga sem starfa í þágu almannaheilla, eru ekki í atvinnurekstri í ágóðaskyni, eru til dæmis ekki sjálfseignarstofnanir með atvinnurekstur eða annað slíkt. Ástæðan er sú að á umliðnum árum hefur oft verið spurt um það nákvæmlega hvaða stöðu svona aðili hafi eða eigi að hafa. Það getur komið upp í ýmsu samhengi. Hér er til dæmis nefnt það sem vissulega hefur verið einn drifhvatinn að því að samtök af þessu tagi hafa þrýst á um að staða þeirra væri skýrð, þ.e. að þau góðu verkefni sem þau eru að vinna að gætu réttlætt að tillit væri tekið til þess til dæmis í skattalegu tilliti. En þá þarf líka að liggja fyrir og vera einhver skilgreining og einhver afmörkun á því hver er bær til þess að njóta þeirra kjara eða ívilnunar og hver ekki.

Við skulum ekki gleyma því að um leið og það skref er stigið að setja lagaramma um félagasamtök til almannaheilla og kveðið á um hvaða skilyrði þau þurfi að uppfylla til að geta hlotið skráningu sem slík þá er búin til viðmiðun fyrir þá sem gera það ekki. Það er líka gott að geta haft einhverjar varnir gagnvart því að hinir og þessir reyni að skreyta sig með nafngiftum sem ekki eru endilega innstæður fyrir, og þarf nú ekki að fjölyrða um, vandamál sem menn hafa lent í sums staðar annars staðar í þeim efnum þar sem menn stofna alls konar meint góðgerðafélög, svokölluð, á yfirborðinu og nota þau jafnvel til að komast hjá skattgreiðslum eða standa í ýmsum æfingum. Að sjálfsögðu viljum við ekki að hin eiginlegu og mikilvægu almannaheillasamtök og -félög skaðist á nokkurn hátt af slíku. Það er því gott að skýra stöðu svona aðila. Það er vel þessarar viðleitni virði.

Það eru auðvitað ýmis álitamál í kringum þetta og hvarflar ekki að mér annað en að viðurkenna það. En hingað erum við þó komin. Hér er kominn, að því er mér sýnist, nokkuð vel vandaður lagarammi eða frumvarp til laga. Enda heilmikið samráð og heilmikið starf að baki sem kemur þá til kasta þingsins og væntanlega svo næsta þings sömuleiðis að halda áfram með. Ágætisáfangi í því er auðvitað að málið gangi til nefndar og verði sent út til umsagnar. Þetta er mál sem varðar mjög marga og ekki bara félög og þá sem starfa innan vébanda svona samtaka heldur eiga svo ótrúlega margir samskipti við svona aðila. Ríki og sveitarfélög að sjálfsögðu en einstaklingar og alls konar aðilar eru í miklum samskiptum við samtök sem mundu falla undir þetta. Hér eru samtök oftar en einu sinni nefnd, Landsbjörg, sem skiljanlegt er, sem eru nú kannski einhver allra mikilvægustu og dýrmætustu almannaheillasamtök sem við eigum. Enginn efast nú held ég um það eða dirfist að andmæla því að þar er á ferðinni starfsemi sem er gríðarlega veigamikill þáttur í að við getum búið sæmilega örugg í þessu landi. En þau eru mörg samtökin skammt undan sem gætu vel fallið undir þetta.

Af því að hér voru trúfélög nefnd — annars ætla ég ekki að fara að taka að mér að svara eitthvað sérstaklega fyrir álitamál í þessum efnum, það gerir hæstv. ráðherra — þá hef ég ekki áhyggjur af því, herra forseti. Sem betur fer er, held ég, orðið sæmilega um það búið annars staðar, þ.e. uppfylla þarf ákveðin skilyrði til að félög fáist viðurkennd sem skráð trúfélög. Það er einhvers staðar annars staðar í lagasafninu eitthvað um það. Og þeir sem ætlast til þess að geta fengið ígildi sóknargjalda sinna félaga til sín verða að undirgangast býsna strangar reglur í þeim efnum. Ég hygg að ekki sé ástæða til að óttast að því verði blandað saman, enda held ég að það væri komið út í aðra sálma og nokkurt óefni ef það færi að rekast á.

Ég fagna þessu skrefi og lít til þess með bjartsýni að nú takist, í einhverjum einum til tveimur atrennum í viðbót, að ljúka þessu verkefni. Ég er sannfærður um að það er gott ef okkur tekst að setja skynsamlegan lagaramma um þetta og koma upp skrá um slík félög til að skýra stöðu þeirra og aðgreina þau þá frá ýmsu öðru sem ekki á að falla undir sama hatt.



[16:03]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í þessari stuttu ræðu minni að fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið fram. Þetta tel ég að varði miklu meira en menn vilja vera láta. Það er ýmis atvinnurekstur í landinu sem er á vegum almannaheillafélaga, t.d. allmargar sjúkrastofnanir. Ég tel t.d. að sú gagnmerka stofnun, sem er komin nokkuð til ára sinna, elli- og hjúkrunarheimilið Grund starfi á þeim grundvelli og sömuleiðis SÁÁ, Samtök áhugamanna um áfengisvandamál, sem reka sjúkrastöð sem heitir Vogur. Og það eru ýmis önnur félög sem hafa atvinnustarfsemi í hendi. Ef einhver ótti er um að hér sé verið að binda hendur trúfélaga, stofnun trúfélaga, þá er kannski ekki um það að ræða heldur má fremur segja að verið sé að skapa alla vega einhverjar lágmarks umgengnisreglur í slíkum félagasamtökum. Það er ekki kúgun við einn eða neinn. Ég hef á undanförnum árum komið aðeins nálægt samtökunum Almannaheillum. Það hefur verið samtökunum mikið kappsmál að fá þennan lagagrundvöll. Að sumu leyti vísar þetta til þess almenna ramma sem hlutafélögin eru. Því segi ég í þessari stuttu ræðu: Ég þakka hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir að málið skuli vera komið hingað inn sem fer væntanlega til nefndar og umsagnar að því leyti til sem það hefur ekki nú þegar farið til umsagnar hjá ýmsum hagsaðilum. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að sinni, virðulegi forseti.



[16:05]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svo stöddu að vera á móti þessu máli enda hef ég í sjálfu sér engar sérstakar ástæður til þess. En mér finnst það gefa tilefni til þess að ræða aðeins félög og hlutverk þeirra í samfélaginu, félagafrelsið og allt það. Ég átta mig algerlega á því að hér er ekki verið að binda hendur eins eða neins. Hér er um að ræða löggjöf þar sem sett er upp ákveðið skilgreint lagalegt umhverfi sem félög geta sjálfviljug mótað sig eftir, væntanlega til þess að fá einhvers konar stimpil sem mundi gera þeim kleift að fá ýmist skattaívilnanir eða annars konar ívilnanir frá öðrum félögum eða stofnunum eða hvernig sem það er. Það er eins með t.d. menntun. Það má hver sem er fara og kenna einhverjum öðrum tungumál en svo getur viðkomandi þurft vottun ef viðskiptavinurinn á að fá kennsluna niðurgreidda af stéttarfélagi eða eitthvað því um líkt.

Að sjálfsögðu er um valkvæmt skref að ræða. En mér finnst hins vegar alveg þess virði þegar Alþingi tekur sig til og býr til einhvern ramma og setur eitthvert fyrirbæri eins og félag í box, almannaheillafélög í þessu tilfelli, að nefna það að ríkið er afskaplega illa í stakk búið til þess að ákveða hvað telst til eðlilegra félaga eða hvað sé æskilegt félagsstarf. Þess vegna, þegar við setjum svona ramma sem getur verið góður og gagnlegur út af fyrir sig, verðum við að hafa í huga að við vitum ekki hvernig félagaform framtíðarinnar munu vera eða á hvaða forsendum félög kjósa að starfa.

Ég nefndi áðan í andsvari við hæstv. ráðherra t.d. trúfélög eða lífsskoðunarfélög eða sambærileg félög. Nú vitum við öll hvað trú- og lífsskoðunarfélög eru og þau hafa verið skilgreind en ég nefndi hérna sérstaklega eina tegund af trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi sem gæti komið upp og mundi tvímælalaust telja sig vera til almannaheilla, t.d. félag sem ætlaði að reyna að sporna gegn áhrifum abrahamískra trúarbragða í samfélaginu, neikvæðra áhrifa sem ég skal fullyrða að eru til staðar og munu halda áfram að vera til staðar vegna þess að það eru ekki frjáls félagasamtök sem eru búin að ákveða að abrahamísk trúarbrögð þvælist fyrir í samfélaginu og það þurfi að sporna gegn þeim í orði. Þá velti ég fyrir mér hvað ríkið mundi halda um það. Hvað mundu yfirvöld segja um það? Betri spurning er: Hvers vegna ætti manni ekki að vera nákvæmlega sama um hvað yfirvöldum finnst um það?

Það er ekki hlutverk yfirvalda að ákveða hvaða félagsstörf séu mikilvægari en önnur. En við gerum það hins vegar. Auðvitað er það samfélagsins að ákveða það í heild sinni og gæti ég haldið langa og lærða ræðu um lýðræði og hlutverk einstaklingsins og almennings í þeirri jöfnu allri saman en ég ætla að sleppa því að svo búnu. Ég vil bara vekja athygli á því að á bls. 17 í greinargerðinni eins og hæstv. ráðherra benti mér á áðan eru talin upp ákveðin dæmi um félög sem mundu vera skilgreind sem almannaheillafélög samkvæmt frumvarpinu. En það eru einungis dæmi, ekki tæmandi útlisting eða tæmandi skilgreining á hugtakinu. Og ég hygg að það væri málinu til bóta ef nefndin kæmi fram með skýra skilgreiningu eins og tíðkast víða í stærri lagabálkum nú til dags, það er hefð og venja sem mér þykir mjög góð og til sóma og við eigum að reyna að halda til haga þegar við getum, sérstaklega þegar við ræðum um hugtök sem virka kannski óskýr í fyrstu. Ég verð að segja fyrir sjálfan mig alla vega að hugtakið almannaheillafélag virkar á mig sem mjög óskýrt. Það gæti verið um að ræða íþróttafélag, það gæti líka verið um að ræða trúfélag. Kaþólska kirkjan gæti kallað sig almannaheillafélag, en mundi væntanlega ekki falla undir skilgreiningu þessara laga og með þeirri staðreynd tel ég mig hafa sannað punktinn.

Nóg um það. Ég ætla svo sem ekki að lengja þessa umræðu, bara að benda á að það er okkur hollt sem stjórnmálamönnum að gera okkur grein fyrir takmörkunum okkar í því að ákveða hvernig samfélagið eigi að virka, hvernig félagaform eigi að vera og hvað félagafrelsi feli í sér. Ég ítreka að ég átta mig algerlega á því að hér er ekki verið að brjóta á neinn hátt í bága við félagafrelsið og ekki verið að neyða nokkurn einstakling til þess að gera neitt gegn vilja sínum en hér er hins vegar verið að ramma hlutina inn og þegar við gerum það verðum við að bera virðingu fyrir okkar eigin vanmætti til að skilja félagaform og forsendur félagastarfs í framtíðinni.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.