138. löggjafarþing — 134. fundur
 9. júní 2010.
hugmyndir um sparnað í ríkisrekstri.

[10:33]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að bera upp fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra í framhaldi af grein sem hæstv. félagsmálaráðherra skrifaði í Fréttablaðið þar sem til umfjöllunar voru leiðir til að standa að niðurskurði. Við vitum það öll sem hér erum að þar bíður okkar mjög erfitt verkefni og mjög krefjandi. Ég tel því mjög mikilvægt að við eigum hér mjög hreinskiptnar umræður um hvaða leiðir hægt er að fara. Hugmyndir okkar hafa gengið út á það að nota eigi mismunandi aðferðafræði eftir því hvaða málaflokkar væru undir, t.d. um 10% í öðrum ráðuneytum en í velferðarráðuneytunum, og mér heyrist að ríkisstjórnin sé að vinna á þeim forsendum. En í mínum flokki höfum við annars vegar haft áhyggjur af frekari hugmyndum til skattahækkana og hins vegar ógegnsæi varðandi niðurskurðinn.

Nú birtast hugmyndir frá hæstv. félagsmálaráðherra um að fara þá leið að frysta laun opinberra starfsmanna í nokkur ár. Hann telur að það geti verið til þess fallið að bjarga störfum í opinbera geiranum. Því hefur verið mætt af mikilli hörku af hagsmunaaðilum og hefur reyndar verið tekið heldur fálega af hæstv. fjármálaráðherra og jafnvel öðrum í ríkisstjórninni.

Ég vil því inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvaða aðrar hugmyndir eru uppi á borðum. Eru menn að velta því fyrir sér að setjast niður með heildarsamtökum opinberra starfsmanna og ræða leiðir til að bjarga störfum, leiðir af þessum toga? Er t.d. verið að velta því fyrir sér að lækka starfshlutföll til að verja störf eða sjá menn fram á að niðurskurðurinn muni óhjákvæmilega þýða fækkun starfa í opinbera geiranum? Ég hef heyrt tölur um að ætli menn sér að ná þeim sparnaði sem við horfum á, um það bil 40–50 milljörðum, geti það þýtt allt að 8 þúsund störf í opinbera geiranum, þ.e. fækkun starfa um allt að 8 þúsund. Þetta er stærð vandans. Við þurfum að ræða hann opinskátt og af hreinskilni í þessum sal og ég inni hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvaða aðrar hugmyndir eru uppi en sú sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur kunngert.



[10:36]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja að ég tel að þær aðgerðir sem ráðist var í í fyrra, bæði á miðju ári 2009 og aftur um áramótin 2010, hafi gengið vonum framar, þær hafi gengið fyrir sig með minni sársauka og með meiri jákvæðri þátttöku forstöðumanna stofnana og starfsmanna en kannski var hægt að ætlast til. Og það sýnir mikinn vilja og mikinn dug allra til að takast á við þetta verkefni. Við höfum tölur í höndum sem vonandi verður hægt að gera opinberar innan skamms sem sýna að þessar aðgerðir skiluðu tilætluðum árangri og gott betur. Staðan er að því skapi betri sem við réðumst tímanlega í aðgerðir og drógum ekki að takast á við vandann.

Verkefnið núna er fyrst og fremst að setja saman rammann að fjárlögum fyrir árið 2011 og það er ærinn hausverkur. Menn þurfa í sjálfu sér ekki að gera sér það erfiðara en efni standa til með því að hafa þungar áhyggjur af árunum 2012 og 2013 í bili. Ég hef átt fundi með þeim aðilum sem kannski eiga mest undir í þessum efnum, svo sem forustumönnum sveitarfélaganna, Bændasamtökunum og Samtökum opinberra starfsmanna, á undanförnum dögum til að ræða við þá um þær útlínur sem við okkur blasa í þessum efnum. Ég hef síðan átt aftur fundi með sumum þessara aðila ásamt með fagráðherrum viðkomandi málaflokka til að fara yfir það hvernig þetta verkefni verður best af hendi leyst. Vissulega er ekki mikið svigrúm til almennra launahækkana, hvorki á hinum opinbera né á hinum almenna vinnumarkaði. Um það hygg ég að sé ekki mikill ágreiningur en ég hygg að ekki sé tímabært að velta fyrir sér hvernig með þau mál verður farið lengra inn í framtíðina. Ég tel að ekkert eigi að vera útilokað í þessum aðgerðum. Það á við um skipulagsbreytingar, sameiningu stofnana og ráðuneyta og annað sem getur með þeim hætti lagt okkur lið í þessu á komandi árum. Tal um að opinberum störfum muni fækka um allt að 8 þúsund er algerlega fráleitt og út í loftið sem sést best á því að á launaskrá hjá ríkinu eru milli 17 og 18 þúsund manns.



[10:38]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér þykja svörin heldur loðin. Í fyrsta lagi segir hæstv. fjármálaráðherra að ekki sé tímabært að velta þessum hugmyndum fyrir sér. Það hljómar þannig í mín eyru að þetta komi til greina. Reyndar tekur hæstv. ráðherra það sérstaklega fram að í sjálfu sér komi allt til greina. Mér heyrist að hæstv. fjármálaráðherra ætli ekki að slá út af borðinu þá hugmynd að hér verði almenn frysting á launum opinberra starfsmanna og það sé hugmynd sem verði uppi á borðum í þeirri vinnu sem fram undan er, sem kemur mér reyndar dálítið á óvart. En aðalatriðið varðandi þetta risastóra verkefni er að við þurfum að geta rætt um ólíkar hliðar þess og mismunandi leiðir sem við getum farið. Og ætli menn að koma með tíðindi af þessum toga, t.d. í opinbera geirann, held ég að betur færi á því að menn settust niður og legðu spilin á borðið, sýndu umfang verkefnisins og það hverju mismunandi aðferðir geta skilað í því efni. Þessi aðferðafræði, að skella þessu eins og blautri tusku framan í fólk, held ég að sé ekki til þess fallin að skapa frið og sátt sem við þurfum til að ná um þetta stóra og umfangsmikla verkefni.



[10:40]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður getur ekki ætlast til að farið sé með tæmandi hætti yfir þetta gríðarstóra mál á tveimur mínútum. Ég bið hv. þingmann sömuleiðis að leggja mér ekki orð í munn. Ég var fyrst og fremst að tala um að ég teldi ekki tímabærar vangaveltur um það hvernig með launamál opinberra starfsmanna yrði farið á árunum 2012 og 2013. Og ég var að vísa meira í það að það sem við værum að ræða núna, það viðfangsefni sem við er að fást, væri það sem við okkur blasir varðandi undirbúning undir fjárlagagerð fyrir árið 2011. Það hef ég verið að ræða við þessi samtök og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé sáttur við það. Er það ekki þannig sem við viljum vinna hlutina?

Ég geri mér enn vonir um, þó að það sé snúið, að ég nái að leggja fram skýrslu fyrir Alþingi um endurskoðun efnahagsáætlunarinnar, útlínurnar í því, með svipuðum hætti og við gerðum í fyrravor. Hún verður að vísu væntanlega ekki jafnítarleg enda er fyrst og fremst um uppfærslu á áætlun að ræða, kortlagningu á því hvar við stöndum miðað við áformin sem við settum okkur fyrir ári og þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar fjárlögum yfirstandandi árs. Þá verður þetta ferli opnara og kynnt með allt öðrum hætti en venjan var varðandi fjárlagagerð eins og við reyndar hófum í fyrra og ég geri ráð fyrir því og vona að hv. þingmenn séu sáttir við það.