146. löggjafarþing — 54. fundur
 4. apríl 2017.
lánshæfismatsfyrirtæki, 1. umræða.
stjfrv., 401. mál (EES-reglur). — Þskj. 532.

[16:29]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um lánshæfismatsfyrirtæki. Frumvarpið innleiðir í íslensk lög reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1060/2009, um lánshæfismatsfyrirtæki, ásamt síðari breytingum og aðlögunum sem samið var um við ESB vegna upptöku gerðanna í EES-samninginn. Markmið frumvarpsins er að bæta gæði lánshæfismats, draga þannig úr kerfisáhættu og stuðla að fjármálastöðugleika. Markmiðið er einnig að tryggja öflugt og samræmt eftirlit með lánshæfismatsfyrirtækjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Lánshæfismatsfyrirtæki bjóða þjónustu við að meta lánshæfi fyrirtækja og ríkja og útlánaáhættu við fjárfestingu í ýmsum tegundum fjármálagerninga. Kjarninn í starfi lánshæfismatsfyrirtækja felst í því að veita hlutlaust mat á lánshæfi lántakenda til að aðstoða fjárfesta í vali á fjárfestingum sínum. Við framkvæmd lánshæfismats beita lánshæfismatsfyrirtæki ákveðinni aðferðafræði og gefa fyrirtækjum eða ríkjum svokallaðar lánshæfiseinkunnir. Á Íslandi eru ekki til heildarlög um starfsemi lánshæfismatsfyrirtækja eða framkvæmd lánshæfismats. Þá er starfsemin hvorki skráningarskyld né tiltekinn aðili skilgreindur sem eftirlitsaðili með starfsemi þeirra. Með lögfestingu þessara laga er fyrirséð að breyting verði á þessu. Lánshæfismatsfyrirtæki á Íslandi munu þurfa að sækja um skráningu sem slík til Eftirlitsstofnunar EFTA jafnframt því sem þau munu lúta eftirliti stofnunarinnar. Á móti kemur að slík skráning mun gilda innan alls Evrópska efnahagssvæðisins.

Þá verður lánastofnunum, fjárfestingarfyrirtækjum, vátryggingafélögum, endurtryggingafélögum, eignastýringarfélögum, fjárfestingarfélögum, stjórnendum sérhæfðra sjóða og miðlægum mótaðilum óheimilt að nota lánshæfismat í eftirlitsskyni, t.d. við útreikning á eiginfjárkröfum, nema slíkt lánshæfismat sé gefið út af skráðu lánshæfismatsfyrirtæki.

Uppbygging frumvarpsins er á þá leið að í fyrsta lagi er reglugerðum Evrópusambandsins um lánshæfismatsfyrirtæki veitt lagagildi ásamt þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Í öðru lagi er kveðið á um að Eftirlitsstofnun EFTA og Fjármálaeftirlitið annist eftirlit með lánshæfismatsfyrirtækjum með staðfestu hérlendis.

Í þriðja lagi eru ákvæði um að Eftirlitsstofnun EFTA hafi heimild til almennra rannsókna og vettvangsskoðana hjá lánshæfismatsfyrirtækjum á Íslandi en til þeirra þurfi heimild dómara nema samþykki liggi fyrir.

Í fjórða lagi eru ákvæði um upplýsingagjöf til evrópskra eftirlitsstofnana og stofnana innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í fimmta lagi er kveðið á um aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA hér á landi og málskot til EFTA-dómstólsins.

Virðulegi forseti. Helstu áhrif frumvarpsins, verði það að lögum, eru að skapa traustari umgjörð um lánshæfismatsfyrirtæki og eftirlit með þeim, draga úr kerfisáhættu og stuðla að fjármálastöðugleika. Þá er það einnig til þess fallið að auka gæði lánshæfismats og tryggja að ekki sé treyst á slíkt mat í blindni við fjárfestingar. Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga til að styrkja fjármálamarkaði hér á landi og til að standa við samningsskuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.



[16:34]
Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram. Ég tek undir með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að markmið þessara laga, um að bæta gæði lánshæfismats og draga þannig úr kerfisáhættu og stuðla að frekari fjármálastöðugleika, er afskaplega mikilvægt. Lánshæfismatsfyrirtæki spiluðu stórt hlutverk í hinni alþjóðlegu fjármálakrísu. Byggt var á mati þeirra þar sem var hægt að gefa endalaust út af skuldabréfavafningum og öðru slíku. Það voru margir sem spurðu sig um gæði þessa lánshæfismats og alveg ljóst að lánshæfismatsfyrirtækin spiluðu mjög stórt hlutverk í þeirri alþjóðlegu fjármálakrísu sem við erum enn svo sem að eiga við að einhverju leyti. Ég fagna því verulega að þetta frumvarp sé komið fram vegna þess að það miðar auðvitað að því að auka gæði lánshæfismatsins og efla og samræma eftirlit með þeim.

Fram kemur varðandi meginefni frumvarpsins að þetta eigi líklega við um eitt lánshæfismatsfyrirtæki á Íslandi sem þurfi að lúta eftirliti Eftirlitsstofnunar EFTA. Mig langar aðeins að spyrja fjármála- og efnahagsráðherra hvaða kostnaður myndi fylgja því fyrir viðkomandi fyrirtæki að innleiða þetta. Ég sá það ekki alveg í fljótu bragði, þetta frumvarp er mjög jákvætt, en mig langar kannski aðeins að spyrja út í það. Svo tel ég í rauninni að allt gagnsæi og meira regluverk í kringum lánshæfismatsfyrirtækin sé af hinu góða. Það var það helsta sem ég vildi koma hér á framfæri varðandi þennan málaflokk.

(Forseti (NicM): Forseti skildi það svo að hv. þingmaður væri að flytja ræðu. Var það andsvar?)

Já, það var það.

(Forseti (NicM): Forseti biðst afsökunar á því, hv. þingmaður, ég sá einn putta, ekki tvo. Biðst afsökunar.)



[16:36]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð því miður að segja að ég er ekki með þessa tölu á hraðbergi, en tölurnar eru mismunandi eftir stærð fyrirtækjanna. Þær verða að sjálfsögðu kynntar fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd þegar frumvarpið verður tekið þar til meðferðar. En það er eins og mér finnist að það geti verið að talan hafi verið af stærðargráðunni 3 millj. kr. á ári, en ég þori þó ekki að fullyrða það á þessari stundu.



[16:37]
Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svarið. Það er alveg ljóst að þetta er nú ekki meginatriði frumvarpsins en mig langaði bara til að spyrja út í hvernig þessu væri háttað.

Það er annað sem ég vil líka taka fram í þessu og kannski nefna, að það sem hefur auðvitað verið að gerast líka varðandi hin alþjóðlegu lánsfyrirtæki er að ákveðin fyrirsjáanleiki hefur verið að aukast í starfsemi þeirra. Eitt af því sem ég tel að hafi gagnast verulega er að núna til að mynda birta þeir fyrir fram hvenær þeir ætli að veita viðkomandi ríki stöðumat. Ég held að það hafi aukið stöðugleika á þessum markaði þannig að markaðsaðilar geta betur séð það fyrir hvenær er von á slíku mati. Ég tel það jákvætt.

Mig langar líka í þessu öðru andsvari mínu að spyrja fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann telji að það þurfi kannski að auka eitthvað eftirlit með þessum fyrirtækjum hérlendis aukalega við þetta frumvarp?



[16:38]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Væntanlega fellur eftirlit með þeim fyrirtækjum, sem hafa verið að gefa lánshæfismat hér á landi, ekki undir Fjármálaeftirlitið heldur undir fjármálaeftirlit einhverra annarra ríkja þar sem þau eru staðsett. Ég get hins vegar alveg tekið undir þær áhyggjur sem felast í því að hér var ýmsum aðilum veitt lánshæfismat í hæsta gæðaflokki fyrir hrun og kom svo í ljós að þeir urðu gjaldþrota í nánast einu vetfangi. Það er því rík ástæða til þess að hafa eftirlit með þeim aðilum. Það er ástæða til þess líka að hafa það í huga að almennu umgjörðinni hefur verið breytt þannig að við erum með strangari reglur. Félögin sjálf hafa gert til sín strangari kröfur en áður. Ég held því að það sé minni hætta á að við sjáum mistök af þeirri stærðargráðu sem urðu síðast. En áhættan er alltaf einhver og vissulega ástæða til að vera meðvitaður um það.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.