140. löggjafarþing — 119. fundur.
atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 735. mál (heildarlög). — Þskj. 1509.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[18:38]

[18:31]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við afgreiðum nú lagaramma um atvinnutengda starfsendurhæfingu sem byggir á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá síðasta ári og í reynd frá kjarasamningum allt frá vorinu 2008. Hér er gengið frá því lögformlega að ríkið skuli leggja til þriðjung á móti lífeyrissjóðum og atvinnurekendum til að byggja upp þetta nýja kerfi. Við höfum ákveðið að fara ívið hægar í sakirnar en upphaflega stóð til meðal annars til að tryggja að hægt sé að gera góða áætlun um uppbyggingu þessarar starfsemi. Við væntum mikils af þessu og væntum þess sannarlega að gott samstarf takist milli atvinnutengdrar starfsendurhæfingar annars vegar og læknisfræðilegrar starfsendurhæfingar hins vegar.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka hv. velferðarnefnd og nefndarmönnum þar fyrir góða og mjög mikla vinnu við málið.



[18:33]
Magnús M. Norðdahl (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég fæ tækifæri til að segja já við þessu lagafrumvarpi. Það er ávöxtur af því sem við teljum að einkenni þau samfélög sem við viljum helst líkjast, þ.e. þríhliða samstarf á vinnumarkaði. Þá skiptir engu máli hver er við völd, hvort það er hægri eða vinstri eða hvort það er á miðjunni. Þríhliða samstarf liggur til grundvallar farsælum samskiptum á íslenskum vinnumarkaði og um þau málefni sem þar er höndlað.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að launafólk í gegnum lífeyrissjóði sína, stjórnvöld og atvinnurekendur sameinist um að mæta vandamáli sem hafði verið vanrækt um langt árabil. Þetta er mikið og gott mál sem verður til farsældar fyrir allt launafólk og þá sem eiga við erfiðleika að glíma til að geta verið á vinnumarkaði eða til að komast á vinnumarkað að nýju.



[18:34]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni afar þarft og gott mál þar sem við erum að samþykkja rammalöggjöf utan um starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sem leggja sérstaka áherslu á getu einstaklingsins og endurkomu á vinnumarkað eftir veikindi eða slys og ég held að slíkt sé virkilega af hinu góða.

Í nefndinni fór fram mjög góð vinna þar sem meðal annars var rætt að það skipti miklu máli að starfsendurhæfingarstöðvar sem starfa vítt og breitt um landið fengju áfram tækifæri til að starfa á þeim grundvelli sem þær gera og höfum við gert ákveðnar breytingar á frumvarpinu þess efnis. En hér er um afar þarft og gott mál að ræða þar sem áhersla er lögð á starfsgetu en ekki vangetu til að starfa. Ég held að við getum með mikilli gleði afgreitt þetta mál. Ég þakka samstarfsfólki mínu í velferðarnefnd kærlega fyrir góða vinnu í málinu.



[18:35]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er tilurð frumvarpsins á grunni kjarasamninga og það er sérkennilegt að kjarasamningar á frjálsum markaði skuli enda með löggjöf inni á þingi. En engu að síður er margt í þessu sem sjálfsagt verður til bóta. Flestallt er óútfært í tengslum við þennan sjóð. Það eru ekki skörp skil á milli atvinnutengdrar starfsendurhæfingar og læknisfræðilegrar endurhæfingar og ég óttast að þau skil sem þar eru á milli verði skarpari og komi niður á þeim sem eru og þurfa á læknisfræðilegri endurhæfingu að halda og geti ekki gengið inn í þetta miðstýrða kerfi sem við erum að búa til.

Það er margt ágætt í þessu en engu að síður hef ég kosið, virðulegur forseti, að sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins. Ég greiddi breytingartillögunum atkvæði mitt en ég sit hjá við lokaatkvæðagreiðslu.



[18:36]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hönnun velferðar- og skattkerfisins á Íslandi á sér því miður stað utan Alþingis hjá aðilum vinnumarkaðarins að miklu leyti. Það mál sem við greiðum nú atkvæði um er einn angi af því. Auðvitað ætti Alþingi að sinna því meira að þróa velferðarkerfið.

Það kerfi sem hér er um að ræða er mjög mikil réttarbót fyrir öryrkja. Endurhæfing hefur verið mjög lítil í kerfinu. Það hefur meira verið horft á hvað fólk getur ekki en hvað það getur. Og ég vona að þessi lagasetning leiði til þess að endurhæfing verði miklu virkari, fólk tengist vinnumarkaðnum aftur eða losni aldrei frá honum og öryrkjar fái vinnu í samræmi við þá getu sem þeir hafa. Ég vona að þetta verði öryrkjum landsins til góðs til framtíðar og segi já.



Frv.  samþ. með 19 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁRJ,  BVG,  JóhS,  JRG,  MN,  MSch,  OH,  ÓGunn,  ÓÞ,  PHB,  RM,  SII,  SJS,  SSv,  VBj,  ÞrB,  ÞBack,  ÖS.
21 þm. (ÁJ,  ÁsmD,  BaldJ,  BjarnB,  EKG,  EyH,  EIS,  GÞÞ,  GHV,  GBS,  IllG,  JónG,  KÞJ,  LMós,  MT,  REÁ,  RR,  SDG,  SIJ,  TÞH,  UBK) greiddi ekki atkv.
23 þm. (AtlG,  ÁPÁ,  ÁÞS,  BÁ,  BJJ,  BjörgvS,  GuðbH,  GStein,  HHj,  HöskÞ,  JBjarn,  KJak,  KLM,  LRM,  LGeir,  MÁ,  ÓN,  SER,  SF,  SkH,  ÞKG,  ÞSa,  ÖJ) fjarstaddir.