138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

hugmyndir um sparnað í ríkisrekstri.

[10:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér þykja svörin heldur loðin. Í fyrsta lagi segir hæstv. fjármálaráðherra að ekki sé tímabært að velta þessum hugmyndum fyrir sér. Það hljómar þannig í mín eyru að þetta komi til greina. Reyndar tekur hæstv. ráðherra það sérstaklega fram að í sjálfu sér komi allt til greina. Mér heyrist að hæstv. fjármálaráðherra ætli ekki að slá út af borðinu þá hugmynd að hér verði almenn frysting á launum opinberra starfsmanna og það sé hugmynd sem verði uppi á borðum í þeirri vinnu sem fram undan er, sem kemur mér reyndar dálítið á óvart. En aðalatriðið varðandi þetta risastóra verkefni er að við þurfum að geta rætt um ólíkar hliðar þess og mismunandi leiðir sem við getum farið. Og ætli menn að koma með tíðindi af þessum toga, t.d. í opinbera geirann, held ég að betur færi á því að menn settust niður og legðu spilin á borðið, sýndu umfang verkefnisins og það hverju mismunandi aðferðir geta skilað í því efni. Þessi aðferðafræði, að skella þessu eins og blautri tusku framan í fólk, held ég að sé ekki til þess fallin að skapa frið og sátt sem við þurfum til að ná um þetta stóra og umfangsmikla verkefni.