143. löggjafarþing — 38. fundur
 16. desember 2013.
upplýsingar um málefni hælisleitenda.

[15:08]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Innanríkisráðuneytið hefur verið viðfangsefni fjölmiðla að undanförnu vegna upplýsinga sem virðast hafa lekið úr ráðuneytinu, eða einhverri af stofnunum þess, um málefni tiltekins hælisleitanda. Ég ætla ekki að fara út í það tiltekna mál hér, en vil spyrja hæstv. ráðherra hvað hún hafi gert til að komast til botns í því hvernig gögn með viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitendur rötuðu í fjölmiðla. Burt séð frá því máli sem þessi gögn tengjast verður að segjast að það er mjög óheppilegt að uppi sé óvissa um hvernig þessi gögn láku út.

Mér er kunnugt um að hæstv. ráðherra hafi komið á fund hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vegna málsins, en mér skilst líka að enn sé óvissa um það hvernig þessi tilteknu gögn komust í hendur fjölmiðla, hvaðan þau komu, hvort það var frá embættismönnum eða aðstoðarmönnum ráðherra eða eitthvað slíkt. Þetta er enn óvitað. Nú ætla ég ekki að setja mig í neitt dómarasæti en vil hins vegar segja að það er ekki gott að gögnum sem geta skaðað borgarana sé lekið í fjölmiðla, ekki aðeins út af þessu tiltekna máli heldur þar með skaðast traust stofnana sem við verðum að geta treyst og eru undirstöður í því samfélagi sem við byggjum.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig þetta mál hafi verið rannsakað, hvort hún sjái fram á að þetta mál verði upplýst því að ég tel fordæmi skipta hér verulega miklu máli. Þetta eru viðkvæm mál þar sem við verðum að geta treyst því að stjórnsýslan virki og því er svo mikilvægt að svona mál séu upplýst.



[15:10]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og vek athygli á því, og ég held að flestir þingmenn átti sig á því að mjög mörg þeirra mála sem verið er að fjalla um í stjórnsýslunni eru trúnaðarmál.

Hvað varðar innanríkisráðuneytið, t.d. til upplýsingar eru 5 þús. mál sem koma á ári hverju sem ný mál inn í innanríkisráðuneytið og því fylgir gríðarlegt magn af upplýsingum og trúnaðarupplýsingum. Ég er algjörlega sannfærð um að þar er öryggi trúnaðarupplýsinga vel varið enda er formfesta í kringum slík mál mikil og reglur í því ráðuneyti eins og öðrum vel virtar.

Ég held að þetta mál, af því að við ræðum ekki hér um málefni einstaklinga eða einstök mál, en þegar svona kemur upp, þá er það algjörlega einstakt miðað við þann fjölda sem er af málum inni í ráðuneytunum almennt . Ég segi líkt og hv. þingmaður að ég harma það. Ég harma að það skuli gerast í einhverjum tilvikum að gögn sem eiga að vera trúnaðarmál skuli fara víðar.

Það er hins vegar þannig að í málefnum er tengjast hælisleitendum fara gögn, eins og ég hef áður upplýst þingheim um þegar hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi málið hér, nokkuð víða. Þau fara til lögmanna, lögreglunnar, Rauða krossins, þau fara nokkuð víða. Kannski eigum við, og við ræddum það á ágætum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að hugsa þessi mál aðeins upp á nýtt, ekki bara innan innanríkisráðuneytisins heldur innan stjórnsýslunnar almennt. Þá eigum við að velta því fyrir okkur hvort læsa þurfi gögnum frekar, hvort takmarka þurfi enn frekar aðgang að þessum gögnum, bæði þá innan ráðuneytanna og hugsanlega innan undirstofnana þeirra. Það er alveg rétt, eins og hv. þingmaður kom hér inn á, og ég tek alfarið undir það, að það ber að skoða það. Það er búið að skoða málið innan innanríkisráðuneytisins. Ráðuneytisstjórinn hefur farið með það. Engin ástæða er til að ætla að nokkur formleg gögn hafi farið frá ráðuneytinu þannig að ég get ekki útskýrt nákvæmlega hvernig þetta gerðist, þ.e. ef það hefur gerst. Ég get einungis útskýrt það að við fjöllum um mikinn fjölda mála (Forseti hringir.) hjá ráðuneytinu. Þau koma víða við og upplýsingar úr þeim eiga að sjálfsögðu að vera þar og í undirstofnunum. (Forseti hringir.) Þess vegna erum við á stöðugri vakt hvað þetta varðar og munum vonandi halda því áfram.



[15:12]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hún sagði hér að sér væri í raun ekki kunnugt um hvað hefði gerst, hvernig þessi gögn hefðu komist í hendur fjölmiðla. Ég skil hæstv. ráðherra þannig og óska þá eftir því að hún staðfesti það í seinna svari sínu.

Það sem mig langar að fá á hreint er hvort hæstv. ráðherra líti þá svo á að rannsókn málsins innan ráðuneytisins sé lokið og að málið verði ekki upplýst eða hvort eitthvað verði áfram skoðað hvernig þetta gekk til.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, þetta er mikilvægt mál að því leyti að þegar svona nokkuð kemur upp rýrum við traust stofnana samfélagsins. Þess vegna lít ég svo á að þó að alltaf geti eitthvað slíkt komið upp á sé mikilvægt að svona mál séu upplýst þannig að allir borgarar geti treyst á það að málsmeðferð þeirra sé réttlát og geti treyst þessum undirstöðustofnunum samfélagsins.



[15:13]
innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég upplýsti það hér áðan og segi það bara aftur að við getum ekki fundið því stað, forsvarsmenn og stjórnendur ráðuneytisins, að þessi gögn hafi farið út úr ráðuneytinu. Við getum auðvitað ekki heldur leitað af okkur allan grun hvað það varðar í undirstofnunum ráðuneytisins.

Eins og ég fór yfir áðan fara þessi gögn nokkuð víða og við þurfum að skoða hvort þau fari of víða. Við þurfum að ræða það og fara yfir það. En líka til þess að árétta það, vegna þess að hv. þingmaður heldur því hér fram að ákveðnir fjölmiðlar séu með þessi gögn, þá höfum við ekki fengið staðfestingu á því. Við höfum einungis munnmæli um það. Þeir sem hafa sent þessi gögn, og það eru ekki einu sinni sambærileg gögn og eru til í ráðuneytinu, eru einstaklingar en ekki ákveðnir fjölmiðlar þannig að því sé til haga haldið.

Ég tek undir það með hv. þingmanni, ég held að við eigum að skoða það stöðugt og vera í stöðugri eftirgrennslan og eftirfylgni með að tryggja að trúnaðarupplýsingar fari ekki þangað sem þær eiga ekki að fara. Það er alveg skýrt. Og ráðuneytisstjórinn í innanríkisráðuneytinu hefur leitað af sér allan grun innan ráðuneytisins með það, en við verðum að tryggja að múrarnir séu eins þéttir og þeir mögulega geta verið og þess vegna þurfum við að rýna það. Ég tel þetta gefa ástæðu til þess að við eigum að rýna það hvort gögnin geta komist í hendur of margra og hvort við hugsanlega dreifum þeim of víða.