150. löggjafarþing — 37. fundur
 28. nóvember 2019.
sérstök umræða.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[13:32]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hingað og ræða við mig um lóðagjaldamál. Fasteignir hafa verið skattlagðar á Íslandi frá því að tíundarlög voru sett á Alþingi árið 1096. Síðan þá hafa landeignir verið verðmetnar og skattlagðar. Í dag eru fasteignagjöld mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélögin en þessi skattheimta hefur sætt gagnrýni fyrir að vera óhagkvæm. Það er hægt að taka undir það, fasteignamat tekur til bæði verðmætis þeirra bygginga sem á landinu eru ásamt lóðamati. Að mínu mati ætti gjaldstofninn að vera lóðamatið eða jarðamatið eitt og sér. Það er vegna þess að það er landið sjálft sem skapar rentuna.

Hagfræðingar hafa bent á að það sé mun skilvirkara að skattleggja landið sjálft en ekki byggingarnar sem eru á landinu vegna þess að slík skattheimta hefur ekki áhrif á framboð á landi. Það er fasti. Núverandi fyrirkomulag leggst að stærstum hluta á þá fjárfestingu sem eigandi landsvæðis ræðst í, þ.e. á byggingarnar. Mikill kostur væri að skattleggja landsvæði beint þar sem þá eru hvatar fyrir því að þétta byggð í stað þess að dreifa henni. Þá er einnig ótvíræður kostur að verið er að skattleggja rentuna af landinu í stað fjárfestinga. Ein lóð er verðmætari en önnur vegna staðsetningar hennar, eins og við þekkjum, vegna þess að samfélagið hefur fjárfest í innviðum í nágrenninu. Til dæmis held ég að við getum verið sammála um að það er ekkert annað en renta ef lóðaverð hjá íbúa hækkar vegna þess að ríki og borg ráðast í uppbyggingu borgarlínu. Það er skattstofninn sem á að skattleggja, ekki fjárfesting í íbúðar- eða atvinnuhúsnæði. Það er renta af þessu tagi sem leiðir til ójöfnuðar og er ekki hagkvæm fyrir samfélög, sérstaklega ekki ef eignir safnast upp á fárra hendur. Vel útfærðar umbætur á þessu kerfi myndu leiða til aukinnar velferðar fyrir samfélagið og um það virðast líka hagfræðingar vera sammála.

Augljóst er að ráðast þarf í greiningu á áhrifunum, hvernig dreifing byrðanna myndi breytast og þess háttar. Ég tel að með skynsamlegri útfærslu yrði byrðunum skipt jafnar en það er athyglisvert að skoða tekjusagan.is. Þar kemur fram hversu mun þyngri skattur fasteignagjöld eru fyrir tekjulágt fólk en tekjuhátt, en miðað við árið 2017 greiðir lægsta tekjutíund 16.000 kr. á mánuði í fasteignagjöld með 400.000 kr. í atvinnutekjur en efsta tekjutíundin með sex sinnum hærri atvinnutekjur greiðir 24.000 kr. á mánuði.

Gallinn við þetta er að gögn um kaup og sölu á jörðum eru ekki skráð í opinbera gagnagrunna og því ekki hægt að reikna út markaðsverð á jarðir með sama hætti og lóðaverð er reiknað út. Úr því þarf að bæta og höfum við lagt fram þingmál um þau mál.

Núverandi kerfi er ófullnægjandi eins og sýnt var í fréttaskýringaþættinum Kveik nýlega. Það virðist vera erfitt að komast að því hverjir eru raunverulegir eigendur jarða. Jarðir sem keyptar voru fyrir hundruð milljóna eru metnar á nokkur hundruð þúsund í fasteignaskrá. Einn aðili á nú u.þ.b. 1,5% af Íslandi. Ég tel mikilvægt að hömlur verði settar á jarðakaup en þá tel ég einnig nauðsynlegt að það séu efnahagslegir hvatar gegn tilgangslausri jarðasöfnun, eins og virðist t.d. eiga sér stað í mínu kjördæmi. Ég tel að með því að bæta gagnasöfnun og reikna markaðsverð á jarðir mætti einnig hugsa sér að búa til hagræna hvata gegn því að safna bújörðum. Inn í þetta markaðsverð yrðu t.d. reiknuð hlunnindi af laxveiðum. Það yrði gert þannig að sveitarfélögunum væri færð heimild til að leggja lægri lóðagjöld á jarðir sem yrðu skilgreindar sem landbúnaðarland í deiliskipulagi sveitarfélaga en þar sem enginn landbúnaður á sér stað. Þannig yrði fjárhagslegur hvati gegn því að safna til sín jörðum og taka þær úr ábúð.

Virðulegi forseti. Það verður athyglisvert að heyra hvað samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þykir um þessa hugmynd því að þetta tengist líka þeirri umræðu sem við höfum átt hér. Við bíðum eftir frumvarpi um uppkaup á jörðum og ég held að þetta geti verið einn af þeim stóru hvötum sem geta hjálpað til við að sporna við því ástandi sem við höfum séð, því miður, allt of lengi núna.



[13:37]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að óska eftir sérstakri umræðu um lóðagjöld á bújörðum og skattalega hvata til að halda jörðum í ábúð. Ég mun leitast við að svara hvort hægt sé að breyta skattlagningu fasteigna og húsnæðis á þann hátt að áætlað lóðaverð verði andlag skattsins í stað fasteignamats þeirra bygginga sem þar standa. Hv. þingmaður spyr hverjir séu kostir og gallar á því að taka upp slíkt fyrirkomulag. Einnig er spurt hvort breyta megi skattlagningu landsvæða af landbúnaðarlandi og gefa sveitarfélögum heimild til álagningar hærri gjaldprósentu á jörðum sem skipulagðar eru sem landbúnaðarland í aðalskipulagi en engin starfsemi eigi sér stað.

Rétt er að geta þess í upphafi að Þjóðskrá Íslands fer með yfirstjórn fasteignaskráningar samkvæmt lögum og annast rekstur gagna- og upplýsingakerfis sem nefnist fasteignaskrá. Þar eru allar fasteignir í landinu skráðar. Kjarni skrárinnar er upplýsingar um lönd og lóðir og afmörkun þeirra. Við þær upplýsingar er síðan skeytt mannvirkjum og réttindum þeim viðkomandi. Fasteignaskrá er grundvöllur þinglýsingabókar fasteigna, mats fasteigna og húsaskrár þjóðskrár og þannig úr garði gerð að hún nýtist sem stoðgagn í landupplýsingakerfum. Þar eru jafnframt varðveittar skráðar breytingar á skráningu.

Meta skal hverja fasteign til verðs eftir því sem næst verður komist á hverjum tíma og nánar er kveðið á um í lögum um skráningu og mat fasteigna. Sá hluti fasteignaskrárinnar sem tekur til mannvirkja hér á landi, þ.e. mannvirkjaskráin, er mjög góð. Hugað hefur verið að skráningu mannvirkja allt frá því að núverandi kerfi við útreikning á fasteignamati var tekið í notkun fyrir um 50 árum. Það er mat þeirra sem þekkja til að þessi skrá sé jafnvel ein sú besta sem gerist á heimsvísu. Hins vegar er ekki hægt að segja það sama um hinn hluta fasteignaskrárinnar sem tekur til landa og lóða eða landeignaskrá. Þar vantar verulega upp á að afmörkun landeigna sé með viðunandi hætti. Uppruni skrárinnar er reyndar frá Landnámu og hafa landeignir verið afmarkaðar með örnefnum en ekki teiknaðar upp á kort eins og gert er víða erlendis þó að byrjað hafi nú verið á því á nokkrum stöðum og verið gert í talsverðan tíma.

Fasteignamatskerfið sem er við lýði í dag tekur því lítið tillit til umfangs eða gæða. Það er fremur litið á það sem búið er að gera, eins og fram hefur komið, og notkun landsins. Því er mögulegt að tvær fasteignir á jafn stórum lóðum sem standa hlið við hlið og eru með sama nýtingarhlutfall geti haft mjög mismunandi fasteignamat eftir því hvernig lóðirnar eru nýttar og hvert ástand mannvirkjanna er. Þannig ber að benda sérstaklega á að verðmætar lóðir hafa þó verið mældar upp og Þjóðskrá Íslands á greinargóðar upplýsingar um hluta þessara lóða. Um síðustu aldamót hófst einnig vinna við að kortleggja og teikna þjóðlendur undir forystu forsætisráðuneytisins. Vinna við það verk hefur dregist en áætlað er að því verði lokið árið 2025 og mikilvægt er að tryggja verkefninu nægilega fjármuni sem og að halda áfram að kortleggja landið allt. Til að gera það mögulegt að lóðagjöld taki við núverandi fyrirkomulagi þarf að eiga sér stað mikið átak í uppmælingu landeigna sem myndi jafnframt byggja á þeim lagagrunni sem þar býr að baki.

Ég hef átt samtöl við forsvarsmenn Þjóðskrár Íslands sem hafa lýst því yfir að stofnunin sé reiðubúin að leggja fram tillögur um lagabreytingar sem gera þarf svo bæta megi skráningu landeigna og Þjóðskrá Íslands hefur einnig hugað að þeim breytingum sem þarf að gera á aðferðum við fasteignamat og það endurspegli betur áhrif bættrar skráningar, svo sem bæði jarða og lóða í dreifbýli.

Um kosti og galla þessa fyrirkomulags er það að segja að ljóst er að um mikla stefnubreytingu yrði að ræða ef farið yrði úr núverandi fasteignagjaldakerfi í nýtt kerfi sem byggði eingöngu á gjaldtöku á löndum og lóðum. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er álagningarstofninn á allar fasteignir, 0,5% skatthlutfall, lagður á íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd, jarðeignir, útihús, mannvirki, útibú á jörðum, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaði, þannig að lönd og lóðir eru hluti af núverandi kerfi en matshluti þeirra mun veikari eins og áður var vikið að. Þetta er vissulega áhugaverð hugmynd en hún myndi koma miklu róti á fasteignamarkað og íbúar sveitarfélaganna myndu verða fyrir miklum gjaldahækkunum sem og gjaldalækkunum, þar sem upplýsingar um afmarkanir lóða, stærð þeirra og hlutdeild eru almennt af skornum skammti. Verður að segja að forsendur þess að taka þetta kerfi upp í dag eru ekki fyrir hendi.

Ég legg áherslu á að það þurfi og megi bæta núverandi fasteignaskrárkerfi og rökrétt að hugað verði betur að mati lands, ekki síst í ljósi þess sem hv. þingmaður kom inn á í þeim breytingum sem við höfum verið að sjá í kaupum og sölum og uppsöfnun á jörðum og hafa greinargóða þýðingu og yfirlit yfir þá mynd. En til að það geti orðið þarf að efla skráningu á landi og afmörkun þess í landeignaskrá því að án bættrar skráningar verður lítil sem engin framþróun á verðmæti landeigna. Auðvitað þyrfti slíka vinnu og breytingar á lögum að rýna með m.a. Sambandi íslenskra sveitarfélaga, (Forseti hringir.) en fasteignaskatturinn er þeim mikilvægur tekjustofn, eins og hv. þingmaður kom inn á.



[13:43]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu því að það er mjög brýnt að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga. Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á að endurskoða álagningu fasteignaskatta sem leggjast með auknum þunga á fólk og fyrirtækin í landinu. Breyting í þá átt að álagning fasteignaskatts taki fremur mið af landsvæðinu sem um er að ræða en þeim byggingum sem á því standa er eitthvað sem þyrfti að skoða þegar aðferð og álagningargrunnur fasteignaskatta yrði tekinn til gagngerrar endurskoðunar, sem ég tel vera nauðsynlega.

Herra forseti. Óhætt er að segja að fasteignaskattar hafi hækkað upp úr öllu valdi síðastliðin ár og langt umfram almennt verðlag í landinu. Fasteignaskattar hér á landi nema um 2% af landsframleiðslu á meðan hlutfallið er 1% í Svíþjóð sem hefur ekki verið talin nein skattaparadís. Í Reykjavík hafa fasteignaskattar hækkað yfir 60% á síðustu fjórum árum og svipaða sögu er að segja í mörgum öðrum sveitarfélögum. Hækkunin er slík að jafnvel þó að einhver sveitarfélög hafi lækkað álagningarprósentu fasteignagjalda er um raunhækkun að ræða ár eftir ár og þessir skattar eru að sliga margan viðkvæman fyrirtækjarekstur.

Við í Miðflokknum höfum talað fyrir því að minnka ríkisbáknið og komið með tillögur við fjárlagagerðina í þeim efnum. Þetta á líka við um annan opinberan rekstur. Á ég þar við rekstur sveitarfélaga en stjórnkerfi margra sveitarfélaga hefur á umliðnum árum bólgnað svo út að þau telja sig ekki geta lækkað þessa skatta og taka þannig sífellt til sín meira frá atvinnurekstri og almennum íbúum. Nei, herra forseti, koma þarf böndum á hömlulausa og stjórnlausa hækkun fasteignaskatta.



[13:45]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Efnið er ekki nýtt af nálinni og ég mun halda mig á slóðum bænda og landsbyggðar í þessari stuttu umræðu. Árum saman höfum við rætt um nýtingu landsins og bújarða, eignarhald og skilgreiningar, ráðstöfunarrétt, skattlagningu og almennt um búskaparhætti í þessu landi. Auðvitað er nátengd þessari umræðu allri afkoma bænda, þessarar sómastéttar matvælaframleiðenda sem við flest, almenningur í landinu, höfum litið upp til og virt í gegnum tíðina, þessarar stéttar sem allir núverandi stjórnarflokkar með tölu, hver með sínum hætti, saman og hver í sínu lagi, hafa leikið grátt svo að stéttin sem slík er komin að fótum fram. Þetta hafa þeir gert með fjölbreyttum kokteil af höftum, viðskiptafjötrum, glapsýn, úreltu og afdönkuðu markaðsstarfi og ítrekuðu og kolröngu stöðumati.

Okkur jafnaðarmönnum hefur í áranna rás verið brigslað um að vera sérstakir óvildarmenn bænda en það er rangt. Ætli við séum kannski ekki þegar upp er staðið hollustu og bestu talsmenn bænda og nýrra búhátta og þeir talsmenn sem trúa á möguleika hinna dreifðu byggða á nýjum forsendum. Til að sveitirnar lifi og blómstri þarf kúvendingu en ekki plástra, og ekki smáskammtalækningar eins og mér virðist hér enn og aftur vera lagt upp með.

Við þurfum að takast á við áleitnar spurningar. Þær hafa svo sem herjað á okkur í mörg ár. Hverjir eiga Ísland? Hverjir mega eiga Ísland? Hverjir mega kaupa jarðir? Mega það allir og þurfa engar skuldbindingar að fylgja? Eru útlendingar lakari kaupendur en íslenskir? Hirða þeir eitthvað verr um landið?

Þessi málefni hafa ítrekað verið á dagskrá Alþingis mörg undanfarin ár, en er það tilviljun ein að þingið hummar fram af sér að taka á þessum málum eins og nágrannalöndin hafa gert? Ef við gerum það ekki mun lausungin halda áfram og gífuryrðin og hneykslan í fjölmiðlum líka (Forseti hringir.) og jarðir halda áfram að ganga kaupum og sölum meðal íslenskra og útlenskra auðmanna eins og hver önnur lagervara.



[13:47]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra hvernig hann tekur á málinu. Ég verð aðeins rólegri. Við getum rætt um fyrirkomulag á skattheimtu bújarða en ég hefði kosið að við værum þá að nálgast málið út frá því hvernig við getum hagað skattheimtu á bújörðum til að styrkja búfestu um allt land, ekki eins og mér virðist vera, að verið sé að opna á þann möguleika að auka fremur álögur á bújarðir og aðrar jarðir á Íslandi. Það er ekki rétta nálgunin. Rétta nálgunin er að spyrja okkur: Hvernig getum við létt undir og aukið búfestu á Íslandi? Það er t.d. hægt með því að taka höndum saman við hv. þm. Harald Benediktsson og nokkra aðra þingmenn úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sem vilja gera kynslóðaskipti auðveldari þegar kemur að bújörðum og í rauninni öllum atvinnurekstri, þ.e. smárekstri, svokölluðum fjölskyldufyrirtækjum. Það frumvarp liggur fyrir á þingi og ég skora á þingheim að taka höndum saman við hv. þm. Harald Benediktsson og félaga hans og afgreiða það frumvarp og gera ungu fólki það kleift að taka við búum foreldra sinna eða taka við rekstri litla fyrirtækisins sem foreldrar hafa byggt upp hörðum höndum í gegnum áratugina. Þetta er aðferðafræði sem mér hugnast en ekki hugmyndir um það að fara á einhvern hátt að stuðla að aukinni gjaldtöku af landi, ekki síst þegar kemur að bændum.



[13:49]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar svolítið að segja eins og maður segir á sumum fundum, að ég sé kominn til að hlusta. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki velt mjög mikið fyrir mér nákvæmlega þessari útfærslu, að taka fasteignagjöld af landi frekar en byggingum sem hv. þingmaður nefndi áðan. Hins vegar finnst mér segja sig sjálft í skattheimtu almennt að hún þarf að byggja á sem réttustum gögnum. Ef það liggur fyrir að gögn séu ónákvæm eða röng er alveg sjálfstæð ástæða til að doka við í það minnsta. Sömuleiðis myndi ég hafa áhyggjur af þeim vandamálum sem hæstv. ráðherra nefndi í svari sínu. Hins vegar velti ég oft fyrir mér þessari umræðu í sambandi við eignarhald á landi. Mér finnst hún stundum fara aðeins of geyst. Mér finnst fólk oft fara að tala um niðurstöðu sína og skoðun áður en það er búið að færa nokkur rök eða útskýra nákvæmlega hvaða áhyggjur fólk hefur og þá sér í lagi þegar kemur að því að útlendingar kaupi land. Þá verða margir óskaplega skelkaðir af einhverjum ástæðum.

Ég get vel skilið viljann til að hafa takmarkanir á því hversu mikið land ákveðinn aðili má eiga. Við megum samt ekki falla í þá gildru að halda að með því að selja einhverjum land eða að við það að einhver kaupi land hætti lögsaga Íslands að gilda þar. Það er áfram Ísland, hvort sem það er Íslendingur eða útlendingur sem á landið. Það er einhver sem á landið.

Ég segi fyrir sjálfan mig að ég finn ekki sjálfkrafa til meiri vinskapar landeigenda sem eru með íslenskt vegabréf en landeigenda sem eru með erlent vegabréf. Mér finnst það ekki koma málinu við. Þetta er tilfinningamál sem oft hendir fólki út í niðurstöðu áður en það er búið að rökræða málið til enda.

Jafnvel þegar við tölum um takmarkanir á landeign og þess háttar þurfum við líka að útskýra fyrir fram nákvæmlega hvaða markmiðum við erum að reyna að ná. Er það bara til að sefa einhverja óþægindatilfinningu? Það eru ekki góð rök. Er það til að stuðla að jöfnuði? Það eru rök, en þá þarf líka að segja það upphátt, ekki bara fara strax í niðurstöðuna heldur segja hvað það er sem fólk hefur áhyggjur af og hvers vegna það vill leysa vandamál, (Forseti hringir.) ef það er til staðar, með því sem það leggur til.



[13:52]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég held að það sé löngu tímabært að skoða umræðu um jarðamál með heildstæðari hætti en hér er gjarnan gert. Þar er kannski fyrsta spurningin: Er það vandamál út af fyrir sig að jarðir gangi kaupum og sölum hér á landi og skiptir höfuðmáli hvort sá aðili sem kaupir jarðir sé innlendur eða erlendur? Hefur það ekki frekar verið vandamál landbúnaðar í gegnum tíðina að það hefur verið erfitt að koma jörðum í verð? Nú eru skyndilega uppi fjölbreyttari möguleikar til þess af því að þróunin hefur verið sú, ekki bara á undangengnum fáeinum árum heldur áratugum, að jörðum í ábúð hefur jafnt og þétt farið fækkandi vegna þess að það hefur orðið hagræðing í landbúnaði eins og í mörgum öðrum greinum, búin hafa verið að stækka en þeim hefur um leið verið að fækka. Það er ekkert óeðlilegt við þá þróun og raunar mjög mikilvægt að landbúnaður eins og aðrar atvinnugreinar þróist í takt við tímann, sé hagkvæmur í rekstri og standist samkeppni, t.d. við innflutning.

Ég held að við verðum að gæta þess sem mér þykir svo oft athugavert við stuðningskerfi landbúnaðarins í dag: Erum við raunverulega styðja bændur? Erum við að styðja afurðastöðvar, sem sumar eru í eigu bænda en aðrar ekki? Eigum við ekki að beina stuðningi að bændunum sjálfum og ábúð á jörðum? Þá spyr maður sig: Er eðlilegt að fara út í skattlagningarbreytingar sem þessar þar sem álagning á að vera mismunandi eftir því hvort land er í ábúð eða ekki? Stenst það jafnræði? Getum við mismunað atvinnugreinum á þann hátt eða eigendum jarða eftir því hvort þar er stundaður landbúnaður eða t.d. ferðaþjónusta? Er það eðlileg nálgun á skattlagningu á jörðum? Ég hygg að svo sé ekki. Við hljótum auðvitað að nálgast þetta heildstætt. Það er löngu tímabært að fara að taka þessa umræðu heildstætt og að við nálgumst raunverulega það hvert vandamálið er í landbúnaði (Forseti hringir.) á Íslandi og hvernig við beinum stuðningi við landbúnað til bænda og um leið þannig að það gagnist líka neytendum hér á landi.



[13:54]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða um hverjir eiga bújarðir og fasteignagjöld. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir þessa umræðu og ráðherra fyrir að taka þátt í henni. Fasteignagjöldin hafa farið algjörlega úr böndunum undanfarin ár og eru farin að bitna mjög alvarlega og illa á þeim sem eru tekjulægstir, sérstaklega þeim sem eru á örorkubótum. En við verðum að passa okkur á að fara ekki út í það að íþyngja bændunum með hækkun fasteignagjalda. Eins og við höfum orðið vör við eru alltaf fleiri og fleiri jarðir að fara í eyði og síðan vitum við líka að alltaf eru fleiri og fleiri jarðir að komast í eigu erlendra aðila.

Það sem er svolítið athyglisvert við þetta er að meira að segja fyrirtæki eiga fullt af jörðum. Það sem er enn furðulegra, að þetta eru fyrirtæki sem eru skráð kannski í EES-landi en enginn veit í sjálfu sér hvort það séu aðilar innan eða utan EES sem eiga jarðirnar. Stundum virðist ekki nokkur leið að átta sig á því hverjir eru raunverulegir eigendur. Ég myndi telja að þetta væri það grafalvarlegasta í málinu, að uppi skuli vera svoleiðis kerfi að við getum látið einhverja kaupa — ég segi bara fyrir mig að við eigum að taka t.d. Dani okkur til fyrirmyndar. Þar kaupa menn ekki jörð nema búa á henni. Menn þurfa líka að framleiða eitthvað á henni og þeir þurfa að vera búnir að búa í nokkur ár áður en þeir fá að kaupa jörð og þá skiptir engu máli hvort það er útlendingur eða innfæddur. Hann þarf að vera með kennitölu og búa.



[13:56]
Una Hildardóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við könnumst öll við borðspilið Monopoly, spilið sem snýst um fasteignabrask. Margar fjölskyldur spila það um jólin en aðrar fjölskyldur forðast það eins og heitan eldinn. Má þá nefna t.d. vinsæla flökkusögu um að Elísabet Englandsdrottning hafi bannað konungsfjölskyldunni að spila hið umrædda spil vegna þess að það sauð alltaf upp úr þegar þessi prúða fjölskylda kom saman og fór að keppa í fasteignabraski.

Það var nafna drottningarinnar, Elizabeth Magie, sem fann upp þetta umdeilda borðspil í byrjun 20. aldar og gerði það til að sýna fram á ójöfnuð samfélagsins. Spilinu fylgdu tvö sett af reglum, annars vegar hagsældarreglur þar sem hver einasti leikmaður græddi þegar einhverjum leikmanni áskotnaðist fasteign. Samkvæmt þeim reglum unnu allir leikmenn. Hinar reglurnar þekkjum við vel, hinar venjulegu reglur Monopoly-spilsins þar sem sá sem vinnur getur gert alla hina gjaldþrota.

Lóðagjöld í stað fasteignagjalda tryggja að við spilum eftir hinum réttlátu reglum Elizabethar Magie. Í stað þess að Monopoly-karlinn greiði skatta af fasteignamatinu á hótelinu sem hann byggði greiðir hann skatt af virði lóðarinnar, en slíkt er bæði réttlátara og hagkvæmara frá sjónarhóli hagfræðinnar. Fjárfestir sem byggir jafn dýrt hótel við Hörpu og í Grafarholti greiðir í dag svipuð gjöld af eignunum en það er virði lóðarinnar við Hörpu sem skapar verðmætið. Lóðin við Hörpu er verðmæt vegna þess að samfélagið hefur fjárfest í kringum staðsetningu Hörpu í samgöngum o.s.frv. Með því að nota réttlátu regluna úr Monopoly-spilinu græðir samfélagið allt. Til verður skattlagning á rentu í stað skattlagningar á fjárfestingu.



[13:58]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir frumkvæðið að þessari umræðu. Ég er sérlega ánægð með að við fjöllum um þetta mál hér en það tengist einmitt tillögu um aðgerðir í jarðamálum sem ég lagði fram fyrr í haust ásamt þingflokki Framsóknar. Skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð eða nýtingu tengjast tveimur aðgerðum í tillögunni, þ.e. um skattlagningu og skráningu landeigna. Þar segir að hægt væri að skapa hvata til nýtingar eigna í dreifbýli með lægri gjöldum á eignir sem væru nýttar en þær sem væru ónýttar. Forsenda þess að hægt sé að skoða þessar leiðir á raunhæfan hátt er bætt skráning landeigna og uppfært fasteignamat í dreifbýli eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan.

Hér er hins vegar velt upp hugmyndinni um lóðagjöld í stað fasteignagjalda, en það er ein nálgun á þessar aðgerðir sem ég tel í ljósi umræðunnar í þingsal í dag að við eigum að skoða miklu betur. Lóðagjöld snúast um að reikna út leigu á landi út frá umfangi þess og tækifærum sem landið býður upp á til nýtingar í stað fasteignamats þar sem markaðsvirði bygginga eða landbóta er metið. Núna greiðir sá sem gerir minnst með landið lægri gjöld en hinir sem nýta landið og halda úti starfsemi sem eflir samfélögin. Það sama er að segja um þjónustugjöld til sveitarfélaga, þau virka eins. Ég vil því leggja mikla áherslu á að settur verði kraftur í vinnu við gerð landeignaskrár og verðmats lands sem er forsenda frekari skoðunar á þessari leið. Sú vinna mun jafnframt geta leyst úr fleiri málum, t.d. þar sem skipting jarða er í ólestri, svo sem þar sem eigendur hafa jafnvel vaknað upp við það að eiga ekki einir húsin sem þeir hafa byggt á landi í óskiptri sameign. (Forseti hringir.)

Ég vil líka taka undir það sem margir hafa komið inn á, mikilvægi heildstæðrar nálgunar á þau mál. Skoðun á þessari leið er liður í heildstæðri nálgun.



[14:00]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Málshefjandi tengdi saman þýðingarmikil málefni, hömlur á jarðakaup útlendinga og fasteignaskattinn. Hvort sem málshefjandi hefur ætlað sér það ekki þá tókst henni að draga það fram að ríkisstjórnin er frekar dauf til augnanna, verður að segjast, þegar kemur að báðum þeim málum. Það er mikið talað en það er bið eftir aðgerðum og mér liggur við að segja, herra forseti, biðin endalausa.

Ég leyfi mér að rifja upp að í febrúar 2018 beindi ég óundirbúinni fyrirspurn til hæstv. ráðherra um fasteignamatið og hafði ærið tilefni. Þá hafði fasteignamat hækkað um 13,8% almennt talað en verðmat sumarbústaða hafði hækkað um 38,7%. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort eigendur fasteigna gætu átt von á því að eiga skjól í honum og mér heyrðist af svari hans þá ekki vera svo. Ég verð að leyfa mér að segja að það hefur lítið gerst. Staðreyndin er sú að við erum hér með grundvöll undir þessu gjaldi sem er algerlega ógagnsær. Það er byggt á vélrænum útreikningum stofnana úti í bæ. Ég efa ekki að þar vinni menn samviskusamlega en það kemur enginn kjörinn fulltrúi að þessum skattahækkunum. Þetta er svo sérkennilegt að það kemur fram á vefsíðu þjóðskrár, sem hefur þetta með höndum, að verið sé að endurskoða þetta mat og það hafi verið leiðrétt skekkja sem tengist mati á sumarbústöðum. (Forseti hringir.) Ég veit ekki til að nokkur maður hafi fengið endurgreiðslu. Það kemur líka fram að nú vegi fjarlægð í sundlaug inn í matið og (Forseti hringir.) menn búa við þetta sem grundvöll skattlagningar, ofurskattlagningar sem ekki sér fyrir endann á. Þessu verður að linna, herra forseti.



[14:03]
María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að setja þetta mál á dagskrá og fagna þeim áhuga sem hér er sýndur á að ýta undir bætta nýtingu bújarða og að víkka tekjustofna sveitarfélaga. Þótt slíkir hvatar geti auðvitað verið ágætir tel ég hins vegar enn mikilvægara, ef við viljum raunverulega gera eitthvað í málunum, að farið verði í að bæta innviði. Má þar nefna þriggja fasa rafmagn og að gefa bændum færi á að auka fjölbreytni í framleiðslu og þar með auka atvinnustarfsemi í sveitum. Þetta er það sem myndi raunverulega breyta einhverju.

Herra forseti. Við heyrum mikið talað um að nýjar hugmyndir þurfi og mikið er rætt um nýsköpun í landbúnaði en þegar á hólminn er komið eru hindranirnar því miður of margar. Þá spila aðrir þættir inn í eins og flutningskostnaður, takmarkaður stuðningur við lífræna ræktun og óhefðbundnar búgreinar.

Herra forseti. Íslenskur landbúnaður stendur á algjörum krossgötum. Það þarf að einfalda kynslóðaskipti og á mun víðari hátt en með skattalegum hvötum þótt þeir séu auðvitað ágætir með. Það er ekki nóg að laða að fólk og hvetja það til að búa í sveitum, það þarf að greiða veginn svo fólk sjá sér fært að búa í sveitinni til framtíðar. Í stuttu máli sagt, herra forseti, þarf að gera það meira aðlaðandi að búa í sveitum, t.d. með betri nettengingu, betri samgöngum og betri tengingu við skóla fyrir barnafólk.

Það eru þjóðhagslegir hagsmunir í því að reka fjölbreytt og öflugt atvinnulíf um allt land, ekki síst matvælaframleiðslu sem byggist sem allra mest á innlendri vöru. Með því skilum við þjóðarbúinu mestu, bæði vegna nýtingar auðlinda og þeirrar vinnu sem leggja þarf til framleiðslunnar.



[14:05]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir innlegg hennar í þessa umræðu og eins ræðu hæstv. ráðherra. Ég játa að umræðan sem slík hefur ekki að öllu leyti snúist um það upplegg sem kom frá hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur heldur hafa þingmenn leyft sér að fara nokkuð vítt yfir sviðið, tekið fyrir almenna landbúnaðarpólitík, almennar reglur um viðskipti með bújarðir og raunar almennt um landbúnaðarkerfið þannig að víða hefur verið komið við.

Til að reyna að ná utan um spurningarnar sem hv. þingmaður spyr hæstv. ráðherra myndi ég bregðast þannig við að ég hugsa að það sé full ástæða til að fara yfir þær reglur sem gilda um skattlagningu á þessu sviði. Ég held að það sé alveg tilefni til þess og í sjálfu sér ýta mörg orð sem hafa fallið hér í umræðunni undir þá skoðun mína að tilefni sé til að fara yfir þær reglur sem gilda um skattlagningu bújarða. Ég er hins vegar ekki viss um að sú leið sem hv. málshefjandi ýjar að í þessu sambandi sé endilega sú rétta. Ég vil hafa ákveðna fyrirvara á því. Það kann að vera skekkja í dag en það má vera að sú leið sem hér er lögð til leiði til einhverrar annarrar skekkju. Ég held að endurskoðunarvinna eigi tvímælalaust fullan rétt á sér.

Ég legg hins vegar áherslu á það að skattlagning á þessu sviði sem öðrum á auðvitað að byggja á almennum reglum og almennum forsendum. Menn eiga að forðast sértækar reglur og ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa hér í dag (Forseti hringir.) lagt áherslu á að ekki sé tilefni til að auka skattheimtu á gjaldstofn af þessu tagi frekar en annars staðar.



[14:07]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst sitja eftir á þessum tímapunkti í umræðunni er hvernig það virðist vera misbrestur í upplýsingum. Ég hygg, alveg óháð því hvort fólk vilji fara að breyta skattkerfinu einhvern veginn, breyta þessu fyrirkomulagi eða fara í einhvers konar heildarendurskoðun, eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fór yfir hérna áðan, að upplýsingarnar þurfi að vera í lagi. Þær þurfa að vera réttar. Það er ekki endilega bara til að geta hannað skattkerfið heldur vegna þess að þegar upplýsingar eru rangar og það er vitað til þess að þær séu ónákvæmar eru alls konar önnur vandamál sem geta komið upp sem enginn veit af. Ógegnsæi er í eðli sínu skaðlegt og það er ekki bara skaðlegt fyrir skattheimtu, það er líka skaðlegt fyrir umræðu, t.d. um eignarhald á landi eða þegar kemur að því að uppræta eða koma í veg fyrir alls konar svindl og spillingu sem getur grasserað í miklu ógegnsæi. Að því leyti velti ég fyrir mér, með fyrirvara um vanþekkingu mína á efninu, hvort hugmyndirnar séu komnar fram aðeins of snemma, þ.e. miðað við það hvort hægt sé að ræða þær út frá þeim forsendum sem liggja fyrir. Ef þær liggja ekki fyrir er svolítið erfitt að ætla að fara að móta sér einhverja rökrétta skoðun á því hvernig eigi að breyta kerfinu, þ.e. ef það er vitað fyrir fram að gögnin séu óáreiðanleg.

Ég ætla að láta þetta duga í bili, virðulegi forseti. Ég held áfram að hlusta og mynda mér endanlega skoðun á þessu seinna, en ég verð að segja að viðvörunarorð hæstv. ráðherra, a.m.k. í fljótu bragði, gera það að verkum að ég er ekki æstur í að fara í þessar breytingar og hef reyndar ekki heyrt enn þá mjög sannfærandi rök fyrir því. Mér finnst sjálfsagt að skoða þetta betur, mér finnst alveg upplagt að fara í að laga upplýsingar, samræma þær og gera þær skýrar og aðgengilegar yfirvöldum og jafnvel fleirum, en að fara í aðgerðir, eins og ég skil umræðuna hingað til, tel ég í það minnsta ekki tímabært.



[14:09]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson kom inn á að verið væri að ræða skatta, fasteignagjöld. Ég spyr mig þá: Er rétt að skattleggja á nákvæmlega sama hátt ungan bónda sem er að reyna að byrja að yrkja jörðina og auðkýfing sem kaupir upp jörð eftir jörð, eingöngu til þess að vera í stangveiði, laxveiði? Þarna er himinn og haf á milli. Ungi bóndinn sem er að reyna að koma sér af stað við að yrkja jörðina er skuldum vafinn en auðkýfingurinn virðist vera að leika sér.

Það er líka annað í þessu sem er furðulegt og það er hversu auðvelt er að kaupa allt upp á Íslandi. Ef maður skoðar t.d. Danmörku er bara ekki hægt að kaupa einn bæ úti í sveit þar nema vera með kennitölu. Það eru smáundantekningar á því ef viðkomandi hefur tengsl en þá undanþágu þarf að sækja um til ráðherra. Hér virðist hægt að kaupa upp heilu jarðirnar án þess að nokkuð þurfi til. Við vitum líka að það er alltaf talað þannig ef maður er ósammála útlendingum og annað að maður sé kominn í grátkór bænda. Þetta er að verða eins og í kvótakerfinu þar sem er mikil samþjöppun. Stórir aðilar kaupa lönd, litlu bændurnir eiga í vök að verjast og við erum að ala upp kynslóð barna sem aldrei fara í sveit og halda að maturinn verði til í búðinni. Þetta er eiginlega skelfileg þróun og þess vegna eigum við að sjá til þess að bændur geti búið á jörðum sínum án þess að við aukum kostnaðinn á þá, heldur á það frekar að vera á hinn veginn, að við auðveldum þeim að búa þar.



[14:12]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það er rétt að hún hefur farið svolítið út um víðan völl og sá augljósi misskilningur hefur verið hér á ferð að lagt sé til að auka álögur á bændur, bara svo það sé sagt strax í upphafi. Ég sagði í ræðu minni að það væri augljóst að það yrði að ráðast í greiningu á áhrifum, hvernig dreifingin yrði og hvernig hún kæmi út. Ég talaði líka um að gagnagrunnar væru ekki til staðar og í lagi, eins og hæstv. ráðherra kom svo inn á, og það er eitt af því sem við þurfum að drífa í að gera, enda upprunnið frá landnámi eins og ráðherra sagði. Það þarf að gera lagabreytingu vegna þessa.

Ég sagði að það yrði gert þannig að sveitarfélögunum yrði færð heimild til að leggja lægri lóðagjöld á jarðir sem eru skilgreint landbúnaðarland í deiliskipulagi sveitarfélaga fremur en að létta álögum af þeim sem kaupa upp jarðir en nýta þær ekki til landbúnaðar. Ég ítreka þetta sjónarmið vegna þess misskilnings sem mér hefur fundist vera hér.

Er hægt að mismuna í kerfinu? Það er víða gert, bæði á Íslandi og svo höfum við oft talað um að í Norður-Noregi eru aðrir hvatar en í Ósló eða þéttari byggðum þannig að það er alveg hægt að útfæra kerfið.

Núverandi fyrirkomulag fasteignaskatts er mjög flókið en hann er mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélög. Hann er með þremur álagsprósentum og sveitarfélög geta hækkað hana um allt að 25% þannig að það er svolítið undir sveitarfélögunum komið á hverjum tíma. Ég hef þá trú að með réttri útfærslu dragi þessi leið úr hvötum til að safna jörðum þannig að þær jarðir sem eru í ábúð, þar sem er búskapur, komi til með að bera lægri skattprósentu (Forseti hringir.) frekar en þær sem standa auðar með sumarhúsum auðmanna eða eru t.d. leigðar í gegnum Airbnb. Ég vona að menn hafi áttað sig á því um hvað þessi umræða snýst.



[14:14]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Já, það er rétt, umræðan hefur verið um ýmislegt. Svo ég dragi hana kannski saman vegna fyrirspurna í upphafi hjá málshefjanda verður að segjast eins og er að til þess að taka upp eða skoða nýtt kerfi þarf að fara í gagngera uppbyggingu á landeignaskránni. Þangað til það verður gert er þessi umræða að einhverju leyti ekki tímabær. Það er sjálfsagt að taka umræðuna en gallarnir eru allt of margir. Ef það yrði hins vegar gert er fyrirliggjandi, af því að ég svaraði því ekki, í núgildandi sveitarstjórnarlögum heimild til sveitarstjórna að lækka álögur á bújarðir sem eru í nýtingu en ekki hinar. Það yrði hugsanlega afleiðingin. Ef verðmæti lands í þessu breytta kerfi yrði miklu meira væri auðvitað hægt að nýta þessar heimildir til að leggja minni álögur á land sem er nýtt til matvælaframleiðslu.

Það er hins vegar nauðsynlegt jafnframt og mjög mikilvægt að við klárum þessa uppbyggingu á landeignaskránni, ekki síst vegna þess að við þurfum að fá betri upplýsingar um land og landgæði til að sveitarfélögin í skipulagsákvörðunum sínum geti m.a. ákveðið að verja gott landbúnaðarland og það sé markmið að verja matvælaframleiðslu, fæðuöryggi þjóðarinnar. Þá þarf svona skrá að vera til, einhvers konar mat á gæðum landsins. En hins vegar verður líka að segjast eins og er, vegna þess að umræðan fór út um víðan völl, að það er verið að reyna að leggja mat á markaðsvirði eigna, t.d. eru hótellóðir á höfuðborgarsvæðinu misdýrar eftir því hvar þær eru sem og sumarhúsasvæði. Það fer eftir því hvað menn eru tilbúnir að greiða fyrir þau verðmæti. Síðan er það í höndum sveitarstjórna að leggja prósentuálagninguna á á grundvelli þess. (Forseti hringir.) Mörg sveitarfélög hafa lækkað sína prósentuálagningu vegna þess að matið hefur hækkað mjög mikið en ekki öll. En það er í þeirra valdi, ekki ráðherra.