146. löggjafarþing — 43. fundur
 13. mars 2017.
afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[15:06]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Til hamingju með daginn. Í dag og í gær hefur afnámi haftanna verið fagnað um land allt og víða um heim. Ísland hefur nú verið opnað fyrir óheft kaup einstaklinga, fyrirtækja og lífeyrissjóða á gjaldeyri. Ísland er nú aftur komið á alþjóðlega fjármálamarkaði. Fjölmiðlar innan lands og utan taka eftir vönduðum og fumlausum vinnubrögðum við afnám fjármagnshafta og sérfræðingar ljúka upp einum rómi um að þetta séu gleðifréttir.

Það var gaman í gær að fá að tilkynna það að Ísland sé búið að hrista af sér síðustu hlekki hrunsins og það verður gleðidagur á morgun þegar breytingarnar hafa öðlast gildi eftir formlega birtingu í Stjórnartíðindum. Fyrirtæki, einstaklingar og lífeyrissjóðir geta nú flutt fjármagn að og frá landinu án takmarkana. Eftir standa takmarkanir á þá tegund spákaupmennsku sem skapaði snjóhengjuna til að byrja með, þ.e. stórfelld vaxtamunarviðskipti. Strax við setningu haftanna var stefnt að því að þau yrðu tímabundin. Fyrst áttu þau að vera í tvö ár en ekki tókst að afnema þau á þeim tíma og ítrekað hefur afnám þeirra reynst erfiðara en vonir stóðu til.

Á þessum tímamótum er rétt að spyrja hvort afnám haftanna geti ekki valdið óstöðugleika. Því er til að svara að 2017 er ekki nýtt 2007. Umsvif bankakerfisins eru miklu minni en fyrir áratug, einstaklingar og fyrirtæki hafa greitt niður skuldir en á þeim tíma söfnuðu þau skuldum. Hagfræðingar eru sammála um að efnahagur þjóðarinnar standi nú mun styrkari fótum en þá. Ferðaþjónusta, útvegur og fjölbreytt nýsköpun hafa aukið útflutning nú í stað hins hola bankakerfis sem gein yfir öllu árið 2007. Fjármálakerfið býr nú við allt annars konar regluverk þar sem áhætta er minni og gegnsæi meira. Og við höldum áfram á þeirri braut, hér á Alþingi er lífleg umræða um framtíð bankakerfisins og ég hef nýlega skipað hóp til þess að fjalla um ýmis álitamál sem skoða þarf þar.

Þegar ég kom inn í fjármálaráðuneytið skipaði ég að nýju í stýrinefnd um losun hafta sem starfar undir stjórn fjármálaráðherra. Fyrsti fundur hinnar nýju nefndar var 31. janúar en alls hafa verið haldnir fimm fundir í nefndinni. Nefndin lagði áherslu á að búa svo um hnúta að hægt væri að ljúka afnáminu hratt. Ég hef í ræðu og riti lagt mikla áherslu á að höftin yrðu afnumin svo fljótt sem verða mætti, en þó ávallt lagt mikla áherslu á að ekki mætti tefla stöðugleika í efnahagskerfinu í hættu.

Fyrir rúmlega tveimur vikum óskuðu nokkrir sjóðir, sem eiga aflandskrónur, eftir fundi með fulltrúum Seðlabanka og gáfu í skyn að á fundinum myndu þeir koma með tilboð um sölu á hlut sínum til bankans. Ég taldi rétt að upplýsa formenn allra flokka strax um þennan fund. Ég kom ásamt fleiri fulltrúum í stýrinefnd um afnám hafta á fund formanna minnihlutaflokkanna föstudaginn 24. febrúar, þremur dögum áður en fundurinn var haldinn. Á fundinn sem haldinn var í New York mættu einnig fulltrúar forsætisráðherra og fjármálaráðherra en þegar til kom reyndust hugmyndir sjóðanna óraunhæfar og engir samningar voru gerðir.

Stýrinefndin lagði mikla áherslu á það í allri vinnu sinni að standa faglega að öllum skrefum. Fjármálaráðuneytið, forsætisráðuneytið og Seðlabankinn unnu þétt saman, niðurstaðan er afar ánægjuleg og ég vil nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á þann plóg. Vinnu af þessu tagi þarf að vinna bæði hratt og í trúnaði því að niðurstöður aðgerðanna hafa áhrif á fjármálamarkaði. Hér gilda innherjareglur og mikilvægt að allir markaðsaðilar sitji við sama borð. Nú hefur náðst samkomulag við eigendur stórs hluta aflandskróna. Á næstu tveimur vikum skýrist hve margir þekkjast boð Seðlabanka um að losa sig við eignir sínar á sama gengi.

Virðulegi forseti. Aðgerðirnar nú eru hluti af fjölbreyttum aðgerðum sem ríkisstjórnin vinnur að til þess að auka gengisstöðugleika og bæta almenn rekstrarskilyrði. Ríkisstjórnin tilkynnti í gær um verkefnisstjórn sem fær það hlutverk að leiða vinnu við endurmat á ramma peningastefnunnar. Verkefnisstjórninni er ætlað að vinna með þingflokkum, erlendum og innlendum sérfræðingum, aðilum vinnumarkaðarins og fleirum. Í stjórnarsáttmála er því beinlínis lýst yfir að stefna skuli að auknum gengisstöðugleika.

Á fyrsta degi þingsins eftir jólahlé lagði ég fram á Alþingi fjármálastefnu sem kveður á um aukið aðhald í ríkisfjármálum. Samhljómur er um að nauðsynlegt sé að sýna aðhald í ríkisrekstri næstu misseri, m.a. til að skapa svigrúm til vaxtalækkunar.

Um mitt ár í fyrra fór fram útboð á aflandskrónum þar sem viðskipti urðu á genginu 190 kr. á evru. Þátttaka í útboðinu olli vonbrigðum en í ráðuneytinu heyri ég að líklegt sé að á þeim tíma hefði verið hægt að þurrka snjóhengjuna svonefndu upp að mestu leyti ef gengið hefði verið 165–170 kr. á evru. Nú sjáum við glöggt að skynsamlegt hefði verið að ljúka viðskiptunum á því gengi. Þáverandi stjórnvöld ákváðu að gera það ekki, kannski vegna þess sjónarmiðs að með því hefði verið gert allt of vel við aflandskrónueigendur. Eftir á sjá allir að Íslendingar hefðu grætt mjög mikið á því að loka dæminu þá en menn misstu af því tækifæri. Það er rétt að minna á að mikill kostnaður fylgir því að halda úti stórum gjaldeyrisforða og Seðlabankinn hefur haft að undanförnu kostnað bæði af vöxtum og gengistapi. Núverandi stjórnvöld spila úr þeim spilum sem eru á hendi núna og hafa að sjálfsögðu hagsmuni almennings í huga og að leiðarljósi þegar samkomulag er nú gert við aflandskrónueigendur. Aðalatriðið er að almenningur getur nú keypt evrur á miklu lægra verði en eigendur snjóhengjunnar. Efnahagslífið kemst undan höftunum strax.

Nú geta fyrirtæki sem við erum öll stolt af, eins og Marel og Össur, stundað sín viðskipti eðlilega. Í höftum hefðu þau ævintýrafyrirtæki aldrei getað orðið til. Við getum ekki sagt fyrir um það hversu mörg Marel-fyrirtæki hefðu getað orðið til ef höftin hefðu ekki verið eða ef þau hefðu verið afnumin fyrr. En þegar gengið styrkist græða allir sem eiga krónur. Gunna og Jón eru ríkari í evrum talið í dag en þau voru fyrir ári. Aflandskrónueigendurnir urðu líka ríkari vegna þess að samningum var ekki lokið fyrr.

Allir stjórnmálamenn hafa lýst yfir mikilvægi þess að Ísland yrði ekki í höftum um langan aldur. Við þekkjum fyrra haftatímabil íslensku krónunnar, það stóð í meira en 60 ár. Atvinnulífið hefur verið heft í meira en átta ár í þetta sinn. Þó að víðtæk samstaða hafi verið um höftin á sínum tíma getur enginn sagt til um þann óbeina skaða sem þau hafa valdið atvinnulífinu. Með afnámi þeirra er stigið stórt skref í átt að því að hægt verði að lækka vexti og að gengið verði stöðugra. Hvort tveggja bætir samkeppnisstöðu íslenskra heimila og fyrirtækja og það er fagnaðarefni. Því segi ég: Til hamingju, Ísland.



[15:14]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýrslu hans. Ég þekki vel þá tilfinningu þegar ný ríkisstjórn kemur að henni finnist gjarnan eins og árið sé núll og upphaf sögunnar hér og nú. En auðvitað hafa verið margir áfangar á þessari leið allt frá því að fyrsta áætlunin um afnám hafta var lögð fram árið 2011 og margt gott verið gert á þeirri leið sem hefur skilað okkur þangað sem við erum í dag. En um leið deila menn vissulega um ýmsar af þeim aðgerðum sem voru lagðar fram.

Mig langar í fyrsta lagi að ræða aðeins um það samkomulag sem gert hefur verið við eigendur aflandskrónueigna og hins vegar að ræða aðeins um framhald mála. Það er svo að þegar kynntar voru áætlanir sem fyrst og fremst gengu út á stöðugleikaskatt á sínum tíma, árið 2015, og stöðugleikaframlög voru kynnt sem varaleið, var rætt um að útboð á aflandskrónueignum skyldi vera þá um haustið 2015. En útboðið var ekki fyrr en sumarið 2016 þegar þegar höfðu verið gerðir samningar um stöðugleikaframlög frá fjármálafyrirtækjunum föllnu. Þá þegar var farið að eiga samtöl við ýmsa kröfuhafa, eins og var talsvert tekist á um í þessum sal. En þá var gert ráð fyrir útboði á aflandskrónum haustið 2015. Úr því varð ekki. Um það var spurt margoft í umræðum, af hverju ákveðið hefði verið að bíða með það.

Þegar við ræddum hér eina helgi í maí 2016, 20.–22. maí, um þann lagaramma sem síðan var settur um meðferð aflandskrónueigna spurði ég eftir þessu því að ég hafði vissar áhyggjur af því á þeim tíma, og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hvort að það að þrotabúin væru í raun og veru sloppin úr höftum hefði létt þrýstingi af aflandskrónueigendum. Í ljósi þess að þarna voru undir 319 milljarðar en eftir stóðu svo 195 milljarðar má segja að þetta útboð hafi ekki tekist. Hæstv. núverandi fjármálaráðherra kemur hér og segir að í raun og veru hefði verið betra að semja við aflandskrónueigendur þá á öðru gengi. Hann virðist líka telja að þarna hafi verið gerð mistök í framkvæmdinni á losun hafta. En þá, í maímánuði 2016, voru gefnir 48 tímar til að fara yfir málið því að það er auðvitað staðan þegar maður er staddur í stjórnarandstöðu að manni er tilkynnt um hlutina en ekki beinlínis spurður álits. Á sínum tíma kom fram í nefndaráliti mínu um þetta mál að það hefði ekki einu sinni gefist tími til að meta hvaða áhrif það hefði að færa útboðið með þessum hætti.

En í öllu falli liggur fyrir og um það er ekki deilt að nú er búið að semja við þessa eigendur aflandskrónueigna upp á 90 milljarða á talsvert hagstæðari kjörum en hefði komið til í útboðinu sumarið 2016. Þeir geta því gengið frá borði nokkuð sáttir við sína stöðu og vissulega skýrist það af því að gengi krónunnar hefur styrkst, en við hljótum líka að velta fyrir okkur hvort þessi tímasetning hafi verið eðlileg og hvort eitthvað hafi þrýst á núna að ganga til samninga með þessum hætti.

Það má kannski segja að það þrýsti á að losa um höftin að hér er efnahagsástand með allt öðrum hætti en verið hefur. Þau rök sem við höfum haft fyrir höftunum, að útflæði og innflæði fjármagns raski ekki stöðugleika, fara að verða hverfandi þegar um er að ræða verulega öflugan gjaldeyrisvaraforða, að stóru leyti óskuldsettan, sem nýtist okkur að sjálfsögðu til að tryggja stöðugleikann ef fjármagn fer úr landi.

Að sjálfsögðu hefur sú staða sem skapast hefur sem betur fer orðið til þess að rökin fyrir höftunum hafa orðið hverfandi. En eigi að síður vakna ýmsar spurningar þegar ákveðið er með þessum hætti að ganga til samninga við þessa tilteknu aðila. Nú hefur verið boðað að aðrir aðilar geti þá farið úr landi á sömu kjörum og þá sjáum við a.m.k. að þeir aðilar sem það munu gera og munu nýta sér munu hagnast um tugi milljarða samanlagt með því að hafa ekki tekið þátt í útboðinu á sínum tíma heldur fara úr landi nú.

Við sáum í morgun að gengi krónunnar veiktist. Við spurðum eftir því í gær, bæði á fundi formanna með ráðherranefnd um efnahagsmál og svo á fundi efnahags- og viðskiptanefndar, og ég vil þakka fyrir að orðið var við því strax að halda fund í efnahags- og viðskiptanefnd í gær til að fara yfir málið, um þær sviðsmyndir sem stjórnvöld hefðu teiknað upp hvað varðar gengisþróun því að auðvitað er það svo að þær aðgerðir sem ráðist var í að mig minnir núna í september 2016 voru kannski þær aðgerðir í haftalosun sem vörðuðu almenning mestu. En þær aðgerðir sem nú er ráðist í skipta hins vegar meira máli fyrir fyrirtækin í landinu, lítil og meðalstór fyrirtæki sem munu losna við þá íþyngjandi þætti sem fylgja skilaskyldunni. Almenningur verður kannski ekki eins var við það, en mikilvægt er að við sem hér störfum hugum að því að okkar hlutverk er alltaf að verja hag almennings. Ég hefði viljað sjá dregnar upp fyrir okkur mun skýrari sviðsmyndir um hvað ólík gengisþróun getur haft í för með sér, hver áhrifin verða í framhaldinu á vaxtastig í landinu, á kjör almennings, á verðlagsþróun, en í ljósi þess að stjórnarandstaðan hefur verið í því hlutverki að vera áhorfandi fremur en þátttakandi í ákvarðanatöku olli það mér líka vonbrigðum að þessar sviðsmyndir voru ekki lagðar fram en borið við að um þetta væri alger óvissa.

Það er vissulega svo, ég held að það deili ekki nokkur maður um það, að ytri aðstæður eru hagfelldar núna til þess að losa um höft og afnema höft. Auðvitað fögnum við þeim áfanga. Eins og ég sagði hér í upphafi: Að þessu hefur verið stefnt allt frá 2011. Ég vil líka segja að allan þann tíma hefur stjórnarandstaðan, hver sem hana hefur skipað, greitt fyrir því að mál tengd þessu mikilvæga hagsmunamáli atvinnulífs og almennings á Íslandi hafi náð fram að ganga. Ég vil að sjálfsögðu segja að við fögnum því að við séum að komast á þann stað. En eðlilega setjum við hins vegar spurningarmerki við þá samninga sem hafa verið gerðir, þær tímasetningar sem uppi eru og þá staðreynd að einhverjir aðilar þarna úti, einhverjir vogunarsjóðir þarna úti, ganga frá borði með miklu betri samninga en þeir gátu vænst miðað við þá skilmála sem uppi voru í útboðinu í sumar.

Að lokum langar mig, því að tíminn líður hér hratt, að nefna að kynnt var líka í gær ný nefnd um endurskoðun peningastefnu. Þetta var okkur formönnum kynnt á fundi með ráðherranefnd um efnahagsmál. Ég taldi reyndar að verið væri að leita eftir áliti okkar á þeirri nefnd, og lét þá skoðun mína í ljósi að mér hefði þótt eðlilegra að það hefði verið haft samráð allra flokka um hvernig ætti að standa að skipun slíkrar nefndar. Það er vissulega rétt sem bent hefur verið á að peningastefna er að mörgu leyti viðfangsefni sérfræðinga en ekki endilega þingmanna úr öllum flokkum. Er nokkuð sem hefði mælt gegn því að ríkisstjórn með minnsta mögulega meiri hluta á Alþingi, með minni hluta atkvæða á bakvið sig, þar sem einhverjir fulltrúar hafa talað mjög fyrir bættum vinnubrögðum á Alþingi og opnari stjórnsýslu og minna fúski, hefði nú kallað til fundar og sest niður og haft samráð um hvaða sérfræðinga ætti að skipa í slíka nefnd þannig að unnt væri að tryggja þverpólitíska nálgun og ábyrgð á störfum slíkrar nefndar og þar með að allir flokkar á Alþingi öðluðust ákveðið eignarhald? Nei, í þeirri tillögu, sem ég taldi að verið væri að leita álits okkar á en var svo kynnt sem staðreynd á blaðamannafundi síðar um daginn, er ætlast til þess að þingflokkarnir skipi samráðsnefnd sem væntanlega fær þá að hitta þá aðila sem sérfræðingarnir velja og taka fyrir þau efni sem sérfræðingarnir velja. Ég segi: Þarna hafði ríkisstjórnin gott tækifæri til að sýna að hún vildi önnur og betri vinnubrögð, meira samráð, vildi horfa til þess og viðurkenndi að það er líka ákveðin pólitík sem felst í því hvernig sérfræðingar eru valdir til starfa í slíka nefnd, að það er pólitík sem felst í því að endurskoða peningastefnuna og það skiptir máli að þar sé tiltekinna spurninga spurt. Þetta er gríðarstórt hagsmunamál fyrir allan almenning því það snýst um það hvernig við getum tryggt stöðugleika í efnahagsmálum, gengisstöðugleika, hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðina þegar kemur að stefnu í gjaldmiðlamálum. Þarna hafði ríkisstjórnin gott tækifæri til að opna sig, sýna að hún vilji aukið samstarf á Alþingi og um leið hafa í heiðri þau sjónarmið að mikilvægt sé að fá færa sérfræðinga til verksins. Ég hefði talið að það tækifæri hefði ríkisstjórnin átt að nýta. En hún kaus að tilkynna um ákvörðun sína á blaðamannafundi klukkutíma síðar. Mér finnst þetta tækifæri sem fór forgörðum hjá núverandi ríkisstjórn.



[15:25]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Nú eru rétt rúmlega átta ár síðan ég gerði mér ferð á þingpalla sem óbreyttur borgari til að verða vitni að setningu neyðarlaga. Ég man að ég horfði yfir þingsalinn og ekki var laust við að ég fylltist óróa vegna þess hve mikill þungi hvíldi yfir öllu og óvissa var alltumlykjandi. Úti sem inni var drungi og erfiðir tímar fram undan fyrir þjóðina alla.

Neyðarlögin björguðu því sem bjarga mátti og voru okkur til gæfu, því er ekki hægt að neita. Þrátt fyrir þá staðreynd að þeir sem settu varnarhjúpinn um landið höfðu átt mikinn þátt í því ófremdarástandi sem yfir okkur dundi í kjölfar gríðarlegrar ófagmennsku og innansveitarkróniku við einkavæðingu bankanna. Það þekkja allir þá sögu og óþarfi að rifja hana upp núna.

Nú eftir alllangt ferli er verið að taka niður verndarhjúpinn sem hefur gert það að verkum að við höfum verið innan hafta sem hafa gefið Seðlabankanum svigrúm til að handstýra gengi krónunnar nokkuð meira og sveiflur fátíðar á gengi krónunnar, þrátt fyrir að hún, rétt eins og fyrir hrun, hafi hægt og bítandi orðið sterkari gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum.

Það hefur sína kosti og ókosti, en heildrænt séð hefur sá hagvöxtur sem hér hefur drifið upp lífsgæði fyrir marga átt rætur sína að rekja til óvæntra aðstæðna með nýjum tekjulindum sem skila miklum gjaldeyri inn í landið.

Á næstunni mun verndarhjúpurinn hverfa án þess þó að hér hafi verið mótuð heildræn gjaldmiðlastefna. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju þetta er gert í öfugri röð. En það er svo margt sem mér er fyrirmunað að skilja í þessari atburðarás. Síðan til að auka á ónotatilfinninguna kemur í ljós að þeir sérfræðingar sem eiga að leiða vinnuna við peningastefnuna eru fyrrum talsmenn greiningardeilda, auglýsingastofa bankanna í aðdraganda hruns, aðili sem tengdist Sjóði 9 og síðan aðili sem er beintengdur inn í Gamma.

Þetta boðar ekki gott, forseti, þegar kemur að því að skapa traust gagnvart nýjum tímum sem einkenna ættu hið nýja Ísland. Af hverju var sá viðvaningsbragur í samningatækni hafður á að fulltrúar íslenskra yfirvalda hitta helstu vogunarsjóðina á þeirra heimavelli í stað þess að þeir séu boðaðir hingað? Af hverju í ósköpunum þykir það ásættanlegt að seðlabankastjóri beri við slíkum trúnaði að ekki er með nokkru móti hægt fyrir þingmenn að fá neitt uppgefið í þannig umhverfi, að þeim beri skylda að virða trúnað við slíkar upplýsingar. Þá á ég við trúnað um það hverjir þessir vogunarsjóðir eru.

Rétt eins og ég sat hér á þingpöllum fyrir rúmum átta árum og var full af óróa og skynjaði að margt af því sem ætti eftir að gerast væri um margt einkennandi af slembilukku og að þetta reddaðist, samanber t.d. — já, ég ætla að segja það — Icesave-samningurinn hinn fyrsti. Þá rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds þegar forystumenn þessa gjörnings, fjármálaráðherra, forsætisráðherra ásamt seðlabankastjóra, gátu ekki upplýst um að neinar sviðsmyndir væru tilbúnar ef ske kynni að þessi gríðarlega stóra tilraun færi úrskeiðis.

Ítrekað var óskað eftir slíkum upplýsingum á lokuðum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í gær og ekki var hægt að fá neinar slíkar upplýsingar. Þá hlýtur það að vera svo að slíkar sviðsmyndir, eða viðbragðsáætlun, séu ekki til. Það finnst mér mjög óvarlegt og skora á viðeigandi stofnanir og ráðamenn þeirra að gera eitthvað í því nú þegar.

Rétt eins og landsmenn allir fagna ég þessum áfanga og vil leggja á það þunga áherslu að liggja þarf fyrir á mjög skýran og afdráttarlausan máta að möguleiki á að efnahagshamfarir verði ekki aftur og muni ekki standa framförum fyrir þrifum með því að bjóða upp á gloppur í lögum sem geta skapað nýja áhættu með heitum sem minna á ís eða jökla.

Forseti. Ég vona að enginn stjórnmálamaður eða embættismaður fyllist oflæti og haldi að músarleiknum sé lokið við öflugan her lögfræðinga vogunarsjóðanna eða fjármálabraskara, sem kunna að hakka grá svæði á laga- og regluverki til að finna leið til að láta samfélög blæða. Fjármálaráðherrann segir í ræðu sinni: Til hamingju Ísland. En ekki eru nema átta ár síðan þáverandi forsætisráðherra sagði: Guð blessi Ísland. Hollt er að muna að enginn veit sína ævi fyrir né hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Að vera vel undirbúinn undir mögur ár eða óvæntar aðstæður er lykillinn að marglofuðum stöðugleika.

Að lokum vil ég fordæma þann skort á upplýsingum sem þingmenn stjórnarandstöðunnar þurfa að búa við í þessu máli og algjöran skort á alvörusamráði. Þá vil ég minna á þann mikla aðstöðumun sem þingmenn búa við til að vinna úr og greina þessa aðgerð. Þá er vert að hafa í huga hvað hefði verið hægt að gera fyrir þá 20–49 milljarða sem talið er að við höfum tapað í þessu verkferli.



[15:30]
forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því sérstaklega að við höfum náð þeim áfanga, sem ekki fyrir svo löngu var alls ekki sjálfsagður, að lyfta með öllu höftum af íslenskum almenningi, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum. Það er ekki lengra síðan en fyrir kosningarnar 2013 að harkalega var tekist á um hvaða valkostum við stæðum frammi fyrir. Það er sömuleiðis þannig að við hvert skref sem við höfum stigið á undanförnum árum höfum við séð sterka hagsmunaaðila beita öllu afli til að grafa undan áætlunum íslenskra stjórnvalda til að verja íslenskan almenning og koma aftur á eðlilegum reglum um fjármagnsflæði til og frá landinu.

Leitað hefur verið til alþjóðlegra stofnana. Farið hefur verið til dómstóla. Það hefur margoft verið herjað á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sérfræðingar sendir út af örkinni til að skrifa greinar í virt alþjóðleg dagblöð, allt til þess að grafa undan Alþingi í þeirri fyrirætlan, sem við höfum hér fylgt, að losa Ísland að nýju undan gjaldeyrishöftunum. Kannski má segja að það hafi ekki verið skrýtið vegna þess að hinir fjárhagslegu hagsmunir sem voru undir voru gríðarlegir.

En við erum komin á þennan stað eftir að hafa fylgt markvissri góðri áætlun sem var endurskoðuð og síðast sett fram árið 2015, þar sem við brutum vandann niður í þrjá ólíka flokka. Í þeim efnum var sömuleiðis fylgt góðri ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrsti flokkurinn voru slitabú fallinna fjármálafyrirtækja og við þekkjum hvernig við tókumst á við þann vanda. Við sögðum: Það verður ekki þannig að eignir fallinna fjármálafyrirtækja geti leitað til kröfuhafa með þeim hætti að það valdi þrýstingi á gengi íslensku krónunnar. Og við fundum frábæra lausn á þeim vanda.

Næsti flokkur var sá sem hér hefur verið rætt um í dag, aflandskrónurnar. Við höfum haldið fjöldann allan af útboðum. Ég vil nefna það hér af því að það er oft talað um útboðið sem haldið var í fyrra. Það útboð kom í kjölfarið á um 20 öðrum útboðum sem höfðu átt sér stað á fyrri stigum málsins. Það var bara enn eitt útboðið þar sem við vorum að reyna að létta af þessari snjóhengju, þessum skafli úr snjóhengjunni. Það hefur gengið vel.

Nú horfir til þess að það séu rétt um 100 milljarðar, mögulega, sem sitja eftir af þeim vanda sem fyrir ekki svo löngu var margföld sú fjárhæð. Svo er það þriðji flokkur snjóhengjunnar eða þess þrýstings sem hefur beinst að íslensku krónunni, það er bara einfaldlega innlendi markaðurinn sem við erum hér í dag að sjá lyftast. Það er sömuleiðis í samræmi við þá áætlun sem við höfum unnið að, í samræmi við fyrri skref sem við kynntum til sögunnar í fyrra og tóku gildi núna síðast um áramótin, þ.e. þau skref sem þar voru lögfest. Við sögðum í fyrra, í því frumvarpi sem þá var lagt fram — í umræðu um það mál — að gert væri ráð fyrir því að stjórnvöld myndu snemma á næsta ári, þ.e. á árinu 2017, endurmeta aðstæður til hækkunar fjárhæðarmarka gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga samkvæmt 1. og 2. gr. frumvarpsins ásamt áframhaldandi undirbúningi að fullri losun fjármagnshafta. Lögð var sú skylda á Seðlabankann að endurskoða fjárhæðarmörkin fyrir 1. júlí 2017. Þarna komu fram alveg skýr áform um að við myndum strax upp úr áramótum halda þeirri vinnu áfram með þau sömu markmið og við höfðum þá þegar kynnt.

Mér finnst það skjóta skökku við þegar menn koma hingað upp og segja að útboðið, sem haldið var um mitt ár í fyrra, hafi ekki verið vel heppnað. Staðreyndin er sú að við fengum þátttöku í því útboði sem var langt umfram það sem tekist hafði að fá fram í fyrri útboðum; langt, langt, langt umfram það. Veruleg fjárhæð sem þá losnaði, rétt um 70 milljarðar, ef ég man rétt, sem við náðum að losa í útboðinu. Vissulega stóð eftir há fjárhæð en engu að síður vel heppnað útboð sem var undanfari þess að við gátum hafið afnámsferli á innlenda aðila.

Einnig má segja, gagnvart þeim sem stilla þessu þannig upp að við höfum tapað einhverju með því að ganga ekki lengra á þeim tímapunkti, að hægt sé að horfa á þetta á hinn veginn og segja: Það var eins gott að við héldum útboð í fyrra, ekki satt, þegar gengi krónunnar var eins hátt og það er nú orðið í sögulegu samhengi. Þetta er auðvitað allt saman einhver eftiráspeki, að standa hér í dag og segja: Ja, það var náttúrlega augljóst í júní 2016 að gengi krónunnar var að fara að styrkjast. En þetta er ekki svona. Þeir sem láta svona ættu að vita mun betur.

Aðalatriði málsins er að vilji menn horfa á það hverjir eru að hagnast á þeim viðskiptum sem eru að eiga sér stað við Seðlabankann í þessari umferð, þá ættu menn bara að spyrja sig hvort Seðlabankinn sjálfur sé ekki örugglega að hagnast. Og svarið við því er: Jú, Seðlabankinn kemst mjög vel frá þessum viðskiptum og mun fá til sín bókhaldslegan hagnað, umtalsverðan, þegar þau viðskipti hafa verið gerð upp.

Hér er hins vegar langstærsta atriðið að okkur er að takast að aflétta höftum sem margur hefði sagt að gæti tekið áratug, jafnvel lengur, að lyfta af efnahagslífinu. Við höfum reynslu af því frá fyrri tíð að höft lifðu um áratugaskeið, en okkur Íslendingum hefur tekist þetta vel, þetta hratt, að vinda ofan af þeirri þröngu stöðu sem við rötuðum í árin 2008 og 2009, að á árinu 2017 er komið að því.

Það er annað atriði sem snertir þróunina frá útboðinu í fyrra. Hvers vegna er það sem Seðlabankinn getur átt viðskipti á lægra gengi íslensku krónunnar? Ja, það er vegna þess að vel hefur gengið á Íslandi. Það er vegna þess að þróunin, eftir að útboðið fór fram í fyrra, hefur verið jákvæð fyrir okkur Íslendinga, fyrir heimilin í landinu. Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst í millitíðinni, svo um munar. Svo mikið reyndar að útflutningsgreinarnar eru farnar að kvarta. Það er ákveðið viðvörunarmerki. En meginforsendan er sem sagt sú að okkur hefur gengið vonum framar í millitíðinni, og í framhaldi af þeim skrefum sem stigin voru í fyrra. Þess vegna er afar einkennilegt, kemur spánskt fyrir sjónir, að menn komi hingað upp og segi: Ja, við erum að tapa á þessu öllu saman. Er ekki sorglegt hvað við erum að tapa miklu á því að stíga þessi skref núna? Þetta er allt öfugt. Þetta er röksemdafærsla sem er á hvolfi.

Við njótum góðs af því, Íslendingar, að komast aftur í heilbrigða stöðu þar sem við erum laus undan höftum. Skuggi haftanna byrjaði að hörfa á síðastliðnum tveimur árum og stærstu skrefin voru stigin með uppgjöri slitabúanna, útboðið var næsta skref, aflétting hafta og setning fjárhæðarmarka voru kannski þriðja skrefið. Og nú erum við að stíga enn eitt skref til fullnaðarsigurs gagnvart haftalosun á innlenda aðila. Hvað verður síðan í framhaldinu varðandi þá sem ekki ganga að því tilboði sem Seðlabankinn hefur stillt fram verður tíminn bara að leiða í ljós. En auðvitað stefnir allt í það að enn verði umtalsverðar fjárhæðir háðar sérstökum takmörkunum á reikningum samkvæmt þeim lögum sem sett voru í fyrra. Og við munum áfram þurfa að meta það hvenær og hvernig frekari skref verði stigin til þess að þær eftirhreytur þessara ráðstafana verði endanlega afnumdar. Í dag er ekkert hægt að fullyrða um það.

Í dag er einfaldlega tími til að fagna því sem okkur hefur — og það er mjög auðvelt fyrir mig að segja og taka undir það sem hér kom fram áðan — sameiginlega tekist að gera til að skapa þessar góðu aðstæður. Það er í raun með ólíkindum hve mikill uppgangur hefur verið á Íslandi frá því að við lentum í hremmingunum, að við skyldum fyrir löngu hafa lokað fjárlagagatinu, greitt niður skuldir og nú losað okkur undan höftum á sama tíma og kaupmáttur landsmanna hefur aukist örum skrefum. Landsframleiðslan er komin fram úr því sem hún var fyrir efnahagshrunið. Allt þetta er langt umfram væntingar þeirra sem við höfum leitað ráða hjá og í raun og veru fram úr væntingum þess sem hér talar.

Þetta er dagur til að fagna, en verkefnum er hvergi nærri lokið. Þau koma á færibandi til okkar áfram og við þurfum að vanda okkur og beita langtímahugsun til að fara ekki út af sporinu.



[15:40]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um jákvæðar fréttir. Ég veit reyndar ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra var að tilkynna að það yrði fánadagur héðan í frá á þessum degi. Þannig byrjaði hann sína ræðu. Þetta eru sannarlega jákvæðar fréttir. Það er rétt að okkur hefur gengið mjög margt rétt á þessari braut allt frá því við lentum í þessu hruni. Það var auðvitað lykilatriði að taka þá stefnu sem gert var 2013 og hvað varðar áætlunina sem sett var í júní 2015, sem hefur verið fylgt af þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þá er það einfaldlega þannig að allt hefur gengið upp, og reyndar frá fyrri tíma líka. Efnahagslífið hefur líka gengið upp og gengið vel. Það er skýringin á því hversu góð staðan er í dag. Það má hins vegar alveg viðurkenna að það dróst of lengi að halda síðasta útboðið sem haldið var í júní síðastliðið ár. Það hefði mátt koma fyrr vegna þess hve okkur gekk vel í efnahagslífinu, hversu umsnúningurinn varð hraður.

Nú eru væntingar um jákvæð viðhorf og enn aukið traust á íslenskt efnahagslíf, m.a. frá lánshæfismatsfyrirtækjum, sem munu hjálpa okkur inn í framtíðina. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa væntingar til að þessar aðgerðir slái á styrkingu krónunnar. En er það líklegt? Undirliggjandi vandinn er hið háa hávaxtastig sem er hér í landinu og mismunur á vöxtum hér innan lands og í nágrannalöndum. Þannig að vandinn er til staðar. Það mun dragast hér inn áfram fé. Og tækin sem við höfðum áður innan hafta sem Seðlabankinn hafði til að koma í veg fyrir slíkt Carry Trade eða vaxtarmunarviðskipti eru ekki þau sömu, þau virka ekki eins. Ég tek því undir það með hæstv. forsætisráðherra að það eru verkefni sem áfram þarf að sinna. Það er erfiðara að viðhalda stöðunni utan hafta en innan.

Það eru vonbrigði að við þeim spurningum sem við vorum með í gær, um gengið, sviðsmyndir, fengust engin svör. Við erum að fara inn í einhvern óvissutíma. Þess vegna er brýnt að spyrja hæstv. ríkisstjórn og forsvarsmenn: Er eitthvert plan? Er einhver áætlun í gangi?

Það var líka breyting á þessari áætlun frá júní 2015, sem gerð var við þessa aðgerð. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hér á fimmtudaginn um það hvort leynisamningar væru í gangi af því við höfum konsekvent, alltaf, haldið því fram að við værum ekki í neinum samningaviðræðum. Þess vegna var áætlunin sett upp. Þess vegna var stöðugleikaskatturinn settur upp. Það voru ekki samningar.

Hæstv. ráðherra svaraði, með leyfi forseta:

„Hann“ — þ.e. sá sem hér stendur — „vísar hér til fundar sem haldinn var að ég hygg í síðustu viku þar sem var óskað eftir fundi við stjórnvöld. Á þeim fundi var ekki gengið frá neinum samningum af neinu tagi, en fulltrúar þessara vogunarsjóða munu hafa útskýrt sitt mál.“

Hér sagði hæstv. fjármálaráðherra áðan í ræðu að engir samningar hafi þá verið gerðir. En voru þá samningaviðræður í gangi? Sagði ráðherra ósatt hérna á fimmtudaginn? Því í gær í fjölmiðlum kom það fram að sent hefði verið tilboð seinni partinn á föstudegi einum og hálfum sólarhring síðar. Á ekki að segja okkur satt hérna í ræðustól Alþingis þegar við spyrjum og viljum fá frekari upplýsingar um það sem hér er að gerast?

Hér segir hæstv. fjármálaráðherra að hagsmunir almennings hafi verið undir. Ég segi: Við töpuðum trúverðugleika á því að fara og ganga til samninga við vogunarsjóði sem hafa skorað okkur á hólm allt frá upphafi. Það er umdeilt og umdeilanlegt hvort við töpuðum miklum fjármunum. Við töpuðum fjármunum. Er ekki ríkisstjórnin sem nú situr að kvarta yfir því að peninga skorti í innviðauppbyggingu í samgöngumálum, heilbrigðismálum og öðru, 20 milljarða? Var ekki hægt að nota það í þetta? En trúverðugleika töpuðum við alla vega vegna þess að við höfum aldrei samið við þessa aðila. Nú var það gert og það var gert bak við luktar dyr.



[15:45]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa óskað okkur til hamingju með afléttingu hafta. Þetta er sannarlega mjög stórt skref, ekki fullkomlega síðasta skref en mjög stórt skref til að ljúka mjög langri leið sem við höfum gengið allt frá árinu 2008. Mig langar aðeins, til að endurtaka ekki ágætar ræður sem hér hafa verið fluttar, að rifja það upp af hverju við erum að losa höft, af hverju við vorum í höftum. Það er vegna þess að árið 2008 bókstaflega hrundi allt hér eftir mjög óvarlega uppsveiflu, mjög óvarlegt afnám á regluverki sem gerði að verkum að fjármagn flæddi inn að miklu leyti óheft og á endanum hrundi allt bankakerfið og samfélagið meira og minna með. Það var fyrst þá sem við bárum gæfu til að taka höndum saman, þingheimur kom hér að kvöldi til og samþykkti neyðarlögin. Eins og vill nú stundum gerast hjá okkur Íslendingum þá gátum við snúið bökum saman til að bjarga málum þegar hættan var loks til staðar.

Þetta er löng saga. Ég vil taka undir með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, sem minnti okkur á að það er ekki árið núll núna. Hafi árið núll einhvern tímann komið upp þá var það auðvitað 2008. Síðan þá hafa allir flokkar á einhvern hátt komið að málum. Ég vil taka undir það að mjög mikilvæg skref voru stigin, ekki bara með neyðarlögunum 2008 þegar höftin eru sett, sem vissulega björguðu því sem bjargað varð og bjuggu til skjól, heldur ekki síður 2011 þegar sett er fram áætlun sem síðan er áréttuð 2015, um afléttingu hafta, sem við erum nú loks að sjá verða að veruleika.

Ég tek undir þau varnaðarorð til okkar allra að það skiptir máli við þessa breytingu að við gleymum okkur ekki, að við pössum áfram upp á það að regluverk okkar og umhverfi sé þess megnugt að standa fyrir stöðugleika, að ýta undir langtímahugsun, sem ég held reyndar að hrunið og kreppan hafi kennt okkur. Það er margt gott sem við höfum innleitt síðan og nýsamþykkt lög um opinber fjármál, sem við vinnum eftir, og fimm ára áætlunin eru eitt lítið skref í því.

Ég sá í morgun, þegar verið var að ræða viðbrögð markaðarins við losun hafta, sem var tilkynnt í gær, fyrirsögnina: Mikið flökt á gengi krónunnar. Þar var verið að tala um að gengið hefði hreyfst um 3–4%. Mér varð hugsað til þess að ekki eru mörg ár síðan flökt um örfá prósent á íslensku krónunni hefði ekki þótt mikið. Við erum því miður vön miklu meiri óstöðugleika en það. Þau skref sem við stígum núna verða að vera hluti af því að stíga út úr þessum klassíska óstöðugleikatendens íslensks efnahagslífs. Þess vegna vil ég benda á að þetta er hluti af fleiri aðgerðum sem ríkisstjórnin stendur fyrir í peningamálum sem hafa það markmið að stemma að einhverju leyti stigu við eða ná stjórn á nær dæmalausri styrkingu íslenska gengisins, en sömuleiðis að ná betri stjórn á þeirri stöðu sem við erum í með þessa litlu sjálfstæðu mynt með þennan mikla vaxtamun. Losun hafta og endurskoðun á ramma peningastefnu eru mjög mikilvæg verkefni til að geta minnkað þann vaxtamun á Íslandi og útlöndum sem hefur háð okkur, bæði innlendum aðilum en líka í sögulegu samhengi kallað á innflæði fjármagns; við erum enn með eftirhreytur af höftunum til þess að standa í móti því.

Þessi skref skipta okkur mjög miklu máli. Þau skipta almenning og heimilin líka máli þó svo að það sé alveg rétt að höftin eftir síðustu breytingar í haust og nú um áramótin hafi ekki haft mjög mikil bein áhrif á almenning. En þau hafa haft mikil áhrif á atvinnulífið, á lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa haft mikinn ama og mikinn kostnað af því að búa við skilaskyldu. Þessi vaxtamunur og háu vextir sem við höfum þurft að búa við hér á Íslandi hafa svo sannarlega kostað okkur mikið. Ég legg mikla trú á og hef miklar væntingar til þessarar vinnu við að endurskoða ramma peningastefnunnar.

Ég tek undir varnaðarorð um að sigurinn sé alls ekki unninn, við þurfum virkilega að halda vel á spöðunum áfram. En hér er mjög stórt skref stigið. Ég óska okkur til hamingju með það.



[15:51]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Samfylkingin hefur stutt við afnám hafta jafnt í ríkisstjórn og stjórnarandstöðu. Við erum ánægð að sjá að sú áætlun sem við lögðum upp með í mars 2011 hefur gengið eftir í stórum dráttum og sú samningsstaða sem sköpuð var með lagasetningu í mars 2012 gagnvart erlendum kröfuhöfum hefur skilað árangri. Skilyrðin fyrir afnám hafta nú eru vissulega um margt jákvæð, hagstæð. Vonir stóðu þá til þess að hægt væri að aflétta höftum miklu fyrr og erfitt er að meta kostnað af töfunum. Nú eru eigendur aflandskróna að fá hátt verð fyrir krónueignir. Því er spurt: Hefði átt að bíða enn um sinn með að greiða fyrir útgöngu þeirra og sjá fyrst hver áhrif af haftalosun annarra eru á sveiflugjarnan gjaldmiðilinn? Enn fremur má spyrja hvort þessi fyrirgreiðsla sé leið í átt að myntráði Viðreisnar án umræðu hér á Alþingi?

Frú forseti. Gleymum ekki ástæðunum fyrir höftunum. Óábyrg hegðun sem leiddi til falls efnahagskerfisins með fordæmalausu hruni krónunnar varð íslensku launafólki dýrkeypt. Nú þegar krónan hefur náð nokkrum styrk, launafólk nýtur þess, m.a. vegna innfluttrar verðhjöðnunar og með auknum kaupmætti, heyrast þær raddir að umfram allt þurfi að veikja hana til að bjarga grunnatvinnuvegunum. Það má þó aldrei vera þannig að eignafólk njóti góðs af afskiptum stjórnmálamanna en launafólk beri kostnaðinn. Við þurfum stöðugleika og fyrirsjáanleika. Það kemur almenningi og þekkingargreinum langbest.

Þessi rússibanareið krónunnar endar ævinlega á því að almenningur borgar brúsann. Allt frá upptökum krónunnar árið 1918 hefur hún verið sjálfstæð uppspretta vandamála, ekki flotið frjáls án þess að bankakreppa hafi fylgt í kjölfarið. Henni hafa líka fylgt höft og fyrirgreiðslupólitík. Nú þurfum við að beita langtímahugsun, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hér rétt áðan. Ég fagna því vissulega að stjórnvöld hafi við þessi tímamót ákveðið að skipa nefnd um endurnýjaða peningastefnu. Þar á samkvæmt plönum að leita víðtæks samráðs. Það er mikilvægt að náið samstarf sé við þingið og allar leiðir séu skoðaðar.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að eitt mikilvægasta verkefnið sé að koma í veg fyrir óhóflega sveiflu krónunnar. En ætla stjórnmálamenn líka að ákveða hvað sé rétt gengi? Það er skammtími, frú forseti, að einbeita sér stöðugt að því að slá á sjúkdómseinkenni fremur en að koma í veg fyrir sjúkdóm eða lækna hann. Ég vona svo sannarlega að þessi nýja nefnd skoði með opnum hug bæði galla og ávinning þess fyrir lítið land að nota sjálfstæða mynt.

Ég treysti því að hæstv. ráðherra hafi víðtækt samráð í þessari vinnu og þar verði einnig horft til þess hvernig bankakerfi við viljum hafa hér á landi. Það þarf að draga lærdóm af biturri sögu okkar í þeim efnum.

Frú forseti. Loki Laufeyjarson átti nokkur ólánsafkvæmi, m.a. Hel, Miðgarðsorm og Fenrisúlf. Þegar ásum stóð að lokum ógn af Fenrisúlfi freistuðu þeir þess að binda hann, fyrst með fjötrinum Læðingi en síðan með Dróma. Skepnan sleit þá báða af sér og til urðu orðatiltækin „að leysa úr læðingi“ og „að drepa úr dróma“. Þegar allir bjargir voru bannaðar leituðu þeir loks til dverga sem útbjuggu hinn örþunna en níðsterka Gleipni. Hann heldur Fenrisúlfi föstum allt til ragnaraka. Líklega er íslenska krónan Loki Laufeyjarson í Goðheimum gjaldmiðla, kemur okkur reglulega í vanda en nýtist svo við björgunarstörfin líka. Krónan á kannski færri afkvæmi en Loki, en þeirra þekktust eru verðtrygging og óstöðugleiki.

Íslensk stjórnvöld hafa lengi reynt að koma böndum á óstöðugleikann, spunnið sína útgáfu af Læðingi og Dróma. Þeir fjötrar hafa ekki haldið og óstöðugleikinn hefur reglulega valdið miklum búsifjum, ekki síst hjá launafólki. Nú er spurning hvernig tekst með nýrri peningastefnu að halda krónunni stöðugri, hvort við munum leita í smiðju dverganna og nota dyn kattarins, skegg konunnar, rót bjargsins, sinar bjarnarins, anda fisksins og hráka fuglsins. Eða munum við jafnvel komast að því að íslensku efnahagslífi nýttist best að nota aðra mynt? Frú forseti. Við þurfum nefnilega líka að skoða það.



[15:56]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur flutt okkur skýrslu sína um afnám fjármagnshafta sem tilkynnt var í gær og tekur gildi frá og með morgundeginum. Óhætt er að segja að það séu orðin sannkölluð vatnaskil í uppgjöri við efnahagslegar afleiðingar hrunsins árið 2008. Loksins er samband okkar við umheiminn í efnahagslegu tilliti að komast í eðlilegt horf og við getum uppfyllt alþjóðlegar skuldbindingar okkar um fjármagnsflutninga án hafta.

Afnám haftanna er ótvírætt jákvæður viðburður. Um það held ég reyndar að þingheimur og þjóðin öll geti verið sammála. Með afnáminu er mikilvægum kafla í eftirmálum hrunsins að ljúka farsællega. Afnám haftanna er staðfesting þess að tekist hefur að rétta af hag okkar þannig að við erum með talsverðan afgang af utanríkisviðskiptum, erlend skuldastaða er ásættanleg, gjaldeyrisvaraforðinn mjög ríflegur og hagvöxtur mikill.

Full ástæða er til að ætla að afnám haftanna hafi jákvæðar efnahagslegar afleiðingar ef rétt er haldið á spöðunum í framhaldinu. Um framtíðina er hins vegar ávallt erfitt að spá. Sterkar líkur benda þó til þess að afnám haftanna, ásamt aðhaldssamri fjármálastefnu, þokkalegum friði á vinnumarkaði og markvissri endurskoðun peningastefnunnar eigi að stuðla að því að skapa meiri stöðugleika í gengismálum og jafnvægi í efnahagsmálum. Gangi þetta allt saman eftir eru meiri líkur en minni á að forsendur skapist fyrir betra lánshæfismati Íslands og þar með betri lánskjörum ríkisins og annarra innlendra aðila. Það á svo aftur að leiða til þess að vextir til almennings og íslenskra fyrirtækja lækki í kjölfarið.

Lækkun vaxtastigs á skuldum hins opinbera og landsmanna allra er gríðarlega mikilvæg í öllu tilliti. Lægri vaxtaútgjöld ríkisins auka það fé sem ríkið hefur til ráðstöfunar til annarra verkefna og ekki þarf að hafa mörg orð um það hve jákvæð áhrif lækkun vaxta hefur á heimilin í landinu. Má þar sérstaklega benda á þá sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið. Lækkun vaxta er tvímælalaust ein besta kjarabótin sem heimilin í landinu geta fengið.

Þá vil ég nefna að afnám haftanna ætti að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að sækjast eftir erlendri fjárfestingu til uppbyggingar og sóknar inn á erlenda markaði.

Loks var stigið mikilvægt skref í gær með skipan verkefnisstjórnar um endurmat peningastefnunnar. Henni er ætlað að meta ramma núverandi peningastefnu, greina hvaða umbætur er hægt að gera á núverandi peningastefnu með verðbólgumarkmið. Hitt er ekki síður mikilvægt að henni er falið að greina aðra valkosti við peningastjórnun, svo sem útfærslur á gengismarkmiði með hefðbundnu fastgengi eða í formi myntráðs. Verkefnisstjórnin á að skila niðurstöðum sínum á þessu ári.

Fyrir okkur í Viðreisn er þetta sérlega mikilvægt enda eitt af okkar helstu stefnumálum að skoða kosti myntráðs. Að mínu mati getur fastgengi eða myntráð einmitt verið góður upptaktur að upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu í fyllingu tímans.

Virðulegi forseti. Þessi áfangi hefur ekki náðst af sjálfu sér. Hann er endapunktur mikillar vinnu sem hófst strax og hrunið varð. Að þessu verki, sem staðið hefur í vel yfir átta ár, hafa komið fjölmargir stjórnmálamenn, embættismenn og ráðgjafar, innlendir sem erlendir. Full ástæða er til að hafa þetta í huga þegar smiðshöggið er rekið á þetta risavaxna verkefni sem íslenskt samfélag hefur tekist á við. Á þessum tíma hafa setið fimm forsætisráðherrar. Þeir hafa komið frá Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni og Framsóknarflokknum. Fjármálaráðherrarnir hafa verið fimm, frá Sjálfstæðisflokki, Vinstri grænum, Samfylkingu og nú síðast Viðreisn. Það er því enginn einn stjórnmálaflokkur eða ráðherra sem getur með sanni sagt að árangurinn sé þeim einum að þakka.

Það verður þó ekki tekið af núverandi ríkisstjórn að henni tókst með samstilltu átaki að klára þetta á svona skömmum tíma. Árangurinn eigum við hins vegar saman og það er fagnaðarefni.



[16:02]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér ákveðin tímamót í sögu endurreisnar íslensks efnahagslífs eftir hrunið í október 2008. Gjaldeyrishöftum sem hægt er að aflétta án lagabreytinga verður aflétt á miðnætti í nótt. En þrátt fyrir efstastigsyfirlýsingar fjármálaráðherra eru þetta ekki mestu tíðindin sem átt hafa sér stað varðandi afnám hafta, hér urðu til að mynda tíðindi um áramótin er vörðuðu fjármál almennings enn frekar en þau sem boðuð voru hér í gær. Þrátt fyrir tíðindi gærdagsins fyrir íslenskan fjármálamarkað og efnahagslíf eru þó ýmis atriði óljós varðandi afnám hluta gjaldeyrishafta ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

Frú forseti. Sumir hafa kallað þessa afléttingu „megadíl“, svo að ég leyfi mér að sletta í ræðustól Alþingis. Þó eru fleiri sem hafa haft uppi efasemdir um að svo sé, sér í lagi þegar horft er til misheppnaðs aflandskrónuútboðs Seðlabanka Íslands í júní í fyrra. Þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra þyki það útboð hafa verið enn eitt útboðið er til upprifjunar rétt að geta þess að það var aflandskrónuútboð sem var notað sem ein meginafsökun þáverandi ríkisstjórnar fyrir því að fresta þingkosningum síðastliðið vor fram á haust vegna Wintris-málsins. Meiri hluti aflandskrónueigenda neitaði að taka þátt í því útboði á þeim kjörum sem Seðlabankinn bauð sem var að borga 190 kr. fyrir hverja evru. Vogunarsjóðir í hópi aflandskrónueigenda neituðu að taka því þrátt fyrir digurbarkalegar hótanir íslenskra stjórnvalda um að ef aflandskrónueigendur tækju ekki þeim kjörum yrði um afarkosti að ræða. Útboðið varð misheppnað, misheppnað fyrir íslenska ríkið og hagsmuni þess.

Ákvörðun aflandskrónueigenda um að bíða pollrólegir eftir betra tilboði virðist hafa verið hárrétt, enda gengu háttsettir menn úr íslenskri stjórnsýslu á þeirra fund í New York. Ljóst er að sá fundur var meðal meginástæðna fyrir því að núverandi losun hafta varð að veruleika, ásamt auðvitað myndarlegum gjaldeyrisforða. Það er því komið á hreint að aflandskrónueigendur hafa hagnast um 38% á því að bíða eftir samkomulagi við íslensk stjórnvöld og greiða nú samkvæmt því, 137,5 kr. fyrir hverja evru. Þetta getur varla talist til „megadíla“.

En þá er eftir spurningin um þá aflandskrónueigendur sem ekki eru hluti af þessu samkomulagi nú, heldur fóru út á mun verri kjörum. Er það algjörlega skýrt að engin lagaleg eftirmál verða af þeirra hálfu, að þeir aflandskrónueigendur muni ekki leita réttar síns nú þegar íslenska ríkið hefur boðið vogunarsjóðum í Bandaríkjunum mun betra tilboð? Ég velti því líka fyrir mér hver sé staða þeirra sem eftir sitja nú, þeirra eigenda 105 milljarða kr. sem hafa ekki tekið núverandi tilboði ríkisstjórnarinnar.

Ef til vill er búið að opna á spákaupmennsku í boði ríkisstjórnarinnar. Bíða þeir aflandskrónueigendur ekki enn frekar og taka út enn meiri gengishagnað ef þeim býðst um leið og opnast fyrir þá möguleiki?

Frú forseti. Afnám eða losun hafta er ekki að gerast hér með einu pennastriki. Hér hefur átt sér stað vinna að því markmiði um árabil, en því miður hefur sú vinna undir stjórn síðustu ríkisstjórnar og þeirrar núverandi verið, og á greinilega að vera áfram, unnin í einhvers konar gervisamráði án alvörusamráðs við fulltrúa allra flokka á Alþingi, án alvörusamráðs við stjórnarandstöðuna. Það er nauðsynlegt að þessi vinna sem skiptir okkur öll máli með einum eða öðrum hætti verði unnin í opnara ferli og í meira samráði og í samvinnu. Á sama tíma og núverandi ríkisstjórn tilkynnti digurbarkalega um losun hafta í gær var tilkynnt um skipan verkefnisstjórnar um endurskipulagningu peningastefnunnar. Það er algjörlega nauðsynlegt að trúnaður og traust ríki um störf þeirrar nefndar og að Seðlabanki Íslands tryggi með öllum tiltækum ráðum að í henni sitji nefndarfólk sem geti axlað þá ábyrgð á heiðarlegan hátt með engar tengingar við efnahagslífið sem geta dregið úr trausti og trúnaði á störf hennar og ákvarðanir. Færi ekki vel á því að fá tilnefningu frá þingminnihlutanum í þessa verkefnisstjórn?

Batnandi efnahagsaðstæður hérlendis og mikil styrking krónunnar hefur gert að verkum að erfiðara og erfiðara hefur verið að réttlæta sérstakar lagasetningar gagnvart einum hópi. Þá spyr ég, frú forseti: Hver er sýn hæstv. fjármálaráðherra varðandi stöðu krónunnar? Hæstv. ráðherra talaði fjálglega um að gengi krónunnar verði nú stöðugra. Hvað hefur hann fyrir sér í þeim efnum þegar enginn hagfræðingur né seðlabankastjóri treystir sér til að spá neitt fyrir um stöðu krónunnar? Eftir hvaða sviðsmyndum er verið að vinna varðandi gengisstyrkinguna og vaxtastigið? Þetta þarf að upplýsa út frá hagsmunum almennings og viðskiptaumhverfi íslenskra fyrirtækja.

Frú forseti. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er mikil við núverandi aðstæður í hagkerfinu, spennan er áþreifanleg og mikill agi þarf að vera til staðar við stjórn efnahagsmála við þær aðstæður sem endranær. Staða krónunnar er viðkvæm og það er engum til happs að hér verði miklar sveiflur eða gengisfall á krónunni. Það er þá sem reynir á aga og traust og heiðarleika í hagstjórn.



[16:07]
Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Nú væri gaman að geta fagnað því með hæstv. forsætis- og efnahagsráðherrum að á miðnætti í kvöld verður afnámi gjaldeyrishafta því sem næst lokið, en skuggi leyndarhyggju fellur á gleðina. Ákvörðun um afnám hafta virðist nokkuð vel unnin en ég hef takmarkaðar forsendur til að meta það því að afar takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir þinginu.

Það er furðulegt hversu lítið samráð ríkisstjórnin hafði við þingið um framkvæmdina. Einn stuttur leynifundur með formönnum stjórnarandstöðuflokka í aðdraganda afnámsins er ekki nóg til að Alþingi geti talist vel upplýst um framgang mála. Mig langar til að trúa að þetta sé vel gert en svona leynimakk elur á tortryggni. Þá tortryggni hefði verið auðvelt að slá á með gögnum. Gagnsæi skiptir máli, jafnvel þegar trúnaður þarf að ríkja. Ef til dæmis hefðu verið lagðar fram nokkrar sviðsmyndir sem sýndu líklegar útkomur og viðbrögð við þeim liði okkur miklu betur með þetta. Hæstv. heilbrigðisráðherra talar um óvarlegt afnám regluverks. Mér finnst frekar óvarlegt að afnema regluverk án samráðs við þingið.

Spurningar vakna samt. Ef afnámið hefur slæm áhrif, hvenær munum við vita af því? Hvað verður gert þegar það gerist? Augljóslega getur Seðlabankinn breytt reglum sínum aftur og stundað gjaldeyrisviðskipti til að jafna flökt en hversu lengi og í hversu miklu magni? Hvaða vikmörk á flökti mun Seðlabankinn sætta sig við? Hvernig á þetta að hegða sér til skemmri og lengri tíma? Það þarf kannski einhverja pólitíska ákvörðun um hvort við ætlum að sætta okkur við 50% veikingu eða 50% styrkingu krónunnar á næstu fimm árum, sem er ekki það fráleit hugmynd ef maður skoðar gengisflöktið síðustu vikuna.

Svo er spurning hvernig eftirliti hefur verið háttað fyrir afnám hafta. Nú er mikil leynd, svo mikil að Alþingi sjálft frétti af þessu í gegnum fjölmiðla á sunnudagsmorgni. Hið eina jákvæða við það er að líkurnar minnka á að einhverjir hafi getað nýtt sér upplýsingarnar fyrir helgi. En þá er spurning hvenær ákvörðunin var tekin og hvað hefur verið fylgst með gengi mála í millitíðinni. Nú er það vel þekkt að þegar neyðarlögin voru sett á sínum tíma láku upplýsingar úr Seðlabankanum yfir í viðskiptabanka í gegnum fjölskyldu- og vinatengsl.

Það er líka rétt að spyrja sig í þessu samhengi eins og Cíceró gerði: Cui bono? Hver græðir? Að sjálfsögðu þeir aðilar sem munu áfram vilja stunda vaxtamunarviðskipti. Þótt enn séu höft á slíkum viðskiptum skulum við ekki vanmeta nýsköpunargleðina á fjármálamarkaðinum og í fjármálaheiminum. Einnig er nokkuð ljóst að nokkrir sjóðir sem áttu töluvert af aflandskrónum græddu töluvert mikið miðað við fyrri áætlanir sem gengu út frá því að aflandskrónueigendur mættu afgangi. Þannig vekur furðu að þegar þessi fyrirtæki eru skoðuð kemur í ljós að nokkur þeirra stærstu eru með sama heimilisfangið. Það er kannski sama fólkið á bak við þessi fyrirtæki? Hver veit? Hvaða fólk er þetta og hvers vegna er því hleypt fram fyrir í röðinni?

Svo er kannski ljósara svarið við spurningunni: Cui non prodest? Hver græðir ekki? Það er fátt sem bendir til að almenningur græði né heldur virðist það mikið áherslumál hjá lífeyrissjóðunum, sem hagkerfi okkar á því miður of mikið undir, en þeir hafa ekki verið að fullnýta sér þær heimildir sem hafa verið til staðar.

Og að lokum: Quis solvit? Hver borgar? Það er heldur ekki ljóst. En það lítur út fyrir að það sé ríkið. 90 milljarða sala á 137,5 kr. gengi er 20 milljarða afsláttur. Ef allt selst sem eftir er í snjóhengjunni fer það upp í 50 milljarða. Það eru rúmlega fjórföld Vaðlaheiðargöng eða tvöföldun allra einbreiðra brúa á landinu tíu sinnum. Ekki það að ég viti hvað við gætum gert við tuttugufaldar brýr en það er annað mál.

Frú forseti. Allt sem er áður nefnt er til þess gert að benda á að nánast allt við þessa aðgerð er óljóst. Það er meira að segja óljóst hvort þetta sé óljóst vegna þess að enginn hafi athugað þessi atriði eða hvort Alþingi hafi verið skilið út undan. Tónninn sem var sleginn í gær var þess eðlis að ýmislegt sem við höfum gengið út frá varðandi afnám hafta var sett í uppnám. Við höfðum gengið út frá því að fyrst yrði afnám hafta gagnvart almenningi og fyrirtækjum klárað en þeir aflandskrónueigendur sem tóku ekki þátt í útboðinu síðastliðið sumar yrðu látnir mæta afgangi. Við höfðum einnig gengið út frá því að stór orð hæstv. fjármálaráðherra úr kosningabaráttunni, um nauðsyn nýrrar nálgunar í peningastefnu, yrðu komin fram með einhverju móti áður en ráðist yrði í þessa framkvæmd. Og enn og aftur er bara skipaður nýr starfshópur og engin raunveruleg framtíðarsýn skilar sér frá ríkisstjórninni heldur bara illa rökstuddar skyndiákvarðanir, eða alla vega lítur það þannig út fyrir okkur sem engar upplýsingar fáum.

Það sem við erum að óska eftir er skýrleiki og framtíðarsýn. Við viljum samráð og skynsemi. Það getur vel verið að afnám hafta sé með besta móti. Ég vona það. Til hamingju, ef svo er. En það er bráðnauðsynlegt að þingið geti fullvissað sig um að öll ákvarðanatakan sé rétt og góð.



[16:12]
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það eru ákaflega góðar fregnir að nú sé verið að létta af gjaldeyrishöftunum að fullu. Höftin hafa nú varað í meira en átta ár, miklu lengur en gert var ráð fyrir í upphafi. Þrátt fyrir að þau hafi veitt almenningi ákveðið öryggi fyrst um sinn og að mörgu leyti reynst vel sem neyðaraðgerð í kjölfar fjármálakreppunnar þá er skaðsemi þeirra til lengri tíma öllum ljós. Undanfarið hafa flest okkar þó ekki fundið fyrir höftunum á eigin skinni. Skaði þeirra hefur engu að síður verið umtalsverður. Fórnarkostnaðurinn er mikill en var orðinn illsjáanlegur; við sáum nefnilega ekki tækifærin sem töpuðust. Við sáum ekki fyrirtækin sem ekki urðu til og við sáum ekki hagvöxtinn sem varð ekki að veruleika.

Höft grafa undan trausti umheimsins á íslensku efnahagslífi. Með því að viðhalda þeim til lengri tíma erum við að gefa til kynna að við annaðhvort getum ekki eða viljum ekki reka opið hagkerfi með frjálsum viðskiptum samkvæmt leikreglum alþjóðasamfélagsins. Höftin skaða þannig orðspor landsins og senda umheiminum skilaboð um að efnahagsstefna okkar standi ekki traustum fótum.

Aðstæðurnar nú til losunar hafta eru mjög hagfelldar og gætu vart verið betri. Efnahagshorfur eru bjartar, hagvöxtur hér á landi mældist 7,2% á síðasta ári, sem er mun meira en vöxtur í viðskiptalöndum okkar. Spár gera áfram ráð fyrir myndarlegum hagvexti á komandi árum. Þá hefur verðbólga haldist lág og stöðug og ríkisfjármálin eru í jafnvægi og skuldir heimila og fyrirtækja hafa farið hratt lækkandi. Áfram er útlit fyrir mikinn afgang af viðskiptum við útlönd. Erlend staða þjóðarbúsins hefur ekki verið betri í lýðveldissögunni og gjaldeyrisforðinn dugir til að mæta öllum erlendum skammtímaskuldum þjóðarbúsins.

Frú forseti. Við sjáum það á viðbrögðum markaðarins að hlutabréf hafa hækkað í verði og krónan hefur sigið. Það verður ábyggilega einhver hreyfing á meðan markaðurinn er að melta þessar fréttir. Þó má draga þá ályktun af orðum sérfræðinga að þessi aðgerð hægi í besta falli á styrkingu krónunnar, að sig dagsins sé til skamms tíma og kaupmáttur almennings haldi áfram að styrkjast. Það er jákvætt. Það er til góðs. Við verðum samt að vera vakandi yfir því að útflutningsgreinarnar, sérstaklega ferðaþjónusta og sjávarútvegur, eru mjög viðkvæm fyrir því að krónan styrkist svona mikið, sérstaklega þegar sumir hér inni eru á sama tíma að kalla eftir auknum álögum á þessar greinar. Slíkar aðgerðir geta orðið útflutningsgreinum mjög þungbærar.

Virðulegi forseti. Mig langar til að segja ykkur aðeins frá honum Kára. Hann verður sjö ára í þessum mánuði, en hann heyrði fyrst um hrunið um helgina. Hann spurði hvað hefði eiginlega hrunið. Húsið sem hann stæði í? Það er nefnilega svo að það mun fenna yfir þessa hluti. Því er mikilvægt að halda uppi umræðunni um mikilvægi varúðar ásamt því að gæta þess að við innleiðum fjármálalæsi sem víðast í skólakerfinu.

Frú forseti. Nú verður hægt að slökkva á skiltinu sem hefur verið blikkandi yfir landinu frá hruni „Varúð, hér eru höft“. Það hefur haft neikvæð áhrif á ímynd íslensks viðskipta- og efnahagslíf. Þetta er merkilegt tímabil í sögunni, bæði hagfræðilega og samfélagslega. Það er frábært að við sem þjóð skulum hafa staðist þetta próf sem lagt var fyrir okkur. Í þessu hefur falist mikill lærdómur. En viðbrögð okkar, þær breytingar sem hér hafa verið gerðar, t.d. á lagaumhverfi fjármálafyrirtækja, og öll sú meðvitund sem vaknað hefur um mikilvægi þess að stíga varlega til jarðar í efnahagsmálum, mun verða okkur veganesti um ókomna tíð.



[16:16]
Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að verið sé að losa fjármagnshöft á íslensk heimili og fyrirtæki. Enn fremur er jákvætt að við sjáum að áætlun um losun fjármagnshafta, sem kynnt var í júní 2015, skuli vera framfylgt að mestu leyti. Ég hefði samt viljað sjá að við hefðum fyrst losað fjármagnshöftin á heimili og fyrirtækin í landinu og svo á vogunarsjóðina.

Mig langar að rifja upp að útboðið sem var haldið hinn 16. júní síðastliðinn var það síðasta í röð útboða þar sem eigendum aflandskróna bauðst að kaupa erlendan gjaldeyri áður en stjórnvöld hæfu losun á innlenda aðila. Af því tilefni sagði seðlabankastjóri, með leyfi forseta:

„Með útboðinu og nýlegum lagabreytingum hefur síðustu stóru hindruninni verið rutt úr vegi þess að hægt sé að stíga stór skref til að losa fjármagnshöft gagnvart innlendum aðilum án hættu á óstöðugleika.“

Jafnframt segir:

„Þótt ekki hafi verið unnt að taka öllum tilboðum í aflandskrónueignir auðveldar það lausn þess vanda sem eftir stendur að eigendum krafna hefur fækkað mjög. Þá hefur verið búið svo um hnútana að aflandskrónur sem eftir standa valdi ekki óstöðugleika á meðan losun fjármagnshafta á innlenda aðila gengur yfir. Smitunaráhrif ættu því að vera hverfandi og hætta á óstöðugleika lítil.“

Minn skilningur er því að stjórnvöld hefðu komið þessum aflandskrónum frá og inn á læsta reikninga. Næsta skrefið væri að losa höft á innlenda aðila og sjá hvernig framvindan á gjaldeyrismarkaði væri og áhrifin á fjármálastöðugleika. Síðan yrði losað um aflandskrónueigendur sem ekki tóku þátt í útboðinu í júní.

Það er synd að sjá að veðmál vogunarsjóðanna hafi gengið upp og þeir fengið sitt á mettíma. Þeir sem ákváðu að spila ekki eftir reglunum bættu í raun stöðu sína. Það lítur út fyrir að þeir hafi hagnast um 20 milljarða á því að bíða. Ég spyr: Er það rétt að bjóða þeim vogunarsjóðum sem ekki tóku þátt í almennu útboði betri kjör en hinum sem tóku þátt? Getur verið að þetta geti skapað skaðabótaskyldu á herðar ríkisins vegna þessa mismunar eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir kom að?

Nú reyndu þessir aðilar sem ekki tóku þátt í útboðinu að hafa áhrif á síðustu þingkosningar með heiftúðlegum auglýsingum til að draga úr trúverðugleika íslenskra stjórnvalda. Má þá draga þá ályktun að þessar auglýsingar hafi skilað tilætluðum árangri. Sumir þingmenn hafa spurt hvort þetta geti haft áhrif á Viðreisn og Bjarta framtíð, þ.e. að formanni Viðreisnar hafi í raun alls ekki hugnast að fá Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn vegna þess að hann væri erfiður og gagnrýninn, sérstaklega í málum er varða endurreisn Ísland. Getur það verið, virðulegur forseti?

Við sjáum að krónan hefur verið að veikjast það sem af er degi. En að mínu mati er fullsnemmt að segja til um hver gengisþróunin verður á næstu missirum. Það er mikill kraftur í íslensku hagkerfi, kröftugur hagvöxtur, skuldir heimilanna og fyrirtækjanna hafa lækkað og umfangsmikið innflæði hefur verið af erlendum gjaldeyri í tengslum við ferðaþjónustuna. Horfurnar eru góðar ef rétt er á málum haldið. Það jákvæða við daginn er að almenningur og fyrirtæki búa við aukið frelsi er varðar fjármagnsflutninga. Mikilvægast er þó fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu að þau búi við gengis- og fjármálastöðugleika. Efnahagsstjórnin á hverjum tíma verður að taka mið af því markmiði til að auka hagsæld lands og þjóðar.



[16:21]
Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að vitna í nokkra mikilvæga punkta úr stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta:

„Jafnvægi og framsýni eru leiðarstef ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar … Treysta þarf samkeppnishæfni Íslands … Ríkisstjórnin styður við víðtæka sátt á vinnumarkaði, ábyrgð í ríkisfjármálum og stöðugleika í gengis- og peningamálum … Unnið verður að því að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar. Slíkar sveiflur stuðla að óstöðugleika og skýra að nokkru hvers vegna vextir eru að jafnaði hærri hér á landi en erlendis … Forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands verða endurmetnar, m.a. í ljósi breytinga sem orðið hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar með stórsókn ferðaþjónustunnar og ört vaxandi gjaldeyrisforða. Ráðherranefnd mun hafa samráð við þingflokka og starfa náið með Seðlabanka Íslands, aðilum vinnumarkaðarins og utanaðkomandi sérfræðingum, eftir atvikum á vettvangi Þjóðhagsráðs. Byggt verður á niðurstöðum skýrslu Seðlabanka Íslands frá árinu 2012 um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Þar var meðal annars lagt mat á framkvæmd verðbólgumarkmiðs, myntráð, fastgengisstefnu og ýmsa aðra kosti. Niðurstöður vinnunnar liggi fyrir á fyrsta starfsári … Losun hafta á fjármagnsflutninga helst í hendur við sterkari og heilbrigðari efnahagsstöðu landsins. Eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar er að vinna markvisst áfram að framgangi áætlunar um afnám fjármagnshafta.“

Nú erum við að taka fyrsta skrefið af mörgum í að gera það að veruleika. Í gær var tilkynnt að öll fjármagnshöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði yrðu afnumin með nýjum reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál. Ekki stóð til að gjaldeyrishöft vörðu í níu ár svo að hægt er að segja að í dag eigi að vera tilefni til að fagna. Afnámið felst í því að Seðlabankinn nýtir heimild í lögum um gjaldeyrismál til að veita undanþágur frá þeim takmörkunum á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum sem nú gilda með því að gefa út nýjar reglur um gjaldeyrismál og bindingu reiðufjár vegna innstreymis nýs erlends gjaldeyris. Ég vil ræða aftur nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar. Slíkar sveiflur stuðla að óstöðugleika og skýra að nokkru hvers vegna vextir eru að jafnaði hærri hér á landi en erlendis. Því verður að endurmeta forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands, m.a. í ljósi breytinga sem orðið hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar með stórsókn ferðaþjónustu og ört vaxandi gjaldeyrisforða.

Hægt er að segja einfaldlega að krónan sé allt of sterk. Markmið endurskoðunar er að finna þann ramma peninga- og gjaldmiðilsstefnu sem til lengri tíma litið er heppilegastur til að styðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika með tilliti til hagvaxtar, verðbólgu, vaxta, gengis og atvinnustigs.

Afnám gjaldeyrishafta mun líka hafa vaxtalækkandi áhrif í för með sér. Nú skapast aðstæður til að viðskipti verði frjáls fyrir alla innlenda aðila. Lánshæfismatsfyrirtæki hafa nefnt að það að viðskipti hafi ekki verið frjáls hafi skilað okkur lægra mati en ella. Lánshæfismatið mun batna verulega í framhaldi af þessari afléttingu og ætti að leiða til lægri vaxta fyrir íslenska ríkið og íslensk fyrirtæki og heimili. Það eitt og sér er fagnaðarefni.

Mikilvægt er að ræða næstu skref, vanda vinnubrögð og hafa mikilvægt samráð sem mun skipta máli við gerð peningastefnunnar. Vinnan fram undan er mikilvæg fyrir almenning, atvinnulífið og heimilin í landinu öllu.



[16:25]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Frá því að gjaldeyrishöftin voru sett hefur verið stefnt að því að aflétta þeim. Áætlun var gerð árið 2011, þegar Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, var efnahagsráðherra og unnið var áfram með þá áætlun í tíð síðustu ríkisstjórnar. Höftin voru sett á til að verja kjör almennings. Það var nauðsynlegt að gera í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Staða okkar gagnvart kröfuhöfum var síðan styrkt þegar erlendar eigur þeirra voru færðar undir gjaldeyrishöftin með lagasetningu í mars 2012. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi reyndar atkvæði gegn því lagafrumvarpi en þá var sá flokkur í stjórnarandstöðu og ekki samvinnufús við vinstri stjórn, jafnvel ekki í svo stóru máli sem tryggði samningsstöðu Íslendinga við afnám hafta. Ef þau lög hefðu ekki verið sett værum við ekki í þeirri stöðu í dag að geta aflétt höftunum.

Við verðum að fá svör við því hvernig tryggt sé að kjör almennings muni ekki versna svo um munar við þessa aðgerð sem nú hefur verið boðuð. Hæstv. forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi í gær að almenningur yrði aðeins óbeint var við afleiðingar þess að höftunum væri lyft og það á jákvæðan hátt. Getum við treyst orðum hæstv. ráðherra? Mun krónan ekki veikjast við þessar aðgerðir? Mun almenningur ekki verða var við það í versnandi kjörum? Einhverjir eru að gera sér vonir um að vextir muni lækka á næstu vikum. Hljótum við þá ekki að spyrja um þensluáhrif vaxtalækkunar og áhrif þeirra á kjör almennings til framtíðar?

Tímasetningin vekur líka upp spurningar. Er verið að ganga erinda þeirra sem vonast eftir því að gengi krónunnar lækki í kjölfar þessara aðgerða? Er þetta heppilegur tími þar sem svo skammt er liðið frá því að reynt var að fá krónueigendur til að samþykkja annað og mun verra tilboð með hótunum. Mun þessi atburðarás skaða trúverðugleika stjórnvalda? Stjórnvöld reyndu að þröngva aflandskrónueigendum til þátttöku í lokaútboði þar sem þeim var gerð grein fyrir að ef þeir tækju ekki þátt í því yrði þeim gert afar erfitt fyrir og yrðu að búa sig undir að sitja lengi lokaðir hér inni með fjármuni sína. Fjármálaráðherrann sem hótaði þeim er nú forsætisráðherra og sá hinn sami reiðubúinn til að gefa mikið eftir og leggja fram annað tilboð sem er mun hagstæðara fyrir þá sem höfnuðu afarkostunum. Er það staðfesting þess að mistök voru gerð með tilboðið með afarkostunum? Hefði verið hægt að loka samningunum þá með lægri upphæð, t.d. 170 kr. á evru eða a.m.k. betra verði fyrir okkur en verið er að bjóða nú?

Þrátt fyrir allar þær ósvöruðu spurningar sem fylgja losun gjaldeyrishaftanna er það samt svo að það skiptir máli að ná samningum og klára málin. Það á við um öll uppgjör í tengslum við hrunið. Óvissa er eftir sem áður í íslensku efnahagslífi. Óvissunni hefur ekki alfarið verið eytt þegar áhrifin af haftalosuninni er komin fram. Áfram búum við við áhættu. Helstu áhættuþættirnir nú um stundir eru krónan, eins og jafnan áður, ferðaþjónustan og húsnæðismarkaðurinn. Efnahagsástandið tengist þessum þremur þáttum sterkum böndum sem allir eru samofnir.

Enn og aftur höfum við komið okkur í þá stöðu að allt of mikið veltur á einni atvinnugrein. Lærdómurinn af hruninu átti ekki bara að vera sá að setja hertar reglur um fjármálafyrirtæki heldur ekki síður að láta ekki eina atvinnugrein vaxa okkur yfir höfuð. Við höfum ekkert lært hvað það varðar. Og nú er svo komið að húsnæðismarkaðurinn er undir líka. Húsnæðismálin eru ekki bara efnahagsmál heldur líka stórt velferðarmál.

Við þurfum að ná betri tökum á stjórn efnahagsmála. Við vitum að íslenska krónan er uppspretta óstöðugleika. Við vitum að vextir hér á landi eru byrði á íslenskum heimilum og með þeim hæstu sem þróuð lönd búa við. Við vitum að þekkingargeirinn kallar eftir stöðugleika og alþjóðlegri mynt. Ætlum við að halda krónunni áfram og taka dýfurnar með henni með tilheyrandi kostnaði? Eða ætlum við að taka upp annan gjaldmiðil sem færir okkur lægri vexti, heilbrigðari húsnæðismarkað og fjölbreytt, vel launuð störf?

Herra forseti. Ég held að við þurfum ekki að velta vöngum lengi yfir svörum við þessum spurningum. Mér finnst þau vera augljós.



[16:30]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka fyrir umræðuna og þakka forseta fyrir að hafa komið henni á dagskrá með svona litlum fyrirvara. Þetta var ekki undirbúið fyrr en í gær þannig að ég þakka bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni. Það hefur oft skort á almennilega þinglega umræðu um stórmál sem þessi. Ég verð að þakka fyrir það.

Afnám hafta eru vissulega jákvæð tíðindi að mínu mati. En á vissan hátt er ástæða til að staldra við, líta um öxl og hugsa hvað við eigum að gera í framtíðinni. Sporin hræða. Það er ástæða fyrir því að margir sem hafa komið hér í pontu eru ekki of bjartsýnir á þetta skref. Þótt ég haldi að flestir séu sammála um að kominn sé tími til að losa höft er þetta ekki spurningin um endalokin heldur hvernig við komumst þangað.

Það sem við ræðum núna er ekki alger losun hafta. Þetta er ekki: Já, til hamingju Ísland, losun hafta. Ekki eins og hæstv. fjármálaráðherra lét í veðri vaka. Það eru enn höft á afleiðuviðskipti í íslenskum krónum til spákaupmennsku, á gjaldeyrisviðskipti milli innlendra og erlendra aðila sem ekki eru gerð fyrir milligöngu innlendra fjármálafyrirtækja og á lánveitingar innlendra aðila til erlendra aðila í vissum tilvikum. Þetta eru höft. Þetta eru höft sem varða fáa en þetta eru þó höft. Sem betur fer, ef svo má segja, erum við ekki komin í þetta taumlausa frjálshyggjufrelsi sem var hér 2002 þegar krónan fór á algert flot. Það er vissulega tilefni til fagnaðar þrátt fyrir allt að alla vega sé verið að stíga ákveðin varúðarskref í þessum málum.

Eitt atriði hefur ekki verið fullrætt. Hvorki hæstv. forsætisráðherra né hæstv. fjármálaráðherra hefur sýnt fram á með nógu afgerandi hætti hvort eftirmálar verði af gjaldeyrisútboðinu, aflandskrónuútboðinu, í júní. Af hverju fengu sumir sérmeðferð núna sem byrjaði síðasta mánudag í New York og var síðan tilkynnt í gær til formanna? Mun það draga dilk á eftir sér? Þetta var ekki það sem fólk bjóst við. Ekki ég. Ég verð því að fá að spyrja og fá skýrt svar frá hæstv. fjármálaráðherra hvort við séum búin að gulltryggja okkur. Mun þetta verða til þess að íslenska ríkið fái málsókn á hendur sér? Sumir gátu farið út á genginu 137,50 en aðrir á 190 kr.

Annað tel ég mjög sérstakt. Á sama degi og tilkynnt er um afnám hafta er líka tilkynnt um nýja stefnu eða drög að nýrri stefnu um gjaldeyri og gjaldeyris- og peningastefnu á Íslandi. Það er ekki skýrt hver framtíð krónunnar verður þrátt fyrir afnám hafta. Við erum ekki með neinar sviðsmyndir. Það er ekki eins og ríkisstjórnin sé að ráðfæra sig við kristalskúlur, er það? Ég hugsa að ríkisstjórnin hafi einhverjar hugmyndir um hvernig hlutirnir eigi að fara fram. Krónan er nú þegar búin að veikjast. En hvað hyggst ríkisstjórnin gera ef hún kolfellur? Hvað ef hún heldur áfram að styrkjast? Það yrði væntanlega til þess að lífeyrissjóðirnir færu úr landi og fjárfestu erlendis að hluta til. En það er ekkert víst. Hvað þá?

Mun ríkisstjórnin setja gólf á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna ef þeir fara ekki út í auknum mæli? Þetta eru svör sem við verðum að fá. Hér er verið að losa höft án þess að ríkisstjórnin sé með skýra hugmynd um hvert hún ætlar að stefna í peningamálum. Það sést á því að hæstv. fjármálaráðherra tilkynnir sama dag um endurmat á peningastefnu Seðlabanka Íslands. Peningastefna og gjaldeyrisstefna eru sérfræðimál en ekki eitthvað pólitískt, segir hæstv. fjármálaráðherra nánast. En þetta er hápólitískt. Við erum að tala um að það eru sérfræðingar sem eru tengdir Samtökum atvinnulífsins, Sjálfstæðisflokknum, Gamma og klappstýru- og greiningardeild Kaupþings banka. Er eitthvað skrýtið að tala um að 2007 svífi yfir vötnum?



[16:35]
Óli Björn Kárason (S):

Virðulegi forseti. Þegar fjármagnshöftin voru sett hér á árið 2008 var talað um að þau væru tímabundin, tvö ár plús/mínus. Nú, meira en átta árum síðar, hillir hins vegar loks undir afnám haftanna; höft sem engin frjáls þjóð getur búið við til lengdar. Það er mikil einföldun að þakka ákveðnum einstaklingum þegar mikilsverðum áfanga er náð, áfanga sem ég tel að marki upphaf að nýjum tímum. Ef ég ætti að nefna einhverja einstaklinga vil ég nefna tvo, hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson og hæstv. forsætisráðherra Bjarna Benediktsson. Það var einörð stefna ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá árinu 2013, undir forustu þessara tveggja einstaklinga, og gagnvart þrotabúunum skiptu þar mestu stöðugleikaframlögin og skynsamleg stefna. Það var þessi stefna sem gerði kleift að afnema fjármagnshöftin í áföngum og nú hillir undir lokaáfangann. Þar með er verið að búa til heilbrigðari umgjörð um íslenskt atvinnulíf.

Umskipti sem hafa orðið í íslensku efnahagslífi á síðustu árum og þessi skýra stefna stjórnvalda lagði grunninn að afnáminu sem við horfum nú á — og þó fyrr hefði verið, hefði einhver sagt. Höftin hafa haft lamandi áhrif á íslenskt viðskiptalíf, dregið þróttinn úr fyrirtækjum, lamað vöxt þeirra. Þannig hefur undirstaða bættra lífskjara til langrar framtíðar orðið veikari en ella. Við höfum séð hvernig lamandi hönd haftanna hefur gert nýsköpunar- og sprotafyrirtækjunum erfiðara fyrir, ekki síst þeim sem hafa reynt að hasla sér völl á erlendum mörkuðum. Við vitum einnig að höftin hafa neytt mörg íslensk fyrirtæki til að leita að óhagkvæmari leiðum að settum markmiðum. Við þekkjum öll hvernig höftin hafa eitrað andrúmsloftið og búið til eftirlitskerfi sem hefur verið næstum ofan í hvers manns koppi til að fylgjast með fullkomlega eðlilegum viðskiptum. Allt þetta hefur skaðað íslenskt samfélag og samkeppnishæfni Íslands. Þessi tími er sem betur fer senn að baki.

Við getum horft bjartsýn fram á veginn. Hagvöxtur er mikill, meiri en í flestum öðrum löndum heims. Verðbólga er lítil og hefur í raun verið undir markmiðum Seðlabankans síðustu þrjú ár. Kaupmáttur hefur aukist gríðarlega og skuldir ríkissjóðs hafa lækkað verulega og halda áfram að lækka á komandi árum.

Við höfum verk að vinna. Endurskoðun peningastefnunnar er fram undan. Ný stefna getur ekki aðeins tekið við af verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, heldur verður markmið eða verkefni Seðlabankans meðal annars að vera fólgið í því að tryggja jafnvægi í gengi krónunnar og draga úr sveiflum. Til lengri tíma verður ekki hægt að tryggja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja ef vextir hér á landi eru margfalt hærri en í helstu viðskiptalöndum. Raunvaxtamunur hér á landi er margfalt hærri en í helstu viðskiptalöndum og hefur verið um nokkurt skeið.

Við getum hins vegar búist við því að á komandi vikum og mánuðum þokist vextir hér niður á við. Það held ég að við hæstv. fjármálaráðherra séum sammála um. Það eru allar efnahagslegar forsendur til þess.

Haftaafnámið býr ekki aðeins til heilbrigðara umhverfi fyrir efnahagslífið heldur veitir einstaklingum og fyrirtækjum en þó ekki síst lífeyrissjóðum tækifæri til að dreifa áhættunni með því að ávaxta hluta af sparnaði í öðrum löndum. Fjárfestingar á erlendum mörkuðum draga úr efnahagslegri áhættu og eru því ekki aðeins skynsamlegar heldur nauðsynlegar. Undir höftum skapar þvinguð eign í íslenskum verðbréfum og/eða í öðrum eignum hættu á eignabólu sem fyrr eða síðar mun springa og við höfum séð þess merki nú þegar. Höft á gjaldeyrisviðskipti valda því stórtjóni, ekki síst fyrir eigendur lífeyrissjóðanna, launafólkið hér á Íslandi, sem þurfa og verða að eiga þess kosta að eiga stóran hluta af eigum sínum í öðrum löndum þó ekki væri nema til að dreifa áhættu.

Nú eru aðeins 22% eigna lífeyrissjóðanna í erlendum eignum, en heildareignir lífeyrissjóðanna eru um 3.500 milljarðar, eða 145% af vergri landsframleiðslu. Hins vegar má búast við því að eignir lífeyrissjóðanna vaxi verulega á komandi árum og nemi um 6.600 milljörðum eftir 13 ár árið 2030 eða um 260% af vergri landsframleiðslu. Ef við ætlum að setja það markmið að þeir eigi 40% eigna sinna í erlendum eignum þá þurfa íslenskir lífeyrissjóðir að fjárfesta fyrir 1.900 milljarða á komandi árum, á næstu 13 árum.

Við getum auðvitað nálgast viðfangsefnið með mismunandi hætti, sem hér er til umræðu. Sum okkar sjá glasið alltaf hálftómt en svo erum við hin sem sjáum það yfirleitt hálffullt. Við sjáum möguleikana, sjáum birtuna sem er fram undan. Það hefði verið gott ef við hefðum kannski eytt töluverðu af þessum tíma hér í dag til að ræða um það hvernig við nýtum þau góðu tækifæri sem skapast við afnám haftanna, hvernig við getum nýtt það aukna frelsi sem er að skapast hér til að byggja undir lífskjörin, styrkja stöðu lífeyrissjóðanna og hvernig við getum auðveldað fyrirtækjum að nýta þessi mörgu tækifæri.

Við Íslendingar fengum fullvissu fyrir því hversu mikilvægt það er fyrir þjóðir að vera fullvalda í peningamálum. Þá fullvissu fengum við 2008. Aðrar þjóðir lentu í gríðarlegum efnahagslegum þrengingum, kynntust því á sársaukafullan hátt hve dýrkeypt það er að framselja þetta fullveldi. En nú hefur fullveldið verið áréttað enn og aftur með afnámi haftanna. Vonandi verða það sem flestir sem geta fagnað því.



[16:44]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það hefur ekki verið augljóst um hvað þessi ríkisstjórn var mynduð. Þó eru í henni tveir nýir flokkar. Maður skyldi ætla að þegar menn taka sig saman og stofna flokk þá sé einhver tilgangur með því, menn vilji breyta einhverju, vilji nýjar áherslur. Það hefur lítið borið á því til þessa. Þetta hefur verið frekar tíðindalítið. Morgunverkin hafa ekki verið merkileg hjá þessari ríkisstjórn, mest eitthvert svekkelsi, verið að ganga á bak orða sinna, ef svo má segja, varðandi hluti eins og samgöngumál, en almennt tíðindalítið þar til nú.

Þar til nú, virðulegur forseti, að við sjáum að þessi ríkisstjórn ætlar a.m.k. ekki að fylgja sömu stefnu og síðasta ríkisstjórn fylgdi í samskiptum við þá sem hafa reynt að hafa Ísland að féþúfu vegna þeirra vandræða sem við gengum í gegnum, ekki að fylgja sömu stefnu og hv. þm. Óli Björn Kárason lýsti svo vel hér áðan. Að vísu ætla menn að klára það sem var orðið óhjákvæmilegt að aflétta höftum og hefði mátt gera það fyrr gagnvart íslenskum almenningi, en taka á algjöra u-beygju í samskiptum við þessa aðila sem hafa sótt að okkur í alþjóðastofnunum, í fjölmiðlum, ekki bara hér á landi heldur víða um heim og jafnvel reynt að skipta sér af úrslitum kosninga á Íslandi. U-beygjan gagnvart þessum aðilum er sú að láta undan, gefa eftir, fullkomlega held ég megi segja, virðulegi forseti.

Hvers vegna stimplar ríkisstjórnin sig inn með þessum hætti með morgungjöf hæstv. fjármálaráðherra til vogunarsjóða í New York? Hvernig stendur á því, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin fylgdi ekki þeirri áætlun sem boðuð hafði verið að byrja á því að losa íslenskan almenning úr höftum og þeir sem ekki vildu spila með í því, þeir sem ætluðu að hafa Ísland að féþúfu vegna vandræða í efnahagsmálum, yrðu látnir bíða. Þetta var ekki bara eitthvað sem var rætt í kosningabaráttu, þetta var í raun loforð sem var gefið þegar efnt var til útboðs og fullyrt var af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, og öðrum að þeir sem ekki tækju þátt, þeir sem ekki spiluðu með, yrðu látnir bíða; þeir yrðu læstir inni, þeir myndu ekki græða á því, yrðu skildir hér eftir jafnvel árum ef ekki áratugum saman.

Einhverjir tóku mark á orðum ráðherrans og annarra, Seðlabankans, og létu sig hafa það að fara út á þeim kjörum sem voru í boði. Aðrir ákváðu að fara aðra leið. Reyndar var eitthvað um það, virðulegur forseti, að menn hefðu fyrst ætlað að taka þátt í þessu útboði en á síðustu stundu hætt við það einhverra hluta vegna. En þessir aðilar ákváðu að fara frekar þá leið að taka slaginn við íslensk stjórnvöld, treysta á að hægt væri að brjóta samstöðuna á bak aftur, að hægt væri að beygja íslensk stjórnvöld. Til þess notuðu þeir ýmsar aðferðir, sumar kunnuglegar, sumar síður. Það var auglýst í dagblöðum hér á landi fyrir kosningarnar, reyndar líka í Danmörku og í Bandaríkjunum, og líklega víðar. Það var reynt að dreifa falsfréttum svokölluðum. Menn voru látnir skrifa greinar í dagblöð hér og víðar og reynt var leynt og ljóst að beita íslensk yfirvöld, stjórnvöld hér á landi, þrýstingi, fá þau til að gefa eftir þetta grundvallaratriði sem hv. þingmaður stjórnarliðsins, Óli Björn Kárason, lýsti hér áðan, atriðinu sem tryggði okkur þann árangur sem hefur náðst; gefa eftir fullveldisréttinn, gefa eftir möguleika okkar á að verja Íslendinga og hagsmuni Íslands. Þetta var gefið eftir. Það var horfið frá þeirri stefnu að verja fyrst og fremst almenning og ákveðið að gera sérstakan samning við vogunarsjóðina sem höfðu beitt öllum ráðum til að ná því sem þessi ríkisstjórn hefur nú gefið þeim.



[16:48]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið talað um hvenær árið núll hafi verið. Ég var líka staddur hér á þingpöllum þegar neyðarlögin voru sett. Það var drungi yfir öllu. Höftin voru ill nauðsyn og margir hafa lagt hönd á plóginn til að afnema þau. Ég ætla að nefna menn sem þorðu að taka ákvarðanir, menn úr ólíkum flokkum. Það var Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og forsetinn, sem að baki mér situr, sem þorðu að taka ákvarðanir, ákvarðanir sem við gátum alls ekki vitað, hvorki þeir né aðrir, að væru réttar eða rangar, en ákvarðanirnar þurfti að taka.

Hér hefur verið spurt hvers eðlis samkomulag sem gert hafi verið við aflandskrónueigendur sé. Samkomulagið er þess eðlis að þeim er gert tilboð um að kaupa af þeim þeirra eign á genginu 137,50 evran. Ef þeir ganga að tilboðinu þá er samningur kominn á. Flóknara er málið nú ekki.

Það hefur verið talað um að ekki hafi verið settar upp sviðsmyndir, en á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar í gær leyfði ég mér að segja hvað gæti gerst. Seðlabankastjóri gat að sjálfsögðu ekki gert það, hann er bundinn trúnaði vegna þess að hann er að taka ákvörðun um vexti síðar í vikunni. Það vissu hv. nefndarmenn auðvitað. En ég velti því fyrir mér og spái því að vextir muni lækka í kjölfar þessarar ákvörðunar.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spurði hvort sá sem hér stendur hefði sagt ósatt. Hefði hv. þingmaður lesið lengra í ræðu þeirri sem hann vitnaði til þá hefði hann séð að ég sagði einmitt að ég vonaðist til þess að höftunum yrði aflétt sem allra fyrst. Það gat ekki orðið miklu fyrr, hv. þingmaður.

Verður tekið upp myntráð án umræðu? Að sjálfsögðu verður það ekki tekið upp án umræðu. Það verður ekki tekið upp án lagasetningar. En ég er sammála mjög mörgum þingmönnum, sem hér hafa tekið til máls, um að krónan hefur ekki reynst okkur vinur í raun.

Ég þakka hv. þingmönnum fyrir málefnalega umræðu hér í dag og fagna því að þingið skuli hafa rætt þetta. Það er ánægjulegt að heyra þann samhljóm sem er um að fagna því að höftum sé aflétt. Meginatriðið er að við Íslendingar getum gengið ánægð frá borðinu og meginatriðið er nú kannski það að við getum gengið frá þessu borði, að við þurfum ekki lengur að vera að hugsa um höftin.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spurði hvort ég teldi að þessi dagur ætti að vera fánadagur hér eftir. Ég þakka honum fyrir þá góðu hugmynd. Ég mun flagga á morgun. Ég segi aftur: Til hamingju.