140. löggjafarþing — 110. fundur.
barnalög, 2. umræða.
stjfrv., 290. mál (réttindi barns, forsjá, umgengni o.fl.). — Þskj. 328, nál. 1427, brtt. 1428.

[14:47]
Frsm. velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti velferðarnefndar allrar um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum. Ástæða er til að leggja áherslu á að hér er einungis um að ræða frumvarp til laga sem tekur til breytinga á kafla barnalaganna um forsjá og umgengni, með einni undantekningu þó, það er lagt til í frumvarpinu að upphafskafla laganna verði breytt. Að öðru leyti fjallar þetta frumvarp einungis um kaflann um forsjá og umgengni innan barnalaganna.

Velferðarnefnd fór af talsverðri dýpt í þetta mál og fékk á sinn fund fjölmarga gesti og fjölmargar umsagnir bárust. Frumvarpið á sér líka talsverðan aðdraganda, það var lagt fram á 139. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu þá. Það á einnig rætur að rekja til yfirgripsmikillar vinnu nefndar sem var skipuð af þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra í desember 2008 og Hrefna Friðriksdóttir veitti þeirri nefnd formennsku. Nefndin skilaði drögum að frumvarpi sem að meginstofni til skilaði sér í það frumvarp sem við ræðum hér og nú.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar mjög mikilsverðar umbætur sem rík ástæða er til að fagna. Fyrir það fyrsta er lagt til að lögfestur verði nýr upphafskafli, eins og ég vék að áðan, sem taki mið af meginreglum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þá kemur inn í lögin breytt 1. gr. þar sem lagt er til að upphafskafli laganna kveði á um helstu meginreglur barnaréttar. Meginreglur þessar leiða allar af barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hv. velferðarnefnd telur mikla og ríka ástæðu til að fagna þessum nýja upphafskafla. Þarna er lögð sú lína og megináhersla sem er leiðarljósið í öllum barnalögunum að ávallt skuli taka ákvarðanir sem eru barni fyrir bestu. Það er algjört grundvallaratriði. Í frumvarpinu eru einnig nýmæli sem afmarka skýrar en áður hlutverk foreldra. Meðal annars er lagt til að lögfestur verði sérstakur kafli um inntak sameiginlegrar forsjár. Það er líka lagt til að afnema það fyrirkomulag að stjúp- og sambúðarforeldrar fái sjálfkrafa forsjá stjúpbarns við tilteknar aðstæður og að þess í stað þurfi að semja um þessi atriði. Eitt af helstu nýmælum frumvarpsins sem velferðarnefnd fagnar mjög er að rík áhersla er lögð á sáttameðferð og í raun lagt til að lögfest verði að foreldrum beri skylda til að leita sátta áður en unnt er að krefjast úrskurðar eða höfða mál um tiltekin ágreiningsefni.

Þetta er ákaflega stórt og mikilvægt atriði og í raun þungamiðjan í frumvarpinu sem við ræðum í dag. Það er einnig lagt til að lögfest verði helstu sjónarmið sem leggja beri til grundvallar þegar tekin er ákvörðun um forsjá barns, sem og þegar úrskurðað er í umgengnismálum og lögð til ýmis nýmæli um umgengnisrétt, m.a. rýmri skilgreining á umgengnisrétti og lagt til að sýslumaður geti úrskurðað um umgengni til bráðabirgða svo dæmi sé tekið.

Í þessu sambandi ber að geta þess að lagt er til að sett sé inn ný grein í stað 46. gr. barnalaga, um að börn hafi rétt á því að umgangast vandamenn sína, náin skyldmenni, eins og til dæmis eftir fráfall annars foreldris. Þetta er í raun engin breyting frá því sem áður hefur verið, vandamenn hafa ætíð samkvæmt 47. gr. barnalaga getað sótt þennan rétt til sýslumanns en það ber að leggja hins vegar ríka áherslu á það að þetta er ekki réttur vandamanna til umgengni við börn heldur er hér um að ræða rétt barna til að umgangast vandamenn sína við tilteknar aðstæður, þegar grípa þarf til þess réttar. Það er bundið því skilyrði í lögunum að slík umgengni sé barninu til hagsbóta.

Það eru því ýmis nýmæli í frumvarpinu og einnig verið að skýra umgjörð þessara mála og er full ástæða til að fagna því.

Ýmis álitamál voru tekin til vandaðrar umfjöllunar í velferðarnefnd. Niðurstaðan varð sú að nefndin leggur til allnokkrar breytingar á frumvarpinu og þær eru efnislega þrjár. Í fyrsta lagi leggur velferðarnefnd til að sett verði inn í barnalög heimild dómara til að úrskurða sameiginlega forsjá í forsjármálum. Þetta er hin svokallaða dómaraheimild. Í öðru lagi leggur velferðarnefnd til að dómara verði heimilt að úrskurða sérstaklega um lögheimili og að foreldrar geti þá höfðað mál sérstaklega um lögheimili þannig að ef ágreiningur er um lögheimili þurfi ekki að skera úr um þann ágreining með forsjármáli, heldur sé hægt að skera sérstaklega úr um lögheimili. Í þriðja lagi leggur velferðarnefnd til að heimild til aðfarar til að koma á umgengni sé í barnalögum. Í frumvarpinu er lagt til að heimild til aðfarar sé tekin út en velferðarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að vandlega athuguðu máli að þessa aðfararheimild eigi að setja aftur inn.

Ég ætla að fara yfir þær röksemdir sem hv. velferðarnefnd setur fram fyrir tillögum sínum til efnislegra breytinga á frumvarpinu og byrja á heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá. Fyrst ber að geta þess að heimildin var inni í frumvarpsdrögunum sem áðurnefnd nefnd dóms- og kirkjumálaráðherra skilaði í desember 2008 og hún var vandlega útfærð þar og rökstudd með greinargerð. Í stuttu máli leggur velferðarnefnd til að sú útfærsla í því frumvarpi verði sett inn í lögin. Óhætt er að segja að þetta sé gert að vandlega íhuguðu máli. Sameiginleg forsjá var tekin upp í barnalög á Íslandi árið 1992, þ.e. möguleikinn á sameiginlegri forsjá. Árið 2006 var hún lögfest sem meginregla við skilnað eða sambúðarslit foreldra. Sameiginleg forsjá er orðin algjör meginregla ef kemur til skilnaðar foreldra. Nefndin telur að ekki sé heldur fært að líta fram hjá því að Ísland er eina ríkið á Norðurlöndum þar sem ekki er til staðar heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá. Í Danmörku hefur slík heimild verið í lögum frá árinu 2006, í Svíþjóð frá 1998, í Noregi frá 1981 og í Finnlandi frá 1983. Það er því mjög mikil reynsla komin á þá heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá í öllum nágrannaríkjum okkar og reynslan er almennt jákvæð.

En sitt sýnist auðvitað hverjum um þetta mál og velferðarnefnd leggur ríka áherslu á að hér er ekki verið að taka upp heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá án skilyrða, heldur er líka lagt til að sett verði inn í barnalög ákvæði þar sem tiltekið er til hvaða atriða dómari eigi að horfa ef hann hyggst úrskurða svo að forsjáin eigi að vera sameiginleg. Hann verður náttúrlega fyrst að horfa til þess að aðstæður séu þannig að þær þjóni hagsmunum barnsins og ástæða er líka til að leggja á það mikla áherslu að dómara ber aðeins að dæma sameiginlega forsjá ef fyrir liggur að um jafnhæfa forsjárforeldra er að ræða. Honum ber að taka mið af því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg þótt slíkt sé ekki nauðsynlegt og taka mið af aldri og þroska barns. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Dómara ber líka að horfa til þess hvort einhver tilvik ofbeldis séu fyrir hendi.

Í raun og veru er kannski ein meginröksemdin fyrir því að taka upp þessa heimild sú að það er mjög mikilvægt að dómari hafi í verkfæraboxi sínu allar leiðir til að taka ákvarðanir sem eru barni fyrir bestu. Ef hann hefur ekki heimild til að dæma sameiginlega forsjá í forsjármálum er honum hugsanlega gert ókleift í einhverjum tilvikum að úrskurða þannig að það sé barni fyrir bestu. Hann verður að hafa þessa leið fyrir hendi. Ef heimildin er ekki fyrir hendi getur komið til þess að dómari neyðist til að dæma öðru foreldrinu forsjána þó að hitt foreldrið kunni að vera algjörlega jafnhæft til að hafa forsjá barns. Í samfélagi þar sem sameiginleg forsjá er orðin meginregla er mikilvægara en ella að dómari hafi þessa heimild.

Tveir nefndarmenn, hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir, skrifa undir nefndarálit þetta með fyrirvara um þessa heimild, en engu að síður náðist sátt um það í nefndinni að leggja til að þessi heimild yrði færð í barnalög.

Önnur efnisleg breyting sem gerð er á frumvarpinu snýst um að gefa dómara heimild til að dæma sérstaklega um lögheimili barns. Sú heimild tengist líka öðru ákvæði sem er nýtt í frumvarpinu um inntak sameiginlegrar forsjár. Leiðarstefið í inntaki sameiginlegrar forsjár er að forsjárforeldrum beri að hafa samráð en því foreldri sem barnið hefur lögheimili hjá er hins vegar gert heimilt að taka ýmsar mikilvægar ákvarðanir sem varða daglegt líf barnsins. Í þessa grein er sem sagt sett heimildarákvæði til lögheimilisforeldrisins en engu að síður er það grundvallaratriði í greininni að foreldrum beri samt sem áður að hafa samráð. Þess ber að geta að það fylgir líka ýmislegt annað því að barn hafi lögheimili hjá foreldri, til dæmis hefur það áhrif í skattkerfinu og hefur réttaráhrif að barn hafi lögheimili á einum stað en ekki öðrum. Í ljósi þess að svo rík heimild er gefin því foreldri sem hefur lögheimilið þykir nefndinni mikilvægt að hægt sé að skera úr um það sérstaklega hvar lögheimili eigi að vera, komi til ágreinings um það. Þá er mikilvægt að dómari horfi til dæmis til þess hvort lögheimilisforeldrið hafi axlað þá samráðsskyldu sem kveðið er á um í greininni um inntak sameiginlegrar forsjár.

Ein ástæða þess að það kunni að vera mikilvægt af sjónarhóli einhvers foreldris að sækja mál um lögheimili gæti verið sú að lögheimilisforeldri hafi aldrei haft samráð um allar meginákvarðanir í lífi barnsins. Til að greinin um inntak sameiginlegrar forsjár virki og til að þetta sé einungis heimildarákvæði fyrir lögheimilisforeldrið er mikilvægt að í lögunum sé líka ákvæði um að hægt sé að skera úr um hvar lögheimili eigi að vera ef foreldri stendur sig ekki hvað þetta varðar. Auk þess er ekki ásættanlegt, ef kemur til ágreinings um lögheimili að endilega þurfi að höfða forsjármál vegna þess. Því leggur nefndin til að hægt sé að skera úr um það sérstaklega.

Þriðja efnislega breytingin sem nefndin leggur til að verði gerð á frumvarpinu er að aðfararheimild sé sett aftur inn í lögin. Nefndin leggur sem sagt til að áfram verði í lögunum heimild til að grípa til aðfarargerðar vegna tálmunar á umgengni. Fyrir það fyrsta verður að hafa mjög skýrt í huga að það er ákaflega sjaldgæft að til þess komi að grípa þurfi til aðfarar vegna tálmunar á umgengni. Það er ákaflega sjaldgæft. Nefndin taldi ekki ásættanlegt að taka heimild til aðfarargerðar vegna tálmunar á umgengni burt þegar í raun er ekki stungið upp á neinum öðrum aðferðum til að koma á umgengni þegar hún er tálmuð. Ég held að við getum ekki skilið málin svoleiðis eftir í lausu lofti. Það sjónarmið var líka mjög ríkt í nefndinni að aðfarargerðin virkaði líka meira eins og svipa. Það kemur mjög sjaldan til þess að grípa þurfi til hennar en það er betra að hún sé heimiluð, að hún sé möguleiki. Nefndin leggur hins vegar til að hún sé tekin upp með aðeins breyttu formi frá því sem hún er í lögunum núna og meiri áhersla sé lögð á að dómari úrskurði gegn því að gripið verði til aðfarar þegar hann telur að það sé barni fyrir bestu. Það er því áréttað að dómara beri rík skylda til þess að mæla ekki með aðför ef hann telur það barni fyrir bestu og hafna beiðninni. Nefndin leggur sem sagt til að hnykkt verði á heimild dómara til að synja beiðni um aðför til að framfylgja ákvörðun um forsjá eða umgengni ef varhugavert þykir með tilliti til hagsmuna barnsins að gerðin nái fram að ganga. Nefndin leggur líka til að innanríkisráðuneytið hefji vinnu við gerð verklagsreglna fyrir sýslumenn sem fylgja skuli við framkvæmd aðfarargerða. Hún leggur ríka áherslu á þetta.

Þetta eru þær þrjár efnislegu breytingar sem velferðarnefnd leggur til að gerðar verði á frumvarpinu. Mörg önnur atriði voru rædd og ég ætla aðeins að fara yfir þau. Áðurnefndur kafli um inntak sameiginlegrar forsjár var talsvert ræddur í nefndinni og þau sjónarmið voru auðvitað á lofti að ef lögheimilisforeldri fær svo ríka heimild til að taka ákvarðanir um daglegt líf barnsins kann vissulega að virðast að merking sameiginlegrar forsjár verði ansi rýr. Ég held þess vegna að það sé mjög mikilvægt að hægt sé að fara sérstaklega í mál vegna lögheimilis og að það komi á móti að það foreldri sem hefur lögheimilið hefur ríka skyldu til að hafa samráð við hitt foreldrið.

Síðan voru talsvert ræddar hugmyndir þessu tengdar um tvöfalt lögheimili eða jafna búsetu. Ég tel nokkuð ljóst og nefndin leggur það til að huga þurfi að því á Íslandi að koma á einhverju fyrirkomulagi sem heitir jöfn búseta eða tvöfalt lögheimili, það þurfi að horfast í augu við að það er orðið mjög algengt að börn búi á tveimur stöðum. Nefndinni voru kynntar rannsóknir þess efnis að eftir skilnað virðist börnum líða einna best í fyrirkomulagi þar sem þau búa til jafnt til skiptis hjá báðum foreldrum. Það fyrirkomulag virðist leiða til velferðar barna og mikilvægt er að mínu viti og nefndin ræddi það talsvert að reyna að styðja við í löggjöfinni þá foreldra sem kjósa að haga málum svona eftir skilnað, að börn búi jafnt hjá þeim til skiptis.

Sérstaklega þarf líka að skoða þetta vegna þess að lögheimilinu fylgja ýmis réttaráhrif. Eins og staðan er núna er misræmi í stöðu foreldra. Þó að barn búi sannanlega á tveimur stöðum er lögheimili bara á einum stað og öll þau réttaráhrif sem fylgja því eru þá bara á einum stað. Þetta krefst hins vegar þess að nokkuð margir lagabálkar séu skoðaðir, þetta lýtur til dæmis að greiðslu barnabóta, meðlagskerfinu og náttúrlega lögum um lögheimili og þar fram eftir götunum. Það þarf að hafa samráð við þjóðskrá svo dæmi sé tekið. Nefndin telur brýnt að fylgst verði með þeirri þróun sem er annars staðar á Norðurlöndum í útfærslu á jafnri búsetu á Íslandi og að hugað verði að því hvort rétt væri að taka slíkt kerfi upp hér á landi.

Ég tel að innanríkisráðherra eða velferðarráðherra ætti einfaldlega að skipa nefnd til að útfæra svona fyrirkomulag sem mundi annaðhvort heita jöfn búseta eða tvöfalt lögheimili. Það eru einfaldlega ýmis tæknileg úrvinnsluatriði sem þarf að glíma við í því en ég held að það sé til mikils að vinna, ég held að við eigum að vinda okkur í þetta starf. Það gengur ekki lengur að loka augunum fyrir því að börn búa í ákaflega mörgum tilvikum á tveimur stöðum. Það þarf að sníða löggjöfina að þeim veruleika og hvetja líka til jafnrar búsetu vegna þess að rannsóknir benda til þess að eftir skilnað líði börnum almennt vel með það fyrirkomulag.

Nefndin ræddi líka kostnað af umgengni. Í frumvarpinu er lagt til að viðmiðunarreglunni varðandi skiptingu kostnaðar af umgengni verði breytt þannig að ekki verði kveðið á um það í lögunum að miða skuli við að foreldri sem nýtur umgengni skuli greiða kostnað af henni heldur að haft verði að leiðarljósi að foreldrar semji um kostnað vegna umgengni. Nefndin telur að hér sé um breytingu að ræða sem miði að því að jafna stöðu foreldra og fagnar því að hún komi fram. Í frumvarpinu er hins vegar miðað við óbreytt ástand að því leyti að þegar sýslumaður þarf að úrskurða um kostnað vegna umgengni ber honum almennt að horfa til þess að það foreldri sem nýtur umgengni greiði kostnað vegna hennar. Sýslumaður verður þó að leggja mat á hvert tilvik fyrir sig.

Talsvert var rætt í nefndinni hvort gera ætti breytingar á þessu og leggja til að sýslumaður horfi frekar til fjárhagslegrar stöðu foreldra sem meginreglu við úrskurð en hafi ekki sem meginreglu að umgengnisforeldrið greiði kostnað. Nefndin leggur þó ekki til breytingar á þessum ákvæðum. Nefndin leggur aftur á móti áherslu á að það er verið að breyta almennu meginreglum og almenna meginreglan á að vera sú að foreldrar semji um þetta. Komi til ágreinings er hins vegar óbreytt ástand og sýslumaður miðar við þá viðmiðunarreglu að umgengnisforeldrið greiði kostnað en honum er heimilt að víkja frá þeirri reglu. Þetta þarf kannski að endurskoða en fyrir nefndinni kom fram að í innanríkisráðuneytinu er verið að vinna að heildarendurskoðun meðlagskerfisins og nefndin telur skynsamlegt að endurskoðun á fyrirkomulagi kostnaðar vegna umgengni haldist í hendur við þá endurskoðun og gerir því ekki tillögur til breytinga á þessu.

Nefndin fjallaði líka um upplýsingar um barn og hvernig þeim málum öllum væri háttað. Í gildandi 52. gr. barnalaga er ekki kveðið á um hvort um munnlegar eða skriflegar upplýsingar sé að ræða þegar forsjárlaust foreldri óskar eftir upplýsingum um barn frá forsjárforeldri eða öðrum aðilum. Í 26. gr. frumvarpsins sem fyrir liggur er lagt til að þessum ákvæðum verði breytt og þau skýrð frekar og tiltekið sérstaklega hvaða upplýsingar skuli veita forsjárlausu foreldri munnlega og hvaða upplýsingar skuli veita skriflega. Ber að árétta að þessar greinar varða eingöngu rétt forsjárlausra foreldra til að fá upplýsingar. Nefndin telur mikilvægt að forsjárlaust foreldri geti fengið skriflegar upplýsingar um barn sitt úr skólakerfinu og fagnar breytingu þess efnis þar sem sá réttur er skýrður. Ljóst er að forsjárlaust foreldri hefur ríkan hag af því að fá upplýsingar um barn til að geta sinnt umgengnisskyldu sinni og til að fylgjast almennt með velferð barnsins.

Nefndin telur vert að árétta að með frumvarpinu er ekki lagt til að gerð verði breyting á lokamálslið 2. mgr. 52. gr. þar sem fram kemur að réttur forsjárlauss foreldris til upplýsinga samkvæmt málsgreininni felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldrisins. Það er ástæða til að leggja áherslu á það að í frumvarpinu er verið að rýmka og skýra rétt forsjárlausra foreldra til að fá upplýsingar og mjög mikilvægt að það er algjörlega orðið skýrt að forsjárlaust foreldri á rétt á skriflegum sem og munnlegum upplýsingum úr skólakerfinu og á rétt á munnlegum upplýsingum alls staðar annars staðar frá. Þótt nefndin leggi ekki til neinar breytingar á þessu en fagnar þessari rýmkun er auðvitað ástæða til að hafa þessar lagagreinar og raunverulega allar aðrar í barnalögum í stanslausri endurskoðun.

Ég hef nú farið yfir helstu atriði, bæði breytingartillögur og það sem nefndin ræddi. Það ber að leggja þunga áherslu á að barnalög eru náttúrlega þess eðlis að mikilvægt er að flana ekki að neinu. Þetta er lagabálkur sem þarf að vera í hægfara þróun. Hér eru stigin mörg mikilsverð og mikilvæg umbótaskref í lagaumhverfinu, sérstaklega með breytingartillögum velferðarnefndar, einkum að þar kemur inn þessi ríka áhersla á sáttameðferð. Ég tel stórt skref að við veitum dómurum heimild til að dæma sameiginlega forsjá en það er gert með skilyrðum eins og ég hef áður rakið.

Ég vil að lokum þakka nefndinni og nefndarritara mjög gott samstarf í þessu máli. Nefndin leggur til að frumvarp þetta verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef núna gert grein fyrir og gert er grein fyrir í nefndaráliti og lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Undir nefndarálitið skrifa Álfheiður Ingadóttir, með fyrirvara, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lúðvík Geirsson, Valgerður Bjarnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, með fyrirvara, Eygló Harðardóttir og ég sjálfur.



[15:18]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst fagna mjög eindregið þeim breytingartillögum sem nefndin leggur til á barnalögunum.

Við breytinguna árið 2006, sem framsögumaður nefndi áðan, greiddi ég og nokkrir aðrir þingmenn atkvæði með því að þá yrði sett í lögin dómaraheimild til að úrskurða um sameiginlega forsjá. Það hefur verið deilt mjög um þessa dómaraheimild eins og framsögumaður rakti. Auðvitað sýnist sitt hverjum og má lengi rökræða um það, en rökræðan undanfarin ár hefur skilað nokkuð góðri samstöðu um þetta.

Það er ánægjulegt að hér skuli vera lögð til dómaraheimild til að úrskurða um sameiginlega forsjá rétt eins og um lögheimili með áherslu á sáttaleiðina og samninga sem meginreglu en dómaraheimildina sem úrskurð í undantekningartilfellum og ágreiningsmálum. Ég held að þetta séu mjög jákvæðar breytingar og ég fagna því eindregið að þær séu komnar fram.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann um var hugmynd Félags um foreldrajafnrétti að breytingartillögu við þetta frumvarp sem var send í dag til þingmanna — félagið hefur beitt sér fyrir þessu máli með jákvæðum og málefnalegum hætti á síðustu missirum og árum, þá undir öðru nafni — þar sem lagt er til að eftirfarandi breyting fari inn í frumvarpið og lagabálkinn. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Foreldrar skulu skipta með sér kostnaði vegna umgengni nema annað sé ákveðið með samningi, samanber 3. mgr., eða úrskurði, samanber 1. mgr. 47. gr.“

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta hafi verið rætt og hvort það komi til greina að skoða þessa breytingu í nefnd á milli 2. og 3. umr.



[15:20]
Frsm. velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst nefna að velferðarnefnd barst mjög gagnleg umsögn frá Félagi um foreldrajafnrétti og fulltrúar félagsins komu jafnframt á fund nefndarinnar. Í raun var fjölmörgum tillögum þeirra mætt og þær líka ítarlega ræddar. Það er vissulega rétt að við förum ekki að ráðum Félags um foreldrajafnrétti þegar kemur að þessu atriði, hvað varðar skiptingu kostnaðar. Það var hins vegar ítarlega rætt og fór líka fram samræða við ráðuneytið um það mál en niðurstaðan varð sú að leggja ekki til breytingar á þessu, meðal annars var horft til þess að það er verið að endurskoða þetta umhverfi í heild sinni með endurskoðun á lagaumhverfinu um meðlagsgreiðslur. Það er verið að skoða skiptingu þessa kostnaðar annars staðar og það er líka mjög brýnt, eins og ég rakti áðan, að taka upp fyrirkomulag eins og jafna búsetu og tvöfalt lögheimili til að fara enn frekar í saumana á skiptingu réttaráhrifa og kostnaðar í þessu kerfi öllu. Það er brýnt að þessi heildarendurskoðun fari fram.

Ég legg áherslu á að í frumvarpinu er lögð til breyting á núgildandi löggjöf þar sem lagt er til að það verði ekki lengur meginreglan að kostnaður lendi á umgengnisforeldri heldur verði það meginregla að foreldrar semji um það. Það er mjög til bóta. En þótt það sé ekki lengur meginreglan að kostnaður lendi á umgengnisforeldri er vissulega óbreytt í lögum að sýslumaður skuli hafa það sem viðmiðunarreglu þegar hann þarf að skera úr um skiptingu kostnaðar, ef til ágreinings kemur, að kostnaður lendi á umgengnisforeldri. Hann getur hins vegar breytt því.



[15:22]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að ágætlega hafi verið farið yfir þetta í nefnd og í rauninni tekið skref í þá átt sem þingmaðurinn, hv. framsögumaður, rakti áðan og að það sé verið að endurskoða heildarrammann utan um kostnað, meðlög og annað annars staðar.

Eins og komið hefur fram hafa þessi mál verið í deiglunni undanfarin ár. Við sjáum hvernig þessu fleytir fram, það er ekki lengra en sex ár síðan Alþingi samþykkti sameiginlega forsjá og lögfesti sem meginreglu þó að okkur finnist það jafnsjálfsagt í dag og það er. Núna, á ekki fleiri árum, erum við komin að þeim tímapunkti að lögfesta dómaraheimild til úrskurðar um sameiginlega forsjá. Ég held að við höfum ekki verið nema fjórir þingmenn sem greiddum atkvæði með sameiginlegri forsjá þá, en það var ekkert skrýtið því að umræðan var ekki orðin jafnþroskuð og djúp og hún hefur verið á síðustu árum.

Það er greinilegt að velferðarnefnd hefur unnið þetta af mikilli kostgæfni og vandvirkni í vetur. Þetta er stórt og mikið mál, gífurlega mikilvægt því að eins og kom fram er verið að veita dómaraheimildir til að úrskurða og dæma í málum sem hafa mjög mikið að segja um velferð barns og hagi þess og stöðu í samfélaginu. Ég er sannfærður um að með þessu sé gengið til góðs, það sé jákvætt að hægt sé að fara þessa leið og hún verði börnum jafnt sem foreldrum fyrir bestu þegar upp er staðið í langflestum tilfellum.

Ég ætlaði í sjálfu sér ekki að spyrja hv. framsögumann um fleiri atriði heldur bara árétta mikilvægi þess að þetta komi sem fyrst til skoðunar og úrvinnslu, að það verði sem sagt regla að foreldrar skipti með sér kostnaði vegna umgengninnar. Þetta er mjög ósanngjarnt eins og það er í dag, að kostnaðurinn lendi á umgengnisforeldrum þar sem blasir við að nú á tímum flytur fólk oft og getur verið langt á milli og fjarlægðir miklar og kostnaður mikill við að fljúga, aka o.fl. Ég árétta að það er mjög mikilvægt að þetta atriði verði tekið inn í myndina.



[15:24]
Frsm. velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir mikilvægi þessa. Það er óréttlátt að hafa það sem einhvers konar meginreglu við skiptingu kostnaðar við umgengni að kostnaðurinn skuli lenda á herðum umgengnisforeldris. Umgengni er í þágu barnsins og á ábyrgð beggja foreldra að haga málum svo að umgengni sé rík. Þessi almennu sjónarmið held ég að liggi því til grundvallar að í frumvarpinu er einmitt lagt til að meginreglan um að kostnaðurinn lendi alfarið á herðum umgengnisforeldris verði aflögð og að fyrirkomulagið verði þannig að foreldrar semji um þetta.

Þó að enn sé sú viðmiðunarregla hjá sýslumönnum að umgengnisforeldri beri kostnað við umgengni, ef til ágreinings kemur, vil ég leggja ríka áherslu á að það eru líka ákvæði í lögunum sem veita sýslumanni heimild til að hverfa frá þeirri viðmiðunarreglu. Þá mun hann væntanlega horfa til þess hvort um sé að ræða dýr ferðalög eða eitthvað slíkt eða fylgd í flugi fyrir barnið, sem skapar kostnað. Það eru ríkar heimildir fyrir sýslumenn til að hverfa frá þessari viðmiðunarreglu ef til ágreinings kemur.

Lykilatriðið er að það er verið að lögfesta þá meginreglu að foreldrar skuli semja um þennan kostnað og endurskoða alla þessa umgjörð.



[15:26]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, framsögumanni nefndarinnar, fyrir framsögu hans og kynningu á nefndaráliti og tek undir með honum í flestu því sem þar kom fram.

Það er vert að horfa til þess að í 1. gr. þessa frumvarps til laga er kafli sem heitir Réttindi barns. Ég ætla að fá að lesa þann kafla, með leyfi forseta:

„Barn á rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi.

Óheimilt er að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.

Barn á rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska.“

Öll getum við væntanlega tekið undir þetta. En þegar kemur að flestum þeim greinum sem barnalögin fjalla um taka þær greinar til foreldra, reyndar með hagsmuni barnsins að leiðarljósi, en oftar en ekki til foreldra og til þess reyna að koma í veg fyrir ágreining foreldra til þess að hagur barns sé ávallt í fyrirrúmi.

Með þessu frumvarpi til laga eru lagðar til nokkrar breytingar á gildandi barnalögum. Í umfjöllun nefndarinnar eru gerðar nokkrar veigamiklar breytingar, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á. Þær eru gerðar með það í huga að réttindi barnsins séu virt og frekar er gengið á réttindi foreldra.

Í frumvarpinu eru nýmæli sem afmarka með skýrari hætti en áður hlutverk foreldra, meðal annars með lögfestingu á inntaki sameiginlegrar forsjár. Það er tillaga um afnám þess fyrirkomulags að stjúp- og sambúðarforeldrar fái sjálfkrafa forsjá stjúpbarns við tilteknar aðstæður og þess í stað lagt til að stjúp- og sambúðarforeldrar og kynforeldri sem fer eitt með forsjá geti samið um að forsjá barns verði sameiginleg.

Hér er því reynt að setja hag barnsins í forgrunn þó að oft sé leitað leiða til að sætta foreldra sem annaðhvort hafa slitið sambúð eða skilið, eða að tryggja rétt foreldra til þess að umgangast barn sitt búi foreldrar ekki saman.

Mig langar að nefna sérstaklega að allt frá lögunum 2006 hefur sameiginleg forsjá verið meginregla og hér er verið að lögfesta slíkt sem ég tel gott vegna þess að það er afskaplega stórt og mikið mál að svipta foreldri forsjá. Foreldri er og verður foreldri og það er stórt skref að svipta foreldri forsjá og ætti sem sjaldnast að beita slíku. Þó svo að ég geri mér grein fyrir að stundum sé þörf á því þá er hagsmunum barnsins betur borgið ef forsjáin er sameiginleg þótt umgengnin sé takmörkuð á aðra hliðina.

Í frumvarpinu er lögð rík áhersla á ráðgjöf og sáttameðferð og inntakið er að það sé í raun og veru skylt að foreldrar sækist eftir ráðgjöf og sáttaferli. Ég held að þar séu stigin mikilvæg skref í þá átt að reyna að fækka ágreiningsmálum foreldra sem mun alltaf koma barninu til góða.

Í frumvarpinu leggur nefndin til að sá möguleiki verði skoðaður að í slíkri sáttameðferð og ráðgjöf verði barninu skipaður talsmaður til að styrkja ráðgjafar- og sáttaferlið með hagsmuni barnsins í huga.

Eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á er einnig sett inn í frumvarpið heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá. Það eru ekki allir á eitt sáttir þar, en engu að síður var það álit meiri hluta nefndarinnar að setja ætti það inn. Þá er fyrst og síðast verið að horfa til þess réttar barnsins að fá að alast upp þar sem báðir foreldrar bera sameiginlega ábyrgð á uppeldinu og það sé sameiginleg ábyrgð foreldra að koma barni sínu til þroska.

Jafnframt er tekið fram í nefndaráliti hv. velferðarnefndar að dómara beri aðeins að dæma sameiginlega forsjá ef fyrir liggur að um jafnhæfa forsjárforeldra sé að ræða, ágreiningur þeirra á milli sé ekki svo djúpstæður að hann sé líklegur til að hafa áhrif á barnið og að foreldrar séu líklegir til að geta unnið í sameiningu að velferð barnsins og síðast en ekki síst að í hverju tilfelli fari fram mat á því hvort sameiginleg forsjá sé barni fyrir bestu.

Virðulegur forseti. Ég tel mikilvægt að árétta þetta.

Ég tel einnig mikilvægt að árétta að dómari hefur nú heimild til að dæma um lögheimili barns. Það er nýmæli og skiptir afar miklu máli. Töluverð umræða fór fram í nefndinni þar að lútandi sem og um tvöfalt lögheimili. Ég tel að það sé tímabært miðað við þær breytingar sem átt hafa sér stað á undanförnum árum þar sem börn eiga nú mörg hver heima á tveimur stöðum, að athugað sé hvort ekki sé hægt að festa það í sessi að svo sé þegar breyta á lögum um lögheimili.

Eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á þurfum við líka að sjá til þess að barnabætur, meðlagsgreiðslur og ýmislegt annað sem tengist fjölskyldum fari ekki eingöngu til lögheimilisforeldris eins og nú er heldur njóti báðir foreldrar þess með einum eða öðrum hætti.

Ég tel rétt að nefna hér að forsjárlausu foreldri er heimilt að fá upplýsingar um barn sitt. Forsjárlaust foreldri getur óskað eftir upplýsingum um barn sitt, hvort heldur sem þær umsagnir eru skriflegar eða munnlegar, það er fest í sessi að það getur fengið upplýsingar um skóladvöl og leikskóladvöl barns síns.

Það er oft dálítið skondið að þegar rætt er um að forsjárlaust foreldri eigi rétt á upplýsingum um barnið sitt óttast menn það helst að einhverjar upplýsingar um forsjárforeldrið læðist með og það sé svo slæmt. Það kann að vera að það sé slæmt, en það er réttur barnsins að hið forsjárlausa foreldri viti líka eitthvað um barnið sitt og geti fylgst með hvernig því reiðir af, hvort heldur er í leikskóla eða í skóla.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um aðfararheimildina. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson gerði því ágætlega skil. Ég held hins vegar að vert sé að undirstrika það enn frekar að nefndin lagði áherslu á, eins og fram kemur í nefndarálitinu, að í ljósi þeirrar hættu og skaða sem margir telja að aðfarargerð valdi barni, telur nefndin að efla þurfi verklagsreglur í slíkri gjörð. Nefndin leggur til að það sé skoðað og jafnframt kemur það ávallt fram að aðförin fari ekki fram nema gerðarbeiðandi aðfarar sé sjálfur viðstaddur þannig að gerðarþoli geti þá afhent gerðarbeiðanda barnið, menn skulu hafa það í huga. En fyrst og síðast þarf að setja skýrar og skilmerkilegar verklagsreglur vegna þess að vissulega er þetta mikið inngrip í líf einstaklinga en tálmun á umgengni er líka stórt og mikið inngrip og einhvern veginn verður að koma í veg fyrir að annað foreldrið geti beitt hitt foreldrið slíku ofbeldi í gegnum barnið sem þau eiga saman. Áherslan verður því alltaf að vera á barninu. Þess vegna leggur nefndin til þessar verklagsreglur og breytingar að gerðarbeiðandi verður ávallt að vera viðstaddur.

Okkur nefndarmönnum hafa borist póstar varðandi 46. grein sem gerðar eru breytingar á. Þar stendur, með leyfi foreldra … með leyfi forseta. Sjálfsagt er þetta allt með leyfi foreldra, en þó ekki. Hefst nú lesturinn, með leyfi forseta:

„Ef annað foreldra barns er látið eða bæði, foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn eða foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengni á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.“

Hér er alltaf verið að horfa á barnið. Síðan langar mig að bera saman 47. gr. barnalaga fyrir og eftir breytingar. Í 47. gr. segir að sýslumaður geti úrskurðað um umgengni. Í 47. gr. núgildandi laga segir, með leyfi forseta:

„Nú er annað foreldra barns látið eða bæði, eða foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn, og geta þá nánir vandamenn þess foreldris krafist úrskurðar sýslumanns um umgengni þeirra við barn í samræmi við 2. mgr.“

Það stendur í gildandi lögum.

Eftir breytingu á 47. gr. segir nú, með leyfi forseta:

„Sýslumaður úrskurðar með sama hætti um umgengni barns við nána vandamenn eða aðra nákomna skv. 46. gr. a enda verði umgengni talin til hagsbóta fyrir barnið.“

Þá kemur annað atriði, með leyfi forseta:

„Leita skal umsagnar þess foreldris sem á umgengnisrétt við barn þegar við á.“

Sýslumaður getur því ekki einn og sér úrskurðað með þeim hætti sem gert er í lögunum í dag, en engu að síður tel ég það þess virði vegna þeirrar beiðni sem fram hefur komið frá foreldrum að nefndin íhugi að taka málið inn á milli 2. og 3. umr. og skoða frekar 46. og 47. gr.

Virðulegur forseti. Þær breytingar sem hv. velferðarnefnd hefur lagt til á þessu frumvarpi til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, eru að mínu mati bæði merkilegar og góðar. Þar eru stór skref stigin í þá veru að setja barnalög í samhengi við veruleika barna í dag sem er ólíkur því sem hann var einu sinni þegar eingöngu ein fjölskylda var um hvert barn, nú eru oft tvær fjölskyldur og stundum fleiri um eitt barn. Þær breytingar sem nefndin hefur unnið að og leggur hér til eru að mínu mati allar mjög þarfar og bæta mjög lögin frá 2003. Ég ítreka hins vegar að slík lög þurfa alltaf bæði að vera í umræðu og þau þurfa líka sífellt að taka mið af þeim raunveruleika sem börn á Íslandi búa við hverju sinni.



[15:42]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í 2. umr. um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum. Ég hef undirritað nefndarálit ásamt öðrum þingmönnum í velferðarnefnd og ég held við séum öll sammála um að þetta sé stórt og mikið mál og það skipti miklu máli að ná að ljúka breytingum á barnalögunum á þessu þingi.

Það sem hafa verður að í huga varðandi umfjöllun og breytingar sem verið er að leggja til hér og raunar hvað varðar barnalögin er að undirstaðan í löggjöfinni og þessu frumvarpi sé alltaf hagsmunir barnanna, að í þeim ákvæðum sem við höfum þegar samþykkt frá Alþingi og þeim breytingum sem við erum að ræða hér sé grundvallarforsendan alltaf hagsmunir barnanna. Þó að það sé oft þannig þegar kemur að ágreiningsmálum milli foreldra að hver og einn vilji sjá hlutina út frá sínum sjónarhornum og sinni aðstöðu er það skylda okkar sem þingmanna og skylda þeirra sem koma að þessum málum að hafa ætíð í huga að allar ákvarðanir verða að byggjast á mati á því hvað er best fyrir börnin. Það er ástæða þess að við gerðum meðal annars þá breytingu á sínum tíma að almenna reglan væri sameiginleg forsjá, að foreldrar beri áfram lagalega ábyrgð á börnum sínum óháð því hvort foreldrarnir búi saman eða ekki, við skilnað, í hjónabandi eða sambúð eða eftir að hjón hafa skilið eða foreldrar slitið sambúð.

Hér erum við að taka næsta skref í því ferli og horfum þá til Norðurlandanna sem fyrirmyndar eins og svo oft áður. Við gerðum það þegar við tókum upp þessa reglu, almenna reglu um sameiginlega forsjá, og nú erum við að halda því ferli áfram með því að ákveða að dómari hafi heimild til þess að dæma sameiginlega forsjá í ágreiningsmálum.

Bent er á að við séum eina ríkið á Norðurlöndunum sem er ekki með slíka dómaheimild. Hún kom fyrst fyrir í löggjöf Noregs árið 1983, síðan í Finnlandi, í Svíþjóð 1998 og síðast í Danmörku árið 2006. Komin er umtalsverð reynsla hjá þessum löndum af því að hafa dómaraheimild í löggjöf, í framkvæmd, og reynslan hefur almennt verið góð. Við getum því svo sannarlega byggt á þeirra reynslu og ég tel því rétt að þessi heimild fari hér inn.

Ég treysti dómskerfi okkar fullkomlega til að fara vel með þessa heimild og byggja hana á einmitt þeim ramma sem við erum að leggja hér til að það hafi til hliðsjónar.

Síðan er líka mjög mikilvægt, í ljósi þess að verið er að fela margt af því sem menn litu á sem ákvarðanir um líf barns og fengist með því að hafa forsjána, að hér er annars vegar talað um sameiginlega forsjá sem er almenna reglan og hins vegar um að dómari fái heimild til að dæma lögheimilisforsjá. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að hafa í huga að þarna er verið að tala um tvo hluti og þó að hugsanlega komi upp ágreiningur á milli foreldra er það ekki samasemmerki milli þess að annað foreldri geti hugsanlega misst þessa lagalegu ábyrgð, sem ég held að nánast hvert einasta foreldri vilji hafa á sínu barni, heldur frekar að úrskurða um lögheimili.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði í framsögu sinni að þetta er stórt skref og við verðum að sjá hvort reynsla okkar verði ekki jafnjákvæð og á öðrum Norðurlöndum.

Síðan er hugsanlegt í framhaldi af því að setja inn í lög líka að hægt sé að dæma þannig eða komast að samkomulagi um að börn geti haft lögheimili á tveimur stöðum þannig að foreldrar njóti sömu réttinda hvað það varðar og enn og aftur alltaf með hagsmuni barnanna í fyrirrúmi.

Ég vil líka taka undir það að sú áhersla sem kemur fram í frumvarpinu frá hæstv. innanríkisráðherra á sáttameðferðinni er mjög jákvæð. Og þrátt fyrir að nefndin sé að taka þá afstöðu að fara aftur til þess frumvarps sem undirbúningsnefndin, sem Hrefna Friðriksdóttir veitti formennsku, lagði til, erum við ekki að segja að sáttameðferðin skipti ekki máli. Við teljum einmitt að hún skipti mjög miklu máli. Það er mikilvægt að allir sem koma að sáttameðferðinni geri sér grein fyrir því að hún skiptir verulega miklu máli og menn nálgist hana með jákvæðum huga og reyni að komast að samkomulagi. Ef það gengur ekki er þetta raunar neyðarhemillinn sem við höfum í kerfinu til að taka á þessu.

Samt sem áður er forsendan fyrir því að dómari dæmi sameiginlega forsjá en ekki öðru foreldri, sú að hann telji foreldra geta náð samkomulagi. Enn á ný er áherslan alltaf á mikilvægi þess að foreldrar, að fólk sem eignast börn geri sér grein fyrir því að þetta er eitthvað sem það þarf að ná að halda utan um saman óháð því hvort fólk búi saman, að ábyrgðin á því að ala önn fyrir barni verður ætíð til staðar og líka að ábyrgðin á því að ná samkomulagi við hitt foreldrið verður ætíð til staðar óháð því hvort sambúð hafi gengið upp eða ekki.

Ég vil líka fagna þeirri áherslu sem kemur fram í frumvarpinu um að ofbeldi á heimili sé alltaf óásættanlegt og það mun hafa áhrif á mat á forsjárstöðu viðkomandi foreldris ef það beitir ofbeldi eða kemur ekki í veg fyrir að barn verði hugsanlega vitni að ofbeldi á heimilinu. Hvert einasta barn á rétt á því að búa við þannig aðstæður að það þurfi ekki að upplifa ofbeldi. Ég fagna þessu sérstaklega.

Ég tek líka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar og raunar líka hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um umgengniskostnaðinn. Það er skilningur minn, og mér skildist að við værum sammála um það í nefndinni, að taka yrði til skoðunar, samhliða nauðsynlegri endurskoðun á meðlagskerfinu, að kostnaður foreldra vegna umgengni og líka vegna greiðslu á meðlagi þarf að breytast í samræmi við þær breytingar sem við höfum verið að gera á forsjánni. Ég tel mjög brýnt að innanríkisráðuneytið ljúki sem fyrst vinnu við lagafrumvarp þess efnis og komi helst með það inn í þingið í haust þannig að við getum lokið því máli fyrir alþingiskosningar.

Ég vil síðan ítreka það að eins og ég hef skilið þau ákvæði sem varða umgengni barns eða rétt barns til umgengni við nána aðstandendur þegar annað foreldrið fellur frá eða er ófært um að gegna skyldu sinni sem foreldri, kannski vegna fangelsisvistar eða annars, það er ekki minn skilningur að þetta sé sambærilegur umgengnisréttur og til dæmis forsjárlaust foreldri mundi hafa. Þetta snýr að rétti barnsins til að fá að þekkja fjölskyldu sína, að fá að umgangast nána ættingja sína, en þetta er ekki að mínu mati þess háttar réttur að þessir nánu aðstandendur eigi sambærilegan rétt varðandi það til dæmis að geta verið með barnið aðra hverja helgi eða skipst á um það á jólum eða í páskafríum eins og þekkist hjá forsjárlausum foreldrum með umgengnisrétt. Þar vil ég enn á ný leggja áherslu á mikilvægi þess að hafa í huga að þetta eru alltaf hagsmunir barnsins og við erum að leggja þá skyldu á aðstandendur barnsins að þeir komist að samkomulagi, að þeir nái sáttum, og hafa í huga að ef átök og deilur eru milli fólks þá er sama hversu mikið það elskar viðkomandi barn, barnið líður fyrir það. Þetta vil ég leggja áherslu á.

Ég tel að þetta hafi verið skilningur okkar í nefndinni en það getur hins vegar verið nauðsynlegt að ítreka hann og það vildi ég gera hér í máli mínu.



[15:53]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka nefndarmönnum í velferðarnefnd fyrir mjög gott samstarf í þessu máli og framsögumanni málsins sérstaklega fyrir hans vönduðu vinnu og vinnubrögð við málið.

Hér hefur verið farið ítarlega yfir málið og ég ætla því að velja einungis örfá atriði sem mig langar til að ræða. Í fyrsta lagi langaði mig til að fá að lesa hér upp úr frumvarpinu vegna þess að mér finnst það skipta mjög miklu máli, eins og hér hefur komið fram í máli hv. þingmanna, að það séu réttindi barnsins og hagur barnsins sem alltaf vegur mest. Í 1. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Barn á rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi.“

Og það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang.

Síðan kemur aðeins síðar í lagatextanum, sem er 4. gr. í þessu frumvarpi, Almennt um inntak forsjár. Þar stendur:

„Barn á rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja, uns það verður sjálfráða og eru þeir forsjárskyldir við það.

Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum.“

Það sem verður stöðugt að hafa í huga þegar við ræðum barnalög er það sem er barninu fyrir bestu og að barnið á rétt á umgengni og forsjá beggja foreldra sinna í öllum megindráttum.

Það sem mig langar fyrst og fremst að tala um er ráðgjöf og sáttameðferð sem þarf að eiga sér stað þegar til skilnaðar eða sambúðarslita kemur þar sem börn eru til staðar. Og í samræmi við markmið þessara laga þarf stöðugt að hafa í huga að það hlýtur að vera barni fyrir bestu að sem mest og best sátt sé milli foreldra þess þó að þeir hafi valið það að búa ekki saman. Það er verulega til bóta að í þessu frumvarpi er lagt til tvískipt ráðgjafar- og sáttaferli. Í fyrsta lagi er lagt til að sýslumaður geti boðið aðilum sérfræðiráðgjöf og í öðru lagi er í raun og veru lögfest skylda foreldra til að undirgangast sáttameðferð í tilteknum málum. Ég held að þetta skipti mjög miklu máli. Í raun þyrftum við jafnvel að ganga enn lengra og það kemur fram í nefndarálitinu að styrkja þyrfti almenna ráðgjöf til foreldra, auka foreldrafræðslu og styrkja ráðgjöf og sáttaumleitun.

Mig langar í því samhengi að benda á eða notfæra mér hér mjög vandaða umsögn Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd sem hefur rannsakað þetta mál mjög vel og byggir umsögn sína bæði á íslenskum og erlendum rannsóknum. Þar er meðal annars talað um að foreldrar séu oft og tíðum ekkert allt of vel að sér í því hvað hugtök eins og forsjá, samvistir og jöfn búseta merkja. Því sé í raun mikil þörf á þjónustu og stuðningi í þessum málaflokki. Þetta þarf að vera mjög víðtæk ráðgjöf, allt frá almennri fræðslu og lágmarksupplýsingum til markvissrar ráðgjafar og frá hinu almenna og auðvelda til hins sértæka og erfiða.

Samkvæmt mörgum rannsóknum sem hafa verið gerðar í nágrannalöndum okkar er reynsla af því að vera með samtöl þar sem aðilum sem hafa ákveði að slíta samvistum eða slíta hjónabandi sínu gefst færi á að ræða almennt um skilnað, praktískar ákvarðanir og að fara yfir stöðuna í heild. Oftast dugar eitt slíkt viðtal en stundum þurfa þau að vera aðeins fleiri. Það er ljóst að slík samvinnusamtöl geta haft mjög öflugt forvarnagildi því að þar er tekið á málum jafnt tilfinningalegum og praktískum, sem annars gætu komið upp síðar og eru þá torleystari. Það er nefnilega þannig að það er ekki sjálfgefið þegar fullorðið fólk ákveður að slíta sambúð sinni að það hafi endilega hugsað til enda hvað það í raun og veru þýðir að ala upp börn á tveimur heimilum. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Síðan mætti, eins og fram kemur í umsögninni sem ég vitnaði hér til, hugsa sér einhvers konar B-leið sem væri sáttamiðlun sem felst meðal annars í miðlun sjónarmiða án þess að fram hafi komið opinn ágreiningur þar sem verið er að vinna með praktísk mál eins og forsjá, framfærslu, búsetu, umgengni og jafnvel gerðir skriflegir samningar þar um.

Oft og tíðum getur slík sáttamiðlun verið tilfinningalegur ráðgjafar- og meðferðarþáttur þar sem væri ákveðin úrvinnsla tilfinningalegra mála og bara almenn fjölskyldusátt.

Því miður er staðan stundum orðin þannig að kominn er upp ágreiningur á milli fyrrum sambúðarfólks og foreldra. Þá þarf að vera til sérstök ágreiningsúrlausn sem stungið er upp á í frumvarpinu að sé í tengslum við sýslumannsembættin. Að sjálfsögðu gæti hún einnig verið tengd félagsþjónustu sveitarfélaganna og þá skiptir mjög miklu máli að þar sé fagfólk sem kann þetta, hefur færni til að ráða við átök og ágreining.

Í nefndaráliti meiri hlutans er rætt um þetta, að það skipti máli að feta sig lengra í þessari ráðgjöf og samtölum áður eða um það bil sem sambúðarslit verða þannig að foreldrar geti fetað sig áfram í nýjum veruleika og áður en til mikils ágreinings er komið. Þetta held ég að skipti miklu máli. Við þurfum smám saman að koma því þannig fyrir að þetta verði eðlilegur framgangur og þá held ég að koma mætti í veg fyrir mörg mjög erfið ágreiningsmál.

Síðan langaði mig til að ræða stuttlega um heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá og að það sé eðlilegur hlutur að sú heimild sé til staðar þó að megináherslan sé lögð á sáttaumleitan. Auðvitað á alltaf byrja á að reyna að ná sáttum og alltaf með það að markmiði hvað sé barninu fyrir bestu og að barnið fái sjálfsagða og eðlilega umgengni við báða foreldra sína, en þegar ekki gengur að ná sáttum þá sé þessi heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá til staðar. Að sjálfsögðu á dómari einungis að gera slíkt þegar fyrir liggur að um jafnhæfa forsjárforeldra er að ræða og ágreiningurinn er ekki svo djúpstæður að hann sé líklegur til að hafa áhrif á barnið og líklegt sé að foreldrarnir geti unnið að velferð barnsins sameiginlega. Og síðast en ekki síst að ætíð sé sá tilgangur hafður í huga að það sé barninu fyrir bestu að forsjáin sé sameiginleg. Að sjálfsögðu geta komið upp þær aðstæður að það sé alls ekki barninu fyrir bestu og ekki heillavænlegt að dæma sameiginlega forsjá og þá á sá möguleiki náttúrlega ekki vera til staðar. Nú er staðan í íslenskum rétti sú að það er meginreglan að sameiginleg forsjá sé til staðar og þetta er í raun og veru ákveðin viðbót við það, en þegar um er að ræða ofbeldi eða slíkt á möguleikinn á sameiginlegri forsjá að sjálfsögðu ekki að vera upp á borðinu.

Síðan finnst mér mjög merkilegt að við erum að setja í lög heimild dómara til að dæma um lögheimili barns. Þegar deilur eru milli foreldra um forsjá eru deilurnar ekki alltaf fyrst og fremst um forsjána, heldur miklu frekar um lögheimilið og um umgengnina. Ég held því að hér sé verið að stíga mjög merkilegt skref.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál frekar. Ég skrifa undir nefndarálitið án fyrirvara og er afar ánægð með þá vinnu sem nefndin hefur unnið í þessu máli. Ég held að við séum að stíga hér afar farsæl skref, en vil nota tækifærið og minna á að barnalögin þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Það eru ákvæði í öðrum köflum en þeim sem hér eru til umfjöllunar sem þarf að skoða, t.d. réttur forsjárlausra feðra til að höfða barnsfaðernismál og fleira. Við erum að stíga mjög merkilegt skref hvað varðar forsjá og umgengni en við þurfum að vera á tánum og vera stöðugt með þessi lög í endurskoðun.

Eins og ég hóf mál mitt vil ég enda það með því að segja að markmiðið er að barn eigi rétt á eðlilegri umgengni við báða foreldra sína og það sé ávallt að markmiðið að öll skref sem við stígum séu börnunum fyrir bestu.



[16:04]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum. Aðrir hv. þingmenn sem sitja með mér í velferðarnefnd hafa farið hér í löngu máli yfir frumvarpið og nefndarálit nefndarinnar sem ég er á með fyrirvara, en ég ætla í örstuttu máli að tæpa á nokkrum atriðum.

Í fyrsta lagi langar mig að vekja athygli á 5. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um inntak sameiginlegrar forsjár. Þar er lagt til eins og fram hefur komið, að lögfest verði sérstakt ákvæði um inntak sameiginlegrar forsjár. Mörgum sem lesa ákvæðið yfir þykir að það takmarki mjög hvaða réttindi felast í því að vera með sameiginlega forsjá þar sem lögheimilisforeldrið sé í rauninni í þeirri afdrifaríku og valdamiklu stöðu að geta tekið ákvarðanir. Hér er engu að síður leitast við að lögfesta hvað þetta fyrirkomulag felur í sér. Þetta er einfaldlega sú niðurstaða sem ráðuneytið komst að og nefndin tekur undir að þetta sé sú leið sem er fær, síðan verður einfaldlega að reyna á það hvernig þetta mun gefast.

Þessi málaflokkur, barnalögin, varða mikilvæg mál og mikilvæg réttindi. Í allri umfjöllun um þau og í þeirri tilraun til þess að laga lagaumhverfi hefur verið lögð mikil áhersla á að horfa á hlutina út frá réttindum barnsins. Það er leiðarljósið í allri þessari vinnu.

Ég er á þeirri skoðun að þetta mál hefði betur átt heima í allsherjarnefnd líkt og háttað hefur verið hingað til við setningu barnalaga og breytingar á þeim. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að brugðið sé út af því verklagi. Reyndar hef ég ekkert út á vinnubrögðin sem ástunduð voru í nefndinni að setja, en ég vakti athygli á því í nefndinni að þetta væri mitt sjónarmið og vil ítreka það hér. Hefði þetta mál farið til umsagnar í allsherjarnefnd líkt og ég óskaði eftir, en þeirri beiðni minni var hafnað, tel ég að við hefðum getað fengið ítarlegri og dýpri umfjöllun um þau réttarfarslegu atriði sem varða þetta mál. Ég tel rétt að það komi fram hér.

Vegna þess að hér er lögð afar mikil áhersla á hagsmuni barnsins og að horft sé á þessi mál öll út frá því höfum við í nefndinni sett inn í nefndarálit leiðsögn til framtíðar um það hvort rétt sé að skoða að skipa börnum talsmann þegar forsjármál er orðið staðreynd. Þetta kemur til vegna umsagnar Dómarafélagsins, hún á reyndar ekki nákvæmlega við það frumvarp sem rætt er nú á þessu þingi, heldur frumvarp til breytinga á barnalögum frá fyrra þingi þar sem þessi hugmynd var sett fram. Ég tel að það hefði verið rétt skref að setja inn ákvæði um slíkt að þessu sinni, en það náðist ekki. Ég vonast til að það verði skoðað betur í framhaldinu. Það væri hugsað þannig að ekki væri skylt að skipa talsmann heldur væri sýslumanni heimilt að gera það þegar forsjármál væri til meðferðar hjá embætti og jafnframt væri dómara heimilt að skipa barni slíkan talsmann. Það væri alveg ljóst að sjálfstæður aðili væri á þeim fundum og við þá ákvarðanatöku sem varðaði barnið og hefði það sérstaka hlutverk að gæta hagsmuna barnsins sem talsmaður þess.

Ég er á þessu máli með fyrirvara vegna þeirrar heimildar sem hér er verið að veita dómurum til þess að dæma sameiginlega forsjá. Ástæðan fyrir því er sú að ég hef ekki trú á því að rétt sé að veita dómara þessa heimild. Ég tel að inntakið í því sem heitir sameiginleg forsjá sé, bæði samkvæmt orðanna hljóðan og samkvæmt reynslu, að fólk sem deili forsjá sé sammála um það fyrirkomulag. Það er grunnurinn að því að slíkt fyrirkomulag geti gengið upp. Ég hef unnið í þessu kerfi. Ég hef starfað sem fulltrúi sýslumanns og verið með mál sem þessi til meðferðar í þeim störfum mínum. Ég byggi álit mitt einfaldlega á þeirri reynslu minni og tel að slík heimild þurfi ekki að vera til staðar í lögunum. Ég hef hins vegar fulla trú á þeirri sáttaleið sem hér er lögð til grundvallar sem meginregla.

Í löggjöf okkar hefur áður verið reynt að byggja upp sáttameðferð en því hefur hins vegar ekki fylgt neitt fjármagn og ekki jafnskýrar lagareglur og hér koma fram. Ef uppfyllt verða þau fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að fjármagn muni fylgja þessari hugmynd um að stórefla sáttameðferðina, hef ég fulla trú á því að það sé leiðin sem við eigum að byggja á og við munum byggja á. En nú þegar væntanlega verður lögfest heimild til að dómari geti dæmt sameiginlega forsjá tel ég að það geti haft þær afleiðingar að freistandi verði við niðurskurð að láta hnífinn skera niður í þessum málum, sáttameðferðin verði ekki jafnknýjandi og nauðsynleg ef þessi heimild verður til staðar og jafnframt muni fleiri aðilar láta málið fara fyrir dóm frekar en að leysa það sín á milli í sáttameðferð.

Þetta eru þær áhyggjur sem ég hef af þessari heimild. Ég tel því að hún ætti ekki að koma inn í lögin að svo stöddu og tek undir þau sjónarmið sem birtast í greinargerð með frumvarpinu frá ráðuneytinu.

Hv. þingmenn hér á undan mér hafa rætt það að við í nefndinni leggjum til að ákvæði um aðför verði áfram í löggjöfinni. Ég tek undir það. Við settum jafnframt inn í nefndarálitið tillögu um að láta gera verklagsreglur um það með hvaða hætti þessar gerðir fara fram. Þetta eru auðvitað afskaplega viðkvæm mál. Þegar kemur að því að framfylgja þarf ákvörðun með aðför er ansi langt komið og ansi margt búið að ganga á. Það reynir því á þetta í fáum tilvikum. Þess vegna er ekki daglegt brauð hjá þeim sem annast slíkar aðfarargerðir að framkvæma þær. Þess vegna höfum við upplifað dæmi um það og séð að framkvæmdin er ekki nægilega skýr og menn kannski ekki nægilega undirbúnir þegar farið er af stað. Þess vegna töldum við rétt að leggja það til í nefndaráliti okkar að gerðar verði verklagsreglur þannig að við gætum bæði nýtt þá reynslu sem fyrir hendi er og reynt að hafa einhvers konar leiðsögn tilbúna þegar slík mál rata inn á borð hjá þeim sem þurfa að framkvæma aðförina. Ég fagna því að þetta náðist inn í nefndarálitið og vonast til að slíkar verklagsreglur líti dagsins ljós hið fyrsta eftir samþykkt þessa frumvarps.

Þannig er mál með vexti að nefndinni hefur borist erindi eftir að þetta nefndarálit var lagt fram frá Gísla Kr. Björnssyni héraðsdómslögmanni þar sem vakin er athygli á sjónarmiðum varðandi 46. gr. a. Ég tel því rétt að nefndin taki málið inn til sín að nýju á milli 2. og 3. umr. og ræði þetta erindi og fái gesti til nefndarinnar til þess að fara betur yfir þetta ákvæði. Ég óska hér með eftir því að það verði gert. Á slíkum fundi væri hægt að varpa betra ljósi á þær spurningar sem settar eru fram í þessu erindi og ég tel eðlilegt að hagsmunahópar fái að koma og tjá sig fyrir nefndinni og koma athugasemdum á framfæri beint og milliliðalaust við nefndina.

Frú forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara dýpra í þetta mál. Ég hef gert grein fyrir þeim athugasemdum og áhyggjum sem ég hef af ýmsum ákvæðum sem stendur til að innleiða hér og af því verklagi sem viðhaft var við vinnslu þessa máls. Ég tel mikilvægt að jafnframt komi fram að nefndin vann þetta eins vel og hægt var, en ég tel engu að síður nauðsynlegt að við fundum að nýju á milli 2. og 3. umr.



[16:14]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langar að byrja þessa stuttu ræðu mína á að lesa stutt brot upp úr bók sem kom út 1977 og heitir Páll Vilhjálmsson og er eftir Guðrúnu Helgadóttur.

„Palli gekk léttfættur upp stigann. Á annarri hæð var Steingrímur að fara inn til sín. Hann var í sjö ára bekk í sama skóla og Palli. Hann stóð þarna með strigaskóna í hendinni og hugsaði. Hann stóð oft þannig og horfði út í loftið. Þá var hann að hugsa. Hæ, sagði Palli. Já, sagði Steingrímur annars hugar. Í sama bili og Steingrímur opnaði dyrnar, kom mamma hans í gættina. Farðu í hvelli út í bakarí og kauptu eitt heilhveitibrauð og þrjá snúða, sagði hún höstug. Steingrímur horfði á hana. Heyrirðu ekki? sagði hún reiðilega. Fljótur. Þá þarf ég aftur að reima, sagði Steingrímur vesaldarlega. Eldfljótur, sagði konan og ýtti við Steingrími. Mundu að bakarinn vill hafa eitthvað fyrir sinn snúð, sagði Palli. Steingrímur hresstist. Hann settist við að reima. Palli horfði á konuna. Mér finnst þú ekki kurteis kona, sagði hann. Hva? Konan tók andköf. Hvað segirðu? Palli lagaði gleraugun. Mér finnst þú hvorki kurteis, stillt né prúð. Hvað mundir þú segja, ef Steingrímur kæmi heim og segði: Komdu með matinn. Í grænum hvelli. Vertu eldsnögg. Hvað heldurðu að þú mundir segja? spurði Palli. Konan starði á Palla og Steingrímur var hættur að reima. Palli andaði djúpt. Þú mundir sko segja, að Steini væri þrumudóni. Það er alltaf sami munnurinn á þér, sagði konan öskureið. Já, já, sagði Palli. Ég fæ hvergi nýjan. Konan skellti hurðinni.“

Þetta var skrifað árið 1977. Þá var ég fimm ára. Þegar ég var krakki var óhugsandi að nokkuð barn hefði komist upp með að tala svona við fullorðna, vegna þess að börn voru í öðrum flokki mannréttindalega séð en fullorðið fólk. Þegar ég var krakki voru fullorðnir alltaf afgreiddir fyrst í búðinni. Börn höfðu varla málfrelsi og þeim bar að þegja þegar fullorðna fólkið talaði.

Nú höfum við náttúrlega færst langt í aðra átt og réttindi barna hafa aukist mikið. Með þessu frumvarpi til breytinga á barnalögum göngum við enn lengra vegna þess að þau fjalla um réttindi barnsins, eins og segir í 1. gr. Það er réttur barnsins sem á að skipta mestu máli en ekki endilega réttindi foreldranna eða hvernig foreldrum finnst best eða hentugast að haga lífi sínu.

Ég er ekki í þessari nefnd en hef fylgst með málinu á hliðarlínunni og kynnt mér gögn þess og þegar það kom hérna fyrir þingið í fyrra. Mér sýnist vera margt mjög gott í því. Það gleður mig einstaklega mikið að sjá að dómaraheimildin er í breytingartillögum. Mig langar að þakka nefndinni fyrir vel unnin störf. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að fá dómaraheimildina inn og vil hvetja þingið til þess að hafa hugrekki til að stíga þetta skref.

Það hefur auðvitað verið varað við þessu og helstu rökin hafa verið að ef einhver grunur er um ofbeldi sé líklegra að það sé e.t.v. faðirinn, en við getum ekki metið líf fólk út frá tölfræði. Ef einhver grunur er um ofbeldi á heimili eða í fjölskyldu ber dómara að sjálfsögðu að rannsaka það til hlítar og komast að niðurstöðu sem er ásættanleg. Það er aldrei ásættanlegt að forræðisúrskurður falli á rangan hátt ef einhver grunur er um ofbeldi.

Páll Vilhjálmsson vinur minn stofnaði samtök krakka til að berjast fyrir réttindum krakka. Ég held að sú barátta hljóti að hafa skilað okkur einhverju.



[16:19]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd og hef fylgst sérstaklega með þessu máli. Mér finnst það skipta gríðarlega miklu í samfélagi okkar.

Barnalögin, hin nýrri, eru í raun og veru uppfærsla á lögunum út frá þeim veruleika sem hefur verið mjög lengi hér á landi og lögin hafa ekki endurspeglað. Þegar við fengum þessi lög til okkar var búið að taka mjög mikið úr þeim sem hafði upprunalega verið sett sem tillögur frá svokallaðri Hrefnunefnd. Ég fagna því að tillögurnar, sem voru unnar mjög faglega og ítarlega af Hrefnunefnd, hafa nánast allar komið aftur inn í frumvarpið.

Þetta er umbylting á barnalögunum og þótt sannarlega hefði mátt ganga aðeins lengra á sumum sviðum, sérstaklega varðandi þann lið að kostnaður falli ekki allur á umgengnisforeldri er lýtur að t.d. ferðalögum á milli landa og landshluta, fannst mér vinnan í nefndinni mjög góð. Ég má til með að hrósa hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni sem hefur haldið utan um málið fyrir afburða vandaða vinnu. Það var virkilega ánægjulegt að upplifa í nefndinni að það var alltaf vilji til þess að finna einhvern flöt á að koma því sem er fyrst og fremst börnunum fyrir bestu inn í þessi lög, en jafnframt foreldrunum. Gleymum því ekki að barn er ekkert sérstaklega hamingjusamt ef foreldrarnir eru óhamingjusamir eða ef mikil togstreita er á milli þeirra þegar þeir skilja.

Ég er rosalega ánægð að sjá hvað mikil áhersla er lögð á sáttaferlið og hef saknað þess að ekki hafi verið komið á skýrari leiðbeiningum og fyrirmælum um sáttameðferð því að hún getur skilað alveg ótrúlega miklum lífsgæðum fyrir barnið og velferð þess. Ég mundi vilja sjá og vona að við gerum það í næstu fjárlögum að tryggðir verði fjármunir til að hægt væri að framkvæma þessa sáttameðferð á sem faglegastan máta svo að það komi ekki flöskuháls eins og gerist oft.

Ég er mjög ánægð að dómaraheimildin var sett aftur inn, ekki út af því að ég vilji endilega sjá henni beitt heldur af því að hún er mjög mikilvægt aðhaldstæki og nauðsynleg ef allt annað hefur verið reynt til þrautar.

Töluvert var rætt um tvöfalt lögheimili. Það er öllu flóknara en maður gerði sér grein fyrir í fyrstu því að það er mjög margt sem þarf að breyta sem fellur ekki undir þessi lög heldur þyrfti að breyta í öðrum lögum. Ég held að það sé virkilega mikilvægt að skoða hvort hægt sé að breyta lögunum þannig í framtíðinni að ef sameiginleg forsjá skiptist 7/7, eða eitthvað slíkt, að báðir foreldrar standi jafnfætis. Þá hættir þetta að snúast svona mikið um „forræði“ og snýst meira um „umsjón“ með lífi barnsins.

Það er líka ánægjulegt að vel er skilgreint hvert hlutverk sameiginlegrar forsjár er. Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að merkileg könnun hafi komið um það hversu góð áhrif sameiginlegt forræði með þessu tvískipta forræði hefur á börn. Hún var mjög mikilvægt innlegg í vinnuna. Þessi könnun kom akkúrat þegar við vorum með málið til umfjöllunar. Mér finnst svolítið mikilvægt líka að alltaf þegar við erum að vinna löggjöf sem lýtur að svo viðkvæmum málum sé það haft í huga að sníða þurfi lög sem henta fjöldanum í stað þess að vinna löggjöf sem stelur í raun og veru réttindum frá flestum út af fáum vandræðamálum. Mér finnst okkur hafa tekist ágætlega að vinna úr viðfangsefninu þannig að við fáum lög sem eru í takt við þann tíðaranda sem við búum við og taka jafnframt á erfiðum málum eins og tálmunum sem eru ekki bara erfiðar fyrir foreldra heldur fyrst og fremst fyrir börnin.

Það hefur ekki verið hægt að finna neina fullkomna leið til að fá fólk til að komast út úr þeirri sjálfshyggju að tálma umgengni foreldra og fjársektir hafa ekki virkað mjög vel. Í raun felst mikið ójafnræði í sektunum því að þeir sem þurfa fyrst og fremst að bregðast við þeim eru þeir sem eiga minni peninga og er því hvatinn ekki eins mikill fyrir fólk sem á meiri peninga.

Þetta er málefni sem skiptir mig miklu máli. Ég hef fylgst mikið með lögum og réttindum barna, sér í lagi gagnvart foreldrum, forsjárlausum og með forsjá. Mér fannst rosalega sorglegt að í samfélagi okkar var nánast enginn hvati sem tryggði að það foreldri sem var ekki með forsjá fengi að vera í heilbrigðum samskiptum og eiga heilbrigða hlutdeild í lífi barnsins síns og fengi að axla þá ábyrgð sem mjög margir foreldrar vilja axla.

Mér finnst líka mjög gott að með þessum lögum er tryggt að foreldri sem er ekki með forsjá hafi aðgengi eins og að Mentor, ekki bara til að fylgjast með hvort einkunnir séu góðar eða slæmar eða eitthvað sé að í skólanum heldur til að fá að taka þátt í öllum þessum stóru viðburðum í lífi barnsins, viðburðum sem flestir hugsa kannski ekki um sem stóra en eru það samt sem áður þegar horft er til langs tíma.

Ég er verulega þakklát fyrir að það hafi tekist að ná sátt um stóru pólana í þessu frumvarpi og okkur hafi tekist, að ég held, að laga þetta þannig að almenn sátt muni ríkja hjá öllum þessum mismunandi hagsmunahópum sem láta sér þessi málefni varða og hafa beina hagsmuni af. Fyrst og fremst er ánægjulegt að við erum vonandi að tryggja börnunum okkar meiri hamingju hér á landi.