146. löggjafarþing — 61. fundur.
evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, 2. umræða.
stjfrv., 217. mál (EES-reglur). — Þskj. 301, nál. m. brtt. 593, nál. 634.

[18:39]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Hér er sem sagt mælt fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar ásamt breytingartillögu á þskj. 593. Frumvarpið felur í sér að fimm evrópskar reglugerðir varðandi Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina, Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina, Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunina og Evrópska kerfisáhætturáðið verða færðar í lög hérlendis, þó með þeirri aðlögun að Eftirlitsstofnun EFTA fari að meginstefnu til með valdheimildir sem tilheyra fyrrgreindum eftirlitsstofnunum innan Evrópusambandsins.

Nefndin fékk á fund sinn gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Auk umsagna frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum bárust síðan umsagnir frá Kauphöll Íslands, Persónuvernd og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Meiri hlutinn er sammála um að leggja til breytingar á fjórum greinum frumvarpsins, í fyrsta lagi á 3. gr.: Að mati meiri hluta nefndarinnar er nægjanlegt að reglugerðirnar með aðlögunum samkvæmt ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar fái lagagildi en óþarft að lögfesta ákvarðanirnar í heild sinni. Meiri hlutinn leggur því til að 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins falli brott en að vísun málsgreinarinnar til EES-viðbætis við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins færist í 1. mgr. greinarinnar.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 5. gr.: Til þess að taka af tvímæli verði Seðlabanka Íslands bætt í hóp þeirra sem er heimilt að veita evrópskum eftirlitsstofnunum upplýsingar og gögn, samanber 1. mgr. greinarinnar.

Í þriðja lagi á 6. gr.: Þar er lagt til að 2. mgr. verði umorðuð og kveðið skýrt á um að það eru markaðsaðilar sem fjármálaráðuneytið getur krafið um sömu upplýsingar og 1. mgr. kveður á um.

Í fjórða og síðasta lagi breytingar á 10. gr. sem fjallar um breytingar á öðrum lögum. Þar bætist við ákvæði um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, nánar tiltekið að við 35. gr. þeirra bætist ný málsgrein sem kveður skýrt á um að Seðlabanka Íslands sé heimilt að veita eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja EES-samningsins, stofnunum EFTA og hinum evrópsku eftirlitsstofnunum á sviði fjármálastarfsemi upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu.

Með þessum breytingum leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði að lögum.

Rétt er að geta þess að nefndin ræddi talsvert um framsal valdheimilda á afmörkuðu sviði til Eftirlitsstofnunar EFTA. Meiri hlutinn er þeirrar skoðunar að fyrirkomulagið sem umsamin aðlögun felur í sér rúmist innan stjórnskipunarlegra heimilda. Hins vegar dregur málið fram að við innleiðingu gerða og reglugerða er stundum þrætt afar mjótt einstigi þess mögulega og æskilegt væri að stjórnskipun veitti skýrari heimildir að þessu leyti.

Undir álit meiri hlutans rita þau Óli Björn Kárason formaður, Jón Steindór Valdimarsson framsögumaður, Albert Guðmundsson, Bessí Jóhannsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason en hv. þm. Smári McCarthy var fjarverandi við afgreiðslu málsins.



[18:43]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og hv. þm. framsögumaður meiri hlutans, Jón Steindór Valdimarsson, fór yfir í ræðu sinni áðan er hér um alveg feikilega yfirgripsmikið mál að ræða sem snýst um að lögfesta evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði sem ætlað er að vernda hagsmuni almennings, tryggja betra regluverk um fjármálamarkaðinn og stuðla að ákveðnum stöðugleika á hinum evrópska fjármálamarkaði, á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Þarna er verið að leggja til fjórar nýjar stofnanir. Evrópusambandið hefur í raun þegar gengið frá stofnun nýrra stofnana sín megin sem munu snúast um bankaeftirlit, vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlit, verðbréfamarkaðseftirlit og kerfisáhætturáð. Eins og kunnugt er var ákveðið eftir töluvert miklar umræður á vettvangi EFTA og sameiginlegu EES-nefndarinnar og viðkomandi ráðherra milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna að fara svokallaða tveggja stoða leið þar sem gert er ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA sé sú stoð sem sé starfandi EFTA-megin og sinni þeim hlutverkum sem bankaeftirlitsstofnuninni, vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni, verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni og kerfisáhætturáði var ætlað að sinna.

Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þingmanni, í því er verið að feta einstigi um það hvort við erum hér í raun að ganga of langt í framsali valdheimilda, því að hér er auðvitað um verulegt framsal valdheimilda að ræða þar sem Fjármálaeftirlitinu, öðrum stjórnvöldum, einstaklingum og lögaðilum er nú heimilt að veita evrópskum eftirlitsstofnunum upplýsingar og gögn, eins og nánar er kveðið á um í þessum eða öðrum lögum. Þar með er evrópskum eftirlitsstofnunum líka heimilt að veita Eftirlitsstofnun EFTA, eða eftir atvikum öðrum stofnunum innan EES-svæðisins, aðgang að upplýsingum. Þarna er um að ræða verulega miklar heimildir sem lúta að því að veita upplýsingar en um leið er Eftirlitsstofnun EFTA faldar talsverðar heimildir til þess að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á íslenskan fjármálamarkað.

Um þetta langar mig að segja tvennt: Ég tel og fram kemur fram í nefndaráliti minni hlutans að aukin áhersla á eftirlit með fjármálamarkaði sé eðlileg og að mörgu leyti mjög sjálfsögð viðbrögð við fjármálahruninu. Ég vil í fyrsta lagi segja um það að tekist var mjög harkalega á um hvort þær gerðir sem hér voru innleiddar síðastliðið haust stönguðust á við stjórnarskrá Íslands, þ.e. hvort framsal þeirra valdheimilda sem kveðið er á um í þessum gerðum væri það umfangsmikið að það stangaðist í raun á við íslensku stjórnarskrána. Það er löng og mikil saga. En mér finnst sérstaklega mikilvægt að benda á í því samhengi að í Noregi var þessi innleiðing metin sem svokallað meiri háttar framsal, sem kallar á stuðnings aukins meiri hluta þingmanna, eða þriggja fjórðu hluta þingmanna, en þessar gerðir voru innleiddar á sama tíma í Liechtenstein, á Íslandi og í Noregi, og Noregur er það ríki sem við berum okkur helst saman við innan þessa ríkjasambands, EFTA. Innleiðingin var svo samþykkt á endanum í Noregi og hlaut náð fyrir verulega auknum meiri hluta, en veruleg umræða og talsverð átök urðu um það hvort gerðirnar fælu í sér framsal valdheimilda til yfirþjóðlegs valds. En hér á Íslandi erum við ekki með neitt ákvæði í stjórnarskrá, eins og hv. framsögumaður benti á, þar sem skilgreint er hversu langt megi ganga í að framselja valdheimildir. Við höfum í þinginu á undanförnum áratug, ef ég tek nú bara þann tíma sem ég hef verið hér, hvað eftir annað og allt of oft fengist við innleiðingar þar sem verið er að ganga áfram þann veg að framselja ákveðnar valdheimildir til yfirþjóðlegra stofnana. Spurt er: Ætlum við að halda áfram þessu ferli? Allir viðurkenna að hér sé verið að framselja valdheimildir þótt þær séu á afmörkuðu sviði. Við erum ekki með heimild í stjórnarskrá til að framselja slíkar heimildir. Í áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar á síðasta kjörtímabili segir, með leyfi forseta:

„… þótt heimild til framsals ríkisvalds til alþjóðastofnana hafi talist vera fyrir hendi að vissu marki samkvæmt ólögfestum reglum íslenskrar stjórnskipunar, hefur aukin þjóðréttarleg samvinna, einkum samvinna á sviði EES-samningsins á síðustu árum, skapað vafamál um nákvæmar heimildir og í sumum tilvikum orðið tilefni deilumála.“

Þetta mælir með því að reglur stjórnskipunarinnar um þetta efni séu afmarkaðar og skýrðar, enda lagðist ég gegn því á síðasta þingi að þetta framsal færi fram með þessum hætti, því að ég tel að við séum búin að ganga of langt í að heimila hér á Alþingi framsal valdheimilda á ólíkum sviðum, þótt það sé vissulega alltaf á takmörkuðu sviði. En þegar við horfum á þetta safnast saman tel ég að við séum búin að ganga of langt í þessu. Við skuldum okkur og stjórnarskránni okkar að setja þar inn skýrt ákvæði um hvernig slíku framsali eigi að vera háttað. Ég tel mjög mikilvægt að slíkt ákvæði væri takmarkað, þ.e. tæki eingöngu til framsals valdheimilda á afmörkuðu sviði. Mér urðu það satt að segja alveg gríðarleg vonbrigði þegar skyndilega var fallið frá því í vinnu stjórnarskrárnefndar á síðasta kjörtímabili að halda áfram með vinnu við slíkt ákvæði. Það er ekkert launungarmál að sú krafa kom einna helst fram frá Framsóknarflokknum sem samþykkti slíka ályktun á landsfundi sínum, sem gerði að verkum að þáverandi meiri hluti ákvað hreinlega að falla frá því að slíkt ákvæði kæmi inn í stjórnarskrá.

Mér finnst það umhugsunarefni ef við treystum okkur ekki til að takast á við að ræða það út frá afstöðu okkar til Evrópusambandsins eða hvað það nú er. Ekki vil ég ganga í Evrópusambandið. Það er mér bara algerlega fjarri. En ég vil líka að við séum sátt við það í okkar sinni hvernig við umgöngumst stjórnarskrá okkar. Staðreyndin er sú að við erum í alþjóðlegu samstarfi og eigum við framsal valdheimilda á takmörkuðum sviðum. Við þurfum að vera alveg 100% viss um það í þessum sal að við göngum ekki með þessu á stjórnarskrána.

Þegar innleiðingin var samþykkt á sínum tíma stigu fram stjórnskipunarfræðingar eins og Björg Thorarensen, sem sagði: Það er bara of langt gengið. Ýmsir aðrir voru á annarri skoðun. En á þeim tíma þótti mér sem þetta mál hefði verið afgreitt með allt of miklu hraði. Við vitum að það var gríðarleg pressa frá evrópskum samstarfsaðilum okkar um að við keyrðum þetta í gegn, það væru allir að bíða eftir okkur. En það breytir því ekki að mér fannst ekki vandað nægilega vel til verka í því máli.

Af þeim sökum er mér mjög erfitt að styðja þetta mál þótt markmið lagasetningarinnar séu með þeim hætti sem ég lýsti hér áðan.

Ég nefni líka, og það er hitt atriðið sem mig langar að nefna í framsögu minni um þetta nefndarálit, að ég tek undir þau markmið sem birtast í reglusetningunni. Það er mjög mikilvægt að skýr lög og reglur gildi, að það sé sjálfstætt og virkt eftirlit með fjármálakerfinu. Það er umhugsunarefni hvort ekki þurfi að styrkja eftirlitsverkfærin okkar, eins og Fjármálaeftirlitið, í ljósi þeirra miklu krafna sem við setjum á herðar þess í tengslum við allar þessar innleiðingar í gegnum EES-samninginn. En við þurfum líka að spyrja okkur að því, og það leitar sífellt meira á mig í ljósi þess að við erum með allt þetta regluverk við síðustu kreppu og allir í stjórnmálum segja okkur að næsta kreppa verði aldrei eins og sú síðasta — hér erum við að innleiða mjög tæknilegar, flóknar reglugerðir. Við vitum líka að um leið og við munum ganga frá þessu bíða alls konar sérfræðingar úti í fjármálafyritækjunum sem undirbúa fjármálafyrirtækin í því hvernig þau skuli mæta þessu. Ég veit að vafalaust eru þar allir að vinna samkvæmt þessu af heilum hug. En hver eru hin raunverulegu áhrif á það sem getum kallað gildi fjármálakerfisins? Mun almenningur upplifa breytingar á fjármálakerfinu? Já, það hefur margt breyst. Bara ef við horfum á reglugerðir og lög og annað slíkt. En hefur það eitthvað breyst hvernig við hugsum fjármálakerfið? Ég velti því upp hér í lokin.

Ég vil þó segja að ég tel það hafa verið mjög gott að sitja í efnahags- og viðskiptanefnd þá mánuði sem liðnir eru af þessu þingi að því leytinu til að ég tel mig skynja að allir eru reiðubúnir til að taka ákveðna umræðu um fjármálakerfið sem slíkt. Það er margt gott sem komið hefur fram í umræðum á vettvangi nefndarinnar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Það er ýmislegt sem hvert og eitt okkar hefur verið að ræða hér, kannski án þess að átta sig á samspili þess við EES-regluverkið. Ég vil nefna hugmyndir um hvernig tryggja megi dreift eignarhald, sem er hugsanlega ekki hægt út frá EES-samningnum. Verið hafa til umræðu hugmyndir í gegnum þingsályktunartillögu sem ég hef lagt fram um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarstarfsemi, sem mér finnst mikilvægt að við ræðum líka. Að við ræðum hvar við teljum eðlilegt og hvort við teljum eðlilegt að ríkið beri tiltekna ábyrgð á starfsemi fjármálafyrirtækjanna. Og ef við segjum já við því: Bíddu, á hvaða starfsemi? Á þá ríkið að bera ábyrgð á fjárfestingarbankastarfsemi eða einhverjum afmörkuðum hluta? Það er sú leið sem hefur verið farin í Bretlandi þar sem ríkið axlar í raun og veru ákveðna ábyrgð á því sem lýtur að heimilum og smærri fyrirtækjum en ekki á þeim stærri þáttum. Það er mjög margt ógert að mínu viti í lagasetningu um fjármálaheiminn á Íslandi þar sem við höfum að sjálfsögðu og eðlilega verið hlaðin því að innleiða hið evrópska regluverk.

Ég tel hins vegar að íslensk stjórnvöld megi gera miklu betur í því að skoða sérkenni íslensks fjármálamarkaðar sem eðli máls samkvæmt lýtur að einhverju leyti öðrum lögmálum en sá evrópski, þar sem við erum jafn smá og við erum og áhrifin á almenning jafn mikil og raun bar vitni þegar fjármálakerfið féll síðast. Við skulum vona að það gerist ekki aftur en þetta hljómaði dálítið þannig.

Við þurfum að velta fyrir okkur hvað við viljum gera og hvernig t.d. við viljum tryggja það sem við getum kallað öðruvísi bankastarfsemi. Er nóg að gert í lagaumhverfi um það? Þá vitna ég til þess sem við þekkjum úr samvinnubönkum víða erlendis. Ég notaði tækifærið um daginn til að skoða það þegar ég var stödd erlendis. Þeir eru í gríðarlegri sókn á nýjan leik í Þýskalandi og líka í talsverðri sókn á Norðurlöndunum. Þá eru það kannski sparisjóðir sem eru meira í takt við nútímann en þeir sem við þekktum hér áður fyrr.

Þetta eru allt spurningar sem mér finnst mikilvægt að svara. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem verið hefur á vettvangi hv. efnahags- og viðskiptanefndar um þessi mál. En þau aðvörunarorð sem ég segi hér eru: Það er vissulega mikilvægt að standa á bak við þær reglur og það sem reynt er að gera, en við verðum líka að vera meðvituð um að þessar reglur koma ekki endilega í veg fyrir næstu kreppu. Við verðum líka að vera meðvituð um að lagasetning og regluverk duga ekki endilega til ef gildismat og menning er áfram óbreytt. Ég held að við skuldum líka íslenskum fjármálafyrirtækjum það að vanda okkur í þessu máli. Þau eru gríðarlega mikilvæg fyrir atvinnulíf og almenning í landinu. Við erum öll í viðskiptum við íslensk fjármálafyrirtæki. Það skiptir miklu máli og það er áskorun fyrir stjórnvöld og Alþingi að það sem við gerum hér stuðli að því að skapa aukna sátt í samfélaginu um þetta íslenska fjármálakerfi, því að það er auðvitað líka umhugsunarefni hversu hægt hefur gengið. Það er mikið talað um traust á Alþingi en það er líka umhugsunarefni hversu hægt hefur gengið að byggja upp traust á fjármálakerfinu. Þar held ég að við getum gert betur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Það má því segja að annars vegar séu þessi stóru mál sem varða gildismat fjármálakerfisins og hins vegar hin stjórnskipulegu álitamál sem gera að verkum að við, fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, lögðum fram þetta sérálit. Undir það ritar sú sem hér stendur og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.



[18:57]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hreyfði hér mörgu. Ég ætla ekki að reyna að bregðast við eða fjalla um það allt saman. En ég tek undir það með hv. þingmanni að málið er gríðarlega stórt. Ég hef líka fulla samúð með því sjónarmiði, eins og ég held að hafi komið fram í máli mínu í meirihlutaáliti, að við erum að þræða einstigi í stjórnskipunarlegu tilliti. Ég get ekki annað en tekið undir það með hv. þingmanni að æskilegt væri að þetta væri í betra horfi. Það blasir við, ég get algerlega tekið undir það.

Fyrst vísað var til norsku stjórnarskrárinnar eru Norðmenn svo heppnir að hafa verið aðeins framsýnni en við og eru með ákvæði sem fjallar nákvæmlega um hvernig eigi að standa að breytingum af þessu tagi. Ég held að það hafi því miður staðið þessari umræðu fyrir þrifum, umræðu um að taka upp slíkt ákvæði eða ræða í alvöru til enda, akkúrat það sem hv. þingmaður minntist líka á, aðild að Evrópusambandinu. Hún kvaðst ekki ýkja hrifin af því en ég er aftur öndverðrar skoðunar. Ég held samt sem áður að þetta sé að þvælast fyrir.

Margir líta þannig á að ef við horfumst í augu við hið alþjóðlega samstarf, sem við tökum þátt í, kalli það einfaldlega á þetta, alveg óháð spurningunni um aðild Íslands að Evrópusambandinu eða ekki. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið sem voru viðruð hér enda þótt meiri hlutinn, þar með talið sá sem hér stendur, telji að þetta sleppi fyrir horn að þessu sinni. Þetta þarf að ræða vel. Og almennt talað um traust á fjármálamarkaði tek ég líka heils hugar undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að okkur takist að efla traust og búa vel að íslenska fjármálakerfinu.



[18:59]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég byrja á því seinna sem hann nefndi hér, á traustinu: Já, ég held að þetta sé mikilvægt verkefni. Ég held að það sé mikilvægt að við sem sitjum á Alþingi og tilheyrum löggjafarvaldinu leggjum okkur fram um að gera hvað við getum til að byggja upp traust á fjármálakerfinu. Það hlýtur líka að hvíla á okkur sem önnumst lagasetningu að tryggja að fjármálakerfið geti búið við eins heilbrigt og eðlilegt starfsumhverfi og hægt er. Það er auðveldara að benda fingri á þá sem starfa innan þess kerfis en það er mikilvægara fyrir okkur að reyna að hafa umgjörðina sem besta þannig að hér geti vaxið upp hið heilbrigða fjármálakerfi sem við viljum öll og skiptir okkur öll máli. Það skiptir máli að við getum tryggt almenningi og atvinnulífi — allir þurfa að vera í viðskiptum við banka — ákveðið val á því sviði en ég held að það sé að einhverju leyti vanmetið.

Þó að ekki sé til siðs að spyrja þegar maður svarar andsvari leyfi ég mér að henda fram spurningu hvað varðar þetta ákvæði; hugsanlega svarar hv. þingmaður henni. Þó að ég og hv. þingmaður séum öndverðrar skoðunar um Evrópusambandið tel ég að við séum sammála um þörfina á ákvæðum um framsal valdheimilda í stjórnarskrá. Ég tel raunar að þar sé oft ákveðinn ruglandi í umræðunni. Hægt er að setja mjög skýrt ákvæði um framsal valdheimilda á takmörkuðu sviði sem hefur ekkert með Evrópusambandið að gera. Ef slíkt ákvæði ætti að fela í sér Evrópusambandið þyrfti það í raun að snúast um miklu altækara framsal valdheimilda, þ.e. ekki á afmörkuðu sviði, því að þá værum við að ganga inn í kerfi þar sem við værum ekki bara að tala um afmarkaða þætti löggjafarvalds, framkvæmdarvalds eða dómsvalds. Ég held því að vel sé hægt að gera það algerlega óháð skoðunum fólks á Evrópusambandinu.

Ég veit að í stjórnarsáttmála er kveðið á um endurskoðun stjórnarskrár en ég viðurkenni að ég er orðin ansi langeyg að frétta eitthvað af þeirri endurskoðun. Kannski getur hv. þingmaður upplýst okkur eitthvað eða að minnsta kosti um afstöðu sína gagnvart því máli.



[19:02]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég get ekki upplýst hana að neinu gagni um stöðu þess máls. En varðandi stjórnarskrárbreytingar almennt og það sem við erum sammála um, þ.e. að bæta þurfi úr varðandi framsal valds til erlendra stofnana í þágu erlends samstarfs, og varðandi þau orð að hægt sé að gera þetta í að minnsta kosti tvennu lagi, þ.e. annars vegar hugsa um takmarkað framsal og hins vegar víðtækara framsal sem myndi þjóna þeim tilgangi, ef til þess kæmi einhvern tíma í framtíðinni að Ísland vildi ganga í Evrópusambandið, að þá væru ákvæði sem hægt væri að grípa til í því samhengi. Ég er þeirrar skoðunar að ef við á annað borð erum sammála um að stjórnarskráin þurfi að sjá fyrir hluti, og að við þurfum að laga hana að þessu leyti, held ég að það væri ákaflega skynsamlegt að hugsa þetta. Því að við vitum í sjálfu sér ekkert hvað gæti gerst innan næstu tíu ára, eða fimm eða fimmtán, í alþjóðlegu samstarfi, sem fæli í sér hliðstætt framsal að einhverju marki eins og aðild að Evrópusambandinu fæli í sér. Þá held ég að það sé miklu betra að vera viðbúin slíku en að hafa stjórnarskrána algerlega ófullburða og ófullkomna að því leyti.

Ég held að við ættum að hafa dug og kjark í sameiningu til að nútímavæða stjórnarskrána að þessu leyti þannig að hún réði við það ef til þess kæmi. Þó að sé ákvæði um eitthvað í stjórnarskrá er ekki þar með sagt að með því sé komið fyrirheit um að beita því ákvæði til hins ýtrasta. Ég held að við ættum að horfa til þess.



[19:04]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Eftir þá umræðu sem orðið hefur um þessi framsalsákvæði — ég skil algerlega hvað hv. þingmaður er að segja, að eðlilegt sé að ganga alla leið og hafa fullkomið framsalsákvæði í einhverjum þrepum, og það kemur mér í sjálfu sér ekkert á óvart að heyra þá afstöðu — þá tel ég hins vegar mjög ólíklegt að sátt náist um slíkt ákvæði. Það sem maður myndi vilja sjá er að gerð yrði gangskör að því á þessu kjörtímabili að ráðast í ákveðnar breytingar. Hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari að Norðmenn hefðu náð því að setja þetta inn í sína stjórnarskrá. Þar er líka svo ótalmargt sem við erum ekki með í okkar. Ég get nefnt ákvæði um umhverfisnefnd, svo að dæmi sé tekið, sem vantar svo sárlega í okkar stjórnarskrá. Ég tel skynsamlegra að fara þá leið að setja inn ákvæði um takmarkað framsal sem miðast þá við nútímann, að það sé þá sérstök og ný ákvörðun ef hafa eigi slíkt framsal víðtækara, ekki síst af því að ég met það svo að það sé skynsamlegri leið og líklegri til að ná sáttum.

Ég les hv. þingmann hins vegar svo að hann sé áhugamaður um að aftur verði farið af stað við að hreyfa við málefnum stjórnarskrárinnar. Hann kinkar hér kolli. Ég vona að sú hvatning berist úr herbúðum flokks hv. þingmanns.



[19:06]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka framsögumanni, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, kærlega fyrir framsöguna. Hún var mjög áhugaverð. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þingmaður sagði, ekki síst þegar kemur að framsali. Ég deili áhyggjum þingmannsins af framsali til alþjóðlegra stofnana. Ég hygg að það væri þess virði fyrir okkur hér í þingsal að ræða þau mál ítarlegar en við gerum næstum því á hlaupum á milli frumvarpa. Þetta er eitt stóru málanna sem við eigum að velta fyrir okkur. Ég vara hins vegar mjög eindregið við því að þegar menn fara í breytingar á stjórnarskrá sé það gert með þeim hætti að allt sé galopið og hægt að framselja allt sem framseljanlegt er til alþjóðlegra stofnana eða ríkjasambanda o.s.frv. Ég hygg að þar séum við hv. þm. Katrín Jakobsdóttir algerlega sammála og einhuga.

Ég hjó hins vegar eftir því að hv. þingmaður velti fyrir sér að þó gæti verið að á ákveðnum sviðum kæmi framsal til greina, jafnvel umfram það sem stæðist ströngustu túlkanir á stjórnarskrá Íslands, hafi ég tekið rétt eftir, á ákveðnum sviðum. Ég áttaði mig hins vegar ekki á því hvort það voru þá m.a. þau svið er við fjöllum um hér, þ.e. fjármálamarkaðurinn, eða hvort hún hefur eitthvað annað í huga. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti upplýst mig um það.



[19:08]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni þetta andsvar. Fyrst til að svara spurningunni hygg ég að hann sé að vitna í það sem ég sagði áðan, að hér hafa valdheimildir verið framseldar á ákveðnum sviðum. Niðurstaða Alþingis — ekki endilega niðurstaða mín — hefur verið sú að það hafi gengið gagnvart stjórnarskrá. Við erum að ræða fjármálakerfið. Hér hafa verið framseldar valdheimildir hvað varðar flugrekstur, lyfjamál og annað slíkt. Niðurstaðan í hvert sinn hjá Alþingi hefur verið sú að segja: Já, það er verið að framselja heimildir á þessu tiltekna sviði en við teljum þó að það stangist ekki á við stjórnarskrá. Það sem ég færði rök fyrir í ræðu minni áðan var að á þeim tíu árum sem ég hef verið hér hefur þetta gerst allnokkrum sinnum. Stjórnskipunarfræðingar hafa lýst þeim áhyggjum að hreinlega sé verið að safna upp dæmum þar sem alltaf er gengið lengra og lengra gagnvart þanþoli stjórnarskrárinnar. Þess vegna má segja að þegar þetta stóra mál kom fram, sem við vitum að er skilgreint t.d. með þessum hætti í Noregi, sem meiri háttar framsal, þá var það a.m.k. niðurstaða mín að ég gæti ekki samþykkt það, fallist á það einu sinni enn, því að ég hef áður samþykkt að framselja valdheimildir á einhverjum tilteknum sviðum með þeim rökum að ekki sé verið að ganga of langt í þetta sinn. Það gengur alla vega ekki fyrir mig að samþykkja þetta einu sinni enn. Mér finnst við komin á þann stað, og held að ég hafi skilið hv. þingmann rétt að hann sé sammála, að við þurfum að taka þessa umræðu. Það er þörf, ég er alveg sammála, á ítarlegri umræðu um það, ekki aðeins um þessa breytingu á stjórnarskrá. Þeirrar breytingar er þörf því að við getum ekki verið í deilum í þingsal um hvort við séum að ganga gegn stjórnarskrá eða ekki þannig að í raun og veru yfirskyggi það efnisatriði máls.

Ég er hins vegar hjartanlega sammála hv. þingmanni um að sú heimild á ekki að vera (Forseti hringir.) altæk. Hún á að vera þröng og miðast við afmörkuð svið til þess að við getum hreinlega uppfyllt þær skyldur sem við nú þegar höfum að sinna.



[19:10]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég komst að því að við gætum ekki tekið sjálfstæða ákvörðun á Alþingi Íslendinga um að innleiða ákveðnar takmarkanir á eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum vegna þess að við værum búin að afsala okkur þeim rétti í EES-samningi. Það er áfall og hlýtur að vekja okkur til umhugsunar. Þetta litla dæmi, sem er ekki það stærsta, getur þegar fram líða stundir skipt okkur máli þegar við förum að taka til þess er varðar framtíðarskipulag á fjármálamarkaði, koma í veg fyrir krosseignarhald og að hér verði stórir aðilar nær einráðir á fjármálamarkaði, eins og við höfum rætt í efnahags- og viðskiptanefnd og erum að þoka okkur inn í slíka umræðu. Þetta voru vonbrigði, ég skal viðurkenna það. Hafði ég uppi stór orð, held ég, hér í ræðustól um nauðsyn þess að gera það og kemur síðan í ljós að það var ekki meira efni í þeirri ræðu en það.

Við erum núna, sérstaklega í efnahags- og viðskiptanefnd, að fjalla um mjög flókin mál, mjög flóknar reglugerðir um fjármálamarkaðinn. Við erum líka að fjalla um tekjuhlið fjármálaáætlunar o.s.frv. Ég velti fyrir mér: Getum við verið sammála um það, við hv. þingmaður, að kominn sé tími til að löggjafinn, fjárveitingavaldið, tryggi að hægt sé að byggja upp sérþekkingu á nefndasviði Alþingis þannig að nefndir Alþingis séu í stakk búnar (Forseti hringir.) til þess að afla sér þekkingar innan húss, ráðgjafar, en vera ekki stöðugt undir hælnum á fagráðuneytum, fjármálaráðuneytum og sérhagsmunaaðilum?



[19:13]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þarna erum við hv. þingmaður hjartanlega sammála. Það er auðvitað ekki í lagi fyrir Alþingi að vera algerlega háð framkvæmdarvaldinu um sérfræðiþekkingu á til að mynda hinu evrópska fjármálaregluverki. Það er risastórt mál þar sem þingmenn eru settir í þá stöðu að þurfa að leita eftir tengslum sínum erlendis eftir þeirri pólitísku umræðu sem hefur átt sér stað, því að við erum jú stjórnmálamenn en ekki embættismenn og þótt allir starfsmenn Alþingis, ég tek það ég fram, geri sitt besta þurfum við hreinlega meiri mannskap í þessa sérfræðiþekkingu.

Ég átti samtal við hæstv. forsætisráðherra tengt þessu í kringum fjármálaáætlunina þar sem ég lýsti áhyggjum mínum af Alþingi, því að fyrir utan þá nýbyggingu sem ætlað er að rísi sjáum við ekki mikla aukningu á sérfræðikostnaði Alþingis, sem er einmitt það sem ég tel að skorti verulega á hér innan húss, ekki síst í tengslum við ný lög um opinber fjármál, innleiðingu þeirra og hvernig við eigum að vinna að þeim. Því var svo sem ágætlega tekið í þeirri umræðu. Ég hvet hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar áfram og mun standa eindregið með honum í því að sækja fram í að nefndir, t.d. efnahags- og viðskiptanefnd, fái aukinn aðgang að sérfræðingum. Það er auðvitað óþægileg staða fyrir hv. þingmenn að taka afstöðu til mála eingöngu út frá framkvæmdarvaldinu sem lýtur ákveðinni pólitískri stjórn meiri hluta og síðan hugsanlega frá þeim hagsmunasamtökum sem eru nægjanlega burðug til að hafa byggt upp sérfræðiþekkingu á þessu sviði.

Að sjálfsögðu tel ég að í þessu flókna lagaumhverfi, og ég man vel eftir því þegar hv. þingmaður talaði fyrir dreifðu eignarhaldi og tók undir með honum um að það væri ansi góð hugmynd, eigum við hv. þingmenn að hafa meiri tök á að geta sett okkur inn í ekki einungis tæknilegar hliðar heldur líka hinar pólitísku hliðar þeirra reglugerða sem við fáumst við og hafa svo stór áhrif á líf okkar.